• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. september 2018 í máli nr. S-109/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Andra Bergsteini Arnviðarsyni

(Auðun Helgason lögmaður)

(Magnús Daði Norðdahl lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 6. september sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra útgefinni 26. júlí 2018, á hendur Andra Bergsteini Arnviðarsyni, kt. [...] Hornafirði,

„fyrir líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. júní 2017, framan við veitinga- og skemmtistaðinn Götubarinn í Hafnarstræti á Akureyri slegið [A], hnefahögg í andlitið, með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Í málinu gerir [A], bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 2.500.000, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2017 til 1. júlí 2018, en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærðu fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og með vísan til áverkavottorðs, dags. 10. nóvember 2018 er fallist á að brotið sé réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði hefur hreinan sakarferil. Ákveðst refsing hans fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

Ákærði er sakfelldur fyrir líkamsárás og hefur viðurkennt bótaskyldu. Verður hann því dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til framlagðs áverkavottorðs þykja bætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Ekki var krafist málskostnaðar.

Þá verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, 228.110 krónur, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns eins og greinir í dómsorði, og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.

Dóm þennan kveður upp Arnbjörg Sigurðardóttir aðstoðarmaður dómara.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Andri Bergsteinn Arnviðarson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði [A], 400.000 krónur.

Ákærði greiði 228.110 í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Auðuns Helgasonar lög­manns, 198.710 krónur.