• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 7. júní 2018 í máli

nr. S-259/2017:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal fulltrúi)

gegn

Sævari Má Bjarkasyni

(Kristján Stefánsson lögmaður)

 

Mál þetta sem var dómtekið 30. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari hér fyrir dómi 9. nóvember 2017, á hendur Sævari Má Bjarkasyni, kt. 150397-3089, …, Hafnarfirði;

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 13. apríl 2016, á […], slegið A einu höggi aftan við vinstra eyra með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli við þreifingu aftan og neðan við eyrað og niður eftir hálsvöðva og tak í vöðvanum við snúning og við að halla undir flatt til beggja hliða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakar­kostnaðar.“

 

Ákærði krefst sýknu.

Málið var þingfest 10. janúar sl. Varð þá útivist af hálfu ákærða og var málið dómtekið og dæmt samdægurs.  Þann 15. febrúar barst beiðni um endurupptöku og var fallist á hana þann 1. mars sl.  Voru réttaráhrif dómsins frá 10. janúar þá felld úr gildi. 

 

I

Þann 14. apríl 2016 kom A á lögreglustöð […] og kærði ákærða fyrir líkamsárás og hótanir daginn áður á […].  Rannsakaði lögregla málið í kjölfarið með því að taka skýrslur af brotaþola, ákærða og vitnum og afla læknis­vottorðs.  Liggur fyrir vottorð heilbrigðisstofnunar Norðurlands um að brotaþoli hafi leitað til heilsugæslunnar á […] 14. apríl 2016 og sagst hafa verið sleginn með stöku höggi aftan við vinstra eyra.  Segir í vottorðinu að við skoðun sé ekkert mark­vert að sjá, brotaþoli hafi verið aumur við þreifingu við skekilhyrnu, beinhyrnu aftan og neðan við eyra og aðeins niður eftir vöðva sem liggi frá skekilhyrnunni niður að ofanverðu bringubeini, hliðlægur hálsvöðvi vinstra megin.  Hann hafi haft eðlilega hreyfigetu í hálsi en fundið fyrir taki í þessum vöðva við snúning og að halla undir flatt til beggja hliða.  Ekki hafi verið einkenni frá hálsliðum, heilahristingseinkenni, leiðni­verkir eða önnur einkenni niður í handleggi. 

 

II

[Ekki er unnt að rekja málavexti án þess að unnt verði að persónugreina vitni]

 

III

Svo sem hér hefur verið rakið, bera brotaþoli og vitnin B, C, D og E að hafa séð ákærða slá brotaþola í greint sinn. 

Gegn þessu stendur framburður ákærða og unnustu hans, sem verður ekki metinn trúverðugur. Þykir nægileg sönnun fram komin með framangreindum vitna­skýrslum sem eru í góðu samræmi við vitnaskýrslur fyrir lögreglu að ákærði hafi slegið brotaþola í greint sinn.  Brotaþoli gegndi og gegnir opinberum starfa og var við störf er brotið var framið.  Að þessu gættu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru er lýst og varðar við þar tilgreind refsiákvæði. 

Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar, sem þykir hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og ferða­kostnað hans, sem ákveðst að álitum eins og í dómsorði einir, hvort tveggja að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri. 

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Sævar Már Bjarkason, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 632.400 krónur og ferðakostnað hans, 63.488 krónur.