• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 17. apríl 2019 í máli nr. S-13/2019:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

 (Eva Dís Pálmadóttir lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 16. apríl 2019, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 11. apríl sl., á hendur A, fæddum […], til heimilis að […]. […], […]:

,,fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, framið á Seyðisfirði, með því að hafa, um kl. 17.00, miðvikudaginn 13. febrúar 2019, í sölu- og dreifingarskyni, haft í vörslum sínum 3.887,27 gr. af hassi (Kannabisefni), sem fundust við leit tollvarða og lögreglu, er ákærði var stöðvaður við brottfararafgreiðslu farþegaferjunnar Norrænu, er hann hugðist fara um borð í ferjuna, sem var á leið til Færeyja.                               

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. breytingarlög og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. breytingarreglugerðir.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerð verði upptæk framangreind 3.887,27 gr. af hassi (Kannabisefni) (efnaskrárnúmer 40078) sem hald var lagt á, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og  2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Eva Dís Pálmadóttir lögmaður, skipaður verjandi ákærða, krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa, en einnig að gæsluvarðhaldsvist hans verði dregin frá refsingunni með fullri dagatölu. Þá krefst verjandinn hæfilegrar málflutningsþóknunar við alla meðferð málsins, hjá lögreglu og fyrir dómi, en að auki krefst hún greiðslu vegna ferðakostnaðar.

 

 

I

Samkvæmt rannsóknargögnum stöðvuðu tollverðir og lögregla ákærða í tollhúsinu á Seyðisfirði síðdegis þann 13. febrúar sl., en hann var þá að fara í ferjuna Norrænu. Við leit í farangri ákærða fundust pakkningar með ætluðum fíkniefnum og liggur fyrir að strax voru grunsemdir um að um hassefni væri að ræða. Var ákærði því handtekinn. 

Við frekari rannsókn lögreglu kom í ljós að nefndar pakkningar innhéldu hassefni samkvæmt efnaskrá lögreglu og matsskýrslu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands. Reyndist magn þess samtals 3.887,27 grömm.

Að kröfu lögreglu var ákærða með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi á tímabilinu 14.-28. febrúar sl., en í beinu framhaldi af því var ákærði úrskurðaður í farbann og þá til 25. apríl nk.

Við rannsókn lögreglu var ákærði yfirheyrður um sakarefnið, en að auki virðist hafa farið fram allnokkur rannsókn á athæfi hans.

 

II

Hér fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað sakargiftir samkvæmt ákæru. 

Þar sem játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu þykir nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Mál þetta var rekið með hliðsjón af 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

III

Ákærði, sem er […] árs, hefur samkvæmt sakaskrá og yfirlýsingu fulltrúa ákæruvalds fyrir dómi ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber m.a. að líta til þess að hann hefur verið sakfelldur fyrir vörslur á allnokkru magni af nefndu fíkniefni, sem ætlað var til sölu og dreifingar. Verður að því leyti m.a. litið til ákvæða 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Til refsimildunar ber að líta til játningar ákærða við alla meðferð málsins og þess að hann lýsti yfir iðran fyrir dómi vegna háttsemi sinnar. Þá er til þess að líta að ákærða er einungis gefið að sök brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni en ekki brot gegn 173. gr. A í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

Ákvarða ber refsingu ákærða að ofangreindu virtu, en einnig þykir mega líta til þess að þó svo að brot hans teljist alvarlegt var ekki um bráðhættulegt efni að ræða. Þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Eftir atvikum þykir fært að fresta fullnustu fimm mánaða af þeirri refsingu og skal sá hluti falla niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 14. til 28. febrúar sl. skal koma til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 3.887,27 grömmum af hassi (kannabisefni), sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í ákæru.

Í ljósi málsúrslita ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins, sem er útlagður kostnaður lögreglu, 144.695 krónur, og málflutningslaun skipaðs verjanda hans, Evu Dísar Pálmadóttur lögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti. Einnig skal ákærði greiða útlagðan ferðakostnað verjandans, eins og nánar segir í dómsorði.

Með málið fór af hálfu lögreglustjóra Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í sjö mánuði, en fresta skal fullnustu fimm mánaða af þeirri refsingu og skal sá hluti hennar falla niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Þá skal gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 14. til 28. febrúar sl. koma til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 3.887,27 grömmum af hassi (kannabisefni) samkvæmt efnaskrárnúmeri lögreglu 40078.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 881.478 krónur, þar með talin málflutningslaun skipaðs verjanda síns, Evu Dísar Pálmadóttur lögmanns, 674.560 krónur, auk 62.223 króna vegna ferðakostnaðar hennar.