• Lykilorð:
  • Bifreiðir
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Tilraun
  • Upptaka
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 29. desember 2017 í máli nr. S-104/2017:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson ftr.)

gegn

Bryndísi Pálínu Arnarsdóttur

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ísak Loga Bjarnasyni

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Þórði Má Sigurjónssyni

(Páll Kristjánsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 13. nóvember, er höfðað með alls átta ákærum á hendur Bryndísi Pálínu Arnarsdóttur, ...., Ísak Loga Bjarnasyni, ... og Þórði Má Sigurjónssyni, ... .

 

Fyrsta ákæra er gefin út af héraðssaksóknara 9. maí 2017 á hendur ákærðu Bryndísi Pálínu, sem í fyrsta ákærulið er ákærð fyrir

„sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 29. ágúst 2015, á skemmtistaðnum Cafe Amor að Ráðhústorgi 9 á Akureyri, veist að [A], togað hana niður í gólf með því að rífa í hárið á henni, sest ofan á hana þar sem hún lá á gólfinu og haldið henni niðri og eftir að ákærða stóð upp, þá sparkað að minnsta kosti fimm sinnum í höfuð [A] og einu sinni ofarlega í bringu, þar sem [A] lá í gólfinu og þegar hún reyndi að reisa sig við. [A] hlaut af líkamsárásinni tognun á hálsi, mar og yfirborðsáverka á höfði, hálsi og bringu.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.“

Í öðrum ákærulið er ákært aðallega

„fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og hótanir en til vara fyrir hættubrot og hótanir með því að hafa að kvöldi mánudagsins 5. september 2016 á milli húsa nr. 11 og 13 við Strandgötu á Akureyri slegið til [B] með sprautu og hafnaði sprautunálin í vinstra handarbaki [B]er hann setti höndina fyrir andlit sitt og reyndi að verja sig og í framhaldinu á Glerárgötu sunnan við Gránufélagsgötu [...] á Akureyri hlaupið að [B] í að minnsta kosti 3 skipti með sprautuna á lofti og hótað á sama tíma að drepa hann. Ákærða var á þessum tíma smituð af lifrarbólgu C og þarf [B] að mæta í blóðprufur reglulega þar til ár er liðið frá atvikinu til að kanna með smit.

Telst þetta aðallega varða við 2. mgr. 218. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, en til vara við 4. mgr. 220. og 233. gr. sömu laga.“

Í þriðja ákærulið er ákært fyrir

„brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa að kvöldi mánudagsins 5. september 2016 á Glerárgötu, sunnan við Gránufélagsgötu [...] á Akureyri, er lögregla hafði afskipti af henni vegna kafla II í ákæru, haft í vörslum sínum í tösku 0,85 g af marihuana.

Telst háttsemi þessi varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1981 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að ákærðu verði gert að sæta upptöku á 0,85 g af marihuana, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. sbr. lög nr. 68/2001 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001.

Einkaréttarkrafa vegna II. kafla ákæru: Fyrir hönd [B] er gerð krafa um að ákærðu verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur að fjárhæð 2.083.725 kr. með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er brotið átti sér stað þann 5. september 2016 [til 14. júní 2017], en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærðu verði gert að greiða brotaþola málskostnað, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, að mati dómsins vegna lögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.“

Upphaflega krafðist brotaþoli dráttarvaxta frá þeim degi er mánuður væri liðinn frá birtingu bótakröfu en við munnlegan málflutning breytti hann kröfunni þannig að dráttarvaxtanna væri krafist frá þingfestingu málsins.

 

Önnur ákæra er gefin út af héraðssaksóknara á hendur ákærðu Bryndísi Pálínu hinn 20. júní 2017 og er í fyrsta ákærulið fyrir

„sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 26. desember 2016 að [...] á Akureyri skorið [D] í andlitið með skærum eða hnífi þannig að [D] hlaut af tvö skurðsár í andliti, annað yfir vinstra kinnbeini og hitt vinstra megin á höku, og bólgu á vinstri kinn.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.“

Í öðrum ákærulið er ákært fyrir

„brot gegn valdstjórninni og brot gegn lögreglulögum, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 1. febrúar 2017 við Hamraborg í Kópavogi, eftir að lögregla hafði afskipti af ökumanni bifreiðar sem ákærða var farþegi í, hrækt til lögreglumannsins [E] en ekki hæft hann og í framhaldinu ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að koma út úr bifreiðinni og sparkað ítrekað til lögreglumannsins [F], þannig að eitt sparkið hæfði hægri framhandlegg hans, en lögreglumennirnir voru báðir við skyldustörf á vettvangi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 19., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa vegna I. kafla ákæru: Fyrir hönd [D], er gerð krafa um að ákærða verði dæmd til að greiða henni in solidum [sic] kr. 5.000.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 32/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. desember 2016 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 9. gr. sbr. 6. gr. til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði dæmd til að greiða kostnað við að halda fram bótakröfu á rannsóknarstigi og fyrir dómi, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti.“

 

Þriðja ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hinn 7. júní 2017 á hendur ákærðu Þórði Má, Ísak Loga og Bryndísi Pálínu og er

„fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 13. maí 2017, í þjófnaðarskyni brotist í sameiningu inn í geymslugám á bak við verslun Ormsson að Grenivöllum 12 á Akureyri.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Fjórða ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hinn 8. ágúst 2017 á hendur ákærða Þórði Má og er

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 30. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti, um Skógarlund á Akureyri, uns hann ók á ljósastaur sunnan við Tjarnarlund, með þeim afleiðingum að ljósastaurinn skemmdist og ekið síðan bifreiðinni af vettvangi og að heimili sínu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Fimmta ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra 7. júní 2017 á hendur ákærða Ísak Loga og er

„fyrir umferðar-, vopna- og fíkniefnalagabrot:

I. (Mál nr. 316-2017-2334)

Með því að hafa mánudaginn 10. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 150 ng/ml og MDMA 80 ng/ml og tetrahýdrókannabínólsýra og kókaín mældist í þvagsýni), um Tryggvabraut á Akureyri uns lögreglan stöðvaði akstur hans við verslunina Ellingsen að Tryggvabraut 1-3.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.“

II. (Mál nr. 316-2017-2290)

Með því að hafa laugardaginn 8. apríl 2017, verið með í vörslum sínum 15,53 grömm af amfetamíni og 1 töflu af ecstasy (MDMA) en lögreglan fann efnin við leit á ákærða og í farangri hans í bifreiðinni [...], en akstur bifreiðarinnar hafði verið stöðvaður vegna gruns um fíkniefnaakstur ökumanns, en leitin fór fram á lögreglustöðinni á Akureyri við Þórunnarstræti og fyrir að vera með 10 cm fjaðurhníf og rafstuðgjafa sem leit út eins og vasaljós í vörslum sínum, en vopnin fundust við sömu leit og tilgreind fíkniefni.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum og 1. mgr. 30. gr., sbr. 1. mgr. 36. gr. vopnalaga nr. 16/1998, með síðari breytingum.

III. (Mál nr. 316-2017-2376)

Með því að hafa þriðjudaginn 11. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 105 ng/ml og MDMA og tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagsýni), frá bílastæði við verslun Hagkaupa við Furuvelli á Akureyri og suður Hjalteyrargötu þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans við Silfurtanga.

Telst þetta varða 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á efnum þeim, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrám nr. 34.696 & 34.698, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001 og upptöku á haldlögðum vopnum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. tilgreindra vopnalaga[.] Jafnframt er gerð sú krafa að ákærði verði sviptur ökurétti samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Sjötta ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hinn 7. júní 2017 á hendur ákærða Ísak Loga og X

„fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 10. apríl 2017, verið með saman í vörslum sínum 0,15 grömm af amfetamíni, en efni þetta fannst á ákærða [X], þegar var verið að færa hann í fangaklefa á lögreglustöðinni á Akureyri.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta upptöku á þeim efnum sem lögreglan lagði hald á og tilgreindar [sic] eru í efnaskrá nr. 34.683, samkvæmt 6. mgr. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

Þætti þess manns, sem ákærður var í málinu ásamt ákærða Ísak Loga og játaði sök, lauk með því að honum voru ákveðin viðurlög, 60.000 króna sekt í ríkissjóð. Þáttur ákærða Ísaks Loga var sameinaður því máli sem þá var rekið til meðferðar þeirrar ákæru sem er önnur ákæra þessa máls.

 

Sjöunda ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hinn 12. júní 2017 á hendur ákærða Ísak Loga og er

„fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I. (Mál nr. 316-2017-2753)

Með því að hafa miðvikudagskvöldið 26. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 55 ng/ml og tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagsýni), um Þórunnarstræti á Akureyri, uns lögreglan stöðvaði akstur hans við dvalarheimilið Hlíð.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

II. (Mál nr. 316-2017-2836)

Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 30. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 45 ng/ml og MDMA 95 ng/ml og metýlfenídat mældist í þvagsýni), suður Hörgárbraut á Akureyri, og áfram suður Glerárgötu og upp Þórunnarstræti, uns hann lagði bifreiðinni í bifreiðastæði við verslunarmiðstöðina Glerártorg.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Áttunda ákæra er gefin út af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hinn 21. júní 2017 á hendur ákærða Ísak Loga og er

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudagskvöldið 10. maí 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni úr ákærða mældist amfetamín 25 ng/ml), suður Hörgárbraut á Akureyri, með allt að 96 kílómetra hraða miðað við klukkustund eftir vegarkafla við hringtorgið í Undirhlíð, en þar er leyfilegur hámarkshraði 50 kílómetrar.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Ákærða Bryndís Pálína neitar sök að öllu leyti og krefst sýknu. Til vara krefst hún vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hennar krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákærði Ísak Logi neitar sök samkvæmt þriðju ákæru en játar sök samkvæmt öðrum ákærum er snúa að honum. Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákærði Þórður Már neitar sök að öllu leyti og krefst sýknu. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málin voru sameinuð.

Málavextir

Ekki þykir ástæða til að rekja málavexti þar sem sök er skýlaust játuð.

Fyrsta ákæra

Fyrsti ákæruliður

Samkvæmt lögregluskýrslu var klukkan 04:35 hinn 29. ágúst 2015 óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingastaðnum Café Amor vegna slagsmála sem þar hefðu orðið fyrr um nóttina. Lögregla fór á staðinn og fékk þar að sjá upptöku úr öryggismyndavél. Segir í skýrslunni að þar hafi mátt sjá „tvær stúlkur í einhverjum deilum sem fara út í átök og enda á því að önnur lá á gólfinu og hin sparkar nokkrum sinnum í höfuð hennar.“ Dyraverðir hafi fullyrt að stúlkurnar séu Bryndís Arnarsdóttir og A og hafi sú fyrrnefnda ráðist á þá síðarnefndu.

Í málinu liggur upptaka úr eftirlitsmyndavélum skemmtistaðarins. Sýnir hún myndir teknar með örstuttum hléum en ekki eina samfelda mynd. Á myndunum sjást ákærða og brotaþoli ræðast við. Því næst rjúka þar saman og verður vart greint hvor á þar upptök. Brotaþoli fellur í gólfið en ákærða sparkar þar í hana oftar en einu sinni.

Í málinu liggur vottorð G heimilislæknis. Segir þar að brotaþoli, A, hafi leitað á heilsugæslustöðina á Akureyri hinn 9. september 2015 vegna verkja í herðum og hnakka. Hafi hún sagst hafa orðið fyrir líkamsárás á Akureyri hinn 29. ágúst 2015 og verið lamin niður og sparkað hafi verið í höfuð hennar. Í vottorðinu segir að hún hafi verið „við skoðun verulega aum í herðum, hnakka og hálsi, hreyfigeta slæm en taugaskoðun í lagi. Fyrir utan þetta virðist hún hafa fengið sýkingu í kring um lokk sem hún setti í sig nýlega ofan við hægra viðbein. Einkenni og skoðun samrýmast vel mögulegum afleiðingum líkamsárásar. [H]ún er tognuð í hálsi með verki í herðum og hnakka, höfuðverki og sýkingu í húð sem krefst sér meðferðar. Áverkar þó þessháttar að þeir ættu að lagast að fullu á 3-5 vikum.“

 

Annar ákæruliður

Samkvæmt lögregluskýrslu barst tilkynning mánudaginn 5. september kl. 18:53 um að óskað væri aðstoðar á Glerárgötu, gegnt Tónabúðinni, vegna „brjálaðrar konu sem væri búin að stinga aðila með sprautunál.“ Farið hafi verið á vettvang og þar hafi lögregla séð brotaþola, B, standa á grasinu sunnan við gamla Alþýðuhúsið og benda á ákærðu sem hafi verið á hnjánum skammt frá honum. Þegar lögregluþjónar hafi tekið upp kylfu hafi hún kastað frá sér sprautu og staðið upp. Hún hafi verið handtekin og flutt á lögreglustöð. Þar hafi verið leitað á henni og þá fundist í buxnastreng að aftanverðu sprauta með nál. Á sprautunni hafi verið hlífðarhetta og í sprautunni hafi mátt sjá blóðvökva. Ákærða hafi greinilega verið undir áhrifum örvandi efna, mjög ör, æst og með miklar ranghugmyndir. Hafi hvorki verið tekinn niður framburður hennar né henni kynnt réttarstaða hennar. Við leit í tösku ákærðu hafi fundist meint kannabisefni í „zip poka“.

 

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 31. janúar 2017, undirrituðu af H lækni, kom ákærða í lögreglufylgd á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri 5. september 2016 kl. 20:16. Við skoðun hafi púls verið 133/mín, blóðþrýstingur 145/115 mmHg, súrefnismettun 100%. Á hjartalínuriti hafi komið fram hraðasláttur, sem geti sést eftir örvandi efni, en ekki bráðar breytingar. Blóðprufa hafi verið tekin fyrir etanóli en reynst neikvæð. Þá hafi blóðprufur verið sendar í lifrarbólgu C greiningu og fleira. Niðurstöður hafi orðið neikvæðar fyrir lifrarbólgu B og HIV en jákvætt fyrir lifrarbólgu C. Þessar niðurstöður hafi borist 6. september. Lifrarbólga C hafi ekki verið mæld hjá henni áður. Læknirinn segist ekki vita hvenær ákærðu hafi verið tjáð að hún væri smituð af lifrarbólgu C en það hafi ekki getað verið fyrr en 6. september þegar niðurstöður rannsóknar hafi legið fyrir.

 

Samkvæmt afriti úr bráðamóttökuskrá sjúkrahússins á Akureyri kom brotaþoli þangað hinn 5. september 2016. Í skránni segir meðal annars: „23 ára maður sem kemur inn vegna [árásar] sprautufíkils. Hann var stunginn með sýktri sprautunál. Hringt í vakthafandi sérfræðing sem ráðleggur HIV, Hep B og Hep C rannsóknir á flýtimeðferð bæði á [brotaþola] og árásarmanni sem er gert. Hann fær einnig Engerix bólusetningu. Er með roða og stungusár lítið á vi. thenar svæði dorsalt.“ Undir eru rituð vélrænt nöfn I unglæknis og J smitsjúkdómalæknis.

 

Sprautur þær sem lögregla lagði hald á í málinu voru rannsakaðar hjá tæknideild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í niðurstöðum rannsóknarinnar sem liggja fyrir í málinu kemur fram að í annarri sprautunni hafi verið leifar af glærum vökva en ekkert markvert sjáanlegt á nálinni, en á innanverðri hettu hinnar sprautunnar hafi verið tveir litlir rauðleitir blettir. Sýni hafi verið tekið úr ytri blettinum og það gefið jákvæða svörun við LMG blóðprófi og ABA Hematrace staðfestingarprófi.

 

Í málinu liggur matsgerð L læknis um brotaþola, dags. 22. október 2017. Matsspurningar og svör eru á þessa leið:

1. Hvenær var heilsufar tjónþola stöðugt? Svar: „Heilsufar tjónþola telst hafa verið orðið stöðugt þegar sálfræðimeðferð lauk eða í mars 2017. Stöðugleikapunktur er því settur 31. 3. 2017.“

2. Hver er tímabundin óvinnufærni tjónþola að öllu leyti eða að hluta á tímabilinu frá því tjón varð og þar til heilsufar var orðið stöðugt? Svar: „Tjónþol[i] var óvinnufær með öllu frá 5. 9. 2016 til 5. 10. 2016.“

3. Hvort og þá hversu lengi tjónþoli hefur verið veikur þannig að hann teljist eiga rétt til þjáningabóta skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, allt frá slysdegi og þar til heilsufar var orðið stöðugt. Í þessu sambandi óskast einnig greint á milli þess tíma sem tjónþoli hefur annars vegar verið rúmfastur og hins vegar veikur án þess að vera rúmliggjandi. Svar: „Tjónþoli var veikur en án rúmlegu frá 5. 9. 2016 til 5. 10. 2016.“

4. „Ef við á, hvort og þá lengi tjónþoli hefur tafist í námi vegna afleiðinga slyssins.“ Svar: „Tjónþoli tafðist ekki í námi.“

5. „Hver er varanlegur miski af völdum slyssins skv. 1. og 2. málslið 1. mgr. 4. gr. skbl., sbr. töflur um miskastig útgefnum af örorkunefnd, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna“? Svar: „Nú liggur fyrir að tjónþoli fær í kjölfar slyssins veruleg áfallastreitueinkenni, enda er smitun af völdum lifrarbólgu C veruleg ógn við líðan og heilsu einstaklinga. Þessi ógn er verulega lituð af barnungri dóttur tjónþola sem hann óttaðist að hann gæti smitað og gerði þetta því hann sérlega viðkvæman fyrir veikindum af þessu tagi. Þá hafði þetta áhrif á samband hans við eiginkonu. Í dag eftir að stöðugleika hefur verið náð þá lifa eftir væg ósértæk kvíðaeinkenni með skírskotun til atburðarins, sem geta valdið truflun í völdum kringumstæðum. Ljóst er að vegna þessa er hann viðkvæmari en ella fyrir öðrum áföllum. Nú er í íslensku miskatöflunni ekki getið um miska af þessu tagi. Miska af þessu tagi er hins vegar lýst í dönsku miskatöflunni. [...] Í samræmi við þetta er horft á lið „J.2.1. Lettere uspecificeret belastingsreaktion 5%“ og miski tjónþola metinn 5 stig.“

6. „Hver er varanleg örorka af völdum slyssins, metin samkvæmt 1-3 mgr. 5. gr. skbl.“? Svar: „Þegar tjónþoli verður fyrir líkamsárásinni er hann tæplega 24 ára gamall maður sem hefur ákveðið að leggja stund á lögreglustörf. Í kjölfar atburðarins þá hefur hann snúið aftur til starfa en verið viðkvæmur gagnvart völdum verkefnum. Hann hefur hins vegar ákveðið að leggja stund á lögreglufræði og hefur nú hafið það nám. Það verður vart séð af sögu eða gögnum að afleiðingar af líkamsárásinni [muni] leiða til aflatjóns fyrir tjónþola til frambúðar. Örorka hans vegna líkamsárásarinnar telst því engin vera 0%.“

7. „Hvort og þá hvaða meðferð tjónþoli þarf að gangast undir vegna afleiðinga slyssins til að halda heilsu sinni í horfinu eftir stöðugleikapunkt. Bæði óskast metin tegund nauðsynlegrar meðferðar, t.d. sjúkraþjálfun eða lyfjameðferð, og tíðni hennar.“ Svar: Ekki er séð að tjónþoli þurfi sértæka meðferð til framtíðar vegna afleiðinga atburðarins.

Loks var farið fram á að við matsgerðina yrði sjúkrasaga brotaþola könnuð sérstaklega og í svari sínu segist matsmaður hafa tekið fullt tillit til hennar við mat á miska og örorku.

 

Þriðji ákæruliður

Samkvæmt lögregluskýrslu vegna þess máls sem fjallað er um í 2. ákærulið fannst við leit í tösku ákærðu „meint kannabisefni í zip poka“.

Í málinu liggur efnaskýrsla nr. 33.311 um efni sem fundist hafi í handtösku ákærðu hinn 5. september 2016. Hafi verið um 0,85 g af marihúana að ræða.

 

Önnur ákæra

Fyrri ákæruliður

Samkvæmt lögregluskýrslu bárust boð frá fjarskiptamiðstöð klukkan 13:02, annan í jólum 2016, um að verið væri að senda sjúkrabifreið á ...götu ... vegna líkamsárásar. Væri þar kona með skurð í andliti eftir stungu og á staðnum væri sá er stakk. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi tekið á móti henni K og skýrt svo frá að ákærðu og D, brotaþola, hefði lent saman og ákærða stungið brotaþola með skærum eftir að brotaþoli hefði stungið ákærðu með hnífi. Um leið og K hafi tjáð lögreglu þetta hafi brotaþoli komið út úr húsinu og verið með tvo skurði í andliti og blætt úr. Hafi hún verið færð í sjúkrabifreið. K hafi afhent lögreglu hníf og sagst hafa tekið hann af brotaþola eftir að hún hefði stungið ákærðu með honum.

K er bróðir ákærðu.

Í skýrslunni segir að brotaþoli hafi enga þjónustu viljað þiggja af sjúkraflutningamönnum og rokið út úr sjúkrabifreiðinni. Hún hafi verið „greinilega í mjög annarlegu ástandi, með froðu í munnvikum og [vaðið] úr einu í annað.“ Í skýrslunni segir að ákærða hafi verið inni í eldhúsi og með áverka á vinstri hendi, rispu sem aðeins hafi blætt úr. Eftir henni er haft að þær brotaþoli hafi setið við borð í þvottahúsinu og brotaþoli verið með leiðindi og hótað henni líkamsmeiðingum. Allt í einu hafi brotaþoli gripið hníf og stungið honum í vinstri handlegg ákærðu og ráðist svo að henni. Hafi ákærða þá gripið eldhússkæri og sveiflað í áttina að brotaþola um leið og hún hafi hörfað undan brotaþola. Hafi ákærða verið að verja sig.

Ákærða og brotaþoli voru báðar handteknar og fluttar á lögreglustöð.

Þá segir í skýrslunni að læknir hafi komið á lögreglustöðina og litið á brotaþola. Hafi hann mælt fyrir um að hún yrði flutt á slysadeild svo gera mætti að sárum á vanga hennar. Brotaþoli hafi verið flutt þangað kl. 14:30 en neitað allri læknisaðstoð þar. Hafi hún meðal annars hótað að sparka í starfsfólk ef það kæmi við hana. Hafi hún þá verið flutt aftur í fangaklefa. Þar hafi hún lýst „því ákveðið yfir að hún ætlaði að drepa“ ákærðu. Einnig hafi hún haft uppi hótanir í garð fjölskyldu lögregluþjóna.

Í málinu liggur áverkavottorð um brotaþola, dags. 14. febrúar 2017, undirritað af H lækni. Segir þar að brotaþoli hafi komið á bráðamóttöku annan í jólum 2016 klukkan 14:25. Þegar læknir hafi reynt að fara með hana inn á herbergi til skoðunar hafi hún verið „töluvert agressív“. Hafi þeim lækni virst hún undir áhrifum, mjög ör og hafi talað óreglulega. Lækninum hafi fundist hún „heldur illa til reika, óhrein, blóðug í framan og með rennandi maskara, froðufellandi.“ Hafi brotaþoli ítrekað tekið fram að hún vildi ekki láta sauma sig. Læknir hafi viljað skoða hana og þrífa sárin en brotaþoli tekið fyrir það. Hafi læknir skráð að tvö skurðsár hafi sést á andliti vinstra megin, annað verið tvo cm eða svo neðan við vinstra auga og virst heldur grunnt. Annar skurður hafi verið vinstra megin á höku, um 1 cm langur, dýpri og gapandi. Læknir hafi óskað eftir að fá mynd af sárunum en verið svarað með „bulli“. Þegar reynt hafi verið að fá brotaþola til að rita undir yfirlýsingu um að hún færi af sjúkrahúsinu gegn læknisráði hafi hún ekki haft „fókus“ og talað um aðra hluti og ekkert undirritað. Loks hafi brotaþoli farið af sjúkrahúsinu í fylgd lögreglu.

Í vottorðinu segir jafnframt að brotaþoli hafi komið á bráðamóttökuna daginn eftir. Hafi þá um 1 cm alldjúpur skurður legið til hliðar og rétt neðan við vinstra munnvik, allmikill þroti í neðanverðum vinstri vanga og gæti hún ekki gapað alveg. Þá væri henni erfitt að bíta saman. Yfir vinstra kinnbeini væri um 2 cm skurður. Rispa væri á húð neðan við vinstra kjálkabarð og aftur á háls. Mar eða hálfgildings glóðarauga væri neðan við hægra auga. Sáralímband hefði verið sett á skurðina. Tekin hafi varið tölvusneiðmynd af andlitsbeinum en ekki sést merki um brot. Hafi brotaþoli útskrifast. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi komið í endurkomu 30. desember sama ár og þá verið skipt um umbúðir. Þykir ekki sérstök ástæða til að rekja efni vottorðsins frekar.

 

Síðari ákæruliður

Samkvæmt lögregluskýrslu voru lögregluþjónar við eftirlit hinn 1. febrúar 2017 og stöðvuðu þá bifreiðina ... sem ekið var í Kópavogi. Er bifreiðin var stöðvuð hafi lögregla séð ökumann skríða yfir í aftursæti bifreiðarinnar en farþega í framsæti færa sig í ökumannssætið. Lögregla hafi þá farið að bifreiðinni og séð í aftursætum hennar nafngreindan mann og ákærðu við hlið hans. Í skýrslunni segir að lögregluþjónn hafi opnað afturdyr bifreiðarinnar „til að tryggja meintan ökumann“ en ákærða hafi brugðist illa við því, hrópað ókvæðisorð að lögreglu og reynt að ýta lögregluþjóninum burt. Einnig hafi hún haldið manninum föstum. Lögreglu hafi þó tekist að ná honum úr bifreiðinni. Ákærðu hafi verið gefin ítrekuð fyrirmæli um að koma úr bifreiðinni en hún sinnt þeim ekki. Ákærða hafi verið orðin mjög æst og hafi reynt að hrækja á annan lögregluþjón sem þarna hafi verið. Hafi fyrri lögregluþjónninn teygt sig eftir henni en hún sparkað ítrekað til hans og eitt sparkið lent á hönd hans. Hafi lögregluþjónninn þá tekið upp varnarúða og hótað að beita honum og hafi ákærða þá komið úr bifreiðinni.

 

Þriðja ákæra

Samkvæmt lögregluskýrslu barst tilkynning klukkan 04:02 hinn 13. maí 2017 um „yfirstandandi innbrot í gám sem staðsettur var á bak við verslun Ormsson Grenivöllum 12 á Akureyri. Kom fram í tilkynningunni að 3 aðilar voru þarna að verki og einn þeirra var með klút fyrir andliti.“

Lögregla fór að gámnum og voru ákærðu þar handtekin. Ákærði Þórður Már hafi verið „með húfu á höfði, ljósleita hárkollu, með blátt buff fyrir andliti og í bláleitum einnota gúmmíhönskum.“ Ákærða Bryndís Pálína hafi verið „í brúnleitri hettupeysu með bláleitan klút fyrir andliti og í svörtum einnota gúmmíhönskum. [Ákærða] var með dökka, síðhærða hárkollu.“ Ákærði Ísak Logi hafi verið „í dökkleitri úlpu með hettu og var hann með grímu fyrir andliti, líkt og geðvondur trúður. Hann var með græna og hvíta vinnugúmmívettlinga á höndum“.

Í skýrslunni segir að á vettvangi hafi mátt sjá gylltan hengilás á jörðinni fyrir neðan hurðina inn í gáminn. Inni í gámnum hafi verið ýmislegt dót, meðal annars dekk og fleira. Við útihurðina hafi mátt sjá svartar töskur og við aðra þeirra hafi verið kúbein. Á annarri töskunni hafi verið þrjár öryggismyndavélar og sú fjórða hafi legið á gólfi gámsins. Samband hafi verið haft við starfsmann Ormsson sem hafi sagt gáminn í eigu fyrirtækisins og í honum hafi meðal annars verið geymt dót úr verslun BT, dekk, öryggiskerfi og fleiri hlutir. Gámurinn hafi verið læstur með gylltum hengilás.

 

Fjórða ákæra

Samkvæmt lögregluskýrslu var lögregla kölluð að Tjarnarlundi 2 klukkan 18:54 hinn 30. apríl 2017 og tilkynnt að þar hefði bifreið verið ekið á ljósastaur og síðan burt. Stuttu síðar hafi önnur tilkynning borist um að tilkynnandi hafi séð að bifreiðinni hefði ekið maður er kallaður væri „Dúddi“, Þórður Már. Lögregla hafi farið á staðinn og séð að vettvangur væri Skógarlundur, rétt sunnan við Tjarnarlund. Þar hafi sést að ekið hafði verið á ljósastaur. Glerbrot verið um alla götu.

Í skýrslunni segir að lögregluþjónn hafi farið að heimili ákærða og litið inn um glugga á bifreiðageymslu sem þar væri. Þar hafi bifreiðin ... sést. Bifreiðin hafi verið „tjónuð á vinstra horni á frambretti.“

Í skýrslunni segir að reynt hafi verið ná tali af ákærða bæði í síma og á heimili hans en árangurslaust. Hann hafi haft samband síðar um kvöldið og sagst hafa farið út úr bænum en einhver annar hefði verið á bifreiðinni.

Skýrslur fyrir dómi

Fyrsta ákæra

Fyrsti ákæruliður

Ákærða sagði að langt væri liðið frá atvikinu og hún myndi vart eftir því. Hún sagðist ekki muna eftir því að hafa verið ein með brotaþola. Hún sagði myndbandsupptöku ekki sýna sig.

 

Brotaþoli sagðist hafa verið búin að vera á efri hæð skemmtistaðarins þegar ákærða hefði beðið sig „að koma og tala við sig þarna á bak við“. Þegar brotaþoli hefði verið búin að tala við ákærðu í stutta stund „þá vorum við báðar ekki að ná hvor annarri, vorum ekki að tala um sama hlutinn og það braust bara út í þetta.“

Brotaþoli sagðist ekki hafa ætlað að slást við ákærðu. Annað hvort hefði ákærða ráðist að brotaþola „eða hvort að ég hafi gripið í hana og hún hafi tekið því illa, eða hvernig þetta var.“ Nánar spurð sagði brotaþoli að vera kynni að hún hefði „eitthvað gripið í hana en það er þá ekki til að slást við hana sko, en hún gæti hafa mistúlkað það við mig.“ Eftir þetta hefði ákærða hrint brotaþola „eitthvað til hliðar þannig að ég datt á stóla og borð minnir mig og eftir besta minni sparkaði ítrekað eftir það.“ Brotaþoli sagðist muna eftir spörkunum, hún hefði sparkað í sig „á bilinu fimm til sjö sinnum örugglega.“ Ákærða hefði verið á hælaháum skóm. Brotaþoli kvaðst hafa misst meðvitund stutta stund í lokin, í mesta lagi í eina og hálfa mínútu. Brotaþoli sagðist ekki muna hvort ákærða hefði rifið í hár hennar. Ákærða hefði hins vegar ekki sest ofan á hana.

Brotaþoli sagðist vart hafa getað hreyft höfuðið í þrjár vikur eftir þetta. Hún hefði hins vegar náð sér að fullu.

 

Vitnið M sagðist hafa starfað sem dyravörður á Café Amor umrætt sinn og verið á efri hæð staðarins. Þar hefðu fáir verið. Vitnið hefði séð „að þær löbbuðu tvær þarna inn í skot sem er þarna á efri hæðinni og þær voru bara eitthvað að tala saman, löbbuðu saman þarna inn í skotið og svo heyrði ég einhverjar ryskingar og einhver læti og fór þarna inn. Þá lá, ég held hún heiti A í gólfinu og Bryndís sat á bekk þarna og sagði að A hefði ráðist á [sig], að hún væri eitthvað geðveik, [...] hún hefði ráðist á sig og væri bara eitthvað klikkuð.“ Vitnið hefði athugað „með [A], hvort að hún væri í lagi og kærastinn hennar kom þarna og reisti hana upp og sagðist ætla að fara með hana og hún labbaði þarna í burtu og var eitthvað vönkuð og var eitthvað að muldra og Bryndís sem sagt talaði alltaf eins og [A] hefði ráðist á sig og eitthvað og væri bara eitthvað klikkuð“.

Vitnið sagði að bæði ákærða og brotaþoli hefðu verið fastagestir á staðnum og hann hefði þekkt báðar með nafni. Hvorug hefði verið til vandræða á staðnum áður.

 

Vitnið N kvaðst hafa verið unnusti brotaþola og með henni á staðnum. Þau brotaþoli hefðu farið upp á efri hæðina og setið þar við borð. Ákærða hefði komið þar að og dregið brotaþola afsíðis, „í hornið þar sem að neyðarútgangurinn er á efri hæðinni.“ Eftir tvær eða þrjár mínútur hefði vitnið fundið að ekki væri allt með felldu og gengið út í hornið. Þar hefði brotaþoli þá legið í gólfinu, vönkuð. Ákærða hefði staðið yfir henni og sagt brotaþola hafa ráðist á sig.

Vitnið kvaðst hafa tekið eftir að búið væri að rífa í hár brotaþola. Sést hafi „rosalega auðveldlega hvað hefur gengið þarna á, það sést bara, Bryndís hefur þarna gengið í skrokk á [A], slegið hana, rifið í hárið á henni og hent henni í jörðina“.

Vitnið sagðist hafa verið „í mjög annarlegu ástandi“. Hvorugt þeirra brotaþola hefði verið „mikið að leita okkur hjálpar á sjúkrahúsi“.

Vitnið sagði að fyrir þetta hefði ekki verið óvild milli brotaþola og ákærðu, fremur vinskapur.

Vitnið sagði að ákærða hefði komið heim til brotaþola tveimur dögum síðar og viljað biðjast afsökunar. Hefði hún nefnt að dómar vofðu yfir henni og vildi hún ekki að fleiri bættust við. Þær brotaþoli hefðu talað saman og eftir það virst „bara sáttar“.

 

Vitnið O sagðist hafa verið á skemmtistaðnum með brotaþola og vitninu N. Ákærða og brotaþoli hefðu átt „eitthvað tal saman“, vitnið hefði svo hlaupið „einhvers staðar að og þá eru þær tvær í þessu herbergi þarna á Amor.“ Vitnið taldi sig ekki hafa séð neitt gerast þar. Vitnið tók fram að mjög langt væri liðið frá atvikinu en taldi ákærðu hafa staðið en brotaþola legið, þegar vitnið hefði komið að þeim. Að minnsta kosti hefði þá eitthvað verið að brotaþola.

 

Vitnið P, móðir brotaþola, sagðist hafa komið á heimili brotaþola annað hvort daginn eftir atvikið eða tveimur dögum eftir það, og séð „útlitið á henni eftir árásina“. Brotaþoli hefði ekki viljað leita læknis og vitnið hefði því fært henni „hita og kælipoka og einhver verkjalyf“. Brotaþoli hefði „varla [getað] gengið og hvað þá hreyft hausinn. Hún var bara föst, hún var svo illa á sig komin“.

Vitnið hefði tekið myndir af brotaþola og lögregla fengið þær í hendur. Vitnið staðfesti að það væru myndir þær af brotaþola sem eru í gögnum málsins.

 

Vitnið  G læknir staðfesti vottorð sitt en gerði þá leiðréttingu að brotaþoli hefði komið til sín 11. september. Brotaþoli hefði þá komið „út af hinu og þessu“ og meðal annars nefnt „þessa líkamsárás, sem hún gat nú ekki sagt nákvæmlega hvenær hefði verið en það voru einhverjar vikur síðan, sagði hún. [...] Um það bil tvær vikur.“ Hefði hún sagt svo frá að hún hefði verið lamin niður og sparkað í höfuð hennar og upp úr því fengið sýkingu, „hún var með eitthvert svona, einhvern svona piercing staut þarna sem hún hafði sett ofan við hægra viðbein að mig minnir, sem að var sýktur og þurfti að fara. Svo var þarna höfuðverkir og eymsli í hnakka og hálsi.“ Hefði vitninu sýnst þetta samrýmast vel mögulegum afleiðingum líkamsárásar og ætti að lagast á einhverjum vikum. Eftir þetta hefði vitnið ekki séð brotaþola.

 

Annar ákæruliður

Ákærða sagðist muna eftir kvöldinu. Hún hefði verið að koma frá nafngreindum manni og hefði hlaupið gegnum miðbæinn. Hún hefði hlaupið framhjá veitingastaðnum DJ grilli í Strandgötu en „einn strákur“ hefði hlaupið út af veitingastaðnum og á eftir henni og reynt að tala við hana. Hún hefði ítrekað beðið hann um að fara en hann ekki viljað. Hann hefði haldið áfram að elta hana þar til þau hefðu verið komin yfir Strandgötu. Þegar þau hefðu verið „í portinu“ hefði maðurinn verið farinn að reyna að ná augnsambandi við ákærðu, tekið í hendina á henni og reynt að tala við hana. Hún hefði verið mjög hrædd og ekki viljað tala við neinn. „Á þessari leið hefur fólk sem að þekkir, reynt að tala við mig og, það var bara ekkert hægt að tala við mig“, sagði ákærða.

Ákærða sagði að maður þessi hefði reynt að stöðva sig. Hún hefði ætlað „að reyna að hoppa inn í garð þar sem að búa margir Pólverjar saman, í gamla þarna Allanum“. Maðurinn hefði tekið upp síma og hringt til lögreglu og beðið um hjálp. Ákærða sagðist hafa beðið manninn „milljón sinnum“ um að fara frá sér. Spurð hvað hún héldi hafa vakað fyrir manninum svaraði hún að hann hefði „örugglega bara verið hræddur um mig af því að ég var grátandi og, eða ég veit það ekki.“ Ákærða sagðist ekki hafa áttað sig á því að maðurinn væri lögregluþjónn.

Ákærða var spurð hvort hún hefði verið með nálar og sagðist hugsanlega hafa verið með eina og hún þá verið í tösku hennar. Hún var sérstaklega spurð um þau orð lögreglu að hún hefði, fyrir handtöku, kastað frá sér sprautu, sem fundist hefði á vettvangi, og önnur sprauta með nál hefði fundist í buxnastreng hennar að aftanverðu. Svaraði ákærða þessu með orðunum: „Þetta hlýtur að vera rétt þá“, en bætti við að sjálf vissi hún það ekki. Ákærða sagðist ekki hafa sprautað sig á þessum tíma og ekki kunnað það. Hins vegar hefði hún verið stungin með nál. Hún gat ekki svarað því hvort hún hefði verið sprautuð með sprautum sem fundist hefðu á vettvangi.

Ákærða sagðist ekki muna hvort hún hefði slegið til mannsins.  Hún sagðist ekki hafa hótað að drepa hann. Hún hefði engan ásetning haft til að skaða manninn.

Ákærða sagðist hafa verið í mjög alvarlegu ástandi þetta sinn en hún hefði verið „að éta einhverja sveppi“, sem sér hefðu verið gefnir, og orðið „raunveruleikafirrt“ og verið „eiginlega bara að fara yfir um.“ Hún kvaðst telja að hún hefði ekki neytt annars en sveppanna.

Spurð hvort hún myndi vel eftir atvikinu svaraði ákærða: „Já. Þetta situr alveg mjög fast í mér“.

Ákærða sagðist ekki hafa vitað til þess að hún væri með lifrarbólgu af C stofni þegar þetta hefði gerst. Nú væri hún laus við hana, eftir lyfjameðferð.

 

Vitnið B, brotaþoli, sagðist hafa verið að ganga út af veitingastaðnum DJ grilli þegar hann hefði séð ákærðu og þá strax hafa áttað sig á því að hún væri í „einkennilegu ástandi og bara greinilega ekki alveg tengd þessum veruleika fannst mér og hún er svona að blaðra við einhvern, ekki mig, bara einhvern sem var ekki þarna á staðnum, einhvern sem var ekki til, og hún bara talar svona samhengislaust [...] bara út í loftið og það var allt svona einhvern veginn sundurslitið hjá henni og mjög erfitt að skilja hana, en það sem að ég hins vegar gat skilið var að það að sem sagt Ð litli, eða Ð, hann átti sem sagt að hafa drepið bróður hennar og sett hann í einhvern poka og það var þá sem ég hérna reyndi að tala við hana og spurði hana hvort það væri ekki örugglega allt í lagi hjá henni, hún svaraði engu og labbaði svo í burtu. Ég labbaði á eftir henni og spurði hana aftur, hvort það væri ekki örugglega allt í lagi hjá henni og hún svaraði því ekki heldur.“ Þarna hefðu þau verið komin í port sem væri milli veitingastaðanna Krua Siam og DJ grills og þá hefði brotaþoli gengið „alveg upp að henni og klappa henni svona á öxlina, bara til að ná einhverju sambandi við hana“ og hefði á ný spurt hvort allt væri í lagi. „Og þá snýr hún baki í mig og þegar ég er búinn að spyrja hana þá snýr hún sér snögglega við og með hægri hendina á lofti og svona slær til mín og hérna ég ber þá vinstri höndina fyrir andlitið á mér [...] og næ að verja mig.“ Brotaþoli hefði þá næst tekið upp síma og hringt til Neyðarlínunnar. Meðan á samtalinu hefði staðið hefði brotaþola tekið að verkja í höndina og „sé að blæðir úr handarbakinu, og svo horfi ég á „ákærðu“ og á hendina á henni og sé að hún heldur á sem sagt sprautunál, með [...] nálinni hérna út, og þá áttaði ég mig á því að hún hafði stungið mig“. Þetta hefði brotaþoli sagt Neyðarlínunni sem hefði gefið honum samband við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar sem hefði send lögreglubifreið á vettvang.

Brotaþoli sagði að ákærða hefði eftir þetta gengið norður Glerárgötu en rétt sunnan við Sjallann hefði hún gengið þvert yfir götuna. Hún hefði séð vörubifreið koma og hlaupið í átt að henni, „alveg á fullri ferð“ en bifreiðarstjórinn séð hana og náð að „nauðhemla“. Næst hefði hún hlaupið yfir götuna og að „gamla Allanum“ og hoppað þar inn í garð. Þar hefðu verið einhverjir Pólverjar og hún gengið að þeim en brotaþoli kallað til þeirra viðvörunarorð og sagt hana vera með sprautunál. Hefði hún næst tekið á rás að brotaþola, stokkið yfir girðinguna og hótað að drepa hann. Hann hefði öskrað á hana á móti og skipað henni að fara frá og hún þá hlýtt því. Þetta hefði gerst nokkurum sinnum, „tekur svona einhverja skyndiákvörðun og tekur á rás með sprautuna á lofti og hótað að drepa mig, [...] þetta gerist í nokkur skipti“. Því næst hefði lögreglubifreið komið og úr henni lögregluþjónarnir Q og R. Þeir hefðu strax komið út, dregið upp kylfur og hún þá sleppt sprautunálinni. Lögregluþjónarnir hefðu sett hana í handjárn og fært brott.

Brotaþoli sagði að ákærða hefði, þegar þau hefðu verið stödd í portinu, beðið sig um að fara. Hann hefði hins vegar ekki talið rétt að skilja hana eftir „í svona ástandi, talandi samhengislaust út í loftið og greinilega í uppnámi“.

Brotaþoli sagði að ákærða hefði þrisvar reynt að verða fyrir bifreið á Glerárgötunni.

Brotaþoli sagðist hafa þekkt ákærðu gegnum starf sitt. Hún hefði verið „viðloðin fíkniefnaheim og undirheima Akureyrar í langan tíma og allir þeir sem starfa á götunni í lögreglunni á Akureyri vita hver hún er.“ Brotaþoli sagði að hann hefði ekki smitast af lifrarbólgu C vegna þessa. Það hefði komið í ljós eftir sex mánaða eftirlit.

Vitnið Q lögregluþjónn sagði að tilkynning hefði borist um að „Bryndís hafi stungið  [B]“ og lögregla hefði farið á vettvang. Bak við „gamla Allann“ hefði brotaþoli veifað til lögreglu og þegar hún hefði komið þangað hefði ákærða verið „á túninu á hnénu og otaði að okkur sprautunál og í framhaldi af því kipptum við upp kylfunum og slógum þeim út og öskruðum á hana að sleppa nálinni, sem hún og gerði og í framhaldi af því þá handtókum við hana og settum hana yfir í lögreglubíl.“

Vitnið sagði að ákærða hefði verið „út úr kortum hún talaði eiginlega tómt rugl, svona að stórum hluta sko. [...] Hún var með það alveg á hreinu að bróðir hennar hefði verið drepinn og það væri búið að skera hann í tætlur og hann væri geymdur í einhverri tunnu einhvers staðar, [...] en inn á milli samt þá rjátlaði af henni og hún virtist vita hvar hún var, þannig að þetta virtist koma svona og fara, hún svona kom og fór, en hún var greinilega með miklar ranghugmyndir inn á milli.“

 

Vitnið R lögregluþjónn sagði tilkynningu hafa borist um að „manneskja hefði stungið lögreglumann með sprautunál“ og væri nú komin „að gamla Allanum og væri þar einhvers staðar eða við Glerárgötuna, einhvers staðar þar á milli, væri þar að reyna að stökkva fyrir bíla.“ Lögregla hefði farið á svæðið og þar séð ákærðu og að hún virtist „í mjög annarlegu ástandi“. Hefði vitninu fundist ákærða „dálítið ógnandi“ og halda á sprautunál eða sprautu eða einhverju slíku. Ákærða hefði komið á móti lögregluþjónum en þeir þá dregið fram kylfur. Hefði hún þá hent frá sér því sem hún hefði haldið á. Hefði hún svo verið handtekin.

Vitnið sagði að ákærða hefði talað „tóma vitleysu, sem við skildum eiginlega ekki neitt í, og það var ekkert um annað að ræða en að handtaka hana og fara bara með hana á lögreglustöð.“ Sprautu, sem ákærða hefði hent frá sér, hefði lögregla tekið með sér. Önnur sprauta hefði fundist í buxnastreng ákærðu við leit í fangahúsi. Í sprautunni hefði verið blóð.

 

Vitnið S fangavörður sagði ákærðu hafa verið „í mjög slæmu ástandi“ þegar komið hefði verið með hana í fangahús. Vitnið og ákærða hefðu talað saman og í lok samtalsins hefði ákærða sagt að hún skildi ekki „af hverju [hún] var að gera [brotaþola] þetta, vegna þess að hann var búinn að aðstoða [hana].“ Hefði vitnið ekki spurt hana frekar enda væri það ekki sitt hlutverk.

 

Vitnið T, starfsmaður tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sagði að tvær sprautunálar hefðu verið rannsakaðar. Í annarri hefðu fundist leifar af blóði en ekki í hinni leifar af öðrum vökva. Á þeirri sprautu, er blóðleifarnar hefði geymt, hefði nálaroddurinn verið beyglaður.

 

Vitnið H læknir staðfesti efni vottorðs síns.

 

Vitnið U, starfsmaður DJ grills, kvaðst hafa staðið við grillið á staðnum og séð ákærðu hlaupa hratt fram hjá staðnum. Brotaþoli hefði farið út og að portinu milli veitingastaðarins og Krua Siam.

 

Vitnið V kvaðst hafa verið við störf á DJ grilli umrætt sinn. Brotaþoli hefði komið inn, pantað veitingar og farið út, „og þá er stelpan þarna, [...] sé þau bara mætast og síðan bara eitthvað eftir það sé hann bara hlaupa í bílinn sinn ekkert meir.“

Undir vitnið var borið það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu, um að ákærða hafi verið grátandi og að hún hafi gengið að brotaþola og ýtt í hann. Brotaþoli hafi reynt að tjónka við ákærðu en ákærða gengið burt frá honum. Vitnið kvað þetta geta verið rétt, en kvaðst ekki muna þetta „alveg 100%, en [...] þau áttu einhver samskipti þarna fyrir utan.“ Vitnið kvaðst muna eftir að hafa talað við lögreglu, hafa sagt henni satt og rétt frá og líklegt væri að þá hefði vitnið munað betur eftir atvikinu.

 

Vitnið J læknir sagði að samkvæmt vottorði hefði stungusár á brotaþola verið í lófa hans en ekki handarbaki.

 

Þriðji ákæruliður

Ákærða sagðist ekki hafa átt marihúanað sem fundist hefði. Sjálf hefði hún ekki haft hugmynd um að það væri í töskunni. Ákærða hefði aldrei reykt slíkt efni og fyndist það „ógeðslegt“. Hún sagðist halda að efnið hefði tilheyrt manni, sem hún vildi ekki nafngreina.

 

Önnur ákæra

Fyrri ákæruliður

Ákærða sagðist hafa verið stödd á ...götu ... mánudaginn 26. desember og þar hefði brotaþoli einnig verið. Brotaþoli hefði ætlað að yfirgefa húsið og viljað fara á bifreið ákærðu en ákærða ekki leyft það, þar sem brotaþoli hefði verið „lyfjuð og svolítið brjáluð í skapinu“. Ákærða hefði sagt að hún gæti „hjálpað henni með dótið hennar“ og gæti reynt að útvega henni far, en bifreiðina fengi hún ekki. Brotaþoli hefði þá reiðst og tekið upp „butterfly-hníf“, eða svo hefði ákærðu sýnst, og hótað að stinga ákærðu fengi hún ekki bifreiðina. Ákærða hefði reynt að róa brotaþola en þá „tekur hún upp hnífinn og hérna, ætlar örugglega að stinga mig eða eitthvað, en ég set hendina á mér fyrir, og bakkinn, hann nær að slá í hendina á mér þannig að ég skerst eitthvað aðeins á hendinni og ég er allan tímann bara að setja hendurnar á mér bara fyrir andlitið á mér og reyna að komast frá henni, og henni er hent út, eða kippt út.“ Sameiginlegur vinur ákærðu og brotaþola hefði næst reynt að róa brotaþola.

Ákærða var spurð um áverka á andliti brotaþola og sagðist ekki muna „eftir að hafa stungið hana í andlitið, þar sem að ég var allan tímann að reyna að berjast við að verja sjálfa mig.“ Spurð hvort hún hefði tekið upp skæri og stungið brotaþola, eða otað skærum að brotaþola, neitaði hún en bætti við: „Það getur svo sem verið að ég hafi verið með eitthvað í höndunum þarna og, að hafi verið að sveifla fyrir framan mig frá andlitinu á mér en, ég man ekki eftir að hafa hitt hana í andlitið eða, ég var allan tímann bara að reyna að koma, bakka inn í íbúðina.“ Hún sagðist alls ekki hafa haldið á hnífi. Spurð hvort hún hefði haldið á skærum svaraði hún: „Ég veit ekki hvort ég hafi verið að klippa eitthvað þarna niður eða ekki, eða hvort ég var með bíllyklana mína“.

Ákærða sagði brotaþola ekki hafa stungið sig en náð að skera sig á hönd. Hefði hún fengið ör, rétt ofan vinstri úlnliðar.

Ákærða sagðist hafa verið undir áhrifum, líklega amfetamíns. Brotaþoli hefði verið „lyfjuð, dettandi út um allt og reyna að stinga mig“.

 

Vitnið D, brotaþoli, sagðist ekki hafa verið lengi í íbúðinni. Hún hefði verið í forstofunni að pakka inn jólagjöfum og hefði ætlað að láta sækja sig þangað, en hún hafi ætlað heim. Ákærða hefði verið búin að bjóðast til að aka henni en brotaþoli ekki viljað. Ákærða hefði komið að henni, „í hliðina á mér og heldur á hníf og [...] þetta var í sjálfu sér bara þannig að hún greip skæri, ég náði af henni skærunum og svo réðst hún á mig.“ Brotaþoli sagðist ekki vita hvers vegna ákærða hefði ráðist á sig. Ákærða hefði verið búin að hóta sér „eitthvað“, en þetta hefði allt gerst mjög hratt og hefði brotaþoli aldrei vitað af hverju þetta hefði gerst.

Brotaþoli sagði að ákærða hefði verið með svokallaðan „butterfly“-hníf og hefði sagt bróður sinn eiga hann. Áverka þá, sem hún hefði fengið, hefði hún fengið af hnífnum. Einnig hefði ákærða sparkað fjórum eða fimm sinnum í höfuð brotaþola. Eftir þetta hefði brotaþoli komist út.

Brotaþoli sagði að rispur á hönd ákærðu væru ekki eftir sig. Brotaþoli hefði ekki verið með hníf.

Brotaþoli sagðist hvorki hafa verið undir áhrifum áfengis né fíkniefna.

Brotaþoli sagði að auk þeirra ákærðu hefðu verið í íbúðinni Y, Z og K. Y hefði stöðvað átökin. Hann hefði tekið hnífinn af ákærðu.

Brotaþoli sagði að farið hefði verið með sig á slysadeild eftir sólarhringsdvöl í fangaklefa og hafi hún verið mjög reið yfir því að vera handtekin þegar hún hefði óskað eftir aðstoð. Spurð um lýsingu á sér í áverkavottorði, þess efnis að hún hefði verið undir áhrifum, mjög ör og talað óreglulega, sagði brotaþoli að hún hefði verið búin að vera mjög reið, „búin að vera í klefa þarna í einhverja fimmtán klukkutíma og svaf nánast lítið sem ekkert, það blæddi og blæddi úr þessu.“ Brotaþoli kvaðst kannast við að hafa ekki viljað láta sauma sig. Hún kvaðst einnig telja rétt að hún hefði neitað lækni um að skola sár og mögulega setja tvo sauma í.

 

Vitnið Y sagði að ár væri liðið frá atvikinu og sjálft hefði vitnið þá ekki verið í sínu „besta standi“. Vitnið sagðist muna eftir áflogum og hnífi. Vitnið sagðist ekki muna alveg eftir upptökunum en nefndi að hugsanlega hefði rifrildi hafist vegna bifreiðar sem brotaþoli hefði viljað fá lánaða en ákærða ekki viljað lána. Þegar vitnið hefði komið að átökunum hefði brotaþoli haldið á hnífi en vitnið hefði ekki séð ákærðu halda á neinu. Vitnið hefði skilið þær að. Skæri hefðu legið á borði og lögregla hefði síðar lagt hald á þau.

Nánar spurt sagði vitnið að þegar hann hefði fyrst séð til átakanna hefðu báðar barist. Ákærða hefði verið með „einhverja skurði“ á höndum og brotaþoli með áverka í andliti. Vitnið hefði tekið ákærðu og lokað hana inni á baði og Z hefði haldið brotaþola niðri „því að hún er alveg sturluð þarna sko.“

Vitnið kvaðst telja að hjá brotaþola hefði verið „einhver vilji í verki“ og hún verið „alveg sturluð“ og ætlað að beita hnífnum á ákærðu.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið undir áhrifum, „og við öll þarna“.

Vitnið kynnti sér skýrslu sína hjá lögreglu og taldi sig hafa munað betur þá en fyrir dómi. Lesturinn úr skýrslunni rifjaði hins vegar ekkert upp fyrir sér.

Vitnið kvaðst telja bæði ákærðu og brotaþola til vinkvenna sinna en hafa haft meiri samskipti við ákærðu, en brotaþoli hefði ekki búið í bænum.

 

Vitnið K, bróðir ákærðu, sagðist hafa verið inni í eldhúsinu og ekki hafa séð atvikið nákvæmlega. Vitnið hefði heyrt „hljóðin“ og ákærða komið á móti því í dyrunum og farið inn í eldhúsið og sest þar niður í horni. Vitnið hefði séð brotaþola sem þá hefði verið með áverka í andliti og þegar vitnið hefði farið til ákærðu hefði vitnið einnig séð áverka á henni, tvo eða þrjá litla skurði á annarri höndinni. 

Vitnið sagðist ekki hafa séð önnur vopn en hníf sem brotaþoli hafi haldið á, skömmu áður en atvikið hefði orðið. Brotaþoli hefði verið „eitthvað að leika sér með hann.“ Vitnið sagði að ákærða og brotaþoli hefðu verið búnar að rífast um bifreið ákærðu. Brotaþoli hefði viljað fá að fara eitthvað á bifreiðinni en ákærða hefði ekki leyft það.

Vitnið kvaðst hafa verið búinn að eiga heima í íbúðinni hjá Y í þrjá til fjóra mánuði þegar þetta hefði gerst. Brotaþoli hefði verið nýkomin, hún hefði komið rétt fyrir jól. Ákærða hefði verið búin að vera „meira og minna þarna í einhvern tíma“, en vitnið sagðist ekki muna hvort hún hefði verið þarna síðustu dagana fyrir jólin.

Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið undir áhrifum, en þó ekki drukkin, „bara á einhverju örvandi“.

 

Vitnið Z sagðist hafa á þessum tíma verið búinn að eiga heima á ...götu ... frá 2. nóvember það ár. Brotaþoli hefði hins vegar verið þar stutt. Vitnið kvaðst hafa verið inni í stofu þegar það hefði heyrt læti og þá farið að kanna málið. Vitnið hefði séð slagsmál en engan hníf séð. Aftur á móti hefðu heimilisskæri verið verið þarna. Vitnið hefði engan séð halda á þeim í átökunum. Áverka hefði vitnið séð á brotaþola en ekki á ákærðu. Vitnið hefði reynt að halda brotaþola frá ákærðu og hefði að lokum snúið brotaþola niður, enda hefði hún verið „alveg brjáluð“. Báðar hefðu verið æstar. Þegar vitnið hefði haldið brotaþola niðri hefði ákærða ítrekað reynt að komast að henni. „Þær voru alltaf að reyna að komast að hvor annarri og slást.“

Vitnið kvaðst ekki muna hvernig ástand sitt hefði verið. Áfengi hefði að minnsta kosti verið haft um hönd. Vitnið sagðist ekki muna vel eftir þessu, „bara svona, svona kafla.“ Vitnið var spurt um það sem eftir því er haft í lögregluskýrslu en kvaðst muna eftir fæstu. Þó kvaðst vitnið ráma eitthvað í það, þegar vitninu var kynnt sem stæði í samantekt um að brotaþoli hefði öskrað hástöfum að hún ætlaði að drepa börn ákærðu. Sagðist vitnið telja að þetta væri rétt.

 

Vitnið Þ lögregluþjónn sagðist hafa stjórnað rannsókn málsins. Ljóst hefði verið að átök hefðu orðið milli ákærðu og brotaþola og báðar verið mjög æstar, en upplýsingar um upptökin hefðu verið óljósar því flestir á vettvangi, þar á meðal þær báðar, hefðu verið „í einhvers konar vímuástandi“.

Vitnið sagði báðar hafa verið æstar og í uppnámi. Að mati vitnisins hefðu þær verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

 

Vitnið H læknir staðfesti efni vottorðs síns. Vitnið kvað erfitt að ráða af áverkanum hvort líklegra væri að hann hefði verið veittur með skærum eða hnífi.

 

Síðari ákæruliður

Ákærða sagðist hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar þegar lögreglan hefði stöðvað för hennar. „Það var rifið upp hurðina á bílnum og ég reyni að fara hinu megin, þar sem sætið er, og [lögregluþjónninn] er að draga mig út úr bílnum, heldur í löppina á mér [...] og segir mér að koma út úr bílnum og það er svo mikið svell þarna [...] að ég gat ekki staðið þannig að ég var ítrekað að reyna að spyrja hvort ég gæti ekki setið í hurðargættinni af því að ég gat ekki staðið þarna úti í hálkunni, út af skónum sem ég var í, og þeir eru allir mjög einhvern veginn reiðir, ég skil það svo sem alveg miðað við ökumann og ástand, en ég hrækti ekki á hann og ég var ekki að sparka í hann, það gæti verið að ég hafi sparkað frá mér þegar hann er að, heldur í löppina á mér og er að draga mig út“.

Ákærða var spurð hvort spark hefði hitt hægri framhandlegg lögregluþjóns og sagðist hún ekki vita það.

 

Vitnið F lögregluþjónn sagði lögreglu hafa verið við eftirlit og stöðvað bifreið. Hefði lögregla séð ökumann hennar fara aftur í en annan mann setjast í bílstjórasætið. Vitnið hefði farið að hægri afturhurð, þangað sem ökumaður hefði farið, opnað dyrnar og skipað honum út. Vitnið hefði reynt að taka ökumanninn út úr bifreiðinni en ákærða hefði þá tekið í ökumanninn og reynt að ýta vitninu burtu. Hefði hún þannig reynt að koma í veg fyrir að vitnið næði ökumanninum út. Félagi vitnisins hefði þá verið kominn að hinni hlið bifreiðarinnar og búinn að opna afturdyrnar. Hefði ákærða þá hrækt í átt að honum en ekki hæft hann. Vitnið hefði þá ætlað að ná í ákærðu en hún sparkað á móti og hefði spark komið á hönd vitnisins. Hefði vitnið ekki náð ákærðu úr bifreiðinni fyrr en vitnið hefði dregið upp úðabrúsa og hótað að beita honum kæmi hún ekki út. Hefði hún þá komið út og verið handtekin.

Vitnið sagðist hafa fundið fyrir sparkinu en hvorki fengið áverka né verið frá vinnu vegna þess.

 

Vitnið E lögregluþjónn sagðist muna vel eftir málinu. Lögregla hefði stöðvað bifreið og séð tvo stráka sitja í framsætum og stúlku í aftursæti. Þegar bifreiðin hefði verið stöðvuð hafi ökumaður fært sig afturí en sá í farþegasætinu fært sig í ökumannssætið. Lögregluþjónarnir hefðu stigið úr sinni bifreið, vitnið hefði farið til að ræða við þann mann er þá hefði í ökumannssætinu en félagi vitnisins, F, til fundar við þann er kominn hefði verið í aftursætið. F hefði reynt að handtaka þann mann en stúlkan í aftursætinu hefði haldið manninum og reyndi að ýta lögregluþjóninum frá. Vitnið hefði farið og opnað hinar afturdyrnar og þá hefði stúlkan hrækt að sér en ekki hæft sig. Vitnið hefði þá farið og handtekið manninn í ökumannssætinu en Ingólfur hefði þá verið búinn að ná hinum manninum úr aftursætinu. Vitnið hefði í framhaldinu staðið með mönnunum tveimur en F farið aftur að bifreið mannanna og skipað stúlkunni að stíga úr henni. Stúlkan hefði sparkað til hans, „þó nokkuð oft“. Vitnið hefði ekki séð hvort spörkin hefðu komið á lögregluþjóninn eða ekki. F hefði loks tekið upp úðabrúsa og hótað að beita honum og hefði stúlkan þá komið úr bifreiðinni.

Vitnið sagði að stúlkan hefði öskrað „alveg stöðugt og gargaði eins og hún væri mjög æst og öskraði einhverjum illum orðum að okkur.“

 

Þriðja ákæra

Ákærða sagðist hafa verið með kunningjum sínum í heimahúsi og þar hefði verið fíflast. Þau hefðu ákveðið að fara út að ganga en ekki viljað fara aðalgötur „af því að við vorum já eitthvað búin að vera að fíflast þarna eitthvað í heimahúsi“, og því stytt sér leið „gegnum hverfið“ og þá séð opinn gám. „Strákarnir“ hefðu farið inn í gáminn og ákærða eitthvað á eftir þeim. Þar hefðu þau setið stutta stund þar til lögreglan hefði komið. Þá hefðu þau gengið út og farið með lögreglunni.

Nánar spurð sagði ákærða að þau hefðu ekki viljað fara aðalgötur þar sem þau hefðu verið „klædd eins og fífl“ og hagað sér „eins og asnar“. Þau hefðu öll verið grímubúin, með hárkollu og hanska, „alveg frá toppi til táar bara asnaleg út í gegn.“ Sjálf hefði hún verið drukkin.

Ákærða sagðist ekki vita hvers vegna þau hefðu farið inn í gáminn. Opinn gámur sæist ekki á hverjum degi og þau hefðu verið forvitin. Þau hefðu ekki tekið neitt og sjálf hefði hún ekki velt fyrir sér hvort þar væru verðmæti. Hún sagði að dekk hefðu verði í gámnum.

Ákærða sagði að engar töskur hefðu verið í gáminum. Sjálf hefði hún ekki verið með tösku.

Ákærða sagðist ekki muna eftir að hafa falið sig fyrir lögreglu. Hugsanlega hefði hún verið taugaóstyrk enda sér ljóst að hún „hefði kannski átt að sitja einhvers staðar annars staðar en inni í þessum gámi, en það hefur ekki verið neitt vísvitandi.“

Ákærði Ísak Logi sagðist ekki hafa brotist inn í gáminn. Hann hefði verið opinn og þau farið þangað inn til að hlýja sér. Þau hefðu verið í teiti í nágrenninu og þess vegna verið með grímur. Ákærði sagðist ekki muna hver hefði haldið teitina og ekki hafa þekkt gestina.

Ákærði sagði að ekkert hefði verið í gámnum annað en gamalt rusl, „til dæmis gamlar myndavélar sem þeir eru hættir að nota.“ Hann hefði ekkert tekið af því sem verið hefði í gámnum.

Ákærði var spurður hvers vegna þau hefðu öll verið með hanska og kvaðst ekki geta úrskýrt það sérstaklega. Teitin hefði verið „grímuteiti“ og mönnum gæti „dottið ýmislegt í hug“ þegar „maður er blindfullur og er að reyna að skemmta sér vel.“ Sjálfur hefði hann leikið lækni. Gríman hefði verið sem á trúði en hendurnar sem á lækni væru. Hann hefði verið „hugmyndaríkur. Þú veist, þú býrð þér til þinn eigin karakter.“ Ákærði sagði að þegar hann hefði gefið lögregluskýrslu hefði hann verið undir áhrifum kæruleysislyfs, „útúr rivotrilaður“ og þá töluðu menn bara út í bláinn.

Ákærði Þórður Már sagðist hafa verið „blindfullur“. Veður hefði verið leiðinlegt með rigningu. Ákærði hefði verið aðeins á eftir hinum meðákærðu, þau hefðu verið komin inn í gáminn og hann farið þangað á eftir þeim. Lögreglan hefði komið „um leið“, opnað gáminn, lýst inn í hann og tekið þau föst.

Ákærði tók fram að hann væri ekki kunnur að hvinnsku. Hann hefði ekki verið með kúbein og væri „ekkert í svona innbrotum“. Aldrei hefði staðið til að brjótast inn í gáminn. Þau hefðu verið „bara á einhverju flippi“ og verið að koma úr einhverri teiti og einhvern veginn endað inni í þessum gámi. Ákærði sagði að „auðvitað“ ætti hann ekki „að fara inn í einhvern gám sem [hann ætti] ekki“, en þetta hefði nú gerst samt. Hann hefði hins vegar ekkert gert af sér „inni í þessum gám, enda kom lögreglan bara, mér fannst þegar ég var nýkominn í gáminn að þá var lögreglan komin.“

Vitnið Á lögregluþjónn sagði tilkynningu hafa borist frá fjarskiptamiðstöð um að þrír einstaklingar væru að brjótast inn í gám bak við verslunina Ormsson. Lögregla hefði farið þangað og séð rifu á dyrum gámsins. Vitnið hefði opnað og þá séð ákærða Þórð Má, sem vitnið þekkti fyrir. Innar hefði annar maður verið og sá grímubúinn en lögregla fljótt þekkt hann sem ákærða Ísak Loga. Lögregla hefði spurt þá hvað þeir hefðust að í gáminum og verið svarað á þá leið að þeir „væru að taka upp mynd“. Vitnið sagðist hafa talið ljóst, „svona á öllu sem maður mat þarna“, að þeir hefðu verið að „brjótast þarna inn, bæði dulbúnir og með hanska.“ Vitnið sagði ákærðu Þórð Má og Ísak Loga hafa verið tekna úr gáminum. Hefði vitnið þá heyrt þrusk þar inni og í framhaldi af því fundið ákærðu Bryndísi Pálínu „í felum innst í gámnum“. Nánar spurt sagði vitnið að ákærða hefði látið „lítið fyrir sér fara“. Svartamyrkur hefði verið í gáminum þegar ekki hefði verið lýst þangað inn.

Vitnið sagðist ekki muna hvort ákærðu hefðu verið með vasaljós. Síðar hefði ákærða verið „með ljósið á símanum sínum“.

Vitnið sagði að tvær töskur hefðu verið innan við hurðina og kúbein við hlið þeirra. Í einni töskunni hefðu verið þrjár öryggismyndavélar og sú fjórða legið á gólfinu. Í gáminum hefðu verið geymdar vörur „úr gamalli verslun BT“.

Vitnið taldi ákærðu öll hafa verið í annarlegu ástandi. Þá hefðu Þórður Már og Ísak Logi verið undir áhrifum áfengis. Ákærði Þórður Már hefði einn þeirra tjáð sig á vettvangi.

Vitnið sagði að lás gámsins hefði verið brotinn upp, annað hvort sagaður eða á hann slegið með áhaldi. Lásinn hefði ekki verið sterkur og brjóta hefði mátt hann upp með kúbeini. Sög hefði hins vegar engin sést á vettvangi.

 

Fjórða ákæra

Ákærði sagðist ekki hafa ekið bifreiðinni á þessum tíma enda sviptur ökuréttindum. Hann hefði átt bifreiðina en hafa hringt til lögreglu og tilkynnt að henni hefði verið stolið. Ákærði sagðist ekki vita hver þar hefði verið að verki en gruna „að þetta hefði verið einhver af peyjunum þarna sem að hafa haft aðgang þarna að gera við bílana sína og hitt og þetta“, og hefðu svo ekki þorað að viðurkenna fyrir sér þjófnaðinn. Ákærði sagðist vera með vélaskemmu á heimili sínu í Viðjulundi. Kveikjuláslyklar væru geymdir í skápi á verkstæðinu Ákærði var spurður um hvers vegna vitni bæru að hann hefði ekið bifreiðinni og svaraði því til að allir í hverfinu vissu hver ætti hana. Bifreiðin væri gömul og „með flækjum“ og heyrðist hátt í henni. Sjálfur væri hann umtalaður í bænum, allir vissu hvar hann ætti heima og hann hefði oft sést aka bifreiðinni. 

 

Vitnið Æ sagðist hafa verið stödd á bílaplani við Tjarnarlund ... og hefði þá heyrt „eins og það sé gefið mjög mikið í, svona bensíngjöf, lít upp og þá sé ég þennan bíl koma og hann fer bara beint á ljósastaurinn.“ Vitnið hefði séð og þekkt ökumanninn. Vitnið sagðist ekki vita nafn hans en vita að hann gengi undir nafninu Dúddi litli. Vitnið sagðist vita hver hann væri og hafa vitað þá hvaða bifreið hann æki. Enginn vafi væri í huga sér á því að hann hefði verið ökumaðurinn.

Vitnið Ö sagðist hafa verið innan dyra í Tjarnarlundi ..., heyrt læti, litið út um glugga og þá sé bifreið sem ekið hefði verið á ljósastaur. Inni í henni hefði setið maður sem fljótlega hefði reynt að bakka frá staurnum. Vitnið hefði farið út og þá séð manninn aka á brott.

Vitnið sagði að ökumaður hefði verið ljóshærður og lágvaxinn.

Niðurstaða

Fyrsta ákæra

Fyrsti ákæruliður

Ákærða kveðst lítið muna eftir málinu. Brotaþoli kvaðst ekki muna hvort ákærða hefði rifið í hár sitt en sagði hana ekki hafa sest á sig, þar sem brotaþoli hefði legið í gólfinu. Hins vegar kvaðst hún muna að ákærða hefði sparkað í sig fimm til sjö sinnum, og hefði brotaþoli að lokum misst meðvitund stutta stund.  Upptaka úr myndavél skemmtistaðarins styður að ákærðu og brotaþola hafi lent saman, brotaþoli farið í gólfið og ákærða sparkað þar í hana oftar en einu sinni. Vitnið N kveðst hafa komið að þeim þannig að ákærða hafi staðið yfir brotaþola sem legið hafi vönkuð í gólfinu. Vitnið M dyravörður kvaðst hafa komið að brotaþola liggjandi í gólfinu en ákærða hefði þá setið á bekk. Hefði brotaþoli verið vönkuð. Vitnið O sagði að sig minnti að hún hefði komið að brotaþola liggjandi og hefði eitthvað verið að henni, en ákærða hefði verið standandi. Vitnið P, móðir brotaþola, kveðst hafa komið til brotaþola á heimili hennar skömmu eftir atvikið og hefði hún þá verið illa á sig komin, ekki getað hreyft höfuðið og varla gengið. Vottorð G læknis styður að brotaþoli hafi orðið fyrir árás. Við mat á sönnunargildi vottorðsins í þessu máli verður að hafa í huga að brotaþoli hitti lækninn um tveimur vikum eftir atvikið. Í vottorðinu er haft eftir brotaþola að hún hafi orðið fyrir líkamsárás 29. ágúst og verður ekkert ráðið af vottorðinu að áverkar þeir sem þar er lýst geti ekki hafa hlotist þá. Myndir þær sem liggja fyrir í málinu og móðir brotaþola mun hafa tekið af henni er hún sótti hana heim stuttu eftir atvikið styðja að brotaþoli hafi þá nýlega orðið fyrir líkamsárás. Þegar á allt er horft þykir hafa verið færð fram lögfull sönnun þess að ákærða hafi ráðist á brotaþola umrætt sinn og veitt henni þá áverka sem getið er um í vottorði G. Ljóst er að brotaþoli hefur farið í gólfið og verður að telja að það hafi orðið fyrir tilverknað ákærðu þótt ekki verði fullyrt nánar um það. Þá verður talið sannað að ákærða hafi sparkað í höfuð brotaþola, eftir að hún hafi verið komin í gólfið, svo sem brotaþoli ber. Brotaþoli kvað ákærðu ekki hafa sest ofan á sig og verður það ekki talið sannað. Brotaþoli taldi sjálf hugsanlegt að hún hefði „eitthvað gripið í“ ákærðu og vitni bera um að ákærða hafi á vettvangi talað um að brotaþoli hafi ráðist á sig. Skynsamlegan vafa verður að túlka ákærðu í vil og í sakamáli þessu er því rétt að miða við að brotaþoli hafi átt einhver slík upptök að átökunum. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem bendir til að brotaþoli hafi viðhaft nokkuð það gagnvart ákærðu sem geti réttlætt þær gjörðir sem hér hefur verið talið sannað að ákærða hafi viðhaft. Er ákærða sönn að sök samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og hefur unnið sér til refsingar og er háttsemi hennar réttilega færð til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 í ákæru.

 

Annar ákæruliður

Með framburði brotaþola og afriti úr bráðamóttökuskrá sjúkrahússins á Akureyri er sannað að brotaþoli fékk umrætt sinn stungu úr sprautunál. Sannað er með framburði brotaþola og ákærðu að þau hafa átt samskipti í portinu milli veitingastaðanna DJ grills og Krua Siam. Ákærða kvaðst ekki muna hvort hún hefði slegið til brotaþola en hún hefði margbeðið hann um að fara. Brotaþoli ber að ákærða hafi slegið til sín, hann borið vinstri höndina fyrir sig og skömmu síðar séð blæða úr handarbakinu. Sannað er með framburði lögregluþjónanna Q og R, sem handtóku ákærðu skömmu síðar, að hún hafi verið með sprautunál í höndum er lögreglu bar að. Af niðurstöðum rannsóknar á sprautum þeim sem haldlagðar voru í málinu verður ráðið að báðar hafi sprauturnar verið notaðar. Þegar á þetta allt er horft þykir ekki skynsamlegur vafi á því að ákærða hafi í raun stungið ákærða með sprautunálinni svo sem henni er gefið að sök í ákæru. Ekki þykir verða fullyrt hvort stungan hafi komið í lófa eða á handarbak brotaþola en það þykir engu breyta um niðurstöðu hér. Með stungunni hefur ákærða brotið gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 svo sem henni er gefið að sök í ákæru og hefur unnið sér til refsingar. Ákærða neitar að hafa hótað brotaþola og stendur þar orð gegn orði. Þótt mikill munur sé á ástandi þeirra tveggja þetta sinn, en brotaþoli mun hafa verið allsgáður en ákærða fjarri því, þykir ekki hafa verið færð fram lögfull sönnun fyrir því að ákærða hafi hótað brotaþola og verður hún sýknuð af því ákæruatriði.

 

Þriðji ákæruliður

Fíkniefnin fundust í tösku ákærðu. Verður að telja þau hafa verið í hennar vörslum hver sem kann að hafa verið „eigandi“ þeirra. Ekkert hefur komið fram sem sýni að efnunum hafi verið komið fyrir í tösku ákærðu án hennar vitundar. Er hún sönn að sök samkvæmt ákæruliðnum og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hennar er rétt færð til refsiheimilda í ákæru.

 

Önnur ákæra

Fyrri ákæruliður

Ljóst er að átök urðu milli ákærðu og brotaþola. Ákærða byggir á því að brotaþoli hafi ráðist á sig með hnífi og hún hafði aðeins varist henni. Engir þeirra manna sem voru í húsinu ásamt ákærðu og brotaþola sáu upptök átakanna. Vitnið Y, sem stöðvaði átökin, sagði brotaþola þá hafa haldið á hnífi. Y sagði brotaþola hafa ætlað að beita hnífnum á ákærðu og verið sturlaða. Lögreglu var afhentur hnífur á vettvangi og þótt það hafi gert bróðir ákærðu styður það að hnífur hafi komið við sögu í átökunum. Þegar á framanritað er horft þykja þær líkur hafa verið færðar fram til stuðnings því að ákærða hafi í raun varist skyndilegri árás þar sem beitt hafi verið eggvopni að því verði ekki vísað á bug að gjörðir hennar hafi verið henni réttmæt neyðarvörn. Þykir verða að sýkna ákærðu af þessu ákæruatriði og vísa bótakröfu frá dómi.

 

Síðari ákæruliður

Með framburði lögregluþjónanna E og F er sannað að ákærða hafi hrækt til lögregluþjónsins E en ekki hæft hann og í framhaldinu ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að koma út úr bifreiðinni og sparkað ítrekað til lögregluþjónsins F, þannig að eitt sparkið hæfði hægri framhandlegg hans. Lögregluþjónarnir voru báðir við skyldustörf. Hefur ekkert verið komið fram sem mælir gegn þessari niðurstöðu annað en neitun ákærðu. Er ákærða sönn að sök og er háttsemi hennar rétt færð til refsiheimildar í ákæru.

 

Þriðja ákæra

Óumdeilt er að lögregla kom að ákærðu í gámnum og að þar höfðu þau ekki heimild eiganda gámsins til að vera. Þá liggur fyrir að þau voru grímubúin og með hanska á höndum. Hefur ekkert komið fram um að þau hafi átt lögmætt erindi í gáminn, svo sem að uppi hafi verið einhverjar þær aðstæður sem gert gætu réttlætanlegt að leita þar tímabundið skjóls. Ekkert hefur verið leitt fram um grímuteiti sem haldin hafi verið í nágrenninu um sama leyti. Þykir verða að byggja á að ákærðu hafi í raun farið í gáminn til að stela þar verðmætum og er háttsemi þeirra réttilega færð til 1. mgr. 244. sbr. 20. gr. laga nr. 19/1940 í ákæru. Eru ákærðu sönn að sök.

 

Fjórða ákæra

Óumdeilt er að ákærði var eigandi bifreiðarinnar. Hefur ekki verið sýnt fram á að hún hafi verið í umráðum annars manns á þessum tíma. Framburður vitnisins Æ veitir því mikla stoð að ákærði hafi raun ekið bifreiðinni umrætt sinn. Framburður vitnisins Ö sem gaf lýsingu á ökumanni skiptir hér minna máli en er ákærunni heldur til styrktar. Er ákærði sannur að sök og hefur unnið sér til refsingar. Háttsemi hans er rétt færð til refsiheimilda.

 

Fimmta til áttunda ákæra

Ákærði játar sök. Játningar hans fá stoð í gögnum málsins og ekki þykir ástæða til að draga þær í efa. Hann er sannur að sök samkvæmt ákærunum og hefur unnið sér til refsingar en háttsemi hans er í ákærunum rétt færð til refsiheimilda.

 

 Sakaferill ákærðu Bryndísar Pálínu, að því er hér skiptir máli, er sá að hinn 22. mars 2017 voru henni ákvörðuð viðurlög, 70.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga og var hún jafnframt svipt ökurétti í þrjá mánuði. Brot sín samkvæmt fyrstu og annarri ákæru framdi hún áður og verður refsing hennar vegna þeirra ákveðin sem hegningarauki. Hún er meðal annars sakfelld fyrir tvær alvarlegar líkamsárásir en hún sparkaði ítrekað í höfuð eins brotaþola og stakk annan með notaðri sprautunál. Ekkert liggur fyrir um að hún hafi vitað að hún hafi verið smituð af lifrarbólgu C en henni mátti vera ljóst að svo gat verið. Á hinn bóginn mun liggja fyrir að brotaþoli smitaðist ekki við stunguna. Verður refsing ákærðu ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði.

Á því var byggt af hálfu ákærðu að hún hefði tekið upp betri lifnaðarhætti og reyndi nú að bæta ráð sitt og hugsa fyrst og fremst um börn sín. Um þetta voru ekki lögð fram sérstök gögn en þessu var ekki heldur mótmælt. Nokkuð langt er liðið frá því atviki sem fjallað er um í fyrsta lið fyrstu ákæru. Þegar á allt er horft þykir fært að fresta fullnustu tólf mánaða af fangelsisrefsingu ákærðu og falli hún niður að liðnum þremur árum haldi hún almennt skilorð.

Brotaþoli 2. ákæruliðar fyrstu ákæru krefst bóta úr hendi ákærðu. Við munnlegan málflutning var matsgerð mótmælt af hálfu ákærðu þar sem hennar hefði verið aflað einhliða. Matsgerðarinnar var aflað einhliða af hálfu brotaþola og er það eftir 1. mgr. 10. gr. laga nr. 50/1993. Verður þetta ekki til þess að horft verði fram hjá matsgerðinni. Þá var af hálfu ákærðu byggt á því að brotaþoli ætti eftir að fá bætur frá vátryggingafélagi sínu og yrði að líta til þeirra við ákvörðun bóta. Væri ekki hægt að fjalla um bótakröfu fyrr en slíkt uppgjör lægi fyrir. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að brotaþoli eigi von bóta sem samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993 skuli dragast frá skaðabótum sem ákærða verður dæmd til að greiða og veldur þetta atriði hvorki frávísun bótakröfu né því að henni verði hafnað að neinu leyti. Niðurstöður matsgerðar hafa verið raktar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem hnekkir þeim og þykir mega byggja á matsgerðinni við mat á sönnun á tjóni brotaþola. Verður fallist á kröfu hans um 55.500 krónur vegna þrjátíu daga þjáningabóta og 528.225 krónur vegna varanlegs miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga.

Þótt brotaþoli hafi ekki smitast af stungunni er ekki vafi á því að óvissan um hvort svo færi hefur verið verulega íþyngjandi og hamlandi fyrir hann á margan hátt. Verður ákærðu gert að greiða honum 800.000 króna miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Alls verður ákærða því dæmd til að greiða brotaþola 1.383.725 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir en við ákvörðun vaxta er litið til þess að matsgerð var lögð fram í málinu 7. nóvember. Loks verður ákærðu gert að greiða brotaþola 400.000 krónur í málskostnað.

Ákærði Ísak Logi hefur ekki sakaferil sem hér skiptir máli. Refsing hans ákveðst fangelsi í einn mánuð og 630.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins sæti hann fangelsi í 32 daga. Ákærði verður sviptur ökurétti í tólf mánuði.

Ákærði Þórður Már hefur allnokkurn sakaferil en hefur ekki verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot áður. Af sakaferli hans skal þess getið að með sátt hinn 8. september 2009 sætti hann 140.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga en með annarri sátt 13. febrúar 2013 sætti hann aftur 140.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Hinn 13. júní 2017 var hann dæmdur til greiðslu 190.000 króna sektar fyrir áfengislagabrot og var um hegningarauka að ræða við dóm héraðsdóms frá 29. nóvember 2016. Hinn 21. september 2017 var hann í Hæstarétti Íslands dæmdur til að sæta eins mánaðar fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. A, 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum. Með dóminum staðfesti Hæstiréttur Íslands áðurnefndan dóm héraðsdóms frá 29. nóvember 2016. Brot sín nú framdi ákærði í apríl og maí 2017 og verður refsing hans ákveðin sem hegningarauki við fyrrnefndan dóm frá 13. júní 2017. Verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í einn mánuð og 60.000 króna sekt í ríkissjóð en fullnustu fangelsisrefsingarinnar frestað og niður falli hún að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð. Greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins sæti ákærði fjögurra daga fangelsi.

Fallast ber á upptökukröfur.

Um sakarkostnað fer eins og í dómsorði greinir. Eru hver málsvarnarlaun þar ákveðin með virðisaukaskatti og eru einnig, þar sem við á, vegna vinnu á rannsóknarstigi. Ákærða er sýknuð af einni ákæru vegna alvarlegrar líkamsárásar og vegna hótana og þykir rétt að ríkissjóður greiði þriðjung málsvarnarlauna skipaðs verjanda hennar og sakarkostnaðar að því er hana varðar. Gætt var 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu ákæruvaldsins fór með mál þetta Eyþór Þorbergsson löglærður fulltrúi.

Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærða, Bryndís Pálína Arnarsdóttir, sæti fangelsi í fimmtán mánuði. Fullnustu tólf mánaða af refsingunni skal frestað og niður skal sá hluti hennar falla að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærða greiði B 1.383.725 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 5. september 2016 til 7. desember 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, og 400.000 krónur í málskostnað.

Ákærða greiði að tveimur þriðjuhlutum málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 2.740.400 krónur og 226.000 króna útlagðan kostnað hans, og 94.000 króna annan sakarkostnað. Þriðjung þessa skal ríkissjóður greiða.

Ákærði Ísak Logi Bjarnason sæti fangelsi í einn mánuð og greiði 630.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal hann sæta 32 daga fangelsi. Ákærði er sviptur ökurétti í tólf mánuði.

Ákærði Ísak Logi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 358.360 krónur, 70.000 króna áætlaðan ferðakostnað hans og 736.613 króna annan sakarkostnað.

Ákærði Þórður Már Sigurjónsson sæti fangelsi í einn mánuð og greiði 60.000 króna sekt í ríkissjóð. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940. Greiði ákærði ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins skal hann sæta fjögurra daga fangelsi.

Ákærði Þórður Már greiði 210.800 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar hrl., og 35.000 króna áætlaðan ferðakostnað hans.

Bótakröfu D er vísað frá dómi.

Upptæk eru gerð 0,85 grömm af marihúana, 15,68 grömm af amfetamíni, 1 tafla af MDMA, fjaðurhnífur og rafstuðgjafi sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.