• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Dráttur á máli
  • Ítrekun
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júní 2018 í máli nr. S-41/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Sigurði Óla Konráðssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 12. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Akureyri, útgefinni 14. mars 2018, á hendur Sigurði Óla Konráðssyni, ..., Akureyri

fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa sunnudagskvöldið 4. september 2016, ekið bifreiðinni [...], sviptur ökurétti um Spítalastíg í Reykjavík, þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans við hús nr. 10.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100 gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og er sérstaklega vísað til óútskýrðs, óhóflegs dráttar á meðferð málsins hjá lögreglu. Þá krefst hann þóknunar fyrir verjandastörf auk útlagðs kostnaðar verjandans.

 

I.

Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efast um að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

 

II.

Samkvæmt sakavottorði á ákærði nokkuð langan sakarferil að baki, sem nær allt aftur til ársins 1996. Hann hefur hann meðal annars margsinnis hlotið dóm fyrir að aka ökutækjum án ökuréttinda og sviptur ökuréttindum. 24. febrúar 2012 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum. 11. júní 2013 var honum veitt reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum dómsins, sem voru 255 dagar. 30. desember 2014 var hann dæmdur til 10 mánaða fangelsisvistar, enn fyrir akstur án ökuréttinda. Þar voru 255 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómi frá 24. febrúar 2012 dæmdar með. Hann hefur ekki afplánað þá refsingu sem honum var gerð 30. desember 2014. Við ákvörðun refsingar nú verður litið til þess að ákærði hefur margítrekað gerst sekur um sams konar brot og hann er nú sakfelldur fyrir.

Brot það sem nú er til umfjöllunar var framið 4. september 2016. Rannsókn þess var mjög einföld og lauk þegar á vettvangi. Málið lá síðan óhreyft hjá embætti lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu til 14. febrúar 2018, í rúma 17 mánuði, er það var loks sent lögreglustjóranum á Norðurlandi til ákærumeðferðar. Verður við ákvörðun refsingar litið til þessa mikla dráttar sem varð á rannsókn málsins og ákærði ber enga ábyrgð á, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 70. gr. stjórnar­skrárinnar.

Að framangreindu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði verður dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, sem ákveðst eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Sigurður Óli Konráðsson, sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, 140.250 krónur, og útlagðan kostnað hans 19.437 krónur.