• Lykilorð:
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 20. desember 2017, í máli

nr. S-131/2017:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

X

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni  6. júlí sl. á hendur X;  

 

„fyrir eftirtalin umferðarlagabrot:

I.

Með því að hafa, aðfararnótt sunnudagsins 9. apríl 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist amfetamín 225 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 12 ng/ml), vestur Eiðsvallagötu á Akureyri, þar sem lögregla stöðvaði akstur hans á móts við hús nr. 14.

Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

II.

Með því að hafa, að kvöldi mánudagsins 8. maí 2017, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist amfetamín 195 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 25 ng/ml), norðvestur Hjalteyrargötu á Akureyri, norðaustur Hjalteyrargötu og niður Norðurtanga, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

Telst brot þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er gerð sú krafa að ákærði sæti sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“

 

Skipaður verjandi, Sigmundur Guðmundsson hdl., krefst fyrir hönd ákærða sýknu af öllum kröfum ákæruvalds og að allur málskostnaður falli á ríkissjóð, en til vara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.  Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.

A.

I. kafli ákæru.

1. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var akstur ákærða stöðvaður við almennt umferðareftirlit lögreglumanna á Akureyri þann 9. apríl sl., kl. 03:05, þar sem hann ók bifreiðinni ... vestur Eiðsvallagötu.  Í skýrslunni kemur fram að ákærði hafi strax verið grunaður um ölvunarakstur og hafi hann af þeim sökum verið færður yfir í lögreglubifreið og látinn blása í öndunarmæli.  Tekið er fram að ákærða hafi jafnframt verið tilkynnt að hann væri handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og í framhaldi af því verið kynntur réttur hans um að hann þyrfti ekki að tjá sig frekar um kæruefnið, en einnig að hann ætti rétt á því að hafa samband við lögmann. Greint er frá því í skýrslunni að ákærði hafi verið mjög ósáttur við aðgerðir lögreglu.  Einnig er tekið fram að ákærði hafi glímt við geðræn vandamál og að hann hafi upplýst um hagi sína, þ. á m. að hann væri bæði tekju- og heimilislaus.

Í nefndri skýrslu segir frá því að ákærði hafi verið færður á lögreglustöð og þar fyrir A lögregluvarðstjóra.  Greint er frá því að ákærði hafi ekki getað gefið þvagsýni á lögreglustöðinni og að hann hafi látið orð falla um sjálfsskaða og hafi af þessum sökum verið vistaður í fangaklefa.  Greint er frá því að kl. 05:25 umrædda nótt hafi ákærði gefið þvagsýni og að það hafi við prófun sýnt jákvæða niðurstöðu fyrir fíkniefnum.  Greint er frá því að kl. 05:40 hafi vakthafandi læknir komið á lögreglustöðina og reynt að taka blóðsýni úr ákærða, en án árangurs og hafi hann í framhaldi af því verið færður á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri þar sem hjúkrunarfræðingur hafi tekið viðeigandi blóðsýni úr honum kl. 07:30.

Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að í ljósi geðræns ástands ákærða hafi ekki verið talið fært að taka af honum framburðarskýrslu umrædda nótt og því hafi verið afráðið að vista hann í fangaklefa og þá til að tryggja öryggi hans.  Þá hafi áðurnefndur vaktlæknir rætt við ákærða, en að auki hafi vakthafandi geðlæknir Sjúkrahússins á Akureyri komið á lögreglustöðina og átt langt samtal við ákærða, en að hann hafi í framhaldi af því verið látinn laus, klukkan. kl. 12:10.

 

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði Háskóla Íslands reyndist magn amfetamíns í blóðsýni því sem tekið var úr ákærða umrædda nótt 225 ng/ml.  Ennfremur reyndist magn tetrahýdrókannabínóls í blóðsýninu 12 ng/ml.  Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofunnar mældust þessi efni einnig í þvagsýni ákærða.

Ákærði var ekki yfirheyrður frekar við lögreglurannsókn málsins.

 

Eins og áður er rakið var ákæra lögreglustjóra gefin út 6. júlí sl.  Fyrirkall var fyrst gefið út af hálfu héraðsdóms 10. júlí sl., en einnig 26. sama mánaðar og loks þann 12. september sl. og var það síðastnefnda birt fyrir ákærða.  Samkvæmt áritun óskaði ákærði eftir skipuðum verjanda og var þegar fallist á það.

Ákærði var samkvæmt framansögðu boðaður fyrir dóm þann 14. nóvember sl., en þá varð útivist af hans hálfu.  Í samráði við m.a. verjanda ákærða var boðað til þinghalds 29. nóvember sl., en er ákærði mætti ekki voru, með hliðsjón af 162. gr. laga nr. 88/2008, gerðar ráðstafanir til þess að hann mætti og gekk það eftir.  Þann 1. desember sl. mætti ákærði því fyrir dóminn og þá m.a. í fylgd skipaðs verjanda síns.

 

Fyrir dómi hefur ákærði skýlaust játað að hafa ekið bifreiðinni ... eins og lýst er í ákæru, I. kafla.  Hann neitaði hinsvegar refsiverðri sök, en tjáði sig ekki frekar og lýsti því yfir að hann myndi ekki mæta við aðalmeðferð málsins, og gekk það eftir.

Við aðalmeðferð máls þessa þann 11. desember sl., var af hálfu ákæruvalds lagt fram myndskeið úr upptökubúnaði lögreglu, þar á meðal í lögreglubifreið þegar ákærði var handtekinn, en einnig á lögreglustöð þar sem A lögregluvarðstjóri sinnti störfum sínum gagnvart ákærða.

 

Fyrir dómi lýsti nefndur varðstjóri atvikum máls eftir að ákærði kom á lögreglustöðina umrædda nótt.  Varðstjórinn staðhæfði m.a. að hann hefði leiðbeint ákærða um réttarstöðu sína og þar á meðal varðandi rétt hans til að fá tilnefndan verjanda.  Varðstjórinn staðhæfði jafnframt að ákærði hefði er atvik gerðust, að morgni 9. apríl sl., verið meðvitaður um allt það sem fram fór.

Eins og hér að framan hefur verið rakið hefur ákærði neitað sakargiftum fyrir dómi.  Ákærði hefur á hinn bóginn kannast við að hafa verið við akstur bifreiðarinnar ... eins og lýst er í þessum kafla ákæru.  Þá hefur lögregluvarðstjóri staðhæft að ákærða hafi verið kynntur réttur hans sem sakaðs manns, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  Er það í samræmi við frumskýrslu lögreglu og önnur gögn.

Samkvæmt meginreglu 29. gr. laga nr. 88/2008 er sakborningi heimilt að halda sjálfur uppi vörnum í máli kjósi hann það og sé hann til þess hæfur að mati lögreglu, sbr. c lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt gögnum, þ. á m. myndskeiði úr lögreglubifreið, var ákærða við handtöku, en einnig á lögreglustöð, kynntur réttur til að fá tilnefndan verjanda, sbr. að því leyti ákvæði 1. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008.  Liggur fyrir að ákærði þáði það ekki.

 

Eftir að ákærði kom á lögreglustöð viðhafði lögregla tilteknar ráðstafanir vegna ástands ákærða.  Á hinn bóginn verður að áliti dómsins ekki ráðið af gögnum málsins að ákærði hafi ekki verið bær til að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við meðferð málsins hjá lögreglu, eins og á stóð, sbr. að því leyti síðari málslið 2. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2008, en hann var m.a. ekki yfirheyrður frekar við frumrannsókn málsins.

Fyrir liggur að ákærða var að eigin ósk skipaður verjandi áður en málið var þingfest fyrir dómi og þá í tilefni af ákæru lögreglustjóra.

 

Það er niðurstaða dómsins að virtum áður röktum gögnum, þar á meðal vitnisburði lögregluvarðstjóra, og þar sem brigður hafa ekki verið bornar á niðurstöðu alkahólrannsóknar, að fram sé komin lögfull sönnun um sekt ákærða samkvæmt I. kafla ákæru.  Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst, en þar er og réttilega vísað til lagaákvæða.

 

II. kafla ákæru.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, veittu lögreglumenn á Akureyri, við almennt eftirlit mánudaginn 8. maí sl., kl. 22:45, ákærða athygli þar sem hann var við akstur bifreiðarinnar ... og ók um Tryggvabraut.  Samkvæmt skýrslunni fylgdust lögreglumennirnir með því er ákærði lagði bifreiðinni á malarplani við Norðurtanga.  Í skýrslunni segir frá því að er lögreglumennirnir hafi komið að bifreiðinni hafi ákærði ekki verið í henni, en verið þar skammt frá og hafi hann verið handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Í skýrslunni segir frá því að ákærði hafi ekki kannast við að hafa verið við akstur í greint sinn.  Hann hafi því verið handtekinn og færður á lögreglustöð.  Samkvæmt árituðu eyðublaði var ákærða kynnt réttarstaða handtekins manns, þar á meðal um réttinn til að hafa samband við lögmann, klukkan 23:34.  Ákærði neitaði að rita undir eyðublaðið.

Í nefndri lögregluskýrslu er greint frá því að tekið hafi verið blóðsýni úr ákærða af vakthafandi lækni klukkan 23:40, en samkvæmt gögnum var sýnið sent til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði.

Í rannsóknargögnum lögreglu segir frá því að umrætt kvöld hafi verið tekin svonefnd varðstjóraskýrsla af ákærða klukkan. 23:15.  Í upphafi skýrslunnar, sem ákærði undirritar, er skráð að honum hafi verið kynnt réttindi sakaðs manns og þar á meðal um að honum væri óskylt að svara spurningum og jafnframt um rétt hans til að fá verjanda.  Undir skýrsluna ritar B lögreglumaður, en einnig annar lögreglumaður, sem ritar undir sem vottur.  Samkvæmt skýrslunni tjáði ákærði sig lítið um atvik máls, en áréttaði neitun sína að hafa ekið umræddri bifreið.  Við lok yfirheyrslunnar, klukkan 23:45, var ákærði frjáls ferða sinna.

 

Samkvæmt matsgerð nefndrar rannsóknarstofu reyndist magn amfetamíns í blóðsýni ákærða 195 ng/ml, en magn tetrahýdrókannabínóls 25 ng/ml.  Jafnframt kemur fram í matsgerðinni að umrædd efni hafi fundist í þvagsýni ákærða.

 

Hér að framan hefur áður verið lýst meðferð málsins fyrir dómi, en ákærði kom eins og þar var rakið fyrst fyrir dóm þann 1. desember sl. Ákærði játaði þá skýlaust að hafa ekið bifreiðinni ... eins og lýst er í þessum kafla ákærunnar.  Ákærði neitaði á hinn bóginn refsiverðri sök.

Við aðalmeðferð málsins lagði sækjandi fram sambærileg myndskeið úr upptökubúnaði lögreglu og lýst er í I. kafla ákæru.  Við aðalmeðferð málsins kom fyrir dóminn B lögreglumaður.  Hann staðfesti áður rakin gögn lögreglu.

 

Líkt og áður var rakið hefur ákærði neitað sakargiftum fyrir dómi en á hinn bóginn kannast hann við að hafa ekið umræddri bifreið eins og lýst er í ákæru.  Sá lögreglumaður sem helst hafði afskipti af ákærða á varðstöð hefur fyrir dómi lýst atvikum með sambærilegum hætti og segir frá í rannsóknargögnum.  Framburður hans er trúverðugur og skýr og er að auki í samræmi við myndskeið úr áðurnefndum upptökubúnaði lögreglu.  Ekki eru bornar brigður á niðurstöður alkahólrannsóknar.

Með framburði lögreglumannsins og að virtum nefndum gögnum og þar sem ekkert bendir til þess að farið hafi verið á svig við réttindi ákærða, skv. IV. kafla laga nr. 88/2008, sbr. að því leyti það sem rakið var hér að framan varðandi 1. kafla ákærunnar, er að áliti dómsins komin fram lögfull sönnun um sekt ákærða.  Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í II. kafla ákæru greinir og þar réttilega færð til refsiákvæða.

 

B.

Ákærði, sem er 38 ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi sem áhrif hefur í máli þessu.

Ákærði hefur eins og áður er rakið gerst sekur um umferðarlagabrot, með því að hafa í tvígang síðastliðið vor ekið ökutæki undir áhrifum fíkniefna.  Að því virtu og m.a. með hliðsjón af 77. gr. hegningarlaganna, þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin 250.000 króna sekt til ríkissjóðs.  Skal ákærði greiða sektina innan fjögurra vikna en ella sæti hann 17 daga fangelsi.

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaganna og kröfu ákæruvalds ber að svipta ákærða ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Loks ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra er 298.388 krónur, en að auki skal hann greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, líkt og greinir í dómsorði.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, X, greiði 250.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 17 daga fangelsi í stað sektarinnar greiði hann hana ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði 430.138 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigmundar Guðmundssonar hdl., 131.740 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.