• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 20. nóvember 2018 í máli nr. S-35/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 A

 (Auðun Helgason lögfræðingur)

Mál þetta, sem dómtekið var 5. nóvember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 18. september sl., á hendur A, kennitala […], […], […].

            Í endanlegri gerð ákæru, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, er ákærði saksóttur;

             „fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum í […] með því að hafa, að morgni dags, þriðjudaginn 22. maí 2018, í … […], slegið B, þá 6 ára gamlan, með handabaki hægri handar í andlitið, en þetta var til þess fallið að vera ógnandi og vanvirðandi gagnvart B bæði andlega og líkamlega.

 

            Einkaréttarkrafa: Af hálfu C, f.h. ólögráða sonar síns B, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta  að fjárhæð kr. 500.000, auk vaxta  skv. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 22. maí 2018 til þess dags þegar mánuður var liðinn frá því að bótakrafa þessi var birt fyrir kærða og dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. sömu laga. Þá er þess krafist að kærða verið gert að greiða réttargæslumanni brotaþola hæfilegan málskostnað vegna réttargæslu, skv. tímaskýrslu, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

 

            Telst þetta varða við 1. mgr. 217 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

            Skipaður verjandi ákærða, Auðun Helgason lögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða á refsing hans verði felld niður, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málflutningsþóknun hans og ferðakostnaður.

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru og þá í ljósi áverkavottorðs læknis og yfirlýsingar sækjanda, að um kinnhest hafi verið að ræða og að drengurinn hafi í tvígang átt í útstöðum við skólasystkin skömmu eftir greindan atburð.

            Lýst játning ákærða er í samræmi við rannsóknarskýrslur lögreglu, þ. á m. ljósmyndir og framburðarskýrslur og læknisvottorð, en í síðastgreinda skjalinu segir m.a. um skoðun drengsins þann 23. maí sl.: „Við skoðun í dag er drengurinn áberandi útitekinn í andliti og sællegur. Maður getur ekki með vissu sagt að það séu undirliggjandi áverkamerki á hægri kinninni. Hann er þó kannski ívið rjóðari á hægri kinn, en þeirri vinstri, og á einum stað er lítill blámablettur. Augnhreyfingar í lagi. Tennur heilar og fastar. Hálshreyfing í lagi. Skoðun leiddi í ljós að hann að mestum líkindum hefði minniháttar áverkamerki á hægri kinninni, sem gætu samrýmst því að hann hefði fengið kinnhest deginum áður.

 

            Með játningu ákærða og með vísan til ofangreinds er eigi ástæða til að efa að játning ákærða sé sannleikanum samkvæm. Er því nægjanlega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til laga í ákæruskjali.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali.

 

II.

            Ákærði, sem er […] ára, hefur ekki sætt refsingum svo kunnugt sé.

            Þegar litið er til þess að umræddur verknaður beindist gegn ungu barni í skólastarfi verður 1. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaga nr. 19/1940 ákærða til refsiþyngingar.

            Fyrir dómi játaði ákærði brot sitt skýlaust, líkt og hann hafði áður gert fyrir lögreglu. Að auki liggur fyrir að ákærði skýrði umsjónarkennara frá atvikum máls nær strax eftir verknaðinn. Við meðferð málsins fyrir dómi lýsti ákærði yfir eindreginni iðran og féllst á bótaskyldu.

            Að öllu ofangreindu virtu telst refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en með hliðsjón af því sem hér að ofan hefur verið rakið og þá m.a. til mildunar, sbr. 8. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna, þykir fært að fresta fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

III.

            Guðbjörg Anna Bergsdóttir, lögmaður og skipaður réttargæslumaður, lagði fram einkaréttarkröfu við lögreglurannsókn málsins og er henni lýst hér að framan. Krafan var birt ákærða 22. júní sl. Lögmaðurinn rökstuddi kröfuna fyrir dómi og vísaði m.a. til 26. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993, en einnig vísað hún til og rökstuddi útlagðan kostnað, sem til hefði fallið vegna ferðalags drengsins og móður hans vegna skýrslutöku í Barnahúsi í Reykjavík við lögreglurannsókn málsins.

            Fyrir dómi hefur ákærði, eins og fyrr sagði, fallist á bótaskyldu, en hann krafðist aftur á móti lækkunar einkaréttarkröfunnar.

            Ekki liggja fyrir gögn um afleiðingar brots ákærða, en að mati dómsins er ótvírætt að lýstur verknaður er til þess fallinn að hafa áhrif á andlega heilsu nefnds drengs. Á drengurinn því rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna háttseminnar, sbr. ákvæði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að þessu virtu og atvikum máls að öðru leyti þykja miskabæturnar hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Að auki er fallist á kröfu vegna útlagðs ferðakostnaðar að fjárhæð 48.200 krónur.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 og framlagðra gagna ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda og skipaðs réttargæslumanns, en einnig útlagðan ferðakostnað þeirra, eins og nánar segir í dómsorði og þá með hliðsjón af tíma- og verkskýrslum.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:    

            Ákærði, A, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að þremur árum liðnum frá dómsuppsögu að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði C, f.h. ólögráða sonar síns, B, 200.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 22. maí 2018 til 22. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. sömu laga. Að auki greiði ákærði útlagðan ferðakostnað að fjárhæð 48.200 krónur.

            Ákærði greiði sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðbjargar Önnu Bergsdóttur lögmanns, 168.640 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað hennar, sem þykir hæfilega ákveðinn 90.920 krónur, svo og þóknun skipaðs verjanda síns, Auðuns Helgasonar lögmanns, 184.450 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en einnig ferðakostnað hans að fjárhæð 40.750 krónur.