• Lykilorð:
  • Skjalafals

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 24. apríl 2019 í máli nr. S-29/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

(Gunnar Viðar lögmaður)

 

            Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 5. júlí 2018, á hendur A, kennitala […], til heimilis að […], […], […];

            „fyrir skjalafals, með því að hafa þann 8. mars 2018, kl. 13:35, án heimildar, notað leynilegt aðgangsorð fyrrverandi sambýlismanns síns, B svonefndan „Íslykil“, til að fara inn á vef Samgöngustofu og falsað þar með rafrænum hætti, samþykki B á yfirlýsingu um eigendaskipti á bifreiðinni […] og með því blekkt starfsmenn Samgöngustofu til að hafa eigendaskipti að bifreiðinni, þó raunverulegt samþykki skráðs eiganda lægi ekki fyrir og með þessu villt á sér heimildir í blekkingarskyni.

            Og fyrir að hafa í framhaldi að ofannefndu, þann 15. mars 2018, farið inn á rafrænan heimabanka B hjá Landsbankanum, með því að nota leynilegt aðgangsorð hans, án heimildar og millifært kr. 2.630-, af bankareikningi hans nr. […] í Landsbankanum, yfir á bankareikning Samgöngustofu, til þess að greiða fyrir ofannefnd eigendaskipti að bifreiðinni […] og með þessu villt á sér heimildir í blekkingarskyni.

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Skipaður verjandi, Gunnar Viðar lögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærðu að hún verði sýknuð af refsikröfu ákæruvalds og þá á þeim forsendum að hún hafi ekki beitt blekkingum, að hún hafi haft umboð og samþykktir fyrir verknaði sínum, að umboð hennar hafi aldrei verið afturkallað. Að auki vísar verjandinn til sönnunarreglna 108. gr. laga nr. 88/2008 svo og til saknæmiskrafna, þ.e. neikvæðrar staðreyndavillu ákærðu á verknaðarstundu. Til vara krefst verjandinn þess að ákærða verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa. Að lokum krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun hans.

 

            Undir rekstri málsins krafðist ákærða frávísunar málsins, en með úrskurði dómsins þann 31. október 2018 var þeirri kröfu hafnað. Málið var dómtekið eftir aðalmeðferð og málflutning hinn 28. mars sl.

 

I.

1.         Af rannsóknargögnum lögreglu, skýrslum fyrir dómi, greinargerð skipaðs verjanda og málflutningi sakflytjenda verður ráðið að helstu atvik málsins séu að nokkru ágreiningslaus. Liggur þannig fyrir að ákærða og kærandi máls þessa, […], höfðu verið í óvígðri sambúð í u.þ.b. níu ár þegar ákærða fór af heimili þeirra á […], þann […]. Óumdeilt er að ákærða ók úr hlaði þá um daginn á fólksbifreiðinni […] og hafði með sér lausafjármuni sína í kerru og að þar með lauk sambúðinni.

            Samkvæmt gögnum var nefnd bifreið í bifreiðaskrá Samgöngustofu opinberlega skráð sem eign kærandans, B. Þá liggur fyrir að kaupdagur kæranda á bifreiðinni, en einnig svokallaður móttökudagur hjá Samgöngustofu, var 23. janúar 2017, en skráningardagur er tilgreindur degi síðar. Samkvæmt gögnum greiddi ákærða kaupverð bifreiðarinnar, sem er árgerð […], með rafrænni millifærslu, 216.000 krónur.

 

2.         Samkvæmt gögnum, þ. á m. frumskýrslu og dagbók lögreglu, var kærandi, B, fyrst í símasamskiptum við lögreglu að kveldi […], en einnig daginn eftir. Varðaði erindi hans í bæði skiptin m.a. það að hann hafði að sögn fengið fregnir um að ákærða hefði að honum forspurðum haft eigendaskipti á bifreiðinni […] hjá Samgöngustofu, en hann staðhæfði í orðræðu sinni við lögreglu og að ákærða hefði við þann verknað notað Íslykil hans.

 

3.         Samkvæmt gögnum bar kærandinn, B, fram formlega kæru á hendur ákærðu hjá lögreglu þann 16. mars nefnt ár vegna ofangreinds athæfis hennar og þá fyrir skjalafals. Við skýrslugjöf af þessu tilefni staðhæfði kærandi að ákærða hefði þekkt aðgangsorðið að Íslykli hans, en af þeim sökum hefði hún getað nýtt sér lykilinn við verknaðinn. Jafnframt kærði B ákærðu fyrir að hafa með sama hætti farið inn á heimabanka hans og greitt fyrir eigendaskiptin hjá Samgöngustofu með fjárgreiðslu sem hún hefði millifært af bankareikningi hans. Og með þessu móti hefði ákærða haft nafnabreytingu á bifreiðinni og skráð bifreiðina á sig hjá Samgöngustofu. Kærandi lét þess getið í kæruskýrslunni að ákærða hefði nær strax endurgreitt umrædda fjárhæð, 2.630 krónur, og þá með því að leggja samsvarandi fjárhæð inn á bankareikning hans.

            Fram kom í kæruskýrslu B að hann hefði ætíð borið fullt traust til ákærðu, en jafnframt skýrði hann frá því að honum hefði verið fullkunnugt um þegar ákærða fór alfarin frá heimili hans í greint sinn og þá á umræddri bifreið. Verður ráðið af skýrslunni að kærandi hafi látið í það skína að hann hefði á þeirri stundu verið reiðubúinn að eftirláta ákærðu ökutækið, en að þau hefðu þó aldrei rætt það atriði sín í millum og þá ekki að bifreiðin yrði því til samræmis skráð sem eign ákærðu.

            Í nefndri kæruskýrslu áréttaði kærandi að bifreiðin […] hefði er atvik gerðust verið skráð sem hans eign hjá Samgöngustofu og hafði hann orð á því að því hefði í raun verið um nytjastuld að ræða af hálfu ákærðu.

            Kærandi lét þess loks getið í skýrslu sinni að við brottför ákærðu í greint sinn hefði hún haft á orði að för hennar væri heitið á heimili móður sinnar, en hann komist að því að það hefði síðan ekki verið raunin, en af þeim sökum hefði hann grunsemdir um að annar karlmaður væri kominn í spilið.

            Í lögregluskýrslunni, sem tekin var upp í hljóði og mynd, upplýsti kærandinn, B, að hann hefði breytt aðgangsorðum að eigin heimabankareikningi og á nefndum Íslykli. 

 

5.         Á meðal þeirra gagna sem lögreglan aflaði við rannsókn máls þessa eru upplýsingar um fjárgreiðslur og millifærslur í einkabanka kæranda og ákærðu, annars vegar þann frá 23. janúar 2017 og hins vegar þann 15. mars 2018. Jafnframt aflaði lögreglan upplýsinga og útskrifta frá Samgöngustofu, þ. á m. af svokölluðum ,,Mínum síðum“ en þar á meðal voru beiðnir og samþykkisskráningar vegna bifreiðarinnar […] þann 8. og 15. mars nefnt ár. Einnig aflaði lögreglan gagna úr ökutækjaskrá Samgöngustofu um bifreiðina.

 

6.         Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 4. apríl 2018 greindi ákærða stuttlega frá helstu málvöxtum, eins og þeir horfðu við henni. Er m.a. skráð eftir henni að hún hafi greitt kaupverð bifreiðarinnar […] og staðfesti hún að því leyti áðurnefnda millifærslu frá 23. janúar 2017, að fjárhæð 216.000 krónur. Ákærða staðhæfði að þrátt fyrir þessa kaupgreiðslu hennar hefði bifreiðin ætíð verið skráð sem eign þáverandi sambýlismanns hennar, kærandans B. Hún staðhæfði jafnframt að sambýlismaðurinn fyrrverandi hefði ekki haft uppi neinar athugasemdir þegar hún hvarf af heimili hans með eigur sínar, þann […], og þá ekki að því er varðaði vörslur hennar á bifreiðinni.

            Við yfirheyrsluna staðhæfði ákærða að á sambúðartíma hennar og kæranda hefði hún í þágu þeirra beggja annast fjármál og reikningshald heimilisins. Vegna þessa kvaðst hún m.a. hafa stofnað svonefndan Íslykil fyrir kæranda, en í framhaldi af því brúkað lykilinn í hans þágu. Nefndi ákærða þessu til staðfestu m.a. að skömmu fyrir sambúðarslitin hefði hún annast skráningu á tiltekinni kerru fyrir kæranda, og þá hjá Samgöngustofu.

            Við nefnda yfirheyrslu hjá lögreglu er nánar skráð eftir ákærðu um atvik máls, og þá um viðbrögð hennar og athæfi eftir að sambúð hennar og kæranda lauk, en þar um segir m.a.:

            Daginn eftir ákvað ég að færa bifreiðina yfir á mitt nafn ásamt því að færa lögheimilið mitt í burtu. Það var fljótfærni hjá mér að gera þetta án þess að ræða við B, en ég hélt að þetta væri bara best fyrir alla. Ég fer inn a netið og inn á Samgöngustofu og nota Íslykilinn hans eins og að ég var vön að gera. ... Ég var orðin svo vön að sjá um þessi mál fyrir okkur að ég fattaði ekki að hugsanlega væri ég að brjóta einhver lög og reglur. B kann ekki á þessi hluti og því hef ég séð um þá. ... Ég borgaði 2.630 kr. á netinu í hans nafni til að skrá eigandaskiptin, sem var fljótfærni hjá mér, en ég lagði síðan sömu upphæð strax inn á B. 

 

II.

1.         Fyrir dómi játaði ákærða verknaðarlýsingu ákæruskjals lögreglustjóra rétta, að því er varðaði notkun hennar á Íslykli kæranda við eigendaskiptin á bifreiðinni […], þann 8. og 15. mars 2018, en einnig að því er varðaði rafræna greiðslu úr heimabanka kæranda. Ákærða lýsti atvikum í aðalatriðum í samræmi við áðurrakta skýrslu hennar hjá lögreglu og staðfesti jafnframt efni hennar. Ákærða neitaði hins vegar refsiverðri sök og vísaði um efnisvarnir í aðalatriðum til þess sem fram kom í greinargerð skipaðs verjanda, sbr. það sem bókað var hér að framan.

            Fyrir dómi tjáði ákærða sig um málavexti og útskýrði nánar afstöðu sína til sakargifta. Ákærða vísaði til þess að hún hefði verið í sambúð með kæranda allt frá árinu 2009, en þó með hléum, en staðfesti að sambúðinni hefði í raun lokið þann […]. Hún sagði að við upphaf sambúðarinnar hefði kærandi verið nær ósjálfbjarga um notkun tölva og af þeim sökum hefði það m.a. komið í hennar hlut að annast fjármál heimilis þeirra. Vegna þessa kvaðst hún og hafa stofnað svonefndan Íslykil og viðeigandi lykilorð fyrir kæranda og þá samkvæmt munnlegu leyfi hans. Vísaði ákærða til þess að áður hefði dóttir kæranda aðstoðað hann við fjármálin, en hún í raun tekið við því verkefni. Bar ákærða að kærandi hefði í framhaldi af því að hún hóf þennan erindisrekstur gefið henni umboð til þess að fara inn á heimabanka sinn. Kvaðst hún upp frá því hafa annast greiðslur á reikningum sem snéru að heimilisrekstrinum, en að auki aðstoðað kæranda í samskiptum hans við Tryggingastofnun og þá notað Íslykil hans. Að auki kvaðst hún hafa kennt kæranda á hina rafrænu miðla og sagði þar um m.a.: „... það tók mörg ár að kenna honum á heimabankann og Íslykilinn og ég held að mér hafi bara tekist ágætlega að kenna honum … það var svona síðustu tvö árin sem mér fannst hann vera kominn með vilja til þess að gera þetta sjálfur.“ Ákærða skýrði frá því að hún hefði í tvígang verið í rafrænum samskiptum við Samgöngustofu um málefni sem tengdust kæranda. Sagði hún að seinna tilvikið hefði komið upp skömmu fyrir nefnd sambúðarslit, nánar tiltekið í febrúarmánuði 2018. Bar hún að það verkefni hefði hún tekið að sér samkvæmt beiðni kæranda og sonar hans eftir að þeir höfðu átt viðskipti sín í milli með tiltekna kerru.

            Ákærða áréttaði að hún hefði haft munnlegt umboð kæranda til þess að ganga lýstra erinda hans og þá með því að fara inn á heimabanka hans með Íslyklinum. Ákærða staðhæfði að kærandi hefði aldrei bannað henni að fara inn á heimabankann og heldur aldrei afturkallað umboð sitt til hennar vegna þessa erindindisrekstrar fyrir hans hönd.

            Ákærða skýrði frá sambúðarslitunum við kæranda þann […] á sama veg og hún hafði gert hjá lögreglu og bar m.a. að eignaskiptin þeirra í millum hefðu í raun verið einföld þar sem þau hefðu ekki átt sameiginlegar eignir. Hún hefði því við slitin aðeins tekið lausafjármuni sína og þar með umrædda bifreið, […].

            Ákærða staðhæfði að kærandi hefði haft vitneskju um vilja hennar til þess að hafa eigendaskipti á nefndri bifreið, enda hefði hún keypt hana fyrir eigin fjármuni. Vísaði ákærða til þess að hún hefði við kaup bifreiðarinnar skráð hana á nafn kæranda með leyfi hans, en bar að allt það ferli hefði þó verið gert fyrir hálfgerðan misskilning af hennar hálfu. Ákærða staðhæfði að kærandi hefði ekki haft uppi neinar athugasemdir við áform hennar um að hafa formlega eigendaskipti og þá þannig að hún yrði með réttu skráður eigandi ökutækisins.

            Ákærða kvaðst í ljósi alls ofangreinds, en þá ekki síst vegna yfirvofandi sambúðarslita, hafa afráðið að hefja umskráningar- og eigendaskiptaferli bifreiðarinnar þann 8. mars, en síðan lokið því verkefni þann 15. sama mánaðar 2018 og þá eftir að hafa greitt umskráningargjald til Samgöngustofu eftir að hafa farið inn á einkabankareikning kæranda, sbr. sakarefni ákæru. Ákærða greindi frá því að í þessu ferli hefði hún enn fremur notað eigin Íslykil, og þá til þess að skrá sig sem kaupanda bifreiðarinnar.

            Nánar aðspurð kvaðst ákærða hafa litið svo á á verknaðarstundu að nefnd sambúðarslit hefðu í raun engu breytt um heimild hennar eða lýst umboð frá kæranda, en sagði um það atriði nánar: „... ég hugsaði ekkert út í það að ég væri að gera eitthvað refsivert ... taldi best að klára þetta strax ... og þar sem ég hafði nú munnlegt umboð og leyfi til þess.

            Áréttaði ákærða að við nefnda verknaði hefði hún með öðrum orðum ekki litið svo á að hún þyrfti sérstakt umboð frá kæranda til þess að nota Íslykil hans eða til þess að fara inn á heimabanka hans til þess að greiða tilskilið umskráningargjald til Samgöngustofu. Ákærða kvaðst hins vegar nær strax hafa endurgreitt fjárhæðina inn á bankareikning kæranda og vísaði til þess að krafan frá Samgöngustofu hefði í raun ratað þangað af misgáningi af hennar hálfu.

            Ítrekað aðspurð bar ákærða að vegna fyrrnefndrar kennslu hennar hefði kærandi í raun getað annast lýst samskipti við Samgöngustofu vegna eigendaskipta á bifreiðinni […] á eigin spýtur, og sagði hún þar um: „Vissulega var það fljótfærni og kunnáttuleysi, greinilega, eða hugsunarleysi ekkert annað, það var ekkert á bak við þetta ... mér fannst þetta liggja svo ljóst fyrir, að þetta væri í lagi, ég var með þetta umboð, taldi mig hafa það, og ég taldi líka að ég væri að gera honum greiða, að losa hann við þennan gamla bíl.

 

2.         Kærandi, B, skýrði frá því fyrir dómi að sambúð hans og ákærðu hefði staðið yfir með hléum í u.þ.b. níu ár. Staðhæfði hann að í fyrstu hefði sambúðin verið formlega skráð, en eftir að hlé varð þar á og þau tóku saman að nýju á árinu 2014 hefðu þau verið í óskráðri sambúð.

            Kærandi skýrði frá því að ákærða hefði á sínum tíma greitt kaupverð bifreiðarinnar […], en hann þrátt fyrir það litið svo á að hún hefði verið sameign þeirra. Hann staðfesti að bifreiðin hefði og verið skráð á hans nafn og bar að sú ráðstöfun hefði verið gerð með hans samþykki, en kvaðst ekki véfengja orð ákærðu fyrir dómi um að hann hefði ekki verið viðstaddur þann gjörning.

            Kærandi staðfesti að ákærða hefði á sínum tíma aðstoðað hann við að stofna til rafrænna samskipta og þá með Íslykli, en einnig með því að stofna til bankaþjónustu í heimabanka. Hann kvaðst um síðir hafa lært að nota þessa rafrænu tækni og skilríki.

            Kærandi staðfesti jafnframt frásögn ákærðu um að það hefði verið hún sem hefði annast fjármál þeirra á sambúðartímanum, en sagði að auki að það hefði verið hún sem hefði m.a. annast gerð skattframtals hans. Kærandi bar að ákærða hefði og annast hin rafrænu viðskipti fyrir hann og þar á meðal greitt heimilisreikninga, en af þeim sökum hefði hún farið inn á heimabankareikning hans. Aðspurður kvaðst kærandi á nefndum sambúðartíma aldrei hafa bannað ákærðu að annast þessi reikningsskil, en staðhæfði að í flestum tilvikum hefði hann verið viðstaddur. Staðhæfði hann að ákærða hefði þannig annast einstök verkefni samkvæmt beiðni hans og þar á meðal þegar hún hafi fyrir hans hönd verið í samskiptum við Tryggingastofnun. Hann staðhæfði að þetta hefði einmitt verið raunin þegar ákærða aðstoðað hann, þann 12. febrúar 2018, við umskráningu hjá Samgöngustofu á sérstakri kerru. Staðhæfði kærandi að ákærða hefði því í raun aldrei verið með eiginlegt umboð frá honum til þess að fara inn á heimabanka hans eða til þess að nota hin rafrænu skilríki hans, þ.e. Íslykilinn, og andmælti hann frásögn ákærðu að því leyti.

            Kærandi staðhæfði að ákærða hefði fyrst haft orð á sambúðarslitum þeirra um mánaðamótin febrúar/mars 2018. Þá staðhæfði hann að við brottför hennar af heimilinu hefði hann bannað henni að fara inn á eða nota heimabanka hans, en einnig nefndan Íslykil.

            Aðspurður kvaðst kærandi aldrei hafa heyrt ákærðu hafa orð á því að vilji hennar stæði til þess að breyta skráðu eignarhaldi á bifreiðinni […] á sambúðartíma þeirra. Hann kvaðst og fyrst hafa komist að raun um gjörðir hennar þegar honum hefði í tvígang borist símaskilaboð frá Samgöngustofu þar um, að morgni 15. mars 2018 og þá um sakarefni þessa máls. Kærandi staðfesti að sú fjárgreiðsla sem ákærða hafði fært af bankareikningi hans hefði síðan verið endurgreidd inn á reikning hans, en af þeim sökum hefði hann ekki orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna verknaðar hennar.

 

3.         Vitnið C, hópstjóri hjá Samgöngustofu, staðfesti framlögð gögn um eigendaskipti á bifreiðinni […], og þar á meðal að þau hefðu farið fram með rafrænum skilríkjum. Hún greindi frá því að greint ferli hefði hafist þann 8. mars 2018 en lokið 15. sama mánaðar og þá með samþykkisskráningu seljanda og kaupanda og loks fullnaðargreiðslu, sbr. m.a. kafla I.5 hér að framan.

            Vitnið D rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi rannsóknargögn lögreglu.

 

III.

            Ákærðu er gefið að sök skjalafals, með því að hafa þann 8. mars 2018, án heimildar, notað leynilegt aðgangsorð fyrrverandi sambýlismanns síns, kærandans B, svonefndan „Íslykil“, til þess að fara inn á vef Samgöngustofu og að hafa falsað þar með rafrænum hætti samþykki hans á yfirlýsingu um eigendaskipti á bifreiðinni […] og með því blekkt starfsmenn Samgöngustofu til að hafa eigendaskipti að bifreiðinni, þótt raunverulegt samþykki skráðs eiganda, þ.e. kæranda, hafi ekki legið fyrir og með þessu athæfi villt á sér heimildir í blekkingarskyni.

            Ákærðu er jafnframt gefið að sök að hafa þann 15. mars sama ár farið inn á rafrænan heimabanka kæranda hjá Landsbankanum, með því að nota leynilegt aðgangsorð hans, án heimildar, og millifært 2.630 krónur, af nánar tilgreindum bankareikningi hans yfir á bankareikning Samgöngustofu, og þá til þess að greiða fyrir nefnd eigendaskipti og með því villt á sér heimildir í blekkingarskyni.

            Eru brot ákærðu samkvæmt ákærunni talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög. Ákvæðin eru svohljóðandi:

            „Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.

            Sömu refsingu varðar að nota fölsuð gögn, sem geymd eru á tölvutæku formi, til að blekkja með þeim í lögskiptum.“

 

            Ákærða neitar sök, en játar í öllum aðalatriðum verknaðarlýsingu ákæru.

            Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið er samhljómur með ákærðu og kæranda að nokkru og þá um það að á sambúðartíma þeirra hafi ákærða sinnt erindisrekstri heimilisins og þá m.a. verið í rafrænum samskiptum. Hafi ákærða m.a. haft heimild kæranda til þess að fara inn á einkabankareikning hans, en að auki haft heimild hans til þess að nota Íslykil, sem er notaður til að fá aðgang að vefjum stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fyrirtækja.

            Verður í ljósi frásagnar ákærðu og kæranda lagt til grundvallar að sá síðarnefndi hafi ekki í öllum tilvikum verið viðstaddur er ákærða sinnti þessum verkum. Í því viðfangi þykir á hinn bóginn ekki verða fram hjá því horft að kærandi hefur með trúverðugum hætti staðhæft að verkum þessum hafi ákærða eingöngu sinnt samkvæmt sérstökum beiðnum eða með samþykki hans. Því hafi eigi verið um að ræða algilt leyfi hans eða umboð til handa ákærðu. Ágreiningur er um þetta síðastgreinda atriði, en ákærða hefur þó borið um að kærandi hafi a.m.k. undir lok sambúðar þeirra, fyrri hluta ársins 2018, verið orðinn sjálfbjarga í hinum rafrænu viðskiptum og samskiptum og verður það lagt til grundvallar.

            Samkvæmt framlögðum gögnum og því sem fram er komið í máli þessu greiddi ákærða kaupverð bifreiðarinnar […] í ársbyrjun 2017 og hafði í framhaldi af því forgöngu um að bifreiðin var í bifreiðaskrá Samgöngustofu skráð sem eign kæranda. Liggur fyrir að þessi ráðstöfun var gerð með leyfi kæranda, en hann hefur borið um að hann hafi litið svo á að bifreiðin hefði verið í sameign þeirra.

            Í máli þessu liggur fyrir að ákærða hóf hin rafrænu eigandaskipti bifreiðarinnar […] á svokölluðum ,,mínum síðum“ hjá Samgöngustofu í aðdraganda áðurnefndra sambúðarslita, þann 8. mars 2018. Skráði hún sig með Íslykli kæranda sem seljandi bifreiðarinnar, en samhliða skráði hún sig með eigin rafrænum skilríkjum, en þá sem væntanlegur kaupandi hennar. Einnig liggur fyrir að ákærða lauk þessu ferli fyrst eftir að sambúðarslit hennar og kæranda voru um garð gengin, þ.e.a.s. þann 15. mars sama ár. Samkvæmt gögnum viðhafði hún þá sams konar ferli og áður, en einnig samþykkti hún með rafrænum hætti kaupin fyrir hönd kæranda. Loks liggur fyrir að ákærða fór inn á rafrænan heimabanka kæranda nefndan dag, með því að nota leynilegt aðgangsorð hans, en greiða síðan fyrir eigendaskiptin.

            Í máli þessu hefur kærandi andmælt þeirri frásögn ákærðu að hún hafi fyrir sambúðarslit þeirra haft orð á því að vilji hennar stæði til þess að gera breytingu á eignaskráningu bifreiðarinnar hjá Samgöngustofu. Hann hefur einnig andmælt þeirri frásögn hennar að hann hafi veitt henni víðtækt umboð til fyrrnefnds erindisrekstrar og rafsamskipta. Enn fremur hefur hann alfarið andmælt því að slíku hafi verið til að dreifa eftir að sambúð þeirra lauk um miðjan mars 2018.

            Þegar ofangreind atburðarás er virt er það niðurstaða dómsins að lýst háttsemi ákærðu geti ekki hafa helgast af staðreyndavillu og að verknaður hennar leiði af þeim sökum til refsileysis.

            Að virtum trúverðugum framburði kæranda er að öllu ofangreindu virtu það niðurstaða dómsins að ákærða hafi ekki leitt að því líkur að hún hafi haft heimild eða leyfi kæranda eftir að sambúð þeirra lauk til þess að ganga erinda hans varðandi eigendaskipti á bifreiðinni […] og þar á meðal að greiða fyrir þau á þann hátt sem hún gerði eða að viðhafa aðra þá háttsemi sem lýst er í ákæru. Þykir ákæruvaldið því hafa sannað að ákærða hafi með notkun þeirra rafrænu skilríkja svo sem lýst er í ákæru gerst sek um skjalafals samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.

 

IV.

            Ákærða, sem er fædd árið [...], hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins ekki orðið sek um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé.

            Ákvarða ber refsingu ákærðu með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.       Rétt þykir, einkum með hliðsjón af því að ákærða skýrði í meginatriðum greiðlega frá atvikum hjá lögreglu sem og fyrir dómi svo og því að hún hefur ekki áður gerst brotleg við lög og að ekkert tjón varð af háttsemi hennar, sbr. og ákvæði 3. mgr. 155. gr. hegningarlaganna, að fresta ákvörðun um refsingu hennar skilorðsbundið, þannig að hún falli niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 22, 1955.

            Í samræmi við niðurstöðu dómsins, sbr. ákvæði 235. gr. laga nr. 88/2008, ber að dæma ákærðu til að greiða allan sakarkostnað málsins. Er þar um að ræða sakarkostnað ákæruvalds og þá vegna ferðakostnaðar vitnis, að fjárhæð 11.600 krónur, en einnig málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Gunnars Viðars lögmanns, sem í ljósi umfangs málsins þykir eftir atvikum hæfilega ákveðin 737.800 krónur, og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Einnig ber að dæma ákærðu til að greiða ferðakostnað verjandans að fjárhæð 116.548 krónur. 

            Af hálfu ákæruvalds fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákvörðun um refsingu ákærðu, A, er frestað og fellur niður að liðnum tveim árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

            Ákærða greiði allan sakarkostnað, 865.948 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gunnars Viðars lögmanns, 737.800 krónur, svo og ferðakostnað hans að fjárhæð 116.548 krónur.