• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Skilorðsbundið fangelsi og sekt
  • Skaðabætur
  • Skilorðsrof
  • Umferðarlagabrot

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. febrúar 2019 í máli nr. S-207/2018:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

Mikael Má Unnarssyni

(Ingvar Þóroddsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 13. desember 2018, á hendur Mikael Má Unnarssyni, […],

 

fyrir „eftirtalin hegningar- og umferðarlagabrot:

 

I.                    (316-2018-5003)

Fyrir fjársvik, með því að hafa í alls 12 skipti á tímabilinu frá og með 8. júní 2018 til og með 28. júní 2018, svikið út eldsneyti á sjálfsafgreiðslustöð Olís á Siglufirði, samtals að verðmæti kr. 86.781 með því að framvísa þar í blekkingarskyni og án heimildar dælulykli í eigu A sem ákærði hafði komist yfir og látið þannig skuldfæra andvirði eldsneytisins á dælulykil eiganda,  eins og hér greinir:

 

8.6.2018                      kr.        12.201

11.6.2018                    kr.        12.664

      11.6.2018                    kr.          7.247

17.6.2018                    kr.          5.632

21.6.2018                    kr.        10.191

21.6.2018                    kr.          4.665

22.6.2018                    kr.          5.585

22.6.2018                    kr.          6.802

24.6.2018                    kr.          6.205

24.6.2018                    kr.          2.020

26.6.2018                    kr.          8.888

28.6.2018                    kr.          4.681

 

Teljast brot þessi varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

II.                 (313-2018-22044)

Fyrir umferðarlaga brot, með því að hafa, að morgni miðvikudagsins 26. september 2018, ekið bifreiðinni […], eftir Siglufjarðarvegi, austur Héðinsfjarðargöng vestari, um það bil 2,5 km frá munna ganganna, með allt að 99 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km á klukkustund.

Telst brot þetta varða við 2. mgr., 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

III.               (313-2018-22061)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfararnótt miðvikudagsins 26. september 2018, ekið bifreiðinni […], eftir Siglufjarðarvegi, vestur Héðinsfjarðargöng eystri, um það bil 2 km frá munna ganganna, með allt að 116 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km á klukkustund. 

Telst brot þetta varða við 2. mgr., sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

IV.               (316-2018-8320)

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 3. október 2018, verið með skráð bifreið […], í sinni eigu án ábyrgðartryggingar, en lögregla fjarlægði númeraplötur bifreiðarinnar þann sama dag fyrir framan heimili hans að […].

Telst brot þetta varða við 91. gr. og 92. gr., sbr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

V.                 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að ákærða verði gert að sæta akstursbanni skv. 106. gr. a umferðarlaga, með síðari breytingum.

 

Einkaréttarkrafa:

A krefst skaðabóta úr hendi sakbornings, Mikaels Más Unnarssonar, […], að fjárhæð kr. 86.781.“

 

Af hálfu ákærða er þess krafist að ákærða verði ákveðin eins væg refsing og lög leyfa, og að hún verði skilorðsbundin. Þess er einnig krafist að kröfu um akstursbann verði hafnað. Þá er krafist hæfilegrar þóknunar til handa skipuðum verjanda.

 

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir hér fyrir dómi. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunar­færslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

 

Þann 20. febrúar 2014 var ákæru á hendur ákærða vegna brots gegn 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 frestað skilorðsbundið í tvö ár. Hann stóðst það skilorð. Þann 15. mars 2018 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn sama ákvæði og einnig brot gegn 2. mgr. 55. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákvörðun refsingar fyrir hegningarlagabrotið var þá frestað skilorðsbundið í tvö ár en ákærða gerð sekt fyrir umferðarlagabrotið. Ákærði rauf skilorðið með þeirri háttsemi sem hann er nú sakfelldur fyrir. Verður fyrri dómur tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi fyrir það brot og brot samkvæmt I. ákærulið máls þessa, sbr. 60. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans er ákveðin fangelsi í 60 daga. Fyrir liggur vottorð um andlega fötlun ákærða. Með vísan til hennar og játningar ákærða þykir fært að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja.

Ákærði verður dæmdur til greiðslu 215.000 króna í sekt vegna umferðarlagabrotanna, sbr. 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga. Komi 16 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Samkvæmt 106. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 getur lögreglustjóri bannað byrjanda með bráðabirgðaskírteini að aka við tilgreindar aðstæður. Þegar skilyrði akstursbanns eru fyrir hendi skal banna akstur svo fljótt sem unnt er. Af ákvæðinu verður ekki ráðið að slíkt bann verði lagt á með dómi og er kröfu þar um vísað frá dómi.

Ákærði samþykkti framkomna bótakröfu og verður því dæmdur til að greiða hana, eins og hún var fram sett í ákæru.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hans sem þykir hæfilega ákveðin 131.750 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

Af hálfu ákæruvalds fór Agnes Björk Blöndal fulltrúi með málið en verjandi ákærða var Ingvar Þóroddsson lögmaður.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Mikael Már Unnarsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði 215.000 króna sekt í ríkissjóð en 16 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Kröfu um akstursbann er vísað frá dómi.

Ákærði greiði A 86.781 krónu.

Ákærði greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, 131.750 krónur.