• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. nóvember 2018 í máli nr. S-63/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

X

(Sigmundur Guðmundsson lögmaður)

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. október sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 7. júní 2018 á hendur ákærða, X, fæddum […], til heimilis að […];

„fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins […] 2017, í A á B, haft samræði við Y, án hennar samþykkis með því að notfæra sér að Y gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 194. gr. almennar hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu Y, kt. […], er gerð krafa um að X verði gert að greiða Y kr. 3.000.000 í miskabætur ásamt vöxtum samkæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. apríl 2017 og þar til mánuður er liðinn frá birtingardegi bótakröfu þessarar, en dráttarvöxtum samvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af einkaréttarkröfunni. Til þrautavara krefst ákærði þess að einkaréttarkrafa verði lækkuð stórlega. Loks krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

II

Málavextir

Að kvöldi föstudagsins […] 2017 var haldin V á […] í G á B og mun henni hafa lokið um kl. 23:00. Eftir V fóru allnokkrir […] í D þar skammt frá sem er í eigu E og F. Gleðskapur var í T D en gestir sem þangað komu voru líka inni í D.

Mánudaginn […] 2017 kom Y, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina á B og kvaðst vilja skýra frá ætluðu kynferðisbroti sem hún hefði orðið fyrir af hálfu ákærða aðfaranótt […]. Í skýrslu lögreglu, sem rituð var vegna komu brotaþola, er haft eftir brotaþola að hún hafi verið á nefndri V og í framhaldi af henni farið í samkvæmið. Brotaþoli greindi frá því að í T hafi líðan hennar orðið einkennileg, eins og hún missti mátt, t.d. í andliti, og taldi þessa líðan ekki stafa af áfengisneyslu. Þá er haft eftir brotaþola að fólk hafi farið að tínast á brott og henni hafi ekki sjaldnar en í tvígang verið boðið far en ákærði hafi sagt að hann myndi aka henni heim. Brotaþoli lýsir því að hún hafi morguninn eftir vaknað, liggjandi í sófa, í A ákærða. Hún hafi verið nakin að neðanverðu, í sokk á öðrum fæti en hinn sokkurinn, skór og úthverfar buxur hennar legið á gólfinu. Brotaþoli kvaðst ekki hafa farið á neyðarmóttöku sjúkrahússins á B vegna þessa en í framhaldi af komu hennar til lögreglu gerði hún það. Brotaþoli mætti síðan […] á ný til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða og í það sinn var tekin af henni lögregluskýrsla.

Ákærði gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu […] 2017 og neitaði sök. Aftur voru teknar skýrslur af ákærða […] og […] á sama ári. Á tímabilinu […] 2017 tók lögregla skýrslu af vitnum og þá var vettvangur ætlaðs brots og nágrennis hans ljósmyndaður ásamt því að lögregla aflaði teikninga og yfirlitsmynda af svæðinu. Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola, móttökuskýrsla hjúkrunarfræðings og vottorð sálfræðings.

III

Framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.

Ákærði skýrði svo frá að hann hafi að lokinni V í G frétt af gleðskap í D „E“ og þangað hafi hann farið ásamt félaga sínum en hvað klukkan var mundi hann ekki en hann taldi að V hafi lokið um kl. 23:00 og hann komið í D ekki mjög löngu eftir að V lauk. Þar hafi verið margt um manninn. Hann hafi sest niður við borð á T og brotaþoli hafi síðan sest við hlið hans og þar hafi þau setið lengst af þeim tíma sem hann var þarna. Brotaþoli hafi þó einu sinni svo hann mundi staðið upp og farið eitthvað en komið til baka og sest hjá honum. Brotaþoli hafi verið ölvuð en þó ekki það mikið að hún gat strokið honum um staði þar sem hann er ekki vanur að vera strokinn. Ákærði kvaðst ekki hafa upplifað ástand brotaþola þannig að hún hafi á þessum tíma verið nánast rænulaus sökum áfengisneyslu. Mikil gleði hafi verið þarna um kvöldið og töluverð drykkja. Seinna hafi vitnið F, móðir vitnisins H, sem kalla mátti húsráðanda, komið og „hreinsað út.“ Hann hafi farið út og staðið við hlið brotaþola en hann kvaðst ekki geta sagt til um hvert ölvunarástand hennar var á þessum tíma. Ákærði neitaði því að hafa þurft að styðja brotaþola út úr D og þá mundi hann ekki hvort hann aðstoðaði hana við að klæða sig í úlpu. Hann taldi að hann hafi sagt yfir hópinn að þau skyldu færa sig yfir í hans A en hann mundi ekki eftir sérstökum undirtektum við þetta boð. Eftir að hafa staðið fyrir utan D í einhverja stund hafi hann gengið af stað með brotaþola og hann haldið utan um hana án þess að halda henni uppi. Að sögn ákærða tók gangan þau 10 til 15 mínútur en þau hafi fíflast eitthvað á leiðinni og átt í einhverjum orðaskiptum, þá hafi hann ætlað að stytta sér leið en hætt við það. Á þessum tíma hafi ekkert bent til þess að þau myndu eiga kynferðisleg samskipti. Þegar að A hans var komið hafi hann opnað dyrnar […] og þau hafi farið inn og hann skilið við brotaþola. Hann hafi furðað sig á því að fleiri komu ekki og því gengið til baka til að gá að fólkinu. Hann hafi ekki séð nokkurn mann og gengið til baka og þá hafi brotaþoli verið komin inn í T en til þess að komast þangað hafi hún þurft að opna dyr. Hann kvaðst hafa sagt við hana að þau væru tvö ein eftir. Hún hafi þá staðið upp, gengið til hans og byrjað að kyssa hann eins og hún væri að setja í gang kynlíf. Hann hafi tekið undir það og hún hafi losað beltið á buxum hans en hann mundi ekki hvort hann hjálpaði við það. Þau hafi í framhaldi af þessu bæði verið nakin að neðan. Hún hafi handfjatlað lim hans og síðan sest niður eins og hún ætlaði að hafa við hann munnmök. Hún hafi síðan staðið á fætur og snúið sér við og hann hafi byrjað að hafa við hana kynmök aftan frá með því að setja lim sinn í leggöng hennar. Nánast um leið hafi hún skipt um skoðun og sagt að hún vildi þetta ekki og þá hafi hann hætt en kynmök þeirra hafi varað í minna en tvær mínútur. Í framhaldi af þessu hafi hann farið inn í A en verið frekar fúll þar sem hún hafi svo snögglega bundið enda á kynlíf þeirra. Skömmu síðar hafi hann komið inn aftur og spurt brotaþola hvort hún vildi hafa við hann kynmök en hún neitað því og hann virt það. Hann hafi þá sagt brotaþola að hann væri að fara og spurt hana hvort hún ætlaði að koma með honum en hún neitað því. Hann hafi þá farið út og gengið smáhring en komið til baka og aftur spurt brotaþola hvort hún ætlaði að koma með honum. Aftur hafi brotaþoli svarað neitandi og hann þá gengið heim til sín. Á þessum tíma hafi brotaþoli verið búin að draga yfir sig úlpu í sófanum. Ákærði bar að það hafi verið hans stærstu mistök að skilja brotaþola eftir í A. Það hafi ekki hvarflað að honum á þessum tíma að afleiðingarnar af samskiptum þeirra gætu orðið þær sem síðar varð raunin. Ákærði bar að það hafi verið brotaþoli sem setti kynferðisleg samskipti þeirra í gang en hún hafi síðan spornað við þeim með þeim hætti að segja honum að hætta, sem hann hafi gert. Kannski séu það mistök af hans hálfu að hafa sagt satt og rétt frá, hvað hefði gerst í málinu ef hann hefði strax neitað að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við brotaþola í stað þess að segja satt og rétt frá.

Ákærði kvaðst fyrir þetta kvöld hafa þekkt brotaþola og oft spjallað við hana, bæði á vinnustað hennar og þegar þau hittust í sambandi við […]. Þá hafi þau verið vinir á Facebook. Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld, hann hafi neytt áfengis á  V en hann hafi verið með einn bjór með sér í D og þegið eitthvað af snöfsum hjá öðrum sem þar voru. Hann kvaðst hafa verið ölvaður en þó ekki það mikið að hann taldi sig muna nánast allt það sem gerðist. Ákærði kvaðst eiga erfitt með að meta ölvunarástand brotaþola en hún hafi verið talsvert ölvuð, þó ekki það mikið að ekki væri hægt að eiga við hana samskipti og hún hafi t.d. reynt að taka undir í söng. Um tíma hafi brotaþoli hallað sér fram á borðið en síðan reist sig við og á einhverjum tíma hafi hún hallað sér upp að honum. Ákærði taldi að brotaþoli hafi ekki verið sofandi en hann hafi ekki fylgst með því sérstaklega. Að sögn ákærða var sá munur á brotaþola í A hans og því þegar þau voru í D „E“ að hún sat ekki við borð og þá hafi hún sjálf gengið inn á T hans eftir að hann skildi við hana við útidyrnar. Áður hafi þau staðið nokkra stund utandyra í töluverðum kulda áður en þau gengu þann spöl sem er á milli […].

Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna til þess að brotaþola hafi verið boðið far eftir að samkvæminu lauk en hann mundi eftir því að vitnið I bauð þeim báðum far, sem hann hafi afþakkað. Hvort brotaþoli afþakkaði farið mundi hann ekki. Ákærði mundi ekki til þess að vitnið F hafi boðið brotaþola far. Ákærði kannaðist við að hafa sagt við vitnið F að það hafi ekki verið neinn fíflagangur í gangi í D og þá átt við að gestir hafi ekki verið að […]. Að sögn ákærða var vitnið H undir miklum áhrifum áfengis þetta kvöld. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa gefið henni vatn að drekka en það geti þó vel verið. Ákærði kvaðst ekki hafa rætt neitt við brotaþola eftir þetta atvik en hann hafi fyrst frétt af kæru á hendur sér þegar fyrrverandi einkona hans greindi honum frá þessu símleiðis, en hún hafði fengið fréttir af þessu hjá lögreglukonu á B. Að sögn ákærða hefur mál þetta haft gríðarleg neikvæð áhrif á líf hans. Áður hafi hann […] en ekki […] eftir að kæran kom fram. Hann hafi verið atvinnulaus frá því í […] á síðasta ári og þá hafi þetta mál haft mikil áhrif á samband hans við unnustu sína. Hann hafi selt A á B og geti ekki hugsað sér að búa þar þrátt fyrir að hann eigi þar […] börn.

Vitnið Y, brotaþoli í máli þessu, kvaðst lítið þekkja ákærða en kannast við hann í gegnum […] og lítil samskipti hafa haft við hann nema í sambandi við […] en þau hafi verið vinir á Facebook. Aðspurð greindi vitnið þó frá því að vel geti verið að hún hafi rætt við ákærða um skilnað sinn […] þar sem hún vinnur en það hafi hún gert við marga. Vitnið lýsti því að hún hafi verið í G en síðan farið með vinkonu sinni, vitninu H, í D foreldra hennar og þar hafi komið fleira fólk. Þegar leið á kvöldið hafi hún dottið alveg út og hún hafi í raun sáralitlu frá að segja. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hvort ákærði kom þarna í D og þá geti hún heldur ekki sagt til um hvort hún átti samskipti við hann þar. Vitnið kvaðst hafa neytt áfengis þetta kvöld í G og í D en hún geti ekki sagt til um hvernig áfengisneyslu hennar var háttað. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa tekið þátt í söng. Vitnið kvaðst einfaldlega ekkert muna frá því að hún var í D foreldra H og þar til hún vaknar morguninn eftir. Hún muni að hún vakni 06:55 í D sem hún taldi vera í eigu foreldra H. Hún hafi verið í sófa buxnalaus og í einum sokk. Hún hafi farið strax á fætur, klætt sig og hringt á leigubíl sem hún hafi síðan mætt á leiðinni og hún hafi verið komin heim til sín 07:20. Eftir að heim var komið hafi hún sofið allan daginn sem sé ólíkt henni og skýrist ekki af hefðbundinni þreytu eftir áfengisneyslu.

Vitnið bar að eftir að búið var að rekja fyrir henni atburði kvöldsins hafi henni verið ráðlagt að hafa samband við lögregluna og það hafi hún gert. Eftir að hún hafði rakið atburðina fyrir lögreglumanninum hafi hann sagt: „Ef þú værir dóttir mín myndi ég segja þér að kæra.“ Hún hafi þá leitað til lögfræðings, sálfræðings, hjúkrunarfræðings og læknis. Í framhaldi af þessu hafi hún síðan lagt fram kæru. Vitnið kvaðst ekki geta greint frá ástandi annarra sem voru í D en henni hafi verið sagt frá því hvernig það var. Hún muni seinast eftir sér skömmu eftir að hún kom í D með H.

Vitnið greindi frá því að þegar hún vaknaði morguninn eftir hafi hún talið að brotið hefði verið gegn henni þar sem hún hafi ekki verið í buxum. Aðspurð bar vitnið að lýsing á málsatvikum hennar hjá lögreglu sé frásögn sem hún hafi fengið frá öðrum. Vitnið kvaðst hafa rætt við vinkonur sínar um atburði kvöldsins, þar á meðal vitnin H, I og E, svo og lögreglukonuna Í en þær hafi hún allar rætt við áður en hún gaf skýrslu hjá lögreglu.

Vitnið var spurt um framburð sinn hjá lögreglu að hana rámaði í að einhver hefði setið yfir henni í sófa og snert á henni kynfærin og þá staðfestir vitnið að hana rámi í þetta án þess að hún sjái fyrir sér andlit. Þá staðfesti vitnið að hún hafi á þessum tíma ekki talið að hafðar hafi verið við hana samfarir. Að sama skapi staðfesti vitnið að hana rámi í að hún hafi maldað í móinn líkt og hún greindi frá hjá lögreglu.

Vitnið skýrði frá því að hún hafi misst a.m.k. tvo mánuði úr vinnu eftir þetta, aðeins glímt við kvíða og einungis sótt eitt […]. Þá kvaðst hún hafa sótt fundi hjá […] en hún sæki ekki tíma hjá sálfræðingi. Í dag sé líðan hennar betri og hún sé að vinna úr þessu þó að það gangi hægt en atvik þetta hafi haft mikil áhrif á líðan hennar. 

Vitnið J kvaðst þetta kvöld hafa farið á V í G og að henni lokinni hitt brotaþola o.fl. og í framhaldi af því hafi hann ásamt fleirum farið í D og þar hafi verið um 15 manns. Hann hafi ásamt vitninu K verið þar fram til um kl. 00:30 en þá hafi þeir farið. Hann hafi mestallan tímann setið í T ásamt ákærða, brotaþola, vitnunum L og M, bróður hans, en þau fimm hafi verið mest á T en aðrir meira flakkað út og inn af T en margir verið inni í D. Vitnið kvað brotaþola eitthvað hafa farið frá borðinu og þá gengið. Vitnið bar að ákærði hafi setið við vegginn og brotaþoli við hlið hans og hann við hlið hennar en bræðurnir gegnt þeim. Vitnið bar að vitnið N hafi komið inn á T en hann mundi ekki til þess að hann hafi setið við borðið. Hann kvaðst hafa verið farinn af staðnum þegar móðir H kom og samkvæminu lauk. Að sögn vitnisins var brotaþoli mjög drukkin þetta kvöld og hafi hún verið „vel í glasi“ þegar hann hitti hana í G. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola á T en skömmu áður en hann fór hafi verið „minna líf í henni.“ Að sögn vitnisins tók brotaþoli, að hann best man, þátt í söng en vitnið L hafi spilað á gítar. Vitnið sá brotaþola ekki strjúka ákærða og sagði að ekkert daður hafi verið á milli þeirra. Þá merkti hann ekki að ákærði sýndi brotaþola sérstakan áhuga.

Vitnið H greindi frá því að hún þekki brotaþola í gegnum […] og vinnu hennar og þannig hafi myndast vinskapur þeirra á milli. Hún þekki ákærða lítið en viti hver hann er og þá einnig í gegnum […]. Vitnið lýsti því að að V í G lokinni hafi fólk hist á efri hæð G. Ákveðið hafi verið að fara í D og þar hafi fólk haldið áfram að spjalla, syngja og neyta áfengis. Hún kvaðst hafa gengið frá G með brotaþola og þær hafi þá verið „vel kenndar“. Vitnið bar að allir hafi haldið áfram að drekka og hún farið fram í D ásamt fleirum. Vitnið kvaðst muna að á einhverjum tímapunkti hafi brotaþoli orðið mjög drukkin, hallað sér fram með hangandi haus í stólnum sem hún sat í og ekki yrt á neinn. Að sögn vitnisins sat brotaþoli við borð í T við hlið ákærða en þetta hafi riðlast. Sjálf kvaðst hún hafa orðið mjög drukkin og hringt í móður sína en hún muni lítið eftir því og ekkert eftir því þegar hún fór með móður sinni. Vitnið bar að hún hafi ekki orðið vör við neitt daður eða þess háttar á milli brotaþola og ákærða. Vitnið mundi eftir því að ákærði gaf henni vatnsglas en á hvaða tímapunkti það var mundi hún ekki en sagði að það gæti hafa verið í enda kvöldsins. Vitnið sagðist eitthvað hafa rætt þetta mál við brotaþola og þá fyrst á mánu- eða þriðjudeginum á eftir og þá hafi brotaþoli ekkert vitað um hvað hefði gengið á en hún hefði vaknað buxnalaus í A, komið sér heim og sofið í nærri tvo daga.

Vitnið F lýsti því að H, dóttir hennar, hafi hringt um kl. 01:30 og óskað eftir því að hún yrði sótt. Hún hafi farið strax af stað og þegar hún kom í T hafi dóttir hennar verið að drekka vatn sem hún taldi að ákærði hafi verið að gefa henni. Brotaþoli hafi setið við borðið „eins og poki“ og þá hafi vitnin L, M og I verið þarna og augljóst að þarna hafi verið skrall. Hún hafi komið dóttur sinni út í bíl og síðan farið aftur inn og tilkynnt að samkvæminu væri lokið. Nefnd vitni hafi tekið sig til en brotaþoli setið við borðið. Hún hafi hrist hana til og spurt hvort hún vildi að henni yrði skutlað heim en ákærði hafi þá sagt að hann ætlaði að sjá um hana eða eitthvað í þá veru. Síðan hafi liðið smástund og vitnin þrjú hafi verið komin út en ákærði hafi staðið hjá brotaþola. Hún hafi þá ítrekað boð um akstur en brotaþoli hafi ekki svarað neinu heldur umlað eitthvað en ákærði hafi sagt að hann ætlaði að sjá um þetta. Taldi vitnið að ákærði hafi dröslað brotaþola á fætur. Vitnið kvaðst þá hafa farið út í bíl og séð að vitnin L, M og I gengu í norður en ákærði hafi gengið með brotaþola til suðurs. Henni hafi virst sem ákærði dröslaði brotaþola með sér en hún geti ekki ímyndað sér að hún hafi verið fær um að ganga óstudd. Aðspurt kvaðst vitnið ekki vita hversu langur tími leið frá því að hún kom á staðinn þar til hún fór á brott með dóttur sína en það hafi verið einhverjar mínútur. Vitnið kvaðst telja að brotaþoli hafi verið ofurölvi og ekki fær um að halda áfram í gleðskap. Að sögn vitnisins minnti hana að eftir að hún hafði komið dóttur sinni út hafi ákærði sagt eitthvað á þá lund við hana að þetta væri ekki eins slæmt og það liti út fyrir en þau ekki rætt það neitt nánar. Vitnið kvaðst örugglega hafa rætt þennan atburð eitthvað við brotaþola en kannski meira í gegnum dóttur sína, H.

Vitnið N bar að hann kannist við ákærða úr […] og þeir séu kunningjar. Brotaþola hafi hann hitt nokkrum sinnum í gegnum sameiginlega vini og kunningja. Þetta kvöld hafi hann verið á V í G og fljótlega að henni lokinni farið í samkvæmið en fólk hafi enn verið þar þegar hann fór til síns heima. Á þeim tíma hafi brotaþoli verið sofandi og hún hafi verið það nánast allan tímann meðan hann var þarna. Hún hafi þó farið á salernið með vitninu H en hvort hún gekk þangað sjálf mundi hann ekki. Vitnið taldi að brotaþoli hafi sofið vegna ölvunar. Vitnið kvaðst hafa tekið þátt í söng en taldi að brotaþoli hafi ekki gert það. Vitnið greindi frá því að hann myndi ekki nú hvernig sætaskipan var við borðið í T en bar að hann hafi rifjað það upp þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og vísaði til þess sem þar kemur fram. Vitnið bar að meðan hann var þarna hafi hann bæði verið í T en líka farið inn í D og taldi sig hafa varið þriðjungi tíma síns þar. Vitnið sagðist ekki hafa orðið vart við samskipti milli brotaþola og ákærða en mundi eftir því að einhver hafi reynt að vekja brotaþola sem hafi brugðist við með því að bíta þann mann.

Vitnið O kvaðst hafa verið bílstjóri hjá vini sínum, vitninu N, þetta kvöld. Fljótlega eftir V hafi þeir farið í D og lýsti vitnið því að brotaþoli hafi vart verið með lífsmarki þann tíma sem hann var þarna. Hún hafi setið við borð með hangandi haus og ekki skipt sér af einum eða neinum. Þó hafi vitnið H komið og farið með brotaþola á salernið en þegar þær komu til baka hafi brotaþoli sest aftur niður og þar hafi hún aftur drúpt höfði og sofið að hann taldi sökum ölvunar. Vitnið taldi að hann og vitnið N hafi farið úr D milli kl. 02:30 og 03:00 en þeir hafi verið komnir í […] heim til N rúmlega 04:00. Að sögn vitnisins sat hann við borðið í T meðan hann var þarna en hann fór þó í tvígang inn í D auk þess sem hann ók fólki úr samkvæminu heim til sín.

Vitnið I var þetta kvöld á V í G og fór að henni lokinni í D til vitnisins H. Þar hafi hún setið á T og spjallað auk þess sem hún fór aðeins inn í D. Að sögn vitnisins þekkir hún brotaþola lítið og hafði ekki áður skemmt sér með henni. Fólk hafi komið og farið og sest við borðið í T en hún hafi komið og farið að og frá borðinu.  Þegar leið á kvöldið hafi vitninu H liðið illa og hringt í móður sína, vitnið F, sem hafi komið og þá hafi samkvæminu lokið. Þá hafi allir verið farnir nema hún, vitnin L, M, ákærði og brotaþoli. Þau hafi öll gengið saman út. Vitnið L hefði hringt á leigubíl og þau hafi gengið í áttina að G. Vitnið F hafi verið með dóttur sína og boðið öðrum sem þarna voru far en hún mundi ekki eftir því hver viðbrögðin við því boði voru. Brotaþoli hafi ekki svarað. Þá hafi vitnið L einnig boðið brotaþola far. Vitnið bar að henni hafi þótt brotaþoli mikið drukkin en hún hafi ekki velt brotaþola sérstaklega fyrir sér. Hún hafi séð brotaþola sitja við borðið en hún hafi ekki tekið eftir því hvort hún var mikið að spjalla en henni hafi virst hún frekar dauf. Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hafi boðið henni í samkvæmi í A […]. Að sögn vitnisins mundi hún ekki hvernig brotaþoli gekk út úr D en hópurinn hafi verið smástund þar fyrir utan. Hún, vitnin L og M hafi síðan gengið á móts við leigubifreiðina sem var væntanleg en hana minnti að brotaþoli og ákærði hafi gengið saman á brott í hina áttina. Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir neinum sérstökum samskiptum milli ákærða og brotaþola en hún sagðist ekki muna eftir daðri þeirra á milli. Vitnið bar að þegar brotaþola var boðið far hafi ákærði sagt að hann myndi fylgja henni heim. Engin sérstök ástæða hafi verið fyrir því að brotaþola var boðið far en það hafi verið gert vegna þess að þau voru að fara heim. Vitnið minnti að ákærði hefði haldið utan um brotaþola þegar þau gengu saman á brott. En hún hafi ekki haft sérstakar áhyggjur af henni.

Vitnið L kvaðst hafa komið í T um miðnætti þetta kvöld og stoppað þar í eina til tvær klukkustundir. Vitnið kvað sig minna að brotaþoli hafi verið „ákaflega drukkin.“ Þá sá hann engin samskipti milli ákærða og brotaþola og sá ekki þegar brotaþoli yfirgaf svæðið. Vitnið kvaðst ekki hafa átt samskipti við brotaþola þetta kvöld og taldi að hún hafi ekki verið í ástandi til að eiga við hann samskipti.

Vitnið K bar að hann hafi komið í D eftir að V lauk en hann ásamt vitninu J hafi farið þaðan um kl. 00:30. Þarna hafi verið gleðskapur, sungið og spilað. Vitnið kvaðst kannast bæði við ákærða og brotaþola sem hafi verið mjög drukkin en hún hafi engu að síður tekið þátt í gleðskapnum og ekki verið sofandi. Að sögn vitnisins tók hann ekki eftir neinum sérstökum samskiptum milli ákærða og brotaþola. Vitnið kvaðst örugglega hafa spjallað eitthvað við brotaþola en hann muni ekki hvað þeim fór á milli. Á þeim tíma sem hann var í samkvæminu hafi einnig verið þar vitnin L, M, N og vinur hans, H, Ó, I og J, þá hafi líka verið þarna maður að nafni P. Aðspurt mundi vitnið ekki hvort brotaþoli hafi allan tímann verið inni á T.

Vitnið Ó var á V í G en hún fór síðar um kvöldið í samkvæmið. Vitnið kvaðst muna að brotaþoli hafi verið alveg út úr heiminum með hangandi höfuð en á einhverjum tímapunkti hafi hún „orðið alveg off“ og eftir það hafi hún bara verið þarna. Mundi vitnið til þess að ákærði sat við hlið hennar en hún hafi ekki séð nein samskipti þeirra á milli. Vitnið kvaðst hafa farið úr samkvæminu áður en því lauk, um 30 til 60 mínútum áður, eftir því sem hún frétti síðar frá öðrum. Vitnið kvaðst hafa rætt þetta mál við brotaþola en það hafi þær gert stuttu eftir þetta atvik.

Vitnið M var á títtnefndri V og í samkvæminu sem haldið var að henni lokinni. Vitnið greindi frá því að mikil gleði hafi verið í samkvæminu en hann hafi farið heim þegar því lauk og með honum hafi farið vitnin L og I. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt að til stæði að halda samkvæminu áfram í A. Þá mundi hann ekki hvort brotaþola var boðið far. Að sögn vitnisins var brotaþoli með ráði og rænu og hann mundi ekki annað en að hún hafi getað gengið ein og óstudd og þá hafi hún tekið þátt í gleðskapnum en hún hafi verið mjög ölvuð. Vitnið kannaðist við að hafa ætlað að hressa brotaþola við sem þá hafi bitið hann. Vitnið tók ekki eftir neinum sérstökum samskiptum milli ákærða og brotaþola en þau hafi verið á svæðinu þegar hann fór.

Vitnið R sótti brotaþola í […] morguninn eftir atvik máls. Að sögn vitnisins var leigubifreiðin pöntuð í […] eða í G en hann mundi það ekki. Þegar hann kom í […] gekk kona á móti honum. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu sérstöku eða athugaverðu við hana og hún hafi sest aftur í bifreið hans og þau ekki rætt neitt saman meðan á akstrinum stóð.

Vitnið S sálfræðingur staðfesti vottorð það sem hann ritaði vegna brotaþola. Að sögn vitnisins hitti hann brotaþola í tvígang eftir atvikið en hún hafi komið til hans til að ræða það sem hún hafði upplifað. Brotaþoli hafi rætt atvikið í bæði skiptin sem hún kom til hans og skýrt frá atvikum með sama hætti. Vitnið kvaðst ekki hafa haft neina ástæðu til að ætla annað en að brotaþoli hafi sagt frá atvikum í samræmi við það sem hún hefði upplifað. Vitnið kvaðst ekki hafa lagt nein próf fyrir brotaþola en hún hafi ekki óskað eftir fleiri viðtölum við hann og hann ekki hitt hana oftar en í þessi tvö skipti. Að sögn vitnisins var greinilegt að brotaþoli var í uppnámi vegna þess sem fyrir hana hafði komið.

IV

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök að hafa haft samræði við brotaþola, án hennar samþykkis með því að notfæra sér að brotaþoli gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga og er brot hans talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að framburður brotaþola sé trúverðugur og hann fái stoð í framburði annarra vitna sem lýstu ölvunarástandi hennar. Telur ákæruvaldið að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að brotaþoli hafi ekki getað gefið samþykki fyrir kynmökum. Að mati ákæruvaldsins ber að hafna framburði ákærða.

Af hálfu ákærða er byggt á því að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna refsinæma háttsemi af hans hálfu. Hann hafnar því að hann hafi haft samfarir við brotaþola án hennar samþykkis og því að atvik hafi verið með þeim hætti að brotaþoli hafi ekki getað spornað við verknaðinum vegna ölvunar og svefndrunga. Þá hafi ákæruvaldinu ekki tekist að sýna fram á saknæma háttsemi hans. Að mati ákærða er framburður hans trúverðugur en framburður brotaþola ótrúverðugur og því verði að leggja framburð hans til grundvallar við úrlausn málsins.

Í ljós er leitt að ákærði og brotaþoli voru málkunnug og þá voru þau á þessum tíma „vinir“ á samskiptamiðli. Einnig liggur fyrir að ákærði var undir áhrifum áfengis.

Af framburði vitna er ljóst að brotaþoli var undir miklum áhrifum áfengis þetta kvöld en ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að önnur efni hafi komið henni í það ástand sem hún var í. Að framan er gerð grein fyrir framburði vitna sem komu fyrir dóminn. Þau lýstu því hvernig brotaþoli kom þeim fyrir sjónir en nokkur munur er á lýsingu þeirra. Þannig báru vitnin H, F, N, O, L og Ó í aðalatriðum að brotaþoli hafi verið sofandi, með hangandi höfuð og ekki viðræðuhæf sökum ölvunar. Hins vegar báru vitnin J, K og M að brotaþoli hafi verið mikið drukkin en hún hafi ekki verið sofandi og tekið þátti í gleðskapnum. Vitnið I kvað brotaþola hafa verið drukkna en hún hafi ekki velt henni sérstaklega fyrir sér. Þá minnti hana að brotaþoli og ákærði hafi gengið saman í gangstæða átt við þá átt sem hún fór í eftir að gleðskapnum lauk. Ákærði bar einnig að brotaþoli hafi verið ölvuð.

Ákærði er einn til frásagnar um það sem gerðist eftir að hann og brotaþoli gengu í áttina að A. Ákærði lýsti atvikum í A þannig að eftir að hann og brotaþoli voru komin þangað hafi hann gengið til baka til að gá að hinu fólkinu. Síðan hafi hann snúið við og komið aftur og þá hafi brotaþoli verið komin inn á T. Hún hafi staðið á fætur, gengið til hans og kysst hann. Í framhaldi hafi þau í skamma stund haft samfarir en hann hætt þeim þegar brotaþoli sagðist ekki vilja halda þeim áfram.

Ákærði gaf í þrígang skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins. Framburður hans þar og hér fyrir dómi var í öllum aðalatriðum á sömu lund og er þar ekki að finna misræmi sem dregið getur úr trúverðugleika framburðar hans. Er framburður ákærða að mati dómsins trúverðugur.

Af framburði brotaþola fyrir dóminum og skýrslum hennar hjá lögreglu verður ekki annað ráðið en að hún muni í raun nánast ekkert eftir því sem gerðist eftir að hún kom í samkvæmið sem haldið var eftir að V í G lauk og þar til hún vaknar morguninn eftir á T í A ákærða. Framburður hennar um atburði kvöldsins er því reistur á því sem henni hafði verið sagt. Er því ekki unnt að kveða upp úr um trúverðugleika framburðar hennar.

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og þau atvik sem telja má honum í óhag en allan skynsamlegan vafa verður að skýra ákærða í hag, sbr. 109. gr. sömu laga. Líkt og áður er rakið hefur ákærði staðfastlega neitað sök og frá upphafi rannsóknar málsins á sama hátt lýst því hvernig það kom til að hann og brotaþoli höfðu samfarir í stutta stund.

Annarra gagna en vættis vitna um ölvunarástand brotaþola nýtur ekki í máli þessu en engin læknisfræðileg gögn geta gefið vísbendingu um ölvunarástand hennar og þá leiddi réttarlæknisfræðileg skoðun á brotaþola ekkert óeðlilegt í ljós. Vottorð og vætti sálfræðings sem gefið var eftir einungis tvö viðtöl við brotaþola hefur takmarkað sönnunargildi.

Af framburði vitna er ljóst að brotaþoli var undir miklum áhrifum áfengis en líkt og að framan er getið er nokkur blæbrigðamunur á framburði vitnanna varðandi ölvunarástand hennar. Þegar samkvæminu lauk voru vitnin F, I, M, L og H á staðnum. Hvorki L né H báru um ástand brotaþola þegar hún fór með ákærða. Vitnið F lýsti því að ákærði hefði „dröslað“ brotaþola með sér, I minnti að ákærði hefði haldið utan um brotaþola þegar þau gengu á brott og vitnið M bar að brotaþoli hafi getað gengið ein og óstudd þótt hann hafi ekki verið að lýsa því þegar þau gengu saman á brott. Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki, gegn staðfastri neitun ákærða, tekist að sanna svo ekki leiki á skynsamlegur vafi að brotaþoli hafi verið ófær um að veita samþykki sitt fyrir kynmökunum, líkt og ákæruvaldið heldur fram. Ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Með vísan til 2. mgr. 235. gr. laga um meðferð sakamála ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi 35.000 krónum. Brotaþoli naut í fyrstu aðstoðar Arnbjargar Sigurðardóttur lögmanns en síðar tók við réttargæslu fyrir hennar hönd Júlí Ósk Antonsdóttir lögmaður og ber að ákvarða þeim báðum þóknun. Þessum kostnaði til viðbótar eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, og 32.367 króna ferðakostnaður verjandans. Málsvarnarlaun og þóknanir eru ákveðnar með hliðsjón af tímaskýrslum lögmannanna og fela þær í sér virðisaukaskatt.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 176. gr. laga um meðferð sakamála að vísa einkaréttarkröfu brotaþola frá dómi.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Einkaréttarkröfu Y er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun Sigmundar Guðmundssonar lögmanns, 874.820 krónur, þóknun Júlíar Óskar Antonsdóttur lögmanns, 402.240 krónur, og þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur lögmanns, 114.390 krónur.

 

                                                                 Halldór Halldórsson