• Lykilorð:
  • Verksamningur
  • Þóknun
  • Skuldamál

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 11. október 2018 í máli nr. E-1/2018:

 A

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaðaður)

 gegn

 B

 (Eva Dís Pálmadóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. september 2018, er höfðað hér fyrir dómi 26. janúar 2018 af A, […], […], gegn B, kt. […], […], […].

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt skylt að greiða honum 79.720 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38 frá 2001, af þeirri fjárhæð frá 7. júlí 2017 til greiðsludags.

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati réttarins, auk virðisaukaskatts.

            Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

                                                                        I.

     Í stefnu og greinargerð greinir frá því að faðir stefnda, C, hafi andast þann 21. maí 2017 og að útför hans hafi farið fram frá […] 3. júní sama ár.

Í stefnu og gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi samkvæmt ráðningarsamningi, sem menntaður tónlistarmaður, ráðið sig til starfa sem organisti og kórstjórnandi við […]- og […]kirkju í […], árið 1999, en hafi að auki tekið að sér ýmis verkefni því tengd.

            Í stefnu segir frá því að óskað hafi verið eftir þjónustu stefnanda vegna tónlistarflutnings í aðdraganda útfarar C heitins og hafi það síðar gengið eftir. Af hálfu stefnanda er staðhæft að við undirbúning útfararinnar hafi verið nokkur samskipti millum stefnda, D sóknarprests og stefnanda, m.a. um efni sálmaskrár, en einnig vegna óska stefnda um hvaða lög yrðu flutt. Þar um er m.a. vísað til framlagðra tölvupóstsamskipta.

            Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi að lokinni útför og tónlistarflutningi gefið út reikning, þann 7. júní 2017, á hendur stefnda. Reikningurinn er sundurliðaður þannig: Tónlistarflutning við útför C – 50.000 krónur, Tónlist á undan ath. -10.000 krónur, Akstur 170 km X 111, - 19.720 krónur, samtals að fjárhæð 79.720 krónur.

            Af hálfu stefnda er bent á að sýslumaðurinn á Austurlandi hafi gefið út leyfi til einkaskipta til handa stefnda vegna dánarbús föður hans, og að þar hafi og komið fram að stefndi er eini erfinginn.

 

            Í greinargerð stefnda eru hafðar uppi athugasemdir við málvaxtalýsingu stefnanda og er henni að nokkru lýst sem rangri eða villandi. Vísar stefndi til þess að í aðdraganda útfarar föður hans hafi hann ásamt hálfsystur sinni sammæðra, E, hitt fyrir á fundi, á heimili móður þeirra í […], séra D, sóknarprest við […]kirkju, nánar tiltekið þann 26. maí nefnt ár. Staðhæfir stefndi að í upphafi þessa fundar hafi stuttlega verið fjallað um æviágrip hins látna. Bróðurpartur fundartímans hafi hins vegar farið í að skipuleggja dagskrá og tónlist við útförina. Hafi stefndi tjáð séra D að vilji hans stæði til þess að sjá um tónlistarflutninginn sjálfur, en þó með aðstoð nafngreindrar söngkonu, sem þá hafi verið búin að lýsa yfir vilja til að syngja án endurgjalds eða fyrir takmarkaða greiðslu. Því til viðbótar hafi vinir stefnda verið búnir að bjóða fram aðstoð sína við tónlistarflutninginn og þá einnig án greiðslu. Vísar stefndi til þess að hann hafi að þessu leyti haft í huga vilja hins látna, föður síns, og þá þannig að ekki kæmu að útförinni kór eða organisti.

Stefndi staðhæfir að séra D hafi tekið illa í hugmyndir hans varðandi tónlistarflutninginn og að hann hafi beitt miklum þrýstingi til þess að samkór […]- og […]kirkju, en einnig organisti, önnuðust tónlistarflutninginn við útförina. Engin niðurstaða hafi orðið um þetta atriði á þessum fyrsta fundi og því hafi verið afráðið að halda annan fund um málefnið tveimur dögum síðar, þann 28. maí. Stefndi staðhæfir að í millitíðinni hafi náinn ættingi hans haft tal af séra D. Vísar stefndi þar um til þess að á hinum síðari fundi þeirra systkina með séra D hafi hann verið öllu liprari í samskiptum, en þá helst varðandi val á sálmum.

Stefndi staðhæfir að eina umræðuefnið á hinum síðari fundi hafi varðað tónlistarflutninginn við útför föður hans og þar með um fyrrnefndan ágreining. Staðhæfir stefndi að séra D hafi sem fyrr haldið fast við það að nefndur kór, en einnig organisti, önnuðust tónlistarflutninginn í útförinni, en aftur á móti einnig nefnt að fyrrnefnd söngkona gæti komið að athöfninni og þ. á m. við kistulagninguna. Stefndi staðhæfir að sér D hafi í þessu samhengi haft á orði að þau systkinin þyrftu að vita af því að útförin væri þeim að kostnaðarlausu, enda hefði hann á árum áður, á þingi, komið því til leiðar að kirkjan stæði straum af útfararkostnaði. Stefndi staðhæfir að séra D hafi viðhaft þessi síðustu orð án nokkurs fyrirvara og í beinu framhaldi af orðræðunni um að þau systkinin vildu ekki þiggja þjónustu organista eða kórs við útförina af fyrrnefndum ástæðum. Staðhæfir stefndi í greinargerð sinni að vegna þessara orða séra D hafi hann tekið þá ákvörðun að gefa eftir og þá þannig að tónlistarflutningurinn við úrförina yrði í höndum organista og nefnds kórs, enda litið svo á það yrði honum að kostnaðarlausu.

Stefndi staðhæfir að hvorki stefnandi né einhver á vegum kirkjukórsins hafi haft samband við hann fyrir útförina, þ. á m. varðandi kostnað. Því hafi ekkert komið fram um að fyrrnefndur skilningur hans varðandi kostnað hafi verið rangur. Það hafi því komið flatt upp á stefnda er fyrrnefndur reikningur frá stefnanda barst honum. Hafi stefndi í ljósi lýstrar forsögu afráðið að greiða reikninginn ekki, og þá jafnframt ákveðið að svara ekki símhringingum stefnanda eða sinna innheimtuerindum lögmanns hans, dagsettum 19. júlí, 15. ágúst og 18. október 2017. Aftur á móti hafi stefndi svarað sms-boðum vegna þessa, en þá jafnan andmælt greiðsluskyldu sinni. Stefndi hafi á hinn bóginn íhugað að semja um kröfuna í byrjun desember 2017, sbr. dskj. 6, en hætt við það eftir umhugsun þar sem honum hafi fundist sem hann hefði verið illa svikinn og jafnframt litið svo á að vaðið hafi verið yfir hann.

 

Fram kemur í greinargerð stefnda að hann hafi ekki reitt fram fjármuni til nefnds kirkjukórs vegna tónlistarflutnings við umrædda útför, en að það hafi ekki haft neinn eftirmála.

 

Samkvæmt framlögðum gögnum óskaði stefndi eftir leyfi til einkaskipta vegna dánarbús föður hans, með beiðni, undirritaðri 21. júlí 2017. Fyrir liggur að sýslumaðurinn á Austurlandi samþykkti erindið samdægurs.

Samkvæmt gögnum var dánabúið tekið til opinberra skipta, að kröfu nefnds sýslumanns, þann 7. september 2018 og þá sökum þess að skiptum hafði ekki verið lokið innan tilskilins tíma.

 

 

                                                                        II.

            Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu fyrrnefnds reiknings á því að honum sé heimilt að krefjast endurgjalds fyrir veitta þjónustu og þá vegna tónlistarflutnings við útför föður stefnda. Þar um vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins og laga um þjónustukaup nr. 42/2000, sérstaklega til VII. kaflans, og þá um að stefnda beri að greiða honum sanngjarna þóknun fyrir veitta þjónustu.

            Stefnandi byggir á því að stefndi hafi óskað eftir þjónustu hans í greint sinn og því beri honum að greiða fyrir hana, en um aðild byggir hann á því að stefndi hafi verið kaupandi umræddrar þjónustu. 

            Til vara byggir stefnandi á því, að þó svo að dánarbú C hafi átt að vera greiðandi þjónustunnar hafi stefndi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins. Þetta hafi hann gert með undirritun sinni á fyrrnefnda beiðni um leyfi til einkaskipta þann 21. júlí 2017. Því sé kröfunni réttilega beint að stefnda allt að einu.

Stefnandi byggir á því að umrædd skuld stefnda hafi enn ekki fengist greidd þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir hans þar um og því hafi málsóknin verið nauðsynleg.

Kröfu sína um dráttarvexti styður stefnandi við ákvæði III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Hann vísar til þess að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við mánuð eftir útgáfudag reikningsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

            Um málskostnað vísar stefnandi til 129. - 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um greiðslu virðisaukaskatts á málskostnað vísar stefnandi til ákvæða laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en hann sé ekki virðisaukaskattsskyldur. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. nefndra laga um meðferð einkamála.

 

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann og stefnandi hafi aldrei verið í beinu sambandi og hafi hann því ekki óskað eftir eða pantað þjónustu hjá stefnanda, hvorki fyrir sjálfan sig né f.h. dánarbús föður síns. Af þessum sökum sé uppi aðildarskortur í málinu og geti stefnandi því ekki beint kröfum sínum að honum. Því beri að sýkna hann í máli þessu á grundvelli aðildarskorts.

            Stefndi byggir á því að stefnandi hafi aldrei kynnt fyrir honum að til stæði að krefja hann um greiðslu. Þá hafi stefnandi heldur aldrei látið honum í té verðáætlun, sbr. 30. gr. laga nr. 42/2000.

Stefndi byggir á því að samkvæmt ofangreindu hafi enginn samningur um kaup á þjónustu komist á millum hans og stefnanda. Stefndi hafi heldur aldrei gefið séra D umboð til að semja eða skuldbinda hann gagnvart stefnanda. Þvert á móti hafi stefndi gefið mjög skýrt til kynna að vilji hans stæði ekki til þess að kór eða organisti kæmu að umræddri útför, sbr. það sem rakið var hér að framan um málsatvik.

            Stefndi bendir á að samkvæmt málatilbúnaði stefnanda sé hann menntaður tónlistarmaður og organisti, m.a. í […]kirkju. Byggir stefndi á því að vegna þessa hafi stefnanda borið að setja sig í samband við hann og ganga úr skugga um að samningar hefðu náðst þeirra á millum um kaup á umræddri þjónustu.

Stefndi byggir á því að mikill aðstöðumunur hafi verið á milli hans og stefnanda þegar atvik máls gerðust. Þar um vísar stefndi til ungs aldurs síns, að hann hafi nýlega verið búinn að missa föður sinn og hefði auk þess aldrei fyrr komið að skipulagningu útfarar. Stefnandi hafi á hinn bóginn veitt þjónustu í atvinnuskyni og því hafi honum borið skylda til þess að veita stefnda allar upplýsingar og leiðbeiningar um verk sitt og þá með hagsmuni hans fyrir augum, sbr. ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 42/2000. Áréttar stefndi að sá háttur að ræða ekki beint við meintan viðsemjanda um kaup á þjónustu eða kanna hvort samningur um hana hafi yfir höfuð komist á geti ekki talist góðir viðskiptahættir í skilningi nefndrar lagagreinar. Í því sambandi bendir stefndi á fyrrnefnd tölvupóstsamskipti, sbr. dskj. 4 og 5, og segir að þar komi fram að hann hafi fyrir útförina eingöngu verið í sambandi við séra D, sem síðan hafi áframsent tölvupóstinn til stefnanda. Þannig hafi í raun engin samskipti verið millum stefnanda og stefnda, sbr. það sem áður var rakið.

            Stefndi byggir á því og áréttar að stefnandi hafi í raun enga ástæðu haft til að ætla að sér D hafi haft umboð til þess að semja við hann um þjónustukaup f.h. stefnda. Verði á hinn bóginn svo talið bendir stefndi á ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1936, og að þá beri séra D, sem ekki sé aðili að málinu, að bæta það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir. Stefndi vísar til þess að slík málalok geti tæpast talist ósanngjörn niðurstaða og þá í ljósi áðurrakinna málsatvika. Þar um vísar stefndi einkum til fyrrgreindra samskipta prestsins við þau systkinin um tónlistarflutninginn og enn fremur til viðbragða hans á hinum síðari fundi þeirra þegar hann hafi fyrirvaralaust og án frekari útskýringa tjáð þeim að útför föður þeirra og stjúpa væri þeim að kostnaðarlausu. Þau systkinin hafi heldur ekki getað skilið orð séra D á annan veg en þann, að hann hafi þar m.a. átt við margnefndan tónlistarflutning í útförinni. Að þessu leyti byggir stefndi jafnframt á því að stefnandi haldi því ekki fram að óheimilt sé að hafa aðra tónlistarmenn í […]kirkju en stefnanda og kór kirkjunnar, en að auki hafi engin sönnunarfærsla farið fram um slíkt af hans hálfu.

            Þá byggir stefndi á því að engin sönnunarfærsla hafi farið fram af hálfu stefnanda um að sú þóknun sem hann krefst í máli þessu sé sanngjörn. Stefndi byggir jafnframt á því að tónlistarflutningur stefnanda hafi þegar til kom verið með öllu óæfður.

Loks byggir stefndi á því að vandséð verði að telja hvers vegna hann eigi að greiða aksturskostnað stefnanda þar sem hann hafi gefið sig út fyrir að vera organisti […]kirkju. Allt að einu mótmælir stefndi því að umkrafið endurgjald sé sanngjarnt. Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda.

            Kröfu sína um málskostnað byggir stefndi á 129. og 130. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

 

                                                                 III.

Við aðalmeðferð málsins gáfu málsaðilar skýrslur, en einnig gáfu vitnaskýrslur þau E, sem er systir stefnda, D, en hann er sóknarprestur í […] í […], og loks F, […], […], en hann er kórfélagi í kirkjukór […]- og […]kirkna.

 

Samkvæmt því sem rakið hefur verið voru eðli málsins samkvæmt nokkur samskipti millum stefnda og séra D sóknarprests í aðdraganda útfarar föður stefnda. Voru þeir í fyrstu í beinum samkiptum, en einnig liggja fyrir gögn um tölvusamskipti þeirra um málefnið. Þar fyrir utan liggja fyrir tölvusamskipti sem stefndi átti við nafngreinda aðila og vini um líkt leyti.

Ágreiningslaust er að stefndi og séra D áttu með sér tvo fundi um greint málefni, að kvöldlagi, 26. og 28. maí 2017, og að hálfsystir stefnda var viðstödd þá báða.

Fyrir dómi hefur séra D vísað til þagnarskyldu og þá vegna sálgæsluhlutverks síns um innihald ofangreindra samskipta, þrátt fyrir að fyrir hafi legið samþykki stefnda til þess að hann skýrði frá atvikum máls. Eigi var við meðferð málsins krafist úrskurðar dómsins þar um.

Með vætti systur stefnda, sem stoð hefur í fyrrnefndum tölvupóstsamskiptum, verður lögð til grundvallar sú frásögn stefnda, að hann hafi haft önnur áform en sóknarpresturinn, að því er varðaði tónlistarflutning við útförina og að hann hafi þannig í upphafi lagst gegn því að kallað yrði eftir þjónustu kirkjukórs og organista. Hafi stefndi haft í hyggju að fá til verksins, og þá sér til aðstoðar, aðra listamenn, sem hann þekkti og þá með það fyrir augum að fjárútlát yrðu með því móti í lágmarki.

Ágreiningslaust er á hinn bóginn, að stefndi samþykkti á hinum síðari fundi með séra D, þann 28. maí nefnt ár, þar sem til umfjöllunar var nefnt ágreiningsatriði, þá ráðgerð að kalla til kirkjukórinn og organista til þess að annast tónlistarflutninginn við útförina. Í málatilbúnaði sínum byggir stefndi á því að við þessar aðstæður hafi ráðið úrslitum fyrirvaralaus orð séra D um að útförin yrði honum að kostnaðarlausu. Kvaðst hann af þessu tilefni hafa sagt: „Allt í lagi, þá tökum við, þá látum við kórinn og organistann taka þetta, til að klára málið bara … En jafnframt bætti stefndi við:… og þar með hélt ég að hann væri að tala um allt heila klabbið.“ Að þessu leyti tók systir stefnda í sama streng.

Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti séra D þessum síðustu samskiptum á annan veg, en hann sagði: Það er venja í þjóðkirkjunni að aðstandendur greiði kostnað vegna organista, kórs og annarrar tónlistar við útfarir, en kirkjugarður greiðir fyrir prestþjónustu og grafartöku. Þetta upplýsi ég aðstandendur um við undirbúning útfarar. Þá venju hef ég haldið í heiðri. Og þetta er nú venja sem er flestum kunn og ég man ekki eftir því að það hafi komið nokkrum í opna skjöldu að þessi siður gildi ... og eins og ég segi þá hef ég … haldið þessari venju í heiðri við undirbúning útfarar… og gildir um allar útfarir sem ég hef umsjón með.

            Fyrir liggur að séra D upplýsti stefnda í tölvupósti þegar að kveldi 28. maí umrætt ár, að stefnandi hefði fallist á að leika á orgelið við útför föður hans. Enn fremur liggur fyrir að stefndi kom eftir þetta að gerð sálmaskrár og tilgreindi að auki í tölvupóstsamskiptum óskir sínar um þau sönglög sem síðar voru leikin við útför föður hans. Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi stefndi á hinn bóginn frá því að hann hefði heyrt ávæning af því eftir útförina frá kórfélaga, að kirkjukórinn hefði ekki haft tök á því að æfa lögin sem skyldi. Stefndi greindi einnig frá því fyrir dómi að erfidrykkja eftir útförina hefði verið greidd af nánum ættingjum hans, en bar að útgjöld vegna líkkistu og annarra útgjaldaliða yrðu á síðari stigum greidd af dánarbúinu.

 

Samkvæmt skýrslum málsaðila fyrir dómi voru þeir aldrei í beinum samskiptum fyrir nefnda útför og ekki var gerður skriflegur samningur vegna tónlistarflutnings stefnanda. Þá var stefnda ekki kynnt gjaldskrá félags stefnanda.

 

Að virtum þeim samskiptum sem hér að framan hafa verið rakin verður fallist á með stefnanda að sönnun sé fram komin um að stefndi hafi fyrir milligöngu nefnds sóknarprests óskað eftir þjónustu hans sem orgelleikara við nefnda útför og telst hann því, líkt og stefndi, réttur aðili málsins. Þykir nefnd milliganga eðlileg í tengslum við útfarir, en þá ekki síst í ljósi áðurrakinna viðbragða stefnda, og eins og hér stóð á. Verður því fallist á með stefnanda að stofnast hafi til samningssambands millum hans og stefnda.

Eins og hér að framan hefur verið rakið hefur stefndi tiltekið tíðkanlegan kostnað sem til féll vegna útfararinnar, þ. á m. vegna erfidrykkju og kaupa á líkkistu. Því til viðbótar er alkunna að til fellur einnig annar kostnaður við slíkar athafnir. Má þar m.a. nefna tónlistarflutning, þ. á m. kórsöng, en einnig stefgjöld af tónlistarflutningi, sálmaskrá, kross, blómaskreytingar og eftir atvikum þjónustugjöld. 

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 36/1993 um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslur ber kirkjugarðastjórn, þ.e. sóknarnefnd, kostnað af prestþjónustu vegna útfara. Í 1. gr. reglugerðar nr. 155/2005, sem stoð hefur í nefndum lögum, er nefnd skylda áréttuð, en þar segir og að sjóði kirkjugarða beri að greiða fyrir grafartöku og viðhald legstaða.

Er atvik gerðust var stefndi 26 ára og þykir aðstöðumunur millum aðila ekki koma til álita.

Hér fyrir dómi hafa aðilar hvor með sínum hætti lýst í aðilaskýrslum atvikum frá sýnum sjónarhóli. Í því viðfangi er til þess að líta að við úrslausn einkamála hafa staðhæfingar aðila um atvik almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum er óhagstætt, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við úrlausn um sönnun atvik verður í þessu máli því að taka afstöðu til þess, hvort staðhæfingar aðilann fái nægjanlega stoð í sönnunargögnum sem aflað hefur verið við rekstur þess. Að því er varðar sönnunargildi vitnisburðar verður m.a. hafa í huga afstöðu vitna, t.d. til aðila, sbr. 59. gr. nefndra laga. Að öðru leyti verður skorið úr ágreining eftir mati á þeim gögnum sem fram hafa komið í málinu, samkvæmt almennum reglum VI. Kafla laga nr. 91/1991

Að öllu ofangreindu virtu, skýru vætti D sóknarprests, þ. á m. varðandi kostnað, sbr. áðurgreind laga- og reglugerðarákvæði, og röksemdum stefnanda verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi sannanlega unnið verk sitt í þágu stefnda. Það er og niðurstaða dómsins að stefnandi eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda, en krafan hefur m.a. stoð í gjaldskrá Félags íslenskra organleikara, en einnig í vætti F kórfélaga, að því er varðar vinnuframlag og þá vegna óska stefnda um sérstök sönglög. Að mati dómsins er krafa stefnanda nægjanlega rökstudd og sundurliðuð og er málsástæðum stefnda því hafnað í máli þessu. Verður stefnda, með hliðsjón af ákvæði 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, því gert að greiða hina umstefndu skuld, þ.m.t. aksturskostnað, eins og krafist er í stefnu.

Í ljósi ofangreindra málsúrslita og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 372.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                     D Ó M S O R Ð:

Stefndi, B, greiði stefnanda, A, 79.720 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/ 2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júlí 2017 til greiðsludags.

Stefndi greið stefnanda 372.000 krónur í málskostnað.