• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Hraðakstur
  • Ítrekun
  • Fangelsi og sekt
  • Svipting ökuréttar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. janúar 2019 í máli nr. S-200/2018:

Ákæruvaldið

(Rósamunda Jóna Baldursdóttir fulltrúi)

gegn

Benedikt Snæ Kristinssyni

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 11. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 10. desember 2018, á hendur Benedikt Snæ Kristinssyni, kt. [...], Siglufirði,

 

„fyrir eftirtalin brot gegn umferðarlögum, með því að hafa:

I. (mál nr. 316-2018-008692)

Föstudaginn 18. október 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Ólafsfjarðarveg við Hrísa með allt að 117 kílómetra hraða miðað við klukkustund en þar er leyfilegur hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund.

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

I.    ( mál nr. 316-2018-009370)

Miðvikudaginn 14. nóvember 2018 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti norður Aðalgötu á Ólafsfirði en lögregla hafði afskipti af ákærða við Kjörbúðina á Ólafsfirði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, með síðari breytingum.“

 

Ákærði krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að sviptingartími verði einnig ákveðinn svo skammur sem lög leyfa. Þá er gerð krafa um þóknun til handa verjanda.

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir hér fyrir dómi. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði hefur ítrekað verið gerð refsing fyrir brot á umferðarlögum. Með sektargerð sýslumannsins á Akureyri þann 12. júlí 2012 var ákærða gert að greiða sekt til ríkissjóðs fyrir að aka ökutæki undir áhrifum áfengis og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Hann var sviptur ökurétti í 6 mánuði. Þá var ákærða, með sektargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum, þann 26. maí 2014, gert að greiða sekt vegna fíkniefnaaksturs, en var þá jafnframt sviptur ökurétti í 24 mánuði.  Þann 29. október 2015 var ákærði dæmdur í 30 daga óskilorðsbundið fangelsi og til að greiða sekt til ríkissjóðs vegna fíkniefnaaksturs og fyrir að aka ökutæki sviptur ökurétti, en einnig fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var þá sviptur ökurétti ævilangt. Þann 7. apríl 2017 var ákærði dæmdur í sextíu daga fangelsi vegna fíkniefnaaksturs, fyrir að aka ökutæki sviptur ökuréttindum og fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og svipting ökurétti ævilangt áréttuð. Loks hlaut hann dóm þann 22. desember 2017 fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, sviptur ökurétti. Þar var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 4 mánuði og ævilöng svipting ökuréttar enn áréttuð.

Ákærði er nú enn sakfelldur akstur sviptur ökurétti, og það í tvígang. Með hliðsjón af sakarferli verður ákærði nú dæmdur til að sæta fangelsi í tvo mánuði. Ákærði greiði einnig 80.000 króna sekt til ríkissjóðs. Skal 6 daga fangelsi koma í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja.

Með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er ævilöng svipting ökuréttar enn áréttuð.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun lögmanns hans, Júlíar Óskar Antonsdóttur, sem þykir hæfilega ákveðin 84.320 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Benedikt Snær Kristinsson sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði greiði 80.000  krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 6 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði sakarkostnað, þ.e. þóknun skipaðs verjanda síns, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 84.320 krónur.