• Lykilorð:
  • Samningur
  • Skuldajöfnuður
  • Tómlæti

 

 

 

    

 

 

 

D Ó M U R

5. janúar 2018

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mál nr.            E-68/2017:

 

Stefnandi:       Lára Jóhannesdóttir

                        (Arnar Ingi Ingvarsson hdl.)

 

Stefndi:           Sigvaldi Gunnlaugsson

                        (Sunna Björk Atladóttir hdl.)

 

Dómari:          Erlingur Sigtryggsson dómstjóri

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 5. janúar 2018, í máli

nr. E-68/2017:

Lára Jóhannesdóttir

(Arnar Ingi Ingvarsson hdl.)

gegn

Sigvalda Gunnlaugssyni

(Sunna Björk Atladóttir hdl.)

 

Mál þetta var höfðað 20. mars 2017 og dómtekið 10. nóvember sl.

Stefnandi er Lára Jóhannesdóttir, Beykiskógum 14, Akranesi.

Stefndi er Sigvaldi Gunnlaugsson, Hofsárkoti, Dalvíkurbyggð.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.433.232 krónur, ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 6. mars 2017 til greiðsludags og málskostnað.

Við munnlegan málflutning krafðist stefndi þess að vaxtakröfu yrði vísað frá dómi. Mótmælti stefnandi þeirri kröfu sem of seint fram kominni.

Stefndi krefst sýknu og að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað.

I

Málsaðilar munu hafa verið í nánu sambandi frá haustinu 2012. Stefnandi var búsett á Akranesi, en flutti heim til stefnda vorið 2014. Einhverjir hnökrar munu hafa komið upp á í sambúðinni og flutti stefnandi til Dalvíkur í október 2014. Kvaðst hún fyrir dómi hafa viljað láta reyna enn frekar á sambandið og ákveðið að opna hárgreiðslustofu á Dalvík. Gerði hún svo í lok nóvember 2014. Svo fór að hún hætti rekstri stofunnar vorið eftir og flutti til Akraness.

Þann 20. júní 2015 gaf stefndi út skuldaviðurkenningu til stefnanda. Hljóðaði hún um 4.500.000 krónur, sem hann lofaði að endurgreiða með þremur jöfnum greiðslum, 20. febrúar 2016, 20. apríl 2016 og 20. júní 2016 inn á nánar greindan bankareikning. Segir síðan að verði dráttur á greiðslum skuli stefndi hafa samband við stefnanda og setja upp annan greiðsludag sem allra fyrst. Þá segir að engir vextir, verðtrygging né annar kostnaður bætist við fjárhæðina þó svo að greiðsla dragist um einhvern tíma.

Stefndi greiddi 1.500.000 krónur þann 20. febrúar 2016, 500.000 krónur þann 24. ágúst 2016 og 66.768 krónur þann 18. janúar 2017. Höfðar stefnandi málið til heimtu eftirstöðvanna.

Fyrir liggur að stefnda var send innheimtuviðvörun þann 23. janúar 2017. Einhverjar innheimtutilraunir virðast þó hafa byrjað fyrr, því að þann 18. janúar 2017 sendi stefndi starfsmanni lögmannsstofu tölvupóst, þar sem hann kvað vera í viðhengi reikning sem hann hefði talað um í tölvupósti mánuði fyrr. Reikningur þessi hljóðar um 2.433.232 krónur og gerir stefndi hann á hendur stefnanda fyrir vinnu við niðurrif, standsetningu og uppsetningu á hárgreiðslustofu að Sandskeiði 22, Dalvík. Krefst hann þess að fjárhæðinni verði skuldajafnað við kröfu stefnanda samkvæmt skuldaviðurkenningunni.

II

Stefnandi segist í stefnu hafna kröfu stefnda alfarið, enda sé engin stoð fyrir henni. Kveðst hún benda á að stefndi hafi ekki getið hennar að nokkru í skuldaviðurkenningunni. Þá kveðst hún benda á að reikningsfjárhæðin sé ,,nánast nákvæmlega sú sama“ og eftirstöðvar skuldar stefnda.

Þá tekur stefnandi fram að samkomulag um að vextir greiddust ekki hafi fallið úr gildi við höfnun stefnda á frekari greiðslum. Sé dráttarvaxtakrafa miðuð við það tímamark er mánuður hafi verið liðinn frá því að stefnda hafi verið sent formlegt innheimtubréf.

Stefnandi vísar til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og meginreglu samningaréttar. Um gjalddaga kveðst hún vísa til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Dráttarvaxta sé krafist með stoð í 3. mgr. 5. gr., sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 með síðari breytingum.

III

Stefndi byggir á því að hann hafi greitt skuld sína að fullu með yfirlýsingu um skuldajöfnuð. Séu skilyrði hans uppfyllt. Segir hann engan vafa leika á að hann hafi unnið verkið í þágu stefnanda vegna atvinnurekstrar hennar. Hafi verið samið munnlega um verkið. Beri stefnandi sönnunarbyrði um að það hafi ekki verið unnið eða að reikningur stefnda sé bersýnilega ósanngjarn. Skuldaviðurkenningin hafi verið gefin út til að tryggja rétt stefnanda til endurgreiðslu peningaláns. Hafi henni ekki verið ætlað að vera allsherjar uppgjör milli aðila. Hafi krafa stefnda ekki glatað réttarvernd þótt hennar væri ekki getið þar. Hafi stefnandi mátt eiga von á því að stefndi myndi halda fram kröfu sinni.

Þá kveðst stefndi mótmæla vaxtakröfu stefnanda. Sé hún vanreifuð, því  þar sé ekki getið lagaákvæðis eða vaxtagrunns.

Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. varðandi skilyrði skuldajafnaðar. Vísar hann til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Aðilar gáfu skýrslur fyrir dómi. Þá gaf skýrslu vitnið Óskar Árnason.

Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um það hvort stefnda verði heimilað að skuldajafna kröfu samkvæmt framangreindum reikningi. Í skýrslu stefnanda kom fram að stefndi hafi hjálpað til við að standsetja hárgreiðslustofu hennar á Dalvík. Hafi hann með því verið að leggja sitt af mörkum til að treysta samband þeirra á ný og gera henni mögulegt að stunda atvinnu fyrir norðan.

Litið verður til þess að stefndi gerði ekki reikninginn fyrr en innheimtutilraunir hófust af hálfu stefnanda og að hann lét þess að engu getið í skuldaviðurkenningunni að til frádráttar ætti að koma krafa hans vegna vinnu í þágu stefnanda. Styður þetta staðhæfingu stefnanda. Verður að meta tómlæti stefnda á þann veg að það hafi ekki verið ætlun hans í öndverðu að krefja stefnanda um greiðslu fyrir vinnu sína. Verður að telja hann bundinn við þá fyrirætlun. Af þessum sökum verður ekki fallist á skuldajafnaðarkröfu stefnda.

Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda eftirstöðvar kröfu hennar samkvæmt skuldaviðurkenningunni, eins og dómkrafa hennar hljóðar um.

Fallist er á með stefnanda að krafa um frávísun vaxtakröfu sé of seint fram komin. Verður ekki um hana fjallað. Á hinn bóginn verður að líta til þess að berum orðum var tekið fram í skuldaviðurkenningunni að skuldin bæri ekki vexti, jafnvel þótt greiðslur drægjust. Var stefnanda í lófa lagið að taka fram að þetta ætti ekki við ef skuldin yrði innheimt. Með vísan til þessa verður stefndi sýknaður af vaxtakröfu stefnanda.

Rétt þykir eftir atvikum að málskostnaður falli niður milli aðila.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sigvaldi Gunnlaugsson, greiði stefnanda, Láru Jóhannesdóttur, 2.433.232 krónur.

Málskostnaður fellur niður.