• Lykilorð:
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 30. maí 2016 í máli nr. E-5/2016:

Ragnar Árnason og

Helena Svanlaug Sigurðardóttir

(Leifur Runólfsson hdl.)

gegn

Baldri Ingvari Sigurðssyni

(Jónína Guðmundsdóttir hdl.)

 

I

Mál þetta var höfðað 9. febrúar sl. og tekið til dóms 4. þessa mánaðar.

Stefnendur eru Helena Svanlaug Sigurðardóttir og Ragnar Árnason, bæði til heimilis að Hvammstangabraut 3, Hvammstanga.

Stefndi er Baldur Ingvar Sigurðsson, Kirkjuvegi 3, Hvammstanga.

Dómkröfur

Stefnendur krefjast sameiginlega skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 600.190 krónur. Þá krefst hvor stefnanda um sig miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. júní 2015 þar til mánuður var liðinn frá því að stefnda var sem sakborningi kynnt bótakrafa, en með dráttarvöxtum samkvæmt nefndum lögum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi þeirra. Til vara gerir stefndi þá kröfu að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

II

Atvik máls

Mál þetta á rætur að rekja til sakamáls sem höfðað var á hendur stefnda en í því máli var hann ákærður fyrir eignaspjöll, húsbrot og hótanir en brot þetta átti sér stað að kvöldi 11. júní 2015 á heimili stefnenda að Hvammstangabraut 3, Hvammstanga. Stefnendur höfðu uppi einkaréttarkröfu í málinu en hún var með heimild í 1. mgr. 175. gr. laga um meðferð sakamála skilin frá sakamálinu og vikið til meðferðar í sérstöku einkamáli sem hér er til úrlausnar.

Ákærði játaði sök í sakamálinu og lauk refsiþætti þess með dómi 8. febrúar sl. en þar var ákærði sakfelldur fyrir að hafa brotið niður hluta úr skjólvegg, fyrir að rífa niður girðingu umhverfis fasteignina, hent til og sparkað í styttur sem voru í garði fasteignarinnar með þeim afleiðingum að þær brotnuðu, sparkað í útidyrahurð hússins með þeim afleiðingum að rúða í henni brotnaði, kastað steinum að húsinu með þeim afleiðingum að tvær rúður brotnuðu þegar steinarnir gengu í gegnum þær auk þess sem skemmdir urðu á gluggabúnaði og skjólvegg. Tekið síðan upp kertastjaka úr málmi sem stóð á stétt framan við aðalinngang hússins og lamið honum í stéttina svo að holur komu í hana og að lokum ruðst heimildarlaust inn í húsið. Þá var stefnandi sakfelldur fyrir að hafa á sama tíma hótað stefnendum lífláti.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnendur byggja kröfu sína á því að stefndi hafi hótað þeim lífláti og líkamsmeiðingum auk þess sem hann hafi brotist inn í hús þeirra og unnið skemmdaverk á eignum þeirra. Þessi hegðan stefnda hafi skapað stefnendum miklar þjáningar sem ekki sé enn séð fyrir endann á. Með háttsemi sinni hafi stefnandi valdið þeim miskatjóni sem hann beri samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ábyrgð á. Reisa stefnendur kröfu sína um miskabætur úr hendi stefnda á því að hann hafi af ásetningi orðið valdur að ólögmætri meingerð í þeirra garð auk þess sem hann hafi brotið gegn friði og frelsi þeirra. Stefnendur halda því fram að þau hafi liðið andlegar kvalir vegna atburðarins. Þau hafi reynt að leita sér aðstoðar hjá heimilislækni sínum og búast megi við að þau þurfi að sækja meðferð í talsverðan tíma. Þá hafi þau ekki treyst sér til að vera heima við í talsverðan tíma eftir atvikið og vegna hræðslu við að stefndi léti til skarar skríða á nýjan leik hafi þau dvalið í sumarbústað sínum í nokkrar vikur eftir atburðinn. Í þessu sambandi vísa stefnendur til þess að þau séu komin nokkuð við aldur og taki því atburð sem þennan mjög alvarlega. Stefnandinn Helena sé 100% öryrki og stefnandinn Ragnar sé veikur fyrir hjarta og hann hefði hæglega getað lent í bráðri lífshættu vegna angistar og hræðslu sem árás sem þessi valdi. Hvor stefnenda um sig krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.500.000 krónur.

Stefndi hafi auk þessa verið valdur að eignaspjöllum, t.d. með því að brjóta rúðu í hurð, með því að skemma stétt, brjóta styttur og grindverk. Stefnendur segja tjón sitt samanstanda af smíðavinnu vegna skemmda í anddyri, kaupa á mottum, teppi, teppadreglum, gardínum, gardínuborða, múrskemmdum, skemmdum á málningu, efnis til viðgerðar á verönd og teppalímbandi. Inni í bótakröfunni sé einnig fjárhæð vegna aksturs til og frá Reykjavík vegna innkaupaferða, kostnaður vegna gjalds í Hvalfjarðargöng svo og akstur til og frá Hvammstanga í sumarbústað stefnanda. Alls nemi tjón þeirra vegna þessa 600.190 krónum og þá hafi verið tekið tillit til þess sem tryggingafélag stefnenda hafi bætt þeim með greiðslu úr heimilistryggingu þeirra.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa byggð á því að stefnendur hafi þegar fengið tjón sitt bætt hjá tryggingafélagi sínu. Þá vísar stefndi til þess að krafa stefnenda sé órökstudd og ósönnuð en engin matsgerð liggi fyrir varðandi umfang tjónsins. Varðandi kröfu um miskabætur liggi ekki fyrir önnur vottorð en frá heilsugæslulækni sem aðallega reki frásögn stefnenda sjálfra en matsgerð varðandi miska stefnenda sé ekki til staðar í málinu.

Varðandi varakröfu er byggt á sömu sjónarmiðum auk þess sem vísað er til þess að miskabótakrafa sé úr öllu samhengi við dómafordæmi í sambærilegum málum. Kröfu um málskostnað úr hendi stefnenda reisir stefndi á 130. gr. laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Að framan er rakið að stefndi játaði sök í sakamáli sem höfðað var á hendur honum vegna þeirra skemmda sem hann vann á heimili stefnenda auk þess sem hann var sakfelldur fyrir húsbrot og hótanir í garð stefnenda.

Óumdeilt er að stefndi vann tjón á munum á heimili stefnenda og ber hann ábyrgð á því tjóni. Stefnendur hafa lagt fram reikninga í málinu sem þeir segja vera vegna kaupa á nýjum munum og vegna viðgerða á fasteign þeirra. Samtals nema þessir reikningar 208.993 krónum, þar með talinn reikningur frá tryggingafélagi stefnenda að fjárhæð 31.500 krónur vegna sjálfsábyrgðar. Stefnendur hafa ekki gert grein fyrir því hversu háa fjárhæð þeir fengu greidda frá tryggingafélagi sínu vegna tjóns þess sem stefndi var valdur að og liggur því ekkert fyrir um hversu há sú upphæð var. Þá hafa þeir ekki lagt fram nein gögn sem styðja kröfu þeirra um greiðslu á þeirri fjárhæð sem er hærri en þær rúmu 200.000 krónur sem áður er getið. Að teknu tilliti til þess að stefnendur hafa fengið einhverja ótilgreinda fjárhæð greidda frá tryggingafélagi sínu ásamt því að gögn skortir fyrir raunverulegu tjóni þeirra verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af kröfum þeirra vegna hugsanlegs fjártjóns stefnenda, þó þannig að rétt er að dæma stefnda til að greiða stefnandanum Ragnari 31.500 krónur vegna sjálfsábyrgðar sem hann greiddi tryggingafélagi sínu.

Stefndi hafði á sínum tíma í hótunum við stefnendur líkt og áður er getið og þá ruddist hann heimildarlaust inn á heimili þeirra og olli á því skemmdum. Með háttsemi sinni hefur stefndi orðið valdur að ólögmætri meingerð í garð stefnenda sem hann ber ábyrgð á, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnendur hafa lagt fram vottorð heilsugæslulæknis sem rennir nokkrum stoðum undir kröfu þeirra. Að mati dómsins þykir hæfilegt að stefndi greiði hvorum stefnenda um sig 200.000 krónur í miskabætur. Krafan ber vexti eins og í dómsorði greinir en einkaréttarkrafa var birt stefnda hinn 12. nóvember 2015 undir rekstri refsimálsins sem höfðað var á hendur honum og lögmenn aðila voru sammála um að upphafsdagur dráttarvaxta miðaðist við þann dag er mánuður væri liðinn frá birtingu kröfunnar.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins er rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnenda flutti mál þetta Leifur Runólfsson héraðsdómslögmaður en af hálfu stefnda Jónína Guðmundsdóttir héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Baldur Ingi Sigurðsson, greiði stefnanda Helenu Svanlaugu Sigurðardóttur 200.000 krónur og stefnanda Ragnari Árnasyni 231.500 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 11. júní 2015 til 12. desember 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                 Halldór Halldórsson