• Lykilorð:
  • Dánarbú - Gildi erfðaskrár
  • Opinber skipti á dánarbúi

 R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Austurlands föstudaginn 27. apríl 2018 í máli

nr. Q-1/2016:

A

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

B og

C

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

 
            Mál þetta, sem rekið er sem ágreiningsmál við opinber skipti á dánarbúi D, fæddum […], en hann var síðast til heimilis að […], en andaðist […], barst héraðsdómi 9. nóvember 2016 með bréfi skiptastjóra dánarbúsins.

            Sóknaraðili er A, […], […].

            Varnaraðilar eru B, […], […], og C, […], […].

            Dómkröfur sóknaraðila eru þær að viðurkennt verði með dómsúrskurði, að erfðaskrá sem D gerði […] sé ógild og verði ekki lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi hans, heldur skuli því skipt samkvæmt lögerfðareglum. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

            Dómkröfur varnaraðila eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að nefnd erfðaskrá D verði lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi hans. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, en einnig úr hendi E, […], […], sem í öndverðu var málsaðili sóknarmegin.

 

            Málið var tekið til úrskurðar 15. mars sl. eftir gagnaöflun aðila og munnlegan málflutning.

 

I.

            Á dómþingi Héraðsdóms Austurlands þann […] var dánarbú D, hér eftir nefndur arfleifandi, tekið til opinberra skipta. Var Eva Dís Pálmadóttir skipaður skiptastjóri dánarbúsins, en tilefni þessa var krafa lögmanns tveggja systkina arfleifandans, þeirra F, fæddur […], […], […], og E, fædd […], […], […]. Á nefnt dómþing var mætt af hálfu varnaraðila, þeirra B og C, en þeir eru bréferfingjar samkvæmt hinni umþrættu erfðaskrá. Að auki var mætt af hálfu fjórða […]systkinisins, G, sem er fæddur […], en hann býr á lögbýlinu […], […].

            Samkvæmt gögnum lýsti nefndur G því yfir við skiptastjóra með bréfi, dagsettu 9. október 2016, að hann hygðist ekki láta málefni dánarbús bróður síns, D, til sín taka, en að auki lét hann þá afstöðu í ljós, að réttast væri leggja erfðaskrá D til grundvallar við dánarbússkiptin.

            Fyrrnefndur F lést þann […]. Eftirlifandi eiginkona hans, A, tók í framhaldi af því við aðild að málinu, sem sóknaraðili, á grundvelli leyfis sýslumanns til setu í óskiptu búi, sem gefið var út […] nefnt ár.

            Af hálfu E var því lýst yfir á dómþingi 17. október 2017, eftir að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafði verið lögð fram, að hún félli frá öllum dómkröfum sínum í málinu, en hún var í öndverðu sóknarmegin í málinu.

 

II.

1.         Af hálfu málsaðila er lífshlaup arfleifandans, D, að nokkru rakið. Þeir greina m.a. frá því að D hafi fæðst á býli foreldra sinna, H og I, að […]. D hafi alist þar upp og búið alla sína tíð, en hann hafi verið ókvæntur og barnlaus. Í fyrstu hafi hann búið með foreldrum sínum og þremur systkinum, en eftir fráfall föður síns, árið […], hafi hann haldið heimili með móður sinni uns hún fór á hjúkrunarheimili […], en hún lést árið […]. Síðustu æviárin hafi D haldið einn heimili, en ætíð verið í nábýli við bróður sinn, G, sem einnig hafi búið á […] með fjölskyldu sinni.

 

            Samkvæmt gögnum afsöluðu foreldrar […]systkinanna tveimur sona sinna, þ.e.a.s. arfleifandanum D og G, bújörðinni […], þann […], ásamt mannvirkjum og húsum, að undanskildum tveimur tilgreindum spildum, sem þau ráðstöfuðu til systkinanna F og E. Í afsalinu er sérstaklega tekið fram að námuréttindi á jörðinni skiptist jafnt á milli allra […]systkinanna. Undir afsalið rituðu hjónin með börnum sínum fjórum í votta viðurvist.

            Óumdeilt er að arfleifandi stundaði búskap að […], á móti bróður sínum G og sambýliskonu hans og síðar eiginkonu, J, eftir að hún fluttist á býlið ásamt sonum sínum, varnaraðilum máls þessa, árið […]. Að auki stundaði D, sem ungur maður, vörubifreiðaakstur með búskapnum, líkt og G, bróðir hans.

            Sóknaraðili staðhæfir að skólaganga G heitins hafi verið skammvinn og að hann hafi alla tíð átt í erfiðleikum með lestur og skrift.

 

2.         Ágreiningslaust er með málsaðilum, að arfleifandinn D hafi snemma á lífsleiðinni hneigst til óhóflegrar áfengisneyslu og í raun alvarlegrar misnotkunar og að það hafi sett verulegt mark á hann, bæði til líkama og sálar. Vegna þessa hafi hann ekki stundað launavinnu síðustu áratugina fyrir andlát sitt, en notið örorkulífeyris almannatrygginga.

            Sóknaraðili vísar til þess að hin líkamlegu, en ekki síður andlegu, vanheilindi D um áratugaskeið séu skjalfest, auk þess að vera alþekktar af hans nánustu og sveitungum. Hefur sóknaraðili lagt fram læknisfræðileg gögn þessu til staðfestu, sem taka til áranna frá […] til […], ársins […] og loks áranna […]-[…]. Sóknaraðili vísar jafnframt til einstakra atvika í lífi arfleifandans fyrir 18 ára aldur og þá til marks um greindar- og þroskastig áður en til ofdrykkjunnar kom.

            Sóknaraðili vísar í máltilbúnaði sínum sérstaklega til hinna læknisfræðilegu gagna um hið bágborna og síversnandi heilsufar arfleifanda. Bendir sóknaraðili á að þar sé ítrekað getið um svefnleysi, ruglástand og jafnvel ofskynjanir arfleifanda, og að hann hafi verið chroniskur alcoholisti til margra ára. Þessu til viðbótar sýni gögnin að arfleifandinn hafi iðulega fengið krampa og blóðnasir og að hann hafi aldrei hlýtt ráðum eða þegið aðstoð til þess að hætta neyslu sinni.

            Sóknaraðili bendir m.a. á vottorð þess læknis, sem sent hafði arfleifanda, þann […], til Tryggingastofnunar vegna umsóknar hans um örorkubætur, en þar segir m.a.: […].

            Í þessu viðfangi er til þess að líta að samkvæmt örorkumati arfleifanda nefnt ár segir m.a. frá því að starfsgeta hans hafi verið mikið skert, en örorka hans var þá metin 75%. Óumdeilt er að arfleifandi naut bóta eftir þetta allt til dauðadags.

            Sóknaraðili vísar um viðvarandi heilsuleysi arfleifanda m.a. til læknisvottorðs frá vori […], en þar segir: […].

            Sóknaraðili vísar til sambærilegra gagna um bágt heilsufarsástand arfleifanda á árunum eftir […]. Þar um vísar sóknaraðili m.a. til vottorðs frá 8. mars það ár, en þar segir: […].

            Sóknaraðili bendir einnig á að samkvæmt læknabréfum Slysa- og bráðasviðs Landspítalans í Reykjavík, dagsettum […]. og […], sem rituð voru í tilefni af innlögn arfleifanda, komi fram að hann hafi fótbrotnað fjórum árum áður, hafi litið út fyrir að vera 20 árum eldri en hann var í raun, en þessu til viðbótar hafi hann verið með ……….

            Í heilsufarsgögnum kemur fram að arfleifanda hafi um síðir verið vísað í viðtöl til áfengisráðgjafa geðdeildar Landspítalans vegna undirliggjandi krónískrar áfengissýki, en í læknisvottorði frá […] segir nánar um bágborið heilsufar hans eftirfarandi: […].

            Málsaðilar vísa báðir til læknisvottorða, sem rituð voru síðari hluta árs […], en þau greina frá bágbornu ástandi D heitins og þá m.a.  …, sbr. að því leyti vottorð sérfræðings í geðlækningum, dagsett 29. september nefnt ár, en þar segir að hann hafi verið sérkennilegur, tannlaus og heyrnarsljór. Í þessu síðastgreinda vottorði segir frá því að arfeifandinn hafi gert sér grein fyrir sambandi áfengis (ETOH) og eigin heilsufars, en tekið er fram að hann hafi þó gert lítið úr áfengisdrykkju sinni. Einnig er tekið fram í vottorðinu að ekki hafi verið merki um sturlunareinkenni hjá arfleifanda eða sjálfsvígshugsanir. Að lokum er greint frá því að arfleifandi hafi ekki haft vilja til þess að fara í áfengismeðferð, en haft er eftir honum að hann „ætli að hætta sjálfur.“.

            Málsaðilar eru sammála um að áform arfleifanda, D, um áfengisbindindi hafi gengið eftir í lok árs […] eða á árinu […].

 

            Samkvæmt gögnum leitaði D heitinn til bráðmóttöku Landspítalans í Reykjavík þann […]. Liggur fyrir að hann greindist í framhaldi af því með  …., sem ekki reyndist meðferðartækt. Dró sjúkdómurinn hann til dauða á heimili sínu seinni hluta […]mánaðar […].

 

            Undir rekstri máls þessa, þann 11. maí 2017, voru fyrir forgöngu sóknaraðila dómkvaddir hæfir og óvilhallir matsmenn, þeir K, geð- og embættislæknir, og L, heila- og taugasjúkdómalæknir. Var þeim falið að skoða heilsufarssögu arfleifanda og leggja mat á það hvort hann hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera hina umþrættu erfðaskrá, þann […]. Af þessu tilefni voru lagðar fyrir matsmennina tilteknar spurningar, sem síðar verður nánar vikið að.

            Í matsgerð matsmannanna, sem dagsett er 24. ágúst 2017, segir m.a. um félagssögu arfleifanda, að hann hafi verið með búskap, en að síðustu misseri ævi sinnar hafi hann notið aðstoðar bróður síns G og eiginkonu hans. Í matsgerðinni er greint frá fyrrnefndri innlögn arfleifandans á Landspítalann, þann […], en í því sambandi er m.a. vikið að efni bókunar í bráðamóttökuskrá, þar sem segir að D hafi verið skýr og áttaður og að hann hafi gefið góða sögu.

            Í nefndri matsgerð er einnig greint frá læknismeðferð og heimahjúkrun arfleifanda, en þar um er vísað til viðeigandi heimilda. Fram kemur í nefndum gögnum, að þann […]hafi  . Í matsgerðinni er vísað til þess að vegna nefnds atviks, þann 10. febrúar nefnt ár, hafi krabbameinslæknir á Landspítalanum rætt við arfleifanda og m.a. ritað í sjúkraskrá að hann hafi virst hafa takmarkaðan skilning á því sem rætt hafi verið varðandi meðferð með …., sem aðeins hafi verið hægt að gefa í Reykjavík. Matsmenn benda á að í sjúkraskránni segir að arfleifandi hafi fremur viljað vera heima hjá sér og enn fremur að hann hafi haft lítinn skilning á tilgangi lyfjameðferðar, sem læknirinn hafi upplýst hann um að gætu fylgt verulegar aukaverkanir og að óljóst væri hvort lyfin hefðu nokkra möguleika á að verka á krabbameinið. Þá vísa matsmennirnir til þess að í umræddri skrá sé tekið fram að arfleifandi sé haldinn áfengissýki, en hafi ekki drukkið í […] ár.

            Í matsgerðinni er greint frá því að eftir að ofangreindri læknismeðferð í Reykjavík var lokið hafi D heitinn farið heim í […] þar sem hann hafi notið umönnunar og aðstoðar aðstandenda sinna, hjúkrunarfræðinga og vina. Greint er frá því að þann […] Vegna þessa hafi arfleifandi fengið munnleg skilaboð um að hann mætti ekki lengur aka vélknúnu ökutæki. Loks er í matsgerðinni vikið að handrituðu blaði, dagsettu […], sem matsmenn segjast ætla að hafi verið skráð af hjúkrunarfræðingi. Þar er skráð, að arfleifandi hafi verið leiður og pirraður en vel skýr, en hann þurfi þó alla aðstoð og fari um í hjólastól.

3.         Samkvæmt gögnum og málatilbúnaði aðila voru þann […] jarðhitaréttindi þriggja jarða í […], þ. á m. jarðarinnar […], seld til […]. Að sölunni stóðu […]systkinin fjögur, en þau rituðu öll undir samninginn. Verður ráðið að systkinin hafi átt jafnan hlut í þessum réttindum á grundvelli fyrrgreinds afsals foreldra þeirra frá […]. Kaupverðið, sem […] greidd fyrir réttindin, var samtals 22.500.000 krónur, verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs, 304,4 stig. Viðauki var gerður við samning þennan þann […], og rituðu undir hann sem fyrr öll […]systkinin, þ. á m. arfeifandinn D. Óumdeilt er að fyrrgreind fjárhæð var greidd G í ágúst […], og vegna hækkunar vísitölu komu 7,6 milljónir króna í hlut hvers systkinanna. Afhenti Úlfar systkinum sínum F heitnum og E þeirra hluti í greiðslunni. Samkvæmt gögnum hafði lögmaður sóknaraðila uppi fyrirspurn á skiptafundi með skiptastjóra dánarbús arfleifandans D, þann 19. október […], um hvað hefði orðið um hlut dánarbúsins í nefndum greiðslum frá […]. Liggur fyrir að af þessu tilefni ritaði G skýringar- og skilagrein, sbr. dskj. nr. 70, um vörslur hans á hlut bróður síns, D heitins. Í framhaldi af því, þann 4. nóvember nefnt ár, lagði G tiltekna fjármuni inn á reikning skiptastjórans ásamt vöxtum, en allt að frádregnum fjármunum vegna nánar tilgreindra útgjalda.

            Samkvæmt gerðabók skiptastjóra eru auk nefndra fjármuna helstu eignir dánarbús D 50% eign í […], ásamt samsvarandi hlutdeild í húsum og mannvirkjum jarðarinnar, bankainnstæður, hlutabréf og fjórar eldri bifreiðar.

 

4.         Við meðferð málsins fyrir dómi var af hálfu varnaraðila lagt fram prentað blað sem ber heitið erfðaskrá. Á blað þetta er prentað nafn arfleifandans D, en jafnframt er þar skráð að hann eigi enga skylduerfingja og að hann ætli að arfleiða báða varnaraðila til jafns að öllum eigum sínum. Á blaðið er prentað nafn varnaraðilans B, kennitala hans og heimilisfang hér á landi svo og nafn varnaraðilans C, kennitala hans, en einnig erlent heimilisfang hans. Þá er prentuð á blaðið eftirfarandi setning: „Allur arfur eftir mig sem fellur til handa B og C á að vera séreign þeirra við hjúskap.“ Blaðið er hvorki dagsett né staðsett. Óumdeilt er að blaðið er undirritað af D.

 

            Erfðaskrá sú sem deilt er um í máli þessu er svohljóðandi:

ERFÐASKRÁ

            Ég undirritaður, D, kt. […], til heimilis að […], sem á enga skylduerfinga, geri hér með svohljóðandi:

erfðaskrá:

1.                  gr.

            Af eignum mínum skal fyrst tekið til útfarar minnar og það sem til þess þarf. Það sem eftir verður af eignum mínum skal allt renna að jöfnu til B, kt. […], […], […] og C, kt. […], […], […].

2.                  gr.

            Með vísan til 1. mgr. 77. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 skal allur arfur eftir mig sem fellur til handa B og C vera séreign þeirra í hjúskap.

3.      gr.

            Njóti B eða C ekki við eftir minn dag skulu allar mínar eignir renna til þess sem lifir mig, það er annað hvort B eða C.

4.                  gr.

            Njóti hvorki B né C við eftir minn dag skulu allar mínar eignir renna til bróður míns G, kt. […].

5.                  gr.

            Erfðaskrá þessa rita ég undir í viðurvist lögbókandans á Höfn og skal hún færð í gerðabók lögbókanda.

                                                […], […].

                                                D (sign)

            Ár […], þriðjudaginn […], hitti undirritaður nótaríus publicus fyrir D, kt. […] á heimili hans að […]. Hann sannaði á sér deili og lagð fram erfðaskrá þessa, sem hann undirritaði í viðurvist notaríus publicus. Gerði hann það andlega heill, af fúsum og frjálsum vilja og kvað erfðaskrána hafa að geyma vilja sinn.

                                                Notarius Publicus á […]

                                                […]

                                                M (sign)

                                                (embættisstimpill lögbókanda).

 

            Í málavaxtalýsingu varnaraðila, og við flutning, er tilurð nefndra skjala lýst á þann veg, að arfleifandinn, D, hafi fært það í tal við varnaraðila B, á árinu […], að vilji hans stæði til þess að hann tæki við hlut hans í jörðinni […]. Af þessu tilefni og að ósk arfleifandans hafi B útbúið þá ófullbúnu „erfðaskrá“ sem geti var um hér að framan, en fyrirmyndina hafi hann fengið á veraldarvefnum. Í kjölfarið hafi arfleifandinn undirritað „erfðaskrána“ en með henni hafi hann arfleitt þá bræður báða, varnaraðilana B og C, að öllum eigum sínum.

            Samkvæmt lýsingu varnaraðila var B á þessum tíma ekki reiðubúinn að flytjast af suðvesturhorni landsins til […], en að auki hafi varnaraðilinn C verið búsettur erlendis. Vegna þess hafi B komið nefndu skjali fyrir í skúffu á heimili sínu og ekki aðhafst frekar. Málefnið hefði komið til umræðu á ný í desember […] að frumkvæði arfleifandans D eftir að varnaraðilinn B hafði lagt leið sína á heimili hans í […], og hitti hann þar fyrir. Að auki hafi arfleifandinn áréttað málefnið í símtali þeirra tveggja þann […], en þá jafnframt farið þess á leit, að B hitti hann á nýjan leik á heimili sínu og þá með þeim orðum að ganga þyrfti frá erfðagerningi hans, en þó án þess að málið færi í hámæli. Hafi B talið að helsti drifkraftur fyrir þessum áformum arfleifandans hafi verið hin alvarlegu veikindi hans og vitneskjan um að hann ætti ekki langt eftir ólifað. Af þeim sökum hafi B lagt leið sína á ný til […], mánudaginn […], en þá fyrst og samkvæmt beiðni arfleifanda ráðfært sig við sýslumannsfulltrúann á […], vitnið M, og þá jafnframt haft með sér á fund þeirra í sýsluskrifstofunni fyrrnefnda „erfðaskrá“ frá árinu […]. Þar sem formgallar hafi verið á þeim gerningi hafi fulltrúinn tekið það að sér að endurrita textann, en þá haft sem fyrirmynd hinn eldri texta frá árinu […]. Í framhaldi af því hafi það verið fastmælum bundið að fulltrúinn hitti arfleifandann D fyrir á heimili hans, […], líkt og hann hafði sjálfur óskað eftir, og þá ekki síst vegna þeirrar leyndar, sem hann hafi viljað hafa á málinu.

 

5.         Til grundvallar niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna eru m.a. áður raktar heilsufarsupplýsingar um D, en þær stafa helst frá sérfræðilæknum Landspítalans í Reykjavík og heimilislæknum á heilsugæslustöðvum.

            Matsmenn vísa í aðfaraorðum í matsgerð sinni til ágreiningsatriða máls þessa og þá ekki síst til þeirra orða og málsástæðna sóknaraðila að arfleifandanum, D, hafi brostið hæfi til að gera hina umþrættu erfðaskrá, þann […], en jafnframt að hann hafi verið beittur ótilhlýðilegum þrýstingi við gerð hennar.

            Við störf sín öfluðu matsmennirnir viðbótarheilsufarsgagna um arfleifandann. Að auki er í matsgerð þeirra vikið lítillega að bakgrunni og félagssögu arfleifandans, en þar segir m.a. um tengsl hans við varnaraðila: „... þeir eru báðir stjúpsynir bróður hans, G. Samkvæmt greinargerð varnaraðila, dags. 17.01.2017, kynntust þeir D er þeir fluttu með móður sinni að […] árið […] og hafa því þekkt hann frá því þeir voru […] og […] ára gamlir.“.

            Eins og fyrr sagði er í matsbeiðni sóknaraðila farið fram á að hinir dómkvöddu matsmenn láti í té skriflegt og rökstutt álit sitt á eftirfarandi álitaefnum, sem varða D heitinn

- hvað ráða megi af áður greindum heilsufarsupplýsingum um varanleg áhrif áfengisneyslu á líkamlegt og geðrænt ástand arfleifandans þann […], þegar horft sé til þess að hann mun hafi hætt að drekka áfengi árið […],

- hvað ráða megi af sömu gögnum um vitsmunalega getu og andlegt heilbrigði arfleifandans er hann ritaði undir erfðaskrána,

- hvaða önnur einkenni en stafa af afleiðingum áfengisneyslu hafi áhrif við greint mat, - hvaða merkingu matsmenn leggi í fyrrgreinda bókun í bráðamóttökuskrá frá […], um að arfleifandi hafi verið: „skýr og áttaður gefur góða sögu“ og þá í ljósi annarra fyrirliggjandi heilsufarsupplýsinga,

- hvaða þýðingu hafi skráning …..læknis þann […], þ.e.: „Takmarkaður skilningur á umræðum nú í dag“, en einnig skammstöfunin: „AAOx3.“

            Auk áður greindra sjúkragagna um arfleifandann D vísa matsmennirnir í matsgerð sinni til fræðilegra heimilda um áfengisofneyslu og mögulegar heilsufarslegar afleiðingar neyslu hans. Þeir rekja hinar fræðilegu upplýsingar um áfengissýki og gera grein fyrir 12 af fleiri en 60 sjúkdómum sem tengst geta áfengisneyslu. Segja matsmennirnir að þó að greiningin áfengistengd vitglöp sé gerð þá séu horfur, ef bindindi er haldið, ekki endilega slæmar. Vitna matsmennirnir til nýlegrar vísindaheimildar um að áfengissjúklingum geti batnað í þessu tilliti að hluta, að minnsta kosti ef bindindi er haldið, og jafnframt að hugrænt ástand geti haldið áfram að lagast yfir árabil.

            Matsmennirnir segja að í ljósi ofangreinds sé ekki hægt að ganga út frá því að sá, sem hafi haft geðræn eða hugræn einkenni meðan hann neytti áfengis, geti ekki náð sér sæmilega vel, hætti hann alfarið áfengisneyslu. Ekki sé hægt að fullyrða að einstaklingur sem misnotað hefur áfengi í ríkum mæli, en hættir síðan áfengisneyslu, hafi í öllum tilfellum varanleg einkenni af neyslunni. Matsmenn segja að vegna þess þurfi að leggja sjálfstætt mat á andlega getu arfleifanda þegar hann gerði erfðaskrána í lok […].

            Matsmennirnir benda á að talsvert liggi fyrir af sjúkragögnum sem lýsi heilsufari arfleifanda fram til ársins […], en eftir það finnist slík gögn ekki um hríð eða allt þar til arfleifandi leitaði til Landspítalans í Reykjavík, þann […], og þá vegna þriggja vikna sögu um kyngingarörðugleika. Í framhaldi af því hafi hann greinst með krabbamein í vélinda, sem leitt hafi hann til dauða þann […]. Matsmennirnir árétta að arfleifandi hafi undirritað erfðaskrána 26. janúar nefnt ár, og segja að á þeim tíma sé ljóst að krabbamein það sem þjakaði hann var ekki meðferðartækt og að það myndi leiða hann til dauða.

            Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar staðhæfa matsmennirnir, að af áðurrakinni umfjöllun um áfengisneyslu arfleifandans D sé ekki hægt að draga neinar algildar ályktanir um geðrænt ástand hans út frá þeim forsendum að hann hafi misnotað áfengi en ekki drukkið í níu ár. Þeir vísa til þess að í gögnum komi ekki fram neinar sérstakar vísbendingar um að D hafi verið greindarskertur eða svo skaddaður af áfengisneyslu að hann hafi ekki verið fær um að skynja afleiðingar gjörða sinna eða taka ákvarðanir sem vörðuðu daglegt líf hans með skynsamlegum hætti. Þeir segja að þannig verði ekki ráðið að arfleifandi hafi verið vanheill andlega þann […].

            Að því er varðar fyrrgreinda skráningu hjá bráðamóttöku Landspítala þann […] segir í niðurstöðukafla matsgerðarinnar: […].

            Að því er varðar skráningu krabbameinslæknis og þýðingu hennar í læknabréfi […] segja matsmennirnir m.a.: […].

            Að lokum svara matsmennirnir þeirri spurningu sóknaraðila, hvort telja megi að arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera hina umþrættu erfðaskrá, þannig:

            Matsmenn hafa einkum horft til þess hvort í gögnum liggi fyrir einhverjar upplýsingar sem sýni fram á vanhæfi (arfleifanda) til að gera sér grein fyrir afleiðingum gjörða sinna eða takast á hendur ráðstafanir er vörðuðu hans líf og eignir. Í gögnum hafa matsmenn ekki fundið neinar vísbendingar um að (arfleifandi) hafi verið vanhæfur til ákvarðanatöku eða framkvæmda af því tagi. Af því leiðir að matsmenn telja að ganga verði út frá því að (arfleifandi) hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá þá sem hann undirritaði […].

 

III.

1.         Sóknaraðili byggir á því að arfleifandann, D, hafi í fyrsta lagi brostið hæfi til gerðar erfðaskrár, þann […], og að í öðru lagi sé útgáfa hennar tilkomin vegna óeðlilegs þrýstings.

            Til stuðnings hinu fyrrnefnda atriði vísar sóknaraðili til heilsufarsupplýsinga lækna, sem raktar hafa verið hér að framan, og byggir á því að þar komi fram lýsingar á að arfleifandi hafi m.a. verið með skerta greind, en að auki hafi hann verið þroskahamlaður, með víðtækar miðtaugakerfisskemmdir og heilabilun. Sóknaraðili vísar til þess að gögn þessi greini almennt frá því að arfleifandi hafi verið mjög illa farinn til líkama og sálar vegna krónísks alkóhólisma í áratugi. Byggir sóknaraðili á því að nefnd sérfræðigögn afsanni með afgerandi hætti þá yfirlýsingu í notarial-vottorði að arfleifandinn hafi verið andlega heill við gerð erfðaskrárinnar og því sé hún efnislega röng.

            Sóknaraðili bendir á að samkvæmt 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé kveðið á um að erfðaskrá sé því aðeins gild ef sá sem geri hana sé svo heill heilsu andlega að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt. Að auki sé kveðið á um það í 2. mgr. 42. gr. laganna að í arfleiðsluvottorði sé bein afstaða tekin til þess hvort hlutaðeigandi hafi verið svo heill heilsu að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá. Sóknaraðili byggir á því að síðastgreinda skilyrðisins hafi ekki verið gætt við vottun erfðaskrárinnar, en í þess stað hafi verið við það látið sitja að setja fram staðhæfingu, án frekari tengingar við hæfi arfleifandans D heitins til að gera skrána, enda segi þar aðeins að hann hafi verið „andlega heill.“. Byggir sóknaraðili á því að í ljósi áður rakinna heilsufarsupplýsinga sé þessi staðhæfing augljóslega efnislega röng.

            Sóknaraðili vísar til þess að fyrir utan hinar skráðu upplýsingar um heilsufarslegan aðdraganda og fyrri tíðar gögn um andlega vanheilsu arfleifanda sé meðal gagna málsins læknabréf útgefið um líkt leyti og erfðaskráin var gerð. Muni þar aðeins 15 dögum, en þar segi frá því að arfleifandi hafi haft takmarkaðan skilning á upplýsingagjöf þess læknis sem annaðist hann, þegar hann hafi skýrt fyrir honum vélindakrabbameinið, sem svo leiddi hann síðar til dauða. Sóknaraðili byggir á því að þegar þessi aðstaða sé sett í samhengi við forsögulegar upplýsingar um andlega vanheilsu arfleifanda til áratuga, víðtækar miðtaugakerfisskemmdir, heilabilun, skerta greind og vanþroska, verði vart önnur ályktun dregin en að hann hafi brostið hæfi til erfðaskrárgerðar og að sá hæfisbrestur sé því sannaður.

            Sóknaraðili byggir á því, verði ekki fallist á ofangreindar málsástæður, að sakir brots á fyrirmælum 2. mgr. 42. gr. erfðalaga, um að í arfleiðsluvottorði skuli þess getið hvort arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá, að þá verði þeir sem byggi rétt sinn á skránni að færa á það sönnur gegn framanröktum staðreyndum. Sönnunarbyrðin hvíli þannig á bréferfingjum og þar með varnaraðilum þessa máls, líkt og mælt sé fyrir um í 2. mgr. 45. gr. erfðalaganna, en ekki á henni, sem sóknaraðila.

 

            Sóknaraðili byggir á því í greinargerð sinni, en ekki síst við flutning málsins, að útgáfa hinnar umþrættu erfðaskrár sé tilkomin fyrir óeðlilegan þrýsting. Þar um vísar sóknaraðili til ákvæða 1. mgr. 37. gr. erfðalaganna um misneytingu, en til vara til meginreglna erfðaréttar um óhæfileg og ótilhlýðileg áhrif „undue influence“. Bendir sóknaraðili að þessu leyti til alþekktrar umfjöllunar fræðimanna um greind álitaefni. Jafnframt bendir sóknaraðili á að sé einstaklingur veikur fyrir að andlegu atgervi, þá sé að sjálfsögðu auðveldara að hafa áhrif á hann með fortölum.

            Sóknaraðili staðhæfir og að þeir sem þekkt hafi til haga arfleifanda, þ.m.t. hún sjálf og aðstandendur hennar, telji óhugsandi að hann geti hafa átt frumkvæði að erfðaskrárgerðinni […] og hvað þá því efni sem þar hafi verið skráð. Af þessu sökum sé og vandséð að hann hafi skilið efni skrárinnar, hvað sem hinu gallaða notarial-vottorði líði. Að auki liggi fyrir staðfesting á því að hann hafi verið andlega vanheill, sbr. áðurrakin heilsufarsgögn.

            Sóknaraðili vísar til þess að fyrir liggi að arfleifandi hafi ekki kvatt lögbókandann til heimilis síns til að votta erfðaskrá sína. Hafi þar annar varnaraðila, B, komið að málum og haft allt frumkvæðið, jafnframt því sem hann hafi lagt drög að erfðaskránni. Sóknaraðili bendir á að vegna hagsmunatengsla nefnds varnaraðila og aðstandenda hans varðandi efni skrárinnar hafi hann t.a.m. verið óhæfur sem arfleiðsluvottur.

            Sóknaraðili vísar og til þess, að meðan enn hafi verið leitað sátta með aðilum, þ.e. á tímabilinu eftir andlát arfleifandans og fram til kröfu um opinber skipti, hafi G, stjúpfaðir varnaraðila, látið þau orð falla við bróðurdóttur sína, N, þar sem hún hitti hann við heyvinnu, að þáverandi sambýliskona hans, en eiginkona frá sumrinu […] og móðir varnaraðila, J, teldi nauðsynlegt að koma í veg fyrir að eignarhaldið á […] félli á of margar hendur og jafnframt að þau kærðu sig ekkert um að börn […], fyrrverandi sóknaraðila máls þessa og systir arfleifanda, væru á vappi þar á hlaðinu. Byggir sóknaraðili á því að með þessu hafi komið fram vægast sagt myrk áform nefndra aðila.

            Þessu til viðbótar vísar sóknaraðili til þess sem áður var rakið um málavexti varðandi ráðsmennsku G með þá fjármuni arfleifanda, sem hann hafði undir höndum vegna sölu jarðhitaréttinda […]jarðarinnar. Telur sóknaraðili að allur sá framgangsmáti varpi nýju ljósi á áður rakin skilaboð sem G hafi látið flytja skiptastjóra þann 6. október […] um „að hann vilji ekki eiga aðild að málinu og spyr hvort skiptastjóri vilji yfirlýsingu frá honum þess efnis.“. Bendir sóknaraðili á að þetta hafi gerst tveimur dögum eftir að úrskurður gekk um töku dánarbúsins til opinberra skipta.

            Sóknaraðili byggir á því að allt framanrakið renni stoðum undir þá rökleiðslu, að átt hafi sér stað skilgreind réttarbrot samkvæmt ákvæðum erfðalaga og að hin umþrætta erfðaskrá verði því lýst ógild af þeim sökum. Sóknaraðili byggir á því og áréttar að við blasi staðreyndir um hæfisbrest, misneytingu og óhæfileg og ótilhlýðileg áhrif. Hafi ráðin þannig verið tekin af heilabiluðum, andlega vanheilum, mikið veikum og dauðvona manni, líkt og áður hafði verið gert varðandi málefni hans.

 

2.         Varnaraðilar benda á í greinargerð sinni, líkt og við flutning, að á sviði erfðaréttar og við túlkun erfðagerninga vegi vilji arfleifanda þungt og að hann sé að jafnaði lagður til grundvallar. Í því sambandi beri m.a. að líta til eðlis erfðaskráa, sem felist í því að um sé að ræða einhliða örlætislöggerning gagnstætt því sem eigi við um almenna viðskiptalöggerninga sem lúti að því að verðmæti sé látið í té gegn endurgjaldi. Af þessum ástæðum sé eðlilegt að tekið sé tillit til vilja þess sem gerir erfðaskrá og að töluvert þurfi til að koma til þess að vikið sé frá skýrum vilja arfleifanda sem hann hafi sett fram í erfðaskrá í samræmi við reglur erfðalaga.

            Varnaraðilar byggja á því að erfðaskrá arleifandans D beri með sér skýran vilja hans um hvernig eignum hans skuli ráðstafað eftir dánardag hans. Sóknaraðili þurfi því að sýna fram á sérstakar ástæður sem réttlætt geti að vikið sé frá vilja hans, en það hafi hún eigi gert í máli þessu.

            Varnaraðilar byggja á því að hin umþrætta erfðaskrá sé gild. Þeir benda á að hún sé skrifleg og undirrituð af hinum látna og að undirskrift hans sé vottuð af notarius publici í samræmi við ákvæði 1. mgr. 40. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

            Varnaraðilar byggja á því að engir annmarkar séu á arfleiðsluvottorði erfðaskrárinnar, en það hafi að geyma þau efnisatriði sem upp séu talin í 42. gr. erfðalaganna. Þannig hafi notarius publicus gætt þeirra efnis- og formsatriða sem upp séu talin í tilvitnaðri 42. gr., sbr. 43. gr., laganna. Varnaraðilar andmæla því að vottorðið sé haldið annmörkum sökum þess að arfleifandinn hafi ekki sjálfur kvatt lögbókandann til, á heimili sitt, og þá til þess að votta erfðaskrána. Þeir vísa til þess að það hafi verið arfleifandi sjálfur sem hafi óskað eftir því að samband yrði haft við M, sýslumannsfulltrúa (notarius publicus), í því skyni að fá leiðbeiningar um gerð erfðaskrárinnar. Í framhaldi af því hafi sýslumannsfulltrúinn ritað erfðaskrána á skrifstofu sinni í samræmi við óskir arfleifanda, líkt og þær hafi birst í hinni eldri ófullkonmu erfðaskrá frá árinu […]. Hafi varnaraðilinn B afhent sýslumannsfulltrúanum drögin, en við sama tilefni hafi þess verið óskað að fulltrúinn hitti arfleifandann fyrir á heimili hans, að […], og vottaði erfðaskrána. Varnaraðilar byggja á því að lýst framkvæmd geti ekki leitt til þess að vottunin teljist ógild.

            Varnaraðilar byggja á því að arfleifandinn hafi uppfyllt hæfisskilyrði 1. og 2. mgr. 34. gr. erfðalaganna og að hann hafi jafnframt haft arfleiðsluheimild til þess að ráðstafa eignum sínum með þeim hætti sem greinir í hinni umþrættu erfðaskrá. Af þeim sökum beri að leggja erfðaskrána til grundvallar við skipti dánarbúsins. Varnaraðilar benda á og árétta að í erfðaskránni sé það sérstaklega vottað að arfleifandinn hafi við undirritun sína verið andlega heill og byggja þeir á því að það leiði af sjálfu sér að sú yfirlýsing í vottorðinu varði hæfi hins látna samkvæmt 2. mgr. 34. gr. erfðalaganna, enda hafi vottorðið verið gefið í tengslum við slíka ráðstöfun og því ekki getað þjónað neinum öðrum tilgangi. Varnaraðilar benda á að arfleiðsluvottar, sem og notarius publicus, sbr. ákvæði 43. gr. erfðalaganna, eigi að meta hæfi arfleifanda sjálfir eftir almennum mælikvarða, lífsreynslu sinni og dómgreind. Vottorð notarius hafi ríkara sönnunargildi en vottorð arfleiðsluvotta, enda sé notarius ævinlega sérfróður á svið erfðaréttar. Að þessu leyti vísa varnaraðilar til ákvæðis 1. mgr. 46. gr. erfðalaganna, sbr. og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Varnaraðilar mótmæla því að túlkun 2. mgr. 45. gr. erfðalaganna leiði til þess, líkt og mál þetta sé vaxið, og þar sem ekki séu annmarkar á formi erfðaskrárinnar, að sönnunarbyrðin hvíli á þeim, svo sem sóknaraðili haldi fram. Varnaraðilar byggja á því að þvert á móti hvíli það á sóknaraðila að sýna fram á að andlegt ástand arfleifanda hafi verið þannig, á þeim tíma er hann ritaði undir erfðaskrána, að hann hafi verið ófær um að gera slíka ráðstöfun með skynsamlegum hætti. Varnaraðilar árétta að sönnunarbyrðin hvíli á rengjendum erfðaskráa fyrir því að arfleiðandi hafi verið haldinn andlegum annmörkum á þeim tíma þegar erfðaskráin var gerð. Þeir byggja á því að þar sem öllum formskilyrðum hafi verið fullnægt við gerð hinnar umþrættu erfðaskrár fari um sönnunarbyrðina eftir ákvæði 1. mgr. 45. gr. erfðalaganna. Þeir benda á að samkvæmt nefndri málsgrein sé það sá sem vilji véfengja erfðaskrá samkvæmt 2. mgr. 34. gr. sem beri að sanna að arfleifandi hafi ekki, á þeim tíma er hann gerði erfðaskrána, verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

            Varnaraðilar benda á að sóknaraðili hafa lagt fram fjölda gagna varðandi heilsufar arfleifanda, þar á meðal á tímabilinu frá árinu […] til ársins […]. Þeir byggja á því að nefnd gögn segi ekkert til um skert hæfi arfleifanda á árinu […], þegar vilji hans í þessu efni hafi fyrst legið fyrir, eða á árinu […] þegar hin endanlega erfðaskrá hans var gerð. Þá byggja varnaraðilar á því að samkvæmt hinum nýjustu heilsufarsupplýsingum um arfleifandann bendi ekkert til þess að andlegri heilsu hans hafi verið svo áfátt að hann hafi ekki verið hæfur til þess að gera erfðaskrána. Þeir staðhæfa að í þeim gögnum sé nær eingöngu vikið að hrakandi líkamlegri heilsu arfleifandans, sem m.a. hafi mátt rekja til fótbrots og síðar krabbameins, sem hann hafði greinst með síðla árs […]. Í þessu viðfangi vísa varnaraðilar einnig til þess að arfleifandi hafi hætt áfengisdrykkju sinni í kringum árið […].

            Varnaraðilar byggja á og árétta að allt frá árinu […] liggi ekki fyrir nein læknisfræðileg gögn sem bendi til þess að andleg heilsa arfleifandans hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið hæfur til þess að gera erfðaskrá. Af þeim sökum geti fyrrgreind ályktun læknis frá […], um að hann hafi haft takmarkaðan skilning á tilgangi lyfjameðferðar vegna  … og mögulegum afleiðingum hennar, ekki breytt neinu þar um. Þeir byggja á því að takmarkaður skilningur á læknismeðferð sé ekki þess eðlis að hann bendi til þess að arfleifanda hafi brostið hæfi til þess að taka þá ákvörðun sem í erfðaskránni hafi falist með skynsamlegum hætti og að hann hafi þannig vel getað gert sér grein fyrir þýðingu og afleiðingum hennar. Að þessu leyti vísa varnaraðilar til áður rakins minnisblaðs hjúkrunarfræðings heilsugæslunnar á […] frá […], sem og matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna.

            Varnaraðilar byggja á því, verði niðurstaða dómsins á þá leið að varnaraðili hafi átt við andlega annmarka að stríða þegar hann ritaði nafn sitt á hina umþrættu erfðaskrá, að þá beri að líta til ákvæðis 2. mgr. 34. gr. erfðalaganna þar sem segi að eigi sé nægilegt að arfleifanda hafi skort andlegt hæfi heldur verði jafnframt að sýna fram á það að hann hafi ekki, af þeim sökum, verið fær til að gera erfðaráðstöfun á skynsamlegan hátt. Varnaraðilar benda á í þessu samhengi, að þeir hafi þekkt arfleifandann frá unga aldri og hafi m.a. varið löngum stundum með honum í sveitinni þar sem þeir hafi veitt honum aðstoð, þ. á m. við búskapinn. Þá hafi samskipti þeirra við varnaraðila ætíð verið góð, allt fram á síðasta dag. Þeir benda jafnframt á að arfleifandi hafi ekki átt skylduerfingja og því hafi verið eðlilegt að hann hafi viljað tryggja að eignir hans myndu renna eftir hans dag til þeirra er stóðu honum næst og þar sem hann hafi talið að arfurinn myndi gagnast sem best. Varnaraðilar benda á að efni erfðaskrárinnar sé einfalt og því bendi ekkert til þess að arfleifandi hafi ekki vitað hvers efnis hún var eða hvaða afleiðingar hún myndi hafa.

            Að öllu ofangreindu virtu byggja varnaraðilar á því að skilyrði 2. mgr. 34. gr. erfðalaganna hafi verið uppfyllt og að erfðaskráin hafi verið skynsamleg út frá sjónarhól arfleifandans, D. Að því leyti benda þeir einnig á að arfleifandinn hafi lagt á það mikla áherslu að tilvist erfðaskrárinnar yrði ekki á margra vitorði, og þ.m.t. að efni hennar yrði haldið frá augum sóknaraðila og aðstandenda hennar.

 

            Varnaraðilar andmæla þeirri málsástæðu sóknaraðila að hin umþrætta erfðaskrá sé tilkomin fyrir óeðlilegan þrýsting eða misneytingu í skilningi 1. mgr. 37. gr. erfðalaganna. Þá hafna varnaraðilar þeim málatilbúnaði sóknaraðila að þeir, móðir þeirra, J, eða stjúpfaðir, G, hafi beitt arfleifandann óeðlilegum þrýstingi eða misneytingu við gerð erfðaskrárinnar. Þeir benda á og árétta að þvert á móti liggi fyrir ótal ástæður fyrir umræddri ráðstöfun arfleifandans D heitins. Þar um vísa þeir til fyrrgreindra tengsla þeirra við arfleifanda, sem hafi verið náin og góð. Þeir hafi borið virðingu fyrir honum og tekið honum eins og hann kom til dyranna. Hið sama hafi gilt um móður þeirra, J, sbr. dagbókarbrot hennar á dskj. 61. Varnaraðilar staðhæfa að að þessu leyti hafi verið ólíku saman að jafna að því er varðaði samskipti arfleifandans við fyrrverandi eiginmann og barnsföður fyrrverandi sóknaraðila máls þessa, E, sem þeir staðhæfa að hafi verið miður góð. Aftur á móti hafi arfleifandinn verið í ágætum samskiptum við systur sína, E, og núverandi sambýlismann hennar, sem þeir segja að hafi reynst honum vel í veikindum hans. Varnaraðilar staðhæfa enn fremur að bróðir arfleifandans, hinn látni eiginmaður sóknaraðila, F, hafi haft lítil samskipti við hann og því hafi tengsl þeirra bræðra ekki verið mikil.

 

            Varnaraðilar byggja á því að í ljósi alls ofangreinds sé efni hinnar umþrættu erfðaskrár eðlilegt og í samræmi við vilja arfleifandans. Þeir byggja á því og árétta að arfleifandanum hafi verið fyllilega ljóst hvert efni og afleiðingar erfðaskrárinnar voru og að hann hafi gert hana af fúsum og frjálsum vilja, líkt og fram komi í arfleiðsluvottorði notarii publici.

            Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi ekki með haldbærum rökum sýnt fram á nokkur þau atriði sem bendi til þess að misneytingu eða óeðlilegum þrýstingi hafi verið beitt við útgáfu erfðaskrárinnar. Verði sóknaraðili að bera hallann af því.

            Varnaraðilar byggja á því að umfjöllun sóknaraðila um uppgjör vegna jarðhitaréttinda sé máli þessu með öllu óviðkomandi. Þeir byggja og á því að það hvíli alfarið á sóknaraðila að sýna fram á að ráðin hafi verið tekin af heilabiluðum, andlega vanheilum, mikið veikum og dauðvona manni. Þeir byggja loks á því að fyrrgreindar málsástæður sóknaraðila séu efnislega rangar, enda ekki í samræmi við gögn málsins, þ. á m. matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.

 

            Kröfum sínum til stuðnings vísa varnaraðilar til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum VI. kafla um erfðaskrár og til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kröfur um málskostnað byggja þeir á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum, 129. gr. og 1. mgr. 130. gr.

 

IV.

1.         Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur sóknaraðilinn A og varnaraðilarnir B og C. Vitnaskýrslur gáfu vinafólk og ættingjar málsaðila, þau O, N, G, J, P, R, S og T. Þá gáfu vitnaskýrslur þau M, lögfræðingur og fulltrúi sýslumannsins á […], og hinir dómkvöddu matsmenn, þeir K, geðlæknir og embættislæknir, og L, heila- og taugasjúkdómalæknir. Loks gafa Eva Dís Pálmadóttir, lögmaður og skiptastjóri, skýrslu, en óþarft er að rekja framburð hennar.

 

            Sóknaraðili véfengir í máli þessu erfðaskrá arfleifandans D með vísan til 45.-47. gr. erfðalaga nr. 8/1962, en skráin var undirrituð af honum og vottuð af lögbókanda.

            Sóknaraðili byggir á því að arfleifandann hafi brostið hæfi til útgáfu erfðaskrárinnar og að útgáfa hennar sé tilkomin vegna óeðlilegs þrýstings.

            Sóknaraðili rengir því erfðaskrána og telur hana ógilda, sbr. áðurraktar málsástæður hans. Hann vísar og til þess að arfleifandinn hafi ekki sjálfur hvatt til lögbókandann til vottunar. Vegna þessa alls beri að ógilda erfðaskrána og skipta dánarbúi arfleifandans samkvæmt lögerfðareglum.

            Varnaraðilar andmæla öllum sjónarmiðum sóknaraðila, líkt og rakið hefur verið hér að framan, þ. á m. að því er varðar andlega hagi arfleifandans.

 

            Reglur erfðalaga nr. 8/1962 um form erfðaskráa eru settar til þess að arfleiðsluviljinn komi skýrlega fram og að staðreyna megi hann eftir andlát arfleifanda, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 135/1991. Áður tilvitnað ákvæði 2. mgr. erfðalaganna hljóðar svo: Erfðaskrá er því aðeins gild, að sá, sem gerir hana, sé svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

            Ágreiningslaust er að arfleifandinn D ritaði undir hina umþrættu erfðaskrá á heimili sínu að […], að viðstöddum lögbókanda, þann […]. Var það rétt fimm mánuðum fyrir andlát D, en fyrir liggur að nokkru áður, þann […], hafði hann fengið vitneskju um að hann væri haldinn ólæknandi sjúkdómi.

            Við opinber skipti á dánarbúi D heitins kom fram ágreiningur um hina umþrættu erfðaskrá og brást skipaður skiptastjóri þá við og vísaði málinu og lýstum ágreiningi til dóms til úrlausnar.

            Samkvæmt 1. mgr. 43. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr., erfðalaga nr. 82/1962 er það mikilvægt formskilyrði að lögbókandi staðfesti að arfleifandi hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá.

            Af gögnum verður ráðið að varnaraðilinn B hafi haft tiltekna forgöngu um að lögbókandi fór á fund arfleifandans á heimili hans í lok […], en að sá síðarnefndi hafði þá í farteskinu hina umþrættu erfðaskrá. Ágreiningslaust er að arfleifandinn ritaði við það tækifæri og á heimili sínu nafn sitt á erfðaskrána. Er í arfleiðsluvottorði lögbókandans, sem ritað var af þessu tilefni, m.a. staðhæft að arfleifandinn hafi ritað undir texta erfðaskrárinnar andlega heill, af fúsum og frjálsum vilja og eftir að hafa lýst því yfir að efni hennar hefði að geyma vilja hans.

            Það er álit dómsins að arfleiðsluvottorð lögbókandans, sem hér að framan var rakið, fullnægi áskilnaði erfðalaganna.

 

            Sóknaraðili byggir á því að útgáfa erfðaskrárinnar hafi verið tilkomin vegna óeðlilegs þrýstings, sem arfleifandinn, D, hafi verið beittur og að óhæfileg og ótilhýðileg áhrif hafi verið höfð gagnvart honum. Hafi þar helst komið til bágbornar aðstæður arfleifandans, en sóknaraðili vísar að þessu leyti til 1. mgr. 37. gr., sbr. 45. gr., erfðalaganna, en fyrrnefnda ákvæðið hljóðar svo: Erfðaákvörðun er ógild, ef arfleifandi hefur verið beittur nauðung, svikum eða misneytingu til þess að gera hana.

            Það er niðurstaða dómsins að af öllu ofangreindu leiði að sönnunarbyrðin í máli þessu hvíli á sóknaraðila fyrir því að D heitinn hafi ekki fullnægt hæfisskilyrðum 2. mgr. 34. gr. laganna þann […], og að skilmerki 37. gr. laganna hafi átt við.

 

2          Hér að framan hefur verið rakinn aðdragandinn að gerð umræddrar erfðaskrár. Eru atvik að því leyti í aðalatriðum ágreiningslaus, þ. á m. að varnaraðilinn B hafi að beiðni arfleifandans D farið á sýsluskrifstofuna á […] og hitt þar fyrir fulltrúa sýslumannsins á […]. Liggur ekki annað fyrir en að fulltrúinn hafi eftir viðræður ritað hina umræddu erfðaskrá, en haft til fyrirmyndar eldra skjal um arfleiðsluvilja D heitins, en efni þess var tíundað hér að framan. Skjalið ber áritun D, en samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila hafði B útbúið það fyrir hann árið […]. Í því viðfangi verður að áliti dómsins ekki fram hjá því horft að D hafði í tvígang ritað eigin hendi undir gerninga, sem vörðuðu hitaveituréttindi jarðarinnar […], nánar tiltekið á árunum […] og […], ásamt systkinum sínum.

            Við skýrslutökur fyrir dómi var upplýst, líkt og hér að framan hefur verið vikið að, að vitnin J og G gengu í hjónaband eftir áratuga sambúð síðsumars […]. Tengsl vitnanna við arfleifanda, D og aðila máls eru áður tíunduð. Vígslumaður var vitnið M, fulltrúi sýslumannsins á […].

 

3.         Vitnið V, sýslumannsfulltrúi og lögbókandi á […], greindi frá því fyrir dómi að varnaraðilinn B hefði haft símasamband við vitnið og leitað ráðgjafar vegna erfðamála D og að ráði hafi orðið að hann kæmi á sýsluskrifstofnuna á […], þ.e. daginn eftir símtalið, þann […]. Vitnið sagði að þau hefðu rætt málefnið frekar og að þá hefði meðal annars komið fram að D væri haldinn banvænum sjúkdómi. Vitnið greindi frá því að ekki væri óalgengt að sýslubúar leituð til sýsluskrifstofunnar með álíka erindi. Vitnið bar að á fundi þeirra hafi B dregið fram ófullkomna erfðaskrá, sem hafi verið undirrituð af arfleifandanum D, en vitnið staðfesti að því leyti dskj. nr. 58. Vitnið skýrði frá því að vegna málefnisins hefði það ráðfært sig við yfirmann sinn, sýslumann, þ. á m. um eigið hæfi, og þá vegna tiltekins skyldleika við […]ættina. Í framhaldi af því hefði það fallist á beiðni varnaraðilans B um að „stilla upp“ lögformlegri erfðaskrá D. Vitnið kvaðst við ritun erfðaskrárinnar hafa haft efni hins eldra skjals sem fyrirmynd, en þó haft nokkurt frumkvæði að því að bæta við nafni bróður arfleifandans, G, sem staðgöngumanns ef varnaraðilar féllu frá. Vitnið staðhæfði að B hefði ekki haft áhrif á aðalefni þeirrar erfðarskrár, sem það ritaði, til handa D. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um hvernig það kom til að það fór strax daginn eftir í embættiserindum á heimili D, en ætlaði að það hefði verið samkvæmt beiðni B og vísaði til þess að það hefði verið hann sem hefði greitt fyrir þjónustuna. Vitnið kvaðst áður en það fór á vettvang að […] hafa sent B hina nýrituðu erfðaskrá til yfirlestrar, en í framhaldi af því farið einsamalt á vettvang, þann […]. Vitnið kvaðst hafa hitt D heitinn fyrir á bæjarhlaðinu um kl. 11:00. Vitnið skýrði frá því að það hefði þekkt D í sjón, en ekki verið honum málkunnugt. Vitnið ætlaði að það hefði verið í samskiptum við D í u.þ.b. 40 mínútur og á þeim tíma ekki haft samskipti við aðra heimilismenn í […]. Vitnið kvaðst hafa fylgt D inn í íbúðarhúsið, en í framhaldi af því átt í samskiptum við hann í eldhúsinu, nánar tiltekið við eldhúsborðið. Vitnið sagði að umræðuefnið í fyrstu hafi varðað aðkomu varnaraðilans B að málinu og erindisrekstur hans fyrir D varðandi erfðaskrána. Að því loknu hefðu þau rætt almenn dægurmál, sem tengst hefðu búskap. Að loknum þessum aðfaraorðum og samskiptum kvaðst vitnið að beiðni D hafa lesið öll efnisatriði erfðaskrárinnar í heyranda hljóði. Vitnið kvaðst hafa gert hlé á lestrinum eftir hverja grein og innt D eftir því hvort hann væri samþykkur efninu. Vitnið sagði að D hefði ávallt samsinnt: „... hann sagði sem sagt alltaf „Já“, eða sem sagt gaf skýrlega til kynna að hann væri þessu samþykkur.“. Vitnið kvaðst að öðru leyti ekki hafa innt D eftir einstökum atriðum í erfðaskránni eða um veraldlegar eignir hans, en áréttaði að efnið hefði verið í samræmi við hið eldra skjal, sem borið hafi áritun D. Vitnið bar að eftir upplesturinn hefðu þau bæði ritað nafn sitt, nánar tiltekið á tvö eintök erfðaskrárinnar og hún síðan sett annað þeirra í umslag og afhent D, en tekið hitt eintakið til varðveislu. Vitnið bar að við þetta tækifæri hefði D haft orð á því, að hann þyrfti að finna sínu eintaki stað, þar sem efni þess ætti ekki að spyrjast út. Vitnið sagði að að þessu verki loknu hefði D haft á orði að honum væri létt, en síðan hefði hann kveikt sér í pípu, og í framhaldi af því hefðu þau tekið tal saman um dægurmál, þ. á m. smalamennsku og […]göngur. Vitnið staðhæfði að D hefði haldið þræði í samtali þeirra, en að lokum hefði hann fylgt vitninu út á bæjarhlaðið og þau kvaðst.

            Nánar aðspurt bar vitnið að í nefndri heimsókn til D heitins hefði hann komið eðlilega fyrir sjónir. Við störf sín í greint sinn kvaðst vitnið hafa lagt mat á andlegt atgervi D og dregið þá ályktun að hann væri algjörlega meðvitaður um gjörðir sínar, þ. á m. við lestur erfðaskráinnar og við undirritun hennar. Hann hefði þannig skilið efnið og borið um að það hafi verið í samræmi við vilja hans. Vitnið kvaðst hafa metið það svo, að D hafi verið andlega heill í greint sinn, og vísaði að því leyti til vottunar þess í niðurlagi erfðaskrárinnar.

 

            Sóknaraðilinn A kvaðst vegna sambúðarinnar með F hafa kynnst mági sínum, D, ung að árum. Hún staðhæfði að D hefði aldrei verið heill heilsu, auk þess sem heilsa hans hefði versnað með árunum vegna mikillar áfengisneyslu. Hún staðhæfði að líferni D hefði þannig sett mark sitt á hann, m.a. vitsmunalega, en bar að engu að síður hefði hann getað áorkað ýmsu, en haft erfiða lund og verið fastur fyrir.

            Sóknaraðili staðhæfði að D heitinn hefði haft takmarkaða leskunnáttu, en að auki haft takmarkað sjálfstraust. Hún sagði að þeir sem næstir stóðu D hefðu verið systkini hans og systkinabörnin. Hún kvaðst hafa verið í miklum samskiptum við Dsíðustu 10 ár ævi hans, og bar að það sama hefði gilt um eiginmann hennar og bróður D, F, og þá ekki síst vegna veikinda D.

            Sóknaraðili áréttaði að D hefði í raun aldrei verið heill heilsu andlega og þá ekki síðustu æviárin. Vísaði hún að því leyti til ráðstöfunar hans samkvæmt hinni umþrættu erfðaskrá, sem hún kvað hafa verið óskiljanlegt athæfi af hans hálfu.

 

            Varnaraðilinn C kvaðst fyrst hafa heyrt af áformum D heitins á árinu […] og þá um að vilji hans stæði til þess að arfleiða þá bræður að eigum sínum. Hann kvaðst þó aldrei hafa séð nein gögn þar um og aðeins heyrt af hinni eldri „erfðaskrá“ D frá bróður sínum, varnaraðilanum B. Hann kvaðst hafa haft blendnar tilfinningar til þessarar ákvörðunar D. Varnaraðili vísaði til þess að hann hefði fundið til mikillar væntumþykju í garð D í lifanda lífi og helst litið á áform hans sem einhvers konar viðurkenningu. Vísaði varnaraðili jafnframt til þess að hann hefði á þessum árum verið búsettur erlendis ásamt fjölskyldu sinni og eftir atvikum ekki tekið arfleiðsluáform D heitins alvarlega. Varnaraðili bar að hið sama hefði í raun gilt um hina umþrættu erfðaskrá, en hann kvaðst ekkert hafa komið að gerð hennar, einungis haft vitneskju um að D hefði verið dauðvona við gerð hennar.

            Varnaraðili kvaðst hafa þekkt D heitinn vel, enda alist upp að […] frá barnsaldri, ásamt m.a. móður sinni og sambýlismanni hennar, G, sem þar hefði stundað búskap með D. Hann kvaðst hafa litið á býlið sem æskuheimili sitt og íverustað þegar frá leið. Varnaraðili treysti sér ekki til að segja til um hver í ættinni hefði staðið D næst, en ætlaði að helst hefðu það verið systkini hans, F, G og E, en einnig mágkonurnar A og móðir hans, J.

 

            Varnaraðilinn B lýsti atvikum máls með líkum hætti og rakið var hér að framan að því er varðaði málsatvik, þ. á m. um arfleiðsluvilja D á árinu […] og enn fremur í lok árs […] og í ársbyrjun […]. Varnaraðili staðhæfði að vilji D hefði staðið til þess að hann tæki við hans hluta […] jarðarinnar, en bar að jafnframt hefði hann haft á orði að vilji hans stæði til þess að gera ekki upp á milli þeirra bræðra.

            Varnaraðili skýrði frá því að fyrir gerð „erfðaskrárinnar“ árið […] hefðu hann og D rætt um gildi séreignarákvæðisins og staðhæfði hann að þar hefði ráðið vilji D enda hefði hann haft skilning á því atriði. Varnaraðili bar að vilji D hefði verið eindreginn árið […], en þá jafnframt um að trúnaðar yrði gætt um efni skjalsins, en bar að móðir hans og G hefðu þó þekkt til efnisinnihalds þess. Varnaraðili sagði að málefnið hefði þó legið í láginni um nokkurra ára skeið eða allt þar til í árslok […], þ.e. skömmu eftir að D kom úr einni af sínum síðustu ferðum frá Reykjavík. Varnaraðili bar að D hefði eftir það verið sama sinnis og árið […], en bar að hann hefði þá jafnframt farið fram á að sýslumannsfulltrúi/lögbókandi kæmi að málinu og gengi frá því með löglegum hætti á heimili hans. Varnaraðili kvaðst hafa haft milligöngu þar um, en bar að í því ferli hefði það fyrst verið orðað af lögbókanda að skrá nafn G einnig í skjalið og bar að D hefði verið því samþykkur.

Varnaraðili kannaðist ekki við að D hefði verið beittur þrýstingi við gerð fyrrnefnds skjals árið […] og þá ekki við gerð erfðaskrárinnar í byrjun árs […]. Hann áréttaði að vilji D hafi verið alveg skýr um að ráðstafa eignum sínum með greindum hætti.

            Varnaraðili skýrði frá því, að hann hefði allt frá barnæsku verið í miklum samskiptum við D heitinn og staðhæfði að traust vináttusamband hefði ríkt þeirra í millum. Hið sama hefði gilt um samband D og varnaraðilans C. Hann vísað m.a. til þess að D hefði m.a. gætt þeirra bræðra í æsku.

            Varnaraðili ætlaði að D hefði í lifanda lífi verið í mestum samskiptum við Úlfar, bróður sinn, en einnig móður varnaraðila, J. Að auki hefði hann verið í ágætum samskiptum við nágranna sína á næstu lögbýlum. Varnaraðili kvað óreglu D hafa sett mark sitt á heilsu hans, en staðhæfði að þrátt fyrir það hefði hann alltaf verið skýr í hugsun, en einnig mjög minnugur, auk þess sem hann hefði hætt óreglunni um síðir, árið 2006.

 

            Vitnið N, dóttir sóknaraðila og F, kvaðst alla tíð hafa verið í miklum og góðum samskiptum við allt […] fólkið, en að auki m.a. fengið að gjöf frá þeim bræðrum og ábúendunum, D heitnum og G, landspildu úr jörðinni vegna eigin sumarhúss. Vitnið bar að mikil óregla hafi sett mark sitt á heilsu D og hefði hann verið illa farinn af þeim sökum, bæði líkamlega og andlega. Hann hafi þó hætt óreglulifnaðinum um síðir. Vitnið kvaðst hafa verið í samskiptum við D síðustu misserin fyrir andlát hans, og staðhæfði að hann hefði á því tímabili aldrei vikið einu orði að hinni umþrættu erfðaskrá.

            Vitnið skýrði frá því að D heitinn hefði borið tiltekinn hug til bróður síns, G, en einnig sambýliskonu hans, J. Vísaði vitnið til þess að það hafi heyrt D láta þau orð falla að það yrði ekkert vesen þegar hann yrði jarðaður; „... af því að þau væru búin að sjá fyrir öllu og búin að taka holu úti á sandi fyrir sig.“ Vitnið kvaðst hafa kannast við orðalag D og bar að í slíkum holum væri komið fyrir rusli, en einnig dauðum dýrum. Vitnið kvaðst því hafa skilið þessi orð D á þann veg að hann væri í raun einskis virði í augum G og J. Fyrir dómi staðfesti vitnið að öðru leyti það sem eftir því var haft í málavaxtalýsingunni hér að framan.

            Vitnið kvaðst hafa álitið að systir arfleifandans, E, hefði staðið honum næst, og af þeim sökum hafi hún ekki haft skilning á þeirri ráðstöfun D heitins sem fram hafi komið í hinni umþrættu erfðaskrá.

 

            Vitnið G, bróðir arfleifandans D, kvaðst aldrei hafa rætt við nokkurn aðila um efni hinnar umþrættu erfðaskrár og andmælti hann m.a. að því leyti vitnisburðum N og P. Af orðum vitnisins var helst að skilja að D heitinn hefði falið J, þáverandi sambýliskonu hans, það verkefni að geyma umslag með erfðaskrá hans og að koma því síðan til skila til sýslumanns við andlátið. Vitnið kvaðst ekki hafa haft vitneskju um efni erfðaskrárinnar fyrir en síðar, en þó heyrt D nefna að það væri vilji hans að varnaraðilar fengju eignir hans við andlát hans.

            Vitnið greindi frá vörslum á þeim lausu aurum, sem komið hefðu í hlut bróður hans, D, vegna hitaveituréttindanna með sambærilegum hætti og áður var rakið hér að framan í málavaxtakafla. Vitnið staðhæfði að hugur D hefði helst staðið til þess að kaupa nýja bifreið fyrir aurana, en að ekki hefði orðið af því þar sem hann hefði einfaldlega ekki fundið rétta tegund.

            Vitnið staðhæfði að það hefði alla tíð verið í miklum samskiptum við bróður sinn, D heitinn, enda hefðu þeir rekið búskap á sömu jörðinni, […], um áratuga skeið og m.a. nýtt sömu útihúsin, en jafnframt því hefðu þeir um tíma báðir verið með vörubílarekstur.

            Vitnið staðhæfði að D hefði haft ágæta rithönd, en að auki verið læs. Vísaði vitnið til þess að D hefði helst lesið Bændablaðið, en einnig litið í önnur dagblöð. Þá hefði hann verið bókaeigandi.

 

            Vitnið J greindi frá því að upphaf kynna þess við D heitinn hafi verið þegar hún hóf samband sitt við bróður hans, G, og þá jafnframt er hún flutti að […] ásamt varnaraðilum síðsumars […]. Vitnið kvaðst aldrei hafa þekkt D að öðru en góðu, en bar að hann hafi verið sjálfum sér verstur og þá vegna óreglunnar.

            Vitnið kvaðst minnast þess að D hefði í eitt skipti haft orð á erfðamálum sínum, en bar að það hefði verið með óljósum orðum um að vilji hans stæði til þess að sonur hennar, varnaraðilinn B, tæki við búi hans. Vitnið kvaðst raunar ekki hafa heyrt þessi orð falla frá vörum D heldur frá öðrum aðila. Vitnið bar að það hefði aldrei rætt málefnið við sína nánustu og alls engin áhrif haft á gang mála, en á hinn bóginn verið sátt við þá ákvörðun D að hafa gengið frá eigin málum fyrir andlátið. Vitnið kvaðst ekki hafa haft vitneskju um komu sýslumannsfulltrúa að […] í lok […] mánaðar […], en minntist þess að D hefði um það leyti fengið henni í hendur lokað umslag og þá með þeirri bón að hún kæmi því til sýslumanns. Vitnið bar að þegar dregið hafi að andláti D hefði það komið til aðstoðar á heimili hans, en bar að meginþungi þeirra starfa hefði þó legið á herðum vitnisins O. Vitnið kvaðst helst hafa verið í tiltekt, og þar á meðal í herbergi D. Vitnið kvaðst m.a. hafa fundið veski D í hirslum hans og í framhaldi af því komið því ásamt fleiri munum til skiptastjóra eftir andlát hans.

 

            S skýrði frá því að hún væri tengd […] fólkinu ættarböndum, og hefði dvalið þar í æsku í sex sumur, en æ síðan komið þangað í heimsóknir og síðast haustið […]. Vitnið kvaðst í síðustu heimsókninni hafa hitt D heitinn að máli og bar að hann hefði þá verið líkamlega slappur, en skýr í hugsun. Vitnið kvaðst jafnframt hafa verið í símasambandi við D hálfsmánaðarlega og bar að hann hefði gert sér grein fyrir alvarleika sjúkdóms síns. Aðspurt sagði vitnið að D hefði verið læs og skrifandi. Þá staðhæfði vitnið að hann hefði verið vel að sér um örnefni og m.a. þekkt öll fjöll og tinda í ökuferðum, en af þeim sökum hefðu slíkar ferðir verið fræðandi.

            Vitnið kvaðst fyrst hafa heyrt af erfðaskrá D eftir andlát hans. Vitnið sagði að efni erfðaskrárinnar hefði komið sér mjög á óvart, en um tilurð og nánar um efni hennar hafði það svofelld orð: „Það hlýtur að vera einhver þrýstingur því að ég held að D hafi aldrei spáð í neinn erfðarétt eða erfðaskrá eða neitt svoleiðis sko, hann var bara maður sem var afskaplega svona friðsinninn maður, þannig að hann var ekkert að búa til neina vitleysu.“. Vitnið bar að sterkustu tengsl D hefðu verið við systkini sín og þá ekki síst við G.

 

            Vitnið P kvaðst hafa farið í sveit í […] við 10 ára aldurinn og æ síðan litið á heimilisfólkið sem fjölskyldu sína. Vitnið bar að D heitinn hefði verið óskrifandi og nær ólæs, en af þeim sökum hefði hún oft lesið fyrir hann. Vitnið kvaðst líka hafa litið á D sem bróður og bar að hann hefði ætíð komið vel fram við hana. Vitnið kvaðst hafa sinnt D þegar hann veiktist um síðustu aldamót af innvortismeinum og þá m.a. boðið honum gistingu á heimili sínu á höfuðborgarsvæðinu. Vitnið kvaðst hafa hitt D í janúar eða febrúar […] er hann hefði dvalið í Reykjavík vegna læknisheimsóknar. Vitnið bar að þá hefði D verið „mjög slappur“ og frekar brotinn andlega, en þó ekki á þann veg að slegið hefði út í fyrir honum.

            Vitnið kvaðst hafa heyrt G ræða málefni […] jarðarinnar í tengslum við erfðamál í nóvember eða desember […] og þá þannig að hann væri eigandi 50% jarðarinnar, en myndi erfa 25% á móti systkinum sínum.

            Vitnið kvaðst hafa komið til aðstoðar þegar dró að banalegu D í byrjun […] og bar að hann hefði þá verið orðinn „þreyttur.“. Við komu kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að herbergi D var mjög þrifalegt. Vitnið sagði að J hefði ekki tekið beinan þátt í umönnun D, frekar farið í sendiferðir. Vitnið staðhæfði að J hefði neitað að taka þátt í þrifum á húsakynnum D eftir andlát hans.

            Vitnið kvaðst ekki minnast sérstakra tengsla millum D heitins og varnaraðila og bar að af þeim sökum hefði hin umþrætta erfðaskrá komið sér á óvart. Vitnið kvaðst m.a. hafa ætlað að nafngreindur frændi D hefði staðið honum nær en varnaraðilar.

 

            Vitnið O kvaðst fyrst hafa haft kynni af […] fólkinu árið […] og í framhaldi af því dvalið á býlinu í mörg sumur og því m.a. kynnst öllum systkinunum. Vitnið bar að D hefði allt frá unglingsaldri verið góður drengur, en sérvitringur og helst myndað tengsl við sér nákomna, en einnig nágranna á næsta býli, […]. Vitnið staðhæfði að D hefði ekki verið óvelgefinn, en hafi verið óskólagenginn að mestu og því verið ólæs og óskrifandi.

            Vitnið kvaðst hafa hitt D að máli og veitt honum aðstoð, ásamt systur hans, vegna þeirra veikinda sem hann átti við að stríða og bar að það hefði helst verið eftir að hann þurfti að fara í aðgerð á Landspítalanum í Reykjavík í byrjun […]. Vitnið kvaðst hafa hitt D í tvígang í þessari suðurferð hans og bar að þá hefði legið fyrir að hann væri með ólæknandi krabbamein í vélinda. Vitnið bar að eftir þetta, þ.e. vorið […], hefði verið óskað liðsinnis hennar vegna hins alvarlega ástands D og hún í framhaldi af því sinnt honum ásamt öðrum á heimili hans allt til dánarstundar. Vitnið kvað hlutverk J í umönnuninni hafa aðallega falist í allra handa útréttingum, auk þess sem hún hafi verið í mikilli tiltekt á heimili hans. Hefði atgangurinn verið slíkur að það hefði verið líkast því að hún hafi verið að leita að einhverju tilteknu.

            Vitnið bar að D hefði aldrei í sín eyru talað illa um annað fólk og aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa heyrt hann gefa það í skyn að hann hefði verið beittur órétti, og þá ekki af bróður sínum, G, eða sambýliskonu hans, J. Vitnið kvaðst þó minnast þess að í […] hefði J, sem þá hafi séð um fjárstofn D, hvesst sig við hann, en bar að það hefði verið í tengslum við brynningar og vatnsvandamál systur hans, E.

            Vitnið skýrði frá því að fyrir andlátið hefði D á ný byrjað að neyta áfengis, en þá með þeim hætti að J hefði haft þar alla stjórn á og hefði hún m.a. aðeins látið hann hafa botnfall í fleyg.

            Vitnið sagði að D hafi þrátt fyrir hin erfiðu veikindi verið skýr í hugsun og spjallfær. Vitnið bar og að hann hefði fylgst með öllu og þannig verið meðvitaður um umhverfi sitt og hafi svo verið allt þar til 2-3 vikur voru í andlátið. Vitnið sagði að vinur hans, vitnið R, hefði drukkið með honum áfengi og þá til samlætis.

            Vitnið bar að nokkru áður en D varð alveg rúmfastur vegna veikinda sinna hefði hann látið nokkur orð falla, þ.e.: „... að búið væri að taka holuna.“ ... „Ja holuna fyrir hræið.“ ... „Ja hræið af mér, það er alveg nógu gott þarna.“ og „Það er bara svo margt sem ég get ekki rætt.“ Var það ætlan vitnisins að með þessum orðum hefði D átt við, að G bróðir hans og J hefðu komið um of að málum hans og að honum hefði mislíkað gjörðir þeirra að einhverju leyti.

            Vitnið bar að D hefði aldrei orðað það í sín eyru eða gefið skyn að hann hefði gert ráðstafanir með eigin eigur með erfðaskrá.

            Vitnið kvaðst eftir andlát D helst hafa ályktað að G, bróður hans, hefði ekki verið kunnugt um hina umþrættu erfðaskrá.

            Vitnið kvaðst hafa fengið greitt fyrir lýst störf sín á heimili D heitins frá Úlfari og J, en staðhæfði að þau hefðu við það tækifæri haft á orði að þá greiðslu hefðu þau innt af hendi til þess að hjálpa strákunum, þ.e. varnaraðilum þessa máls.

 

            Vitnið R kvaðst á barnsaldri hafi kynnst […] fólkinu og þar á meðal D. Vitnið sagði að þeir hefðu orðið vinir, enda nágrannar á uppvaxtarárunum. Vitnið kvað vinskap þeirra hafa haldist eftir að það fluttist á suðvesturhorn landsins og bar að D hefði m.a. gist á heimili þess þegar hann leitaði til læknis, þar á meðal í […]. Vitnið kvaðst enn fremur hafa dvalið á gamla […] heimilinu síðasta mánuðinn sem D lifði.

            Vitnið staðhæfði að D hefði verið vel læs, en einnig minnugur alla tíð. Vitnið vísaði til þess að þeir hefðu m.a. rætt saman í síma tvisvar í viku og þá m.a. átt orðastað um fréttir Bændablaðsins.

            Vitnið sagði að D hefði hætt áfengisdrykkju árið […] og bar að það hefði gerst eftir að hann hafði greinst með skorpulifur. Vitnið sagði að D hefði hafið áfengisneysluna á ný stuttu fyrir andlátið, í […].

            Vitnið sagði að D hefði aðeins lítillega orðað erfðamál í sín eyru fyrir andlátið og þá með þeim hætti að hann væri sáttur við að hafa gengið frá þeim málum ,,og sagt: gott að vera búinn að þessu.“. Vitnið sagði að D hefði aldrei orðað það með beinum hætti hvernig hann hefði ráðstafað eigum sínum. Vitnið kvaðst þó hafa heyrt hvert hugur hans stefndi að því leyti og bar að vilji hans hefði staðið til þess að G, bróðir hans, nyti eignanna enda þeir bræður alla tíð búið saman á […] jörðinni. Vitnið staðhæfði að arfleiðsla D til stjúpsona G, þ.e. varnaraðila, hafi verið liður í þessari ráðagerð hans. Því hefði efni hinnar umþrættu erfðaskrár ekki komið því spánskt fyrir sjónir. Að því leyti vísaði vitnið einnig til þess að varnaraðilar hefðu mikið verið með D á unga aldri, en að auki hefðu þeir heimsótt hann á spítala í Reykjavík. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að nokkur aðili hefði haft áhrif á D varðandi gerð eða efni erfðaskrárinnar, en það kvaðst heldur ekki hafa orðið vart við að breyting yrði á hugsun eða skýrleika hans veturinn 2015/2016.

 

            Vitnið T bar að það hefði kynnst D vel og reyndar […] fólkinu öllu þegar það vann á jarðýtu þrjú sumur í […] á árunum […]. Vitnið kvaðst og hafa verið sveitungi þeirra á þessum árum. Vitnið kvaðst hafa flust úr héraðinu eftir þetta, en heimsótt D að […] hinn […] ásamt nánum ættingjum sínum. Við það tilefni hefðu þeir tveir spjallað saman í eina til tvær klukkustundir, en vitnið kvaðst m.a. hafa fylgt D eftir og farið með honum í skoðunarferð í vélageymslu býlisins. Vitnið sagði að er þetta gerðist hefði D verið í góðu formi og í góðu andlegu jafnvægi og bar að það hefði verið greinilegt að hann hefði fylgst vel með mönnum og málefnum. Vitnið bar að D hefði heldur ekki verið undir áhrifum áfengis og staðhæfði að þessi stund hefði verið ákaflega skemmtileg og að þarna hefði það hitt fyrir „góða gamla D“ eins og það hafði þekkt hann 35 árum áður, og hann verið andlega heill. Vitnið sagði að þeir tveir hefðu ekki hist eftir þetta.

 

            Hinir dómkvöddu matsmenn, K og L, staðfestu efni áður rakinnar matsgerðar og svöruðu spurningum. Þeir áréttuðu efni gerðarinnar og bentu á að ekki lægi fyrir nein greining um að arfleifandinn D hefði á tilteknu æviskeiði verið með greindarskerðingu. Þeir áréttuð enn fremur að andleg heilsa D hefði ekki verið með þeim hætti, og þá eftir langtíma bindindi, að hann hafi ekki getað áttað sig á því hvern hann var að erfa með hinni umþrættu erfðaskrá eða að hann hafi verið vanhæfur til að gera hana. Á hinn bóginn kváðust þeir ekki geta fullyrt um hvort hann hefði orðið fyrir óeðlilegum þrýstingi við gerð skrárinnar eða hvort hann hafi verið leiðitamur. Matsmaðurinn L kvaðst þó ekki hafa fundið neitt í gögnum málsins sem benti hafi til slíks.

 

V.

            Til þess ber að líta að samkvæmt 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa staðhæfingar málsaðila um atvik máls almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt. Þá ber m.a. við mat á sönnunargildi vitna að hafa í huga afstöðu þeirra til aðila og hagsmuna þeirra af málsúrslitum. Í þessu samhengi verður ekki fram hjá því horft að verulegt misræmi er á framburði vitna um mikilsverð atriði er varða hagi arfleifandans D.

            Það er niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna, samkvæmt staðfestri matsgerð þeirra, að arfleifandinn D hafi verið svo heill heilsu andlega að hann hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá þá sem hann undirritaði […].

            Hinir sérfróðu meðdómendur taka að virtum framlögðum heilsufarsgögnum undir greint álit matsmanna, en vísa jafnframt til þess að arfleifandinn var … ára er atvik gerðust.

            Þegar ofangreint er virt heildstætt og þá sérstaklega efni matsgerðar, en einnig vætti T og að nokkru R, þá er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili hafi ekki fært fram haldbær rök til stuðnings því að D heitinn hafi ekki verið fær um að ráðstafa eigum sínum samkvæmt eigin vilja og á skynsamlegan hátt. Sóknaraðili hefur því ekki hnekkt þeirri sönnun fyrir andlegu hæfi, sem felst í vottorði lögbókanda um staðfestingu erfðarskrár hans, en skilmerkilega var gerð grein fyrir atvikum máls í vitnisburði M fulltrúa, sem gegndi starfi lögbókanda. Það að D heitinn hafi ekki sjálfur kvatt lögbókandann á sinn fund, breytir engu þar um. Hefur og ekkert komið fram sem bendir til þess að D hafi viljað ráðstafa eignum sínum með öðrum hætti en hann gerði samkvæmt erfðaskránni. Hefur sóknaraðili að áliti dómsins ekki sýnt fram á að ráðstöfun hans á arfi hafi verið óskynsamleg.

            Að áliti dómsins hefur ekkert komið fram, sem rennir stoðum undir málatilbúnað sóknaraðila um að ótilhlýðilegum áhrifum hafi verið beitt gagnvart D heitnum í aðdraganda þess að hann gerði erfðaskrá sína í byrjun árs […]. Gögn málsins bera hins vegar með sér að aðstæður D hafi verið verulega erfiðar, en engar sönnur hafa verið færðar á að hann hafi verið háður einhverjum áhrifavaldi eða að hann hafi verið beittur þrýstingi til að gera erfðaskrána, sem hann undirritaði á heimili sínu, að viðstöddum lögbókanda. Lýsingar og málsástæður sóknaraðila eiga þannig að þessu leyti ekki við og þá ekki þannig að ákvæði 1. mgr. 37. gr. erfðalaganna komi til álita. Er því kröfu sóknaraðila á þeim grunni einnig hafnað.

            Að öllu samanlögðu, en einnig að virtum röksemdum og andmælum varnaraðila, verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að erfðaskrá D, undirrituð […], verði metin ógild.

            Eftir atvikum er rétt að aðilar beri sinn kostnað af málinu.

            Fyrir uppkvaðningu úrskurðarins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

            Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari, sem dómsformaður, Hrönn Garðarsdóttir heimilslæknir og Sigmundur Sigfússon geðlæknir.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

            Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að erfðaskrá D, dagsett […], verði ógilt.

            Málskostnaður fellur niður.