• Lykilorð:
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 25. maí 2018 í máli

nr. S-66/2018:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Helga Steini Gunnarssyni

 

Mál þetta, sem var dómtekið 17. maí, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 2. maí sl. með ákæru á hendur Helga Steini Gunnarssyni, ..., dvalarstaður ... Akureyri, fyrir þjófnað;

„með því að hafa þriðjudaginn 6. mars 2018, farið inn í tvær ólæstar bifreiðar sem lagt hafi verið á bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina á Glerártorgi á Akureyri og stolið úr annarri bifreiðinni bakpoka með tölvu af gerðinni HP Pavilion og nokkrum skólabókum í ensku og stærðfræði auk stílabóka og úr hinni bifreiðinni íþróttatösku með ýmis konar íþróttafatnaði, heyrnartólum og millistykki fyrir Iphone 6, samtals að áætluðu verðmæti um 20.000- krónur.

Telst þetta varða við 1.mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

1.     [A] gerir bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 20.260, auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38,2001 frá 6. mars 2018 og þar til mánuður er liðin frá birtingu kröfunnar en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags.  Þá er jafnframt krafist greiðslu málskostnaðar við að halda kröfu þessari fram, brotaþola að skaðlausu.“

 

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Af hálfu tjónþola var ekki sótt þing. Bótakrafa var felld niður, sbr. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði á nokkurn sakaferil að baki. Síðast var hann dæmdur 20. maí 2016 í 8 mánaða fangelsi, þar af 5 mánuðir skilorðsbundnir í tvö ár og sviptur ökurétti ævilangt fyrir brot gegn 1. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Var skilorðshluti dóms frá 7. júní 2012 dæmdur með.

Samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga ber nú að taka skilorðshluta dómsins frá 20. maí 2016 upp og dæma refsingu í einu lagi eftir reglum 77. gr. laganna. Ákveðst refsing ákærða fangelsi í sex mánuði, sem ekki eru efni til að skilorðsbinda.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Helgi Steinn Gunnarsson, sæti fangelsi í sex mánuði.