• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 28. desember 2017, í máli

nr. S-193/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Aroni Erni Ívarssyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. desember sl., er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, á hendur Aroni Erni Ívarssyni, kt. ..., nú til heimilis að ... Grenivík .

1.  Ákæra, útgefin 3. október 2017.  Mál nr. S-193/2017:

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða;

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 2. maí 2017, verið með ræktun á 79 kannabisplöntum að [...], í því skyni að selja afurðirnar en plöntur þessar voru á mismunandi ræktunarstigi og ræktunin hafði staðið um nokkurra vikna skeið áður en lögreglan framkvæmdi húsleit hjá ákærða og haldlagði plönturnar og fyrir að hafa verið með í vörslum sínum í söluskyni á sama stað, 3.309,71 grömm af kannabisplötuhlutum og 323,10 grömm af marihúana.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á plöntum, kannabisplöntuhlutum og maríhúana, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 34.853, og munum sem notaðir voru við ræktunina, sem eru 4 straumbreytar/ballestir 600 wött, 4 gróðurlampar, 2 loftblásara, 2 loftsíum og 4 borðviftum, samkvæmt 6. mgr. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

2.  Ákæra útgefin 30. nóvember 2017.  Mál nr. S-249/2017:

Með þessari ákæru er mál höfðað á hendur ákærða;

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 18. júlí 2017, verið með í vörslum sínum í söluskyni á þáverandi dvalarstað sínum að [...] og í bifreiðinni [...], sem stóð fyrir utan húsið, 4,85 grömm af kókaíni, 138,38 grömm af marihuana, 727,65 grömm af kannabislaufum, 986,24 grömm af kannabisplöntum og 0,35 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4. gr., 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með síðari breytingum og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á plöntum, kannabislaufum og fíkniefnum, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 35.540 & 35.541, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Við meðferð málsins fyrir dómi voru ofangreind mál sameinuð, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

 

I.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað sakargiftir líkt og þeim er lýst í ofangreindum ákærum.

Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, sem og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákærum er lýst og þar er réttilega heimfært til laga.  Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.  Að þessu virtu er ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

II.

Sakaferill ákærða, sem er 31 árs, hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu, en hún þykir með hliðsjón af 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Að ofangreindu virtu og með hliðsjón af skýlausri játningu ákærða við alla meðferð málsins þykir eftir atvikum fært að fresta að fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið og skal hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Dæma ber ákærða til þess að sæta upptöku á þeim fíkniefnum, plöntum og plöntuhlutum, en einnig búnaði sem lögregla lagði hald á, eins og krafist er í ákæru, sbr. dómsorð.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins, sem samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins nemur 165.246 krónum.  Að auki skal hann greiða málflutningsþóknun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns eins og segir í dómsorði.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Eyþór Þorbergsson fulltrúi með málið.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Aron Örn Ívarsson, sæti sex mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði sæti upptöku á plöntum, kannabisplöntuhlutum, kannabislaufum, marihúana, kókaíni og tóbaksblönduðum kannabisefnum, sbr. efnaskrá lögreglu nr. 34.853, 35.540 og 35.541, en einnig á 4 straumbreytum/ballest 600 wött, 4 gróðurlömpum, 2 loftblásurum, 2 loftsíum og 4 borðviftum.

Dæma ber ákærða til að greiða sakarkostnað, 380.100 krónur,  en þar með talin er málsflutningsþóknun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 189.720 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 28.140 krónur vegna ferðakostnaðar verjandans.