• Lykilorð:
  • Bifreiðir
  • Gáleysi
  • Hegningarauki
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Manndráp af gáleysi
  • Ökuhraði
  • Ökuréttarsvipting

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 5. febrúar 2018 í máli

nr. S-165/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Jóhanni Frey Frímannssyni

(Almar Þór Möller lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 3. nóvember, höfðaði lögreglustjórinn á Norður­landi eystra hér fyrir dómi þann 25. ágúst 2017 með ákæru á hendur Jóhanni Frey Frímannssyni, kt. ..., Asparfelli 12, Reykjavík;

„fyrir manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot, með því að hafa föstudaginn 24. júní 2016 ekið bifreiðinni [...] frá Akureyri, vestur Norðurlandsveg, ófær um að stjórna ökutækinu örugglega vegna notkunar á deyfandi lyfjum (í blóðsýni úr ákærða mældist alprazólam 10 ng/ml og oxazepam 0,9 µg/ml) án nægilegrar aðgæslu og langt yfir leyfilegum hraða eða með allt að 162 kílómetra hraða miðað við klukkustund, þar sem er 90 kílómetra hámarkshraði, á ökutæki sem ekki var í notkunarhæfu ástandi vegna ástands hemla í vinstra framhjóli, verulegra þunnra hemlaklossa í afturhjólum, ryðmyndunar í hemladisk hægra megin að aftan og óvirks höggdeyfis og vanstilltra lega, án lögboðinna ökuljósa og þar sem hann var að aka um Öxnadalsheiði skammt vestan við Grjótá, á ofangreindum hraða, ók hann aftan á bifreiðina [...], er ekið var í sömu átt, sem við það kastaðist framan á smárútuna [...], en henni var ekið austur sama veg á móti báðum bifreiðunum.  Afleiðingar þessa voru að ökumaður [...], [A], fæddur [....], hlaut þungt högg á vinstri hluta bringu og lést nær samstundis og farþegi í smárútunni [...] [B], hlaut afrifubrot á nærhluta nærkjúku þumals.

Brot ákærða teljast varða við 215. gr. og 219. gr. almennra hegningarlaga  nr. 19/1940, með síðari breytingum 1. mgr. 32. gr., 2. mgr. 37. gr., 1. mgr. og 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 59. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum og 3. mgr. og 4. mgr., greinar 06.10 og grein 15.0, í reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakar­kostnaðar.  Jafnframt er þess krafist að ákærði sæti sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, með síðari breytingum.“ 

 

Ákærði hefur komið fyrir dóm og játað sök. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu en þegar hefur farið fram, með heimild í 164. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði innritaðist á Vog í árslok 2015, tvívegis um miðbik árs 2016, þá jafnframt í tæpan mánuð á eftirmeðferðarstofnun, síðan í ársbyrjun 2017 og aftur um miðbik ársins. Hann dvaldi á Vin, búsetuúrræði SÁÁ og Reykjavíkurborgar, 2. febrúar  til 23. júní 2017.

Ákærði á langan sakaferil að baki. Hér skiptir máli að þann 25. júlí 2013 sætti hann sekt og var sviptur ökurétti í fjóra mánuði fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Þann 1. september 2016 sætti hann 100.000 króna sekt og var sviptur ökurétti í 24 mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Þann 17. október 2016 sætti hann 300.000 króna sekt og var sviptur ökurétti í 12 mánuði frá 1. september 2018 að telja fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna, hafa slík efni í vörslum sínum og þjófnað. Þann 21. nóvember 2016 sætti hann hegningarauka, 100.000 króna sekt, fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var sviptur ökurétti í eitt ár, aftur frá 1. september 2018 að telja.

Með þeim akstri sem lýst er í ákæru sýndi ákærði af sér vítavert gáleysi með hörmulegum afleiðingum. Refsingu hans ber að tiltaka sem hegningarauka við síðastgreinda þrjá dóma, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Hann verður dæmdur til að sæta fangelsi í 8 mánuði, sem með tilliti til allra atvika og hegðunar ákærða að undanförnu þykir ekki unnt að skilorðsbinda nema að hluta, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði verður sviptur ökurétti í eitt ár frá 1. september 2019 að telja.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns sem ákveðst vegna meðferðar málsins við rannsókn og fyrir dómi eins og í dómsorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum. Við ákvörðun hennar er litið til þess að rannsóknargögn eru umfangsmikil. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða útlagðan kostnað verjandans, 124.000 krónur og þóknun fyrri verjanda á rannsóknarstigi sam­kvæmt yfirliti ákæranda.  Rétt þykir að annar kostnaður vegna umfangsmikillar rann­sóknar greiðist úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Jóhann Freyr Frímannsson sæti fangelsi í 8 mánuði, en fresta ber fullnustu sex mánaða þar af og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá 1. september 2019 að telja.

Ákærði greiði 1.266.040 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Almars Þórs Möllers lögmanns 1.054.000 krónur og útlagðan kostnað hans, 124.000 krónur. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.