• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Sönnun

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 14. ágúst 2018 í máli nr. S-6/2018:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)

 gegn

 Guðmundi Ragnari Péturssyni

 (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

 

I.

            Mál þetta, sem dómtekið var 25. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 10. janúar sl., á hendur Guðmundi Ragnari Péturssyni, kennitala […], […], […], og A, kt. […], […], […].

            Málið er höfðað á hendur ákærðu „fyrir hegningarlagabrot í Sveitarfélaginu Hornafirði, aðfaranótt sunnudagsins 7. maí 2017, utandyra, við […], […].“ Í ákærunni er háttsemi ákærða Guðmundar nánar lýst þannig:

            „Gegn ákærða Guðmundi Ragnari fyrir líkamsárásir, annars vegar með því að hafa slegið meðákærða A hnefahögg í andlitið svo hann féll við og svo sest ofan á hann og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið til viðbótar, með þeim afleiðingum að hann hlaut bólgu á hnakka, á bak við vinstra eyra, bólgu og mar á efri vör vinstra megin, mar innan á vinstri upphandlegg og eymsl á lendarhrygg. Þá flísaðist upp úr vinstri framtönn í efri gómi. Og hins vegar fyrir líkamsárás, með því að hafa hrint B harkalega frá sér svo hann hlaut klórfar á hægra viðbein og tvo marbletti á brjóstkassa.“

            Í ákæru lögreglustjóra er háttsemi ákærða Guðmundar í báðum tilvikum talin varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög, og er þess krafist að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

1.         Við þingfestingu málsins þann 16. febrúar sl. neitaði ákærði Guðmundur Ragnar alfarið sök.

            Skipaður verjandi, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, hefur í greinargerð, líkt og við flutning við aðalmeðferð málsins, hinn 25. júní sl., krafist þess að ákærði Guðmundur verði alfarið sýknaður af þeim líkamsárásum sem vísað er til í ákæru. Þar um er m.a. í báðum tilvikum vísað til þess að lýst háttsemi í ákæru lögreglustjóra sé ósönnuð, en einnig er vísað til neyðarvarnarverks ákærða, sbr. ákvæði 12. gr. hegningarlaganna. Við flutning krafðist verjandinn þess einnig, og þá til vara, að ákærði verði dæmdur til vægustu refingar sem lög leyfi og að hún verði skilorðsbundin. Að lokum krafðist verjandinn þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun hans, auk ferðakostnaðar.

 

2.         Ákærði A er í nefndri ákæru saksóttur fyrir eignaspjöll. Í verknaðarlýsingu ákæru varðandi þann þátt málsins er vísað til þess að er atvik gerðust, aðfaranótt sunnudagsins 7. maí 2017, utandyra, við […], […], hafi A hent glerflösku í framrúðu bifreiðarinnar […], í eigu meðákærða Guðmundar, þannig að rúðan brotnaði og að hann hafi í framhaldi af því slegið með golfkylfu í gluggapóst vinstri framhurðar bifreiðarinnar þannig að hann skemmdist. Er um þessa háttsemi A vísað til 1. mgr. 257. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög, og þess krafist að hann sæti refsingu.

 

3.         Fyrirkall af hálfu dómsins var gefið út 1. febrúar sl. og var það birt fyrir ákærða A, ásamt ákærunni, 9. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins, þann 16. febrúar sl., sótti ákærði A ekki þing og ekki var af hans hálfu boðuð lögmæt forföll. Af þessu tilefni var af hálfu fulltrúa lögreglustjóra, og þá með vísan til 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þess krafist að mál A yrði dómtekið. Var á það fallist, en í framhaldi af því var mál hans klofið frá þætti meðákærða Guðmundar, sbr. heimildarákvæði 169. gr. laga nr. 88/2008. Þann 19. febrúar sama ár var felldur dómur í máli A og var hann sakfelldur fyrir nefnd eignaspjöll og dæmdur til þess að greiða sekt til ríkissjóðs. Samkvæmt yfirlýsingu fulltrúa lögreglustjóra fyrir dómi leiddi engan kostnað af málarekstrinum gegn ákærða A.

 

II.

            Málavextir

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum hafði ákærði Guðmundur Ragnar Pétursson símasamband við vakthafandi lögreglumann, C, aðfaranótt sunnudagsins 7. maí 2017, klukkan 02:12, og tilkynnti að brotaþolinn A hefði skömmu áður veist að honum fyrir utan […], auk þess sem A hefði valdið honum eignatjóni með því að slá með golfkylfu í bifreið hans, […]. Ákærði fylgdi erindinu eftir þá um daginn, en þá kom hann á lögreglustöð bæjarfélagsins og gaf formlega skýrslu um atvik máls, en kærði þá jafnframt A fyrir athæfið, þ.e. eignaspjöll og líkamsmeiðingar.

            Lögreglumaðurinn tók af nefndu tilefni ljósmyndir af bifreið ákærða. Segir í texta með myndunum að á þeim megi m.a. sjá skemmdir á gluggapósti fyrir ofan ökumannshurð bifreiðarinnar […], en einnig brotna framrúðu, brotið gler á topplúgu, rispur á vinstri hurð og bogna stífu fyrir ljóskastara framan á bifreiðinni.  

            Fram kemur í frumskýrslu lögreglumannsins að við athugun hafi hann veitt því eftirtekt að golfkylfuhaus lá í framsæti bifreiðar ákærða. Var hann tekinn í vörslur lögreglu, en einnig var hann myndaður.

            Í nefndri lögreglukýrslu segir frá því að lögreglumaðurinn hefði hitt fyrir á förnum vegi nefndan dag brotaþolann A, sem þá strax hefði lagt fram munnlega kæru á hendur ákærða vegna viðskipta þeirra þá um nóttina, og þá fyrir húsbrot og líkamsmeiðingar. Samkvæmt gögnum framvísaði A við þetta tækifæri til lögreglu brotnu golfkylfuskafti, og var það í tveimur hlutum.

            Samkvæmt gögnum bar brotaþolinn B fram kæru hjá lögreglu þann 9. maí nefnt ár, á hendur ákærða fyrir líkamsárás, sem hann kvaðst hafa orðið fyrir utandyra, nærri […], umrædda nótt. Gaf B í framhaldi af því formlega skýrslu um atvik máls. Við það tækifæri afhenti hann lögreglu stutterma-baðmullarbol, sem samkvæmt ljósmyndum var mikið rifinn að framanverðu allt frá hálsmáli. Á síðari stigum afhenti B lögreglu ljósmynd, en í myndtexta lögreglu segir að á henni megi sjá skrámur á bringu B, sem hann að sögn hafði orðið fyrir í viðskiptum sínum við ákærða umrædda nótt.

 

2.         Samkvæmt rannsóknargögnum, en einnig frásögn ákærða, framburði nefndra brotaþola og annarra vitna við meðferð máls þessa, eru helstu málsatvik þau að umrædda nótt, 7. maí 2017, var haldið hóf að […], sem er heimili A. Á meðal gesta voru brotaþolinn B, en einnig vitnin D, E, F, G og H.

            Ágreiningslaust er að ákærði kom á bifreið sinni, […], á vettvang um klukkan 2, og að hann fór í framhaldi af því inn í íbúð brotaþolans A. Verður helst ráðið að ákærði hafi eftir að hafa rætt stuttlega við unnustu sína nær strax farið aftur út úr íbúðinni og þá á ný farið inn í bifreiðina, en að húsráðandinn, A, hafi fylgt honum eftir og reynt að eiga orðastað við hann. Við þessar aðstæður hafi ákærði bakkað bifreiðinni en A af þeim sökum, og að eigin sögn, þá orðið fyrir hnjaski, líkt og síðar verður vikið að. Óumdeilt er að A brást við þessum akstri ákærða með því að kasta bjórglerflösku í framrúðu bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Óumdeilt er einnig að ákærði hafi vegna þessa stöðvaða bifreiðina, farið út úr henni og í framhaldi af því tekist á við A í skamma stund, en að þá hafi nokkrir gestir í næturhófinu komið á vettvang og gripið í taumana, en einn af þeim var brotaþolinn B.

            Ágreiningslaust er að eftir þennan fyrsta hluta atgangsins hafi nefndur húsráðandi, A, farið inn í íbúð sína, en komið aftur að vörmu spori og þá haldið á golfkylfu. Nokkur áhöld er um það hvort að eftir þetta hafi orðið beinn atgangur með ákærða og A. Aftur á móti er ágreiningslaust að A hafi við þessar aðstæður slegið með kylfunni í bifreið ákærða, þ. á m. í gluggapóstinn við bílstjórahurðina, en einnig í glertopplúguna og að ákærði hafi er þetta gerðist verið inni í bifreið sinni. Liggur fyrir að í kjölfar þessa hafi ákærði brugðist við og farið aftur út úr bifreiðinni og að komið hafi til skammvinns atgangs með honum og vitninu D, einnig brotaþolanum og vitninu B.

            Af gögnum og því sem fram kom fyrir dómi verður helst ráðið að fljótlega eftir síðastgreind samskipti hafi ákærði á ný farið inn í bifreið sína og ekið af vettvangi, en í framhaldi af því hafi hann tilkynnt lögreglu um atvik máls, eins og áður var rakið.

 

3.         Við rannsókn máls þessa yfirheyrði lögregla áðurnefnda aðila og vitni, en að auki var þá haft tal af fleiri vitnum með óformlegum hætti. Þá aflaði lögreglan áverkavottorða um brotaþolana A og B, en einnig um ákærða. Vottorðin eru öll rituð af I lækni.

 

            Í vottorði um brotaþolann B segir um sýnilega áverka hans þann 11. maí 2017: Tveir gulgrænir marblettir ca 2 cm sá stærri á hæ brjósti og hinn ca 13 cm frá geirvörtu. Lítið klórfar á hæ viðbeini.

 

            Í vottorði um brotaþolann A segir um sýnilega áverka hans: Eymsl og smá bólga occipitalt (aftan í hnakka) bak við vi eyra, bólgin efri vör vi megin og mar innan á vörinni. Það hefur flísast upp úr vi efri tönn. Það er ferskt mar innan á vi upphandlegg, aumur en ekki sjáanlegt mar á lendhrygg og bólginn og aumur í hæ litlu tá.

            Í vottorði um ákærða Guðmund segir:

            Framtennur: smá kvarnað úr efri framtönn hæ megin, ekki los á tönnum. Sár á innan verðri neðri vör hæ megin, mar einnig.

            Bringa: sár og mar á bringubeini milli viðbeina. Eymsli í þessu en ekki grunur um brot.

            Hæ þumall: Thenar (þykkhönd við þumal) þrútinn og aumur, ekki mar komið út. Mikil eymsli við UCL (liðband að innanverðum þumli, við rótarliðinn) og leiðir yfir metacarpal beinið (hanarbaks beinið) og niður í rótarliðinn. Skert hreyfigeta. Á erfitt með blíants-gripið, en getur haldið blaði vel föstu. Grunur um brot. Fáum rtg.

            Rtg: brot á þumli á tvemur stöðum. Bæði brotin ótilfærð.

            Meðferð: Teknar ljósmyndir af áverkum. Settur í þumalspelku, 4 vikur. Átti að mæta í nýja trg 10 dögum síðar, sem hann gerði ekki.

            Fékk ráðl um að fara til tannlæknis og láta kíkja á tennurnar.

 

III.

     Framburður ákærða og vitna.

            Ákærði, Guðmundur Ragnar Pétursson, skýrði frá því að hann hefði umrædda nótt farið á eigin bifreið að […] og þá í þeim tilgangi að ræða við kærustuna sína, en þau hefðu verið eitthvað ósátt þegar atburður þessi gerðist. Hann kvaðst hafa farið inn í íbúðina, en eftir stutt spjall við stúlkuna farið aftur út. Ákærði bar að á leið hans út hefði húsráðandinn, A, „hangið“ í honum og viðhaft hughreystandi orð og haldið því áfram alveg þar til hann var kominn inn í bifreiðina á nýjan leik. Var það ætlan ákærða við skýrslugjöf hjá lögreglu að sýnilegur smááverki á viðbeini hans hefði komið til vegna þessara afskipta A. Ákærði kvaðst á þessari stunda enga löngun hafa haft til að ræða við A. Hann staðhæfði í nefndri skýrslu að er þetta gerðist hefði hliðarrúðan á bílstjórahurðinni verið opin og var það ætlan hans að A hefði hangið þar við.

            Fyrir dómi kvaðst ákærði við lýstar aðstæður hafa bakkað bifreiðinni hægt frá húseigninni, en að þá hefði A fallið við. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að hjólbarðar bifreiðar hans hefðu farið yfir fót A í lýstri atburðarás, en bar að hann hefði a.m.k. reiðst og grýtt glerflösku sem hann hefði haldið á í framrúðu bifreiðarinnar og þá með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Vegna þessa kvaðst ákærði hafa stöðvað aksturinn og farið út úr bifreiðinni, en í framhaldi af því farið til A og rifið um axlir hans og „tekið hann niður … mjúklega.“ Jafnframt þessu kvaðst ákærði hafa haldið A með báðum höndum, með því að halla sér eða bogra yfir hann, auk þess sem hann hefði látið nokkur viðeigandi orð falla. Kvaðst ákærði hafa gert þetta til þess að reyna að róa skap A.

            Fyrir dómi neitaði ákærði því að hann hefði við greindar aðstæður slegið A í andlitið. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa fengið högg frá A og sagði: „… ég man ekki eftir neinum höggum … við vorum að togast á eitthvað, en aldrei nein högg, ekki svo ég muni … það gæti verið eitthvað minnisleysi í mér, en ég allavegna varð ekki var við högg ... ég er alveg fullviss, að ég gaf engin högg.“

            Ákærði áréttaði að í allri þeirri atburðarás sem þarna varð hefði hann aldrei slegið til A og andmælti hann að því leyti verknaðarlýsingu ákæru og andstæðum framburði vitna. Lýsti ákærði þeirri skoðun að þar hefði verið um samræmdan framburð vitna og vina A að ræða ellegar hreinar lygar. Nánar aðspurður treysti ákærði sér ekki til að útskýra áverka þá sem A bar samkvæmt áðurröktu læknisvottorði, en áréttaði að hann hefði ekki átt nokkur hlut að máli.

            Ákærði skýrði frá því að eftir að A hafði róast hefði hann sleppt tökum sínum á honum, en skömmu síðar veitt því eftirtekt að A lagði leið sína inn í íbúð sína, en af þeim sökum kvaðst hann sjálfur hafa farið inn í eigin bifreið. Ákærði kvaðst skömmu síðar hafa séð A koma út úr íbúðinni, en þá jafnframt veitt því eftirtekt að hann hélt á golfkylfu. Ákærði bar að A hefði gengið að bifreið hans og sparkað í luktirnar framan á henni. Vegna þess kvaðst ákærði hafa farið út úr bifreiðinni, en bar að þá hefði fleira fólk verið komið á vettvang. Ákærði staðhæfði að einhverjir þessara aðila hefðu haldið í hann og bar að þar hefðu helst komið við sögu brotaþolinn B og vitnin D og F. Staðhæfði ákærði að þessir aðilar hefðu varnað því að hann kæmist til A. Ákærði staðhæfði jafnframt að A hefði við þessar aðstæður beitt golfkylfunni gegn honum og þá á þann hátt, að hann hefði ýtt eða lamið henni frá sér í axlarhæð á milli nefndra aðila, sem héldu honum, þ.e. B og D. Sagði ákærði að um þéttingsfasta ákomu hafi verið að ræða og hefði kylfuhausinn hafnað á munni hans með þeim afleiðingum að flísast hefði upp úr framtönn hans, auk þess sem hann hefði fengið bólgu í vör. Ákærði sagði að þessi síðastgreindi atburður hefði gerst nærri bílstjórahurð bifreiðar hans, og áréttaði að á nefndri stundu hefði B haldið í hann, en einnig vitnið D. Ákærði lýsti viðbrögðum sínum vegna nefnds athæfis A þannig: „Ég verð alveg sturlaður þegar búið er að berja mig í andlitið og þá náttúrulega reyni ég að leysa mig til þess að verja sjálfan mig.“ Kvaðst ákærði hafa losað sig úr tökum B með því að snúa sér til, en andmælti því að hann hefði með því veitt B áverka og kannaðist heldur ekki við að hafa rifið bol hans. Að því leyti andmælti ákærði og framburði vitna þar um. Ákærði kvaðst með öðrum orðum hafa brugðist við með þessum hætti til þess að komast hjá því að fá annað högg frá B.

            Ákærði kvaðst eftir síðastgreindan atburð á ný hafa farið inn í bifreið sína og sem fyrr sest í ökumannssætið, en bar að þá hefði A komið þar að og barið með golfkylfunni í ofanverða umgjörð bílstjóragluggans eða hurðarstafinn með þeim afleiðingum að kylfan brotnaði. Ákærði sagði að við þessar aðfarir A hefði haus kylfunnar brotnað af og orðið eftir inni í bifreið hans. Ákærði kvaðst í framhaldi af þessu hafa ekið af vettvangi. Var það ætlan ákærða að öll lýst atburðarás hefði varað í um 20-30 mínútur.

            Ákærði kvaðst ekki með vissu geta sagt til um hvernig hann fékk áverkann á þumli hægri handar og vísaði til þess að hann hefði fyrst fundið til eymsla í puttanum eftir að hann var komin inn í bifreiðina og þegar nefnd átök voru um garð gengin. Nánar aðspurður kvaðst ákærði helst ætla að áverkinn hefði komið þegar A hefði gripið um höndina á honum eftir að hann hafði lagt hann á jörðina í upphafi atgangs þeirra.

Ákærði skýrði frá því að þegar atvik máls gerðust hefði hann verið ágætur félag A og bar að sá félagsskapur hefði í raun haldist þrátt fyrir þennan atburð. Ákærði staðhæfði enn fremur að það hefði í raun verið vilji þeirra beggja að fallið yrði frá öllum kærum í þessu máli þar sem þeir hefðu náð fullum sáttum.

 

            Vitnið A lýsti upphafi samskiptanna við ákærða með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið, en bar að ákærði hefði í raun verið óvelkominn á heimili þess umrædda nótt. Vitnið ætlaði að ákærði hefði verið að leita að fyrrverandi unnustu sinni, sem þar hefði verið í einhverjum feluleik. Vitnið sagði að ákærði hefði rætt eitthvað við stúlkuna, en strax í framhaldi af því rokið út úr íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa fylgt ákærða eftir og bar að það hefði það gert með góðum huga, enda hefði það verið ætlan þess að hughreysta ákærða, þar sem þeir hefðu verið félagar. Vitnið kvaðst hafa spjallað við ákærða á leiðinni út, en þó helst á bifreiðastæðinu fyrir utan húsið. Vísaði vitnið til þess að ákærði hefði á þeirri stundu verið pirraður og svekktur. Vitnið sagði að ákærði hefði fljótlega sest inn í bifreið sína, en það þá staðið við hlið bifreiðarinnar og haldið áfram spjalli sínu, og þá í þeim tilgangi að reyna að sefa hann vegna samskiptanna við kærustuna stuttu áður í íbúðinni. Við nefndar aðstæður kvaðst vitnið hafa orðið undir hjólbarðanum með hægri fótinn þegar ákærði hefði bakkað bifreiðinni í fullri beygju og þá með þeim afleiðingum að það hefði kennt til eymsla í tánum, en þá helst í litlu tánni. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa fallið eða skrikað til. Vitnið kvaðst hafa haldið á bjórflösku er þetta gerðist og afráðið að kasta henni á eftir bifreið ákærða og þá með þeim afleiðingum að framrúðan brotnaði. Vitnið sagði að ákærði hefði stöðvað bifreiðina, en í framhaldi af því hefðu atvik máls gerst með skjótum hætti. Vitnið bar að ákærði hefði þannig farið út úr bifreiðinni og rokið til þess og kýlt í andlitið og bar að við höggið hefði lítillega kvarnast úr tönn þess, en þeir í framhaldi af því tekist á, en þá endað á jörðinni og vísaði vitnið til þess að það hefði ekki haft fullan styrk í þeim fæti sem bifreiðin hafði farið yfir. Vitnið kvaðst hafa lent undir í átökunum við ákærða, en þeir engu að síður haldið áfram gagnkvæmum barsmíðum. Vitnið kvaðst þannig hafa tekið á móti ákærða og reynt að verjast með höggum, en þó ekki þannig að barsmíðar þess hefðu hafnað í andliti ákærða. Vitnið sagði að hið sama hefði í raun gilt um högg ákærða, fyrir utan fyrsta og ef til vill annað höggið, sbr. það sem áður sagði. Vitnið sagði að viðskipti þess við ákærða hefðu endað á þann veg að ákærði hefði náð að setja annað hnéið á bringu þess þar sem það hefði legið á bakinu á jörðinni. Vitnið kvaðst vegna þessa hafa misst andann og bar að þar með hefði þessum hluta atgangsins við ákærða í raun lokið, en þeir eftir þetta haldið áfram að rífast.

            Vitnið staðhæfði að það hefði fengið þá áverka sem lýst er í áðurröktu læknisvottorði í lýstum viðskiptum við ákærða, og þá fyrst er ákærði ók yfir fót hans, en síðan vegna nefnds hnefhöggs í upphafi átaka þeirra og loks eftir að hann féll á jörðina og þá vegna lýstra viðbragða ákærða.

            Vitnið kvaðst margoft en án árangurs hafa beðið ákærða að fara af vettvangi eftir að átökum þeirra lauk. Vitnið sagði að fleiri aðilar hefðu komið á vettvang og bar að í raun hefðu allir beint spjótum sínum að ákærða.

            Vitnið kannaðist og við að hafa farið inn á heimili sitt og náð þar í golfkylfu, nánar tiltekið í forstofunni, en eftir það farið aftur á átakavettvanginn. Vitnið kvaðst þá hafa veitt því eftirtekt að ákærði átti í átökum við vitnið B. Vitnið kvaðst aðspurt ekki minnast þess að hafa séð ákærða hrinda B til, en vísaði til þess að munur væri á líkamsburðum þeirra tveggja og þá ákærða í vil. Í lögregluskýrslu, sem vitnið staðfesti fyrir dómi, greindi það frá því að það hefði veitt því eftirtekt að bolur B var rifinn, en að auki kvaðst það hafa séð á honum klórfar og minni háttar blóðkám. Í nefndri skýrslu skýrði vitnið jafnframt frá því að eftir að það kom út úr íbúðinni með golfkylfuna hefði það sparkað í ljósabúnaðinn á bifreið ákærða.

            Vitnið skýrði frá því fyrir dómi að það hefði tekið nefnda kylfu sér til handargagns og þá einkum til þess að leggja áherslu á þau orð sín við ákærða, að hann ætti að koma sér af vettvangi, og kannaðist við að það hefði að því leyti verið ógnandi í hans garð. Þá kannaðist vitnið við að hafa slegið kylfunni í gluggapóstinn á bifreið ákærða, en þá með þeim afleiðingum að hausinn á kylfunni brotnaði af. Vitnið sagði að þetta hefði í raun gerst á svipuðum tíma og ákærði hefði verið í átökum við B. Ítrekað aðspurt neitaði vitnið því alfarið, að það hefði slegið ákærða með kylfunni. Vitnið bar að ákærði hefði að lokum farið af vettvangi í bifreið sinni.

            Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis umrædda nótt. Vitnið staðfesti þau orð ákærða fyrir dómi, að þeir hefðu náð fullum sáttum.

 

            Vitnið B greindi frá því fyrir dómi að það fyrsta sem það sem hefði séð til samskipta ákærða og A hefði verið þegar ákærði hefði bakkað bifreið sinni frá húseigninni […]. Vitnið staðfesti efnisatriði skýrslu sem það hafði gefið hjá lögreglu og þá m.a. um að er þetta gerðist hefði hjólbarði bifreiðar ákærða farið yfir fót A, en það kvaðst þá hafa verið við útidyrahurð nefndrar eignar. Fyrir dómi kvaðst vitnið: „… nokkurn veginn (hafa) séð þennan atburð.“

            Fyrir dómi skýrði vitnið frá því að eftir nefndan atburð hefði A brjálast og byrjað að öskra og slá í bifreið ákærða. Vitnið sagði að vegna þessa atgangs hefði ákærði stöðvað bifreiðina og stigið út, en í framhaldi af því hefðu nefndir aðilar, ákærði og A, byrjað að öskra á hvorn annan. Vitnið kvaðst jafnframt hafa fylgst með því er ákærði hefði tekið í A og bar að þeir tveir hefðu í framhaldi af því einfaldlega: „farið í slag ... þeir voru mikið að rífa í hvorn annan.“ Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa séð högg ganga á milli A og ákærða þegar þetta gerðist og þá ekki veitt því eftirtekt að annar þeirra eða báðir hefðu fallið niður á jörðina.

            Vitnið kvaðst við lýstar aðstæður hafa tekið þá ákvörðun að stíga í milli og þá með þeirri ætlan að stöðva slagsmálin. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa reynt að ýta A frá ákærða, en er það hefði engan árangur borið hefði það snúið sér að ákærða. Viðskiptunum við ákærða lýsti vitnið nánar þannig: „Síðan reyni ég að ýta Guðmundi í burtu og hann rífur bolinn minn … ætlaði að ráðast á A og ... tekur í hálsmálið og rífur bolinn .. og klórar mig í leiðinni ... ég var með klórfar eftir þetta um allan líkamann ... ég held að hann hafi ekkert ætlað sér að rífa bolinn ... eða meiða mig endilega, en hann ætlaði virkilega að ráðast á A og ég var fyrir honum og hann var mjög reiður, hann vildi komast fram hjá mér.“ Vitnið kvaðst aðspurt að þessu sögðu ekki kannast við verknaðarlýsingu ákæru að öllu leyti og þá ekki að ákærði hefði beinlínis hrint honum í greint sinn. Vegna lýsts athæfis ákærða kvaðst vitnið hafa orðið frekar æst í skapi, en bar að einhver nærstaddur aðili hefði þá gripið í taumana og haldið því frá ákærða. Vitnið skýrði frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu að í nefndri atburðarás hefði það veitt því eftirtekt að frænka þess, vitnið D, hefði reynt að róa ákærða. Við þær aðstæður kvaðst vitnið hafa séð að ákærði hrinti henni frá sér og þá með þeim afleiðingum að sími hennar brotnaði.

            Vitnið skýrði frá því að það hefði veitt því eftirtekt er atvik máls gerðust, að A hefði brugðið sér af vettvangi og þá lagt leið sína í forstofu fyrrnefndrar húseignar og náð þar í golfkylfu. Vitnið kvaðst síðan hafa fylgst með því er A hefði haldið á kylfunni með báðum höndum og slegið henni í bifreið ákærða. Vitnið bar að er þetta gerðist hefði ákærði setið inni í bifreiðinni. Vitnið kvaðst aðspurt ekki minnast þess að hafa séð A nokkru sinni ógna ákærða með kylfunni.

            Við nefnda skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst vitnið ekki hafa séð áverka á ákærða eða A eftir að viðskiptum þeirra lauk í greint sinn.

            Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis er atvik máls gerðust og bar að minni sitt væri gloppótt af þeim sökum.

 

            Vitnið G kvaðst hafa verið utandyra við húseignina […] umrædda nótt þegar það hefði veitt því athygli að ákærði bakkaði bifreið sinn hratt aftur á bak frá húseigninni, en í framhaldi af því séð að A kastaði flösku á eftir bifreiðinni. Vitnið kvaðst þessu næst hafa fylgst með því að ákærði stöðvaði bifreiðina og steig út úr henni, en í beinu framhaldi af því farið að A og barið hann. Nánar aðspurt kvaðst vitnið aðeins hafa heyrt skellinn og bar að það hefði verið líkast því sem ákærði hefði slegið A einu hnefahöggi og sagði: „Ég heyrði bara fast högg ... bara eins og einhver hefði kýlt einhvern.“ Vitnið bar að aðstæður hefðu verið þannig þegar atburður þessi gerðist, að nefndir aðilar hefðu báðir legið á jörðinni, en sagði nánar aðspurt: „Þá lá A á jörðinni allavegana.“ Vegna þessa alls kvaðst vitnið hafa talið ástæðu til að kalla eftir aðstoð og bar að í framhaldi af því hefði kærasti þess, vitnið, F, ásamt vitnunum B og D, brugðist við og gengið á milli ákærða og A. Vitnið kvaðst hafa fylgst með því í þeirri atburðarás, sem á eftir fór, að A lagði leið sína inn á heimili sitt, en í framhaldi af því séð hann koma aftur út, en að þá hefði hann haldið á golfkylfu. Vitnið kvaðst hafa séð A lemja með kylfunni í bifreið ákærða. Vitnið kvaðst hins vegar aldrei hafa séð A beita kylfunni gegn ákærða eða ógna honum á neinn hátt með henni.

 

            Vitnið E kvaðst hafa verið innandyra í íbúðinni að […] þegar það hefði séð ákærða koma á bifreið sinni að húseigninni. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis fyrr um kvöldið, en er þarna var komið sögu kvaðst það nær ekkert hafa fundið til áfengisáhrifa. Vitnið kvaðst hafa fylgst með ferðum ákærða innandyra, en jafnframt veitt því athygli að húsráðandinn, […], fylgdi honum aftur út. Fyrir dómi vísaði vitnið til þess að langt væri um liðið frá þessum atburði og vísaði um nánari atvik til þeirrar skýrslu sem það hafði gefið hjá lögreglu. Vitnið kvaðst þannig ráma til þess að í þeirri atburðarás, sem á eftir fór, hefði ákærði ekið yfir fót A, þá er hann bakkaði bifreið sinni frá húseigninni, og að A hefði í kjölfarið kastað flösku í framrúðu bifreiðarinnar. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa fylgst með því er ákærði hefði stöðvað bifreiðina, og sagði að hann hefði: „... verið brjálaður og kemur út og ræðst síðan á A.“ Vitnið kvaðst hafa verið í um 10 m fjarlægð frá A og ákærða er þetta gerðist. Vitnið kvaðst hafa séð A falla á bakið á götuna og í framhaldi af því séð ákærða slá hann fleiri en einu höggi í andlitið. Vitnið kvaðst hafa séð að A fékk áverka vegna barsmíðanna og nefndi í því sambandi bólgnar varir, en einnig einhverja ákomu við annað augað. Vitnið sagði að í þeim atgangi, sem á eftir fór, hefði A svarað fyrir sig og þá með því að slá til ákærða.

            Vitnið skýrði frá því að um síðir hefðu nærstaddir aðilar reynt að skakka leikinn, en í því sambandi nefndi það vitnin A og B. Vitnið kvaðst minnast þess að D hefði m.a. staðið til hliðar við ákærða og að hún hefði reynt að halda í hann, en ákærði þá ýtt við henni. Vitnið sagði að B hefði greinilega reiðst vegna þessara viðbragða ákærða, en vísaði í því sambandi til þess að skyldleiki væri með honum og D. Vitnið sagði að í framhaldi af þessu hefði einhver aðili ráðist að B, en sökum minnisglapa og þess hversu langt var liðið frá nefndum atburði treysti það sér ekki til þess að segja til um hver hefði átt þar hlut að máli. Vitnið kvaðst hins vegar telja, eftir að hafa kynnt sér efni þeirrar skýrslu sem það hafði gefið hjá lögreglu, að þar væri rétt greint frá og þannig hefði það verið ákærði sem ráðist hafi á B. Vitnið sagði að eftir þessi síðastgreindu viðskipti hefði bolurinn sem B hafði íklæðst allur verið rifinn, en auk þess hefði það séð að B hafi verið: „allur klóraður út í blóði.“ Vitni bar að í þeim atgangi sem þá varð hefði það séð B handleika golfkylfu og þá jafnframt séð að hann hefði beitt bareflinu á bifreið ákærða, en hins vegar aldrei séð hann slá eða beita því gegn ákærða.

 

            Vitnið F kvaðst hafa verið innandyra í íbúðinni að […] og því ekki séð upphaf samskipta ákærða og A utandyra í greint sinn. Vitnið kvaðst hins vegar hafa haft af þessu spurnir og því farið út úr eigninni, en þá séð að A lá á bakinu á akbrautinni fyrir framan bifreið og að ákærði stóð þar yfir honum, og sagði: „…eins og hann hefði nýverið búinn að lemja hann eða eitthvað.“ Vitnið vísaði til þess að langt væri um liðið og því gæti verið að það hefði einu sinni séð ákærða berja til A og sagði: „Mig svona rámar í það.“ Vitnið vísaði til þess að það hefði verið frekar ölvað þegar atburður þessi gerðist, en það kvaðst helst minnast þess að A hefði eftir þessi fyrstu viðskipti verið með einhverja áverka eða bólgur í andliti og þá á vör. Vitnið staðfesti að þessu leyti frásögn sem það hafði gefið við skýrslugjöf hjá lögreglu við rannsókn málsins.

            Vitnið kvaðst hafa talið ástæðu til að bregðast við lýstu ástandi, en af þeim sökum kvaðst það, ásamt vitnunum D og B, hafa reynt að slíta ákærða og A í sundur, jafnframt því sem þau þrjú hefðu reynt að ræða við þá.

            Nánar aðspurt kvaðst vitnið í raun ekki hafa séð eiginleg átök millum ákærða og A eftir þetta og sagði að í mesta lagi hefði þá verið um „smá ýtingar“ að ræða.

            Vitnið kvaðst hafa séð A fara inn í nefnda íbúð, en bar að þau þrjú fyrrnefndu hefðu haldið áfram að ræða við ákærða og þá í þeim tilgangi að róa hann og að fá hann til þess að fara á bifreið sinni af vettvangi. Vitnið bar að ákærði hefði að lokum farið inn í bifreiðina, en þó ekki farið af vettvangi. Vitnið sagði að skömmu eftir þetta hefði A komið úr úr íbúðinni, en þá verið með golfkylfu á lofti. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa séð A slá golfkylfunni í bifreið ákærða og bar að þá hefði ákærði komið „bjálaður“ aftur út úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst enn fremur hafa fylgst með því er ákærði hefði ýtt við D þar sem hún hefði ásamt B staðið nærri bifreið hans. Vitnið bar að þannig hefðu þau þrjú í raun staðið í vegi fyrir því að ákærði kæmist að B. Vitnið sagði að D hefði fallið á jörðina vegna athæfis ákærða. Vitnið bar að B hefði orðið „pirraður“ vegna þessarar framkomu ákærða, en í því sambandi vísaði það til fyrrnefnds skyldleika þeirra. Vitnið kvaðst hafa séð B fara í ákærða; „eitthvað ... hann tók eitthvað í hann.“ Vitnið sagði að ákærði hefði brugðist við þessu með því að ýta B frá sér með hendinni, en þá í leiðinni „einhvern veginn rifið bol“ hans. Vitnið kvaðst ætla að B hefði fallið við vegna þess, en bar að hann hefði þó ekki hlotið neina áverka í viðskiptum sínum við ákærða.

            Vitnið bar að í þessum síðasta þætti atburðarásarinnar hefði það séð ákærða fara til A, en nánar aðspurt treysti það sér ekki til þess að segja til um hvort að þá hefði komið til barsmíða eða beins atgangs þeirra í millum. Vitnið kvaðst a.m.k. aldrei hafa séð A beita golfkylfunni gegn ákærða. Vitnið kvaðst í framhaldi af þessu á ný hafa gengið á milli A og ákærða. Vitnið sagði að af öllu þessu afstöðnu hefði ákærði farið aftur inn í bifreiðina, en í framhaldi af því ekið á brott.

            Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt á vettvangi að A var með mjög bólgna vör, en að öðru leyti ekki séð áverkamerki á honum og þá ekki á öðrum sem komu við sögu í greint sinn.

 

            Vitnið D kvaðst ekki hafa séð upphaf viðskipta ákærða og A utandyra við […] umrædda nótt, en það kvaðst er það gerðist hafa verið í hliðarskúr við húseignina. Við nefndar aðstæður kvaðst vitnið hafa heyrt einhver læti, en í framhaldi af því veitt því eftirtekt að allir gestirnir voru farnir úr íbúðinni. Vitnið kvaðst hafa gætt að þessu frekar og þá séð að bifreið ákærða var þar fyrir utan og jafnframt tekið eftir því að talsverð læti og öskur voru í nærstöddu fólki. Vitnið kvaðst við þessar aðstæður hafa afráðið að blanda sér í málið og þá með því að standa á milli ákærða og A og þá í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þeir færu að slást. Samhliða þessu kvaðst vitnið hafa beðið ákærða um að fara af vettvangi, enda verið kunnugt um að hann hefði ekki verið velkominn í það teiti sem þarna var haldið.

            Vitnið kvaðst í raun aldrei hafa séð ákærða og A takast á og enn fremur kvaðst það ekki hafa séð nein áverkamerki á þeim. Vitnið sagði að síðar í þessari atburðarás hefði það séð A halda á golfkylfu, en það kvaðst aldrei hafa séð hann beita henni og þá ekki gegn ákærða eða bifreið hans. Vitnið bar að A hefði engu að síður verið mjög reiður út í ákærða. Vitnið sagði að er þetta gerðist hefði það staðið á milli ákærða og A, en sagði að einnig hefði margt fleira fólk verið þarna á vettvangi. Vitnið ítrekaði að við þessar aðstæður hefði það reynt að fá ákærða til þess að fara, en bar að hann hefði brugðist við með því að ýta við því og þá með þeim afleiðingum að það hefði fallið við, en þá um leið hefði það brotið símtækið sitt. Vitnið kvaðst í framhaldi af þessu hafa fylgst með reiðiviðbrögðum frænda síns, vitnisins B. Vitnið sagði að B hefði m.a. öskrað að ákærða. Eftir þetta kvaðst vitnið hafa afráðið að blanda sér ekki frekar í atganginn, en hins vegar veitt því eftirtekt að til einhverra átaka hefði komið á milli ákærða og B. Vitnið sagði að ekki hefði verið um eiginleg slagsmál að ræða og bar að þeir tveir hefðu frekar verið að grípa og toga í hvorn annan og bar að þar hefði verið jafnt á komið með þeim og sagði: „Þeir voru báðir að toga og hrinda hvor öðrum … það voru engin högg ... það var bara togað og ýtt.“ Vitnið sagði að þessum síðastgreindu viðskiptum hefði lyktað með þeim hætti að ákærði hefði rifið hálfan bolinn utan af B. Þá kvaðst vitnið hafa séð það síðar að B var með rispur og skrámur þvert yfir bringuna og á öxlinni. Vitnið bar að ákærði hefði að lokum farið inn í eigin bifreið og ekið af vettvangi.

 

            Vitnið H kvaðst hafa verið í samkvæminu að […] umrædda nótt er það heyrði hávaða utandyra og því litið út, en þá séð hvar ákærði og A voru „að reyna að slást“ og að nærstaddir aðilar, þau B, D og F, hefðu verið að reyna að stöðva atganginn. Vitnið kvaðst hafa verið í u.þ.b. 15 metra fjarlægð frá vettvangi og ætlaði að sú atburðarás sem á eftir fór hefði varað í um sjö mínútur, en tók fram að það hefði ekki fylgst með öllu því sem fram fór.

            Nánar aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð barsmíðar millum ákærða og A í greint sinn og þá ekki heldur séð annan þeirra eða báða liggja eða krjúpa á jörðinni. Vitnið kvaðst heldur ekki hafa séð nein áverkamerki á þeim.

            Nánar aðspurt kvaðst vitnið síðar í þessari atburðarás hafa veitt því eftirtekt að A hélt á golfkylfu, en hins vegar aldrei séð hann beita henni. Vitnið kvaðst aðeins hafa séð A sparka í framhluta bifreiðar ákærða, en þá jafnframt veitt því eftirtekt að framrúðan í bifreiðinni var brotin. Vitnið bar að er þetta gerðist hefði ákærði setið inni í bifreið sinni, en sagði að hann hefði farið út úr bifreiðinni eftir nefnt spark A. Vitnið sagði að þá hefði í raun sama atburðarásin endurtekið sig, þ.e. nærstaddir aðilar, þ. á m. B, hefðu reynt að koma í veg fyrir að ákærði og A næðu saman og þá með því að halda í þá. Vitnið bar að almennur æsingur hefði verið á vettvangi og þá ekki síst hjá ákærða og A, en það ætlaði að um tíu einstaklingar hefðu verið nærri þeim. Vitnið áréttaði að það hefði aldrei séð A beita fyrrnefndri kylfu og þá ekki með því að beina henni eða ota henni að ákærða.

            Vitnið kvaðst eftir að hafa kynnt sér þá lögregluskýrslu, sem það hafði gefið við rannsókn málsins, ætla að það væri rétt sem þar væri haft eftir honum, þar á meðal að vitnið D hefði fallið í viðskiptum við ákærða. Fyrir dómi kvaðst vitnið enn fremur minnast þess að hafa séð ákærða rífa bol vitnisins B og bar að það hefði gerst þegar hann hefði staðið í vegi fyrir ákærða. Vísaði vitnið til þess að þegar þetta atvik gerðist hefði B verið að reyna að hindra för ákærða og þá með því að halda í hann. Vitnið staðfesti enn fremur að þessu leyti efni skýrslunnar og þá um að B hefði vegna þeirra sviptinga sem þarna urðu fengið klórfar á bringuna. Aðspurt bar vitnið að það gæti vel hafa verið að B hefði er þetta gerðist verið nálægur og að hann hefði þá haldið á fyrrnefndri golfkylfu, en nánar aðspurt kvaðst það þó ekki geta fullyrt neitt um þetta atriði.

            Vitnið kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis er atvik máls gerðust.

 

            Vitnið I læknir staðfesti efnislega áðurrakið vottorð  um ákærða Guðmund og svaraði spurningum þar um. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa skoðað áverka A og B, og því aðeins ritað vottorðin um þá eftir fyrirliggjandi læknanótum.

 

            Lögreglumennirnir C, J, K og L gáfu allir skýrslur fyrir dómi. Vitnin staðfestu m.a. verk sín við rannsókn málsins, en ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra.

 

IV.

            Í máli þessu eru ákærða gefnar að sök tvær líkamsárásir aðfaranótt 7. maí 2017. Að virtum gögnum verður miðað við að atvik máls hafi gerst á akbraut […] í […] og þá nærri húseigninni nr. […].

            Annars vegar er ákærða gefið að sök að hafa slegið A hnefahögg í andlitið svo að hann féll við og svo sest ofan á hann og slegið hann nokkur hnefahögg í andlitið til viðbótar, með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.

            Hins vegar er ákærða gefið að sök að hafa hrint B frá sér með þeim afleiðingum að hann fékk minni háttar áverka á brjóstkassa.

            Við alla meðferð málsins hefur ákærði neitað sök.

            Helstu málsatvikum svo og aðdraganda þeirra samskipta sem vísað er til í ákæru er lýst í I. kafla, 1-3 tölulið, hér að framan. Að auki hefur verið rakinn framburður ákærða, nefndra brotaþola og vitna, en einnig efni þeirra áverkavottorða, sem lögregla aflaði við rannsókn málsins,

            Með framburði ákærða og brotaþolans A, sem stoð hefur í frásögn vitna, er að áliti dómsins í ljós leitt að til illinda kom þeirra í millum eftir að ákærði hafði bakkað bifreið sinni frá heimili brotaþolans, […]. Óumdeilt er að A brást þá við með því að kasta glerflösku í framrúðu bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði.

            Þrátt fyrir að það sé ekki á meðal sakaratriða verður í ljósi trúverðugs framburðar A, efnis læknisvottorðs og framburðar vitna, að áliti dómsins ekki horft fram hjá lýstum aðdraganda, en þá jafnframt að honum, líkt og ákærða, hafi vegna þessa verulega runnið í skap. Gegn neitun ákærða hefur því á hinn bóginn ekki verið hnekkt, að hann hafi í greint sinn ekið rólega og að hann hafi ekki orðið þess var að brotaþoli varð fyrir þeirri ákomu á fæti sem hann hefur lýst og gögn málsins bera með sér.

            Fyrir dómi hefur ákærði viðurkennt að hafa stöðvað bifreið sína í kjölfar ofangreinds atburðar og í framhaldi af því farið að A og fellt hann til jarðar, á akbrautina, og jafnframt að hafa haldið honum þar um stund.

            Hér að framan hefur verið rakinn framburður A, þ. á m. um að hann hafi fallið vegna hnefahöggs ákærða í upphafi viðskipta þeirra og jafnframt að hann hafi þá hlotið þá áverka sem lýst er í læknisvottorði hans. Framburður vitnisins E er í samræmi við frásögn A að þessu leyti. Að áliti dómsins er frásögn vitnisins trúverðug, en einnig um að ákærði hafi verið í mjög æstu skapi er atburður þessi gerðist. Þótt blæbrigðamunur sé á frásögn annarra vitna, þ. á m. vitnanna F, B og G, að þessu leyti, eru þeir að áliti dómsins til stuðnings framburði A.

            Að þessu virtu er það niðurstaða dómsins, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi slegið brotaþolann A hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann féll við og þá með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.

 

            Með framburði ákærða og nefnds brotaþola, A, er ágreiningslaust að í kjölfar nefnds hnefahöggs hafi komið til gagnkvæmra og skammvinnra átaka með þeim, en að frekar hafi verið um hnoð að ræða, þrátt fyrir að ákærði hafi haft yfirhöndina. Verður ekki annað ráðið af frásögn A en að hann hafi ekki fengið sérstaka áverka vegna þessara viðskipta við ákærða. Að þessu virtu, auk áðurlýstrar afstöðu ákærða við alla meðferð málsins, verður ákærði sýknaður af þeim sakaratriðum í ákæru, að hann hafi sest ofan á brotaþolann A og í framhaldi af því hafi hann slegið hann (A) nokkur hnefahögg til viðbótar.

 

            Fyrir liggur í máli þessu að þeir gestir sem verið höfðu í næturhófinu á heimili A umrædda nótt brugðust við lýstum atgangi og þá með því að reyna að afstýra frekari tjóni með því að ganga á milli A og ákærða. Komu þar helst við sögu brotaþolinn B og vitnin D og F. Hafa þau öll lýst þessari viðleitni og aðgerðum sínum á vettvangi fyrir dómi. Að áliti dómsins var sammerkt með framburði þeirra, að þrátt fyrir að verulegur hugaræsingur hafi verið með ákærða og A þegar atvik máls gerðust hafi þeim tekist að stöðva atganginn og að ákærði hafi í kjölfarið farið inn í bifreið sína, en A til síns heima.

            Samhljómur er með frásögn allra þeirra sem gáfu skýrslur fyrir dómi um að þegar A hafi komið aftur á vettvang hafi hann haldið á golfkylfu. Hefur A skýrt þessa gjörð sína á þann veg, að hann hafi viljað leggja áherslu á þau orð sín að ákærði myndi fara af vettvangi. Að því leyti kannaðist hann við að hafa verið ógnandi í garð ákærða.

            Óumdeilt er að A beitti kylfunni í greint sinn með því að slá henni í bifreið ákærða, auk þess sem hann hafi sparkað í bifreiðina. Með þessu athæfi varð hann valdur að eignaspjöllum, líkt og lýst er í skýrslum lögreglu, sbr. að því leyti fyrrnefndan sektardóm, sem kveðinn var upp yfir honum þann 19. febrúar sl.

            Með framburði A og ákærða, en ekki síður áðurnefndra vitna, er upplýst að ákærði brást við með því að fara út úr bifreið sinni á nýjan leik. Einnig liggur fyrir og að vitnin D og F, svo og brotaþolinn B, brugðust þá aftur við og þá með líkum hætti og fyrr. Verður þannig ráðið að vitnin hafi staðið á milli ákærða og A, en að þau hafi samhliða því haft að einhverju leyti tök á ákærða.

            Í ákæru er ákærði sakaður um að hafa við lýstar aðstæður hrint B harkalega frá sér með þeim afleiðingum að hann hlaut klórfar á hægra viðbein og tvo marbletti á brjóstkassa. Ákærði neitar sök að þessu leyti, eins og áður er rakið.

            Ákærði hefur við alla meðferð málsins haldið því fram að A hafi við greindar aðstæður veist að honum með kylfunni og að á þeirri stundu hafi honum verið haldið, þ. á m. af brotaþolanum A. Ákærði hefur og borið að vegna þessa athæfis hafi hann m.a. fengið þann tannáverka sem lýst er í læknisvottorði hans. Hann hafi því brugðist við og snúið brotaþolann B af sér, en án þess að valda honum áverkum.

            Að áliti dómsins hefur frásögn ákærða stoð í frásögn nefndra vitna að því er varðar nærveru A í greint sinn og jafnframt að hann hafi þá að einhverju leyti verið í tökum þeirra. Vitnin hafa hins vegar ekki kannast við að A hafi beitt golfkylfunni gegn ákærða með þeim hætti sem hann hefur lýst og verður það ekki lagt til grundvallar í málinu.

            Að virtum framburði vitnanna D og F, sem stoð hefur í frásögn B verður á hinn bóginn lagt til grundvallar að ákærði hafi í verki losað sig úr tökum D við lýstar aðstæður og þá með því að ýta við henni, og að í kjölfar þess hafi komið til smávægilegra en gagnkvæmra stympinga og ýtinga millum hans og B. Fram hjá því verður hins vegar ekki horft að B hefur fyrir dómi ekki kannast við að ákærði hafi hrint honum. Að auki hafði vitnið á orði að það hefði að líkindum ekki verið ásetningur ákærða að valda honum þeim áverkum sem lýst er í ákæru.

            Þegar sakargögn eru virt í heild og til þess litið að ekki verður af framburði vitna fyllilega ráðið hvernig atgangur ákærða og B fór fram og að atvik máls virðast hafa gerst með tiltölulega skjótum hætti, verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að áverkar B, sem voru minni háttar, verði að nokkru raktir til háttalags og framgöngu hans sjálfs. Þá gátu þau viðbrögð sem vitni hafa tíundað að ákærði hafi viðhaft eftir atvikum verið honum réttlætanleg í ljósi nærveru B í greint sinn og þeirrar háttsemi sem hann hafði þá þegar sýnt af sér, og þá til þess að verjast yfirvofandi árás. Að því leyti er að áliti dómsins skilyrðum 12. gr. almennra hegningarlaga fullnægt. Verður ákærði því sýknaður af því að hafa brotið með refsiverðum hætti gegn brotaþolanum B í þeim sviptingum sem með þeim sannanlega urðu í greint sinn.

 

V.

            Ákærði, sem er 22 ára, hefur samkvæmt sakavottorði áður sætt refsingum, sem áhrif hafa í máli þessu. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun vegna þjófnaðarbrots fyrir dómi þann 16. apríl 2013 og var honum þá gert að greiða sekt til ríkissjóðs. Þá gekkst ákærði undir sektargerð lögreglustjóra þann 13. mars 2014 vegna brota gegn fíkniefnalöggjöfinni. Loks var ákærði þann 20. október 2015 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára fyrir alvarlega líkamsárás, sem hann framdi þegar hann var 19 ára.

            Ákærði hefur með líkamsárásarbroti því sem hann hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir rofið skilorð nefnds dóms frá 20. október 2015. Ber því samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að taka skilorðið upp og dæma með þeirri refsingu sem nú verður ákvörðuð, sbr. og ákvæði 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar ákærða verður m.a. litið til 1. töluliðs 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 218. gr. c í hegningarlögum. Þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin fimm mánaða fangelsi.

            Eins og áður er fram komið var hlutur A ekki vítalaus þegar atvik máls þessa gerðust, og þá hvorki í upphafi samskiptanna við ákærða eða á síðari stigum. Þykir mega horfa til þessa að nokkru, en einnig liggur fyrir að ákærði hlaut sjálfur nokkra áverka. Þá ber einnig að horfa til þess, að samkvæmt yfirlýsingum fyrir dómi hafa fullar sættir tekist með ákærða og A. Að þessu virtu og með hliðsjón af 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. og 4. tölulið 1. mgr. 74. gr. hengingarlaganna þykir enn fært að skilorðsbinda refsingu ákærða, en þá þannig að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa að telja haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Að kröfu lögreglustjóra, en einnig í ljósi málsúrslita, sbr. ákvæði 235. gr. laga nr. 88/2008 með síðari breytingum, verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar, en helmingur skal falla á ríkissjóð. Er um að ræða sakarkostnað lögreglu, sem samkvæmt yfirliti nam 30.000 krónum, og þá vegna áverkavottorða. Enn fremur féll til kostnaður af ferðum vitnis á þingstað við aðalmeðferð málsins, að fjárhæð 12.522 krónur, og er þar um að ræða óhjákvæmilegan sakarkostnað. Þar við bætast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, en þau ákvarðast að meðtöldum virðisaukaskatti og með hliðsjón af rökstuddri tímaskýrslu, 843.200 krónur. Að auki fellur til útlagður ferðakostnaður verjandans að fjárhæð 46.790 krónur, eins og nánar segir í dómsorði.

            Af hálfu ákæruvalds fór með málið Helgi Jensson ftr., en skipaður verjandi ákærða var Gísli M. Auðbergsson lögmaður.

            Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 fyrir uppkvaðningu dómsins.

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Guðmundur Ragnar Pétursson, sæti fangelsi í fimm mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði helming sakarkostnaðar, sem er 932.512 krónur, að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, að fjárhæð 843.200 krónur, auk ferðakostnaðar verjandans að fjárhæð 46.790 krónur. Helmingur sakarkostnaðar greiðist af ríkissjóði.