• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 20. febrúar 2019 í máli nr. S-3/2019:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 Y

 (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 13. febrúar sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 6. desember sl., á hendur Y, […], […], […] og X:

„fyrir eftirtaldar líkamsárásir í Fjarðabyggð, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 29. október 2017, skömmu eftir miðnætti, í og við rútubifreið, sem stóð við skemmtistaðinn …, veist að A, kt. […].“

Í ákærunni er líkamsárás ákærða Y lýst í I. kafla ákærunnar á þann vega að hann hafi veist að brotaþola:

,,… með því að hafa, inni í rútubifreiðinni, slegið A hnefahöggi beint framan á andlitið með hægri hendi, með þeim afleiðingum að nefbein hægra megin brotnaði. …

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. …

 

Einkaréttarkrafa: Af hálfu A er þess krafist að ákærði Y verði dæmdur til greiðslu miskabóta  að fjárhæð kr. 600.000, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 28. október 2017, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 24%  virðisaukaskatti.“

 

Við meðferð málsins fyrir dómi var að ósk aðila, sbr. ákvæði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ákveðið að skylja þátt ákærða Y frá þætti meðákærða X, sem ákærður er í II. kafla ákærunnar, en hann neitaði sök við þingfestingu málsins, þann 11. janúar sl.

 

Skipaður verjandi, Ómar R. Valdimarsson lögmaður, krefst þess að ákærði Y dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði að fullu skilorðsbundin. Þá krefst verjandinn að fjárhæð einkaréttarkröfunnar verði lækkuð. Loks krefst verjandinn hæfilegra málflutningslauna með hliðsjón af tímaskýrslu, auk útlagðs ferðakostnaðar.

 

A.

            Fyrir dómi hefur ákærði Y skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og háttsemi hans er lýst í I. kafla ákæru.

Játning ákærða Y er í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu, þ. á m. frumskýrslu, sem og þeirra læknisfræðilegu gagna sem lögreglustjóri aflaði við rannsókn málsins.

            Með játningu ákærða Y, sem er í samræmi við ofangreind gögn er að álit dómsins eigi ástæða til að efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm. Er því nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst, en brot hans er þar réttilega heimfært til laga.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði Y sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

 

B.

            Ákærði, Y, sem er 22 ára, á ekki að baki sakarferil, sem áhrif hefur í máli þessu.

            Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði Y hefur í máli þessu gerst sekur um líkamsárás, sem heimfærð er undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaganna, sbr. að því leyti 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. sömu laga.

            Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því horft að ákærði Y játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi og lýsti jafnframt yfir iðran vegna verknaðarins. Einnig ber að horfa til þess að hann hefur samkvæmt framlögðu vottorði leitað sér aðstoðar vegna áfengisfíknar og að hann hefur fallist á bótaskyldu. Þá þykir rétt að líta til þess að framkoma brotaþola var alls ekki vítalaus gagnvart ákærða Y, sbr. ákvæði 3, mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga.

            Að öllu ofangreindu virtu og með hliðsjón af ákvæði 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða Y eftir atvikum hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi, sem fært þykir að skilorðsbinda eins og nánar segir í dómsorði.

 

C.

            Agnar Þór Guðmundsson lögmaður lagði fram einkaréttarkröfu við lögreglurannsókn málsins og er henni lýst hér að framan. Krafan er dagsett 29. desember 2017, en hún var fyrst birt ákærða Y þann 2. febrúar 2018.

            Fyrir dómi hefur ákærði, eins og fyrr sagði, fallist á bótaskyldu. Hann krafðist aftur á móti lækkunar bótakröfunnar.

            Áverkum brotaþola er m.a. lýst í nefndum gögnum, en fyrir liggur að hann hlaut einnig aðra alvarlega áverka á höfði, sem ekki tengjast lýstri háttsemi ákærða Páls.

Ákærði Y hefur með háttsemi sinni að áliti dómsins bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola og þykja miskabætur, sbr. ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og að virtum dómafordæmum, hæfilega ákveðnar 300.000 krónur, ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Ákærði Y verður auk nefndra bóta dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað sökum þess að hann varð að halda kröfu sinni fram, og þykir sá kostnaður, eftir atvikum, hæfilega ákvæðin 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða Y til þess að greiða sakarkostnað. Er þar um að ræða helmingur sakarkostnaður lögreglu, líkt og krafist er, að fjárhæð 69.558 krónur, svo og þóknun skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, en einnig útlagður ferðakostnaður verjandans, eins og nánar segir í dómsorði.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:    

            Ákærði, Y, sæti 30 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði brotaþola A, 300.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 28. október 2017 til 2. mars 2018 að telja, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. sömu laga. Að auki greiði ákærði brotaþola málskostnað að fjárhæð 105.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

            Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 402.138 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Ómari R. Valdimarssyni lögmanns, 290.160 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað hans að fjárhæð 42.420 krónur.