• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Líkamsárás
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. febrúar 2019 í máli nr. S-217/2018:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Hönnu Stellu Georgsdóttur

(Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður)

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. janúar sl., var höfðað með ákæru lögreglu­stjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 17. desember 2018, á hendur Hönnu Stellu Georgsdóttur, […],

 

„fyrir líkamsárás, með því að hafa, miðvikudaginn 7. mars 2018, að […], ráðist að móður sinni, A, rifið af henni síma þegar hún var að reyna að hringja í lögreglu og hent honum í andlit móður sinnar með þeim afleiðingum að móðir hennar hlaut roða/mar á vinstra gagnauga.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærða hefur komið fyrir dóm og játað sök samkvæmt ákæru. Hún tók fram að þó hún hafi kastað umræddum síma hafi það ekki verið ásetningur hennar að hann færi í andlit móður hennar. Sækjandi féllst á að leggja það til grundvallar. Með játningu ákærðu, sem ekki er ástæða til að efa að sé sannleikanum samkvæm, er nægilega sannað að hún hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar hún við þar tilgreint refsiákvæði.

 

Þann 12. júní 2017 var ákærða dæmd í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. Hún var þá einnig dæmd til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 26. mars 2018 var ákærða dæmd fyrir þjófnað og brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þar var um skilorðsrof að ræða og var skilorðsdómurinn frá 12. júní 2017 tekinn upp og ákærðu gert að sæta fangelsi í 45 daga, skilorðsbundið í tvö ár, en einnig að greiða 180.000 krónur í sekt og svipt ökurétti í fjóra mánuði. Þann 1. júní 2018 var ákærða enn dæmd fyrir þjófnað. Refsing í því máli var hegningarauki við dóminn frá 26. mars 2018 og var skilorðsbundna refsingin frá 26. mars sl. þá tekin upp og refsing ákveðin fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Loks hlaut ákærða dóm fyrir þjófnað þann 15. október 2018. Var þar um að ræða hegningarauka við dóminn frá 1. júní 2018. Sá skilorðsdómur var tekinn upp og refsing ákveðin fangelsi í 3 mánuði, skilorðsbundið í 2 ár.

Það brot sem ákærða er nú sakfelld fyrir er hegningarauki við þrjá síðastgreinda dóma. Ber því nú að gera henni hegningarauka er svari til þeirrar þyngingar hegningarinnar, sem kynni að hafa orðið, ef dæmt hefði verið um öll brotin í fyrra málinu, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess, og með hliðsjón af játningu ákærðu og aðstæðum þegar brotið var framið, verður ákærðu ekki gerð aukin refsing fyrir það brot sem hún er nú sakfelld fyrir. Þar sem refsing samkvæmt fyrri dómum var bundinn skilorði þarf þó að taka dóminn frá 1. júní sl. upp og er ákærða dæmd til að sæta fangelsi í þrjá mánuði.

Eins og að framan greinir var ákærða dæmd til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar þann 12. júní 2017. Það brot sem ákærða er nú sakfelld fyrir er það fjórða, eftir uppkvaðningu þess dóms, sem fer í bága við almenn skilyrði 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir því ekki fært að skilorðsbinda refsingu ákærðu.

Að kröfu ákæruvalds og með vísan til dómsniðurstöðu verður ákærða dæmd til greiðslu sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs verjanda hennar Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, sem í dómsorði er tilgreind að virðisaukaskatti meðtöldum.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða, Hanna Stella Georgsdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærða greiði sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hennar, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 84.320 krónur.