• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. desember 2018 í máli nr. S-126/2018:

Ákæruvaldið

(Rósamunda Jóna Baldursdóttir fulltrúi)

gegn

Aleksejs Kuznecovs

(Ingvar Þóroddsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., var höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, á hendur Aleksejs Kuznecovs, [...] Akureyri.

 

Fyrri ákæran er dagsett 29. ágúst 2018 og er ákærða þar gefið að sök umferðarlagabrot

 

„með því að hafa föstudaginn 6. apríl 2018, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var vegna rannsóknar málsins mældist kókaín 25 ng/ml.) suður Skipagötu á Akureyri um Kaupvangsstræti og á Eyrarlandsveg þar sem lögregla stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, með síðari breytingum.

 

Sú síðari er dagsett 30. október 2018, þar sem ákærði er ákærður fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot:

 

I.

Með því að hafa, mánudaginn 14. maí 2018, verið með í vörslum sínum í söluskyni 96,82 grömm af kókaíni, en lögreglan fann efni þessi í hólfi undir ökumannssæti bifreiðarinnar [...] við leit í henni.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

II.

Með því að hafa ofangreindan dag verið með í vörslum sínum á heimili sínu að [...], á Akureyri, 1,0 gramm af Ecstasy og 0,27 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Telst brot þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, með síðari breytingum og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, með síðari breytingum.

 

III.

Með því að hafa mánudaginn 14. maí 2018, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum fíkniefna (í blóðsýni sem tekið var vegna rannsóknar málsins mældist kókaín 170 ng/ml) suður Drottningarbraut á Akureyri, við Siglingaklúbbinn þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostaðar, og til að sæta upptöku á efni því, sem lögreglan lagði hald á og tilgreind eru í efnaskrá nr. 37.912, 37.913 og 38.510 samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Einnig er krafist upptöku á grammavog, sbr. 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Jafnframt er gerð krafa um að ákærði verði sviptur ökurétti samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga með síðari breytingum.“

 

Ákærði krefst þess honum verði gerð vægasta refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Þá verði sviptingartími ökuréttinda eins skammur og lög leyfa. Upptökukröfu er ekki mótmælt en fjárhæð sakarkostnaðar er andmælt. Loks er krafist hæfilegrar þóknunar til handa skipuðum verjanda.

 

Ákærði hefur játað sakargiftir hér fyrir dómi. Með játningu ákærða, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæmt, og gögnum málsins, er nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða. Verður lagður dómur á málið án frekari sönnunarfærslu, sbr. heimildarákvæði 164. gr. laga nr. 88/2008.

 

Ákærði hefur hreinan sakaferil. Með vísan til þess styrkleika þess efnis sem greinir í ákærulið I í síðari ákæru og að það var ætlað til sölu er refsing ákærða nú ákveðin fangelsi í átta mánuði, sem ekki þykir unnt að binda skilorði.

Með vísan til 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 8. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 skal ákærði jafnframt greiða 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Skal 18 daga fangelsi koma í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja.

Ákærði verður sviptur ökurétti í 10 mánuði frá birtingu dómsins að telja, sbr. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Að kröfu ákæruvalds sem ákærði mótmælti ekki, og með vísan til 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á grammavog og þeim efnum er í dómsorði greinir.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar er varðar sakarefni málsins, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda hans, Ingvars Þóroddssonar lögmanns, sem í dómsorði er tilgreind að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Ákærða verður ekki gert að greiða kostnað vegna símhlerunar sem fór fram í framhaldi þeirra atvika sem ákært er fyrir.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Aleksejs Kuznecovs, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákærði greiði 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 18 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 10 mánuði frá birtingu dómsins.

Gerð eru upptæk grammavog, 96,82 grömm af kókaíni, 1,0 gramm af ecstasy og 0,27 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákærði greiði sakarkostnað, alls 524.710 krónur, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar lögmanns,  252.960 krónur.