• Lykilorð:
  • Skjalafals
  • Umboð
  • Vanheimild

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 6. maí 2019 í máli

nr. S-119/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Leó Jóhannessyni

(Friðrik Smárason lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra með ákæru, dags. 8. ágúst 2018, en birt 27. sama mánaðar, á hendur Leó Jóhannessyni, kt. 000000-0000, …, Akureyri, fyrir;

„skjalafals, með því í júnímánuði 2016 notað falsaða eigendaskiptatilkynningu í bifreiðaviðskiptum þegar hann seldi bifreiðina AA-000 til X, kt. 000000-0000, en ákærði hafði sjálfur skrifað nafn fyrrverandi sambýliskonu sinnar Y, kt. 000000-0000, á tilkynninguna þar sem formið gerir ráð fyrir að komi undirskrift meðeiganda, en ákærði og Y voru bæði eigendur að bifreiðinni, en ákærði eða kaupandinn sendu síðan eigendaskiptatilkynninguna til Samgöngustofu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða, sem alfarið neitar sök samkvæmt ákæru, krefst sýknu, en verði ákærði sakfelldur krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa, og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

I.

Í frumskýrslu lögreglu, dags. 16. mars 2017, kemur fram að brotaþoli, Y, hafi kært ákærða fyrir skjalafals vegna bifreiðakaupa á bifreiðinni AA-000, en vitni séu þeir A og X. Í meðfylgjandi kærubréfi lögmanns brotaþola er því lýst að um sé að ræða skjalafals og auðgunarbrot. Kemur þar fram að brotaþoli og ákærði hafi verið í sambúð og átt saman umrædda bifreið sem þau hafi keypt í júlí 2014 fyrir 1.690.000 krónur. Hafi þau tekið lán í formi þar tilgreinds skuldabréfs hjá Landsbankanum til kaupanna að fjárhæð 1.600.000 krónur sem að hluta til hafi þó verið ráðstafað til að greiða yfirdrátt ákærða hjá bankanum. Í júlí 2016 hafi ákærði síðan selt X umrædda bifreið fyrir 800.000 krónur og þá falsað undirritun meðeigandans, Y, á tilkynningu um eigendaskiptin, sem barst svo Samgöngustofu. Kemur fram að söluandvirðinu hafi ekki verið ráðstafað til greiðslu lánsins og Y sé ekki kunnugt um það hvernig ákærði hafi síðan ráðstafað þessum fjármunum þeirra. Liggja einnig fyrir í málinu gögn frá Samgöngustofu sem sýna ótvírætt fram á það að brotaþoli var meðeigandi ákærða að umræddri bifreið AA-000 er hún var þannig seld.

Tekin var skýrsla hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra af ákærða 9. júní 2017, sbr. samantekt, dags. 1. september 2017. Kemur þar m.a. fram af hálfu ákærða að Y hafi veitt honum leyfi til þess að undirrita umrædda sölutilkynningu og hann því ekki falsað undirskrift hennar. Þau tvö hafi búið saman í fimm ár en slitið sambúð í apríl 2016. Bíllinn hafi verið keyptur þannig að settur hafi verið upp í kaupin bíll sem þau hafi átt fyrir, hún hafi fengið yfirdráttarheimild og hluti verið greiddur með kreditkorti hennar sem hann hafi þó greitt, eða alls 600.000 krónur í júlí 2014. Ósætti þeirra tveggja hafi síðan leitt til þess að Y hafi farið að greiða af skuldabréfaláninu en ákærði þó boðist til að greiða það allt. Kaupverðið á bílnum hafi verið 1.690.000 krónur, en þau fengið 890.000 krónur fyrir bílinn er þau hafi átt fyrir og sett upp í kaupin, yfirdráttur verið um 300.000 krónur, eitthvað verið sett á VISA-rað, en annað staðgreitt. Skuldabréfalánið, 1.600.000 krónur, hafi síðan verið tekið eftir þetta í mars 2015, en það fé hafi ekki allt farið í kostnað vegna bílakaupanna, sennilega aðeins um 300.000 krónur. Ákærði kveðst hafa borgað öll gjöld af bílnum auk þess að verulegur viðgerðarkostnaður hafi fallið til vegna hans. Kvaðst ákærði hafa látið brotaþola fá bílinn þegar þau slitu sambúð en hún skilað honum aftur og þá ekki viljað hafa hann þar sem hann hafi jafnan verið bilaður. Ákærði kvaðst svo hafa selt X bílinn í júní 2016, en sem kaupverð fengið tvær „óskoðaðar bíldruslur“ auk 150.000 króna í peningum, en ætlað heildarsöluverð hafi verið metið sem um 300.000 krónur. Kvaðst ákærði ekki muna hvað orðið hefði um fyrrgreinda peningagreiðslu, 150.000 krónur. Kvaðst ákærði hafa boðið Y annan bílinn sem hann þannig fékk en hún hafi hafnað því. Lýsti ákærði því svo að þegar hann seldi þannig bifreið þeirra AA-000 hafi hann skrifað nafn meðeigandans, Y, á umrædda tilkynningu um eigendaskiptin, þar sem hún hafi þá ekki viljað hitta hann en beðið hann um að skrifa nafn hennar, en hún hafi þá lengi vitað að hann ætlaði að selja bílinn sem væri bilaður og hún þá vitað allt um það. Skráð kaupverð bílsins, 800.000 krónur, í tilkynningunni sé eitthvað sem kaupandinn hafi ritað þar og sé ekki rétt. Hafi ákærði áður látið verðmeta bílinn á 1.000.000 króna, en viðgerðarkostnaður hafi verið 711.000 krónur, og hann því fengið um 300.000 krónur út úr bílnum og kvaðst ákærði hafa upplýst brotaþola um það og engin leyndarmál verið tengd sölunni. Í síðari skýrslutöku hjá lögreglu, dags. 25. maí 2018, kvaðst ákærði enn hafa ritað nafn Y í reitinn fyrir undirskrift meðeiganda með hennar heimild. Ákærði hafi þó ekki haft tilskilið skriflegt umboð en hann ekki talið þörf á því vegna munnlegrar heimildar. Enn fremur kvaðst ákærði þá við söluna hafa fyllt út vissa reiti í sölutilkynningunni, eins og þar greinir, en kaupandinn X aðra, þ.e. um kaupverðið, en síðan hafi A vottað eftir á. Kvaðst ákærði þá vilja árétta eftir samtal sitt við X um kaupin að hann myndi nú ekki skýrt eftir því að hafa móttekið umræddar 150.000 krónur í peningum við kaupin. Þá vildi ákærði árétta að hann teldi að síðbúin kæra meðeiganda tengdist forræðisdeilu vegna barns þeirra.   

Tekin var skýrsla hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra af brotaþola, vitninu Y, dags. 21. júní 2017, sbr. samantekt, dags. 11. september 2017. Kom þar m.a. fram að þau ákærði hefðu átt bílinn AA-000 saman, en síðan hefðu þau slitið sambúð og þau þá ætlað að selja bílinn og skipta andvirðinu jafnt á milli sín. Kvaðst hún síðan ekki hafa vitað neitt frekar fyrr en ákærði hafi verið búinn að selja bílinn og faðir hennar hafi þá bent henni á að athuga hvort eigendaskipti hefðu átt sér stað þar sem hún hafi verið skráður meðeigandi. Hafi þá komið í ljós að bíllinn hafði verið seldur og líkt og hún hafi verið búin að skrifa undir tilkynningu um eigendaskipti. Vitnið og ákærði hafi búið saman frá 2012 og til 2016. Þau hafi keypt umræddan bíl saman og þá sett bíl sem hún hafi átt upp í og hún síðan tekið lánið á sig. Hafi bíllinn því að mestu verið greiddur með hennar fé. Þau hafi tekið lán í banka en á meðal þess sem hafi verið greitt með því hafi verið ríflega 980.000 króna skuld ákærða. Kvaðst vitnið enn vera að greiða af umræddu skuldabréfaláni. Kvaðst hún ekki hafa vitað að bíllinn hefði verið þannig seldur fyrr en eftir á. Ákærði hafi síðan boðið henni bíl í staðinn sem hafi verið við það að ryðga í sundur en hún hafnað því og krafist þess að fá sinn helming af söluandvirðinu sem hún hafi enn ekki fengið. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða að hafa samráð þegar selja ætti bílinn og skipta andvirðinu. Ekki sé rétt að hún hafi gefið ákærða heimild til þess að skrifa nafn sitt á tilkynningu um eigendaskipti. Faðir hennar hafi sýnt henni afrit af tilkynningunni sem hann hafi aflað frá Samgöngustofu og hún þá sagt honum að þetta væri ekki hennar undirskrift. Skráð söluandvirði, 800.000 krónur, hafi komið inn á skattaskýrslu hennar án þess að hún hafi fengið greiðslu. Það hafi verið ætlunin að selja bílinn, en eftir að bíllinn hafi bilað hafi ákærði tekið við honum til að gera við hann og síðan selja hann. 

Tekin var skýrsla hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra af vitninu X, dags. 22. júní 2017, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 28. maí 2017, en hann hafði þá stöðu sakbornings í málinu. Kvaðst X þá aðspurður ekki muna hvernig umrædd bílaviðskipti hans og ákærða komu til nema þeir hefðu skipt á bílnum og tveimur bílum og hann einnig borgað ákærða einhvern pening í milligjöf. X kvaðst hafa fyllt út vissa reiti á eigendaskiptaforminu þar sem hans skrift væri sem kaupandi, en formið hafi vísast komið útfyllt seljanda megin frá eins og það líti út á blaðinu, en þar á meðal séu undirskriftir seljenda, en þó muni hann þetta ekki afdráttarlaust. Síðan hafi félagi hans, A, vottað skjalið og þeir ákærði síðan kvaðst eftir það. Aðspurður minnti X að hann hefði greitt ákærða 150.000 krónur í peningum. Bíllinn AA-000 sem hann keypti þannig af ákærða hafi annars verið í slæmu ástandi eins og komið hafi frekar í ljós við viðgerðir eftir á.  

Tekin var skýrsla hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra af vitninu A, dags. 18. maí 2018, sbr. skýrslu lögreglu, dags. 25. maí 2018. Aðspurður kvaðst A ráma í þá atburði er um ræðir. Viðskiptin hafi farið fram á starfsstöð hjá X og hann verið þar staddur ásamt með X og ákærða í umrætt sinn. Minnti hann að ákærði hafi verið búinn að útfylla sitt á eigendaskiptablaðið og X fyllt út sitt og síðan beðið hann um að votta, en hann myndi þó ekki glöggt hver hefði skrifað hvað þegar hann hefði síðan vottað skjalið. Kvaðst A ekki muna eftir að reiðufé hefði þá skipt um hendur né annað en það að hann hafi vottað skjalið. 

 

II.

Ákærði, Leó Jóhannesson, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður kvaðst hann hafa átt umrædda bifreið AA-000 ásamt með Y. Þau hafi verið búin að slíta sambúð og bíllinn verið mikið bilaður og því hafi þau ákveðið að ákærði myndi selja bílinn. Gekkst ákærði við því að hafa skrifað nafn Y á sölutilkynninguna í umrætt sinn. Kvaðst ákærði þó áður hafa hringt í Y og innt hana eftir því hvort hann mætti ekki skrifa undir fyrir hana og hún hafi þá sagt í símtalinu að hann mætti gera þetta eins og hann vildi. Ákærði kvaðst þá ekki hafa lesið á sölutilkynningarforminu hvernig afla bæri þess háttar umboðs og taldi sig vera að gera rétt með því að rita þannig nafn Y á formið. Kvaðst ákærði hafa fengið tvær bíldruslur auk 150.000 króna í peningum við söluna. Y hefði síðan verið boðinn hluti af greiðslunni heima hjá ömmu hennar sama dag, þ.e. annan bíllinn, en hún þá engan áhuga haft á samskiptum við ákærða og sagst ekki vilja þiggja þetta eða hafa nein samskipti við hann yfirhöfuð. Hún hafi heldur ekki viljað skipta peningunum. Ákærði telur þau áður hafa verið einhuga um það að selja bílinn. Þau hafi síðan engin samskipti átt um málið utan það að í janúar 2019 hafi ákærði verið að selja annan bíl og hafi Y þá boðist til að fella kæruna niður ef hann myndi láta hana hafa þann bíl og vísaði ákærði þar til fyrirliggjandi samskipta þeirra á Facebook Messenger. Ákærði vísaði jafnframt til þess að hann og Y hefðu eftir söluna átt í forræðisdeilu vegna dóttur þeirra og þá hefði þessi kæra komið fram.

Brotaþoli, Y, kom fyrir dóminn og gaf vitnaskýrslu. Aðspurð tjáði hún dóminum að hún og ákærði hafi slitið sambúð snemma árs 2016 en bíllinn AA-000 hafi verið eina markverða eign þeirra. Þau ákærði hafi verið sammála um að selja bílinn sem hafi verið bilaður og skipta hafi átt söluandvirðinu jafnt á milli þeirra. Ákærði hafi því fengið bílinn til þess að selja hann. Fyrst hafi ákærði viðrað þá hugmynd að láta bílinn í skiptum fyrir snjósleða o.fl., en vitnið þá alfarið neitað slíku og sagst einungis vilja fá peninga fyrir bílinn. Aðspurð kvaðst vitnið síðan ekkert hafa heyrt frá ákærða þegar hann selur síðan bílinn í júní 2016, en ákærði hafi þá ekki hringt í hana. Áður hafi lögreglan haft samband við hana og tjáð henni að bíllinn hefði staðið við bensíndælu og draga ætti hann burt á hennar kostnað yrði hann ekki færður þaðan. Hún hafi þá haft samband við ákærða sem hafi tjáð henni að bílnum hefði verið stolið. Þá hafi faðir hennar bent henni á að bregðast yrði við stöðunni með bílinn áður en frekari vandræði yrðu vegna hans og því verið haft samband við Samgöngustofu sem hafi þá upplýst um að vitnið væri ekki lengur skráður eigandi hans, en síðan hafi fengist upplýsingar frá stofnuninni um umrædd sölukaup á bílnum. Ákærði hafi síðar upplýst vitnið um það að hann hafi fengið „tvær bíldruslur“ upp í söluna á bílnum en aldrei verið minnst á neina peninga. Aðspurð kvaðst vitnið muna að ákærði hefði svo eftir á boðið henni lítinn bíl sem hafi verið við það að detta í sundur en hún þá sagt að hún vildi það ekki en að hún vildi fá sinn hluta af bílnum þeirra sem ákærði hafi selt. Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa veitt ákærða umboð til að selja þannig bíl þeirra. Áformin hafi verið að selja bílinn í samráði en hún hafi ekki haft hugmynd um þessa sölu og hvað þá heldur um undirskriftina í hennar nafni á umræddri sölutilkynningu. Aðspurð um framangreind netsamskipti hennar og ákærða frá janúar 2019 þá gekkst vitnið við þeim, en hún þá verið að reyna að rétta sinn hlut en ákærði ekki fallist á það.

Vitnið X kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður kvaðst vitnið kannast við viðskiptin við ákærða með umræddan bíl AA-000 í júní 2016. Hann hafi látið tvo aðra bíla fyrir bílinn auk peningagreiðslu. Tildrögin hafi verið þau að ákærði hafi vitað að vitnið ætti varahluti úr öðrum bíl í þennan en ástand bílsins hafi verið bágborið. Vitnið kvaðst ekki muna hver hafi útvegað sölutilkynninguna, en minnti að allt í tilkynningunni hafi verið útfyllt á staðnum, og að ákærði hafi þá síðan hringt og þá virst hafa fengið heimild til þess að skrifa undir fyrir hönd konu sinnar. Enn fremur kvaðst vitnið nú ekki muna glögglega eftir skýrslutöku sinni hjá lögreglu né heldur hvort að hann hefði fyllt út upplýsingar um kaupverðið í sölutilkynningunni.

Vitnið A gaf skýrslu í síma. Vitnið kvaðst aðspurður hafa komið í kaffi til X og verið þar þegar viðskiptin hafi átt sér stað. Hann hafi skrifað undir sölutilkynningu sem vottur. Minnir hann að skjalið hafi verið frágengið þegar hann hafi vottað það. Kvaðst vitnið ekki muna eftir því að ákærði hefði hringt í konuna sína eða þá verið í símanum þannig að hann hefði orðið var við það. Ákærði hefði síðan orðið eftir hjá X þegar hann hafi farið. Aðspurður þá kvaðst vitnið ekki muna að ákærði hefði rætt um að hann þyrfti heimild konu sinnar fyrir sölunni. 

 

III.

Ákærða er í máli þessu gefið að sök skjalafals, sbr. 1. mgr. 155 gr. almennra hegningarlaga, eins og nánar er lýst í ákæru. Ákærði neitar hins vegar sök í málinu og er af hans hálfu krafist sýknu þar sem hann hafi ekki haft neinn ásetning til blekkinga.

Í umræddu ákvæði segir: „Hver, sem notar falsað skjal til þess að blekkja með því í lögskiptum, skal sæta fangelsi allt að 8 árum. Skal það einkum metið refsingu til þyngingar, ef skjalið er notað sem opinbert skjal, viðskiptabréf eða erfðaskrá.“

Svo sem rakið er hér að framan og með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins þá hefur ákærði ótvírætt gengist við því að hafa í umrætt sinn, í júní 2016, undirritað tilkynningu um eigendaskipti að bifreiðinni AA-000, þannig að hann ritaði einnig eigin hendi nafn meðeiganda síns, þáverandi sambýliskonu sinnar, Y, án nokkurs fyrirvara um það að undirritað væri þannig í hennar umboði eða með heimild hennar. En í viðkomandi formi Samgöngustofu eru leiðbeiningar um það með hvaða hætti skuli staðið að undirritun í umboði eiganda og eða meðeiganda.

Af hálfu ákærða hefur því verið haldið fram, bæði fyrir lögreglu og hér fyrir dómi, að hann hafi talið sig hafa ótvíræða heimild meðeiganda til að ganga þannig frá sölu bifreiðarinnar AA-000 í umrætt sinn í júní 2016. Fyrir dómi hefur ákærði lýst því þannig að hann hafi umræddan dag haft samband símleiðis við meðeiganda sinn og fengið heimild hennar til þess að undirrita sölutilkynninguna fyrir hennar hönd. En af hálfu ákærða hefur jafnframt verið vísað til þess að hann hafi skort þekkingu á því hvernig ætti að undirrita fyrir hönd annars og ákærði hafi því einfaldlega ritað nafn Y í viðeigandi reit á forminu þar sem áskilin er undirritun meðeiganda.

Af hálfu Y, sem lét í té vitnisburð hér fyrir dómi, kom fram, líkt og við skýrslutökur hjá lögreglu, að hún hafi aldrei látið ákærða í té umboð eða heimild til að framkvæma sölu eða undirrita umrædda sölutilkynningu fyrir hennar hönd, auk þess sem hún kannaðist ekki við það að ákærði hefði rætt við sig í síma í greint sinn.  Hefur framburður hennar hvað þetta varðar verið stöðugur og trúverðugur og verður því að mati dómsins að leggja hann hér til grundvallar. Er þá einnig til þess að líta að framburður vitnisins X, er keypti umrædda bifreið AA-000 í viðskiptum við ákærða, hefur ekki verið alls kostar stöðugur eða ljós um málsatvik. Þá er einnig til þess að líta að vitnið A hefur ekki getað staðhæft að hann muni eftir því að ákærði hafi hringt eða móttekið símtal á meðan hann var viðstaddur.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þá hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og um atvik sem telja má honum í óhag. Í 1. mgr. 109. gr. laganna er einnig kveðið á um það að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða, vitnisburður annarra og sýnileg sönnunargögn hafi.

Með hliðsjón af öllu hér framangreindu, og þegar öll gögn málsins hafa verið virt heildstætt, þar á meðal framangreindur framburður vitna, þá er það mat dómsins að fyrir liggi lögfull sönnun þess að ákærði hafi sannanlega gerst sekur um háttsemi þá sem honum er hér gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Er þá sérstaklega til þess að líta að sannað þykir í málinu að ákærði hafi ritað nafn meðeiganda síns á umrædda sölutilkynningu án heimildar hennar, og stóð síðan að því að tilkynningin var send þannig undirrituð til Samgöngustofu. Var þessi gjörningur ákærða til þess fallinn að geta skert hagsmuni meðeigandans, og þá í þágu ákærða, og verður það því að teljast fela í sér blekkingar af hálfu ákærða er heimfæra ber undir ákvæðið og verður hann því sakfelldur fyrir umrætt skjalafals eins og í ákæru greinir.   

Ákærði er fæddur í desember 1991. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dags. 8. ágúst 2018, á ákærði nokkra brotasögu að baki, en þar er þó einkum um að ræða sektir fyrir brot á umferðarlögum, auk þess sem hann hlaut 13. október 2009 dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 254. gr. alm. hgl., þar sem ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár, en ekkert af fyrri brotum ákærða telst nú hafa þýðingu við ákvörðun refsingar.

Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1. mgr. 155 gr. almennra hegningarlaga og dómaframkvæmdar í viðlíka málum. Að mati dómsins ber þó einnig að líta sérstaklega til sjónarmiða 3. mgr. sama ákvæðis, sem á við hafi aðeins verið um lítilræði að tefla, eða miklar málsbætur eru að öðru leyti, einkum ef fremjandi hefur ekki ætlað að baka öðrum tjón og dómurinn telur að nokkru eiga við. Með hliðsjón af því þá þykir refsing ákærða vera rétt ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en fresta skal þó fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði dæmist einnig til þess að greiða allan sakarkostnað, málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Friðriks Smárasonar lögmanns, að teknu tilliti til fyrirliggjandi tímaskráningar í málinu, alls 384.710 krónur, og þá að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Eyþór Þorbergsson saksóknari.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kveður upp dóminn. Rétt er að geta þess að dómarinn tók við málinu 10. febrúar 2019, en hafði fram til þess engin afskipti af því.

 


 

D Ó M S O R Ð

 

Ákærði, Leó Jóhannesson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, sem er málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Friðriks Smárasonar lögmanns, alls 384.710 krónur.