• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 8. maí 2019 í máli

nr. S-223/2017:

Ákæruvaldið

(Agnes Björk Blöndal, fulltrúi lögreglustjóra)

gegn

X

(Júlí Ósk Antonsdóttir, lögmaður og skipaður

verjandi ákærða)

(Auður Hörn Freysdóttir, lögmaður og skipaður

réttargæslumaður brotaþola)

 

Mál þetta, sem dómtekið var þann 8. apríl sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 24. október 2017, á hendur X;

„fyrir kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa, í eitt skipti á tímabilinu nóvember til desember 2013, í bifreið sem fyrst var lagt við verkstæði Vegagerðarinnar að [...] og síðar á vegslóða skammt norðan við [...], kysst [A], sem þá var 14 ára, tungukossum, snert brjóst hennar utanklæða og látið hana snerta getnaðarlim sinn og fróa sér.

Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Endanleg einkaréttarkrafa hljóðar svo:

„Af hálfu [A], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni 1.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá 11. júní 2016 til greiðsludags. Þá er krafist hæfilegra þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.“

 

Ákærði hefur fyrir dómi, m.a. við þingfestingu málsins, játað hluta sakargifta samkvæmt ákæru. Að auki samþykkti ákærði bótaskyldu, en andmælti bótafjárhæðinni sem of hárri.

Dómkröfur skipaðs verjanda, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, eru að ákærði verði sýknaður af hluta sakargifta og af refsiákvæði 1. mgr. 202. gr. hegningarlaganna. Þá gerir verjandinn þá kröfu að ákærða verði ekki gerð refsing í málinu. Til vara krefst verjandinn þess að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin. Enn fremur krefst verjandinn þess að fjárhæð einkaréttarkröfu verði lækkuð. Loks krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ. á m. hæfileg málsvarnarlaun hennar samkvæmt málskostnaðarreikningi, en verjandinn andmælir og sérstaklega kröfu ákæruvalds um greiðslu ritvinnslukostnaðar.

 

I.

Málsmeðferð.

1.         Samkvæmt rannsóknarskjölum lögreglu og öðrum gögnum kom brotaþolinn, A, ásamt móður sinni, á lögreglustöðina á Akureyri 21. janúar 2016 þeirra erinda að bera fram kæru á hendur ákærða í máli þessu, X, fyrir kynferðisbrot. Fram kom að hið ætlaða brot ákærða hefði gerst í bifreið á ... í nóvember- eða desembermánuði 2013, en fyrir liggur að ákærði var þá 17 ára en brotaþoli 14 ára.

Samkvæmt skýrslum lögreglu var brotaþoli yfirheyrð um kæruefnið 28. janúar 2013.

Samkvæmt rannsóknarskjölum var ætlaður brotavettvangur annars vegar á athafnasvæði Vegagerðarinnar á ...., og hins vegar á vegarslóða við svokallaðan ..., sem er norðan bæjarfélagsins.

Samkvæmt rannsóknarskýrslum var ákærði yfirheyrður um kæruefnið 11. maí 2016, að viðstöddum tilnefndum verjanda sínum, en við yfirheyrsluna var honum m.a. kynnt fyrrnefnd einkaréttarkrafa, sem er dagsett 24. febrúar sama ár.

Samkvæmt gögnum var brotaþoli yfirheyrð á nýjan leik um kæruefnið 4. október 2017, en þann dag yfirheyrði lögreglan jafnframt tvær vinkonur brotaþola, henni jafnaldra, þær B og C.

 

2.         Eins og fyrr sagði höfðaði héraðssaksóknari mál þetta með ákæru þann 24. október 2017. Ákæran, ásamt rannsóknargögnum lögreglu, barst Héraðsdómi Norðurlands eystra 30. október sama ár. Fyrirkall dómsins, útgefið 7. nóvember 2017, var birt ákærða 8. sama mánaðar.

Við þingfestingu málsins fyrir dómi, þann 28. nóvember 2017, játaði ákærði, eins og áður sagði, verknaðarlýsingu ákæru að hluta. Hann játaði þannig að hafa í greint sinn ekið í bifreið með brotaþola, stúlkuna A, sem hann hafði vitneskju um að þá var 14 ára, og að hafa kysst hana tungukossum og að hafa snert brjóst hennar utanklæða. Jafnframt játaði ákærði að hafa látið stúlkuna snerta getnaðarlim sinn, en við aðalmeðferð málsins tjáði hann sig nánar um það sakaratriði. Við þingfestinguna neitaði ákærði, líkt og við aðalmeðferðina, því sakaratriði að hann hefði í greint sinn látið stúlkuna fróa sér.

Í þinghaldi þann 22. desember 2017 var vottorð sérfræðings Barnahúss um brotaþola lagt fram, en að öðru leyti var sýnilegri gagnöflun lýst lokið af hálfu sakflytjenda.

 

3.         Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 4. janúar 2018, var tilkynnt að lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra hefði að ósk héraðssaksóknara verið falið að fara með saksókn málsins.

Aðalmeðferð málsins fyrir dómi fór fram 29. október sama ár, en þá gáfu skýrslur, auk ákærða, áðurgreind vitni, en einnig D, sálfræðingur í Barnahúsi. Ekki var þó lokið dómi á málið.

 

4.         Með bréfi dómstólasýslunnar, dagsettu 21. febrúar sl., var undirrituðum dómara falin meðferð máls þessa, á grundvelli ofangreindra atvika og 33. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Fór aðalmeðferðin því fram að nýju, þann 8. apríl sl.

 

II.

Málsatvik.

1.         Samkvæmt gögnum eru helstu málsatvik þau að ákærði og brotaþoli hafa allt frá árinu 2011 verið í allnokkrum samskiptum á rafrænum samskiptamiðlum, en þau hafa verið búsett í sama sveitarfélaginu. Þau hafa því um árabil þekkt vel til hvort annars, m.a. aldur, en að auki eru þau fjarskyld. Af gögnum verður hins vegar ráðið að þau hafi haft takmörkuð samskipti sín í milli augliti til auglitis og að hið sama virðist hafa gilt um fjölskyldur og aðra nána ættingja þeirra.

Óumdeilt er að brotaþoli var á árinu 2013 í nánum tygjum við pilt, sem fæddur er árið 1993 eða 1994, og að hann hafði fyrri hluta vetrar, í október eða nóvember, farið í áfengis- og vímuefnameðferð. Liggur fyrir að ákærða var þessi staða kunn þegar atvik máls gerðust, en hann hafði þá um haustið hafið framhaldsskólanám í nágrannasveitarfélagi. Á nefndu tímabili lagði ákærði helst leið sína í heimbyggð, í foreldrahús, um helgar.

Ráðið verður af gögnum að brotaþoli hafi verið í samskiptum við ákærða undir helgi um mánaðamótin nóvember/desember 2013 og að hún hafi þá beðið hann um að kaupa fyrir sig sígarettupakka, enda hafði hún ekki aldur til slíkra kaupa, auk þess sem kærastinn hennar var þá ekki viðlátinn. Liggur fyrir að ákærði varð við þessari bón brotaþola og að þau hafi í framhaldi af því ákveðið að hittast skömmu eftir miðnættið og þá þannig að foreldrar brotaþola yrðu ekki varir við það þegar hún færi út af heimilinu. Gekk þetta allt eftir.

 

2.         Af gögnum verður ráðið að ákærði hafi í greint sinn ekið sem leið lá frá heimili foreldra sinna, á fólksbifreið fjölskyldunnar, að heimili brotaþola. Og eftir að brotaþoli hafði komið inn í bifreiðina og greitt fyrir sígarettupakkann hafi ákærði ekið um en fljótlega farið að athafnasvæði Vegagerðarinnar við ..., sem er sunnan til í sveitarfélaginu. Liggur fyrir að eftir nokkra viðdvöl og samskipti við brotaþola á nefndum vettvangi, utan og innan bifreiðar, hafi ákærði ekið sem leið lá, ásamt brotaþola, í norðurhluta sveitarfélagsins, nærri svokölluðum ..., en eftir svipaða atburðarás og á hinum fyrri vettvangi hafi hann ekið brotaþola til síns heima.

 

III.

Nánar um málsatvik og skýrslur.

1.         Við fyrrnefnda yfirheyrslu hjá lögreglu skýrði ákærði frá því að hann hefði hitt brotaþola nærri heimili hennar umrædda nótt, um kl. 01-01:30, og þá í þeim tilgangi að afhenda henni áðurnefndan sígarettupakka. Og eftir að brotaþoli var komin inn í bifreið hans hafi hann ekið með hana að athafnasvæði Vegagerðarinnar, en þar hafi þau farið út úr bifreiðinni til þess að reykja, en að því búnu hafi þau farið aftur inn í bifreiðina.

Ákærði bar að í fyrri samskiptum við brotaþola á samskiptamiðlum á netinu hefði hann haft orð á eigin vanlíðan. Jafnframt staðhæfði hann að brotaþoli hefði í slíkum samskiptum þeirra haft orð á því að hún væri viljug til þess að gera sitthvað með honum kynferðislega.

Ákærði skýrði frá því að þegar hann var í samskiptum við brotaþola á athafnasvæði Vegagerðarinnar umrædda nótt hafi hann gætt sérstaklega að höndum hennar þar sem hann hefði haft vitneskju um að hún hefði verið að skera sig. Í því viðfangi og í ljósi þess sem síðar gerðist í aftursæti bifreiðarinnar kvaðst hann hafa innt brotaþola eftir eigin líðan, en staðhæfði að hún hefði brugðist við, en að síðan hefði eitt leitt af öðru, en hann lýsti þessum samskiptum nánar þannig: „... hún byrjar að kyssa mig og ... við förum að vísu út á milli og hérna reykjum eina sígarettu ... síðan förum við aftur inn í bíl ... síðan heldur það aðeins áfram og verður síðan svona smá káf og eitthvað svoleiðis, ... ég byrja svona aðeins að káfa á henni ... það er brjóstin ... en ég man ekki alveg eftir því hvort ég hafi farið inn fyrir brjóstahaldarann eða eitthvað ... síðan setur hún hendina í klofið á mér ... utan klæða ... og er þar í smá stund og síðan hneppi ég frá ... buxunum ... og girði smá niðrum mig og læt hana ... eða sem sagt tek í rauninni hendinni á henni og set hana á typpið á mér ... læt ég hana snert á mér typpið ... hún í rauninni er bara kjurr þar sko ... við höldum áfram að kyssast þarna eitthvað og síðan hættum við því ...“

Ákærði staðhæfði að brotaþoli hefði aldrei afklæðst eigin fötum á meðan á þessum samskiptum stóð, og bar að hún hefði m.a. ávallt verið íklædd úlpu. Aðspurður af rannsakara kannaðist ákærði ekki við þá frásögn brotaþola að hann hefði haft orð á því við hana að hann vildi hafa við hana endaþarmsmök og sagði: „Nei. ... Mér finnst það eiginlega bara mjög ógeðslegt.“ Ákærði staðhæfði að í raun hefðu engar samræður farið fram meðan á nefndum samskiptum stóð og þá ekki í aftursæti bifreiðarinnar, en aðspurður kvaðst hann ekki hafa ætlað annað en að brotaþoli hefði verið vakandi allan tímann, og sagði: „... það held ég alla vega.“

 

Ákærði skýrði frá því að í kjölfar ofangreindra samskipta við brotaþola hefði hann ekið bifreiðinni aðeins um götur sveitarfélagsins, en síðan ekið sem leið lá norður fyrir bæinn og að kennileitinu ... . Bar hann að þegar þangað kom hefðu hann og brotaþoli haldið áfram að reykja, en hann lýsti framhaldinu nánar þannig: „... síðan kysstumst við bara aðeins, og í rauninni gerist ekkert meira þar ... það hefur örugglega verið bara eitthvað smá káf, en það var ekkert meira en það sko ... það er meira sem að gerist á fyrri staðnum ... við hættum bara að kyssast og í rauninni förum bara á rúntinn aftur og ég skutla henni síðan heim og hún segir bara, „við sjáumst ... eða heyrumst eða eitthvað svoleiðis.“

 

Ákærði greindi frá því að brotaþoli hefði verið í netsamskiptum við hann skömmu eftir lýst samskipti þeirra og ætlaði helst að það hefði verið strax daginn eftir. Við nefnda yfirheyrslu lögreglu lýsti hann samskiptunum þannig: „... hún segir að ég hafi brotið á sér kynferðislega eða eitthvað svoleiðis ... segir ekkert meir um það ... Mér líður alls ekki vel með það sko og fer bara að biðjast afsökunar og eitthvað.“

Ákærði staðhæfði að hann hefði nokkrum sinnum rætt greint málefni við brotaþola eftir þetta, en bar að hún hefði að lokum lokað fyrir öll netsamskipti þeirra.

 

2.         Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi lýsti ákærði samskiptum sínum við brotaþola á þá leið að þau hefðu verið trúnaðarvinir og áréttaði að umræðuefnið í netsamskiptum þeirra hefði iðulega varðað andlega líðan þeirra beggja og gagnkvæma erfiðleika á því sviði. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að þau hefðu með þessum hætti verið að aðstoða hvort annað. Ákærði lýsti að öðru leyti eigin vitneskju varðandi vanlíðan brotaþola með sama hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu, en um eigin vanlíðan vísaði hann m.a. til þess að á haustönn árið 2013 hefði hann þurft að þiggja aðstoð sálfræðings.

Nánar aðspurður fyrir dómi staðfesti ákærði fyrri frásögn sína hjá lögreglu, þ. á m. um hin takmörkuðu beinu samskipti hans við brotaþola, en einnig að því er varðaði þann aðdraganda sem leiddi til þess að þau hittust umrædda nótt. Hann sagði jafnframt frá því að í rauninni hefði þetta verið í fyrsta skiptið sem þau hittust ein augliti til auglitis.

Ákærði lýsti samskiptum sínum við brotaþola á athafnasvæði Vegagerðarinnar á svipaðan hátt og hann hafði áður gert hjá lögreglu, og staðfesti m.a. að hann hefði spurst fyrir um líðan hennar, og að hún hefði þá brugðist við með því að kyssa hann í stað þess að svara spurningunni. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa séð nein áverkamerki eða skurði á handleggjum brotaþola í greint sinn og bar að eftir þessa orðræðu og athafnir hefðu þau bæði farið út úr bifreiðinni og í framhaldi af því reykt sígarettur. Við þær aðstæður kvaðst hann hafa spurt brotaþola hvort hún vildi fara með honum í aftursæti bifreiðarinnar. Ákærði sagði að brotaþoli hefði fallist á það og bar að þau hefðu eftir það komið sér fyrir í aftursætinu, en þá þannig að þau hafi verið andspænis hvort öðru, en að auki kvað hann þau hafa hallað sér að hvort öðru. Við nefndar aðstæður kvað hann þau hafa haldið áfram að kyssast, en að auki kvaðst hann hafa káfað á brotaþola. Ákærði lýsti atburðarásinni nánar þannig: „... ég fer með hendina á brjóstin á henni og er bara aðeins að káfa og ég hef mjög líklega farið á lærið á henni líka. Síðan svona einhvern veginn tek ég í hendina á henni og fer með hana í klofið á mér ... utanklæða ... við höldum bara áfram að kyssast og svoleiðis ... og svo gerist ekkert þannig eða svoleiðis ...“ Aðspurður hvort hreyfing hafi verið á hendi brotaþola við nefndar aðstæður svaraði ákærði: „Já og nei, það voru einhverjar hreyfinga, en ekkert eitthvað þannig ...“ Ákærði neitaði því aðspurður að hafa haldið í hönd brotaþola þegar þarna var komið sögu og bar að hann hefði í raun ekki haft stjórn á handahreyfingum hennar. Nánar aðspurður, þ. á m. hvort brotaþoli hefði verið vakandi þegar atvik þessi gerðust, svaraði hann: „... ég myndi reikna með því, meðan að hún var að kyssa mig allan tímann, þannig já.“

Ákærði ætlaði að lýst atburðarás á athafnasvæði Vegagerðarinnar hefði varað í u.þ.b. 30 mínútur.

Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum máls við ... með líkum hætti og hann hafði áður gert hjá lögreglu, en sagði að þar hefði aðeins verið um gagnkvæma kossa að ræða og þá í aftursæti bifreiðarinnar. Þá kvaðst hann minnast þess sérstaklega að þau hefðu m.a. reykt sígarettu inni í bifreiðinni, en þar um vísaði hann til þess að móðir hans hefði ávítað hann vegna reykingarfnyksins.

Ákærði ætlaði að þau hefðu staldrað við nærri ... í u.þ.b. 30 mínútur, en í framhaldi af því kvaðst hann hafa ekið brotaþola til síns heima, en þá e.t.v. eftir að hafa rúntað aðeins með hana.

Það var ætlan ákærða að samverutími hans með brotaþola umrædda nótt hefði í heildina varað í um tvær til tvær og hálfa klukkustund og staðhæfði að þau hefðu á þeim tíma reykt hvort um sig þrjár sígarettur og andmælti hann andstæðri frásögn brotaþola um að þær hefðu verið fleiri.

 

3.         Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði í raun ekki muna atvik máls „ótrúlega vel.“ Vísaði hann þar um sérstaklega til þess að langt væri um liðið. Ákærði kvaðst til að mynda ekki með vissu geta greint á milli atvika, annars vegar þeirra sem gerðust á athafnasvæði Vegagerðarinnar og hins vegar á vegarstæðinu við ... . Ákærði kvaðst á síðari stigum hafa reynt að rifja upp margnefnd samskipti við brotaþola og staðhæfi að hann myndi sum atvikin í rauninni betur en hann hafði gert við yfirheyrsluna hjá lögreglu; „... eftir að hafa hugsað vel og lengi ...“ þó svo að önnur tilvik hefðu verið ferskari í minni hans hjá lögreglunni.

Ákærði kvaðst í ljósi þessa telja sig muna það að hann hafi aldrei fært buxur sínar niður, en sagði nánar þar um: „Mér finnst ekki að þetta hafi gerst svona … eins og ég segi það eru sex ár síðan þetta átti sér stað, en ég alla veganna man þetta ekki svona ... alla veganna í dag.“ Vegna þessa kvað hann frásögn brotaþola um þennan þátt atburðarásarinnar rangan.

Ákærði skýrði jafnframt frá því fyrir dómi og áréttaði að eftir upprifjun hans á málsatvikum minntist hann þess að brotaþoli hefði er atvik gerðust snert typpið á honum, en þá aðeins utan klæða. Hann staðhæfði að því hefði hún ekki komið við „bert typpið.“ Ákærði staðhæfði jafnframt að brotaþoli hefði aldrei fróað honum og sagði: „... ég man það að það gerðist ekki.“ og andmælti hann frásögn hennar að því leyti.

Þá staðhæfði ákærði að hann hefði aldrei veitt því eftirtekt að brotaþoli hefði verið hnuggin umrædda nótt og enn fremur kvaðst hann aldrei hafa séð hana gráta og ekki heldur að hún væri sofandi.

Nánar aðspurður hafði ákærði ekki skýringar á því misræmi sem var á hans framburði, m.a. fyrir dómi, og frásögn brotaþola.

 

4.         Fyrir dómi áréttaði ákærði frásögn sína hjá lögreglu um að hann hefði verið í samskiptum við brotaþola skömmu eftir lýst samskipti þeirra. Kvaðst hann hafa fengið skilaboð frá henni á snapchat daginn eftir, sem hefðu efnislega hljóðað á þá leið að hann hefði brotið gegn henni. Viðbrögðum sínum og viðhorfum vegna þessa lýsti ákærði nánar þannig: „... ég baðst afsökunar bara strax og sagði að það var ekki ætlunin og allt svoleiðis ... en ég í rauninni vissi ekki hvað hún var að tala um ...“ Ákærði kvaðst hafa ákveðið að bregðast við með þessum hætti þar sem hann hefði viljað virða upplifun og uppnám brotaþola, en þá jafnframt haft í huga að e.t.v. hefði hann gert eitthvað „... sem hún hafi ekki viljað ... en mér fannst það ekki í rauninni, við voru í rauninni bara þarna að kyssast og svoleiðis og mér fannst ég ekki vera að gera neitt rangt nema það að hún var of ung, það var það eina sem mér fannst rangt á þessum tíma.“

Ákærði staðhæfði að eftir hin síðastgreindu netsamskipti hefðu nær engin samskipti verið með honum og brotaþola, þó svo að þau hefðu einstaka sinnum rekist á hvort annað í partýum, enda byggju þau í fremur litlu samfélagi. Ákærði kvaðst þó minnast þess að hafa hitt brotaþola að máli í eitt skipti árið 2017, og staðhæfði að hún hefði þá komið til hans grátandi og beðið hann afsökunar „á þessu öllu saman og svoleiðis“, þ.e. á kærunni, en bar að þau hefðu í raun ekki rætt málefnið frekar.

 

5.         Brotaþolinn, stúlkan A, skýrði frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu, þann 28. janúar 2016, að eftir að hafa verið í netsamskiptum við frænda sinn, ákærða, í greint sinn, og þá vegna óska hennar um að hann keypti fyrrnefndan sígarettupakka og eftir að hann hafði komið akandi að heimili hennar, hefði hann boðið henni á rúntinn. Hún kvaðst hafa þekkt ákærða er þetta gerðist í u.þ.b. í tvö ár og litið á hann sem vin sinn og bar að atvik máls hefðu gerst eftir miðnættið og því hefðu foreldrar hennar verið sofandi þegar hún fór út af heimilinu. Hún kvaðst hafa þegið akstursboð ákærða og sagði að hann hefði ekið tiltölulega fljótlega að athafnasvæði Vegagerðarinnar við suðurhluta sveitarfélagsins þar sem þau hefðu ætlað að fá sér að reykja og bar að það hefði allt gengið eftir, en þá fyrir utan bifreiðina. Hún sagði að eftir þetta hefðu þau á ný farið inn í bifreiðina, en þá farið í aftursætið að ósk ákærða og í framhaldi af því kvað hún þau hafa byrjað að kyssast.

Stúlkan staðhæfði að er hér var komið sögu hefði hún verið ráðvillt og því tekið það til bragðs að reykja mikið og þá til þess að komast hjá athöfnum ákærða. Þess á milli kvaðst hún hafa látið sem hún væri sofandi og því hallað höfðinu að öxl ákærða þar sem þau hefðu bæði setið í aftursætinu, en að auki kvaðst hún hafa grátið og ekki þorað að andmæla athæfi ákærða. Hún sagði að ákærði hefði haldið áfram að kyssa hana, en hins vegar aldrei farið inn fyrir fötin hennar. Í þess stað kvað hún ákærða hafa tekið eigin föt eitthvað niður um sig, en í framhaldi af því hafi hann tekið hönd hennar og notað hana til þess að runka sér, en sagði um það nánar: „Hann tók utan um höndina mína, setti hana í hendina sína og runkaði sér.“ Hún kvaðst á meðan á þessu athæfi ákærða stóð sem fyrr hafa látið sem hún væri sofandi og sagði: „Mig minnir að ég hafi svona vaknað, þóst vakna og bara teygði hendina frá.“ og bar að ákærði hefði þannig að lokum hætt, en hún ætlaði að hann hefði ekki fengið sáðlát.

Stúlkan greindi frá því að eftir að ákærði hafði ekið frá athafnasvæði Vegagerðarinnar hefði hann ekið bifreiðinni sem leið lá í norðurhluta sveitarfélagsins og síðan lagt bifreiðinni þar.

Nánar aðspurð af rannsakara kvaðst A ekki fyllilega muna hvort ákærði hefði runkað sér með ofangreindum hætti á nefndum stað, þ.e. norðan við sveitarfélagið, ellegar á hinum fyrrnefnda stað, á athafnasvæði Vegagerðarinnar. Hún kvaðst hins vegar minnast þess að á síðarnefnda staðnum hefði ákærði káfað á henni og bar að hún hefði þá líkt og áður látið sem hún væri sofandi. Að auki kvaðst hún hafa gripið til þess ráðs að reykja mikið og staðhæfði að þau tvö hefðu nær klárað sígarettupakkann umrædda nótt.

Stúlkan sagði að auk lýstra athafna hefði ákærði borið þá spurningu upp hvort hún vildi eiga við hann endaþarmsmök og bar að hann hefði í því viðfangi verið með vorkunnartal og þá um að langt væri um liðið frá því að hann hefði sofið hjá síðast. Hún kvaðst helst ætla að þessi síðasta orðræða ákærða hefði gerst á fyrrnefndum norðurvettvangi, en hún kvaðst hafa hafnað fyrirspurninni og sagði að ákærði hefði að lokum hætt hinu kynræna athæfi og í framhaldi af því ekið henni heim.

Stúlkan skýrði frá því við lögregluyfirheyrslu að hún hefði fyrst greint tveimur vinkonum sínum, vitnunum B og C, frá athæfi ákærða, en þá „bara aðalatriðin.“

Hún sagði frá því að ákærði hefði hringt til hennar daginn eftir nefnd samskipti þeirra og staðhæfði að hann hefði þá grátið og haft á orði að hún hefði ekki átt þetta skilið, en í framhaldi af því hefði hann beðið hana afsökunar. Hún kvaðst í þessu samtali þeirra einnig hafa grátið, en um ástæðu þess sagði hún: „... af því að það var allt í fokki heima hjá mér.“ Stúlkan kvaðst hafa sagt unnusta sínum frá athæfi ákærða, en þá fyrst eftir að hann hafði lokið meðferð sinni í lok árs 2013, en hún kvaðst raunar hafa byrjað með honum þann 26. nóvember nefnt ár.

Stúlkan A skýrði frá því að hún hefði afráðið að skýra þeim sérfræðingi sem hún var til meðferðar hjá í Barnahúsi ekki frá lýstu athæfi ákærða, en hún kvaðst er atvik máls gerðust hafa verið til meðferðar vegna annarra mála, sem hefðu gerst fyrr á árinu 2013. Þá kvaðst hún heldur ekki hafa greint rannsóknaraðilum hjá lögreglu frá athæfi ákærða þegar hún var yfirheyrð um þessi eldri mál þann 9. desember 2013. Skýrði hún þessa þögn sína á þá leið að hún hafi bara ekki fengið það af sér, auk þess sem hún hefði á þeirri stundu kennt sjálfri sér um, en einnig sökum þess að hún hafi ekki viljað skemma fyrir fjölskyldu sinni.

 

Stúlkan A gaf seinni skýrslu sína hjá lögreglu þann 4. október 2017. Við yfirheyrsluna svaraði stúlkan m.a. lokuðum spurningum rannsakara um áðurlýst samskipti hennar og ákærða. Jafnframt var henni við yfirheyrsluna að nokkru kynnt áðurrakin skýrsla ákærða hjá lögreglu.

Stúlkan skýrði frá því að eftir að hún hafði farið í bifreið ákærða umrædda nótt hefðu þau bara spjallað, en jafnframt staðhæfði hún að tilgangurinn með því að aka með ákærða á athafnasvæði Vegagerðarinnar hefði verið að reykja sígarettur. Að því loknu hefði það verið ætlan hennar að fara aftur á heimili sitt. Hún staðhæfði að við nefndar aðstæður hefði ákærði haft frumkvæðið að því að kyssa hana og andmælti hún gagnstæðri frásögn ákærða. Hún staðhæfði jafnframt að viðbrögð hennar í fyrstu hefðu verið þau að hún hefði „frosið“ en síðan hefði hún ákveðið að taka á móti atlotum ákærða og sagði að þau hefðu í raun staðið yfir í alllangan tíma, en þó með hléum þar sem hún hefði m.a. reykt fleiri sígarettur. Aðspurð kvaðst stúlkan í raun aldrei hafa andmælt gjörðum ákærða, en þó haft orð á því að hún þyrfti að fara til síns heima þar sem móðir hennar færi að vakna.

Stúlkan lýsti atvikum máls að öðru leyti með svipuðum hætti og hún hafði áður gert við hina fyrri yfirheyrslu. Hún kvaðst þannig hafa verið í aftursæti bifreiðarinnar með ákærða og sagði að þegar þar var komið sögu hefði hún þóst vera sofandi, en af þeim sökum hefði hún lagt höfuð sitt á öxl ákærða. Um athæfi ákærða við þessar aðstæður sagði hún nánar: „... hann tók í höndina á mér ... og færði hana að sér ... hann fer ekki beinlínis úr, bara girti niður um sig ... ég man það ekki alveg, en hann fór ekki alveg úr öllu.“ Aðspurð af rannsakara svaraði stúlkan beinni spurningu hans játandi um að ákærði hefði látið hönd hennar á liminn á sér. Nánar aðspurð kvaðst hún ekki muna hvort limurinn hefði þá verið „harður eða linur.“ Aðspurð af rannsakandanum um þær hreyfingar sem ákærði viðhafði við nefndar aðstæður svaraði hún: „Hann bara notaði hendina mína og setti hendina sína yfir mína ... mér fannst þetta náttúrulega vera heil eilífð ... ég veit það ekki allveg ... korter, hálftími eða eitthvað.“ Og nánar aðspurð svaraði stúlkan því játandi að ákærði hefði viðhaft „strokhreyfingar“ og að hann hefði þannig verið að runka sér. Aðspurð hversu margar þannig hreyfingar ákærði hefði viðhaft, þ.e. 1, 10 eða 20, svaraði stúlkan: „Það var ein hreyfing held ég bara“ en sagði síðan og leiðrétti frásögnina og lýsti því að athæfi ákærða hefði staðið yfir í dálítinn tíma, en hún gæti ekki sagt til um hvort ákærða hefði orðið sáðlát. Þá kvaðst hún ekki minnast þess hvernig nefndu athæfi lauk og áréttaði að á meðan á því stóð hefði hún látið sem hún væri sofandi.

Ítrekað aðspurð við nefnda lögregluyfirheyrslu kvaðst A helst ætla að ákærði hefði viðhaft fróunina eftir að hann hafði lagt bifreiðinni í norðurhluta sveitarfélagsins, nánar tiltekið nærri fyrrnefndum ... . Þá andmælti hún aðspurð þeirri spurningu rannsakara, og þar með andstæðri frásögn ákærða, að það hafi verið hún sem setti hönd sína í klof hans og snerti á honum typpið, en eftir það verið hreyfingarlaus, og sagði hún þar um: „Bara, þú veist ég hafði enga löngun til þess að vera að gera eitthvað með frænda mínum sko.“ Loks sagði hún að á athafnasvæði Vegagerðarinnar, við suðurhluta sveitarfélagsins, hefði samkvæmt framansögðu einungis verið um kossa að ræða á milli hennar og ákærða.

 

Fyrir dómi áréttaði stúlkan A frásögn sína fyrir lögreglu í öllum aðalatriðum, þ. á m. varðandi skyldleika hennar og ákærða og að þau hefðu verið trúnaðarvinir er atvik máls þessa gerðust. Aðspurð kvaðst hún ekki minnast þess sérstaklega að ákærði hefði í fyrri samskiptum þeirra haft orð á eigin vandkvæðum eða líðan og ekki heldur að orðræða þeirra hefði varðað kynferðisleg málefni. Þá lýsti hún aðdraganda samverunnar með ákærða umrædda nótt svo og akstrinum að athafnasvæði Vegagerðarinnar og bar að þau hefðu setið í framsætum bifreiðarinnar þegar þau hefðu byrjað að kyssast. Hún andmælti frásögn ákærða um að hún hefði haft frumkvæðið og áréttaði að því hafi verið öfugt farið líkt og með annað það atferli sem gerðist þeirra í millum síðar um nóttina.

Stúlkan vísaði til þess að langt væri liðið frá þessum atburðum, en af þeim sökum kvaðst hún ekki minnast þess hvort það hefði verið á nefndu athafnasvæði ellegar við norðurhluta sveitarfélagsins, nærri ..., sem þau hefðu fært sig í aftursæti bifreiðarinnar. Hún sagði að við þær aðstæður hefði ákærði byrjað að þukla á henni, en að auki fært eigin föt til, og sagði: „... bara svona rétt tosað niður um sig buxurnar ... og svo notaði hann hendina mína til þess að runka sér, á meðan að ég þóttist vera sofandi af því að ég vissi ekki hvað ég átti að gera ... hann notaði eða hélt utanum hendina mína.“ Nánar um lýsta háttsemi staðhæfði hún að ákærði hefði stýrt hendi hennar og samhliða viðhaft hreyfinguna „upp og niður.“ Aðspurð sagði hún að limur ákærða hefði meðan á þessu stóð verið mitt á milli þess að vera harður og linur, en hún kvaðst ekki vita til þess hvort honum hefði orðið sáðlát.

Fyrir dómi greindi stúlkan A frá viðbrögðum sínum á meðan á lýstu athæfi ákærða stóð með svipuðum hætti og hún hafði áður gert hjá lögreglu, og áréttaði m.a. að hún hefði látið sem hún svæfi, en sagði um það nánar: „Ósjálfráða viðbrögð bara, ég vissi ekki hvað ég átti að gera og fraus og ég er alls ekki týpan sem þorir að segja nei við einhverju ... þannig að ég bara fixaði, ef ég mynd sofna, og það væri bara besta leiðin og þá kannski myndi hann hætta ... og ég set hausinn á mér á öxlina á honum.“ Hún sagði að þrátt fyrir þetta hefði ákærði ekki látið af athæfi sínu og sagði um lokin: „Ég þóttist vakna og dró höndina til baka ... ég sagði að klukkan væri orðin svolítið mikið og mamma væri að fara að vakna, og áður en ég kæmi heim.“

Stúlkan skýrði frá því fyrir dómi að líðan hennar eftir nefnt athæfi ákærða hefði alls ekki verið góð og sagði: „... ég ætlaði að drepa mig þegar ég kom heim, en hringdi í [B], sem ég var nýbúinn að kynnast ... og hún talaði við mig þar til ég sofnaði ... en man ekki hvað ég sagði henni.“

Stúlkan staðhæfði að næstu árin á eftir nefndan atburð hefði hún misst fótanna hvað neyslu vímuefna varðaði, en hún kvaðst m.a. þannig hafa reynt að gleyma samskiptunum við ákærða. Var það ætlan hennar að af þessum sökum væri minni hennar skert um atvik máls. Hún staðhæfði að ofangreind lýsing væri þó sú sem hún helst myndi.

Fyrir dómi andmælti stúlkan frásögn ákærða um að hún hefði í greint sinn aðeins komið við lim hans utanklæða og enn fremur að þau hefðu aðeins reykt saman fáeinar sígarettur. Þá skýrði hún að öðru leyti frá atvikum máls með svipuðum hætti og hún hafði áður gert hjá lögreglu, þ. á m. að hún hefði greint vinkonu sinni, C frá atvikum máls svo og þáverandi kærasta sínum og loks að ákærði hefði rætt við hana í síma skömmu eftir margnefnd samskipti og bar að svo hafi virst að hann hefði þá verið grátandi, en hann hefði beðið hana afsökunar. Hún staðhæfði að þau hefðu ekki rætt atvik máls frekar og þá heldur ekki í raun í annan tíma er þau hittust.

Stúlkan greindi að lokum frá því að hún hefði hin síðustu misserin þegið aðstoð sérfræðings, en hún kvaðst og hafa farið í vímuefnameðferð í byrjun nóvember 2018. Auk þessa kvaðst hún hafa notið aðstoðar sérfræðings í Barnahúsi.

 

6.         Vitnið B greindi frá því fyrir dómi að hún hefði kynnst jafnöldru sinni, brotaþolanum A, á árunum 2011-2012, á samfélagsmiðlunum og í gegnum sameiginlega vini. Bar hún að þær hefðu fljótlega orðið bestu vinkonur. Vitnið kvaðst hafa komið að því máli sem hér um ræðir á þann veg að hún hefði vaknað við hringingu A um nótt, án þess að vitnið gæti tímasett það nánar en það að hún hefði þá verið í heimsókn hjá ömmu sinni. Vitnið kvaðst strax hafa heyrt að A var í uppnámi, miður sín og grátandi, en lýsti viðtali þeirra nánar þannig: „Hún var rosalega stressuð, hún var ekki alveg að tala eins og ég var vön að tala við hana, hún vissi ekki alveg hvað hún átti að segja, og ég skildi hana ekki alveg, og ég reyndi að spyrja hana spurninga og hún var ekki að svara nema svona í stikkorðum og svo hætti hún við.“ Vitnið sagði að vegna þess hefði það í fyrstu ekki alvega áttað sig á því hvað A var að reyna að segja, en þó fljótlega áttað sig á því að hún hafi verið að greina frá því að henni hefði verið nauðgað og að skammt væri liðið frá því athæfi. Vitnið tók fram að A hefði í raun aldrei nefnt orðið nauðgun og sagði: „... en ég svona dró svona ályktun, ef svo má segja.“ Vitnið bar að í þeim samræðum sem á eftir fóru hefði það ekki spurt A nánar um málsatvik og þá ekki síðar. Vísaði vitnið til þess að í nefndri orðræðu hefði A haft á orði að hún vildi fyrirfara sér. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa einbeitt sér að þeim orðum hennar og m.a. vakið ömmu sína til þess að hafa hana hjá sér á meðan á samtalinu stóð. Þar um vísaði vitnið m.a. til ungs aldurs síns.

Vitnið sagði að umrædda nótt hefði A haft orð á því að gerandinn hefði verið frændi hennar, en án þess að nefna hann á nafn og sagði að það hefði hún ekki gert fyrr en löngu síðar.

Vitnið staðhæfði að sá atburður sem gerðist umrædda nótt samkvæmt frásögn brotaþola hefði haft áhrif á hana og valdið henni miklum erfiðleikum. Vitnið lýsti þessu ástandi brotaþola nánar þannig: „... ég get alveg sagt það að eftir þetta þá breyttist hún, maður sá það alveg sko klárt, það var alveg klárt mál, þetta hafði alveg áhrif á hana, það gerðist eitthvað sko ... Það bara hvarf eitthvað svona, gleði ... og kom ekkert aftur. Ég var náttúrulega búin að þekkja hana þarna í eitt ár og svo kynntist ég nýrri manneskju allt í einu, get ég alveg sagt.“ Vitnið vísaði til þess að það hefði ekki búið í sama sveitarfélagi og A en af þeim sökum hefðu þær helst verið í samskiptum á netinu, en ekki hist mjög oft augliti til auglitis. Vitnið kvaðst hafa veitt fyrrnefndum breytingum á A athygli í netsamskiptum þeirra, en þó enn frekar og skýrar þegar þær hittust og sagði: „Það var ekkert skemmtilegt í augunum hennar lengur, hún var rosalega tóm ... rosalega þunglynd og kvíðinn og átti greinilega bara rosalega erfitt með lífið ... ekki áður, ég hafði ekki kynnst því áður sko, ég get ekki sagt það.“

 

7.         Vitnið C kvaðst fyrir dómi hafa kynnst jafnöldru sinni, brotaþolanum A, er þær voru við 9-10 aldurinn, en bar að þær hefðu orðið góðar vinkonur á árinu 2012. Vísað vitnið til þess að þær hefðu búið í sama sveitarfélaginu.

Vitnið kvaðst minnast þess að A hefði rætt við það í síma daginn eftir ætlaðan atburð. Kvaðst það helst minnast þess að A hefði haft orð á því að hún hefði verið þvinguð til þess að gera eitthvað eða að viðkomandi hefði reynt að láta hana gera eitthvað sem hún vildi ekki. Vitnið sagði að A hefði í nefndu símtali ekki greint nákvæmlega frá því hverju hún hefði orðið fyrir, a.m.k. ræki það ekki minni til þess. Vitnið kvaðst helst minnast þess að A hefði í nefndu símtali verið frekar dauf og sagði: „... henni leið ekki vel, en hvort að hún hafi verið grátandi eða ekki, það man ég ekki.“ Vitnið sagði að hinn ætlaði verknaður hefði ekki komið frekar til tals þeirra í millum. Það kvað A þannig hafa verið fáorða um atvik máls, að öðru leyti en því að hún hefði sagt að ákærði hefði verið gerandinn. Vitnið tók fram að þó svo að A hafi verið dauf á þessum árum hefði þessi ætlaði atburður greinilega haft áhrif á hana og bar að hún hefði virst vera enn daufari en áður hafði verið ,,og ekki lík sjálfri sér“ eftir þetta.

 

IV.

Í málinu liggja fyrir sérfræðigögn og vitnisburðir um líðan brotaþola, en einnig varðandi ákærða.

1.         Í vottorði D sálfræðings, dagsettu 20. desember 2018, segir frá því að brotaþolinn A hafi í tveimur lotum sótt þjónustu hjá Barnahúsi. Annars vegar hafi hún farið í fjögur viðtöl á árinu 2014 og hins vegar hafi hún farið í átta viðtöl á tímabilinu 21. janúar 2016 til 25. janúar 2017.

Í vottorðinu segir frá því að fyrri lotan hafi varðað kynferðisleg samskipti sem A hafði átti í við eldri stráka þegar hún var 14 ára. Þessi samskipti hafi m.a. farið fram á samskiptamiðlum á netinu og hafi mál þessi verið kærð til lögreglu. Í vottorðinu segir að A hafi ekki verið fyllilega sátt við ferlið þar sem einn af strákunum hefði verið þáverandi kærasti hennar.

Í vottorðinu segir frá því að seinni lota meðferðarinnar hafi komið til eftir að kæra var borin fram í janúar 2016 og þá vegna þess máls sem hér er til umfjöllunar. Um það mál og meðferð stúlkunnar segir m.a. í niðurstöðukafla vottorðsins:

„[...] “

 

2.         Í vottorði E félagsráðgjafa, dagsettu 24. október 2018, kemur m.a. fram að brotaþolinn A hafi verið í viðtalsmeðferð vegna þeirra áfalla sem hún hefur gengið í gegnum. Í vottorðinu er vikið að því máli sem hér er til umfjöllunar og segir þar um:

„[...]“

Nefndur sérfræðingur staðfesti efni vottorðsins fyrir dómi, en bar jafnframt að brotaþoli hefði á lífsleiðinni þurft að glíma við fleiri kynferðisbrot en hina ætluðu háttsemi ákærða. Sérfræðingurinn bar að hún hefði gert greinarmun þar á og þá vegna alvarleikans og aðstæðnanna. Sérfræðingurinn greindi frá því að brotaþoli væri enn til meðferðar, en hann lét það álit í ljós að með tímanum gæti hún lært að lifa með lífreynslu sinni og þá án þess að háttsemi ákærða stjórnaði lífi hennar.

 

3.         Vitnið F sálfræðingur skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði haft ákærða til meðferðar á tímabilinu frá 15. október til og með 26. nóvember 2013. Vitnið sagði að tilefnið hefði í upphafi verið saga um sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir, en einnig kvíðaeinkenni tengd skóla. Vitnið bar að ákærði hefði mætt í fimm samtalsviðtöl og sagði að að lokum hefði greiningin verið kvíðavandi, en með batnandi líðan.

 

 

V.

Ákærði játar sök í máli þessu að því er varðar þau sakaratriði að hafa í eitt skipti á tímabilinu nóvember til desember 2013, í bifreið í sveitarfélaginu ..., á nánar tilgreindum stöðum, kysst brotaþola, stúlkuna A, tungukossum og hafa snert brjóst hennar utanklæða.

Ákærði neitar sök um það sakaratriði að hann hafi látið brotaþola fróa sér, en hann vísar m.a. til þess að stúlkan hafi aðeins snert lim hans utan klæða í greint sinn.

 

Fyrir liggur að þegar atvik máls gerðust var ákærði liðlega 17 ára, en stúlkan A rétt 14 ára og 10 mánaða.

Aldursmörk 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum, sbr. breytingarlög Alþingis nr. 61/2007, eru fortakslaus. Ákærði hefur borið við alla meðferð málsins, að sér hafi verið ljóst er atvik gerðust að til staðar væri réttarregla sem bannaði kynferðislegt samneyti við barn, og að aldursmörkin miðuðust 15 ára aldur.

 

Ákæruvaldið reisir kröfu sína um sakfellingu einkum á framburði brotaþola. Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á fyrrnefndum sakaratriðum á því að leggja verði framburð hans til grundvallar.

Hér fyrir dómi, og við alla meðferð málsins, hafa ákærði og brotaþoli, stúlkan A, lýst samskiptum sínum og kynnum frá árinu 2011 og allt þar til atvik máls gerðust í bifreið þeirri sem ákærði hafði til umráða í lok árs 2013. Að virtum gögnum verður lagt til grundvallar að þetta hafi gerst um helgi, nærri mánaðamótum nóvember/desember nefnt ár, og þá innan marka sveitarfélagsins ... .

 

Að virtum framburði ákærða og brotaþola verður ráðið að hin fyrri samskipti hafi nær alfarið farið fram á samskiptamiðlum, að vinskapur og trúnaður hafi verið með þeim og að þau hafi leitað stuðnings hvort hjá öðru í raunum sínum. Einnig verður lagt til grundvallar að þau hafi þekkt hagi hvors annars allvel, og að ákærði hafi þannig haft vitneskju um að brotaþoli hafði átt við sálræna erfiðleika að stríða, en einnig að hún hafði er atvik máls gerðust verið byrjuð með nýjum kærasta. Þá styðja gögn málsins frásögn ákærða um að hann hafi einnig átt við andlega erfiðleika að stríða á áðurgreindu tímaskeiði.

Óumdeilt er að þáttaskil urðu í samskiptum ákærða og brotaþola eftir þá atburði sem þau hafa hvort um sig vísað til og varða ákæruatriði máls þessa.

 

Efni 1. mgr. 202. gr. hegningarlaganna er nánar sem hér segir: „Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngri en 15 ára, skal sæta fangelsi ekki skemur en eitt ár og allt að 16 árum. Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi.“

Efni 2. mgr. sömu lagagreinar er sem hér segir: „Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum.“

 

Fyrir dómi hefur að áliti dómsins verið nokkur samhljómur með lýsingum og frásögn ákærða og brotaþola, þ. á m. um að hönd stúlkunnar hafi a.m.k. um tíma verið fast við klof hans og loks að þau hafi er það gerðist setið saman í aftursæti umræddrar bifreiðar, og að þetta hafi gerst í kjölfar þess að ákærði hafði kysst og þuklað á brjóstum hennar.

Ákærði hefur aftur á móti neitað því að hann hafi látið stúlkuna fróa sér við nefndar aðstæður, en það er í andstöðu við frásögn hennar við alla meðferð málsins. Framburður ákærða um nefnt sakaratriði hefur verið rakinn hér að framan, þ. á m. frásögn hans við yfirheyrslu hjá lögreglu, sem tekin var upp með hljóði, frásögn hans og afstaða til sakargifta við þingfestingu málsins, þar sem hann vísaði um nánari atvik til yfirheyrsluskýrslunnar og loks framburður hans við aðalmeðferð málsins hér fyrir dómi.

Að mati dómsins hefur frásögn ákærða um nefnt sakaratriði, þ. á m. ætlaða fróun, tekið nokkrum breytingum. Hefur ákærði helst gefið þá skýringu á breyttum framburði sínum að atvik máls hafi í raun rifjast frekar upp fyrir honum eftir því sem lengra leið frá og þá eftir að hann hafi hugleitt þau frekar.

Við lögregluyfirheyrsluna greindi ákærði frá því að brotaþoli hefði sett hönd sína í klof hans, utanklæða, en hann þá brugðist við og hneppt buxum sínum frá og girt aðeins niður um sig. Í framhaldi af þessu hafi hann tekið í hönd stúlkunnar og sett hann á beran lim sinn, en hún þó í engu brugðist við og því verið kyrr með hönd sína.

Við aðalmeðferð dómsins sagði ákærði að hann hefði sjálfur fært hönd stúlkunnar í klof sér, og sagði að eftir það hafi verið um einhverjar hreyfingar að ræða við lim hans, utanklæða, af hálfu brotaþola, enda hefði hann ekki haft stjórn á gjörðum hennar.

Frásögn brotaþola, allt frá fyrstu yfirheyrslum lögreglu, sem voru hljóðritaðar, svo og fyrir fyrir dómi, hefur að áliti dómsins verið nær samhljóma varðandi ofangreint sakaratriði og þá þannig að ákærði hafi við lýstar aðstæður fært buxur sínar lítillega niður, en í framhaldi af því tekið um hönd hennar og fært hana á beran lim sinn, og síðan um tíma notað hönd hennar til þess að fróa sér.

Það er álit dómsins að frásögn ákærða hafi verið reikul um mikilsverð atriði og þá um nefnt sakaratriði. Að mati dómsins hefur frásögn brotaþola, stúlkunnar A, aftur á móti verið allskýr og trúverðug um öll sakaratriði máls þessa.

Að ofangreindu virtu, en einnig að virtum framburði vitna, einkum B, sem var trúverðugur að áliti dómsins, og vottorðum þeirra sérfræðinga, sem komið hafa að málum brotaþola, svo og þegar atvik máls eru virt í heild, þ. á m. mjög ungur aldur brotaþola á verknaðarstundu, er að áliti dómsins ekki varhugavert, gegn neitun ákærða, að leggja frásögn hennar til grundvallar við úrlausn málsins.

Að öllu ofangreindu virtu er því nægjanlega sannað að ákærði hafi framið lýst kynferðisbrot gegn brotaþola, og þá einnig með þeim hætti að hann hafi látið hana snerta getnaðarlim sinn og fróa sér. Þykir þessi háttsemi ákærða í heild varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hefur hann með því unnið sér til refsingar.

 

VI.

1.         Ákærði, sem er 23 ára, hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé.

Með háttsemi sinni braut ákærði þau ákvæði hegningarlaganna sem löggjafinn, Alþingi, hefur sett til að veita æskufólki vernd með tilliti til kynferðislegrar hegðunar, en hún er mörkuð við áðurgreindan aldur, 15 ár.

Að áliti dómsins er brot ákærða alvarlegt og beindist gegn mikilvægum hagsmunum, sbr. ákvæði 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Til þess ber einnig að líta að ákærði játaði, eins og áður er rakið, nær undanbragðalaust hluta verknaðarlýsingar og sakargiftir samkvæmt ákæru, en lýsti einnig yfir iðran vegna þeirrar háttsemi. Þá er hann ungur að árum og var að auki þegar hann framdi brotið aðeins 17 ára og því barn að lögum. Þá ber að áliti dómara að taka sérstakt tillit til þess að mál þetta hefur dregist mjög í meðförum á öllum stigum, sem ákærða verður á engan hátt kennt um. Þegar þetta allt er haft í huga, sbr. önnur þau ákvæði 70. gr. sem við eiga svo og ákvæði 2. tl. 1. mgr. 74. gr. hegningarlaganna, þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin sjö mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingar ákærða og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

2.         Í málinu krefst brotaþoli bóta, eins og rakið er í ákæru. Krafan er rökstudd, en hún var fyrst kynnt ákærða 11. maí 2016. Krafan var rökstudd enn frekar við aðalmeðferð málsins af skipuðum réttargæslumanni brotaþola.

Margviðurkennt er í dómaframkvæmd að brot sem hér er um að tefla séu til þess fallin að hafa alvarleg áhrif á brotaþola, jafnvel um langt skeið. Með hliðsjón m.a. af þessu svo og framlögðum sérfræðivottorðum, sem staðfest voru fyrir dómi, sbr. og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola 800.000 krónur í miskabætur, en með vexti fer eins og greinir í dómsorði.

3.         Með hliðsjón af málsúrslitum, en einnig m.a. í ljósi þess að málið var endurflutt, þykir eins og hér stendur á rétt að ákærði greiði helming sakarkostnaðar, en þá m.a. með hliðsjón af tímaskýrslum skipaðs verjanda ákærða, fyrri verjanda hans og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, eins og nánar segir í dómsorði, en þá að meðtöldum virðisaukaskatti. Helmingur nefnds sakarkostnaðar skal falla á ríkissjóð. Þessu til viðbótar skal ákærði greiða kostnað ákæruvalds vegna öflunar sérfræðivottorðs, 60.000 krónur, en kostnaður ákæruvalds vegna endurrita af skýrslutökum, 40.000 krónur, skal hins vegar falla á ríkissjóð, sbr. m.a. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 470/2013.

Af hálfu ákæruvaldsins fór Agnes Björk Blöndal, fulltrúi lögreglustjóra, með málið.

Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

 

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómarinn tók við málinu samkvæmt bréfi dómstólasýslunnar þann 21. febrúar sl.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í sjö mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/ 1955.

Ákærði greiði A 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. desember 2013 til 11. júní 2016, en dráttarvöxtum frá þeim tíma samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laganna til greiðsludags.

Ákærði greiði helming lögmanns- og málflutningslauna að fjárhæð 834.705 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, sem í heild ákvarðast 757.950 krónur, þóknun verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Arnbjargar Sigurðardóttur lögmanns, sem í heild ákvarðast 282.100 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Harnar Freysdóttur lögmanns, sem í heild ákvarðast 629.360 krónur, en einnig greiði hann sakarkostnað ákæruvalds að fjárhæð 60.000 krónur. Helmingur nefndra launa svo og kostnaður ákæruvalds að fjárhæð 40.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.