• Lykilorð:
  • Hegningarauki
  • Skilorð
  • Þjófnaður

 

 

 

    

 

 

 

D Ó M U R

8. febrúar 2018

 

 

 

 

 

 

 

 

Mál nr.           S-262/2017:

 

Ákærandi:       Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra

                        (Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

 

Ákærðu:          Ísmar Örn Steinþórsson

                        (Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

                        Hjörtur Jóhannsson

 

Dómari:          Erlingur Sigtryggsson dómstjóri

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 8. febrúar 2018 í máli

nr. S-262/2017:

Ákæruvaldið

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

Ísmari Erni Steinþórssyni

(Gísli M. Auðbergsson lögmaður)

Hirti Jóhannssyni

 

 

Mál þetta, sem var dómtekið í dag, höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hér fyrir dómi þann 29. desember 2017 með  tveimur ákærum, hinni fyrri á hendur Ísmari Erni Steinþórssyni, kt. ..., Glerárgötu 18, Akureyri og Hirti Jóhannssyni, kt. ...., Háhlíð 4, Akureyri;

„fyrir þjófnað, með því að hafa, þriðjudaginn 31. janúar 2017, stolið tveimur úlpum af gerðinni Icewear úr versluninni Icewear að Hafnarstræti 106 á Akureyri, en verðmæti hvorrar úlpu um sig var 47.500 krónur.

Brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga  nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Síðari ákæran er gegn Hirti Jóhannssyni, mál nr. S-263/2017,

„fyrir þjófnað, með því að hafa, laugardaginn 28. janúar 2017, í versluninni Levi´s búðinni í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri, stolið peysu, skyrtu og buxum samtals að verðmæti 37.970 krónur.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga  nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Málin voru sameinuð.

Ákærði Hjörtur sótti ekki þing, þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Þar var þess getið að málið kynni að verða dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. sömu laga með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærum og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærði Ísmar Örn sótti ekki þing. Skipaður verjandi hans sótti þing og upplýsti að skilja bæri fjarveru ákærða svo að hann héldi ekki uppi vörnum og að honum væri ljóst að málið yrði dæmt að honum fjarstöddum, sbr. aðvörun í fyrirkalli. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 með áorðnum breytingum að leggja dóm á málið að ákærða fjarverandi, enda varðar brot ekki þyngri viðurlögum en þar er áskilið í a-lið og framlögð gögn verða talin nægjanleg til sakfellingar. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæðis.

Ákærði Ísmar Örn á nokkurn sakaferil að baki. Síðast var hann dæmdur 4. maí 2017 í 12 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, hilmingu, ölvunarakstur, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, fleiri brot gegn umferðarlögum og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ber að tiltaka refsingu hans nú sem hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir ekki ástæða til að gera honum sérstaka refsingu.

Ákærði Hjörtur var síðast dæmdur 3. júlí 2017 í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað. Refsingu hans nú ber að tiltaka sem hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Verður skilorðsdómurinn tekinn upp, sbr. 60. gr. sömu laga og refsing dæmd í einu lagi. Ákveðst hún fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið eins og greinir í dómsorði.

Ákærði Ísmar Örn verður dæmdur til að greiða þóknun og ferðakostnað skipaðs verjanda síns eins og greinir í dómsorði, hvort tveggja að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Ákærða Ísmari Erni Steinþórssyni er ekki gerð sérstök refsing.

Ákærði Hjörtur Jóhannsson sæti fangelsi í 60 daga, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.

Ákærði Ísmar Örn greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar lögmanns, 84.320 krónur og ferðakostnað, 21.278 krónur.