• Lykilorð:
  • Samningur
  • Skaðabætur
  • Umsýsluviðskipti
  • Vanefndir
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 24. apríl 2019 í máli nr. E-118/2018:

Flúðafiskur ehf.

(Sigmundur Hannesson lögmaður)

gegn

Sölku-Fiskmiðlun hf.

(Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess þann 27. mars sl., er höfðað af Flúðafiski ehf., Borgarási, 845 Flúðum, með stefnu birtri þann 23. júní 2018 á hendur Sölku fiskmiðlun hf., Ráðhúsinu, 620 Dalvík.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 93.972.290 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 93.972.290 krónum frá 1. desember 2016 til greiðsludags. Allt að frádregnum eftirtöldum innborgunum:

þann 05.10.2015   5.081.200 krónur        þann 04.02.2016   1.271.200 krónur

þann 09.12.2015   6.464.219 krónur        þann 05.02.2016   5.752.534 krónur

þann 11.12.2015   9.596.260 krónur        þann 07.03.2016   7.014.219 krónur

þann 11.12.2015  11.035.440 krónur       þann 04.04.2016      325.935 krónur

þann 19.01.2016   6.480.000 krónur        þann 17.05.2016   2.445.419 krónur

þann 29.01.2016   3.891.000 krónur        þann 03.06.2016      292.972 krónur

eða alls að upphæð 59.650.398 krónur sem dragast skulu frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga sem leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2017, en síðan árlega þann dag. 

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

 

 

Ágreiningsefni og málsatvik

Málsaðila greinir á um innbyrðis uppgjör þeirra vegna sölu á þurrkuðum fiskhausum og afskurði til Nígeríu sem stefndi, Salka Fiskmiðlun hf., hafði milligöngu um að selja fyrir stefnanda, Flúðafisk ehf., á tímabilinu september 2015 til nóvember 2016 en um er að ræða uppgjör á alls 11 vörusendingum í gámum á umræddu tímabili.

Stefnandi leggur áherslu á það að sala stefnanda á fiskafurðum, þ.m.t. á skreið, þurrkuðum fiskhausum og afskurði til Nígeríu hefði verið í föstum skorðum allt frá því að stefnandi hóf að framleiða fyrir Nígeríumarkað við stofnun félagsins árið 1993. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að umrædd umsýsluviðskipti með framleiðslu stefnanda til Nígeríu hafi jafnan verið „CIF“, það er að stefnandi annaðist um greiðslu kostnaðar vegna flutnings vörunnar til kaupanda, auk bankakostnaðar, vörugjalda og sendingarkostnaðar, en að frádregnum umsömdum umboðslaunum innanlands. Viðskiptin við Nígeríu hafi ávallt verið gegn staðgreiðslu auk þess sem meginreglan hafi verið sú að stefnandi hafi ekki veitt kaupanda afslátt af umsömdu kaupverði. Stefndi hafi síðan haft milligöngu um og annast um sölu á framleiðsluvörum stefnanda til Nígeríu síðustu ár sem milligönguaðili eða umboðsmaður.

Síðari hluta árs 2015 hafi stefnandi orðið þess áskynja að greiðslur frá Nígeríu vegna viðskiptanna fóru að dragast og skiluðu sér seint og illa frá stefnda. Síðan hafi stefndi tekið sig til og endurreiknað verð, afslátt, o.s.frv. til uppgjörs á þremur gámum, nr. 17, 18 og 19, sem höfðu verið greiddir í loks árs 2015. Heildarafsláttur reikninga Sölku Fiskmiðlunar hf. til kaupandans í Nígeríu var samkvæmt þessu uppgjöri um 35% og var að mati stefnanda ákveðinn einhliða af stefnda án samráðs og samþykkis. Hafi stefndi gefið stefnanda þær skýringar að vegna efnahagshruns í Nígeríu þyrfti stefnandi að veita 35% afslátt frá því sem stefnandi hafi litið á sem umsamið söluverð.

Stefnandi vísi til þess að Margrét Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi stefnanda, Flúðafisks ehf., hafi margítrekað mótmælt framangreindri framgöngu stefnda, Sölku Fiskmiðlunar hf., í málinu og alfarið hafnað því að veita kaupanda reiknaðan afslátt stefnda, Sölku Fiskmiðlunar hf., samkvæmt framansögðu, alls að fjárhæð 41.742.394 krónur. Beri þá að hafa í huga að í ágúst 2015 hafi Margrét samið um vörukaup og verð á fundi með Jombo, fulltrúa fiskkaupanda í Nígeríu, og Jóni, fyrrverandi starfsmanni stefnda, Sölku Fiskmiðlunar hf., þar sem kaup á hráefni til vinnslunnar frá stefnanda hafi verið miðuð við umsamin verð. Fyrstu gámarnir (af þeim ellefu sem hér um ræðir) hafi síðan í framhaldinu verið sendir til Nígeríu.

Greiðslur vegna viðskiptanna hafi síðan byrjað að berast í árslok 2015 eins og yfirlit um innborganir beri með sér. Stefnandi kveðst hafa móttekið þessar greiðslur   sem innborganir á viðskiptin en ekki sem fullnaðaruppgjör á einstökum gámum. Hafi stefnandi haldið framleiðslunni áfram í góðri trú um að kaupandinn í Nígeríu myndi síðan greiða að fullu umsamið kaupverð sem samið hafði verið um. Í janúar árið 2016 hafi síðan aftur verið haldinn fundur hér á landi með málsaðilum og Jombo, fulltrúa fiskkaupanda í Nígeríu, og þá ekki verið minnst á það að stefndi, Salka Fiskmiðlun hf., væri að standa skil á greiðslum fyrir hönd fiskkaupanda, þ.e. dekka greiðslur fyrir hann. En í febrúarlok 2016 hafi stefnandi komist að því að innborganir hafi ekki komið frá fiskkaupandanum Jombo í Nígeríu heldur hafi það verið stefndi er borgaði úr eigin vasa eftir að varan/gámarnir voru komnir til fiskkaupandans Jombo í Nígeríu.

Þegar hér hafi verið komið sögu hafi stefndi gert stefnanda grein fyrir því að gámarnir yrðu sendir til baka til Íslands frá Nígeríu ef stefnandi sætti sig ekki við reiknaðan afslátt stefnda, Sölku Fiskmiðlunar hf., þ.e. um 35% af umsömdu verði sem stefndi hafði reiknað og ákveðið einhliða, án samráðs og samþykkis stefnanda. Hafi þá verið svo komið að viðskiptin höfðu komið stefnanda í þá stöðu að hann var kominn í greiðsluþrot og þurfti því að hætta óbreyttri starfsemi sinni. Að mati stefnanda sé það á ábyrgð stefnda að þessi staða sé komin upp sem og að gámar vegna viðskipta þessara hafi verið sendir fiskkaupandanum Jombo í Nígeríu, án þess að tryggja það að greiðslur á umsömdu kaupverði bærust til stefnanda sem seljanda vörunnar. 

Í bréfi, dags. 10. janúar 2017, ásamt fylgigögnum, hafi lögmaður stefnanda sent stefnda tilmæli um að ganga til samninga um uppgjör á viðskiptum þessum. Sem svar hafi framkvæmdastjóri stefnda sent lögmanni stefnanda ítarlegt bréf vegna viðskiptanna, dags. 18. janúar 2017, ásamt með gögnum, en þar á meðal sé samningur á milli stefnanda, Chief Okebulu Jombo, kaupanda í Nígeríu, sem og Fiskmiðlunar Norðurlands (nú stefndi), sem að sögn framkvæmdastjórans „hefur verið unnið eftir allar götur síðan.“ Þá hafi m.a. fylgt með tölvupóstsamskipti fulltrúa málsaðila, þeirra Katrínar Sigurjónsdóttur hjá Sölku Fiskmiðlun hf. og Margrétar Gunnarsdóttur hjá Flúðafiski ehf., ásamt útreikningi á „láni“ frá Okebulu Jombo til stefnanda, dags. 28. janúar 2015, og birgðastöðu á „FL í vöruskemmum Okebulu Jombo í Nígeríu 16. janúar 2017.“ Með tölvupósti lögmanns stefnanda til Kristínar Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra stefnda, dags. 17. febrúar 2017, hafi síðan enn verið gerð tilraun til þess að ná samkomulagi um uppgjör viðskiptanna. En í bréfinu segi m.a.:

„Með vísan til ofangreinds bréfs er ljóst að Sölku Fiskmiðlun hf. og umbj.m. greinir á um það hver beri fjárhagslega ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í viðskiptum félaganna og m.a. lýst í bréfi mínu til Sölku Fiskmiðlunar hf. dags. 10. janúar 2017, sem ítarlegt bréf/greinargerð þín, dags. 17. janúar er svar við. Ágreiningur málsaðila lýtur m.a. að því hvort endurreikningur gámanna í febrúar 2016 hafi verið gerðir í fullu samráði við umbj.m. Margréti Gunnarsdóttur, svo sem, er m.a. staðhæft í ofangreindu bréfi þínu. Í viðleitni umbj.m. til þess að freista þess að jafna ágreining aðila og freista þess að ná samkomulagi um fjárhagslegt uppgjör á viðskiptum þessum, jafnframt því að koma í veg fyrir gjaldþrot Flúðafisks ehf., er þeim eindregnu tilmælum beint til þín f.h. Sölku Fiskmiðlunar hf. að eiga fund með mér og umbj.m. Margrétar Gunnarsdóttur f.h. Flúðafisks hf., svo fljótt sem verða má og eigi síðar en um mánaðamótin feb./mars.“

Ekki hafi orðið af fundi og því sé stefnanda nauðugur sá kostur að höfða mál.

Af hálfu stefnda er hins vegar vísað til þess að stefnandi sé fiskframleiðandi en hann og stefndi hafi átt í viðskiptum um árabil. Þau viðskipti hafi falist í því að stefndi hafi haft milligöngu um viðskipti stefnanda við kaupendur afurða hans í Nígeríu, en stefndi sérhæfi sig í fiskmiðlun, þ.e. að miðla vörum fiskframleiðenda hér á landi til kaupenda víðsvegar um heim, einkum og sér í lagi í Nígeríu þangað sem þurrkaðar fiskafurðir hafi verið seldar frá Íslandi í áraraðir. Vísi stefndi til þess að söluverð afurðanna taki þá eðli máls samkvæmt mið af því verði er kaupendur í Nígeríu hafi viljað greiða fyrir þær en verðlistar með viðmiðunarverðum notaðir til hliðsjónar.

Viðskiptin hafi einkum byggst á samkomulagi (memorandum of understanding) sem undirritað hafi verið 21. janúar 2002 á milli stefnanda, Chief Okebulu Jombo, kaupanda fiskafurðanna í Nígeríu, og Fiskmiðlunar Norðurlands ehf., en Fiskmiðlun Norðurlands ehf. og Salka sjávarafurðir ehf. hafi síðan runnið saman í Sölku-Fiskmiðlun hf. árið 2003. Í samkomulaginu sé meðal annars kveðið á um það að gera skuli samning sem tryggja eigi einkarétt Okebulu Jombo á sölu á fiskafurðum stefnanda í Nígeríu og að öll viðskipti skuli fara fram á markaðsverði. Auk þess sé í samkomulaginu fjallað um framtíðarskipan viðskipta aðila.

Eftir framangreindu samkomulagi aðila hafi síðan verið unnið í mörg ár án þess að skugga bæri á og viðskiptin gengið vel fyrir alla hlutaðeigandi. Frá upphafi hafi öll vara verið seld samkvæmt svonefndum „CFR-skilmálum“ (Cost and Freight), en í þeim felist m.a. að seljandi sé ábyrgur fyrir tollafgreiðslu til útflutnings og því að koma vörunni á tilgreindan stað í tilgreindri höfn, auk þess að bera ábyrgð á öllum útflutningspappírum. Þá sé það seljandi sem beri kostnað vegna flutningsins og teljist varan afhent, og áhættuskipti eiga sér stað, þegar varan hafi verið afhent í afhendingarhöfn. Það sé því ekki rétt sem fram komi í stefnu að viðskiptin hafi ávallt verið samkvæmt svonefndnum CIF-flutningsskilmálum (Cost, insurance and Freight).

Venjan í viðskiptum aðila hafi því verið sú að kostnaður við útflutning ásamt umboðslaunum hafi verið dreginn frá söluverði við afreikning. Oft hafi það komið fyrir að stefndi hafi greitt stefnanda áður en greiðslur hafi borist frá kaupandanum.  Yfirleitt hafi greiðslur farið fram samkvæmt bankaábyrgð sem greidd hafi verið 10-15 dögum eftir uppskipun í Nígeríu og hafi stefndi þá oft afreiknað gáminn til stefnanda vegna krafna hans um greiðslur. Þá sé rangt hjá stefnanda að viðskiptin hafi alla tíð farið fram gegn staðgreiðslu en hann útskýri þó ekki nánar við hvað sé átt með því.

Árið 2015 hafi staðan á mörkuðum svo versnað verulega fyrir afurðir íslenskra fiskframleiðenda í Nígeríu, meðal annars vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði á olíu er valdið hafi þar skorti á gjaldeyri, einkum bandaríkjadölum. Afleiðingin hafi orðið sú að kaupendur afurða hafi átt erfiðara með að útvega sér bandaríkjadali en viðskiptin hafi einkum farið fram í þeim gjaldmiðli. Lagt hafi verið bann við opnun ábyrgða til kaupa á um 40 vöruflokkum, þar á meðal þurrkuðum fiski, auk þess sem yfirvöld hafi breytt tollum á innfluttar vörur með litlum fyrirvara. Kaupendur hafi því farið þá leið að útvega bandaríkjadali eftir öðrum leiðum og til hafi orðið annar gjaldeyrismarkaður en sá opinberi, þar sem verð hafi verið mun hærri, sem hafi valdið því að kaupendum hafi fækkað og krafa um lægri verð á afurðunum orðið sífellt háværari eftir því sem liðið hafi á árið 2015 og fram eftir ári 2016. Megi m.a. vísa um ástandið til fyrirliggjandi fundargerða funda er haldnir hafi verið í utanríkisráðuneytinu með hagsmunaaðilum þar sem farið hafi verið yfir stöðuna og horfur á mörkuðum í Nígeríu og vísað til frétta í fjölmiðlum um þetta ástand. Þetta hafi þýtt það að viðmiðunarverð verðlista er stuðst hafði verið við fram að þeim tíma hafi ekki orðið annað en stafir á blaði og verðinu þá verið stjórnað af kaupendum sem ekki hafi viljað eða getað greitt sömu verð og áður. Staðan á mörkuðum í Nígeríu hafi því samkvæmt framansögðu verið alvarleg og að segja má allt að í frjálsu falli. Kaupendur hafi dag frá degi ekki vitað hvert gengið yrði á gjaldeyrinum sem þeir næðu að útvega sér eða hversu háa tolla þeir þyrftu að greiða við komu vörunnar til Nígeríu. Af þessu hafi leitt að kröfur kaupenda um lægra verð hafi orðið sífellt háværari enda óvissan mikil og þeir farið fram á frekari afslætti frá heildarverði hvers gáms sem svo féll mismunandi mikið dag frá degi. Undir lok árs 2015 og í byrjun 2016 hafi því verið farið að veita afslætti af vöru sem hafi ýmist þegar verið komin út á markaðinn eða föst í vöruhúsum í Nígeríu, en jólamarkaðurinn hafði þá algerlega brugðist og mikil birgðasöfnun verið í gangi. Framleiðendur hafi því margir farið þá leið að veita afslætti í þeirri von að hreyfa við markaðnum og koma birgðum út en þær hafi legið undir skemmdum ella.

Stefndi geri einnig athugasemdir við fullyrðingar stefnanda um að fyrirsvarsmaður stefnda hafi verið boðuð til fundar til að ræða málið, en að ekki hafi orðið af þeim fundi, og stefnanda því nauðugur sá kostur að höfða málið. Hið rétta sé að umræddur fundur hafi verið haldinn 28. febrúar 2017 á skrifstofu Cato lögmanna. Til fundarins hafi mætt fyrirsvarsmenn stefnanda og stefnda, auk lögmanns stefnanda. Á fundinum hafi verið farið yfir ýmis gögn málsins og fyrirsvarsmaður stefnda þar samþykkt að skoða nánar málið sem hún hafi gert og sent stefnanda og hennar lögmanni tölvupóst, dags. 9. mars 2017, með viðbrögðum sínum, auk þess sem hún hafi boðið stefnanda að vera í frekari sambandi ef fleiri spurningar vöknuðu. Það sé því ekki rétt að af fundi hafi ekki orðið. Stefndi leggi af þessu tilefni fram afrit fundargerða stjórnar stefnda, dags. 23. febrúar 2017 og 17. mars 2017, þar sem framangreint hafi verið til umræðu.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Málið lúti að ágreiningi málsaðila um uppgjör vegna sölu á þurrkuðum fiskhausum og afskurði til Nígeríu sem stefndi hafi haft milligöngu um að selja fyrir stefnanda á tímabilinu september 2015 til nóvember 2016. Um sé að ræða uppgjör á 11 gámum/vörusendingum tímabilið september 2015 til nóv./des. 2016, sem hér segi:

   Heildarverðmæti vörusendinga                      106.768.325 krónur

   Frá dragist:

   Flutningur og annar kostnaður            kr.  -       9.318.417,-

   10% afsláttur af hausum                          -      3.477.618, -

Alls:       12.796.035 krónur

   Innborganir:    11/12/2015                  kr.  -       9.596.260,-

                           05/10/2015                       -      5.081.200,-

                           09/12/2015                       -      6.464.219,-

                           11/12/2015                       -    11.035.440,-

                           04/02/2016                       -      1.271.200,-

                           05/02/2016                       -      5.752.534,-

                           19/01/2016                       -      6.480.000,-

                           29/01/2016                       -      3.891.000,-

                           07/03/2016                       -      7.014.219,-

                           04/04/2016                       -         325.935,-

                           17/05/2016                       -      2.445.419,-

                           03/06/2016                       -         292.972,- 

Alls          59.650.398,-

Mismunur alls:  34.321.892 krónur

Sala stefnanda á fiskafurðum, þ.m.t. á skreið, þurrkuðum fiskhausum og afskurði til Nígeríu, hafi verið í föstum skorðum allt frá þeim tíma að stefnandi hóf að framleiða fyrir Nígeríumarkað, þ.e. frá stofnun félagsins árið 1993. Framleiðslan hafi undantekningarlaust verið seld „CIF“, það er að stefnandi annist greiðslu kostnaðar vegna flutnings vörunnar til kaupanda, auk bankakostnaðar, vörugjalda og sendingarkostnaðar, allt að frádregnum umsömdum umboðslaunum innanlands. Viðskiptin við Nígeríu hafi ávallt verið gegn staðgreiðslu, en meginreglan í viðskiptunum hafi verið sú að stefnandi veiti kaupanda ekki afslátt af umsömdu kaupverði vörunnar, sbr. meðfylgjandi reikninga og yfirlit.

Stefndi hafi haft milligöngu og annast um sölu á framleiðsluvörum Flúðafisks ehf. til Nígeríu hin síðari ár, sem milligönguaðili/umboðsmaður. Síðari hluta árs 2015 hafi stefnandi orðið þess áskynja að greiðslur frá Nígeríu hafi byrjað að dragast og skilað sér seint og illa frá stefnda, Sölku Fiskmiðlun hf. Stefndi hafi síðan tekið sig til og endurreiknað verð, afslætti o.s.frv. til uppgjörs á gámum nr. 16, 17 og 18 sem höfðu verið greiddir í lok árs 2015, sbr. fyrirliggjandi samantekt þar um. Heildarafsláttur reikninga Sölku Fiskmiðlunar hf. hafi verið u.þ.b. 35% sem hér segi:

 

Gámur 16           Endurreiknað af Sölku Fiskmiðlun                   4.192.518,-

Gámur 17           Endurreiknað af Sölku Fiskmiðlun                   4.882.898,-

Gámur 18           Endurreiknað af Sölku Fiskmiðlun                   4.711.967,-

Gámur 21           Fyrirhugaður afsláttur Sölku ófrágengið          6.436.492,-

Gámur 22           Fyrirhugaður afsláttur Sölku ófrágengið          4.285.288,-

Gámur 23           Fyrirhugaður afsláttur Sölku ófrágengið          4.192.682,-

Gámur 24           Salka gefur afslátt                                             4.371.784,-

Gámur 001         MSKU 062453-2                    27/01/2016        4.295.365,-

Gámur 002         MSKU 9082668,5                   25/02/2016        4.373.400,-                                                                                                        Alls: 41.742.394,-

Stefndi hafi gefið þá skýringu að vegna efnahagshruns í Nígeríu þyrfti stefnandi að veita um 35% afslátt af umsömdu verði. Sá afsláttur hafi verið ákveðinn einhliða af stefnda án samráðs og samþykkis stefnanda. Margrét Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi stefnanda, hafi margítrekað mótmælt framgöngu stefnda í málinu og alfarið hafnað því að veita kaupendum reiknaðan afslátt stefnda, hér alls að fjárhæð 41.742.394 krónur, sbr. ofangreint og málsgögn um þetta. Hafa beri í huga að í ágúst 2015 hafi Margrét samið um vörur og verð á fundi með Jombo, fulltrúa fiskkaupanda í Nígeríu, og Jóni, fyrrverandi starfsmanni stefnda, en kaup stefnanda á hráefni til vinnslunnar hafi verið miðuð við umsamin verð. Fyrstu gámarnir (af þeim ellefu sem hér um ræðir) hafi síðan í framhaldinu verið sendir út til Nígeríu.

Greiðslur vegna viðskiptanna hafi svo byrjað að berast í árslok 2015 sem yfirlit um innborganir beri með sér. Stefnandi hafi móttekið greiðslur þessar sem innborganir á viðskiptin, en ekki sem uppgjör á einstökum gámum. Stefnandi hafi haldið framleiðslunni áfram í góðri trú um það að kaupandinn í Nígeríu myndi greiða að fullu umsamið kaupverð. Í janúar 2016 hafi aftur verið haldinn fundur hér á landi með málsaðilum og Jombo, fulltrúa fiskkaupanda í Nígeríu, og þar ekki verið minnst á það einu orði að stefndi, Salka Fiskmiðlun hf., væri að standa skil á greiðslum fyrir hönd fiskkaupanda, þ.e. að dekka greiðslur fyrir hann. Í lok febrúar 2016 komist stefnandi að því að innborganirnar hafi ekki komið frá fiskkaupandanum Jombo í Nígeríu, heldur hafi það verið Salka Fiskmiðlun hf. sem hafi borgað úr eigin vasa eftir að varan/gámarnir hafi verið komnir til fiskkaupandans Jombo í Nígeríu.

Er hér hafi verið komið þá hafi stefndi, Salka Fiskmiðlun hf., gert stefnanda grein fyrir því að gámarnir yrðu sendir til baka til Íslands frá Nígeríu ef stefnandi sætti sig ekki við reiknaðan afslátt stefnda, Sölku Fiskmiðlunar hf., þ.e. u.þ.b. 35% af umsömdu verði, sem stefndi hafi reiknað og ákveðið einhliða, án nokkurs samráðs og samþykkis stefnanda samkvæmt framansögðu. Hafi þá verið svo komið að viðskiptin hafi sett stefnanda í þá stöðu að hann væri kominn í greiðsluþrot og hann því þurft að hætta óbreyttri starfsemi sinni. Sé það á ábyrgð stefnda að þessi staða sé komin upp og að gámar vegna þessara viðskipta hafi verið sendir til Jombo í Nígeríu, án þess að tryggja að greiðslur á umsömdu kaupverði bærust seljanda vörunnar, þ.e. til stefnanda.

Lögmaður stefnanda hafi sent bréf, dags. 10. janúar 2017, ásamt með fylgigögnum til stefnda vegna þessa máls, þ.e. varðandi viðskipti málsaðila með fiskafurðir á tímabilinu september 2015 til nóvember 2016, sem hér hefur verið lýst, með tilmælum til stefnda um að ganga til samninga við stefnanda um uppgjör á viðskiptum þessum. Í tilefni af ofangreindu bréfi þá hafi framkvæmdastjóri stefnda, Sölku Fiskverkunar hf., sent lögmanni stefnanda ítarlegt bréf/greinargerð vegna viðskiptanna, dags. 18. janúar 2017, ásamt gögnum en þar á meðal sé samningur milli stefnanda, Chief Okebulu Jombo, kaupanda í Nígeríu, og Fiskmiðlunar Norðurlands (stefnda), sem að sögn framkvæmdastjóra stefnda „hefur verið unnið eftir allar götur síðan.“ Þá hafi enn fremur fylgt þar með tölvupóstsamskipti fulltrúa málsaðila, þeirra Katrínar Sigurjónsdóttur hjá Sölku Fiskvinnslu hf. og Margrétar Gunnarsdóttur hjá Flúðafiski ehf., ásamt útreikningi á „láni“ frá Okebulu Jombo til stefnanda, dags. 28. janúar 2015, og skjal um birgðastöðu á „FL í vöruskemmum Okebulu Jombo í Nígeríu 16. janúar 2017.“ Með tölvupósti lögmanns stefnanda til Kristínar Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra stefnda, dags. 17. febrúar 2017, hafi þá enn verið gerð tilraun til þess að ná samkomulagi um uppgjör viðskiptanna, en í bréfinu segi m.a.:

„Með vísan til ofangreinds bréfs er ljóst að Sölku Fiskmiðlun hf. og umbj.m. greinir á um það hver beri fjárhagslega ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi er í viðskiptum félaganna og m.a. lýst í bréfi mínu til Sölku Fiskmiðlunar hf. dags. 10. janúar 2017, sem ítarlegt bréf/greinargerð þín, dags. 17. janúar er svar við. Ágreiningur málsaðila lýtur m.a. því hvort endurreikningur gámanna í febrúar 2016 hafi verið gerðir í fullu samráði við umbj.m. Margréti Gunnarsdóttur, svo sem, er m.a. staðhæft í ofangreindu bréfi þínu. Í viðleitni umbj.m. til þess að freista þess að jafna ágreining aðila og freista þess að ná samkomulagi um fjárhagslegt uppgjör á viðskiptum þessum, jafnframt því að koma í veg fyrir gjaldþrot Flúðafisks ehf., er þeim eindregnu tilmælum beint til þín f.h. Sölku Fiskmiðlunar hf. að eiga fund með mér og umbj.m. Margréti Gunnarsdóttur f.h. Flúðafisks hf., svo fljótt sem verða má og eigi síðar en um mánaðamótin feb./mars.“ 

Ekki hafi orðið af fundinum og því sé stefnanda nauðsyn að höfða málið.

Á því sé byggt að stefnandi eigi lögvarða samningsbundna kröfu um fullt endurgjald samkvæmt samningi málsaðila, dags. 21. janúar 2002 (memorandum of understanding), sbr. og sundurliðuð yfirlit yfir viðskiptin á tímabilinu september 2015 til nóv./des. 2016, sem um er deilt og stefnukröfur byggjast á. Allar vörur sem málið lúti að hafi verið fluttar frá Íslandi til Nígeríu í gámum og það verið stefnda að tryggja að vörurnar yrðu staðgreiddar um leið og þeim hafi verið skipað út. Um viðskipti málsaðila hafi gilt CIF viðskipta- og flutningsskilmálar (e. Cost Insurance Freight).

Á því sé einkum byggt að stefndi hafi einhliða og án samráðs og samþykkis stefnanda veitt kaupanda u.þ.b. 35% afslátt af umsömdu verði, með því að lækka vöruverðið, sbr. meðal annars samantekt í stefnu og fyrirliggjandi sundurliðun, þar sem komi fram að veittur 35% afsláttur sé samtals að fjárhæð 41.742.394 krónur. Með þessu hafi stefndi farið út fyrir umboð sitt sem umboðsmaður/ milligöngumaður í viðskiptunum og með því valdið stefnanda tjóni á saknæman og ólögmætan hátt. En verði ekki fallist á það að stefnandi eigi samningsbundna kröfu um fullt endurgjald á grundvelli samnings aðila samkvæmt framansögðu, þá sé á því byggt að stefnandi eigi lögvarinn rétt til skaðabóta sem nemi þá  allt að stefnufjárhæð úr hendi stefnda. 

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda

Kröfugerð stefnanda sé ruglingsleg og ekki samræmi milli málsástæðna í stefnu og gagna er lögð hafi verið fram. Lagðir hafi verið fram níu afreikningar, sem virðast eiga að sýna fram á hvernig viðskiptum þeim sem um sé deilt hafi verið háttað. Stefnandi leggi síðan fram einhvers konar yfirlit þar sem þess sé freistað að gera nánari grein fyrir útreikningum kröfunnar en á milli þessara skjala sé ekki samræmi.  Ef framangreind skjöl séu svo borin saman við dómkröfur og umfjöllun um þær í stefnu sé ekki að sjá að samræmi sé á milli þeirra talna sem lagt sé upp með og rekst hvert á annars horn í þeim efnum. Þannig sé heildarfjárhæð viðskiptanna ekki sú sama á yfirliti frá stefnanda og í stefnu auk þess sem kröfugerð virðist miða við tólf færslur eða viðskipti en gögn málsins bendi til þess að um níu sendingar hafi verið að ræða. Stefndi eigi erfitt með það að taka til varna af þessum sökum og telji að það hljóti að koma til skoðunar að dómari vísi málinu frá án kröfu eða ex officio enda hafi stefnandi þannig ekki útskýrt það með fullnægjandi hætti hvernig kröfufjárhæðin sé fundin út.

En hvað sem því líði þá byggi stefndi á því að stefnanda hafi mátt vera það ljóst, a.m.k. frá árinu 2015, að miklar væringar ættu sér stað á mörkuðum fyrir afurðir hans og að gríðarlegt verðfall hafi orðið í kjölfar erfiðs efnahagsástands í Nígeríu, eina markaði fyrir afurðirnar. Stefndi hafi lagt sig fram um að upplýsa sína viðskiptamenn um stöðuna reglulega með tölvupósti, sbr. fyrirliggjandi póst í málinu. Stefndi hafi m.a. sent viðskiptamönnum sínum fundargerð fundar sem haldinn hafi verið í utanríkisráðuneytinu 2. mars 2016 en téður fundur hafi verið haldinn til þess að fara yfir stöðu mála varðandi útflutning sjávarafurða til Nígeríu. Eins og fundargerðin beri með sér hafi fundarmenn verið meðvitaðir um það að staðan væri afar slæm á mörkuðum í Nígeríu og ýmsar staðreyndir verið settar þar fram varðandi þetta.

Að auki þá hafi stefndi og stefnandi verið í reglulegu sambandi þar sem ítrekað hafi komið fram að staða á mörkuðum í Nígeríu væri slæm og afurðaverð hríðlækkað. Um þetta sé vart ágreiningur enda ljóst af málsgögnum að það hafi stefnanda mátt vera fullljóst. Til marks um það bendi stefndi sérstaklega á tölvupóstsamskipti milli aðila í nóvember og desember 2015 þar sem stefndi hafi upplýst stefnanda um að gríðarlegt verðfall hafi orðið á mörkuðum í Nígeríu og verðlækkun afurða um 30%. Þá megi nefna fund sem haldinn hafi verið á Hótel Borg, 15. janúar 2016, þar sem mætt hafi verið Okebulu Jombo, kaupandi afurðanna í Nígeríu, Katrín Sigurjónsdóttir, þá framkvæmdastjóri stefnda, og Margrét Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stefnanda.    Á fundinum hafi kaupandi afurðanna farið fram á það að allir ógreiddir gámar, það er gámar sem þegar höfðu verið sendir til Nígeríu og legið óseldir í vöruhúsum, tækju mið af verði á mörkuðum og þeirri verðlækkun sem átt hefði sér stað og að það verð myndi haldast áfram á vöru sem hann hygðist kaupa áfram. Á þessum tíma hafi allir þeir gámar sem útskipað hafi verið eftir 15. september 2015 verið ógreiddir af kaupanda. Í kjölfar fundarins hafi gámarnir svo verið endurreiknaðir, svo sem nánari grein verði gerð fyrir hér að neðan. Sú mynd er stefnandi dragi upp í stefnu sé því röng og henni mótmælt. Það hafi verið fjarri því að stefnanda hafi átt að koma á óvart að ekki fengist fullt verð fyrir þær afurðir sem seldar hafi verið til Nígeríu og endanleg ákvörðun um sölu og verð hafi verið í höndum stefnanda en ekki stefnda.

Stefndi byggi á því að verðið, sem afurðir stefnanda hafi verið seldar á, hafi verið verð sem stefnandi hafi sjálfur samþykkt og að hann hafi verið meðvitaður um það á hverjum tíma. Það sé beinlínis rangt og villandi er haldið sé fram í stefnu og að því er virðist byggt á því að stefnandi hafi ekki vitað hvert verðið hafi verið fyrr en honum hafi borist afreikningar vegna uppgjörs frá stefnda. Til marks um þetta bendi stefndi á tölvupóstsamskipti milli Margrétar Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra stefnanda, og Katrínar Sigurjónsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra stefnda, dags. 19. og 20. janúar 2016. Í þessum tölvupóstsamskiptum komi það skýrt fram að til standi að aðlaga verðið að því verði sem hafi verið í gangi á mörkuðum, samkvæmt þeirri kröfu kaupandans sem komið hafi fram á fundi þann 15. janúar 2016. Þannig segi Katrín það í pósti sínum, dags. 19. janúar 2016, að það þurfi að endurreikna gáma og gera kreditreikninga á móti, en nefni það þó að það verði að bíða þangað til hún komi aftur til vinnu. Í svari sínu við þessum pósti, dags. 20. janúar, geri Margrét ekki athugasemdir við þetta, en segi að endurreikningar vegna ársins 2015 þurfi að vera klárir fyrir 5. febrúar, en þá þurfi að standa skil á greiðslu virðisaukaskatts.

Í sama pósti sínum þá segi Margrét enn fremur að þessi krafa um 35% lækkun aftur í tímann komi sér illa fyrir hana, en nefni það þó aldrei að hún sé mótfallin því að þessi leið verði farin, enda hafði hún þá þegar samþykkt lækkunina, sbr. það sem að framan hafi verið rakið, og hún mátt vita að kaupandinn hafi ekki viljað borga annað verð, en hinn kosturinn verið að taka vöruna aftur til Íslands. Í framhaldi af þessu megi enn fremur benda á tölvupóstsamskipti aðila frá því í febrúar 2016 þar sem skýrt komi fram af hálfu stefnda að krafa um 35% afslátt sé í gangi á mörkuðum og verði ekki annað séð en að stefnandi hreyfi ekki andmælum við því. Í framhaldi af þessu eigi aðilar síðan áfram í samskiptum í mars 2016 þar sem stefnandi lýsi því yfir að það sé ekki annað að gera en að senda kaupandanum pappírana yfir viðskiptin.

Stefndi byggi á því sjálfstætt hvað þetta varði að með þessu hafi stefnandi samþykkt þau verð er hafi verið í gangi á þessum tíma, það er verð sem markaðurinn hafi ákvarðað. Stefnandi hafi enda móttekið greiðslur í samræmi við þetta án þess að hreyfa nokkrum andmælum og aldrei tiltekið það að hann liti svo á að um innborganir væri að ræða, er þó sé hryggjarstykkið í málatilbúnaði hans nú. Raunar sé það augljóst af þeim afreikningum er liggi frammi í málinu að um fullt uppgjör hafi verið að ræða varðandi þau viðskipti sem um ræðir og ekkert sem gefi til kynna að um innborganir hafi verið að ræða og því sé það sérstakt að því sé haldið fram nú að svo hafi verið.

Málatilbúnaður stefnanda virðist nær eingöngu byggður á því að stefndi hafi einhliða tekið ákvörðun um að veita afslátt af afurðum þeim sem stefnandi hafi selt til Nígeríu og í það látið skína að það hafi komið stefnanda á óvart hvert söluverðið hafi verið þegar honum hafi borist afreikningar frá stefnda. Þetta standist að mati stefnda enga skoðun enda hafi stefnandi verið upplýstur um þau verð sem hafi verið í gangi á mörkuðum og þá afslætti sem þyrfti að gefa til að koma vörunni í sölu. Stefnandi hefði getað tekið ákvörðun um að skipa vörunni aftur til baka, sbr. tölvupóstsamskipti 7. og 8. mars 2016, en hann kosið að gera það ekki, enda enginn annar markaður fyrir hana.

Þá skjóti það skökku við að stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við þá afreikninga sem hann hafi fengið senda, en sá fyrsti sé dags. 23. september 2015, hafi hann talið sig hlunnfarinn á einhvern hátt. Síðasti afreikningurinn sem mál þetta lúti að sé dags. 25. febrúar 2016 svo að stefnanda hafi gefist bæði tími og svigrúm til þess að bregðast við og gera athugasemdir, sem hann hafi þó ekki gert á nokkurn hátt. Það hafi í raun ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 10. janúar 2017, að stefnda hafi orðið það ljóst að stefnandi hafi haft athugasemdir við hin umþrættu viðskipti. Að mati stefnda hljóti sjónarmið um tómlæti að koma til skoðunar í þessu samhengi sem og sú staðreynd að stefnandi hafi aldrei lýst því yfir gagnvart stefnda að hann vildi ekki selja vöru sína á því verði er hafi verið í gangi á árunum 2015 og 2016. 

Í lögum um lausafjárkaup sé að finna skýr úrræði seljanda til að bregðast við, sé kaupverð ekki greitt, það greitt of seint eða á einhvern hátt ekki í samræmi við það sem um hafi verið samið. Stefnandi hafi ekki nýtt sér þessi vanefndaúrræði né brugðist á annan hátt við, sem þó hefði verið eðlilegt í ljósi þess málatilbúnaðar sem hann fari nú fram með. Stefnandi hafi ekki nýtt sér umrædd úrræði enda hafi honum verið það ljóst hvert söluverð afurðanna hafi verið og honum verið það ljóst á þeim tíma að ekki hafi annað verið í boði eins og staðan hafi verið á mörkuðum.

Af fyrirkomulagi viðskipta aðila megi ráða að stefndi hafi verið í hlutverki umsýslumanns, það er að viðskiptin hafi farið fram gagnvart kaupanda afurðanna í nafni stefnda, en fyrir reikning og á ábyrgð stefnanda. Í þessu felist að stefndi, sem umsýslumaður, hafi verið milligöngumaður sem fengið hafi ákveðna þóknun fyrir að koma á viðskiptum milli stefnanda og kaupanda í Nígeríu. Þá megi ráða af þessu að stefndi hafi ekki haft umboð eða heimild til að ákveða sjálfur verð afurða sem seldar hafi verið né heldur til að ákveða skilmála þeirra viðskipta sem um ræðir enda hafi allar slíkar ákvarðanir verið á höndum stefnanda sem borið hafi fjárhagslega áhættu og notið hagnaðar af viðskiptunum. Í umsýslusamningi þeim sem unnið hafi verið eftir hafi ekki falist nein heimild til handa stefnda til að taka ákvarðanir um söluverð enda þá ekki um umsýsluviðskipti að ræða eins og þau hafi verið skilgreind. Raunverulegt vald til þess að taka ákvörðun um verð hafi alla tíð verið hjá stefnanda en eðli máls samkvæmt þá hafi það verð sem kaupendur hafi verið tilbúnir að greiða á hverjum tíma ráðið mestu um það hvaða verð hafi fengist fyrir afurðir stefnanda hverju sinni.

Stefndi hafni því og mótmælir að stefnandi eigi rétt til skaðabóta en í stefnu sé á því byggt, verði ekki fallist á að hann eigi „lögvarða/samningsbundna“ kröfu á hendur stefnda, að stefnandi eigi rétt til skaðabóta sem nemi allt að stefnufjárhæð úr hendi stefnda. Engin frekari umfjöllun sé í stefnu um sjónarmið að baki skaðabótakröfu, bótagrundvöll eða annað sem nauðsynlegt sé svo að unnt sé að taka kröfuna til frekari skoðunar. Stefndi hafi í öllu falli engar forsendur til að meta á hvaða grunni skaðabótakrafa sé reist né heldur hver sú saknæma háttsemi eigi að vera eða í hverju hún sé þá yfirleitt fólgin. Krafan sé sem slík ekki dómtæk og mótmælir stefndi því að stefnandi geti bætt úr þessu við flutning málsins, líkt og hann áskilji sér.

Stefndi mótmæli upphafsdegi dráttarvaxta, en í stefnu sé þeirra krafist frá 1. desember 2016. Hvergi í sé útskýrt hvaða rök búi því að baki að stefnda verði gert að greiða dráttarvexti frá þessari dagsetningu. Fari svo að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda stefnufjárhæðina sé á því byggt að upphafsdagur dráttarvaxta geti fyrst orðið frá því að mál þetta hafi verið höfðað, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

 

Niðurstaða

Kröfugerð stefnanda hefur skýrst undir rekstri málsins, auk þess sem málsatvik liggja í megindráttum fyrir, en fyrir dómi gáfu skýrslur Margrét Gunnarsdóttir fram- kvæmdastjóri stefnanda og Katrín Sigurjónsdóttir fyrrum framkvæmdastjóri stefnda. 

Krafa stefnanda, Flúðafisks ehf., á hendur stefnda, Sölku-Fiskmiðlun hf., í málinu byggir einkum á því að stefndi, sem milligöngumaður í viðskiptum stefnanda við kaupendur í Nígeríu á fiskafurðum, sem nánar er hér lýst að framansögðu, hafi sem umsýslumaður farið út fyrir heimildir sínar gagnvart stefnanda þegar ákveðið hafi verið að veita kaupendum afurðanna í Nígeríu um það bil 35% afslátt af upprunalegu viðmiðunarverði á vörunni frá stefnanda með hliðsjón af markaðsaðstæðum þar ytra. Er því haldið fram af stefnanda að þennan verulega afslátt hafi stefndi einn ákveðið og framkvæmt gagnvart kaupanda án samráðs við stefnanda og beri stefnda því nú að standa stefnanda skil á mismuni á söluverði sem af þessu hafi leitt, auk þar tilgreindra dráttarvaxta, en stefnandi lítur á greiðslur fyrir vöruna með afslætti sem innborganir.

Málsaðilar eru annars sammála um það að viðskipti þeirra og réttarsamband innbyrðis hafi talist vera umsýsluviðskipti og lúti fyrirliggjandi þríhliða samkomulagi þeirra og kaupandans ytra, nefnt „Memorandum of understanding“, dags. 21. janúar 2002. Gerir það raunar ráð fyrir að frekari samningur yrði gerður, sem þó liggur ekki fyrir, en óumdeilt er að framkvæmd viðskiptanna hafi gengið snurðulaust fyrir sig allt þar til þær aðstæður hafi skapast á mörkuðum í Nígeríu sumarið 2015 að afslátturinn var veittur. Snýr ágreiningurinn einkum að því hvort stefndi sem umsýslumaður hafi haft heimild umsýsluveitanda til þess að veita kaupanda þann afslátt sem kröfugerð stefnanda á hendur stefnda varðar og stefnandi telur stefnda nú eiga að standa skil á.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af dómkröfum stefnanda og er þá einkum á því byggt að stefnanda hafi við upphaf þeirra viðskipta sem hér um ræðir verið ljós sú breytta staða sem uppi hafi verið í viðskiptum aðila vegna aðstæðna á Nígeríumarkaði frá 2015 og stefnandi síðan fallist á að una lægra verði með orðum og athöfnum.

Sé litið til framangreinds samkomulags aðila, dags. 21. janúar 2002, þá leiðir af því að miða beri við markaðsverð í viðskiptum aðila, án þess að það sé frekar skýrt, en að öðru leyti veitir samkomulag þetta ekki upplýsingar um þætti er varða mál þetta. Hvað varðar síðan framkvæmd viðskiptanna, þá liggur fyrir að almennt hafi útsendir gámar frá stefnanda verið staðgreiddir fyrir uppskipun þeirra á meðan allt lék í lyndi, en síðan lét stefndi stefnanda í té afreikninga fyrir viðskiptunum við uppgjör þeirra. Bera þessir afreikningar, sem liggja fyrir í málinu og stafa frá stefnda, það með sér að veittur hafi verið umþrættur afsláttur frá því viðmiðunarverði sem miðað hafi verið við varðandi þau viðskipti sem hér er deilt um og nánar er lýst hér að framansögðu.

Hvað varðar það álitaefni hvort stefnandi teljist hafa heimilað stefnda að veita umræddan afslátt eða lægra verð frá óumdeildu viðmiðunarverði afurðanna frá því í maí 2015 með tilliti til þeirra sérstöku markaðsaðstæðna er komu til í kjölfar aðgerða stjórnvalda í Nígeríu í júlí 2015, sem leiddi til verðfalls á þeim mörkuðum, þá er þeim aðstæðum ítarlega lýst í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda, dags. 18. janúar 2017. Eins og þar er nánar lýst þá liggur fyrir af gögnum málsins að stefndi hafði eins skjótt og ætlast mætti til upplýst stefnanda um stöðuna á markaðinum haustið 2015. Þann 15. janúar 2016 kemur síðan Jombo, fulltrúi kaupenda í Nígeríu, til fundar hér á landi þar sem fyrir liggur að voru meðal annars Katrín Sigurjónsdóttir frá stefnda, Sölku-Fiskmiðlun ehf., og Margrét Gunnarsdóttir frá stefnanda, Flúðafiski ehf., þar sem Jombo fór fram á það að allir ógreiddir gámar yrðu endurreiknaðir á 35% afslætti, sem yrði síðan umsamið verð áfram í frekari kaupum, en á þessum tíma hafi allir gámar er hafi verið útskipað eftir 15. september verið ógreiddir af hans hálfu. Að mati dómsins verður að fallast á með stefnda að viðbrögð Margrétar Gunnarsdóttur í áframhaldandi samskiptum við stefnda, sbr. einkum tölvupóstar er gengu á milli málsaðila frá janúar og fram til apríl 2016, verði ekki skilin öðruvísi en svo að hún hafi ekki mótmælt endurútreikningi á söluverðinu frá því í febrúar 2016. Endurspeglast þetta jafnframt í því að í mars 2016 virðist stefnandi fallast á að kaupandanum í Nígeríu yrðu sendir útflutningspappírar en ella yrðu gámarnir endursendir eins og stefndi hafði upplýst. Þá verður ekki séð að sú staðreynd að síðar lá svo fyrir að stefndi hafði fyrr í ferlinu innt af hendi vissar greiðslur til stefnanda fyrir gáma sem sendir voru út haustið 2015 án þess að greiðslur hafi borist frá kaupandanum í Nígeríu hafi sérstaka þýðingu í málinu, en upplýst er að stefndi hafi iðulega gert slíkt til að framleiðendur fengju fyrr greitt.  

Að mati dómsins leiðir framangreind atburðarás nægilega í ljós að stefnanda hafi mátt vera ljós sú alvarlega staða á mörkuðum í Nígeríu fyrir framleiðsluvöruna er var fyrir hendi frá sumri 2015 og fór síðan stigversnandi fram eftir ári 2016 og stefndi getur ekki borið sérstaklega ábyrgð á. Verður auk þess sem fyrr segir ekki annað ráðið af gögnum málsins en að samráð hafi verið haft við fyrirsvarsmann stefnanda um verð og eftir að kaupandinn frá Nígeríu hafði gert það ljóst að hann krefðist 35% afsláttar verður ekki séð að stefnandi hafi gert kröfu um það að fá vöruna endursenda, enda var þá naumast um aðra markaði fyrir umrædda vöru að ræða, eins og upplýst hefur verið.

Þykir því með hliðsjón af öllu framansögðu hér ekki vera sýnt fram á það af hálfu stefnanda að stefndi geti talist hafa farið út fyrir heimildir sínar, eða stefndi sinnt umsýslu sinni í þágu stefnanda með ótilhlýðilegum hætti, með því að kaupandanum var veittur umræddur 35% afsláttur á vörunni eftir að skyndilegt og verulegt verðfall varð á markaði fyrir hana og með því vanefnt skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda. Þá fellst dómurinn einnig á með stefnda að stefnandi hafi heldur ekki með viðhlítandi hætti rennt stoðum undir kröfugerð sína á öðrum grundvelli, það er í formi skaðabóta- kröfu. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að mati dómsins heldur ekki talið að aðrar fram komnar röksemdir eða málsástæður hafi við svo búið þýðingu í málinu eða geti leitt hér til annarrar niðurstöðu, sbr. e-lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Ber því með hliðsjón af öllu hér framangreindu að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu í málinu, en með hliðsjón af því hvernig málavöxtum er hér háttað, þykir þó vera rétt að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málið fluttu Sigmundur Hannesson lögmaður fyrir stefnanda, en Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður fyrir stefnda.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan, en dómarinn tók við meðferð málsins 10. febrúar sl., en hafði fram að því engin afskipti af meðferð þess.

 

 

 

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefndi, Salka-Fiskmiðlun hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Flúðafisks ehf.

Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

 

Dóminn kveður upp Pétur Dam Leifsson héraðsdómari.