• Lykilorð:
  • Líkamsárás

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 9. júlí 2018 í máli nr. S-20/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

 gegn

Hafþóri Erni Oddssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní sl., höfðaði lögreglustjórinn á Austurlandi með ákæru, útgefinni 21. mars 2018, á hendur Hafþóri Erni Oddssyni, kt. […], […], […],

            „fyrir líkamsárás í Fjarðabyggð, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 13. nóvember 2017, skömmu eftir miðnætti, í svefnherbergi á heimili A, að […] […], stungið nefndan A, með hníf utanvert í hægri fótlegg við hné, með þeim afleiðingum að hann fékk opinn skurð, 6 cm langan, sem þurfti að sauma með 5 sporum.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Þá er krafist upptöku á hníf sem skráður er í munaskrá með númerið 453240 og hamar sem skráður er í munaskrá með númerið 453246, sem haldlagðir voru í máli þessu, sbr. 1. og 3. tl., 1. mgr. 69. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

 

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu […] er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð kr. 1.743.040, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá tjónsdegi, til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar og dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfilegan kostnað vegna réttargæslu að mati dómsins, sbr. ákvæði 48. gr., sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008, eða skv. síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, sbr. 1. mgr. 176. gr. sömu laga. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.“

            Skipaður verjandi, Stefán Karl Kristjánsson lögmaður, hefur fyrir hönd ákærða krafist vægustu refsingar sem lög heimila, en jafnframt að bótakrafa verði lækkuð. Þá krafðist verjandinn hæfilegrar málflutningsþóknunar, en einnig greiðslu vegna útlagðs ferðakostnaðar.

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru. Játning ákærða er í samræmi við ítarleg rannsóknargögn lögreglu, þ.m.t. læknisvottorð og ljósmyndir.

            Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og nefndum rannsóknargögnum, er nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst. Brot ákærða er réttilega heimfært í ákærunni.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í nefndri ákæru.

 

II.

            Ákærði, sem er […] ára, hefur samkvæmt sakavottorði ítrekað gerst brotlegur við lög, en á liðnum árum hefur hann m.a. verið dæmdur fyrir brot gegn vopnalögum, umferðarlögum og gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni. Síðast var ákærði dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þann 11. maí 2016, fyrir rán, líkamsárás og fíkniefnalagabrot, og þá í sex mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en brotin framdi hann á árunum 2014 og 2015.

            Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir líkamsárás og ber að ákvarða refsingu hans m.a. með hliðsjón af 1. tl. 70. gr. hegningarlaganna. Einnig ber að líta til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir dómi, að hann lýsti yfir iðran og samþykkti bótaskyldu vegna verknaðarins. Að þessu virtu og með hliðsjón af lýstum sakaferli svo og 5. og 8. tl. 70. gr. hegningarlaganna þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

     Þá eru gerðir upptækir til ríkissjóðs þeir munir sem vísað er til í ákæru, þ.e. hnífur og hamar, sbr. 1. og 3. tl. 1. mgr. 69. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

 

            Við lögreglurannsókn málsins lagði Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður fram skaðabótakröfu á hendur ákærða fyrir hönd brotaþola, sem dagsett er 7. mars sl., sbr. ákæruskjal. Um er að ræða miskabótakröfu, sbr. 26. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993, að fjárhæð 1.500.000 krónur, en einnig er krafist lögmannsþóknunar, sbr. m.a. ákvæði 1. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008. Krafan er rökstudd, en hún var fyrst birt ákærða 25. apríl sl. við birtingu fyrirkalls ákæru eftir að málsgögn höfðu borist til dómsins.

            Eins og áður sagði samþykkti ákærði bótaskyldu, en fyrir dómi andmælti hann kröfufjárhæðinni sem of hárri og lagð þann ágreining í mat dómsins.

            Ákærði hefur með lýstri háttsemi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn brotaþola. Þykir brotaþoli því eiga rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna og eru þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, með vöxtum og dráttarvöxtum eins og krafist er. Þá ber að dæma brotaþola málskostnað við að halda kröfunni fram með aðstoð lögmanns, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

 

            Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað.

            Samkvæmt yfirliti nemur sakarkostnaður ákæruvaldsins vegna málsins alls 156.565 krónum og ber m.a. með hliðsjón af 2. og 3. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008 að dæma ákærða til að greiða þann kostnað. Þá ber að dæma ákærða til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, en hún þykir hæfilega ákveðin, m.a. með hliðsjón af umfangi málsins og tímaskýrslu, 551.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Að auki ber að dæma ákærða til að greiða útlagaðan ferðakostnað verjandans, 41.405 krónur.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Hafþór Örn Oddsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

     Upptækir eru gerðir til ríkissjóðs hnífur og hamar, sbr. munaskrá lögreglu nr. 453240 og 453246.

 

            Ákærði greiði brotaþola, A, 400.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 13. nóvember 2017 til 25. maí 2018, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 200.000 krónur í málskostnað.

            Ákærði greiði 707.565 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. 551.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, og 41.405 krónur vegna ferðakostnaðar hans.