• Lykilorð:
  • Lausafjárkaup
  • Samningur
  • Sönnun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. október 2018 í máli nr. E-39/2017:

Holdi ehf.

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

gegn

Árbótarbúi ehf.

(Björgvin Þorsteinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var tekið til dóms 3. september sl., höfðaði stefnandi, Holdi ehf., kt. ...., Kríunesi, Hrísey, á hendur Árbótarbúi ehf., kt. ..., Árbót, Húsavík, með stefnu birtri 10. febrúar 2017.

Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld, að fjárhæð 7.440.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2015 til greiðsludags, að frá­dreginni innborgun þann 1. desember 2015, að fjárhæð 6.000.000 krónur. Þá krefst hann þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum málskostnað að mati dómsins, eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða því málskostnað en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar stórlega og málskostnaður felldur niður.

 

I.

Stefnandi rak nautgriparæktarstöð í Hrísey. Í apríl 2015 var nautgriparæktin í Hrísey auglýst til sölu í Bændablaðinu, og tekið fram að um væri að ræða nautgripi og tæki, sem yrði selt í heild eða hlutum. Aðilar eru sammála um að þeir hafi gert með sér samning um sölu til stefnda en þá greinir á um inntak samningsins. Þann 18. nóvember 2015 sendi stefnandi 49 nautgripi til stefnda og 1. desember 2015 gaf stefnandi út reikning að fjárhæð 7.440.000 krónur. Þar er tilgreint að reikningurinn sé vegna sölu á 49 nautgripum.

Stefndi greiddi 6.000.000 krónur inn á reikninginn þann 4. desember 2016. Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf, dags. 18. apríl 2016 og krafði hann um mismuninn. Stefndi svaraði með bréfi dags. 24. sama mánaðar og kvaðst ekki hafa fengið allt sem um hafði verið samið, þ.e. 53 nautgripi og tæki, heldur aðeins 49 naut­gripi. Hann hafi metið það svo að heildaverðmæti þess sem hann fékk afhent væru 6.000.000 krónur en hann myndi greiða mismuninn þegar hann fengi afhent það sem upp á vantaði.

Stefnandi kveður kaupverðið hafa verið miðað við 49 nautgripi og krefst því mismunar á heildarfjárhæð reikningsins og því sem greitt var í máli þessu.

 

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á reikningi dags. 1. desember 2015. Aðilar hafi samið um kaup stefnda á 49 nautgripum fyrir 6.000.000 krónur auk virðisauka­skatts, alls 7.440.000 krónur. Þeir hafi verið afhentir og stefnda beri að greiða umsamið kaupverð. Af hálfu stefnanda er því hafnað að samið hafi verið um afhendingu 53 nautgripa og tækja úr rekstri nautgriparæktarstöðvarinnar.

Fyrir dómi báru Ólafur Agnar Pálmason, stjórnarformaður stefnanda, og aðrir stjórnar­menn félagsins, þeir Almar Björnsson, Pétur Birgisson og Kristinn Frímann Árnason, að þeir hafi ákveðið að hætta rekstri búsins þar sem þeir hafi verið fluttir frá Hrísey og ekki forsendur lengur til að sinna því. Þeir hafi auglýst félagið og komið hafi eitt tilboð í allan reksturinn sem þeir hafi gengið að. Sú sala hafi ekki gengið eftir og bar Ólafur Agnar að Hákon Gunnarsson, fyrirsvarsmaður stefnda, hafi haft samband með kaup í huga. Hann kvaðst hafa sent Hákoni gripalista, þar sem skráðir voru 53 gripir, en skýrt honum frá því í símtali að fjórum væri þar ofaukið. Hákon hafi síðan, við þriðja mann, komið að skoða búið snemma í nóvember, líklega þann 9. nóvember. Kristinn Frímann hafi einnig verið viðstaddur. Ólafur Agnar bar að Hákon og fylgdarmenn hans hafi skoðað allt búið og rætt hafi verið hvort hann vildi kaupa allt. Hákon hafi þá svarað að hann ætti nóg af vélum og hefði ekki þörf fyrir fleiri. Ólafur Agnar kvaðst þá hafa talið ljóst að Hákon væri aðeins að hugsa um kaup á nautgripunum. Hákon hafi eftir þetta snúið sér til Kristins Frímanns um allt sem við kom viðskiptunum. Kristinn Frímann hafi fljótlega haft samband við aðra stjórnar­menn og tjáð þeim að Hákon hafi boðið 6.000.000 krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir nautgripina. Það boð hafi verið samþykkt og nautgripirnir fluttir að Árbót 18. eða 19. nóvember. Stjórnarmenn allir báru að þeir hafi talið að tilboð Hákonar hafi aðeins tekið til nautgripanna. Varðandi mismun á fjölda gripa í gripaskrá og afhentum gripum kváðu stjórnarmenn stefnanda þrjá gripi hafa verið fellda um haustið, þeir hafi verið búnir að rífa af sér merki og því ekki hægt að færa inn í skrána hvaða gripir það voru fyrr en allir væru komnir í hús. Einn kálfur hafi verið sendur annað og taldi Ólafur Agnar að Kristinn Frímann hefði rætt það við Hákon. Almar bar einnig að sér hefði skilist að Kristinn Frímann hefði rætt það við Hákon, sem hefði svarað því til að einn gripur til eða frá skipti ekki máli.

Ólafur kvaðst svo hafa heyrt það, líklega um 7. desember að hluti reikningsins vegna viðskiptanna hefði verið greiddur. Hann hafi síðan hitt Viðar son Hákonar í ferjunni á leið út í Hrísey og hann hafi sagst vera að fara að líta á vélarnar og laga. Hann hafi spurt Viðar hvort þeir ætluðu að taka vélarnar og Viðar svarað því til að hann yrði að ræða það við föður hans. Tveimur dögum síðar hafi Almar svo tjáð honum að ætlun Hákonar væri að taka vélarnar án frekari greiðslu. Kristinn Frímann kvað Hákon hafa haft samband og beðið um tækjalista og hann hafi sent honum hann. Stjórnar­menn báru allir að þeir hafi litið svo á að gera yrði annan samning um vélarnar ef Hákon vildi kaupa þær. Varðandi viðgerðir Viðars á vélunum kvaðst Ólafur hafa talið að hann ætlaði að koma þeim í gang til að kanna hvort væri þess virði að kaupa þær.

 

III.

Stefndi kveður Matvælastofnun hafa gert alvarlegar athugasemdir við aðbúnað gripa stefnanda haustið 2015. Þá hafi gripirnir ásamt vélum verið auglýstir til sölu. Eftir að sala áætluð sala hafi ekki gengið eftir hafi Ólafur Pálmi Agnarsson, fyrirsvars­maður stefnanda og Hákon Gunnarsson, fyrirsvarsmaður stefnda rætt saman um möguleg viðskipti aðila. Ólafur Pálmi hafi átt frumkvæði að þeim viðræðum. Eftir símtöl þeirra á milli hafi stefnandi, þann 2. nóvember 2016, sent stefnda lista yfir 53 gripi. Þann 9. nóvember hafi Hákon farið út í Hrísey ásamt syni sínum og Bjarna Eyjólfssyni að skoða gripina. Þar hafi þeir hitt Ólaf Pálma og Kristin Frímann Árnason sem hafi óskað eftir að Hákon keypti félagið Holda ehf. eða alla gripi og öll tæki og tól er rekstrinum tilheyrðu. Hákon hafi svo ákveðið að gera tilboð í gripina og hluta tækja, sem hafi þó verið í döpru ástandi en gripirnir hafi einnig verið illa fóðraðir. Sjö af 27 kúm hafi reynst geldar vegna fóðurskorts. Stefndi kveður tækin hafa verið samkvæmt tækjalista frá stefnanda, Zetor dráttarvélar nr. 7745 og 6511, haugtankur, bindivél, flatvagn, rúllugreip og skófla á dráttarvél.

Upp úr miðjum nóvember hafi aðilar samið svo að stefndi keypti alla gripi sem voru á gripalista sem honum var sendur 2. nóvember 2015 og tæki samkvæmt tækja­lista sem Kristinn Frímann hafi sent stefnda 17. nóvember 2015. Kaupverðið hafi verið 6.000.000 króna, auk virðisaukaskatts, alls 7.440.000 krónur. Þá myndi stefnandi sjá um flutning gripanna að Árbót.

Stefndi kveður leyfi til flutnings 53 nautgripa hafa fengist 18. nóvember 2015. Þeir hafi verið fluttir að Árbót næsta dag í miklum flýti, enda hafi ekkert hey verið til. Þá hafi starfsmenn Matvælastofnunar verið væntanlegir, enda hafi búið verið komið undir strangt eftirlit. Gripirnir hafi svo reynst 49, og fjóra vantað miðað við gripaskrá. Honum hafi orðið kunnugt að 50 gripir hafi verið fluttir á land en einn tekinn á bryggjunni og keyrður eitthvert annað.

Stefndi kveðst hafa haft samband við Kristin Frímann þegar í ljós kom að gripirnir voru aðeins 49 en fátt hafi verið um svör. Hann hafi greitt 6.000.000 krónur inn á reikning stefnanda 4. desember 2015 og talið það sanngjarnt þar sem enn hafi vantað fjóra nautgripi og umsamin tæki og tól.

Stefndi kveður Viðar son sinn hafa farið í Hrísey um 10. desember 2015 með varahluti í dráttarvélarnar, fyrir um 100.000 krónur, til að gera þær færar til flutnings að Árbót. Kristinn Frímann og Almar Björnsson hafi tekið á móti honum og aðstoðað hann við viðgerðir. Þá hafi verið samið um flutning frá Hrísey með Grímseyjar­ferjunni næsta dag. Þegar Viðar hafi ætlað að ljúka viðgerðum og sækja tækin þann dag hafi Kristinn tekið á móti honum og sagt að ósætti væri meðal stjórnenda stefnanda, og hann þyrfti tíma til að tala þá til. Þeir Viðar og Kristinn hafi svo lokið viðgerðum vélanna. Stefndi hafi svo síðar frétt að ekki stæði til að hann fengi tækin og Viðar þá farið milla jóla og nýárs 2015 og sótt þá varahluti sem hann hafði keypt.

Stefndi kveðst byggja á að kominn hafi verið á bindandi samningur milli aðila um að hann keypti 53 nautgripi samkvæmt lista sem hann fékk 2. nóvember 2015 og tæki og tól samkvæmt lista sem hann fékk 17. nóvember 2015. Stefnandi hafi ekki efnt samninginn og hann hafi heimild til að halda eftir greiðslu á þeim hluta kaupverðsins sem samsvara þeim verðmætum sem ekki voru afhent og vegna kostnaðar sem hann hefur borið vegna vanefnda stefnda. Tjónið sé vegna þeirra fjögurra gripa sem hann fékk ekki afhenta, umsaminna tækja og tóla og kostnaður vegna ferða Viðars til að gera við tækin. Stefnandi hafi brotið gegn honum með saknæmum og ólögmætum hætti og beri á því bótaábyrgð gagnvart stefnda. Stefndi vísar til þess að hann hafi þegar greitt meira en sanngjarnt verð fyrir það sem hann fékk, sbr. 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um rétt til að halda eftir greiðslu vísar hann til 42. gr. sömu laga, en um skaðabótaskyldu stefnanda til 22., 27. og 50. gr. sömu laga.

Fyrir dómi kannaðist Hákon við að hafa sagt við skoðunina í Hrísey að hann vantaði ekki þessar vélar, en hann hafi keypt þær því þær hafi verið „í pakkanum“. Hann kvaðst hafa gert tilboðið 2-3 dögum eftir þessa skoðun. Hann kvaðst ekki muna eftir símtali frá Ólafi Pálma um að sendur gripalisti væri ófullkominn.

 

IV.

Fyrir dóminum gáfu Ólafur Agnar Pálmason og Hákon Gunnarsson aðila­skýrslur og vitnaskýrslur Almar Björnsson, Pétur Birgisson og Kristinn Frímann Árnason stjórnarmenn stefnanda, Bjarni Eyjólfsson, Smári Thorarensen, Óli Friðbjörn Kárason, Pétur Steinþórsson, Runólfur Sigursveinsson, Björn Jósef Arnviðarson, Arnar Gústafsson, Viðar Hákonarson og Ólafur Jónsson.

Fyrir liggur að stefnandi auglýsti búið til sölu með auglýsingu sem var birt í Bænda­blaðinu 16. og 30. apríl 2015. Þar sagði: „Nautgriparæktin Holdi ehf Hrísey er til sölu! Um er að ræða Galloway gripi og tæki, selst í heild sinni eða hlutum.“ Þar var tilgreint að leita mætti til Ólafs eftir frekari upplýsingum. Einnig liggur fyrir að Ólafur Agnar og Hákon ræddu möguleg kaup stefnda í síma og að stefndi fékk lista yfir naut­gripi í tölvupósti 2. nóvember 2015. Þá ber aðilum saman að fulltrúar stefnda hafi farið í Hrísey 9. nóvember sama ár til að skoða búið. Ólafi Agnari og Kristni Frímanni ber saman um að Hákon hafi aðspurður um vélarnar sagt að hann hefði ekkert með vélar að gera. Hann ætti nóg af þeim. Hákon kannaðist við það aðspurður að hann vantaði ekki vélar. Hann ætti enda nóg en hafi talið sig vera að kaupa þær því þær hafi verið í pakkanum. Vitnið Bjarni Eyjólfsson kannaðist við að Hákon hafi talað um við skoðunina að hann hefði enga þörf fyrir þessi tæki. Þeir hafi hins vegar litið svo á að þetta væri allt einn pakki, Kristinn hafi sýnt þeim gripina og tækin. Vitnið Viðar mundi ekki eftir þessum orðaskiptum en kvað þó ekki ósennilegt að Hákon hefði sagt eitthvað á þessa leið. Kristinn Frímann sendi Hákoni lista yfir tæki og vélar að kvöldi 17. nóvember 2015. Hákon sótti um leyfi til flutnings nautgripanna frá Hrísey í Árbót 18. nóvember og var það veitt sama dag. Þann 19. nóvember voru 49 nautgripir afhentir að Árbót.

Aðilar eru sammála um að munnlegur kaupsamningur hafi verið gerður fljótt eftir að fulltrúar stefndu skoðuðu bú stefnanda, og kvaðst Hákon Gunnarsson telja að það hafi verið um 2-3 dögum síðar. Kauptilboðið hljóðaði upp á 7.440.000 krónur en aðila greinir á um andlag kaupanna.

Fyrirsvarsmaður stefnda fékk tækjalista sendan að kvöldi 17. nóvember og sótti um flutning nautgripanna daginn eftir. Hann kveðst þó hafa gert tilboðið miðað við umræddan tækjalista. Verður að telja afar ósennilegt að samið hafi verið um kaupin á þeim örskamma tíma sem leið frá því að hann fékk tækjalista sendan, að kvöldi 17. nóvember 2015, þar til hann sótti um leyfi til flutnings nautgripanna daginn eftir. Þegar litið er til þess, þess að ætlun stefnanda var samkvæmt auglýsingu, að selja reksturinn í heild eða hlutum, og þess að vitnum ber saman um að Hákon hafi sagt að hann hefði ekki þörf fyrir vélar eða tæki verður að telja að stefnda hafi ekki tekist að sanna að kauptilboð hans hafi tekið til vélanna, eða fyrirsvarsmönnum stefnda hafi mátt vera ljóst að hugur hans hafi staðið til þess.

Fyrir liggur að á lista sem stefndi fékk 2. nóvember 2015 voru 53 nautgripir en stefndi fékk afhenta 49 gripi. Fyrirsvarsmenn stefnanda eru fremur óskýrir í framburði sínum um að fyrirsvarsmanni stefnda hafi verið gerð grein fyrir því að gripalistinn væri rangur, og óvissa þeirra á milli hver hafi rætt við hann um að kálfur sem fór úr Hrísey í land færi annað en til stefnda. Verður því ekki lagt til grundvallar í málinu að fyrirsvars­maður stefnda hafi mátt vita að gripirnir væru færri en 53.

Stefndi byggir á því að lækka beri kaupverðið því gripirnir sem hann fékk hafi verið illa haldnir. Matvælastofnun hafi verið búin að gera athugasemdir við aðbúnað þeirra og hafi haft sérstakt eftirlit með búinu vegna þess. Þessi málatilbúnaður fær ekki stoð í gögnum málsins. Fyrir liggja tvær skoðunarskýrslur Matvælastofnunar frá 27. nóvember 2013, annars vegar um matvæli og fóður og hins vegar dýravelferð, þar sem engar athugasemdir voru gerðar. Þá kom Ólafur Jónsson héraðsdýralæknir fyrir dóminn og kvað aldrei hafa verið gerðar athugasemdir við aðbúnað eða aðstæður hjá stefnanda. Dýralæknir á hans vegum hafi meðal annars farið þangað haustið 2014 og þá ekki gert athugasemdir. Þá er einnig til þess að líta að stefndi skoðaði dýrin áður en hann gerði tilboðið en byggði það ekki eingöngu á gripalistum. Því er hafnað þeirri málsástæðu að gripirnir hafi verið minna virði en stefndi hafi mátti ætla.

Fyrir liggur mat Runólfs Sigursveinssonar hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, dags. 14. júní 2017 á virði nautgripanna, sem hann staðfesti fyrir dómi. Matið byggir ekki á skoðun þeirra gripa sem seldir voru heldur á skráðum upplýsingum um aldur þeirra og kyn. Þá er þar litið til verðlista miðað við fallþunga árin 2015 og 2017. Var niðurstaða matsins að verðmæti þessara 49 gripa hefði verið 8.528.038 krónur með virðisaukaskatti. Söluverðið hafi því verið undir matsverði, auk þess sem seljandi hafi kostað flutninga til kaupanda. Þó megi hafa í huga að um var að ræða verulegan fjölda gripa seldan einum eiganda, og oft sé verð lægra í slíkum tilvikum en við sölu einstakra gripa.

Þrátt fyrir að kaupverðið hafi verið nokkru lægra en samkvæmt ofangreindu mati, er það álit dómsins, með vísan til þess sem að framan er rakið, að rétt sé að draga verðmæti fjögurra gripa frá umsömdu kaupverði. Samkvæmt útreikningum stefnda, byggðum á framangreindu mati Runólfs Sigursveinssonar, sem ekki var mótmælt af stefnanda var virði þeirra 230.265 krónur. Krafa stefnanda verður því tekin til greina að þeirri fjárhæð frádreginni. Þar sem stefndi greiddi 6.000.000 króna inn á reikninginn á gjalddaga, verður sú fjárhæð dregin frá höfuðstól skuldarinnar og stefnda því gert að greiða stefnanda 1.209.735 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2015 til greiðsludags.

Með vísan til úrslita málsins og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal stefndi greiða stefnda 700.000 krónur í málskostnað.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Árbótarbúið ehf., greiði stefnanda, Holda ehf., 1.209.735 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2015 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

 

                                                      Erlingur Sigtryggsson