• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Skilorðsrof
  • Þjófnaður

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra mánudaginn 26. nóvember 2018 í máli

nr. S-166/2018:

 

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Auðuni Steindórssyni

 

Mál þetta, sem var dómtekið 16. nóvember sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsettri 15. október 2018, á hendur Auðuni Steindórssyni, [...], Akureyri

 

„fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 18. ágúst 2018, stolið einni flösku af Tinda vodka að verðmæti 3.869 krónur úr verslun Áfengis og tóbaksverslunar ríkisins að Hólabraut 16 á Akureyri.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-4369, Stuðlahálsi 2, Reykjavík gerir bótakröfu á hendur ákærða að fjárhæð kr. 3.869, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. ágúst 2018 til 6. október 2018 en síðan dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags.  Að auki er krafist lögmannskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem áskilinn er réttur til að leggja fram síðar.“

 

Ákærði sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði hefur nokkurn sakarferil sem nær aftur til ársins 2007 og hefur meðal fimm sinnum hlotið dóma fyrir þjófnað. Þann 31. desember 2010 var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði vegna þjófnaðar og tilraunar til þjófnaðar, aksturs undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti og brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Hann var næst dæmdur til fangelsisrefsingar 14. nóvember 2017, er hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga fyrir þjófnað, en refsingunni frestað skilorðsbundið í 1 ár. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð þess dóms. Ber því að taka þann dóm upp nú og dæma refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing ákærðu ákveðst nú fangelsi í 45 daga. Með hliðsjón af sakarferli ákærða þykir ekki unnt að binda refsinguna skilorði.

Með vísan til niðurstöðu málsins er krafa Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins tekin til greina, en þó þannig að upphafstími dráttarvaxta er 28. október 2018, þ.e. einum mánuði eftir að ákærða var kynnt krafa um bætur, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá greiði ákærði bótakrefjanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 40.000 krónur.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Arnbjörg Sigurðardóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Auðunn Steindórsson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-4369, 3.869 krónur, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. ágúst 2018 til 28. október 2018 en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. 

Ákærði greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 40.000 krónur í málskostnað.