• Lykilorð:
  • Aðild
  • Skuldajöfnuður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. desember 2017 í máli

nr. E-132/2016:

Grænigarður ehf.

(Auður Hörn Freysdóttir hdl.)

gegn

Ljósaborg ehf.

(Andrés Már Magnússon hdl.)

 

Mál þetta sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð miðvikudaginn 22. nóvember, er höfðað 2. júní 2016 af Grænagarði ehf., kt. 000000-0000, Garði, Eyjafjarðarsveit, á hendur Ljósaborg ehf., kt. 000000-0000, Austurvegi 42, Selfossi. Fyrir hönd hins stefnda einkahlutafélags er stefnt fyrirsvarsmanni, Guðjóni Þóri Sigfússyni, Álftarima 36, Selfossi.

 

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 848.254 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. janúar 2015 til greiðsludags.

Stefndi krefst sýknu, til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega en til þrautavara krefst stefndi „skuldajafnaðar fjárhæðar sem nemur stefnufjárhæðinni allri.“ Hvor aðili krefst málskostnaðar úr hendi hins.

Aðalkröfu stefnda um frávísun málsins var hafnað með úrskurði.

Upphaflega krafðist stefnandi dráttarvaxta frá 29. desember 2014 en breytti þeirri kröfu sinni undir rekstri málsins.

 

Málavextir

Hinn 29. desember 2014 gaf stefnandi út reikning til stefnda að fjárhæð 848.254 krónur. Sú fjárhæð er í reikningnum sundurliðuð þannig að fyrsti liður, „Mars 2014 Leiga malarvagn“ er sagður með magnið 231 km, einingaverðið 150 krónur og alls að fjárhæð 34.650 krónur. Annar liður, „Maí 2014 Leiga herfi“ er sagður með magnið 1 dag, einingaverðið 20.000 krónur og alls að fjárhæð 20.000 krónur. Þriðji liður, „Vor 2014 Leiga haugsuga“ er sagður með magnið 6 dagar, einingaverðið 25.000 krónur og alls að fjárhæð 150.000 krónur. Fjórði og síðasti liðurinn, „Sáning samk. vinnuseðli“ er sagður með magnið 32,5 klukkustundir, einingaverðið 14.500 krónur og alls að fjárhæð 471.250 krónur. Alls nema þessar fjárhæðir 675.900 krónum og við þær er bætt 172.354 krónum vegna virðisaukaskatts, alls 848.254 krónur. Reikningurinn ber númerið 234.

Hinn 29. febrúar 2016 sendi stefnandi stefnda innheimtuviðvörun. Þar segir að skuldari sé Ljósaborg ehf. en kröfuhafi Grænigarður ehf. Er gerð krafa um greiðslu 848.254 króna höfuðstóls, 124.022 króna dráttarvaxta og alls 895 króna tilkynningar-, greiðslu- og vanskilagjalda. Samtals er gerð krafa um greiðslu 973.171 krónu innan tíu daga frá dagsetningu bréfsins.

 

Í málinu liggja útprentuð tölvupóstsamskipti forsvarsmanns stefnda og lögmanns stefnanda. Tölvubréf forsvarsmanns stefnda 10. marz 2016 hefur efnisheitið „Krafa Grænigarður reikn. 234“. Í bréfinu segir forsvarsmaður stefnda meðal annars: „Ég hef rætt áður við Garðar út af þessu. Hann ætlaði að finna m.a. tilboð sem hann gerði í sáningu vor 2014 síðast þgar ég ræddi við hann, fyrir síðustu áramót. Mig minnti að þetta tilboð hefði verði um 300 þús + vsk (fyrir um 30 ha) án vsk. Ég gæti mögulega fundið þetta. Þá kom ég með fyrirspurn til hans hvort hægt væri að greiða hluta af þessu með sölu á hálmi, t.d. 50 rúllur á 5 þús + vsk auk peningagreiðslu. Hann ætlaði að skoða það. Varðandi leigu á haugsugu sagði ég aðila hjá mér sem sá um samskipti við Garðsbúið um leigu á tækjum að leiguverð mætti ekki vera hærra en á tækjum hjá bún.félagi – og ég skildi hann þannig að um það væri samið. Þannig er dagsleiga f. haugsugu hjá bún.félagi (2015) 14 þús kr/dagurinn án vsk, en 25 þús á reikn. Ég vildi gera aths. við þetta. Þið skoðið þetta og látið mig vita. Gott að ganga frá þessu.“

Þessu tölvubréfi svarar lögmaður stefnanda með öðru daginn eftir og ber bréfið efnisheitið „Krafa Grænigarður reikn 234“. Í bréfinu segir meðal ananrs: „Ég ræddi málið við Garðar. Tilboðið sem þú vísar til varðaði ekki það verk sem nú er innheimt fyrir. Haugsuga Grænagarðs var leigð til ykkar á því verði sem nú er innheimt fyrir. Verði höfuðstóll kröfu kr. 848.254 greiddur fyrir kl. 16:00 mánudaginn 14. mars n.k. samþykkir kröfuhafi að taka rúllur upp í dráttarvexti.“

Forsvarsmaður stefnda svarar með tölvubréfi sama dag og ber bréf hans, eins og öll síðari bréf sem hér verða rakin, efnisheitið „RE: Krafa Grænigarður reikn. 234“. Þar segir meðal annars: „Ég er ekki sammála með að ekki hafi legið fyrir tilboð í verk á sínum tíma, varðandi sáningu. Minn skilningur er að það hafi verið eins og ég nefndi. Þá var minn skilningur að tímagjald á haugsugu væri eins og ég nefndi. Kröfuhafi var með traktor á leigu frá okkur alls 275t á umsömdu leiguverði 6000 kr/t án vsk. – Þegar traktor var leigður út var rætt um að leiga á honum gengi á móti vinnu kröfuhafa, þannig að það gengi saman í upphæðum. Tel rétt að fá yfirlit kröfuhafa vegna þessa, það er hvað gekk út á móti þessari vinnu. Þegar við fengum traktor aftur kom síðar í ljós að driföxull var skemmdur að aftan, var boginn. Þetta gerist þegar traktor er í leigu hjá kröfuhafa. Við missum af leigu á vél vegna þessa, þar sem vél hegðaði sér óeðlilega í notkun. Þegar ljóst var að öxull var skemmdur skiptum við um hann á verkstæði á Akureyri. Kostnaður okkar var 100 þús án vsk. vegna þessa, sem ég vil að komi til frádráttar frá [kröfum].“

Lögmaður stefnanda skrifar hinn 28. apríl 2016. Þar segir meðal annars: „Ég vísa í samtal okkar þann 26. apríl sl. Ég mun hinkra með frekari innheimtuaðgerðir fh. Grænagarðs ehf. til mánaðamóta (mánudagsins 2. maí 2016) en þá verður að koma að lágmarki kr. 300.000 greiðsla inn á kröfuna. [...] Vinsamlegast hafðu samband við forsvarsmenn GK verktaka til að fá yfirlit yfir uppgjör þess félags og Ljósaborgar.“

Forsvarsmaður stefnda svarar hinn 3. maí 2016. Þar segir meðal annars: „Vildi láta vita að ég er með þetta inn í áætlunum hjá mér – ætti að geta þetta allra næstu daga ef allt gengur eftir.“

Hinn 6. maí 2016 skrifar lögmaður stefnanda: „Ég minni á að greiðsla þarf að berast í dag.“

Hinn 11. maí 2016 svarar forsvarsmaður stefnda: „Ætla að greiða 300 þús- stendur þetta ekki eins og við ræddum um, ef ég [legg] inn á þig eftir að þú svarar?“ Síðar sama dag svarar lögmaður stefnanda: „Það sem rætt var um miðaðist við að greitt yrði um mánaðamót apríl-maí að lágmarki kr. 300.000 inn á kröfu. Lokafrestur var svo 9. maí. Greiðslan þarf að berast fyrir kl. 15:00 á morgun 12. maí áður en hægt er að ræða hvernig greiðslu eftirstöðva skuli háttað. Ég er tilbúin með stefnu sem ég mun senda í birtingu berist greiðsla ekki innan tilskilins frests.“

Daginn eftir klukkan 14:46 skrifar forsvarsmaður stefnda: „Þú hefur fengið kvittun f. greiðslu – þessi greiðsla er fyrir Ljósaborg ehf.“

Hinn 13. maí 2016 skrifar lögmaður stefnanda og segir meðal annars: „Ég hef móttekið kr. 300.000 sem innborgun vegna skuldar Ljósaborgar ehf. við Grænagarð ehf. Eftirstöðvar kröfu miðað við stöðu hennar (fyrir innborgun) 12. 5. 2016 eru kr. 996.599 auk innheimtukostnaðar. Eftirfarandi er tillaga sem miðast við að samkomulag verði um greiðslu eftirstöðva og að staðið verði að fullu við það samkomulag. Tillagan gerir ráð fyrir að krafan verði lækkuð um kr. 44.009 vegna viðskipta við GK og kr. 50.000 vegna sáningar. Auk þess sem ekki kemur til hækkunar á innheimtukostnaði sem hefur þó aukist til muna frá innheimtubréfi. Kr. 996.599 höfuðstóll og dráttarvextir til 12. 5. 2016. Kr. 74.400 innheimtuþóknun með vsk. Kr. -44.009 inneign við GK. Kr. -50.000 lækkun vegna sáningar. Kr. -300.000 Innborgun á kröfu þann 12. 5. 2016. Eftirstöðvar miðað við þetta samkomulag eru kr. 676.990 sem greiddar verði með eftirfarandi hætti: Föstudaginn 27. maí 2016 verði greiddar kr. 356.990[.] Fimmtudaginn 16. júní verði greiddar kr. 320.000[.] Verði greiðslufall þá verður krafan innheimt að fullu auk þess sem kostnaður við innheimtuna og frekari innheimtuaðgerðir mun stóraukast. Vinsamlegast láttu mig vita hvort þú samþykkir ofangreinda tillögu.“

Forsvarsmaður stefnda svarar sama dag: „Dráttarvél okkar sem var leigð til Grænagarðs/GK verktaka skemmdist meðan hún var í leigu, þannig að driföxull að aftan bognaði. Ég lét laga þetta, viðgerðar kostnaður minn var rúmlega 110 þús án vsk. Þetta vildi ég fá bakfært. GK verktaka[r] geta talað við aðila sem var á [traktor] hjá þeim til að staðfesta að vél hafi skemmst hjá þeim (þegar hún var tengd rúlluvél)[.] Þá var rætt um sölu á hálmi á móti dráttarvöxtum – við forsvarsmann Grænagarðs, skildi það þannig að það væri samþykkt.“

Lögmaður stefnanda svarar 18. maí 2016: „Viðskipti Ljósaborgar og GK verktaka eru óviðkomandi innheimtu reiknings Grænagarðs ehf. nr. 324. Teljir þú Ljósaborg eiga kröfu á hendur GK verktökum vinsamlegast beindu henni til forsvarsmanna þeirra. Á þeim tveimur árum sem liðin eru síðan verkið var unnið hafa dráttarvextir bæst við kröfuna og er það alfarið á ábyrgð skuldara. Verði tilboð mitt um greiðslu eftirstöðva skulda skv. tölvupósti mínum dags. 13. 5. sl. samþykkt og staðið við greiðslur skv. því er kröfuhafi tilbúinn að taka hálm (10 rúllur) að andvirði 50.000 auk vsk. upp í lokagreiðsluna. Að öðrum kosti mun ég halda innheimtu kröfunnar áfram með atbeina dómstóla.“

Forsvarsmaður stefnda svarar 25. maí 2016: „Ég legg til að greitt verði 200 þús á mánuði, fyrst fyrir 15 júní n.k. þar til þetta er uppgert – samt með fyrirvara um það sem ég hef áður tekið fram. Varðandi leigu á traktor er rétt að benda á að Grænigarður var einnig starfandi þegar hann var leigður. Það gengur ekki að skifta upp viðskiptum milli GK verktaka og Grænagarðs eins og mér sýnist hér vera gert, það er þegar GK verktakar fara í þrot er tekin út sala þar sem hentar gagnvart viðskiptum við mig en gjöld skilin eftir (leiga á traktor). Það kom ekkert fram á sínum tíma um að leiga á traktor gæti ekki eins verið á kt. Grænagarðs. Legg til að ganga frá þessu með þessum hætti samt sem áður til að koma í veg fyrir [að] mál taki [frekari] kostnað og tíma.“ Lögmaður stefnanda svarar 30. maí 2016: „Málið snýst um tveggja ára gamla skuld vegna verks sem sannanlega var unnið. Á þeim tíma hefur skuldin safnað dráttarvöxtum og mun gera áfram þar til hún er uppgreidd. Ég lít svo á að með svari þínu 25. maí sl. hafir þú hafnað tilboði mínu frá 13. maí sl. þar sem reynt var að komast að samkomulagi um greiðslur eftirstöðva skulda hratt og örugglega gegn ákveðinni eftirgjöf. Ég mun því halda innheimtuferlinu áfram en bendi á að það mun hafa stóraukinn kostnað í för með sér.“

 

 Í málinu liggja afrit fimm reikninga sem félagið GK verktakar ehf., kt. 000000-0000, Garði, Eyjafjarðarsveit, hefur gefið út til stefnanda á árinu 2012. Eru þau fyrir ýmis verk svo sem leigu á malarvagni, haugsuguvinnu, skítkeyrslu, rúllubindingu, leigu á rakstrarvél og sáningu.

 

Samkvæmt útprentun úr vanskilaskrá var árangurslaust fjárnám gert hjá GK verktökum ehf., í febrúar 2014, október 2014, marz 2015 og nóvember 2016.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segir kröfu sína byggða á reikningi að fjárhæð 848.254 krónur sem gefinn hafi verið út 29. desember 2014 með sama gjalddaga. Stefnandi kveðst reka m.a. verktakaþjónustu fyrir bændur. Krafa sín sé vegna verks sem unnið hafi verið fyrir stefnda vorið 2014 við sáningu, vegna útleigu til stefnda malarvagni, herfi og haugsugu.

Stefnandi segir að hinn 12. maí 2016 hafi 300.000 krónur verið greiddar inn á skuldina og dragist þær frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki verið greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu þeirra.

Stefnandi kveðst vísa til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en regla sú fái lagastoð meðal annars í 45. til 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Vegna gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, vaxtavextir þar með taldir, séu studdar við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 með síðari breytingum.

Krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og vegna varnarþings sé vísað til 36. gr. sömu laga.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveðst vera einkahlutafélag sem eigi meðal annars fasteignina Grund I og II í Eyjafjarðarsveit, lögbýli þar sem rekið sé kornræktar- og kúabú. Vegna rekstrarins hafi stefndi leitað til verktaka í Garði, Eyjafjarðarsveit, þar sem starfrækt sé tækjaleiga og ræktunar- og sáningaþjónusta. Vegna þessa hafi stefndi til fjölda ára verið í viðskiptasambandi við GK verktaka ehf., kt. 000000-0000, félag sem eigi lögheimili í Garði. Viðskiptin hafi farið þannig fram að fyrirsvarsmaður stefnda eða aðili á hans vegum hafi haft samband við verktaka í Garði og beðið um þá þjónustu eða tæki til leigu. Tækin hafi stefndi nýtt á landareign sinni en sáning hafi farið fram á landareign stefnda eftir beiðni. Hafi svo einnig verið árið 2014. Í samtali stefnda við verktaka í Garði hafi þess verið óskað að Valtra T182, dráttarvél, árg. 2013, skráningarnúmer OU G78, í eigu stefnda yrði leigð fyrir 6.000 krónur á klukkustund og að leigan gengi upp í þau verk og þá leigu sem stefndi hefði óskað eftir og fengið. Þegar dráttarvélin hafi verið afhent stefnda á ný hafi hún verið með brotin drif og nýtingin hafi verið tvöhundruð sjötíu og tvær klukkustundir. Viðgerðarkostnaður hafi numið 110.000 krónum auk virðisaukaskatts.

Stefndi segir að frá því að hann hafi fengið sendan reikning frá stefnanda, dags. 29. desember 2014, hafi hann neitað að greiða hann, enda telji hann sig eiga hærri gagnkröfu á hendur þeim sem leigt hafi dráttarvél sína og um sama aðila hafi þar verið að ræða. Hafi þetta verið í fyrsta sinn sem stefndi hafi heyrt það nefnt að hann ætti í nokkuru viðskiptasambandi við stefnanda. Þegar innheimtuaðgerðir hafi hafizt hafi stefndi neitað að greiða reikninginn, enda hafi hann talið, að samið hefði verið um að leigan á dráttarvélinni gengi á móti þeirri vinnu sem unnin hefði verið á landareign hans. Hafi stefndi lýst yfir skuldajöfnuði. Því hafi stefnandi neitað, á þeim grunni að dráttarvélin hafi ekki verið leigð stefnanda heldur GK verktökum ehf. Stefndi hafi verið í þeirri trú að hann hafi samið við sama lögaðilann á öllum stigum enda hafi verið samið um að kröfur myndu mætast.

Stefndi segir að sér hafi ítrekað verið neitað um yfirlit frá verktökum í Garði vegna vinnu á þeirra vegum sem hafi átt að ganga upp í leigu á dráttarvélinni, að auki hafi stefndi gert athugasemdir við reikning dags. 29. september, varðandi taxta og einingaverð, þar sem stefndi telji að samið hafi verið um lægri taxta á tilboði í stað tímagjalds. Stefnandi hafi í engu litið til athugasemda stefnda.

Stefndi kveðst byggja á því að hann hafi talið sig eiga viðskipti við GK verktaka ehf. Hafi sami aðili selt honum þjónustu, sem og tæki á leigu, og hafi leigt af honum dráttarvél þá sem nýtt hafi verið í Garði enda hafi stefndi átt viðskipti við sama aðila og hann hafi ávallt gert til að koma á þeim viðskiptum.

Stefndi segir málatilbúnað sinn aðallega miðaðan við það að það hafi verið GK verktakar ehf. eins og fyrri ár, en krafa sín um skuldajöfnuð sé miðuð við að viðskiptin hafi verið við stefnanda.

Þá kveðst stefndi vilja koma því á framfæri að hann hafi greitt 300.000 krónur hinn 12. maí 2016 með fyrirvara um réttmæti kröfu stefnanda. Með vísan til þess hvernig stefnandi hafi ákveðið að haga kröfugerð sinni, að draga greiðsluna ekki frá dómkröfum sínum, krefjist stefndi sýknu af allri stefnufjárhæðinni, þannig að sýkna af kröfum stefnanda leiði til þess að stefndi hafi ofgreitt 300.000 krónur.

Stefndi segist krefjast sýknu sem hann byggi aðallega á aðildarskorti stefnanda. Stefnandi málsins sé Grænigarður ehf. en stefndi kannist ekki við að hafa verið í viðskiptum við þann aðila, heldur hafi hann átt í viðvarandi viðskiptum við GK verktaka ehf. Kveðst stefndi benda á að þó að þessi félög séu í eigu sömu aðila, þó bendi hann á að reikningur sem stefnandi byggi á sé nær samhljóða eldri reikningum frá GK verktökum ehf., að auki bendi stefndi á að skráður tilgangur og virðisaukaskattsnúmer stefnanda sé í kornrækt. GK verktakar ehf. sé á hinn bóginn verktakafyrirtæki sem sinni þjónustustarfsemi við ræktun nytjajurta, leiga á tækjum og kaup á þjónustu við ræktun á eigin landi sé því innan tilgangs GK verktaka ehf. en ekki stefnanda. Árið 2014 hafi engin breyting orðið á viðskiptaháttum aðila önnur en sú að reikningur hafi nú komið frá Grænagarði ehf., en ekki GK verktökum ehf., en jafnframt hafi „þeir“ neitað að gera upp við stefnda vegna leigu á dráttarvél. Það símanúmer sem stefndi hafi hringt í, 894 5383, sé skráð á GK verktaka ehf.

Stefndi segist benda á, þessu til stuðnings, að samkomulag hafi verið milli stefnda og þess sem hann hafi átt viðskipti við í Garði um leigu á Valtra T182 dráttarvél, árg. 2013, OU G78 í eigu stefnda og að sú leiga myndi mæta þeirri vinnu og þeirri leigu sem vinna hafi átt á kostnað stefnda. Forsenda þessa samkomulags hafi verið eldra viðskiptasamband stefnda og GK verktaka ehf. og hafi það verið eina viðskiptasambandið sem stefndi hafi talið sig í. Dráttarvélin hafi verið nýtt í tvöhundruð sjötíu og fimm klukkustundir á umsömdum 6.000 krónum hver á klukkustund, alls 1.650.000 krónur.

Stefndi segir að svo virðist sem GK verktakar ehf. sé hætt starfsemi og ógreiðslufært. Ótækt sé að fyrirsvarsmenn félaganna geti tekið einhliða ákvörðun um að gera stefnda reikning frá Grænagarði ehf. en að krafa stefnda vegna leigu á dráttarvélinni skilinn eftir á hinu ógjaldfæra félagi. Stefndi segir að fallist stefnandi hinsvegar á hann hafi leigt dráttarvélina í tvö hundruð sjötíu og fimm klukkustundir fyrir 6.000 krónur hverja sé stefndi tilbúinn að fallast á þau málalok að kröfu stefnanda verði skuldajafnað inn á kröfu stefnda. Þá kveðst stefndi benda á að samkvæmt reikningi sé vísað til sáninga samkvæmt vinnuseðli, en sá seðill fylgi ekki með í dómsskjölum og ekki önnur sundurliðun, hafi stefndi því ekki getað glöggvað sig á þeirri vinnu sem að baki reikningi standi.

Stefndi kveðst til vara byggja sýknukröfu sína á því að krafa stefnanda sé að fullu greidd. Sé ekki viðurkennt að tækjaleiga hans hafi verið frá GK verktökum ehf. sé fullljóst að sáning hafi verið það enda hafi hún verið órofin árleg viðskipti og engin breyting orðið á sambandi aðila. Stefndi hafi greitt 300.000 krónur hinn 12. maí 2016 fyrir þá þjónustu. Að auki sé óumdeilt, ef ekki verði framangreindar kröfur stefnda ekki teknar til greina, að stefndi hafi hinn 12. maí 2016 greitt 300.000 krónur sem dragist frá kröfum stefnanda. Loks kveðst stefndi nefna að samið hafi verið um lægri taxta og fyrir hafi legið tilboð í verk sem verið hafi lægri í reikningur dags. 29. desember 2014.

Stefndi kveðst til þrautavara krefjast skuldajafnaðar og byggir þá kröfu sína á framangreindum rökum, að breyttu breytanda, um að samningsaðili sinn 2014 hafi að öllu leyti verið stefnandi en ekki GK verktakar ehf. Stefndi kveðst byggja á að samningssamband aðila um leigu dráttarvélarinnar sem og kaup stefnda á þjónustu og leiga á tækjum sé órjúfanleg heild þar sem stefndi hafi í öllum tilfellum átt í viðskiptum við sömu aðila. Ótækt sé að fyrirsvarsmenn stefnanda komist upp með að velja að gera reikning á stefnda frá nýjum aðila, þegar GK verktakar ehf. hafi orðið ógjaldfærir, en ætlist samhliða til þess að stefndi beini gagnkröfu sinni að GK verktökum ehf. Stefndi kveðst byggja á að fallist dómurinn á kröfu stefnanda um meinta þjónustu og leigu á tækjum feli það jafnframt í sér viðurkenningu á því að það hafi verið stefnandi sem hafi leigt dráttarvélina en ekki GK verktakar ehf. Hafi stefndi á þeim grunni lýst skuldajöfnuði kröfunnar og byggi á henni fyrir dómi. Kvaðst hann að áskilja sér rétt til að skækja sér eftirstöðvar hennar fyrir dómi verði hún ekki greidd með tíðkanlegum hætti eftir dómsuppsögu.

Stefndi segist byggja málskostnaðarkröfu sína á 130. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Í málinu gáfu skýrslu Garðar Hallgrímsson framkvæmdastjóri stefnanda og Guðjón Þórir Sigfússon.

Óumdeilt er í málinu að hinn 12. maí 2016 greiddi stefndi 300.000 krónur inn á þá kröfu sem gerð hafði verið á hendur honum. Reikningur og innheimtubréf stefnanda og tölvusamskipti aðila fram að því sem stefndi greiddi féð hafa verið rakin. Ljóst er af reikningi og innheimtubréfi að stefnandi, Grænigarður ehf., kemur þar fram sem kröfuhafi. Hvergi í tölvusamskiptum aðila, fram að því að stefndi greiðir inn á kröfuna, er vikið að því að stefndi hafi ekki átt í umræddum viðskiptum við stefnanda og enginn slíkur fyrirvari gerður þegar greiðslan er innt af hendi. Í bréfi lögmanns stefnanda 28. apríl 2016 segir meðal annars að lögmaðurinn muni „hinkra með frekari innheimtuaðgerðir fh. Grænagarðs ehf.“ en síðar í bréfinu ráðleggur lögmaðurinn forsvarsmanni stefnda að hafa „samband við forsvarsmenn GK verktaka til að fá yfirlit yfir uppgjör þess félags og Ljósaborgar.“

Í ljósi framanritaðs verður að miða við að stefnandi sé réttur kröfuhafi og verður ekki sýknað vegna aðildar­skorts.

Fram kom hjá forsvarsmanni stefnda fyrir dómi að hann vefengdi ekki að það verk hefði verið unnið, sem reikningur stefnanda snýst um. Mun það vera óumdeilt og verður við það miðað. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að það verð, sem stefnandi hefur sett upp, sé út af fyrir sig ósanngjarnt eða óeðlilegt.

Ekkert liggur fyrir í málinu um að stefnandi skuldi stefnda fé, hvort sem væri vegna leigu á dráttarvél, skemmda á dráttarvél eða af öðrum ástæðum. Stefndi ber sönnunarbyrðina af því að hann eigi kröfu á stefnanda sem tæk sé til skuldajöfnuðar og liggur engin slík sönnun fyrir í málinu. Ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að samið hafi verið um að krafa sú, sem stefnandi hefur gert á hendur stefnda, yrði greidd með öðru en peningum, hvort sem væri að hluta til eða öllu leyti. Ekki liggur fyrir í málinu reikningur sem stefndi hafi gefið út vegna leigu eða skemmda á dráttarvél.

Með vísan til alls framanritaðs verður krafa stefnanda teknar til greina svo sem í dómsorði greinir, en innborgun stefnda skal dragast frá kröfunni miðað við stöðu hennar á innborgunardeginum 12. maí 2016. Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað. Gætt var 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnanda fór með málið Auður Hörn Freysdóttir héraðsdómslögmaður.

Af hálfu stefnda fór með málið Andrés Már Magnússon héraðsdómslögmaður.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Ljósaborg ehf., greiði stefnanda, Grænagarði ehf., 848.254 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. janúar 2015 til greiðsludags, að frádreginni 300.000 króna innborgun sem dragast skal frá skuldinni miðað við stöðu hennar 12. maí 2016.

Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.