• Lykilorð:
  • Börn
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 25. janúar 2018 í máli

 

nr. S-209/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Arnbjörg Sigurðardóttir lögmaður)

 

Mál þetta sem var dómtekið 24. janúar sl. höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra þann 16. október sl. á hendur X;

fyrir eftirtaldar líkamsárásir og brot á barnaverndarlögum:

I.

Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 26. ágúst 2017, í Keilusíðu 5 a á Akureyri farið óboðinn inn í íbúð fyrrverandi sambýliskonu sinnar og barnsmóður, [A], og slegið hana í andlitið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

II.

Með því að hafa nokkru síðar sömu nótt komið aftur að nefndu heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar og þá slegið hana aftur í andlitið með þeim afleiðingum að hún datt í jörðina, en sú árás átti sér stað í garði bak við fjölbýlishúsið að [...]. 

Afleiðingar beggja þessara árása fyrir brotaþola voru þær að hún hún fékk blóðnasir og fann fyrir eymslum í nefi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

III.

Með því að hafa ofangreinda nótt þegar hann réðst að barnsmóður sinni eins og lýst er í ákærulið II, gert það fyrir framan eða að viðstöddu barni þeirra [B] og með því misboðið barninu andlega og sýnt barninu ruddalegt og særandi athæfi.

Telst þetta varða við 1. mgr. og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Í ákæru gefinni út 20 október sl. af sama lögreglustjóra eru ákærða gefin að sök „…eftirtalin umferðarlagabrot:

I.

Með því að hafa mánudaginn 10. apríl 2017, ekið  bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, um Snorrabraut í Reykjavík á vegarkafla við Egilsgötu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

II.

Með því að hafa föstudaginn 14. apríl 2017, ekið sömu bifreið um Snorrabraut í Reykjavík á vegarkafla við Eiríksgötu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði játar sök. Hann tekur fram að hann hafi slegið með flötum lófa. Hann fer fram á að dæmd verði vægasta refsing sem lög heimili. Með skírskotun til játningar hans sem ekki er ástæða til að draga í efa að sé sannleikanum samkvæm, verður hann sakfelldur fyrir þau brot sem í ákærum greinir og varða við tilgreind refsiákvæði

Ákærði var þann 7. nóvember 2012 dæmdur í 6 mánaða fangelsi og sviptur öku­rétti í eitt ár frá 13. júní 2016 að telja fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr.  45. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.  Var ákærða gerður hegningarauki með þessum dómi og dæmdur var upp skilorðsdómur frá árinu 2010 þar sem ákærði var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Dómurinn frá 7. nóvember frá 2012 var eins og áður sagði hegningarauki, þ.e. við dóm frá 25. maí sama ár þar sem ákærði var dæmdur til greiðslu 300.000 króna sektar og sviptur ökurétti í 4 ár frá 13. júní 2012 að telja fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 32. gr. og 1. mgr. 37. gr. og 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 5. gr. umferðarlaga.

Ákærði var dæmdur 18. janúar 2013 fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 75. gr. umferðarlaga. Honum var ekki gerð sérstök refsing en sviptur ökurétti í 9 mánuði frá 13. júní 2017.  Var dómur þessi hegningarauki við dóminn frá 7. nóvember 2012.  Loks sætti ákærði 100.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga samkvæmt sátt við sýslumanninn á Akureyri 2. október 2013.

Brot það gegn 106. gr. almennra hegningarlaga sem ákærði var dæmdur fyrir 7. nóvember 2012 fólst í hótun um að beita ofbeldi. Að því gættu þykir ekki ástæða til að beita refsihækkunarheimild 1. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Ákærði afplánar nú refsingu samkvæmt dómnum frá 7. nóvember 2011. Hann hefur lagt fram vottorð C varðstjóra, þar sem fram kemur að hann hafi átt góð samskipti við samfanga og starfsfólk, verið duglegur að inna þau verk af hendi sem honum hafi verið falin, fengið syni sína og barnsmóður reglulega í heim­sókn og það hafi undantekningarlaust gengið vel og verið þeim öllum til ánægju.

Ákærði bendir einnig á ummæli barnsmóður sinnar í lögregluskýrslu, þar sem hún sagði að hún væri ekki hrædd við ákærða, hann væri góður faðir og ,,edrú“ væri hann góður maður.

Að þessu gættu ákveðst refsing ákærða fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið að hluta eins og greinir í dómsorði. Þá verður hann dæmdur til greiðslu þóknunar skipaðs verjanda síns sem ákveðst eins og greinir í dómsorði, virðisaukaskattur með­talinn.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu tveggja mánaða þar af og sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Arnbjargar Sigurðardóttur lög­manns, 137.020 krónur.