• Lykilorð:
  • Hefð
  • Landamerki
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn 15. nóvember 2017 í máli nr. E-89/2016:

Ragnheiður Ragnarsdóttir

(Stefán Þór Eyjólfsson hdl.)

gegn 

Bláfeldi ehf.

(Jón Jónsson hrl.)

og til réttargæslu; Snæbirni Vali Ólasyni, Hermanni Ragnarssyni, Kristbjörgu Ragnarsdóttur, Guðnýju Ragnarsdóttur, db. Eiðs Ragnarssonar, Helga Sigurðssyni, Margréti Sigtryggsdóttur, Snorra Hallgrímssyni, Baldri Hallgrímssyni, Jakobi Helga Hallgrímssyni, Hegraþingi ehf., Ástu Sigurðardóttur, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, Jakobi Karlssyni, Grétari Urðari Karlssyni, Gunnari Kristbergi Gunnarssyni, Arnþóri Inga Sigurjónssyni, Kristrúnu Antonsdóttur, Ragnari Antonssyni, Önnu Antonsdóttur, Björgvini Antonssyni og Erlu Berglind Antonsdóttur

    

            Mál þetta, sem dómtekið var 20. september 2017, höfðaði Ragnheiður Ragnarsdóttir, Fossvöllum 2, Fljótsdalshéraði, hinn 5. júlí 2016 á hendur Bláfeldi ehf., Hrólfsstöðum, Fljótsdalshéraði, til viðurkenningar á landamerkjum milli jarðanna Sellands, landnr. 156874, og Hrólfsstaða, landnr. 156905, á Fljótsdalshéraði.

            Þá er eftirfarandi eigendum aðliggjandi jarða stefnt til réttargæslu: Snæbirni Vali Ólasyni, Hauksstöðum II, Fljótsdalshéraði (vegna Hauksstaða 2, landnúmer 156906), Hermanni Ragnarssyni, Brekkuseli 27, Reykjavík, Kristbjörgu Ragnarsdóttur, Smáragrund, Fljótsdalshéraði, Guðnýju Ragnarsdóttur, Smárabraut 11, Hornafirði, og dánarbúi Eiðs Ragnarssonar, Fossvöllum 1, Fljótsdalshéraði (vegna Fossvalla 1, landnr. 156854), Helga Sigurðssyni og Margréti Sigtryggsdóttur, báðum að Háteigi, Vopnafjarðarhreppi (vegna Háteigs, landnr. 156481), Snorra Hallgrímssyni, Fífuvöllum 16, Hafnarfirði, Baldri Hallgrímssyni, Kolbeinsgötu 58, Vopnafjarðarhreppi, og Jakobi Helga Hallgrímssyni, Selási 25, Egilsstöðum (vegna Hrappstaða I, landnr. 156486, og Hrappstaða II, landnr. 156488), Hegraþingi ehf.,   Ástu Sigurðardóttur, Skjöldólfsstöðum 1, Fljótsdalshéraði, Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, Hæðarbyggð 18, Garðabæ, Jakobi Karlssyni, Litluskógum 2, Fljótsdalshéraði, Grétari Urðari Karlssyni, Einbúablá 6, Fljótsdalshéraði, Gunnari Kristberg Gunnarssyni, Austurvegi 50, Seyðisfjarðarkaupstað, Arnþóri Inga Sigurjónssyni, Nýja-Sjálandi, Kristrúnu Antonsdóttur, Bleiksárhlíð 9, Fjarðabyggð, Ragnari Antonssyni, Hafnarbyggð 37, Vopnafjarðarhreppi, Önnu Antonsdóttur, Silfurbraut 8, Hornafirði, Björgvini Antonssyni, Miðdal 15, Fjarðabyggð, og Erlu Berglindi Antonsdóttur, Sunnubraut 8, Hornafirði (vegna Gnýstaða, landnr. 156474).

            Með gagnstefnu, sem lögð var fram á dómþingi 15. nóvember 2016, höfðaði stefndi (hér eftir nefndur gagnstefnandi) gagnsök á hendur aðalstefnanda.

            Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðar aðalstefnanda, Sellands, landnr. 156874, og jarðar gagnstefnanda, Hrólfsstaða, landnr. 156905, verði sem hér segir:

            Frá Illalækjarósi (austur 702625, norður 552558) þaðan bein lína í mitt Búrfell (austur 699801, norður 553892), þaðan bein lína í Laxárdalshnjúk (austur 695479, norður 557509) og þaðan bein lína í Beinavörðu á miðheiði (austur 690158, norður 562389).

            Þá er þess krafist að gagnstefnanda verði gert skylt með dómi að fjarlægja girðingu sem reist hafi verið innan landamerkja Sellands, eins og þeim er lýst í dómkröfu, að viðlögðum dagsektum að mati dómsins.

            Af hálfu gagnstefnanda er krafist sýknu í aðalsök.

            Í gagnsök gerir gagnstefnandi eftirfarandi dómkröfur:

            Aðallega er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Hrólfsstaða, landnr. 156905, og Sellands, landnr. 156874, liggi frá Jökulsá á Dal þar sem Illagilslækur fellur í ána, við hnit L06, 702625 – 552558, upp með Illagilslæk að hniti L07, 702535,6 – 553014,9, þaðan í beinni línu um Deildarfoss, hnit L05, 702095,5 – 553156,1, í mitt Búrfell við hnit L03, 699801 - 553892, þaðan í beina stefnu á Laxárdalshnjúk, hnit L02, 695479 - 557509, og þaðan í Beinavörðu, hnit L01, 690158 - 562389.

 

 

            Varakrafa:

            Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Hrólfsstaða, landnr. 156905, og Sellands, landnr. 156874, liggi frá Jökulsá á Dal þar sem Illagilslækur fellur í ána, við hnit L06, 702625 – 552558, upp með Illagilslæk að hniti L07, 702535,6 – 553014,9, þaðan í beina línu í Deildarfoss við hnit L05, 702095,5 – 553156,1, þaðan ráði Deildarlækurinn, að lækjarmótum við hnit L04, 701353,7 – 553249,5, þaðan í beina línu í mitt Búrfell við hnit L03 699801 - 553892, þaðan í beina stefnu á Laxárdalshnjúk, hnit L02, 695479 - 557509, og þaðan í Beinavörðu, hnit L01, 690158 - 562389.

            2. varakrafa

            Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Hrólfsstaða, landnr. 156905, og Sellands, landnr. 156874, liggi frá Jökulsá á Dal þar sem Illagilslækur fellur í ána, við hnit L06, 702625 – 552558, í Deildarfoss við hnit L05, 702095,5 – 553156,1, þaðan ráði Deildarlækurinn, að lækjarmótum við hnit L04, 701353,7 – 553249,5, þaðan í beina línu í mitt Búrfell við hnit L03 699801 - 553892, þaðan í beina stefnu á Laxárdalshnjúk, hnit L02, 695479 - 557509, og þaðan í Beinavörðu, hnit L01, 690158 - 562389.

            3. varakrafa

            Þess er krafist að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Hrólfsstaða, landnr. 156905, og Sellands, landnr. 156874, liggi frá Jökulsá á Dal þar sem Illagilslækur fellur í ána, við hnit L06, 702625 – 552558, í beina línu í Deildarfoss við hnit L05, 702095,5 – 553156,1, þaðan í beina línu í mitt Búrfell við hnit L03, 699801 - 553892, þaðan í beina stefnu á Laxárdalshnjúk, hnit L02, 695479 - 557509, og þaðan í Beinavörðu, hnit L01, 690158 - 562389.

            Aðalstefnandi krefst sýknu í gagnsök.

            Þá krefjast báðir aðilar málskostnaðar úr hendi hvor annars í aðalsök og gagnsök.

            Réttargæslustefndu hafa ekki látið málið til sín taka.

            Dómari og lögmenn aðila gengu á vettvang 7. september 2017, ásamt fyrirsvarsmanni gagnstefnanda, aðalstefnanda og syni hennar, Ásgeiri Birgissyni.

 

 

 

           

I

Málsatvik

            Í máli þessu er deilt um landamerki milli jarðanna Sellands og Hrólfsstaða á Fljótsdalshéraði, en jarðir þessar liggja að hvor annarri norðan við Jökulsá á Dal, þar sem Jökuldalur mætir Jökulsárhlíð, skammt norðan og vestan við brú þá sem liggur yfir ána á þjóðvegi nr. 1 (hringveginum). Bæði í aðalsök og gagnsök er krafist viðurkenningar á öllum merkjum jarðanna, en þó stendur ágreiningur aðila einungis um þann hluta merkja sem liggur frá miðju Búrfelli og að Jökulsá á Dal.

            Við eftirfarandi lýsingu málsatvika og helstu ágreiningsefna er stuðst við málsatvikalýsingar í stefnum og greinargerðum, einkum stefnu í aðalsök, enda kveður gagnstefnandi þá lýsingu greinargóða. Að öðru leyti er lýsingin byggð á gögnum málsins.

            Aðalstefnandi situr í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Birgi Þór Ásgeirsson, sem eignaðist jörðina Selland á árinu 2000, en afsal var gefið út 2001. Jörðinni Sellandi mun hafa verið skipt út úr jörðinni Fossvöllum, með afsali dags. 8. júní 1944, og mun þar hafa verið stofnað nýbýli árið 1963. Um merki Fossvalla og Sellands fer eftir merkjalýsingu í því afsali. Aðalstefnandi segir svo um sögu jarðarinnar Fossvalla, að hún hafi verið landnámsjörð og hafi verið bújörð Þorsteins torfa er eigi að hafa numið Jökulsárhlíð alla og allt upp til Hvannár á Jökuldal. Jörðin mun síðar hafa orðið kristfjáreign og tilheyrt Jökuldalshreppi, áður Jökuldals- og Hlíðarhreppi, fram til ársins 1942, er hún komst í eigu einkaaðila.

            Jörðin Hrólfsstaðir, sem er í eigu gagnstefnanda, hét áður Hauksstaðir I, en heiti jarðarinnar mun hafa verið breytt upp úr 1980 er fyrirsvarsmaður gagnstefnanda, Guðmundur Ólason, eignaðist jörðina. Eignarhald jarðarinnar mun hafa færst til gagnstefnanda upp úr síðustu aldamótum. Aðalstefnandi kveður óvíst hvort jörðin Hauksstaðir sé landnámsjörð, en heimildir greini frá því að Sigurður Sveinsson tugga hafi búið þar á 18. öld og Eiríkur Styrbjarnarson í kjölfarið. Að því er virðist hafi búseta verið á Hauksstöðum æ síðan. Jörðinni hafi verið skipt í Hauksstaði I og II hinn 29. maí 1964. Um merki þeirra jarða fari eftir samkomulagi sem gert hafi verið hinn 15. ágúst 1976.

            Aðalstefnandi lýsir því svo í stefnu að af þessum merkjabréfum megi vera ljóst að jarðirnar Selland og Hrólfsstaðir séu aðlægar frá Jökulsá að sunnanverðu allt til Beinavörðu á Smjörvatnsheiði að norðanverðu, þar sem mörk Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðarhrepps séu. Um allnokkra hríð hafi Selland verið innsta jörð í Jökulsárhlíðarhreppi og aðlæg Hauksstöðum sem hafi verið ysta jörð í Jökuldalshreppi. Nú séu báðar jarðirnar innan sveitarfélagsmarka Fljótsdalshéraðs.

            Aðalstefnandi bendir á að úr jörðinni Hrólfsstöðum hafi verið stofnaðar lóðirnar Hrólfsstaðir/lóð nr. 1, landnr. 199144, og Hrólfsstaðir/lóð nr. 2, landnr. 199146. Þessar lóðir eigi ekki merki við hina umþrættu landamerkjalínu samkvæmt þinglýstum stofnskjölum og þeim uppdráttum sem fylgi þeim. Þá hafi lóðinni Hrólfsstaðir/lóð nr. 3, landnr. 213347, verið skipt úr jörðinni Hrólfsstöðum árið 2007 en samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi hún að nýju verið sameinuð jörðinni Hrólfsstöðum árið 2012.

            Óumdeilt er að samkvæmt framanrituðu fer um merki jarðanna Hrólfsstaða og Sellands eftir landamerkjabréfum sem þinglýst hefur verið á jarðirnar Fossvelli og Hauksstaði.

            Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Hauksstaði, sem undirritað var 17. júní 1883 í samræmi við lög nr. 5/1882 um landamerki, og þinglýst á Fossvallamanntalsþingi degi síðar, 18. júní 1883, er landamerkjum lýst þannig (með undirstrikunum dómara):

            Að utan frá Illalækjarósi í Deildarfoss, þaðan í Búrfell og Háhnjúk á Laxárdalsfjalli beina línu á miðheiði; að innan ræður Deild til brúnar og þaðan beina línu í fremri Þverá og þaðan beint til miðheiðar.“

            Undir landamerkjabréfið rita Jón Jónsson f.h. hreppsnefndarinnar í Jökuldals- og Hlíðarhreppi, Guðmundur Pétursson, bóndi á Hauksstöðum, og Stefán Halldórsson, prestur að Hofteigi.

            Í landamerkjabréfi fyrir jörðina Fossvelli, undirrituðu 21. júní 1884 og þinglesnu samdægurs á Fossvallamanntalsþingi, er landamerkjum lýst svo:

            „Að utan úr stórum steini utanvert á Götuhrauni í Laxá; síðan ræður hún til Jökulsár; en úr þeim sama steini í Uppgöngu á [á, tvítekið] Hrafnabjörgunum þvert upp af steininum. Þaðan beina stefnu í Mjóavatnsenda fremri og Skollagrenisásenda ytri á fjall upp í lægð á fjallinu í svo nefndum Fossárdrögum. Þaðan beina stefnu til Kaldár. Síðan fyrir norðan Kaldá: Úr Meragilsá fyrir utan Kaplatungu beint norður á Smjörfjöll, síðan inn fjöllin, eptir sem vötn falla til Beinavörðu. Að framan úr Illalækjarós á mitt Búrfell, þaðan í há Laxárdalshnjúk, þaðan í Beinavörðu.“

            Undir bréfið rita G.J. Snædal, p.t. (pro tempora) oddviti, í umboði hreppsnefndarinnar, Sigurður Sigurðsson, eigandi jarðarinnar Hrafnabjarga, og Guðmundur Pétursson, bóndi á Hauksstöðum.

            Í október 1921 voru undirrituð ný landamerkjabréf fyrir báðar jarðirnar, í samræmi við lög nr. 41/1919 um landamerki o.fl. Í landamerkjabréfi fyrir Hauksstaði, undirrituðu 24. október 1921 og þinglesnu á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi 27. júlí 1922, er landamerkjum lýst svo:

            „Að vestan ræður á sú, er kölluð er Deild upp á heiðarbrún, þaðan bein sjónhending í vörðu á Laxárdalshæðum, þaðan bein lína í sömu stefnu til Miðheiðar. Að austan úr Illalækjarós við Jökulsá í mitt Búrfell, þaðan beina línu í há-Laxárdalshnúk, þaðan beina lína til miðheiðar. Að norðan ræður Miðheiði.“

            Landamerkjabréfið undirrita Pétur Guðmundsson, Hauksstöðum, Jón Jónsson, Hvanná, og f.h. hreppsnefndar Jökuldalshrepps vegna Fossvalla, Björn Þorkelsson.

            Í landamerkjabréfi fyrir Fossvelli, undirrituðu 28. október 1921 og þinglesnu á Sleðabrjótsmanntalsþingi 21. júlí 1922, er landamerkjum jarðarinnar, sem tekið er fram að sé „eign Jökuldalshrepps“, lýst svo að þau séu „að innan úr Illalækjargilsós við Jökulsá í mitt Búrfell, þaðan í beinni línu í vörðu á Laxárdalshæðum, og frá henni í há-Laxárdalshnúk og beint til Miðheiðar. Að utan ræður Laxá úr ósnum inn á móts við stein yzt á Götuhrauni, þaðan eru merkin um Háhlíð, Urðargrenisás og Skollagrenisás í Fossárdrög, þaðan beint í Kaplagilsá“.

            Landamerkjabréfið undirrita Jón Jónsson, oddviti Jökuldalshrepps, Gunnar Jónsson, ábúandi Fossvalla, Pétur Guðmundsson (Hauksstöðum), Þórunn Þorkelsdóttir (handsalað) og Jón Eiríksson (handsalað).

            Í stefnum í aðalsök og gagnsök er vikið að ýmsum skriflegum heimildum sem lagðar hafa verið fram í málinu, þar sem finna megi umfjöllun um landamerki jarðanna, en vikið verður að þessum heimildum eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla.

            Samkvæmt því sem greinir í stefnu í aðalsök reis ágreiningur vegna landamerkja jarðanna á árinu 2011, er þáverandi eigandi Sellands, Birgir Þór Ásgeirsson heitinn, eiginmaður aðalstefnanda, sem situr í óskiptu búi þeirra, varð þess áskynja að fyrirsvarsmaður gagnstefnanda, Guðmundur Ólason, hefði reist girðingu sem hinn fyrrnefndi taldi ná inn fyrir landamerki Sellands. Við vettvangsgöngu kom fram að þessi girðing liggur ofan þjóðvegarins um Jökuldal. Kveður aðalstefnandi að eiginmaður sinn hafi ekki viljað una þessu og gert athugasemdir við staðsetningu girðingarinnar við Guðmund. Áttu sér stað bréfaskipti af þessu tilefni á milli lögmanns Birgis heitins og fyrirsvarsmanns gagnstefnanda snemma árs 2012.

            Að beiðni aðalstefnanda var boðað til sáttafundar hjá sýslumanni, með bréfi dags. 21. mars 2014. Við þá sáttaumleitan skýrðist að ekki væri ágreiningur með aðilum um mörk milli jarðanna varðandi merki á Búrfelli, Laxárdalshnjúki og Beinavörðu, þrátt fyrir óverulegan mun á hnitsetningum. Ekki tókst hins vegar að leysa úr ágreiningi um merki frá Jökulsá (Illalækjarósi) í merki á Búrfelli. Var sáttaumleitan því lýst árangurslaus á fundi sýslumanns með aðilum 27. nóvember s.á.

            Í samræmi við framanritað eru dómkröfur aðila í máli þessu samhljóða um landamerki við Beinavörðu, á Laxárdalshnjúk og á miðju Búrfelli og er óumdeilt að draga beri beinar línur milli þessara merkja. Þá er ekki deilt um hnitsetningar landamerkjapunkta. Deilt er um kennileitið Illalækjarós, en þó er ekki deilt um það um hvaða læk sé að ræða. Deilt er um það hvort kennileitið Deildarfoss liggi á merkjum og þá um legu merkja ofan og neðan við fossinn, hvort þau fylgi farvegi Illalækjar (Illagilslækjar) og síðan Deildar upp að svokölluðum lækjarmótum, eða hvort draga beri beinar línur milli kennileita. 

            Aðalstefnandi kveður að vegna merkis á Beinavörðu sé eigendum jarðanna Fossvalla 1, Hauksstaða 2, Gnýstaða, Hrappstaða og Háteigs stefnt til réttargæslu. Hinar þrjár síðastnefndu séu í Vopnafjarðarhreppi, og lýsi merkjabréf þeirra jarða merkjum á Beinavörðu. Í máli nr. 3/2004 um Vopnafjarðarhrepp, sem rekið hafi verið fyrir Óbyggðanefnd, hafi verið gengið út frá því að Beinavarða væri á merkjum þessara jarða, til samræmist við þinglýst merkjabréf. Því virðist merki á Beinavörðu ágreiningslaus. Eigi að síður telji aðalstefnandi rétt að eigendum þessara jarða verði gefinn kostur á því að láta málið til sín taka. Gagnstefnandi gerir þá athugasemd að ekki hafi verið þörf á að réttargæslustefna eigendum þessara jarða.

            Gagnstefnandi bætir því við, í málavaxtalýsingu í gagnstefnu, að fyrirsvarsmaður hans hafi heyrt að Tungan, þ.e. svæðið milli Deildarlækjar og Illagilslækjar, þar sem sá smálækur hafi greinilegan farveg, hafi fylgt Hauksstöðum, áður en þeirri jörð var skipt og Hrólfsstaðir urðu til. Þá vísar gagnstefnandi til þess að nýting svæðis við upptök Illagilslækjar hafi einkum verið sauðfjárbeit, en einnig hafi verið slegnar þar engjar. Vísar gagnstefnandi þar til þess að Jón E. Hallgrímsson, bóndi á Hrafnabjörgum, hafi fengið leyfi til að slá engjar nærri upptökum Illagilslækjarins í kringum 1940-50 og vegna svæðis innan við Illagilslæk, þ.e. innan Tungunnar, hafi hann fengið leyfi frá Hauksstöðum, en vegna svæðis ofan og utan við lækinn frá Fossvöllum. Aðalstefnandi mótmælir þessu sem sögusögnum og kveðst ekki kannast við að engjar hafi verið slegnar á þessu svæði eða þar hafi verið sérstakar landnytjar.

            Varðandi girðingu ofan þjóðvegarins, sem óumdeilt er að fyrirsvarsmaður stefnda hafi látið reisa fyrir fáeinum árum, þá greinir aðila á um hvort lega hennar hafi verið borin undir og samþykkt af Birgi heitnum Ásgeirssyni, eins og gagnstefnandi heldur fram.

            Gagnstefnandi bætir því við, í gagnstefnu, að girðing neðan þjóðvegar, sem reist hafi verið um 1974 af þáverandi eiganda Hrólfsstaða, Hauki Guðmundssyni, og liggi upp með Illagilslæk, í stefnu á gamalt hreppamarkaskilti sem staðið hafi við eldri þjóðveg, hafi staðið þar æ síðan athugasemdalaust. Aðalstefnandi bendir á að þjóðvegur yfir Illagil hafi verið færður og lagður neðar um gilið og hafi þá verið hróflað við girðingunni. Þá mótmælir hann því að á þessum stað hafi staðið hreppamarkaskilti og kveður hvorki liggja fyrir hvenær girðingin hafi verið reist neðan vegar né að hún hafi staðið athugasemdalaust.

            Gagnstefnandi tekur einnig fram að við vegagerð í kringum árið 1995 hafi verið malarnám í melum við Illagilslækinn, á svæði sem hefði allt verið innan Sellands miðað við dómkröfur í aðalsök, en samkomulag hafi verið milli gagnstefnanda og þáverandi eiganda Sellands, Jóns Hávarðar Jónssonar, um að tekjum af malarsölu yrði skipt til helminga.

            Þá vísar gagnstefnandi til þess að merki jarðanna hafi verið talin ágreiningslaus í kringum 1990 er unnið var að því að skýra hreppamörk á milli Jökuldalshrepps og Hlíðarhrepps. Einnig vísar gagnstefnandi til merkja jarðanna eins og þau hafi verið dregin í gagnagrunni Nytjalands í kringum árið 2003 og til þess að merkin hafi verið dregin upp eftir Illagilslæk er Landsvirkjun vann að því að fá landamerki jarða við Jökulsá á Dal staðfest af landeigendum á árinu 2005 í tengslum við matsmál vegna vatnsréttinda. Af hálfu aðalstefnanda er gögnum og staðhæfingum að þessu lútandi almennt mótmælt sem þýðingarlausum.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu aðalstefnandi og fyrirsvarsmaður gagnstefnanda aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni Ásgeir Birgisson, sonur aðalstefnanda, Björn Sigurðsson, fyrrverandi bóndi á Surtsstöðum og fyrrverandi hreppsnefndarmaður í Hlíðarhreppi, Jónas Guðmundsson, bóndi á Hrafnabjörgum, Páll Pálsson, alþýðufræðimaður frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal, Jón Hávarður Jónsson, fyrrverandi eigandi og ábúandi Sellands, Sigurður Magnússon, fyrrverandi bifreiðastjóri frá Hauksstöðum, Jón Víðir Einarsson, bóndi á Hvanná, og Arnór Benediktsson, fyrrverandi bóndi á Hvanná II og fyrrverandi oddviti Jökuldalshrepps. Verður vikið að skýrslugjöf fyrir dómi eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla.

 

II

Málsástæður aðalstefnanda

            Aðalsök:

            Aðalstefnandi kveðst reisa dómkröfur sínar í aðalsök aðallega á merkjabréfum frá 1921 sem þinglesin hafi verið á jarðirnar Hauksstaði og Fossvelli, svo og merkjabréfi frá árinu 1884 sem þinglesið hafi verið á jörðina Fossvelli. Á því sé byggt að merkjabréf þessi séu samhljóða og ótvíræðar réttarheimildir um merki jarðanna sem leggja beri til grundvallar við úrlausn á sakarefni málsins. Á því sé byggt að hnitsetning landamerkja í dómkröfu sé í samræmi við efni og orðalag þessara merkjabréfa. Að áliti stefnanda gildi merkjabréf þessi um jarðirnar Hrólfsstaði og Selland, að breyttu breytanda, sem skipt hafi verið úr jörðunum Hauksstöðum og Fossvöllum, hvorri í sínu lagi, um miðbik 20. aldar.

            Landamerkjalýsingar jarðanna Hauksstaða og Fossvalla frá 1921 hafi verið gerðar og undirritaðar af þáverandi eigendum þeirra og þeim þinglýst athugasemdalaust í samræmi við lög um landamerki nr. 41/1919. Með landamerkjabréfum þessum hafi verið tekin afstaða til þess hver landamerki jarðanna skyldu vera. Öðrum yngri og þinglýstum bréfum um merki jarðanna sé ekki til að dreifa. Merkjum jarðanna hafi því ekki verið breytt með lögboðnum hætti og því standi merkjabréf jarðanna frá 1921 óhögguð að gildi.

            Það sé haldlaust sem Páll Pálsson haldi fram í framlögðu bréfi að merkjabréf jarðanna frá 1921 séu markleysa eða ógild skjöl sem eigi að virða að vettugi. Ummæli þessi séu til marks um hlutdrægni hans í málinu. Þá stoði ekki fyrir gagnstefnanda að bera fyrir sig meint munnlegt samkomulag eða viðræður hluta þáverandi eigenda jarðanna um skýringu eða breytingu á merkjum jarðanna 1993, sem hvorki aðalstefnandi né Birgir heitinn hafi verið upplýstur um þegar hann keypti jörðina Selland. Það leiði af ákvæðum 29. gr., sbr. 19. gr., þinglýsingalaga nr. 39/1978, svo og laga um landamerki nr. 41/1919, að merkjalýsing þurfi að vera skrifleg, undirrituð og henni þinglýst. Að öðrum kosti öðlist hún ekki gildi að lögum. 

            Í stefnu er því næst vikið að efni og orðalagi þinglýstra merkjabréfa.

            Aðalstefnandi bendir á að í elsta merkjabréfi Hauksstaða frá 1883 sé Deildarfossi lýst á merkjum. Í merkjabréfi Fossvalla frá 1884 og jarðanna beggja frá 1921 sé svo ekki. Af þessu megi ráða að þáverandi eigendur hafi verið einhuga um að Deildarfoss skyldi ekki vera á merkjum. Það sé fráleit hugmynd að eigendur eða forráðamenn jarðanna hafi jöfnum höndum undirritað skriflega lýsingu á merkjum jarðanna til þinglýsingar og gert munnlegt samkomulag um frávik frá þeirri lýsingu, með þeim hætti sem gagnstefnandi haldi fram.

            Það sé meginregla að yngri löggerningar ryðji burt réttaráhrifum þeirra eldri, að því leyti sem þeir skarist. Aðalstefnandi kveðst byggja á því að þrjú yngstu landamerkjabréf jarðanna, frá 1921 og frá 1884, hafi falið í sér síðustu gildu ákvörðun að lögum um landamerki jarðanna. Landamerkjabréf Hauksstaða frá 1883 stangist á við efni hinna yngri bréfa og því telji hann ekki unnt að byggja málsúrslit á því bréfi.

            Aðalstefnandi byggi á því að merkjalína sé bein milli þeirra merkja sem getið sé um í þremur yngstu merkjabréfum jarðanna, þ.m.t. milli Illalækjaróss og Búrfells. Sá skilningur sé í samræmi við orðalag bréfanna sem lýsi því að merki jarðanna séu úr Illalækjar- eða Illalækjargilsósi í mitt Búrfell.

            Í skriflegum lýsingum þessara merkjabréfa sé hvergi minnst á að merki séu í Deildarfoss, lækjarmót eða fari eftir lækjarfarvegi. Því sé hugmynd gagnstefnanda um merkjalínu úr Illalækjarós, í Deildarfoss, þaðan eftir læknum Deild í svokölluð lækjarmót og þaðan í mitt Búrfell, á skjön við fyrrnefnd merkjabréf jarðanna. Þáverandi eigendum hafi verið í lófa lagið að lýsa merkjum þannig ef vilji hefði staðið þess. Þannig hafi háttað til, sem dæmi, varðandi vestanverð merki jarðarinnar Hauksstaða, þar sem tilgreint sé í þinglýstu merkjabréfi frá 1921 að áin Deild ráði merkjum upp á heiðarbrún.

            Með Illalækjargilsósi eða Illalækjarósi sé átt við þann stað þar sem Illilækur renni í Jökulsá. Sá staður sé hnitsettur í dómkröfu á sama stað og tilgreint sé á hnitsettu lóðablaði, sem fylgt hafi stofnskjali lóðar úr Hrólfsstöðum, dags. 31. ágúst 2007, sem hafi verið undirritað af fyrirsvarsmanni gagnstefnanda. Á lóðablaði þessu sé kennileitið Illalækjarós við Jökulsá með sömu hnit og dómkrafa aðalstefnanda. Vangaveltur gagnstefnanda nú um að Illalækjarós kunni að vera í miðju landi séu áður óþekktar og gangi gegn málvenju, gögnum málsins og því sem áður hafi verið haldið fram af gagnstefnanda. Samkvæmt þeim skilningi hafi merki jarðanna ekki verið talin frá Jökulsá, sem sé á merkjum jarðanna að sunnanverðu, heldur ofan við ána úr miðju landi, á stað sem óvíst sé um, og þaðan allt upp á Smjörvatnsheiði. Sú hugmynd sé haldlaus að áliti aðalstefnanda. Um hnitsetningu annarra merkja vísist til þess sem segi í málavaxtakafla. Aðalstefnandi líti svo á að þau séu óumdeild.

            Sú aðferð sé alkunnug í landamerkjabréfum að miða mörk jarða við sem fæst sýnileg og augljós einkenni í landslagi, sem skeri sig úr og sjáist langt að. Það sé auk þess álitið heppilegt og skynsamlegt að hafa beina línu milli merkja. Sjónarmið af þessum toga komi m.a. fram í landskiptalögum nr. 43/1941. Engin auðsjáanleg skil séu í landinu í námunda við merki jarðanna Sellands og Hrólfsstaða. Ekkert ræktað land sé eða hafi verið á umþrættu landsvæði. Girðing hafi ekki verið reist á merkjum þar. Gera megi ráð fyrir að þáverandi eigendur hafi viljað merki sem fæst og á greinilegum kennileitum. Óheppilegt sé að miða merki jarða að hluta eða í heild við farvegi lækja. Það sé ólíklegt að þáverandi landeigendur hafi valið merkjum þann farveg enda hvorki tilefni né aðstæður til þess.

            Ýmsar skriflegar umfjallanir liggi fyrir um merki jarðanna. Gögn af þessum toga hafi ekki gildi að lögum; þær hvorki auki né skapi rétt til handa gagnstefnanda. Utan þess að vera flestar óþinglýstar, óundirritaðar og einhliða séu þær ekki samhljóða. Megi því með réttu draga í efa áreiðanleika þeirra. Óvíst sé hvort frásagnir þessar byggist á skoðunum eða hugmyndum jarðeiganda eða annarra á hverjum tíma um merki jarðanna eða munnlegri frásögn fyrri eigenda, eða einhverju öðru, t.a.m. elsta landamerkjabréfi Hauksstaða frá 1883. Þær skriflegu umfjallanir sem liggi fyrir í málinu ýmist greini frá merkjum í Deildarfoss eða ekki. Sumar hverjar greini frá því að landamerkjalína fari um Deild, sem samræmist því að bein lína sé milli Illalækjaróss við Jökulsá og Búrfells. Aðrar greini frá merkjum á Miklafelli, sem séu á milli Búrfells og Laxárdalshnjúks. Þau merki hefðu í för með sér aukið land til handa stefnanda. Hinar skriflegu umfjallanir séu þannig ekki til þess fallnar að leysa úr ágreiningi aðila. Öðru nær. Ef horft yrði algerlega framhjá þinglýstum merkjabréfum, sem sé ótæk niðurstaða og ekki í samræmi við lög og réttarframkvæmd, yrði fyrst vafi um merki jarðanna. Þinglýst merkjabréf jarða, undirrituð af eigendum eða forráðamönnum, séu að áliti aðalstefnanda vandaðasta samtímaheimild sem völ sé á, utan þess að vera lögmætt samkomulag eigenda jarða um hvernig merki jarða séu. Ekki standi lagarök til þess að víkja frá merkjabréfum þessum við úrlausn þessa máls.

            Að áliti aðalstefnanda beri gagnstefnandi sönnunarbyrði fyrir því að merki jarðanna séu dregin á annan veg eða hafi tekið breytingum frá því sem lýst sé í þremur yngstu þinglýstum merkjabréfum jarðanna, sem dómkrafa aðalstefnanda taki mið af. Meginreglan sé sú að sá sem leitist við að vefengja efni þinglýstra merkjabréfa beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni.

            Með vísan til framanritaðs telji aðalstefnandi að landamerki jarðanna skuli dregin svo sem greinir í dómkröfu, úr Illalækjarósi með beinni línu í Búrfell, þaðan beina línu í Laxárdalshnjúka, þaðan beina línu í Beinavörðu (miðheiði). Að sama skapi krefjist aðalstefnandi þess að gagnstefnandi verði dæmdur til að fjarlægja girðingu sem hann hafi reist innan landamerkja Sellands, eins og þeim sé lýst í dómkröfu, að viðlögðum dagsektum að mati dómsins. Varðandi kröfu um dagsektir vísar aðalstefnandi til 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Gagnsök:

            Í greinargerð sinni í gagnsök vísar aðalstefnandi að mestu til málsástæðna í stefnu í aðalsök. Hann leggur áherslu á að þrjú yngstu merkjabréf Hauksstaða og Fossvalla séu samhljóða og skýrar réttarheimildir um merki jarðanna Sellands og Hrólfsstaða sem skipt hafi verið úr fyrrnefndum jörðum, hvorri í sínu lagi, um miðbik síðustu aldar. Merkjabréf þessi feli í sér gildan samning um merki jarðanna, sem ekki hafi verið breytt með lögformlegum hætti. Því standi merkjabréf þessi óhögguð að gildi og réttaráhrifum og á þeim skuli byggt við úrlausn málsins. Merkjabréf þessi lýsi merkjum jarðanna úr Illalækjar- og Illalækjargilsósi við Jökulsá í mitt Búrfell. Um sé að ræða þann stað þar sem Illilækur rennur í Jökulsá, sbr. dómkröfu stefnanda í aðalsök. Með vísan til orðalags bréfanna sé merkjalínan úr Illalækjarósi í Búrfell. Ekki sé tekið fram að merkjalínan eigi viðkomu í öðrum kennileitum og því sé bein lína þar á milli. Ótækt sé að gagnálykta frá orðalagi bréfanna svo sem gagnstefnandi byggi á.

            Varðandi aðalkröfu gagnstefnanda tekur aðalstefnandi fram að þeim málatilbúnaði gagnstefnanda að sóknarlýsing Hofteigsprestakalls feli í sér að Illalækjarós eða Illalækjargilsós sé ekki þar sem Illilækur fellur í Jökulsá á Dal sé sérstaklega andmælt. Þessu utan liggi í hlutarins eðli að lýsing þessi sé ekki samningur jarðeigenda um merki og ekki runnin undan rifjum þeirra sem samþykkt hafi síðar merkjabréf jarðanna og þinglýst þeim. Skoða verði sóknarlýsinguna í því ljósi að ekki sé um löggerning að ræða sem sé ætlað að hafa réttaráhrif, ólíkt því sem gildi um þinglesin merkjabréf. Ekki sé unnt að útiloka að lýsing þessi kunni að byggjast á misskilningi að einhverju leyti. Í öllu falli sé ljóslega rangt farið með áttir í lýsingunni sem dragi úr áreiðanleika hennar.

            Hvað sem því líði sé ljóst að þeir sem komið hafi að gerð þinglýstra merkjabréfa jarðanna hafi litið þannig á að Illalækjar- eða Illalækjargilsós væri við Jökulsá, þar sem Illilækur rennur í ána. Vilji þeirra hafi því staðið til þess að merki jarðanna væru frá þeim stað, þ.e. frá ósi Illagilsins og Illalækjar við Jökulsá og þaðan í Búrfell. Verði það ljóslega ráðið af lýsingu bréfanna og þeirra breytinga á orðalagi sem gerðar hafi verið með merkjabréfum 1921. 

            Í gagnstefnu sé á því byggt að orðið ós merki uppsprettu eða upptök og því sé kennileitið Illalækjar- eða Illalækjargilsós við upptök lækjarins, en ekki þar sem lækurinn falli í Jökulsá á Dal, og að merki jarðanna séu eftir læknum til Jökulsár. Vísað sé til framlagðs afrits úr Íslenskri orðabók þessu til stuðnings. Í orðabók sé merking þessi skráð forn eða úrelt og virðist alfarið að rekja til ummæla Þórs í Snorra-Eddu „á skal að ósi stemma“ og síðari tíma bollalegginga um hver merking þeirra hafi verið. Þótt einhverjir hafi talið að Þór hafi notað orðið ós í merkingunni upptök eða uppspretta sé það umdeilt. Engar heimildir séu þekktar sem bendi til þess að orðið ós hafi í daglegu máli verið notað í þessari merkingu. Því sé sú málsástæða afar langsótt að orðið ós í örnefninu Illalækjar- eða Illalækjargilsós merki uppsprettur í merkjabréfum jarðanna frá 1874 og 1921. Vísar aðalstefnandi þessu til stuðnings til framlagðs bréfs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þar sem fjallað er um merkingu orðsins ós.

            Samkvæmt almennum málskilningi, sem nái langt aftur í aldir, merki ós ár- eða lækjarmynni, þ.e. stað þar sem lækur renni í aðra á eða vatn og samræmist því að Illækjarós eða Illalækjargilsós sé þar sem Illilækur renni greinilega úr Illagili í Jökulsá. Skilningur manna til þessa dags og framan af síðustu öld hafi verið með þessum hætti, varðandi Illalækjarós. Ekki þurfi að leita langt yfir skammt til þess að benda á dæmi þess að lækjarós sé álitinn merkja stað þar sem lækur renni í á eða læk. Nærtækt dæmi sé hvar Deildarlækir renni í farveg Deildar. Þar sé talað um ósa Deildalækjar, eins og heitið Deildarlækjarósar beri með sér. Sá staður sé ofan og innan við Illalækinn. Þess megi geta að þegar lína sé dregin úr Illalækjarósi við Jökulsá í mitt Búrfell þá fari línan mjög nálægt þessum lækjarmótum. Þá sé fjarlægð milli þessara lækjarmóta og Búrfells annars vegar og Illalækjaróss hins vegar álíka mikil. 

            Svo sem fyrr greini sé í merkjabréfum jarðanna frá 1921 vísað annars vegar til Illalækjaróss og hins vegar til Illalækjargilsóss við Jökulsá. Illagil eða Illalækjargil nái að eldri þjóðvegi. Illagil nái ekki að uppsprettu Illalækjar. Því geti Illalækjargilsós trauðla merkt uppsprettu Illalækjar, sem sé talsvert ofan við Illagilið. Gilsós sé mynni gilsins, þ.e. sá staður þar sem lækurinn falli úr gilinu í Jökulsá.

            Í örnefnaskrá Fossvalla, bls. 3, segi: „Næst er svo Illalækjargil (28), og eftir því rennur Illilækur (29). Þar við ós þess eru merki“. Lýsing þessi feli ekki í sér að merki séu við uppsprettu Illalækjar eða eftir farvegi lækjarins, en samræmist því að merki séu dregin frá ósi Illalækjar eða Illagilsins, þ.e. hvar Illilækur renni í Jökulsá.

            Í örnefnaskrá Hauksstaða segi á bls. 1: „Utast er einnig Deild (8). Rétt utan við hana er Illilækur (9) sem er á merkjum neðan til, ...“ Lýsing þessi feli ekki í sér að merki jarðanna séu við uppsprettu Illalækjar eða eftir farvegi hans, en samræmist því að merki séu dregin frá ósi Illalækjar eða Illagilsins, þ.e. hvar hann renni í Jökulsá.

            Þá áréttist að merki jarðanna séu dregin „úr“ Illalækjar- eða Illalækjargilsósi við Jökulsá í mitt Búrfell, ekki eftir Illalækjarósi, sem hefði verið nærtæk lýsing ef allur lækurinn væri á merkjum. Þannig samræmist orðalag bréfanna alls ekki því, að umþrættur ós sé uppi í landinu ofan við Jökulsá, eða að vísað sé til alls lækjarins, í merkjabréfum. Ef vilji aðila hefði staðið til þess að merki væru eftir Illalæk, hefði þeim verið í lófa lagið að lýsa þeim þannig t.a.m. að merki væru frá ósi Illalækjar við Jökulsá til upptaka, þaðan í Búrfell, eða að merki væru eftir farvegi Illalækjar þaðan í Búrfell o.s.frv.

            Í næstum samhljóða merkjabréfum frá 1921 segi annars vegar „úr Illalækjarós við Jökulsá“ og hins vegar „úr Illalækjargilsós við Jökulsá“. Þannig sé hnykkt á því að merki jarðanna séu dregin frá ósi lækjarins eða gilsins „við Jökulsá“. Í eldri merkjabréfum frá 1873-1874 sé ekki samsvarandi orðalag og látið nægja að vísa til Illalækjaróss án frekari útlistunar. Í öðru yngra bréfinu sé auk þess vísað til Illalækjargilsóss, svo sem fyrr sé vikið að, þ.e. að merki séu frá ósi Illalækjargils eða Illagils. Ekki sé unnt að leggja þann skilning í orðalag bréfanna að Illilækur sé á merkjum jarðanna frá uppsprettum hans. Þess megi geta að uppsprettur lækjarins séu í nálega hálfs kílómetra fjarlægð frá ósi hans við Jökulsá og talsvert fyrir ofan Illalækjargilið eða Illagilið sem nái að eldri þjóðvegi.

            Í orðalagsbreytingum yngri merkjabréfa frá þeim eldri felist ótvíræð viljaafstaða þeirra sem samþykkt hafi bréfin að merki jarðanna skyldu vera frá ósnum við Jökulsá þaðan í mitt Búrfell. Með breyttu orðalagi bréfanna sé hnykkt á þeim skilningi að Illalækjarós eða Illalækjargilsós sé sá staður þar sem Illilækur falli í Jökulsá. Orðalag merkjabréfanna frá 1921 geti ekki stafað af misskilningi „á eldri merkjum og fyrri orðalagsnotkun.“ Þessar hugrenningar gagnstefnanda séu vanreifaðar og eigi ekki stoð í gögnum málsins. Guðmundur Pétursson, bóndi á Hauksstöðum, svo og Jón Jónsson, frá Hvanná, undirriti öll merkjabréf jarðanna sem fyrir liggi, þ.m.t. frá 1873-1874. Vangaveltur um misskilning eigi trauðla rétt á sér. Hafa skuli hugfast að eigendum og fulltrúum jarða hafi verið frjálst að semja um merki þeirra 1921. Í merkjabréfi Fossvalla frá 1921 komi fram að Jökuldalshreppur sé eigandi jarðarinnar. Óljósri málsástæðu gagnstefnanda þess efnis að hreppurinn hafi ekki verið til þess bær að koma að samningu merkja jarðanna sé andmælt, svo og fullyrðingum um að ekki hafi verið heimilt að breyta fornum merkjum jarðanna, sem þess utan hafi ekki verið leidd í ljós. Sönnunarbyrði um þetta atriði hvíli á gagnstefnanda. Ekkert sé fram komið sem styðji þessa málsástæðu, auk þess sem hin þinglýstu merkjabréf hafi staðið athugasemdalaust allt til þessa dags.

            Hugmyndir gagnstefnanda um merki milli jarðanna séu öðrum þræði misvísandi. Í öllu falli hafi þær ljóslega tekið breytingum frá því að lögmaður þáverandi eiganda Sellands hafi sent gagnstefnanda áréttingarbréf 25. febrúar 2012 um álit sitt á því að merkjalína jarðanna væri bein milli Illalækjaróss við Jökulsá og Búrfells.

            Í fyrsta svarbréfi gagnstefnanda sé ljóslega gengið út frá því að Illalækjarós sé sá staður þar sem Illilækur falli úr Illagili í Jökulsá á Dal, svo sem dómkrafa í aðalsök gangi út frá. Hjálagt með bréfinu hafi m.a. fylgt kort Páls Pálssonar, þar sem Illalækjarós hafi verið tilgreindur á sama stað og yfirlýsing Jóns Hávarðs, fyrrum eiganda Sellands, þar sem gengið sé út frá því að Illalækjarós sé á sama stað. Að auki megi vísa til korts áritaðs af Páli Pálssyni þar sem ör vísi á þennan stað og hann merktur Illalækjarós. Þá áréttist tilvísun til uppdráttar sem fylgt hafi stofnskjali lóðar, undirrituðu af gagnstefnanda, þar sem Illalækjarós sé merktur og hnitsettur á sama stað og í dómkröfu aðalstefnanda í aðalsök. Það hafi fyrst verið með bréfi lögmanns gagnstefnanda í aðdraganda sáttafundar milli aðila undir stjórn sýslumanns árið 2014 að viðraðar hafi verið áður óþekktar hugmyndir um að Illalækjarós væri ekki við Jökulsá á Dal heldur ofar í landinu við ætlaða uppsprettu lækjarins, sem sé fjarri lagi greinileg.

            Að öllu virtu styðji heimildir sem liggi fyrir í málinu, svo og venjulegur málskilningur, að Illalækjarós eða Illalækjargilsós sé sá staður þar sem Illilækur renni í Jökulsá úr Illagili. 

            Svo sem fyrr greini sé Deildarfossi ekki lýst á merkjum í þremur yngstu merkjabréfum jarðanna. Eigi að síður byggist kröfur gagnstefnanda á því að merkjalína fari um Deildarfoss frá ætluðum uppsprettum Illalækjar í Búrfell. Það sé langsótt hugmynd að forsvarsmenn jarðanna hafi sammælst um að merkjalínan færi um Deildarfoss og á sama tíma ekki haft fyrir því að geta um kennileitið í þremur yngstu merkjabréfunum. Hinir sömu aðilar hafi haft fyrir því að hnykkja á því að ósinn væri við Jökulsá með orðalagsbreytingum í merkjabréfum frá 1921. Án viðmiðunar við Deildarfoss sé vandkvæðum bundið að staðsetja landamerki í ætlaðar uppsprettur Illalækjar. Að því gættu sé sú staðreynd að Deildarfossi sé ekki lýst á merkjum ljóslega til marks um að kennileitinu hafi ekki verið ætlað að vera á merkjum jarðanna og að sama skapi að Illalækjarós sé ekki uppspretta lækjarins.

            Þá verði að hafa í huga sjónarmið sem hafi verið að ryðja sér til rúms í upphafi 20. aldar að hafa merki jarða sem fæst og merkjalínur beinar. Sem dæmi um fá og bein merki af þessum toga séu merki milli Hauksstaða og Hrólfsstaða en þar sé landi skipt í miðju frá fjalli til Jökulsár. Þá verði að horfa til staðhátta en engin skil séu í landinu á hinu umþrætta svæði milli Hrólfsstaða og Sellands.

Því sé andmælt að gagnstefnandi hafi unnið eignarrétt fyrir hefð á landi neðan þjóðvegar samkvæmt lögum nr. 46/1905 vegna girðingar neðan vegar við Illagil. Girðing þessi afmarki ekki landsvæði, þótt hún liggi meðfram Illagili. Kröfugerð taki ekki mið af málsástæðu þessari, þ.e. svæðið sem á að vera hefðað sé ekki afmarkað sérstaklega í dómkröfum. Málatilbúnaður um hefð sé því ekki í samræmi við aðalkröfu gagnstefnanda í málinu og því vanreifaður og óljós.

            Við umræddri girðingu, sem sé ekki merkjagirðing, hafi verið hróflað þegar nýr þjóðvegur hafi verið lagður neðar um Illagil. Ekki hafi verið sýnt fram á að nýting lands við girðingu hafi verið markviss eða þess eðlis að eignarréttur fyrir hefð hafi skapast. Engin grein sé gerð fyrir nýtingu lands við girðingu í gagnstefnu, enda líklega takmörkuð verið. Þá sé ekki unnt að líta svo á að gagnstefnandi hafi verið grandlaus um eignarrétt annarra til svæðisins. Gögn málsins sýni fram á að gagnstefnandi hafi ekki litið svo á að allt land innan girðingar neðan vegar tilheyrði Hrólfsstöðum, sbr. hugmyndir hans um að merkjalína væri úr Illalækjarósi við Jökulsá í Deildarfoss. Því séu hefðarskilyrði ekki uppfyllt. Þá hafi ekki verið sýnt fram á óslitið eignarhald samkvæmt 2. gr. laga nr. 46/1905.

            Ekki sé vitað eftir hvaða heimildum mörk séu dregin upp á korti sem liggi fyrir í málinu. Innbyrðis ósamræmi sé í þeim þegar að sé gáð. Eðli máls samkvæmt sé sönnunargildi gagna af þessum toga hverfandi, ef nokkurt, andspænis þinglýstum og samhljóða merkjabréfum. Áréttar aðalstefnandi að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem vilji vefengja merkjabréf jarða og séu sönnunarkröfur þar um strangar. Ekki nægi hugleiðingar um óljósar líkur þess að merki kunni að liggja annars staðar.

            Varðandi varakröfur gagnstefnanda vísar aðalstefnandi til framangreindra málsástæðna sinna varðandi kröfu um sýknu af aðalkröfu gagnstefnanda, sem og málsástæðna sinna í aðalsök. Hann áréttar að málatilbúnaður um merki um svonefnd lækjarmót eigi sér enga stoð í þinglýstum merkjabréfum, eða öðrum gögnum málsins.

                       

III

Málsástæður gagnstefnanda

            Aðalsök

            Gagnstefnandi tekur fram, í greinargerð í aðalsök, að ekki séu gerðar athugasemdir við kröfur aðalstefnanda varðandi landamerki við Beinavörðu, á Laxárdalshnjúk og á miðju Búrfelli og hnitsetningar þeirra. Ljóst sé að landamerkjalínur liggi í beinum línum milli punktanna. 

            Gagnstefnandi kveðst a.ö.l. hafna málatilbúnaði aðalstefnanda. Engar heimildir, þ.m.t. landamerkjabréf, lýsi því að landamerki neðan Búrfells liggi um beina línu. Í ljósi þess beri að líta til þess að öll landamerkjabréf lýsi sömu merkjum. Sé sýnt að bæði eldri og yngri heimildir geri grein fyrir legu landamerkja með nánari hætti, m.a. um að Deildarfoss og að lækurinn Deild ráði merkjum að hluta. Þá sé ljóst af sóknarlýsingu Hofteigsprestakalls frá 1874 og landamerkjabréfum frá 1883 og 1884 að með tilvísun í Illalækjarós sé átt við stutt vatnsfall, þ.e. Illalækinn sjálfan, sem einnig sé nefndur Illagilslækur. Viðbót í orðalagi landamerkjabréfa frá 1921, sem gefi í skyn að Illalækjarós sé staður við Jökulsá á Dal, hafi ekki verið ætlað að breyta fornum merkjum jarðanna.

            Beri því að sýkna gagnstefnanda af kröfu aðalstefnanda um viðurkenningu landamerkja, en nánar kveðst gagnstefnandi vísa til umfjöllunar í gagnstefnu.

            Mótmælt sé kröfu um fjarlægingu girðingar að viðlögðum dagsektum. Byggt sé á því að girðing neðan vegar hafi staðið þar frá árinu 1974 athugasemdalaust. Land innan girðingar sé hefðað, með vísan til 2. gr. hefðarlaga, nr. 46/1905.

            Þá sé vísað til þess að lega girðingar ofan vegar hafi verið ákveðin 2006 í samráði við Birgi Þór Ásgeirsson heitinn, þáverandi eiganda Sellands, sem aðalstefnandi taki rétt sinn frá, á grundvelli setu í óskiptu búi. Aðalstefnandi sé bundinn af því að staðsetning girðingarinnar hafi verið ákveðin á grundvelli afstöðu þáverandi eiganda Sellands til landamerkja. Upplýsingar um landamerki hafi þá m.a. verið til skoðunar vegna vinnu Nytjalands við uppdrátt merkja á árinu 2003 og staðfestingar á merkjum við Jökulsá á Dal, vegna vinnu Landsvirkjunar. Hvað sem líði réttum landamerkjalínum sé staðsetning girðingar á meðábyrgð þáverandi eiganda Sellands, sem aðalstefnandi sæki rétt sinn til. Kostnaður af færslu girðingar ætti því að vera sameiginlegur, ef skilyrði eru til að fara fram á færslu á annað borð.

            Gagnsök - aðalkrafa

            Gagnstefnandi kveður gagnstefnu hvíla á því að einungis sé ágreiningur um legu landamerkja milli Sellands og Hrólfsstaða á svæði neðan Búrfells og að Jökulsá á Dal. Gagnstefnandi vísi um kröfur sínar til kröfulínukorts á dskj. 60, og hnita sem merkt séu L01-L07, eins og við eigi.

            Grundvallarsjónarmið við úrlausn landamerkjaágreiningsins sé að fyrirliggjandi landamerkjagögn, þ.m.t. fjögur landamerkjabréf, lýsi öll sömu merkjum og engar upplýsingar bendi til að ágreiningur hafi verið um landamerki sem bréfunum hafi verið ætlað að setja niður.

            Þá sé ljóst að fyrirliggjandi landamerkjabréf lýsi því ekki að frá miðju Búrfelli liggi landamerki í beinni línu að Jökulsá á Dal. Til dæmis sé vísað til landamerkjabréfs Fossvalla, dags. 28. október 1921, og Hauksstaða, dags. 24. október 1921, þar sem segi að merki liggi um beinar línur milli merkjapunkta ofan Búrfells. Í bréfunum sé hins vegar ekki vísað til beinna lína neðan Búrfells. Með einfaldri gagnályktun frá texta bréfanna sé ljóst að merki liggi þar ekki um beina línu. Bæði eldri og yngri gögn styðji þessa ályktun.

            Í ljósi þessa beri að líta til eldri heimilda til fyllingar landamerkjalýsingu landamerkjabréfanna frá 1921.

            Gagnstefnandi bendi á að aðalstefnandi byggi á þessari sömu aðferðafræði. Landamerkjabréfin frá 1921 tilgreini ekki Beinavörðu sem merkipunkt, heldur vísi bréfin í stefnu til miðheiðar. Aðalstefnandi beiti því réttri aðferðafræði, þegar hann byggi á því að Beinavarða sé merkjapunktur, enda komi hún fram í landamerkjabréfi Fossvalla, dags. 21. júní 1884.

            Beinavarðan komi ekki fram í landamerkjabréfi Hauksstaða, dags. 17. júní 1883. Í ljósi þess að bréf Fossvalla lýsi þessum merkjum nánar beri að byggja á hinni nákvæmari merkjalýsingu. Með sama hætti beri að líta til bréfs Hauksstaða, dags. 17. júní 1883, um nákvæmari merkjalýsingu neðan Búrfells, enda feli ekkert landamerkjabréf í sér að merki frá Jökulsá á Dal liggi þaðan í beinni línu.

            Orðnotkun og staðhættir

            Gagnstefnandi byggi á því að skýring gagna um landamerki verði að hvíla á orðnotkun, staðháttum og tiltækum úrræðum hvers tíma við að setja niður greinileg landamerki. Slíkt hafi verið nauðsynlegt með tilliti til notkunar lands. Verði á grundvelli þess að gera ráð fyrir að landamerki hafi verið með þeim hætti að hægt væri að glöggva sig á þeim löngu fyrir tíð korta og loftmynda.

            Illagilslækurinn sé stuttur lækur sem eigi upptök sín stutt ofan þjóðvegar og falli í Jökulsá á Dal, neðan vegar, fram af hömrum. Slíkir staðhættir falli ekki undir venjulega merkingu orðsins ós. Ós eigi ekki við um stað þar sem lækur falli í sjó, vatn eða á, fram af hömrum.

            Ós vísi hins vegar til upptaka vatnsfalls og einnig til vatnsfalla sem renni stutta leið, skv. skýringum íslenskrar orðabókar.

            Elsta lýsing á landamerkjum sem deilt sé um, þá milli jarðanna Hauksstaða og Fossvalla, komi fram í lýsingu Hofteigsprestakalls frá 1874. Frá Búrfelli sé merkjum lýst svo: ,,... þá beint til suðurs í Deildarfoss og sömu stefnu í Illalækjarós, sem fellur í Jökulsá og skiptir landi milli Hauksstaða í Hofteigssókn og Fossvalla í Kirkjubæjarsókn.“ Orðlagið vísi þannig óumdeilanlega til Illagilslækjarins sem Illalækjaróss, sbr. orðlagið ,,sem fellur í Jökulsá“. Sá staður þar sem umrædd lína liggi í Illagilslækinn sé jafnframt nærri upptökum hans, þar sem farvegir úr mýrum og uppsprettum komi saman og myndi samfelldan farveg lækjar. Þar sé hnitapunktur L07, skv. dómkröfu.

            Staðhættir séu jafnframt með þeim hætti að nærri upptökum Illagilslækjar sé bæði Deildarfoss og mitt Búrfell sýnilegt og beri Deildarfossinn við þá línu, þannig að landamerki jarðanna hafi verið skýr. Til samanburðar sé bent á að frá Illagilslæk, þar sem hann falli í Jökulsá á Dal, sjáist hvorki Búrfell né Deildarfoss og engin leið að glöggva sig á landamerkjum jarðanna, fyrir tíð korta og hnitsetningar.

            Þar sem lækir renni sé nægjanlegt að vísa til þeirra. Landamerkjabréfin frá 1883 og 1884 vísi til Illalækjaróss, í þeirri merkingu að vísað sé til hins stutta vatnsfalls. Merkin liggi frá Búrfelli í Illallækjarós, þ.e. lækinn. Hauksstaðabréfið tiltaki þó Deildarfoss, sem sé í línu að læknum.

            Í landamerkjabréfum frá 1921 komi sú viðbót að vísað sé til Jökulsár á Dal. Í því geti falist árétting á að merkjalýsingin nái þangað, þ.e. vísað sé til þess að lækurinn (Illalækjarós) nái að Jökulsá á Dal. Hugsanlega lýsi viðbótarorðalagið þó að einhverju leyti misskilningi á eldri merkjum og fyrri orðalagsnotkun. Ekkert bendi hins vegar til að ætlan aðila hafi verið að breyta merkjum frá eldri lýsingum. Orðlag bréfanna frá 1921 verði skýrt þannig að Illagilslækurinn, þ.e. Illagilsós, sem sé við Jökulsá, sé á merkjum og merkin nái að Jökulsá, sbr. hnit L06.

            Þá sé ljóst að örnefnið Deild vísi til lækjar sem haft hafi þýðingu varðandi landamerki. Það sama gildir um Deildarfoss, sem landamerkjabréf Hauksstaða frá 1883 vísi sérstaklega til. Sjónarmið aðalstefnanda feli í sér að lækurinn eða fossinn hafi enga þýðingu. Gagnstefnandi byggi á því að landamerki skuli liggja frá Illagilslæk, þ.e. Illagilsós við hnit L07, sem jafnframt sé nærri upptökum lækjarins, í Deildarfoss, hnit L05. Þaðan í sömu stefnu á mitt Búrfell við hnit L03.

            Bent sé á að í þeirri merkingu að Illagilsós vísi til Illagilslækjar, sbr. orðanotkun og kennileitaþekkingu í lok 19. aldar, hafi verið óþarft að tilgreina Deildarfoss sérstaklega í landamerkjabréfunum. Deildarfoss hafi fallið nákvæmlega í landamerkjalínu frá miðju Búrfelli og í lækinn Illagilsós, sbr. hnit L07, sbr. einnig lýsingu á takmörkum Hofteigssóknar frá 1874.  

            Þá sé sérstaklega vakin athygli á þeim staðháttum að neðan Deildarfoss megi á loftmyndum glögglega sjá gamla farvegi vatns úr Deild að Illagili. Ekki sé loku fyrir það skotið að Deildarlækurinn, eða kvíslar úr honum, hafi að fornu runnið um Illagilið og þá verið á merkjum jarðanna allt frá Jökulsá á Dal. Þegar farvegir hafi lokast hafi sömu merki viðhaldist þótt Deildarlækurinn, neðan Deildarfoss, rynni á síðari tímum einungis innan lands Hauksstaða.

            Um stöðu Fossvalla sem kristfjárjarðar og um breytingar á merkjum

            Fossvellir hafi verið kristfjárjörð þegar landamerkjabréf hafi verið gerð fyrir jörðina 1884 og 1921. Kristfjárjarðir hafi ýmis einkenni sjálfeignarstofnana, og hafi hvílt á því að þær hafi verið gefnar í tilteknum tilgangi, s.s. að ábúð þeirra eða afgjald af ábúð rynni til tiltekinna mála, s.s. fátækra í viðkomandi hrepp. Hreppur hafi getað haft umsjón með slíkum jörðum en ekki hafi verið um hefðbundið eignarhald að ræða. Í ljósi stöðu Fossvalla sem kristfjárjarðar verði ekki talið að hreppurinn hafi haft heimildir til að breyta merkjum slíkrar jarðar frá því sem gilt hafi að fornu. Líklegt sé að merki jarðanna séu mjög forn. Við skoðun á merkjum hafi fundist við Miklafell þrír steinar raðaðir upp, sem Páll Pálsson telji vera fornt lýritti, þ.e. staðfestingu á landamerkjum. Staðurinn sé 8 m frá merkjalínu dómsmáls þessa, sbr. kort á dskj. 60. Fleiri vörður séu á merkjasvæðinu, m.a. neðan Búrfells. Þá sé ítrekað að þrátt fyrir breytingu á orðlagi landamerkjalýsinga virðist aldrei hafa staðið til að landamerkjum jarðarinnar væri breytt.

            Gagnstefnandi byggi á því að landamerki jarða geti ekki breyst, vegna þess að orðanotkun misskiljist milli kynslóða eða misskilningur verði um merkingu kennileita. Í því felist ekki vilji eða afstaða til breytingar fornra landamerkja. Eftir fremsta megni beri að skýra nýjustu landamerkjabréf til samræmis við eldri merkjalýsingar. Þótt inn í landamerkjabréf frá 1921 hafi orðlagið ,,við Jökulsá“ verið tengt Illalækjarósi, sé unnt að leggja þá merkingu í Illalækjarós að vísað sé til lækjarins, frá Jökulsá á Dal.

            Hvað sem líði því orðalagi, sem komi fram í landamerkjabréfunum frá 1921, styðji síðari tíma gögn ekki að merki hafi verið í beinni línu frá Jökulsá á Dal í mitt Búrfell. Um það sé að öðru leyti vísað til gagna málsins og ítarlegrar umfjöllunar við 2. varakröfu um heimildir um að landamerki jarðanna séu ekki bein lína frá Jökulsá á Dal og í mitt Búrfell.

            Þá sé krafan jafnframt studd því að land innan girðingar frá 1974, neðan þjóðvegar, sé eign Hrólfsstaða á grundvelli hefðar, sbr. hefðarlög nr. 46/1905, einkum 2. gr. laganna.

            1. varakrafa

            Varðandi fyrstu varakröfu sé vísað til málsástæðna við aðalkröfu.

            Gagnstefnandi telji í ljósi heimilda um þýðingu Deildarlækjarins að hann ráði að hluta til mörkum þaðan sem hann liggi í stefnu að Búrfelli ofan Deildarfoss. Deildarlækurinn myndist af tveimur lækjum sem komi annars vegar að utan og hins vegar að innan. Lækirnir marki upphaf Deildarlækjarins á merkjum. Gagnstefnendur byggi á því að Deildin liggi á merkjum jarðanna frá Deildarfossi og upp að þessum lækjarmótum, sbr. hnit L04. Þaðan liggi bein lína í mitt Búrfell.

            2. varakrafa

            Gagnstefnandi kveður aðra varakröfu sína byggjast á þeim skilningi aðalstefnanda að Illalækjarós geti verið staður þar sem lækurinn falli fram af hömrum í Jökulsá á Dal. Með því sé viðurkennt að breytt orðanotkun eða misskilningur um kennileiti, eftir gerð landamerkjabréfa á 19. öld, hafi leitt til þess að Illalækjarós vísi einungis til staðar við Jökulsá, sbr. hnit L06. Hins vegar gildi sem fyrr að landamerkjabréf frá 1921 kveði ekki á um að þaðan sé bein lína í mitt Búrfell, heldur verði gagnályktað frá orðlagi bréfanna um merki ofan Búrfells að línan sé ekki bein neðan Búrfells.

            Þá verði einkum litið til landamerkjabréfs Hauksstaða, frá 1883, þar sem vísað sé til Deildarfoss, en þar komi fram nákvæmust lýsing á merkjum neðan Búrfells. Sé með því beitt sömu aðferðafræði og aðalstefnandi beiti þegar hann vísi til Beinavörðu, sem einungis sé tilgreind sem merkjapunktur í landamerkjabréfi Fossvalla frá 1884. Gagnstefnandi telji þá aðferðafræði rétta, en hún sé ekki einnota í þágu aðalstefnanda.

            Gagnstefnandi kveðst vísa til fjölda heimilda, eftir gerð landamerkjabréfa á árinu 1921, sem lýsi því að landamerki neðan Búrfells hafi ekki verið bein lína. Þessar heimildir lýsi því hvaða skilning hafi átt að leggja í landamerkjabréf jarðanna og komi til fyllingar þeirri stöðu að merkjum sé ekki lýst sem beinni línu. Heimildirnar beri að skoða í ljósi þess að ábúenda- og eigendaskipti hafi ekki verið tíð. Þannig hafi afi og amma fyrirsvarsmanns gagnstefnanda búið á Hauksstöðum frá 1931, foreldrar frá 1958 og móðurbróðir gagnstefnanda, Haukur Guðmundsson, hafi stofnað Hrólfsstaði, sem gagnstefnandi hafi síðar eignast. Föðurforeldrar aðalstefnanda hafi verið ábúendur á Fossvöllum frá 1918, en síðar hafi faðir og föðurbróðir hennar keypt Fossvelli, þ.e. á árinu 1942. Föðurbróðir hennar hafi verið eigandi jarðarhlutans Sellands fram til ársins 1963. Eiginmaður aðalstefnanda hafi orðið eigandi Sellands árið 2000.  

            Guðmundur Guðmundsson, eigandi Hauksstaða og ábúandi frá 1931, lýsi merkjum svo í örnefnalýsingu, sem líkast til sé unnin um 1960, að Illilækur sé á merkjum neðan til og svo í Deildarfoss og ráði svo Deildin upp í mitt Búrfell.

            Í örnefnalýsingu Karls Gunnarssonar vegna Sellands sé vísað til þess að við ós Illalækjargils séu merki, sbr. bls. 3 á dskj. 11. Þá sé í umfjölluninni vísað til Sellands sem svæðis sem liggi að Deildinni, sem lýsi því að Deildin sé að hluta til á merkjum.

            Ýmis kort lýsi sveitarfélagamörkum Hlíðar- og Jökuldalshrepps. Merkjum neðan Búrfells sé ekki lýst í beinum línum. Óljóst sé um heimildir að baki eldri kortum, en hafi merki verið svo augljós og einföld að þau lægju um beina línu frá Jökulsá sé villa kortanna langsótt. Vísað sé til korts sem sé unnið af AMS, frá 1948, sem lýsi m.a. sveitarfélagamörkum.

            Í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, frá árinu 1974, sé í lýsingu Fossvalla vísað til þess að merki jarðarinnar liggi úr Illagilsósi við Jökulsá um Deild. Í lýsingu Hauksstaða sé vísað til þess að merkin séu við hreppamarkalækinn Deild í Deildarfoss.

            Í viðbótarútgáfu ritsins Sveitir og jarðir í Múlaþingi, frá 1994, komi fram kort af Hlíðarhreppi og Jökuldalshreppi. Ljóst sé að merki Sellands fylgi þar Illagilslæk og Deild að hluta.

            Byggingarbréf fyrir Selland, gert af jarðareigandanum Sveini Guðmundssyni til ábúandans Jóns H. Jónssonar, dags. 22. apríl 1988, lýsi landamerkjum Sellands. Í þeirri lýsingu sé m.a. vísað til Beinavörðu og jafnframt í Deildarfoss.

            Haukur Guðmundsson, þáverandi eigandi Hrólfsstaða, hafi reist girðingu upp með Illalæk neðan þáverandi þjóðvegar í kringum árið 1974. Engin athugasemd hafi komið fram um þá girðingu.

            Fyrirsvarsmaður gagnstefnanda og Birgir Ásgeirsson, þáverandi eigandi Sellands, hafi farið á staðinn og átt samráð um staðsetningu skógaræktargirðingar á árinu 2006, sem liggi að hluta eftir línu skv. dómkröfu þessari. Enginn ágreiningur hafi komið fram um þessa girðingu fyrr en mál þetta hafi hafist.

            Á árinu 2003 hafi staðið yfir vinna í svokölluðu Nytjalandsverkefni, sem hafi falist í því að skrá merki bújarða. Þeirri aðferðafræði hafi verið fylgt að landeigendur hafi verið kallaðir á fund og hafi þeir gert grein fyrir merkjum á loftmynd. Merkin hafi á þeim fundi verið dregin upp með Illagilslæk, upp að þjóðvegi og þaðan í beina stefnu í Deildarfoss.

            3. varakrafa

            Gagnstefnandi kveður þriðju varakröfu sína vera eins og aðra varakröfuna, nema byggt sé á því að landamerki ofan við Deildarfoss liggi eftir Deildarlæk að lækjarmótum við hnit L04, og þaðan í mitt Búrfell, sbr. einnig umfjöllun um varakröfu.

           

IV

Niðurstaða

            Í málinu er, eins og fram er komið, krafist viðurkenningar á öllum merkjum jarðanna Sellands og Hrólfsstaða, sem áður tilheyrðu jörðunum Fossvöllum og Hauksstöðum, en aðeins er ágreiningur um þann hluta landamerkjanna sem liggur frá miðju Búrfelli (L03) og að Jökulsá á Dal (L06), þar sem Illilækur eða Illagilslækur rennur í ána. Ekki er ágreiningur um hnitsetningar landamerkjapunkta. Dregur aðalstefnandi beina línu á milli framangreindra punkta, án þess að styðjast við fleiri kennileiti á þeirri leið. Gagnstefnandi byggir aftur á móti í öllum tilvikum á því að Deildarfoss, sem liggur nokkuð utar, sé á merkjum jarðanna á þessum hluta línunnar. Miðast kröfulínur hans ýmist við beinar línur ofan eða neðan við Deildarfoss, eða við það að merkin fylgi farvegi Illalækjar annars vegar og Deildar ofan við Deildarfoss hins vegar, upp að svokölluðum lækjarmótum þar sem Deildarlækir safnast saman í Deild.

            Sérstaklega er deilt um kennileitið Illalækjarós, þ.e. hvort um sé að ræða þann stað þar sem Illilækur, (sem er óumdeilt kennileiti) rennur í Jökulsá á Dal (punktur L06) eða hvort kennileitið vísi til upptaka lækjarins eða hugsanlega lækjarins sjálfs í heild, og merkin fylgi þá læknum frá punkti L06 við Jökulsá í stað ofar í læknum, punkt L07, sem gagnstefnandi nefnir Illalækjarós. 

            Eins og rakið hefur verið liggja fyrir í málinu fjögur þinglýst landamerkjabréf, eitt fyrir Hauksstaði frá 1883, annað fyrir Fossvelli frá 1884 og loks eitt bréf fyrir hvora jörð frá árinu 1921. Er óumdeilt að leggja beri þessi landamerkjabréf til grundvallar niðurstöðu um merki Sellands og Hrólfsstaða, sem skipt var út úr fyrrnefndum jörðum. Í þremur yngstu bréfunum eru merkin sögð liggja frá Illalækjarósi í mitt Búrfell, án þess að getið sé frekari kennileita á þeim hluta línunnar. Í elsta bréfinu, Hauksstaðabréfi frá 1883, er Deildarfoss aftur á móti talinn upp meðal kennileita á merkjum jarðarinnar, á milli Illalækjaróss og miðs Búrfells. Er því ótvírætt að Deildarfoss var talinn á merkjum Hauksstaða á móti Fossvöllum á árinu 1883, en látið verður liggja milli hluta hvort svo hafi verið frá fornu fari. Undir það kann sóknarlýsing fyrir Hofteigsprestakall frá 1874 að renna einhverjum stoðum, sem og framburður vitnsins Páls Pálssonar s.s. um að fornt lýritti hafi fundist nálægt merkjum jarðanna þar sem þau eru óumdeild, ofan Búrfells.

            Álitaefni er hvaða þýðingu það hefur að um kennileitið Deildarfoss er ekki getið í landamerkjabréfi Fossvalla frá 1884 og landamerkjabréfum Fossvalla og Hauksstaða frá 1921.

            Líkt og margoft hefur komið fram í dómafordæmum Hæstaréttar í málum af þessu tagi teljast landamerkjabréf yfirleitt meðal þýðingarmestu sönnunargagna í landamerkjamálum, enda fela þau í sér samning milli þar til bærra aðila um merki milli jarða, að því gefnu að rétt hafi verið að undirritun þeirra staðið.

            Við undirritun fyrirliggjandi landamerkjabréfa hefur gagnstefnandi hreyft þeirri athugasemd að Fossvellir hafi verið kristfjárjörð þegar fyrirliggjandi landamerkjabréf voru gerð á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Ekki hafi verið um hefðbundið eignarhald að ræða og því hafi fulltrúar Jökuldalshrepps ekki verið bærir til þess að breyta merkjum jarðarinnar frá því sem gilti að fornu. Gagnstefnandi hefur þó ekki haldið því fram að einhver annar hefði fremur verið til þess bær en hreppurinn að breyta merkjum jarðarinnar. Þá hefur gagnstefnandi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að í stöðu jarðarinnar sem kristfjáreignar hafi falist að hreppnum sem jörðin tilheyrði hafi verið óheimilt að semja um mörk jarðarinnar. Er beinlínis tekið fram í landamerkjabréfi Fossvalla frá 1921 að jörðin sé „eign Jökuldalshrepps“. Þá er ljóst að með því að sleppa Deildarfossi á merkjum var verið að auka land Fossvalla (síðar Sellands) á kostnað Hauksstaða (síðar Hrólfsstaða), en ekki afsala landi kristfjárjarðarinnar. Varðar því meiru að skoða hvernig undirritun landamerkjabréfa var háttað af hálfu Hauksstaða, en sami maður, Guðmundur Pétursson, ritaði undir landamerkjabréfin frá 1883 og 1884 af hálfu Hauksstaða. Undir bréfin frá 1921 ritaði að sama skapi sami maður, Pétur Guðmundsson, af hálfu Hauksstaða. Er óumdeilt að þessir menn hafi, hvor á sínum tíma, verið til þess bærir að ráðstafa landi Hauksstaða.

            Verður samkvæmt framanrituðu að líta svo á að öll fyrirliggjandi landamerkjabréf hafi falið í sér gildan samning á milli þeirra sem til þess voru bærir að ráðstafa landi jarðanna á hverjum tíma. Var landamerkjabréfunum auk þess öllum þinglýst og höfðu þau þannig opinbert trúgildi gagnvart t.d. grandlausum kaupnautum.

            Af eðli landamerkjabréfa sem samninga leiðir að yngri bréf þoka eldri bréfum til hliðar, sé um árekstur að ræða, nema unnt sé að telja bréfin samþýðanleg. Byggir aðalstefnandi á því að þrjú yngstu bréfin séu samþýðanleg, en að þau stangist á við elsta bréfið, bréf Hauksstaða frá 1883, þar sem Deildarfoss er talinn meðal kennileita á merkjum jarðanna. Gagnstefnandi byggir aftur á móti á því að öll bréfin séu samþýðanleg og túlka verði yngri bréfin til samræmis við elsta bréfið, sem sé ítarlegast um merki á þessu svæði. 

            Enga skýringu er á því að finna í gögnum málsins hvers vegna kennileitinu Deildarfossi var sleppt í Landamerkjabréfi Fossvalla frá 21. júní 1884, en fyrir liggur þó að sami maður, Guðmundur Pétursson, ritaði undir það bréf af hálfu Hauksstaða og undir landamerkjabréf Hauksstaða ári fyrr, 17. júní 1883. Verða engar ályktanir dregnar með vissu af gögnum málsins hvort um mistök hafi verið að ræða eða hvort ætlunin hafi verið að breyta merkjum jarðanna. Ætla verður hins vegar að við gerð landamerkjabréfa fyrir jarðirnar á árinu 1921 hafi þeim sem stóðu að undirritun þeirra bréfa verið kunnugt um þinglýst landamerkjabréf jarðanna frá 1883 og 1884 og að þau væru misvísandi um það hvort Deildarfoss væri á merkjum.

            Gögn málsins og vitnisburðir benda ekki til þess að landeigendur hafi í gegnum tíðina haft not sem máli skipta af þrætusvæðinu, en neðsti hluti þess, sem liggur milli Deildar og Illalækjar, mun ganga undir heitinu Deildartunga eða Tunga. Má þar nefna vitnisburð Sigurðar Magnússonar, sem fæddur er 1930 og kvaðst fyrir dómi hafa búið á Hauksstöðum til 1955. Fram kom að Sigurður væri stjúpsonur Guðmundar Guðmundssonar á Hauksstöðum, en skv. ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, útg. 1974, var Guðmundur Guðmundsson ábúandi á Hauksstöðum frá 1931 til 1970. Kvaðst Sigurður ekki minnast þess að slægjur hafi verið í Deildartungunni, og nefndi ekki önnur not af landi þar en að smalað hafi verið þar, auk þess sem hann kvaðst hafa sett þar niður trjáplöntur upp úr 1950.

            Í ljósi framanritaðs er nærtækt að ætla að það hafi verið meðvituð ákvörðun þeirra sem rituðu undir landamerkjabréf jarðanna árið 1921 að sleppa kennileitinu Deildarfossi, til einföldunar og til að eyða óvissu vegna misvísandi eldri landamerkjabréfa. Í málinu hafa ekki verið færð fram gögn eða vitnisburðir sem rennt geta stoð undir staðhæfingu gagnstefnanda um að ekki hafi staðið til að breyta fornum merkjum jarðanna við undirritun landamerkjabréfanna 1921.

            Ekki þykir tækt að gagnálykta með þeim hætti sem gagnstefnandi gerir frá texta landamerkjabréfanna, um að ekki sé bein lína á merkjum milli Búrfells og Jökulsár á Dal. Þá stoðar það ekki gagnstefnanda að vísa til aðferðafræði sem beitt hafi verið til þess að ná sátt um þann hluta línunnar sem aðilar eru sammála um.

            Síðari tíma gögn af ýmsu tagi liggja fyrir í málinu, s.s. örnefnalýsingar, umfjöllun í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, byggingarbréf Sellands frá 1988, ýmis landakort sem einkum sýna hreppamörk og ýmsar upplýsingar um vinnu við skýringu hreppamarka nálægt 1990, en þau voru talin falla saman við mörk jarðanna. Þótt sum þessara gagna kunni að styðja þá ályktun að landamerki jarðanna hafi ekki verið talin liggja beint frá Jökulsá á Dal í Búrfell, heldur taka sveig í átt að Deildarfossi, þá geta slík síðari tíma gögn ekki vegið þyngra en þinglýst landamerkjabréf sem greina ekki frá öðru en að merkin liggi beint úr Illalækjarósi við Jökulsá í mitt Búrfell. Þá getur afstaða síðari landeigenda eða ábúenda Sellands, eftir að landamerkjabréfin 1921 voru gerð, eða vanþekking þeirra á þinglýstum landamerkjabréfum ekki ráðið neinum úrslitum í málinu, enda er óumdeilt að ekki hefur verið gengið formlega frá neinni breytingu á merkjum jarðanna, eftir að landmerkjabréfunum frá 1921 var þinglýst.

            Að framanrituðu virtu verður á það fallist með aðalstefnanda að þrjú yngstu landamerkjabréfin séu samþýðanleg hvað varðar lýsingu merkja milli Jökulsár á Dal og Búrfells og að þau gangi framar elsta bréfinu, bréfi Hauksstaða frá 1883, hvað lýsingu sama hluta merkjanna varðar. Er því ósannað að Deildarfoss hafi verið á landamerkjum jarðanna, a.m.k. frá undirritun landamerkjabréfa Fossvalla og Hauksstaða á árinu 1921. 

            Gagnstefnandi byggir einnig á því að hann hafi eignast hið umþrætta landsvæði, Deildartunguna, fyrir hefð. Eins og gögnum málsins er háttað hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á að skilyrðum eignarhefðar samkvæmt lögum nr. 46/1905 sé fullnægt, enda verður hvorki séð að hann eða fyrri eigendur Hrólfsstaða, áður Hauksstaða, hafi farið með umþrætt landsvæði sem eign sína í fullnaðan hefðartíma og að þau not hafi útilokað not annarra. Breytir engu þótt girt hafi verið meðfram Illalæk neðan þjóðvegar í kringum 1970 til verndar trjágróðri og þótt ábúandi Hauksstaða hafi staðið fyrir því að planta trjáplöntum inn á þrætusvæðið upp úr 1950, eins og það afmarkast af dómkröfum aðila þessa máls. Þá verður ekki séð að gagnstefnandi hafi getað verið í góðri trú um að hið umþrætta landsvæði tilheyrði jörð hans, eins og þinglýstum landamerkjabréfum er háttað.

            Samkvæmt framanrituðu, og þar sem allar dómkröfur gagnstefnanda miða við að Deildarfoss liggi á merkjum, er óhjákvæmilegt að sýkna aðalstefnanda af þeim öllum. Sú niðurstaða fær enn frekar stoð í því að sá málatilbúnaður gagnstefnanda að Deild ofan við Deildarfoss ráði merkjum upp að svokölluðum lækjarmótum, fær enga stoð í landamerkjabréfum jarðanna. Þá verður fallist á það með aðalstefnanda að gögn málsins, þar á meðal landamerkjabréfin frá 1921, vitnisburðir og almenn málnotkun hnígi allt eindregið að því að með kennileitinu „Illalækjarós“ samkvæmt landamerkjabréfum jarðanna sé átt við þann stað þar sem Illilækur rennur í Jökulsá á Dal. Við vettvangsgöngu var auk þess ekki að sjá að upptök Illalækjar væru í grennd við punkt gagnstefnanda L07.

            Hvað dómkröfu í aðalsök varðar bendir gagnstefnandi á að taka verði mið af tiltækum úrræðum hvers tíma til að setja niður greinileg landamerki. Var við vettvangsgöngu bent á að þegar staðið sé niðri við Jökulsá á Dal (Illalækjarós) sjáist alls ekki í næsta punkt aðalstefnanda, Búrfellið. Landi hallar ekki mikið á þessu svæði og við vettvangsgöngu kom í ljós að ekki þarf að ganga ýkja langt upp fyrir þjóðveginn, þar sem lína aðalstefnanda liggur, til þess að það fari að sjást í Búrfellið, en þá er enn unnt að líta til baka og átta sig á staðsetningu Illagilslækjar þótt það sjáist ekki alla leið í ós hans við Jökulsána.

            Þar sem hvorki framangreind málsástæða, né aðrar málsástæður gagnstefnanda, þykja standa því í vegi, og þar sem dómkrafa aðalstefnanda samrýmist vel þeim þremur samþýðanlegu landamerkjabréfum sem leggja verður til grundvallar, verður fallist á dómkröfu aðalstefnanda og viðurkennt að merki jarðanna Sellands og Hrólfsstaða liggi eins og í dómkröfu hans greinir, í beinni línu frá punkti L06, Illalækjarósi, í punkt L03 í miðju Búrfelli.

            Aðalstefnandi krefst þess að auki að gagnstefnanda verði gert skylt með dómi að fjarlægja girðingu sem reist hafi verið innan landamerkja Sellands, eins og þeim er lýst í dómkröfu, að viðlögðum dagsektum að mati dómsins. Skilja verður þá dómkröfu, í ljósi þess sem greinir í stefnu, að átt sé við girðingu ofan þjóðvegarins sem óumdeilt er að fyrirsvarsmaður gagnstefanda lét reisa í kringum árið 2007, en ekki jafnframt við girðingu neðan þjóðvegar, Hrólfsstaðamegin við Illagilslæk, sem reist mun hafa verið fyrir áratugum síðan til verndar trjágróðri á bakka Jökulsár.

            Gagnstefnandi hefur ekki fært sönnur á fullyrðingu sína um að girðingin hafi verið reist á þeim stað sem hún stendur á með samþykki þáverandi landeiganda, Birgis Þórs Ásgeirssonar heitins. Með vísan til þess, og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður krafa aðalstefnanda tekin til greina og lagt fyrir gagnstefnanda að fjarlægja girðinguna að því marki sem hún stendur í landi Sellands, samkvæmt framangreindri niðurstöðu um landamerki jarðanna, fyrir 1. ágúst 2018, að viðlögðum 5.000 króna dagsektum.   

            Eftir atvikum, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Voru lögmenn aðila og dómari sammála um að ekki væri þörf á endurflutningi málsins þrátt fyrir þann drátt sem varð á dómsuppsögu fram yfir lögbundinn frest, sem helgaðist af embættisönnum dómarans.

                       

Dómsorð:

            Viðurkennt er að landamerki milli Sellands, landnr. 156874, jarðar aðalstefnanda, Ragnheiðar Ragnarsdóttur, og Hrólfsstaða, landnr. 156905, jarðar gagnstefnanda, Bláfelds ehf., séu sem hér segir: Frá Illalækjarósi (austur 702625, norður 552558), þaðan bein lína í mitt Búrfell (austur 699801, norður 553892), þaðan bein lína í Laxárdalshnjúk (austur 695479, norður 557509) og þaðan bein lína í Beinavörðu á miðheiði (austur 690158, norður 562389).

            Gagnstefnanda, Bláfeldi ehf., er skylt að fjarlægja girðingu sem reist hefur verið ofan þjóðvegar, innan landamerkja Sellands eins og þau eru viðurkennd með dómi þessum, fyrir 1. ágúst 2018, að viðlögðum 5.000 króna dagsektum.

            Málskostnaður milli aðila fellur niður.

 

                                                                 Hildur Briem