• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Hegningarauki
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Tilraun
  • Þjófnaður

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 31. ágúst 2018 í máli

nr. S-128/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Brynju Hjördísi Pétursdóttur og

(Sigmundur Guðmundsson lögmaður)

Brynjari Þór Sigurðssyni

(Arnar Sigfússon lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 9. mars sl., endurupptekið og dómtekið á ný í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi með tveimur ákærum, sú fyrri útgefin 21. júní 2017 og sú seinni 22. júní 2017, á hendur Brynju Hjördísi Pétursdóttur, kt. [...] og Brynjari Þór Sigurðssyni kt. [...]:

 

Ákæra í máli S-128/2017:

„A.

Gegn ákærðu Brynju Hjördísi fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot:

 

I.      (Mál nr. 316-2016-9102)

Að hafa mánudaginn 21. nóvember 2016, stolið áfengisflösku (Beefeater gin) að verðmæti 2.899 krónur úr versluninni Vínbúðinni að Hólabraut 16 á Akureyri.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

II.    (Mál nr. 316-2016-9103)

Að hafa laugardaginn 26. nóvember 2016, stolið tveimur áfengisflöskum (Beefeater gin) að verðmæti 5.798 krónur úr nefndri vínbúð á Akureyri.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

B. (Mál nr. 316-2016-9523)

Gegn ákærðu Brynju Hjördísi fyrir fjársvik með því að hafa miðvikudaginn 28. desember 2016, farið á veitingastaðinn Strikið að Skipagötu 14 á Akureyri og pantað þar veitingar og áfengi fyrir 9.300 krónur og stungið síðan af frá reikningnum þegar hún hafði notið veitinganna.

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

C. (Mál nr. 007-2017-332)

Gegn ákærðu báðum, fyrir fjársvik, með því að hafa sunnudaginn 18. desember 2016, svikið 36.300 krónur af [F], með því að hafa notað tilbúinn facebookaðgang á nafni [D]og auglýst snjóbretti til sölu á sölusíðu facebook, og fá [A] þannig til að leggja nefnda upphæð inn á reikning ákærðu Brynju Hjördísar nr. [...], en þau afhentu síðan aldrei snjóbrettið.

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakar­kostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Í málinu eru gerðar eftirfarandi skaðabótakröfur:

1.     [F], gerir bótakröfu á hendur ákærðu báðum að fjárhæð kr. 36.300, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2016 til 10. mars 2017, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. (Mál nr. 007-2017-332)

2.   Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-44369, Stuðlahálsi 2, Reykjavík gerir bótakröfur á hendur ákærðu Brynju Hjördísi um að hún greiði kr. 5.798, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri upphæð frá 26. nóvember 2016 til 2. janúar 2017.  Eftir það er krafist dráttarvaxta sk. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags.  Að auki er krafist lögmanns­kostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

3.   Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, kt. 410169-44369, Stuðlahálsi 2, Reykjavík gerir bótakröfur á hendur ákærðu Brynju Hjördísi um að hún greiði kr. 2.899, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri upphæð frá 21. nóvember 2016 til 2. janúar 2017.  Eftir það er krafist dráttarvaxta sk. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna til greiðsludags.  Að auki er krafist lög­manns­kostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðar­reikningi.“

 

Ákæra í máli S-130/2017:

á hendur Brynjari Þór Sigurðssyni, ....

 

„fyrir tilraun til þjófnaðar, með því að hafa sunnudagskvöldið 8. janúar 2017, á veitingastaðnum La vita é bella, að Hafnarstræti 92 á Akureyri, tekið þrjár rauð­vínsflöskur að verðmæti samtals 15.050 krónur úr vínrekka inni í veitingastaðnum og falið þær innanklæða, en lögreglan fann flöskurnar á honum áður en hann komst með flöskurnar út af staðnum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakar­kostnaðar.“

 

Málin voru sameinuð.

Ákærði Brynjar Þór hefur játað sök samkvæmt ákærum. Hann fer fram á að sér verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.

Ákærða Brynja Hjördís krefst þess að sér verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og hún sýknuð af sakargiftum í köflum B og C í fyrri ákæru. Ákærða játar sök að öðru leyti.

Með játningum ákærðu, sem ekki er ástæða til að draga í efa að séu sannleikanum samkvæmar, telst sök þeirra nægilega sönnuð hvað varðar önnur ákæruatriði en þau sem greinir í köflum B og C í fyrri ákærunni. Háttsemin er rétt færð til refsiákvæða.

 

Kafli B í ákæru dagsettri 21. júní 2017

Lögregla var kvödd að veitingahúsinu Strikinu þann 28. desember 2016 klukkan 14:37, vegna þess að kona hafði yfirgefið staðinn án þess að greiða fyrir veitingar. Konunni var lýst svo að hún væri í svörtum hlífðarbuxum, bleikskræpóttum bretta­jakka og með þykkt Varma hárband. Lögregla ræddi við þjón á veitingahúsinu, sem lýsti konunni. Klukkan 15:01 hafði lögregla afskipti af ákærðu og svaraði fatnaður hennar til lýsingar þjónsins. Þjóninum var sýnd mynd af ákærðu á ,,facebook“ og staðfesti hún að um ákærðu væri að ræða. Ákærða var yfirheyrð daginn eftir. Kvaðst hún lítið muna en neitaði sök.

Ákærða kaus að gefa ekki skýrslu fyrir dómi. Þjónninn, E, ber að hún hafi verið að þjóna á Strikinu. Kona hafi komið og pantað hádegis­verð. Hún hafi einnig pantað flösku af víni og drukkið tvo bjóra. Hún hafi síðan farið út að reykja, en tekið lyftuna niður. Lögreglan hafi sýnt sér mynd, og hún borið kennsl á konuna á myndinni með fullri vissu.

Með framburði vitnisins E þykir sannað svo hafið sé yfir skynsam­legan vafa að ákærða hafi verið að verki. Verður hún sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í þessum ákærulið og varðar við tilgreint refsiákvæði í ákæru.

 

Kafli C í ákæru dagsettri 21. júní 2017

Eins og áður segir kaus ákærða að tjá sig ekki fyrir dómi.

Meðákærði kveðst hafa verið einn að verki, en fengið heimild ákærðu til að söluverð snjóbrettisins yrði lagt inn á reikning hennar. Hann kveðst hafa verið í samskiptum við brotaþola, en ekki vita hvort brotaþoli og ákærða höfðu samband sín á milli.

Vitnið F kveðst hafa fundið snjóbretti til sölu á vefnum. Seljandinn hafi nefnst D. Hún hafi greitt fyrir brettið 35.000 krónur inn á reikning sem seljandinn hafi gefið upp. Hann hafi sagst mundu senda brettið en síðan hafi hún ekki náð sambandi við hann. Hún hafi haft kennitölu reiknings­eigandans, ákærðu, og náð sambandi við föður hennar. Ákærða hafi eftir það haft samband og sagst vera einstæð móðir. Hún hafi nefnt einhvern G. Við hann hafi ekki náðst samband, en ákærði Brynjar Þór hafi svarað og sagst kannast við þann mann. Ákærða hafi hins vegar ekkert viljað kannast við ákærða Brynjar Þór.

Fyrir liggur að andvirði brettisins var lagt inn hjá ákærðu. Framburður brotaþola þykir trúverðugur og þykir mega miða við hann. Samkvæmt honum reyndi ákærða að viðhalda blekkingum um seljanda. Verður talið nægilega sannað að hún hafi staðið að fjársvikunum með meðákærða. Varðar það við tilgreint refsiákvæði í ákæru.

 

Ákvörðun refsingar, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærða Brynja Hjördís er hér sakfelld fyrir tvö þjófnaðarbrot og tvö fjársvika­brot. Brotin eru ekki stórfelld. Ákærða var þann 2. febrúar 2016 dæmd í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár fyrir nytjastuld og akstur undir áhrifum áfengis, svipt ökurétti. Hún var þann 13. desember sama ár dæmd til að sæta hegningarauka, skilorðsdómurinn tekinn upp og hún dæmd í 90 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir brot gegn valdstjórninni. Loks var hún dæmd þann 26. júní 2017 í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn valdstjórninni. Dómurinn frá 13. desember 2016 var tekinn upp og dæmdur með. Brot þau sem ákærða er nú sakfelld fyrir voru öll framin fyrir uppsögu dómsins frá 26. júní 2017. Refsing ákærðu vegna þeirra verður ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 60. gr. sömu laga verður framangreindur skilorðsdómur frá 26. júní 2017 tekinn upp og ákærðu dæmd refsing í einu lagi fyrir öll brotin. Refsing verður tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði, sem bundin verður skilorði sem í dómsorði greinir.

Ákærði Brynjar Þór er hér sakfelldur fyrir fjársvik og tilraun til þjófnaðar. Hvorugt brotið er stórfellt. Hann á nokkurn sakaferil að baki. Hér verður rakið að hann var 23. nóvember 2011 dæmdur í 45 daga fangelsi og til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Þann 11. júní 2014 var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði fyrir fjársvik, nytjastuld og brot gegn umferðarlögum. Þann 9. janúar 2017 var tekin ákvörðun um afplánun refsivistar samkvæmt báðum dómunum, vegna rofs á skilyrðum samfélagsþjónustu.

Refsing ákærða nú verður ákveðin fangelsi í 45 daga. Hefur þá verið litið til þess að hann kveðst hafa breytt lífi sínu til hins betra.

Ákærðu verða dæmd til að greiða skaðabætur eins og krafist er. Bótakröfur ÁTVR voru birtar ákærðu Brynju Hjördísi þann 29. desember 2016 og verða dráttarvextir dæmdir er mánuður var liðinn frá þeim degi. Málskostnaður ákveðst 50.000 krónur. Bótakrafa F var birt ákærðu Brynju Hjördísi þann 9. febrúar 2017 og verða dráttarvextir dæmdir eins og krafist er. Þá verða ákærðu dæmd til að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna eins og greinir í dómsorði að virðisaukaskatti meðtöldum. Enn fremur verður ákærði Brynjar Þór dæmdur til að greiða 48.375 krónur vegna ferðakostnaðar sem ákæruvaldið lagði út fyrir hann.

Erlingur Sigtryggsson dómstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ákærða Brynja Hjördís Pétursdóttir sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Ákærði Brynjar Þór Sigurðsson sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærða Brynja Hjördís greiði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 8.697 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 2.899 krónum frá 21. nóvember 2016 til 26. nóvember 2016, af 8.697 krónum frá þeim degi til 29. janúar 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 8.697 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 50.000 krónur í málskostnað.

Ákærðu greiði í sameiningu F 36.300 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. desember 2016 til 10. mars 2017, en dráttarvöxtum samkvæm 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærða Brynja Hjördís greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 263.500 krónur.

Ákærði Brynjar Þór greiði 264.445 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Sigfússonar lögmanns, 216.070 krónur.