• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Bifreiðir

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. desember 2017 í máli nr. S-135/2017:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

Viljari Má Hafþórssyni

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 14. nóvember, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 17. júlí 2017, á hendur Viljari Má Hafþórssyni, kt. 130689-2999, Skessugili 16, Akureyri,

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, fimmtudaginn 4. maí 2017, ekið bifreiðinni KP-P99, undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í þvagsýni mældist amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra), frá Verkmenntaskólanum á Akureyri, Hringteigi 2 að lögreglustöðinni á Akureyri, Þórunnarstræti 138, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

Telst brot þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst sýknu. Hann segir að amfetamínið og tetrahýdrókannabínólsýran hafi verið í þvagi hans en ekki blóði og hann hafi því ekki verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann segir lýsingu í ákæru að öðru leyti rétta.

 

II.

Samkvæmt lögregluskýrslu varð lögregla vör við að bifreiðinni KP-P99 var ekið inn á bifreiðastæði lögreglustöðvarinnar hinn 4. maí 2017. Í skýrslunni segir að lögregla hafi þekkt ökumanninn sem ákærða og hefði hann komið við sögu áður. Hafi lögregla rætt við ákærða sem eftir nokkurar viðræður hefði samþykkt að gefa þvagsýni. Þvagsýnið hafi sýnt „jákvæða niðurstöðu á AMP og THC“ og ákærði þá verið handtekinn. Læknir hafi svo komið á lögreglustöðina og tekið blóð úr ákærða.

Í málinu liggur matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 13. júní 2017, undirrituð af Kristínu Magnúsdóttur og Elísabetu Sólbergsdóttur sviðsstjórum. Segir þar að að í þvagsýni úr ákærða hafi fundizt amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra. Um hvort tveggja segir í matsgerðinni: „Efnið er í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.“

Í matsgerðinni segir jafnframt að hvorki amfetamín né tetrahýdrókannabínólsýra hafi verið í mælanlegu magni í blóði ákærða.

 

III.

Kristín Magnúsdóttir gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði. Með vísan til skýrslu Kristínar og þess að ekkert hefur komið fram sem gefur til kynna að ástæða sé til að efast um niðurstöður matsgerðarinnar verður miðað við að þær séu réttar. Þannig er sannað í málinu að er ákærði ók bifreiðinni umrætt sinn, stóð þannig á hjá honum að amfetamín og tetrahýdrókannabínólsýra voru mælanleg í þvagi hans en ekki blóði.

Ákærði byggir á því að hann hafi í raun ekki verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn þar sem þau hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóði hans. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 254/2008, þar sem ákærðum manni var gefið að sök brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga en tetróhýdrókannabínólsýra hafði fundizt í þvagi hans en tetrahýdrókannabínól var ekki í mælanlegu magni í blóði hans, sagði meðal annars: „Í 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga er kveðið á um það að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef efni af þeim toga, sem um ræðir í 1. mgr. sömu lagagreinar, mælist í blóði eða þvagi hans. Með þessu hefur löggjafinn ákveðið að litið skuli svo á að þannig sé komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, ef tetrahýdrókannabínólsýra mælist í þvagi hans, en niðurstaða um það er í engu háð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sem að þessu leyti eru hliðstæð fyrirmælum um áfengisáhrif við akstur í fyrstu þremur málsgreinum 45. gr. laganna, fela ekki í sér sakarlíkindareglu í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, heldur bann við akstri ef ávana- og fíkniefni eru greinanleg í blóði eða þvagi ökumanns. Ekki er á valdi dómstóla að hreyfa við þessari ákvörðun löggjafans, sem reist er á málefnalegum grunni.“ Hæstiréttur Íslands komst að sambærilegri niðurstöðu í dómum í málum nr. 260/2008, 351/2014 og 569/2014. Þá hafði efnislega sambærileg niðurstaða orðið í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 490/2007.

Dómaframkvæmd er þannig skýr um að líta verði svo á, að þannig sé komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, ef ávana- og fíkniefni, sem bönnuð eru á íslenzku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, finnast í þvagi hans, en niðurstaða um það sé í engu háð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Verður ekki talið að dómstólar hreyfi því mati löggjafans sem hér hefur verið rakið.

Í málinu er sannað með vottorði rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og skýrslu Kristínar Magnúsdóttur að tetrahýdrókannabínólsýra og amfetamín fundust í þvagi ákærða eftir akstur hans. Með vísan til alls framanritaðs er hann sannur að sök samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiheimildar. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar sem verður ákveðin 70.000 króna sekt í ríkissjóð en sex daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna. Ekki fundust fíkniefni í mælanlegu magni í blóði ákærða. Ákærða hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður verið gerð refsing vegna umferðarlagabrots. Þegar á allt er litið þykir mega láta ógert að svipta hann ökurétti sínum nú, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 50/1987. Ákærða verður gert að greiða sakarkostnað málsins sem samkvæmt gögnum þess nemur 146.694 krónum.

Agnes Björk Blöndal fulltrúi lögreglustjóra fór með málið af hálfu ákæruvaldsins en ákærði annaðist vörn sína sjálfur. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Viljar Már Hafþórsson, greiði 70.000 króna sekt í ríkissjóð en sex daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna.

Kröfu um sviptingu ökuréttar ákærða er hafnað.

Ákærði greiði 146.694 króna sakarkostnað málsins.