• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Vopnalagabrot

 

D Ó M U R

               Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 19. febrúar 2018 í máli

                                                         nr. S-37/2017:

          Ákæruvaldið

          (Helgi Jensson fulltrúi lögreglustjóra)

          gegn

          A

                                                  (Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 13. febrúar 2018, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 4. júlí 2017, á hendur A, kt. […], […], […].

            „fyrir hótanir og vopnalagabrot í […], með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. júlí 2017, á bifreiðastæði við íþróttahúsið, […], […], dregið upp hníf og otað honum að B og hótað með því í verki að leggja til B með hnífnum, þannig að hann óttaðist um líf sitt og heilbrigði og fyrir að hafa í sama skipti borið vopn á almannafæri, með því að vera með umræddan hníf á sér og taka hann upp án lögmæts tilefnis, eins og áður er lýst.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög og 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, sbr. breytingarlög.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er krafist upptöku á hníf með 8 cm löngu blaði, sem haldlagður var í máli þessu, sbr. 1. tl., 1. mgr. 69. gr. a, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög.“

           

            Fyrir dómi hefur ákærði játað brot á vopnalögum, sbr. verknaðarlýsingu ákæru, og jafnframt hefur hann fallist á upptökukröfu ákæruvalds á eggvopninu.

            Ákærði neitar á hinn bóginn refsiverðri sök að því er varðar ætlað hótunarbrot samkvæmt ákæru, sbr. ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög nr. 82/1998.

            Skipaður verjandi, Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður, krefst þess fyrir hönd ákærða, að hann verði sýknaður af nefndu hótunarbroti, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar fyrir þann þátt málsins, og þá einnig með hliðsjón af því að hann hafi hefur játað vopnalagabrotið. Verjandinn krefst hæfilegra málsvarnarlaun og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

 

I.

            1. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu, frásögn ákærða og vætti vitna við meðferð málsins, voru haldnir tónleikar í íþróttahúsinu á […] aðfaranótt sunnudagsins 9. júlí 2017. Tilefnið var hin árlega hátíð sem nefnd er […].  Liggur fyrir að á bifreiðastæði skammt frá íþróttahúsinu hafði ákærði staldrað við, en hann var þar í fylgd vitnanna C og D, en þeir síðarnefndu eru feðgar, auk þess sem ákærði og D eru æskuvinir. Ágreiningslaust er að við þessar aðstæður hafi vitnið B komið á vettvang, en hann er kunnigi vitnisins D. Verður ráðið af gögnum að aðilar hafi verið undir áhrifum áfengis.

            Óumdeilt er að eftir að vitnin C og B höfðu tekið tala saman hafi ákærði tekið hníf úr vasa sínum, en að vitnið B hafi þá fljótlega brugðist við, með því að taka um hönd ákærða og fella hann, auk þess sem vitnið hafi farið með ákærða til dyravarða í þróttahússins. 

            Samkvæmt frumskýrslu var lögreglu tilkynnt um greindan atburð kl. 00:35 umrædda nótt. Af því tilefni áttu lögreglumenn orðastað við nærstadda, þ. á m. vitnið B, en hann var þá með minniháttar fleiður á fingri vinstri handar. Var ákærði við svo búið handtekinn og færður á lögreglustöð, auk þess sem lögreglan lagði hald á hníf hans, sem er þannig lýst í nefndri skýrslu: ,,...samabrjótanlegur veiðihnífur af gerðinni Joker Cocker með 8 sentimetra löngu blaði og vel beittur.“  Í handtökuskýrslu lögreglu er ástandi ákærða lýst þannig að sjáöldur hans hafi verið útvíkkuð, jafnvægi óstöðugt, framburður ruglingslegur og óskýr. Einnig segir í skýrslunni að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi og greinilega mikið ölvaður.

            Samkvæmt gögnum var ákærða sleppt úr haldi lögreglu umrædda nótt, kl. 02:45, eftir að foreldrum hans höfðu verið kvaddir til. 

            Við rannsókn lögreglu daginn eftir nefndan atburðinn var ákærði yfirheyrður um málsatvik. Frá því er greint í yfirheyrsluskýrslu að ákærða hafi verið kynnt kæruefnið, þ. á m. ólöglegur vopnaburð og að hafa dregið upp hníf og otað honum að vitninu B. Nefnt vitni var einnig yfirheyrt um málsatvik þennan dag, en vitnið lýsti því yfir á síðari stigum lögreglurannsóknar, að vilji hans stæði ekki til þess að leggja fram sjálfstæða kæru á hendur ákærða. Vitnin C og D voru enn fremur yfirheyrð af lögreglu, 11. júlí og 10. ágúst 2017.

 

            2. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

            Ákærði áréttaði fyrir dómi í aðalatriðum það sem hér að framan var rakið, þ.e. að hann hafi verið í fylgd C og D og enn fremur að vitnið B hafi komið að máli við þá á bifreiðastæðinu við íþróttahúsið í […].  Ákærði kvaðst er þetta gerðist hafa verið með hníf þann sem lögreglan haldlagði í buxnavasanum. Ákærði gaf þá skýringu að á árunum þar á undan hefði fyrrnefnd hátíð ekki verið sérstök friðarsamkoma og hann m.a. séð marga samkomugesti handleika hnífa. Kvaðst hann hafa verið með hnífinn á sér ef á þyrfti að halda og þá til sjálfsvarnar.

            Ákærði skýrði frá því að hann hefði tekið þátt í samræðunum á bifreiðastæðinu, þ. á m. við vitnið B, en hann kvaðst ekkert hafa þekkt hann fyrir. Ákærði sagði að ekki hafi borið á leiðindum eða rifrildi þeirra í millum og ætlaði að hann hefði verið í u. þ. b. tveggja metra fjarlægð frá B, en í eins og hálf meters fjarlægð frá feðgunum C og D þegar hann hefði afráðið að taka umræddan hníf úr buxnavasanum með hægri hendi og opna hann. Í framhaldi af því kvaðst hann hafa haldið hnífnum á lofti. Ákærði sagði að þetta hefði hann gert án allra orða og skýrði hann athæfið á þann veg að hann hafi einungis ætlað að sýna hnífinn. Ákærði kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa er þetta gerðist og eftir atvikum ekki alveg verið með skýra hugsun. Hafi því í raun verið um gáleysisathöfn að ræða af hans hálfu. Ákærði kannaðist ekki við að hafa viðhaft hótun eða hafa verið með ógnandi tilburði gagnvart vitninu B. Fyrir dómi var ákærða kynnt frásögn nefndra vitna, en hann áréttaði af því tilefni frásögn sína og neitaði sök. Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast atburðarásarinnar vel eða í smáatriðum. Hann kvaðst á hinn bóginn skýrlega minnast þess þegar B hefði brugðist við sýningu hans og þá með því að fella hann til jarðar. Í framhaldi af því kvaðst hann hafa verið dreginn af bifreiðastæðinu og haldið allt þar til lögreglumenn komu á vettang. Vegna greinds athæfis B kvaðst ákærði hafa hlotið hruflsár á fótum.

            Vitnið B kvaðst hafa verið að skemmta sér umrædda nótt, en verið einn á ferð fyrir utan íþróttahúsi þegar hann hefði séð til C og sonar hans, D, en einnig ákærða í máli þessu. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt ákærða. Vitnið kvaðst hafa afráðið að staldra við og taka C tali, enda þekkt hann fyrir. Vitnið bar að D hefði staðið hjá þeim og þeir þannig myndað hring, en ákærði jafnframt verið rétt við hlið þeirra. Vitnið bar að vel hafi farið á með þeim, en ætlaði helst að umræðuefnið hefði m.a. varðað tóbaksreykingar, en það kvaðst aldrei hafa beint orðum sínum að ákærða. Vitnið kvaðst við nefndar aðstæður skyndilega hafa veitt því eftirtekt að ákærði var með hníf í höndum, með um 10-12 cm löngu blaði, og bar að ákærði hefði haldið hnífnum í brjóst- eða andlitshæð. Vitnið staðhæfði að í upphafi hafi það séð ákærða sveifla hnífnum upp í loftið og að hann hafi með því athæfi nærri því rekið hann í andlitið á C, að því er virtist í ógáti. Vitnið sagði að við þessar aðstæður hefði það heyrt ákærða segja; ,,hvern djöfulinn ertu að meina“ og beint þeim orðum að því, en einnig hnífnum. Vitnið staðhæfði að á þeirri stundu hafi hnífurinn verið u.þ.b. 60-70 cm frá andliti þess. Vitnið kvaðst vegna alls þessa hafa orðið hálf slegið og skynjað ótta og sagði; fannst mér algjörlega ógnað.“ Vitnið kvaðst jafnframt hafa fundið fyrir hneykslan, enda litið svo á að ekkert tilefni hefði verið fyrir greindri hegðan ákærða. 

            Vitnið skýrði frá því að það hefði metið aðstæður á þann veg, að réttast væri að bregðast strax við athæfi ákærða. Vegna þessa kvaðst hann hafa gripið í þá hendi ákærða, sem hann hélt um hnífinn, en af þeim sökum hafi hann skorist lítillega á fingri. Vitnið vísað um viðbrögðum sín nánar til þess, að með þessum hætti gæfist ákærða ekki færi á að veitast að honum með hnífnum. Vísaði vitnið jafnframt til þess að þegar atburður þessi gerðist hafi verið greinilegt að ákærði var undir áhrifum, a.m.k. áfengis og eftir atvikum einnig örvandi lyfja. Vitnið kvaðst aftur á móti hafa verið vel áttað og aðeins fundið fyrir minniháttar áfengisáhrifum. Vitnið bar að öll atburðarrásin hefði í raun gerst með skjótum hætti og sagði að eftir að það hafði náð nefndu taki á ákærða hefði það dregið hann til, um 10-20 metra, í átt að dyravörðum við íþróttahúsið. Vitnið staðhæfði að það hefði aldrei áður séð gesti á sambærilegum samkomum handleika eggvopn líkt og ákærði gerði í greint sinn.

            Vitnið C kvaðst hafa verið í samræðum við son sinn D, en einnig vin hans, ákærða í máli þessu, er fyrrum samstarfmaður þess, vitnið B, kom til þeirra og hafi þeir tveir eftir það tekið tal saman. Vitnið bar að B hefði m.a. spurst fyrir um hverra manna ákærði væri, en ekki móðgað hann á nokkurn hátt. Vitnið kvaðst hafa ætlað að ,,allir væru í góðum gír“ en þó veitt því eftirtekt að ákærði virtist reiðast ellegar hræðast B. Vitnið áréttaði að enginn ,,derringur“ hafi verið í B og hafi það litið svo á að öll orðaskipti hefðu verið í góðu. Vitnið sagði að atburðarrásin hefði eftir þessi fyrstu samskipti gerst með skjótum hætti. Vitnið kvaðst þannig skyndilega hafa séð glitta í hníf þann sem ákærði var með þegar hann hefði svipti hnífnum á loft. Vísaði vitnið til þess að í sveiflunni hefði það hefði fengið smá högg á andlitið frá ákærða. Vitnið staðhæfði að ákærði hefði í beinu framhaldi af lýstu athæfi beint hnífnum að B og þannig ógnað honum. Nánar aðspurt treysti vitnið sér ekki til að segja til um hvernig ákærði hélt á hnífnum, en áréttaði að ekkert tilefni hefði verið fyrir þessum atgangi hans. Vitnið kvaðst einnig hafa fylgst með viðbrögðum B og þar á meðal séð er hann hefði tekið með báðum höndum sínum um hendur ákærða og með því móti náð að yfirbuga hann. Vitnið staðhæfði að B hefði í aðgerðum sínum gegn ákærða aldrei beitt óþarfa ofbeldi og þar meðal ekki er hann hefði dregið hann í áttina að íþróttahúsinu. Aðspurt kvaðst vitnið aldrei áður hafa séð samkomugesti á […] handleika hníf með líkum hætti og ákærði gerði í greint sinn.

            Vitnið D kvaðst hafa verið með vini sínum, ákærða í máli þessu, á tónleikum umrætt kvöld og bar að hann hefði þá verið lítið ölvaður og enn fremur mjög rólegur í fasi. Er atvik máls gerðust við íþróttahúsið kvaðst vitnið hafa verið í samskiptum við föður sinn, C, en einnig vitnið B. Vitnið bar að B hefði komið að máli við þá skömmu áður og spjallað í uþb. 5 mínútur. Vitnið sagði að B hefði m.a. innt ákærði eftir því hverra manna hann væri, en á engan hátt viðhaft móðgandi orðfæri af því tilefni. Fyrir dómi bar vitnið að vel hefði farið á með þeim öllum og leiðrétti því leyti frásögn sína við yfirheyrslu hjá lögreglu, um að rifrildi hefði verið í gangi. Vitnið sagði að í raun hefði atburðarásin verið mjög hröð undir lok nefndra samskipta. Vitnið sagði atburðarrásin hafi hafist þannig, að það hefði skyndilega veitt því eftirtekt að ákærði var með hníf í höndunum, en er það gerðist kvaðst það hafa staðið á milli ákærða og B. Vitnið kvaðst og hafa fylgst með ákærða þegar ákærði hefði gengið í áttina að B. Vitnið kvaðst hafa litið svo á að með því athæfi hafi ákærði í raun hótað B, enda hefði hann á þeirri stundi haldið hnífnum á lofti og verið með hann til móts við andlit B. Vitnið kvaðst helst minnast þess að við þessar aðstæður hafi ákærði innt B eftir því hvort að hann hefði verið að ,,biðja um eitthvað vesen.“ Vitnið kvaðst hafa heyrt B svara spurningunni neitandi, en jafnframt séð hann horfa undan. Þá kvaðst vitnið hafa fylgst með því er B hefði tekið um þá hendi ákærða, sem hann hélt á hnífnum, og í framhaldi af því fellt hann og loks dregið hann af bifreiðastæðinu. Vitnið bar að eftir þetta hefðu lögreglumenn komið á vettvang. Vitnið staðhæfði að ofangreint athæfi ákærði hefði verið með öllu tilefnislaust.

            Lögreglumennirnir E, F og G staðfestu efni áður rakinnar frumskýrslu svo og önnur rannsóknargögn, en þeir lýstu jafnframt atvikum fyrir dómi með líkum hætti og þar er rakið.

 

II.

            Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa, laust eftir miðnættið, aðfaranótt sunnudagsins 9. júlí 2017, á bifreiðastæði við íþróttahúsið í […], dregið upp hníf og otað að vitninu B og hótað með því í verki að leggja til hans með hnífnum, þannig að hann hafi óttast um líf sitt og heilbrigði.

            Jafnframt er ákærða gefið að sök vopnalagabrot með því að hafa borið nefndan hníf á almannafæri og að taka hann upp án lögmæts tilefnis.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað vopnalagabrotið, eins og háttsemi hans er lýst í ákæru. Að áliti dómsins er ákærði að virtu því sem hér að framan var rakið sannur að sök um það brot. 

            Fyrir dómi, líkt og við rannsókn málsins hjá lögreglu, hefur ákærði neitað sök að því er varðar hótunarbrot gagnvart vitninu B, líkt og háttsemi hans er nánar lýst í ákæru, sbr. ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum. Ákvæðið er svohljóðandi: Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

            Fyrir dómi hefur ákærði kannast við að hafa átt í takmörkuðum samskiptum við vitnið B er atvik máls þessa gerðust. Ákærði hefur gefið þá skýringu á því að hafa tekið umræddan hníf úr buxnavasa sínum og halda honum á lofti, að hann hafi  einungis ætlað að sýna gripinn.

            Að virtri frásögn vitnanna C og D, sem dómurinn metur trúverðuga, er að áliti dómsins sannað að ákærði hafi eftir að hann tók umræddan hníf úr buxnavasa sínum beint honum að vitninu B. Og með vætti nefndra vitna, en einnig skýrri frásögn B, er að álit dómsins einnig nægjanlega sannað að á þeirri stundu hafi verið tiltölulega skammt á milli ákærða og B og að ákærði hafi þannig í verki hótað að stinga vitnið. Telja verður að sú ógnun hafi verið til þess fallin að vekja hjá B ótta um líf sitt og heilbrigði, líkt og hann hefur einlæglega borið um við alla meðferð málsins. Að áliti dómsins er áður greind frásögn og skýring ákærði ótrúverðug, en óumdeilt er að hann var undir áhrifum áfengis þegar atburður þessi gerðist.

            Að öllu ofangreindu virtu og þrátt fyrir neitun ákærða þykir sök hans varðandi nefnt sakaratriði, hótunarbrotið, nægjanlega sannað. Er það niðurstaða dómsins ákærði hafi með háttseminni brotið gegn ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

III.

            Ákærði, sem er rétt tvítugur, hefur samkvæmt sakavottorði áður sætt refsingum. Ákærði var með dómi Héraðsdóms Austurlands þann 30. júni 2016 dæmdur fyrir brot gegn 157. gr. hegningarlaganna. Ákærði var aðeins 17 ára er hann framdi brotið og var ákvörðun refsingar vegna brotsins frestað skilorðsbundið í tvö ár.  Með sama dómi var ákærða gerð sektarrefsing fyrir umferðarlagabrot og jafnframt sviptur ökurétti í tvo mánuði. Með sektargerð lögreglustjóra þann 6. desember 2016 var ákærða gert að greiða sekt vegna fíkniefnaakstur, en að auki var hann sviptur ökurétti í tólf mánuði. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra þann 6. október 2017 var ákærða gert að greiða sekt vegna fíkniefnalagabrots. Loks var ákærða með dómi sama dómstóls, þann 28. desember 2017, gert að greiða sekt vegna fíkniefnalagabrots, en þá með hliðsjón af 78. gr. hegningarlaganna.

            Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði gerst sekur um vopnalagabrot, en einnig hótunarbrot samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga. Brotin framdi ákærði 9. júlí 2017. Ber að ákvarða refsingu ákærða með hliðsjón af skilorðsrofi hans samkvæmt fyrrnefndum dómi frá 30. júní 2017, en einnig með hliðsjón af því, að þau brot sem eru hér eru til umfjöllunar framdi hann fyrir uppkvaðningu þeirra dóma sem kveðnir voru upp síðari hluta árs 2017, sbr. að því leyti ákvæði 60. gr., 77. gr. og 78. gr. hegningarlaganna. Við ákvörðun refsingar ákærða verður jafnframt litið til 1. töluliðs 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna svo og ungs aldurs hans.

            Að ofangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, sem fært þykir að skilorðsbinda þannig að hún falli niður að liðnum þremur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Dæma ber ákærða til að sæta upptöku á áður greindum hníf, líkt og lögreglustjóri krefst og ákærði hefur fallist á, sbr. tilvitnuð lagaákvæði í ákæru.

            Að kröfu lögreglustjóra og í ljósi málsúrslita, sbr. ákvæði 234. gr. laga nr. 88/2008 með síðari breytingum, verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað. Engan kostnað leiddi af rekstri málsins af hálfu lögreglustjóra og er því aðeins um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og ákvarðast þau eins og í dómsorði greinir.

            Af hálfu ákæruvalds fór með málið Helgi Jensson ftr., en skipaður verjandi ákærða var Stefán Þór Eyjólfsson lögmaður.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

            Ákærði, A, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði sæti upptöku á hnífi þeim sem lögreglan lagði hald á.

            Ákærði greiði 569.160 krónur í sakarkostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns.

 

                                                         Ólafur Ólafsson