• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. apríl 2019 í máli nr. S-94/2018:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 14. september 2018, en endurflutt og dómtekið að nýju 25. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 11. júní 2018, á hendur X [...]

 

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudagskvöldið 18. febrúar 2018, selt erlendum ferðamanni [...], fæddum [...], 0,87 grömm af maríhúana, en salan og afhending efnanna fór fram á móts við [...], en lögreglan sá ákærða afhenda efnin.

 

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá 37.223, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

 

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara að honum verði gerð svo væg refsing sem lög leyfa.

 

I

Samkvæmt lögregluskýrslu voru tveir lögreglumenn á ferð í bíl í miðbæ Akureyrar umrætt kvöld og höfðu þar afskipti af ákærða og ferðamönnum þar sem fíkniefnaviðskipti virtust eiga sér stað. Ferðamaðurinn gaf upp nafnið [...] og kvaðst hafa keypt kannabis af ákærða. Báðir voru þeir færðir á lögreglustöð og yfirheyrðir þar. Kvaðst ferðamaðurinn hafa keypt kannabisefni af ákærða en ákærði neitaði sök.

II

Ákærði kom fyrir dóminn. Hann kvaðst ekki hafa selt fíkniefni en kaus að svara ekki spurningum að öðru leyti.

Vitnið A lögreglumaður kvaðst hafa verið á ferð í miðbænum umrætt kvöld í bifreið ásamt B lögreglumanni. Þeir hafi ekið norður [...] og séð nokkra menn á götunni framan við [...]. Þeir hafi ekið hring og komið suður [...] að þeim. Þetta hafi verið fimm menn, hann hafi þekkt ákærða en sýnst hinir vera ferðamenn. Ákærði og einn ferðamannanna hafi staðið saman á götunni en hinir skammt frá. Hann hafi séð ferðamanninn taka við einhverju úr hendi ákærða. Hann hafi sjálfur gengið til ferðamannsins en félagi hans talað við ákærða. Vitnið kvaðst hafa spurt manninn hvort hann hefði eitthvað í hendinni og sagt honum að afhenda það ef svo væri. Þeir hafi farið inn í lögreglubifreiðina þar sem maðurinn hafi afhent gras. Í kjölfarið hafi vitnið gengið til ákærða og félaga síns. Ákærði hafi heimilað leit á sér en hafi verið með eitthvað í munninum, í annarri kinninni. Það hafi verið hvítt á lit og vitnið hafi ætlað að þetta væru fíkniefni. Þeir hafi beðið ákærða að spýta því út úr sér en hann orðið æstur og þeir tekið hann tökum. Þeir hafi áfram reynt að fá hann til að spýta þessu en hann streist á móti og virst reyna að kyngja þessu. Þeir hafi fært ákærða í jörðina og þar hafi hann náð að gleypa þetta. Hann hafi verið færður í handjárn og fluttur á lögreglustöð í annarri bifreið eftir að þeir hafi kallað eftir aðstoð. Vitnið og félagi hans hafi flutt ferðamanninn á lögreglustöð og þar hafi hann skýrt frá því að hafa keypt gras af ákærða og greitt fyrir það 6.000 krónur. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna til þess að hafa fundið peninga á ákærða og ekki muna eftir að maðurinn hafi útskýrt hvernig hann hafi greitt fyrir efnið.

Vitnið B lögreglumaður kvaðst hafa verið í bíl með vitninu A. Við [...] hafi félagi hans tekið eftir mönnum við [...], þeir hafi keyrt hring og komið niður [...]. Þar hafi nokkrir menn staðið saman og þeir þekkt ákærða. Þar hafi verið fjórir aðrir menn sem þeir hafi talið vera ferðamenn. Félagi hans hafi tekið eftir að ákærði og einn mannanna hafi skipst á einhverju. Félagi hans hafi talað við ferðamanninum en hann farið til ákærða. Samskipti vitnisins og ákærða hafi gengið illa þar sem ákærði hafi ekki skilið vitnið eða ekki viljað skilja hann. Ferðamaðurinn hafi afhent félaga hans fíkninefni og hann hafi verið færður inn í lögreglubifreiðina. Þeir hafi viljað kanna hvort ákærði væri með fíkninefni á sér. Félagi hans hafi séð að ákærði hefði eitthvað í munninum og skipað honum skýrt að spýta því út úr sér. Ákærði hafi ekki gert það ekki en orðið æstur. Hann hafi verið lagður í jörðina og handjárnaður og virst ná að kyngja því sem hann hafði upp í sér. Aðspurt kvað vitnið hafa verið leitað á ákærða en man ekki til þess að peningar hafi fundist á honum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð afhendingu fíkniefna.

 

III

Ákærði hefur staðfastlega neitaði sök. Erlendur ferðamaður afhenti lögreglu marijúana og skýrði lögreglu frá því að hann hafi keypt það af ákærða og greitt 6.000 krónur fyrir. Hann gaf upp nafn en var ekki látinn sanna á sér deili og kom ekki fyrir dóminn. Engir peningar fundust við leit á ákærða. Sönnunarbyrði um sekt ákærða hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til stuðnings því að ákærði hafi afhent umræddum manni fíkniefni er í raun ekki á öðru að byggja en framburði vitnisins A. Gegn eindreginni neitun ákærða verður framburður vitnisins ekki talinn nægja til að sanna sekt ákærða. Er ákærði því sýknaður og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans sem eru í dómsorði tilgreind með virðisaukaskatti, og ferðakostnaður hans.

Arnbjörg Sigurðardóttir settur héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 389.980 krónur og ferðakostnaður hans, 107.678 krónur.