• Lykilorð:
  • Hótanir

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 7. ágúst 2018 í máli nr. S-43/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið 12. júní sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 14. mars 2018, á hendur X, kt. 000000-0000, …, Akureyri,

„fyrir hótanir með því að hafa fimmtudaginn 17. ágúst 2017 í afgreiðslu fyrirtækisins … að … á Akureyri, hótað Y, kt. 000000-0000, með því að segja við hann eftirfarandi: „Ég skal drepa þig helvítið þitt“ og „jú víst, ég get látið drepa þig“, þegar brotaþoli efaðist um að hún gæti drepið hann, en með þessum orðum olli hún hjá brotaþola og öðrum viðstöddum ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakar­kostnaðar.“

 

Af hálfu ákærðu er gerð krafa um sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar verði greidd úr ríkissjóði.

 

I.

Fyrir liggur að þann 17. ágúst 2017, sama dag og atvik málsins áttu sér stað, leitaði ákærða til lögreglunnar og lýsti áhyggjum sínum yfir því að brotaþoli hefði sent dóttur hennar, sem er þroskaskert, sms skilaboð. Hún óttaðist að hann myndi reyna að fá stúlkuna til að hitta sig. Þá hafi ákærða einnig skýrt frá því að hún hefði farið á vinnustað brotaþola sama dag, „misst sig“ við hann og öskrað á hann að hann skyldi láta dóttur hennar í friði. Brotaþoli hafi ekki brugðist sérstaklega við þeirri heimsókn og neitað að hafa átt nokkur samskipti við stúlkuna.

Einnig liggur fyrir að daginn eftir, 18. ágúst 2017, leitaði brotaþoli til lögreglu og vildi tilkynna að ákærða hefði komið á vinnustað hans, mjög æst, ausið hann skömmum og sagst myndu drepa hann eða fá menn til að drepa hann. Þetta hafi verið vegna þess að hann hefði þennan morgun sent dóttur ákærðu skilaboð og spurt hvað hún segði gott. Ástæða skilaboðanna hefði verið sú að hann og kona hans hefðu leigt vinkonu stúlkunnar íbúð og misskilningur orðið um uppgjör leigu. Hann hafi ætlað að útskýra málið fyrir dóttur ákærðu. Honum þætti þetta óásættanleg framkoma. Samkvæmt færslu lögreglu hugðist brotaþoli sjá til hvort hann myndi aðhafast frekar í málinu. Þann 9. október 2017 barst lögreglu kæra brotaþola á hendur ákærðu, dagsett 3. október 2017. Í kjölfarið var málið rannsakað og ákæra gefin út 14. mars 2018.

 

II.

Ákærða skýrði frá því fyrir dómi að dóttir hennar, 24 ára, væri greind með einhverfu og tornæmi. Þó hún reyni eftir fremsta megni að styrkja sjálfstæði stúlkunnar sé það svo að ákærða gæti hennar stöðugt og muni gera um ókomna tíð. Ákærða kvað stúlkuna hafa æft boccia ásamt vinkonum sínum og ákærði hafi annast þjálfun. Hún kvað mál þetta eiga sér aðdraganda sem nái allt aftur til ársins 2014. Í janúar 2015 hafi hún gert athugasemdir við störf brotaþola þegar hún komst að því að hann hafði farið einn í sund með dóttur hennar að kvöldlagi. Þegar hún hafi farið að spyrjast fyrir, hafi henni verið skýrt frá óeðlilegum samskiptum hans við þroskaskertar stúlkur, m.a. að hann hafi verið ávíttur vegna samskipta við þroskaskerta stúlku á íþróttamóti árið 2014. Hún og fleiri foreldrar hafi barist fyrir því að staða brotaþola og ásakanir honum á hendur, yrðu skoðuð ítarlega og liggja fyrir gögn um það í máli þessu. Ákærða kvað allt þó hafa gengið mjög hægt.

Ákærða lýsir því að dóttir hennar hafi hringt í hana að morgni umrædds dags og tjáð henni að brotaþoli hafi haft samband við hana. Ákærða kveðst hafa orðið óttaslegin. Þetta hafi verið á fimmtudegi og þau eiginmaður hennar hafi verið á leið úr bænum yfir helgina, og önnur dóttir ákærðu hafi ekki heldur verið í bænum. Ætlunin hafi verið að dóttir hennar yrði ein heima og ákærða hafi óttast að brotaþoli myndi nota tækifærið til að nálgast hana. Ákærða kveðst hafa svarað dóttur sinni að svara brotaþola engu og þær myndu heyrast aftur. Hún hafi rokið til brotaþola í skyndi vegna óttans og ákveðið að tími væri kominn til að einhver talaði við manninn. Innan við fimm mínútum eftir símtalið frá dóttur hennar hafi hún verið komin á vinnustað hans. Hún hafi farið inn og spurt eftir honum og hann hafi komið glottandi fram. Hún hafi sagt honum að hafa ekkert samband við dóttur hennar. Hann hafi glott áfram og sagst hafa átt það erindi við stúlkuna að segja henni að vinkona hennar hafi sagt henni ósatt um hann. Ákærða hafi þá reiðst og misst út úr sér að ef hann léti dóttur hennar ekki í friði myndi hún drepa hann. Þá hafi hún sagt við eiginkonu brotaþola, sem var viðstödd, að hún hlyti að vera samsek honum. Ákærði hafi þá hent henni út, hún reynt að komast aftur inn án árangurs en svo farið beina leið til lögreglu.

Ákærða neitar að hafa sagt að hún gæti látið drepa brotaþola og kannaðist ekki við að brotaþoli hafi tjáð efasemdir um að hún gæti drepið hann. Hún hafi augljóslega ekki ætlað að drepa neinn en tekið svona til orða. Brotaþoli hafi ekki litið út fyrir að vera hræddur heldur hafi hann glott allan tímann meðan hún var þar inni.

 

Brotaþoli kvaðst hafa verið bocciaþjálfari dóttur ákærðu frá 2013. Fyrir dómi lýsti hann atvikum umræddan dag þannig, að hann hafi verið í vinnu og setið þar afsíðis. Hann hafi heyrt að spurt var eftir honum, staðið upp og gengið fram í afgreiðsluna. Þar hafi ákærða verið. Hún hafi verið róleg þegar hún kom en þegar hún byrjaði að tala hafi hún fljótlega misst stjórn á skapi sínu. Hún hafi sagt að hann mætti ekki tala við dóttur hennar og svo ausið hann og eiginkonu hans fúkyrðum og blótsyrðum. Brotaþoli hafi á einhverjum tímapunkti spurt hvort ákærða vissi af hverju hann hafi haft samband við dóttur hennar. Hún hafi neitað því og svo hótað því að drepa hann ef hann hefði samband við dóttur hennar. Brotaþoli hafi þá sagt: „nei, þú getur það ekkert“ eða „nei, þú gerir það ekkert“ og ákærða svarað: „Ég get víst látið drepa þig“. Í framhaldi af því hafi hún sagt við eiginkonu brotaþola að hún væri meðsek honum og hann hafi þá ýtt henni út og lokað. Hún hafi lamið hurðina í einhverjar sekúndur en svo farið inn í bíl og ekið burt.

Aðspurður um samskipti brotaþola við dóttur ákærðu kvaðst hann hafa lokað á samskipti við dóttur ákærðu þegar upp kom mál þar sem honum var gefið að sök kynferðisbrot. Hann hafi svo hitt stúlkuna á súpukvöldi á Fiskideginum mikla sumarið 2017. Hún hafi verið þar með vinkonu sinni. Þau hafi heilsast og hann spurt hvernig hún hefði það. Ekki hefði verið um meiri samskipti að ræða. Hann hafi svo síðar sent henni skilaboð á facebook: „hæ, hvað segir þú gott?“. Aðspurður sagði hann ætlun sína hafa verið að spyrja dóttur ákærðu um vitneskju hennar um kynferðisbrotamál það sem var til meðferðar því þau hafi verið góðir vinir. Samskipti þeirra hafi ekki orðið önnur. Áður hafi hann og dóttir ákærðu hins vegar verið miklir vinir og oft talað saman.

Aðspurður kveðst brotaþoli hafa verið hræddur vegna ummæla ákærðu. Þetta hafi tengst öðru máli sem var í gangi og hann hafi tekið þessu alvarlega. Hann hafi í alvöru trúað því að ákærða myndi láta verða af hótunum sínum. Brotaþoli kvað ákærðu meðal annars hafa sagt að hann væri sekur í því kynferðisbrotamáli sem væri til meðferðar og hann skyldi láta stúlkurnar í friði. Brotaþoli lýsti því að í framhaldinu hafi ákærða ekki leynt andúð sinni á honum og skýrt frá því í fjölmiðlum.

 

Vitnið A, eiginkona brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að ákærða hafi komið inn á vinnustað þeirra hjóna umræddan dag og spurt eftir brotaþola. Vitnið hafi kallað á hann og hann komið fram. Ákærða hafi byrjað á að spyrja hann hvort hann væri að tala við dóttur hennar á facebook en hann hafi neitað því. Ákærða hafi verið róleg í fyrstu en orðið mjög æst, ausið hann blótsyrðum og svo sagt: „ég drep þig“. Hann hafi sagt að hún gæti það ekki og hún þá sagt: „ég get víst látið drepa þig“. Ákærða hafi svo beint orðum sínum að vitninu og sagt hana meðseka. Vitnið hafi þá sagt ákærðu að koma sér út, hún hafi neitað því en brotaþoli hafi þá ýtt ákærðu út. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hótun ákærðu í garð brotaþola hafi verið skilyrt, þ.e. að hún myndi drepa hann ef eitthvað tiltekið myndi gerast. Vitnið kvaðst ekki hafa verið hrædd við ákærðu eða óttast að hún myndi í raun drepa brotaþola, þetta hafi verið sagt í æsingi og reiði.

 

Vitnið B kvaðst hafa litið við í kaffi á vinnustað brotaþola og eiginkonu hans umræddan dag. Vitnið hafi setið við annað tveggja afgreiðslu­borða þar þegar ákærða hafi komið inn og spurt um brotaþola. Eiginkona brotaþola hafi bent á hann og hann staðið upp og komið fram. Ákærða hafi þá byrjað að „hrauna yfir hann“. Vitnið muni ekki mikið af orðum hennar, en muni þó að hún hafi sagt: „ég drep þig“ og „þú skalt ekki voga þér“. Brotaþoli hafi þá sagt eitthvað á þá leið að honum þætti gaman að sjá það og hún svarað því til að hún gæti það víst. Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna til þess að hótun ákærðu hafi verið skilyrt að neinu leyti. Einnig kvaðst vitnið aðspurt það rétt að ákærða hafi sagt við brotaþola eitthvað á þá leið að hún gæti látið drepa hann. Vitnið kveður ákærðu hafa sagt við eiginkonu brotaþola að hún væri „samsek í þessu ógeði“ og hún þá sagt ákærðu að koma sér út. Í framhaldinu hafi brotaþoli og/eða eiginkona hans ýtt ákærðu út. Vitnið kveðst hafa verið „skíthræddur“ við ákærðu.  Aðspurt kvaðst vitnið hafa æft boccia með Akri frá 2002 til 2016 en fylgt brotaþola þaðan til að stofna BFA 2016. Hann og ákærði séu góðir félagar.

 

III.

Ákærða hefur játað að hafa komið í afgreiðslu fyrirtækis brotaþola 17. ágúst 2017, og að hafa sagst myndu drepa hann ef hann léti dóttur hennar ekki í friði. Það hafi hún misst út úr sér í reiði en alls ekki meint það bókstaflega. Brotaþoli staðfesti að hótunin hafi verið skilyrt á þann veg að hún hefði sagt að hún myndi drepa hann ef hann hefði samband við dóttur hennar og verður við það miðað. Til þess að hótun sé refsiverð samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga þarf hún að vera til þess fallin að vekja ótta hjá þeim sem hún beinist að. Samkvæmt framburði brotaþola sjálfs sagði hann í framhaldi af orðum hennar að hún gæti ekki drepið hann. Verður talið ósannað að ákærða hafi með þessum ummælum vakið ótta brotaþola. Þegar litið er til aðstæðna og þess að augljóst hlýtur að hafa verið að ákærða var í reiðikasti og fjarstætt að hún myndi fylgja orðum sínum eftir, þykir ekki fullnægt framangreindu skilyrði 233. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærða sýknuð af því að hafa gerst sek um brot gegn ákvæðinu með þessum orðum.

Ákærða kannast ekki við að í framhaldi af þessum samskiptum þeirra hafi brotaþoli efast um getu hennar til að drepa hann, og neitar að hafa sagt „ég get víst látið drepa þig“. Brotaþoli kvaðst hins vegar viss um að hann hafi sagt eitthvað á þann veg að hún gæti ekki drepið hann og að þá hafi ákærða haft þessi orð. Fær sá framburður hans stoð í framburði vitnanna A og B, einkum kvaðst vitnið A muna vel að hún hafi sagt einmitt þau orð. Með vísan til þess telur dómurinn sannað að ákærða hafi einnig sagt við brotaþola „ég get víst látið drepa þig“.

Ákærða hefur hreinan sakaferil, er ekki þekkt að neins konar ofbeldi og vitnið A kvaðst ekki hafa hræðst ákærðu. Síðari orðin eru sama marki brennd og hin fyrri, þ.e. ,,hótunin“ er skilyrt. Eins á það við að þegar litið er til aðstæðna, þess að ákærða var í reiðikasti og fjarstætt að hún myndi fylgja orðum sínum eftir, er það mat dómsins að skilyrði 233. gr. almennra hegningarlaga hafi ekki verið uppfyllt.

Samkvæmt þessu verður ákærða sýknuð af kröfum ákæruvaldsins og sakar­kostn­aður felldur á ríkissjóð.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.


D Ó M S O R Ð :

Ákærða, X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 600.780 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum og útlagður ferðakostnaður hans, 63.959 krónur, greiðast úr ríkissjóði.