• Lykilorð:
  • Ökuréttarsvipting
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands þriðjudaginn 7. maí 2019 í máli nr. S-8/2019:

 Ákæruvaldið

 (Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari)

 gegn

 Kristjáni Má Guðnasyni

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 2. maí 2019, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni, 4. mars sl., á hendur Kristjáni Má Guðnasyni, kennitala [...], [...], [...]:

            ,,fyrir umferðarlagabrot í … með því að hafa fimmtudaginn 10. janúar 2019, undir áhrifum áfengis og sviptur ökurétti, ekið bifreiðinni …, frá …félaginu, …, um …, hringveg og vestur …veg, u.þ.b. 3ja kílómetra vegalengd, þar sem hann stöðvaði bifreiðina.  Vínandamagn í blóði kærða mældist 1,5 ‰.

 

            Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. breytingarlög.“

 

I.

            Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust viðurkennt sakargiftir, líkt og þeim er lýst í ákæru. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, sem og rannsóknargögnum lögreglu, þ. á m. matsgerð sérfræðinga hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands, dagsettri 6. febrúar sl., er nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem í ákæru er lýst. Brot ákærða eru réttilega heimfærð til laga í ákæru.

            Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008. 

            Að ofangreindu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

 

II.

            Ákærði, sem 37 ára, hefur samkvæmt sakavottorði sakaskrár ríkisins áður hlotið dóma, en hann var á árunum 2001 til 2017 margítrekað dæmdur til fangelsisrefsinga fyrir brota gegn umferðarlögum, og þá ekki síst, en þó einkum framan af, fyrir ölvunarakstur, en hann var fyrst sviptur ökurétti ævilangt með dómi í september 2002. Jafnframt þessu hefur ákærði margsinnis verið dæmdur fyrir að aka ökutæki sviptur ökurétti, en síðast var hann dæmdur fyrir slík brot í ágúst 2013 og janúar 2016 og þá í átján mánaða og níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur, en loks var hann dæmdur fyrir slíkt brot í Héraðsdómi Suðurlands, í júní 2017, í níu mánaða fangelsi.

            Í máli því sem hér er til umfjöllunar hefur ákærði enn á ný verið sakfelldur fyrir að aka ökutæki undir áhrifum áfengis, en að auki fyrir að hafa ekið ökutæki sviptur ökurétti.

            Að ofangreindu virtu og þá ekki síst þegar litið er til lýsts sakaferils þykir refsing hans nú, og þá með hliðsjón af ákvæði 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þrátt fyrir að viðhorfsbreyting virðist hafa orðið á högum hans og viðhorfum hina allra síðust mánuð, m.a. vegna breyttrar búsetu, eftir atvikum hæfilega ákveðin tíu mánaða fangelsi.

            Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru og lýsts sakarferils skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja, og er hún í raun áréttuð.

            Að kröfu ákæruvalds og með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, en samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur hann 155.887 krónum.

            Af hálfu lögreglustjóra fór með málið Helgi Jensson aðstoðarsaksóknari.   

            Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

            Ákærði, Kristján Már Guðnason, sæti fangelsi í tíu mánuði.

            Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

            Ákærði greiði 155.887 krónur í sakarkostnað.