• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda
  • Ógildingarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. febrúar 2019 í máli nr. E-28/2015:

Sjálfseignarstofnunin Auðkúluheiði

(Sigurður Jónsson lögmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson lögmaður)

 

I

Mál þetta var höfðað 21. júní 2015 og tekið til dóms 21. desember 2018.

Stefnandi er sjálfseignrastofnunin Auðkúluheiði, Stóra-Búrfelli, Húnavatns-hreppi.

Stefndi er íslenska ríkið, Vegmúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

            Stefnandi krefst þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. desember 2014 í máli nr. 2/2013, hvað varðar Auðkúluheiði, landnúmer 145332, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:

„Landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. Auðkúluheiði, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.:

            Upphafspunktur er í Blöndu við Vallgil. Er Blöndu fylgt til upptaka í Hofsjökli. Er jaðri jökulsins fylgt til suðurs þar til komið er að skurðpunkti við afréttarmörk á Kili milli Biskupstungnaafréttar og Auðkúluheiðar. Ráða afréttarmörkin að sunnan á eftirfarandi hátt: Frá Strýtum (hæð 834 m.) eru merkin bein lína til austurs að Grettishelli (hæð 670 m). Þaðan bein lína að Hringsjá á Fjórðungsöldu (hæð 681 m). Frá hringsjá eru merkin bein lína til austurs í Hofsjökul, sem er framhald hugsaðrar línu frá Strýtum um hringsjána. Til vesturs frá Strýtum eru merkin bein lína í grjóthól á fjallseggjum, ofan við vatnaskil í Sóleyjardal (hæð 946 m). Þaðan eru merkin bein lína í Oddnýjarhnjúk (hæð 1.057 m), og áfram í sömu stefnu í jökulruðning (mórena) og síðan eftir jökulruðningnum í Langjökul. Þá er farið norður með jaðri Langjökuls. Úr norðurenda Langjökuls er dregin bein lína norður í Lyklafell. Úr Lyklafelli er farið í norðurenda Búrfjallahala. Þaðan er farið norðaustur í upptök Fellakvíslar og henni fylgt þar til Kolkukvísl fellur í hana. Þaðan er farið í norður í Skammbeinstjörn og áfram í Karyrðlingatjörn. Úr Karyrðlingatjörn er farið austur í Fiskilæk um Helluvörðuás. Úr Fiskilæk er farið í upphafspunkt í Blöndu við Vallgil.

Að því leyti sem fylgt er jökuljaðri er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.“

Til vara krefst stefnandi þess að nefndur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar þann hluta af landi Auðkúluheiðar, landnúmer 145333, sem liggur norðan varnargirðingar á Kili. Norðurmörk eru þau sömu og í aðalkröfu. Blanda ræður austurmörkum allt suður að horni sauðfjárveiki-varnargirðingar á Kili sem er við Blöndu austsuðaustur af Dúfunefsfelli. Þaðan er lína dregin eins og girðing liggur til vestnorðvesturs og síðan vesturs sunnan við Dúfunefsfell, sunnan við flugvöllinn á Fluguskeiði, vestur yfir Breiðmel norðan Hveravalla, vestur yfir há-Stélbratt, upp á Þjófadalsfjöll sunnan við Sóleyjargil til vesturs í aðalkröfulínuna.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að nefndur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar þann hluta af landi Auðkúluheiðar, landnúmer 145332, sem liggur norðan Seyðisár. Norðurmörk eru þau sömu og í aðalkröfu. Blanda ræður austurmörkum suður til ármóta við Seyðisá. Suðurmörk fylgja Seyðisá eins og hún rennur sunnan við Sandkúlufell norðan við Dragsá og sunnan við Sjónarhól upp til Búrfjalla og þaðan til vesturs í aðakröfulínuna við mörk Forsæludalskvísla.

Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að nefndur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að hluta, þ.e. að því er varðar þann hluta af landi Auðkúluheiðar, landnúmer 145332, sem liggur norðan Blöndulóns og Kolku. Norðurmörk eru þau sömu og í aðalkröfu. Blanda ræður austurmörkum suður að Blöndustíflu. Suðurmörk fylgja norðurjaðri Blöndulóns að Kolkustíflu. Þaðan til vesturs með Kolku í aðalkröfulínuna við mörk Forsæludalskvísla.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfur stefnanda krefst hann þess að viðurkennt verði að hann eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á öllu því svæði Auðkúluheiðar sem úrskurðað var þjóðlenda.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi hans en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

 

II

Atvik máls

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.

Með bréfi til fjármálaráðherra, dagsettu 21. febrúar 2008, tilkynnti óbyggðanefnd þá ákvörðun sína að taka til umfjöllunar tiltekið landsvæði á Norðvesturlandi, sbr. 8., 11. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Landsvæði þetta, hið níunda í röðinni hjá óbyggðanefnd, tók til Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps vestan Blöndu, Húnaþings vestra, Borgarbyggðar (að undanskildum fyrrum Kolbeinsstaðahreppi), Skorradalshrepps, Hvalfjarðarsveitar og Akraneskaupstaðar. Óbyggðanefnd ákvað í október 2008 að breyta fyrirhugaðri röð næstu svæða á þann veg að taka svæði 7 norður til umfjöllunar á undan svæði 8 og einnig að skipta svæði 8 í tvennt. Landsvæðið sem tekið var til umfjöllunar í úrskurði nefndarinnar eftir þessar breytingar nefndist Norðvesturland (8 norður).

Landsvæðið Norðvesturland afmarkast svo:

Að vestan ræður Hrútafjarðará sem fylgt er að sýslumörkum Húnavatnssýslu og Mýra- og Borgarfjarðarsýslu á Arnarvatnsheiði. Sýslumörkum er fylgt austur að sýslumörkum Árnessýslu og er þeim einnig fylgt til austurs í Blöndu. Blöndu er fylgt norður að norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og er þeim fylgt austur að norðurmörkum fyrrum Seyluhrepps og þeim fylgt austur í Héraðsvötn. Héraðsvötnum er svo fylgt til ósa. Að norðan afmarkast svæðið af hafi.

Fjármálaráðherra var upphaflega veittur frestur til 31. júlí 2009 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, væri um slíkar kröfur að ræða. Vegna ákvæða í lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var fjármálaráðherra tilkynnt að óbyggðanefnd myndi ekki taka til meðferðar ný svæði né fjármálaráðherra lýsa kröfum ríkis um þjóðlendur fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2012. Hafði þetta í för með sér að fyrri ákvörðun óbyggðanefndar, um að veita íslenska ríkinu kröfulýsingarfrest til 31. júlí 2009, var úr gildi fallin.

Þann 23. júní 2011 var fjármálaráðherra tilkynnt að óbyggðanefnd tæki Norðvesturland aftur til meðferðar og honum veittur frestur til 9. janúar 2012 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á þessu svæði, væri um slíkar kröfur að ræða. Sýslumönnum og fyrirsvarsmönnum viðkomandi sveitarfélaga, þ.e. Húnaþings vestra, Húnavatnshrepps, Blönduósbæjar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, var tilkynnt um ákvörðun óbyggðanefndar og gerð grein fyrir framhaldinu.

Kröfulýsingarfrestur fjármálaráðherra var fyrst framlengdur til 31. mars 2012 og síðar til 30. júní sama árs.

Kröfulýsingar stefnda um þjóðlendur á Norðvesturlandi bárust óbyggðanefnd 2. júlí 2012. Hinn 5. júlí sama ár birtist tilkynning í Lögbirtingablaðinu um málsmeðferð á svæðinu og útdráttur úr þjóðlendukröfum stefnda ásamt uppdrætti í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skorað á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan svæðisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd eigi síðar en 7. janúar 2013 en sá frestur var síðar framlengdur fram í febrúar. Jafnframt kom fram að yfirlýsingu um kröfugerð yrði þinglýst á fasteignir sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði. Kröfur stefnanda voru síðan gerðar aðgengilegar á skrifstofum sýslumanna á Sauðárkróki og Blönduósi, skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga, auk heimasíðu og á skrifstofu óbyggðanefndar. Þá var málið kynnt í fjölmiðlum.

Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdráttur lágu frammi á skrifstofum sýslumanna á Sauðárkróki og Blönduósi svo og á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga og á heimasíðu og skrifstofu óbyggðanefndar. Athugasemdafrestur var til 22. maí 2013. Engar athugasemdir bárust óbyggðanefnd fyrir lok frestsins. Stefndi lagði fram kröfulýsingar um þjóðlendur á svæðinu í einum hluta en á móti bárust 16 kröfulýsingar ýmissa aðila, sem sumar sköruðust eða náðu til fleiri en eins landsvæðis. Óbyggðanefnd fjallaði um landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, þ.e. Forsæludalskvíslar, í máli nefndarinnar nr. 2/2013.

Ekki er um það deilt að stefnandi höfðaði mál þetta innan þess frests sem gefinn er skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998.

III

Afmörkun og saga Auðkúluheiðar

Landsvæði það sem hér er deilt um er víðfemt en um 60 km eru í beinni loftlínu frá Deildartjörn nyrst á svæðinu í Strýtur á suðurmörkum þess. Sunnan til mótast landslagið af framrás jökla en víða skiptast á ávalar hæðir og ásar, lægðir og stöðuvötn. Auðkúluheiði er víða vel gróin og haglendi víðáttumikið en gróður minnkar eftir því sem sunnar dregur og næst jöklum eru að stórum hluta gróðurlitlir sandar og melar. Nyrst eru nokkur stöðuvötn auk Blöndulóns sem er manngert. Innan svæðisins er fjöldi fella og fjalla sem hæst rísa í yfir 1.000 metra yfir sjávarmál. Frá Deildartjörn nyrst á svæðinu er rúmlega 21 km í beinni loftlínu að bæjarstæði Auðkúlu sem heiðin er kennd við.

Svæðið afmarkast að austan af Blöndu og Blöndukvísl fram í Hofsjökul. Að sunnan ráða afréttarmörk á Kili milli Auðkúluheiðar í Austur-Húnavatnssýslu og Biskupstungnaafréttar í Árnessýslu. Að vestan ráða mörk gagnvart Guðrúnarstöðum, Þórormstungu, Forsæludal, Dalslandi og Forsæludalskvíslum. Að norðan er svæðið afmarkað af línu sem liggur úr Blöndu við Vallgil í Fiskilæk og þaðan vestur í Helluvörðuás og þaðan í Karyrðlingatjörn.

Elsta heimildin um Auðkúluheiði er í Bréfabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1579 þar sem heiðarinnar er getið í skilmálum fyrir leigu jarðarinnar Auðkúlu með þessum hætti: „[...] og allre Kuluheide til ystu vmmerkia motz vid adra menn med lambatollum, veidum og aullum gagnsmunum sem þeirre heidi fylgt hefur ad fornu og nyiu [...].“ Fjórum árum síðar, 26. október 1583, kemur heiðin við sögu í dómi Jóns Jónssonar lögmanns um rekstur á Kúluheiði þar sem lögmaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Ásamenn og Svíndælingar skyldu reka á Kúluheiði og tolla gjalda svo sem verið hafi.

Í vitnisburði Bjarna Jónssonar á Snæringsstöðum og alnafna hans á Geithömrum dagsettum 10. febrúar 1591 lýsa þeir landareign Auðkúlustaðar þannig:

Svo felldann vitnisburd berum vid Biarne Jonsson buandi á Snæringsstödum og annar Biarne Jonsson buandi a Geithömrum, umm stadarins Audkulu Landeign, sem hier efter skrifad stendur, J fyrstu allur halfur Sliettaardalur á mots vid Dal og so rett lynis framm i fiskilæk, so ur fiskilæk í vallgil, so þar fram frá alla heide millum Blondu og Burfialla i motz vid Forsæludal, hefur þetta allt land verid kaullud Kuluheide i ochar minne med Lambarekstur ur Svinavatnshrepp og giliaarhrepp a aullum þeim Bæiumm sem liggia a Kolkumyrum og a aasum og i Svinadal, og umm ockar daga hefur þetta land verid halldinn Kuluheide, og tollur golldinn aarliga Kulumonnum og þar alldrei tvimæle a leika, ad audrum jordum hafe verid greint land Eygnad enn Kulustad, og hofum vid uppalist og verid i Svinadal umm ochar æfe, og erum vid nær sextugir menn, þar vid hofum vitad þetta land lied audrumm monnum til veida og annara naudþurfta og hvorke eignad Eldjanstodum [svo] nie Eydstodum, nema nu i haust af Þorkiele Gvondssyne og Ecke hofum vid vitad Eignad Eydstodum leingra enn leingst i Haugamyre og i Gilsaa: þar med hofum vid vitad Lambarekstur hafa verid yfir Sandaa, þa gott er i aare, En a Blondu Gile, þa hart er i are, En tollur goldinn Kulumonnum.

Jtem haufumm vid heyrt merke Kululandeygnar f(yrer) vestann framm ur Svinadalsaa og framm i Karittingatiorn kollud er, Enn þar haufumm vid og heyrt greinelega sundurdeilt med Dalsmonnum og Kulumonnum, utann Kulumenn hafa Eygnad sier alla eidavik, enn Dalsmenn halfa, utann hvorier hafa veidt i þeirre vijk, sem ad hafa komid, og eche til stors agreinings komid svo vid vitum fyrr enn i haust, og eche haufumm vid þad heijrt nie vitad ad nockrum jordum hafe veidevotn verid eignud i greindu takmarke audrum enn Kulu fyr enn i haust af nefndrumm Þorkele Gudmundssyne, hvorke af ockar forelldrum, nie audrumm þeim elldre monnum, sem til hefur kunnugt verid og hier efter vilium vid sveria ef þurfa þætte, og til sannenda hier umm, setium vid ochar innsigle f(yrer) þetta ockar vitnisburdar bref, skrifad a Holltastodum i Langadal, þann tiunda dag February manadar, þa lided var fra gudzburd 1591.

Til er vitnisburður Björns Guðmundssonar um landareign Auðkúlustaðar frá árinu 1598. Þar segir m.a. svo:

So felldann vitnisburd ber eg Biorn Gudmundsson, umm stadarins Landeign Audkulu, sem hier efter skrifad stendur; J fyrstu allur halfur Sliettárdalur, a motz vid Dal, og so rett synis framm i fiskelæk, svo ur fiskelæk i vallgil, svo þar framm fra alla Heide milli blondu og Burfialla, i motz vid Forsæludal, hefur þetta allt Land verid kollud Kuluheide i minu mynni, sydann eg tilvisse, med lambarekstrum ur svinavatnshrepp, og giliaarhrep, a ollum þeim bæjum sem liggia a Kolkumyrum og a aasum og i svinadal og i þesse xxxi aar, sem eg hefe verid f(yrer) vestann vatnsskard, 4 a Kulu, tvo a spakonufelle, og xxv a Eyvindastodum, hefur þetta Land verid halldinn Kuluheide, og tollur golldinn Kulumonnum, og þar alldrei tvimæle a leika, ad odrum jordum hafe vered greint land Eygnad, enn Kulustad, svo og hefe eg vitad þetta land lied odrum monnum til veida og annara naudþurfta, Enn hvorke eignad Eystodum, Elldjanstodum nie Þromum, nema af Þorkiele Gudmundssyne nylega, svo og hefe eg heyrdt, ad Eydstader ætte leingst i Haugamyre og i gilaa; hafa lambarekstrar verid yfer Sandaa þa gott er i aare, enn a blondugile þa hart er i aare, Enn tollur golldinn Kulumonnum.

Varðveittur er vitnisburður Magnúsar Einarssonar, sem bjó að Auðkúlu 1596 til 1650, og lýsir hann landamerkjum jarðarinnar og heiðarinnar þannig: „J fyrstu allur hálfur Sljettaardalur á móts vid Stóradal og so Réttsýnes framm í Fiskilæk svo úr Fiskelæk í Vallgil, svo þar framm frá alla heide milli Bløndu og Búrfjalla, framm á mitt Kjalarhraun móts vid Sunnlendínga ad sunnan, en firer vestan framm móts vid Forsæludal, svo þetta land hefur vered kallad Kúlu heide, med Lamba Rekstri, úr Svýnadals Repp og Giljar Repp, á øllum þeim bæum sem liggja á Kolku mýrum og á Asum og Í Svýnadal, og um alla mína æfi sem er LXXII Ár hefur þetta Land vered halldenn Audkúlu Stada heide, og fjallatollur golldinn Kúlu-Mønnum Arlega, […]“

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706 kemur fram um Auðkúlustaði: „Afrjett á staðurinn á Kúluheiði og toll fyrir þá rekstra, sem úr þessari sveit og af Asum mega þángað gánga. Lítt nýtur presturinn þessa, því mjög er afrjettin afrækt undir 20 ár.“

            Á manntalsþingi að Svínavatni 10. maí 1735 var lesin upp lögfesta séra Gísla Einarssonar fyrir Auðkúlustaðarlandi sem kallast Kúluheiði en inntak lýsingarinnar kemur ekki fram í dómabókinni. Á manntalsþingi að Torfalæk 9. júní 1758 var ályktað að Auðkúlustaðaheiði hefði til forna þénað og skyldi hér eftir þéna sem lögafrétt Svínavatns- og Torfalækjarhreppa. Ályktunin var gerð þar sem margir bændur afræktu Auðkúlustaðaafrétt. Tæpu ári síðar, 27. apríl 1759, var á manntalsþingi að Svínavatni lesin niðurstaða dóms frá manntalsþinginu að Torfalæk svohljóðandi: „Domsslútning frammfarenn á Torfalækiar þinge þann 9da Juny 1758 ad Audkúlu stadaheyde þiene hier effter fyrer lögafriett fyrer Torfalækiar og Svinavatns hreppa Jnnbyggendur.“

            Á sama manntalsþingi að Svínavatni, 27. apríl 1759, var lesin upp lögfesta séra Jóns Björnssonar fyrir Auðkúlustöðum og er hún svohljóðandi:

Jeg Jon Biornsson Beneficiator a Audkulustodum Logfeste Hier i dag Audkulu stadar Heimaland og Heide, med ollumm þeim gognum og giædum, hlutum og hlunnendum, votnum og veidestodum, sem þvi lande fylgt hefur ad fornu og nyu i mots vid adrar Jarder, effter þeim Skiolum sem þar fyrer liggia; tiltek eg þesse Landa merke, J fyrstu halfann Sliettardal mots vid Dal, og svo Rettsynis framm i Fiskelæk, þadann i Vallgil, sydann rædur Blanda til Jökla framm; Enn ad Vestann verdu ur Karittingatiorn og i austustu qvisl og rett synes sudur i Burfioll; fyrer byd Eg hvorium manne nefnt land ad yrkia, beyta edur bruka innann tiltekenna takmarka, Edur nochrar nitiar af ad hafa, fyrer utann mitt leyfe og samþycke, under þær Frekustu sekter, sem log þeim a hendur segia, er hier a mote giora; til skil eg ad þesse min Logfesta stande i fullum myndugleika næstkomandi tolf manude, og þad leingur, sem log eche i mote mæla, hvoru til stadfestu Eg skrifa mitt nafn Hier under ad Svinavatne þann 27. Aprilis, Anno 1759.

            Héraðsþing fór fram að Torfalæk 26. maí 1759 og þar var uppsagður dómur um fjallskil og fjalltolla á Auðkúlustaðaheiði en í honum kom fram að allir búendur sem hafa lögafrétt sem eigi 10 lömb eða fleiri séu skyldugir að reka á afréttina og gjalda eitt lamb hver í toll.

            Séra Jón Björnsson lögfesti heimaland Auðkúlustaðar og heiðina 3. maí 1766 með þessum hætti:

Jeg Jón Biornsson Beneficiator Audkulustadar Logfeste Hier i dag Audkulu stadar Heide og Heimaland, med ollumm þeim gognum og giædum, hlutum og hlunnendum, votnum og veidestodum, sem þvi lande fylgt hefur ad fornu og niju i mots vid adrar jarder, efter þeim Skiolum sem þar fyrer liggia.

Tiltek eg þesse Landa merkje; J fyrstu halfann Sléttardal mots vid Dal, og so réttsijnis framm i Fiskjalæk, þadann i Vallgil, sijdann rædur Blanda til Jökla framm; Enn ad Vestann verdu ur Karittíngatiörn og i austustu qvisl og réttsynis sudur i Burfioll.

 Fijrerbyd Eg hvörjum manne nefndt land ad ijrkia, beita edur bruka innann tiltekinna Takmarka, Edur nochrar nijtiar af ad hafa, hvar med allra helst meint er veideskapur í votnum og lækjum, Eggia tekja og alfta veide, samt Hrís Rif og kolagiord fyrer utann mitt leijfe edur Samþijckje under þær frekustu Sekter sem Log þeim a hendur seigia, sem hér á móte giora.

Tilskil eg ad þesse mín Logfesta stande i fullum myndugleika næstkomande 12 mánudi, og þad leingur, sem log ej i móte mæla.

Hvorju til stadfestu jeg skrifa mitt nafn hér under ad Svínavatni þann 3. Maji Anno 1766.

            Séra Ásmundur Pálsson lögfesti heimaland Auðkúlu og heiðina 30. maí 1774 með sama hætti og séra Jón Björnsson gerði 3. maí 1766, jafnfram fyrirbauð hann öðrum notkun landsins. Séra Ásmundur lögfesti aftur land Auðkúlu 25. apríl 1795 og lýsir hann merkjum heiðarinnar með sama hætti og áður.

            Hinn 23. júlí 1802 er Auðkúlukirkja vísiteruð af prófasti og ritað er um upprekstur á Auðkúluheiði með eftirfarandi hætti: „Kyrkian beheldur enn sinumm Rettugheitum, so eckert er med lagadómi undangeingid. Upprekstur lamba og geldfiár a Audkúlu Heydi, sem tekin var ad komast i nockurt lag, hefur nu eckj stad sökumm yfergeysandi stórhardinda, og Fiárfellirs.“

            Enn var gerð lögfesta fyrir Auðkúlustaði og heiðina 29. júlí 1803, nú af séra Jóni Jónssyni. Lögfesta þessi var þinglesin samdægurs á manntalsþingi að Tindum og svo aftur fimm árum síðar á sama stað. Lögfesta séra Jóns er í öllum aðalatriðum samhljóða lögfestum þeim sem áður er getið.

            Auðkúluheiðar er getið í jarðamatinu frá 1804 og þar segir að Auðkúla hafi fimm ríkisdali árlega í tekjur af heiðinni.

            Bjarni Steindórsson lögfesti jörð sína Þórormstungu 1806 en henni var mótmælt af prestinum á Auðkúlu með þessum orðum: „[…]en ad því leiti mótmælt, sem logfestan gengur uppá Audkúlu Heidi, til Kólkuhóls, eptir því sem Audkúlu skjol tiltaka, ad Audkúla egi frá Kárittinga Tjörn og í austustu qvísl, medan hún fellur rétt,[…]“

            Séra Jón Jónsson lét lesa hvatningu sína á manntalsþingi að Tindum í júní 1807 þess efnis að menn reki á Auðkúluheiði samkvæmt dómi frá árinu 1758. Á manntalsþingi, sem haldið var að Breiðabólstað á sama ári og í sama mánuði, var lesin upp kvörtun Bjarna Steindórssonar í Þórormstungu vegna átroðnings á Dalkvíslaland af fé sem rekið var á Auðkúluheiði. Hinn 23. júní 1810 var haldinn lögregluréttur að Stóru-Giljá vegna umkvörtunar séra Jóns á Aukúlu yfir óheimilli grastekju manna á Kúluheiði. Í bókun sýslumanns kemur m.a. fram: „Það er ómótmælt að Audkúlustadar prestakalli tilheyrir þad land á svonefndri Kúluheidi, sem lögfesta prestsins S ra Jóns Jónssonar sama stadar af 15da nærstl. mánadar og sama dag lesinn fyri manntalsþíngs Rétti ad Tindum, tiltekur og greinir ummerki ad, og undir eins öll þau hlunnindi innann sömu ummerkja liggja, hverra not og brúkun lögin hafa tileinkad Eigandanum.“

            Auðkúlustaður og heiðin var lögfest 24. apríl 1819 af prófastinum í Húnavatnssýslu og var lögfesta þessi lesin á þremur manntalsþingum. Merkjum Auðkúlustaðar og heiðarinnar er hér enn lýst með sama hætti og í fyrri lögfestum og öðrum mönnum fyrirboðin notkun heiðarinnar án leyfis. Í júní 1820 gerði séra Jón Jónsson á Auðkúlu sátt við bændur á 13 bæjum í Torfalækjarhreppi vegna þess að þeir höfðu ekki greitt toll af upprekstri undanfarin þrjú ár.

            Í prófastsvísitasíu að Auðkúlukirkju, 20. ágúst 1835, kemur fram að kirkjan eigi heimaland jarðarinnar ásamt viðföstu Auðkúlustaðar heiðarlandi. Séra Einar Guðbrandsson skrifar á árinu 1839 sóknarlýsingu Hjaltabakkasóknar. Í kafla um afréttarland ritar hann: „Afréttarland. Auðkúluheiði, og réttin Kúlurétt kölluð. Á sömu heiði og fleiri fjöllum eru grös að umbeðnu leyfi sótt. Mótak er hér hvergi brúkað.“ Úttekt var gerð að Auðkúlu 6. júní 1841 vegna prestaskipta og þar segir að kirkjan eigi eftir máldögum heimaland allt, land á Sléttudal ásamt þar viðföstu Auðkúlustaðar heiðarlandi. Í september 1843 gerðu séra Sigurður Sigurðsson á Auðkúlu og Björn Guðmundsson samning um silungsveiði Björns í vötnum á Auðkúluheiði. Samningurinn gerði m.a. ráð fyrir að Björn greiddi sanngjarnt verð fyrir veiði sína. Nefndur Sigurður bannaði 29. maí 1844 gras- og hrístekju á Auðkúluheiði. Banni þessu var þinglýst á þremur manntalsþingum í Húnavatnssýslu sama ár. Á fjórum manntalsþingum höldnum í Skagafirði 1845 var þinglesið bann Sigurðar við grastekju á Auðkúluheiði. Í þessu banni séra Sigurðar kemur m.a. fram að hann hafi öll umráð yfir Kúluheiði fram til jökla. Títtnefndur séra Sigurður lögfesti Auðkúlu, Auðkúluheiði og heimaland allt 26. maí 1845 og lýsir lögfesta hans merkjum jarðarinnar og heiðarinnar með sama hætti og fyrri lögfestur. Þá er bann hans við notkun annarra á landi jarðarinnar efnislega sambærilegt og í fyrri lögfestum. Auðkúlu er getið í Jarðatali Johnsens frá 1847 með eftirfarandi hætti: „Auðkúla [...] Eptir selstöðu og afréttarland kirkjunnar gjaldast árlega 24 fjallatollar, á 10 f. hver. Í fjalllandinu er og nokkur grasatekja, álptaveiði og fjaðratekja, sem leigist við 40 f. eptirgjaldi.“

            Á árinu 1844 voru Biskupstungnamenn í Árnessýslu farnir að huga að því að reka fé á afrétt norður yfir Jökulkvísl og Hvítárvatn. Séra Sigurður Sigurðsson, prestur á Auðkúlu, var því mjög mótfallinn og ritaði bréf til sýslumanns Húnvetninga af því tilefni. Sýslumaður ritaði bréf vegna þessa í byrjun janúar 1845. Amtmaðurinn í Norður- og austuramti skrifaði bréf 10. febrúar 1845 vegna ágreinings Húnvetninga og Árnesinga um fjárrekstur Biskupstungnamanna og sama dag er dagsett umsögn amtmannsins. Stiftamtmaður svaraði erindi amtmanns í ágústmánuði 1845. Hinn 9. júní 1848 var undirritaður samningur milli Biskupstungnahrepps og fjögurra kirkna í Árnesþingi, um nýtingu landspartsins fyrir norðan Hvítárvatn. Síðar sama ár var einnig samið við Hrunamenn um notkun á sama svæði. Um miðjan september 1850 var gefinn út konungsúrskurður um að kirkjunum fjórum í Árnesþingi væri heimilt að selja afréttinn norðan vatna en þar segir:

Derfor indstilles: „at det allernaadigst maa tillades, at indbemeldte Torfastaða, Skálholt, Bræðratúnga og Haukadals Kirker í Arnæs Syssel tilhörende, nordenfor de saakaldte Vötn (Hvítárvatn) beliggende Stykke Fjeldfælled afhændes for en Kjöbsum af 80 Rbd., til Fordeel for Kirkerne, saaledes, at den hver Kirke især tilfaldende Andeel af Kjöbesummen foranstaltes indsat i Jordebogskassen til Forrentelse, som en de respektive Kirker tilhörende Capital.

Að gengnum þessum úrskurði seldu kirkjurnar Biskupstungnahreppi afréttinn „fyrir norðan Vötn.“ Afsal var gefið út 26. apríl 1851 og lesið á manntalsþingi að Vatnsleysu 30. maí sama ár en það hljóðar svo:

Vér undirskrifaðir eignar- og umráðamenn Skalholts, Brædratúngu, Haukadals, og Torfastaða kirkju, konnumst við og gjörum hermed heyrum kunnugt, ad vér höfum selt og afhendt med afsöludum odals- og innlausnarrétti, eins og vér með þessum afsalsbréfi voru, seljum og afhendum afrétt þann, sem tédum kirkjum, eptir Vilchins og Gisla biskups máldögum tilheyrir fyrir nordan Vötn – um hvers eignarrétt, brúkun og takmörk ad samningar hafa gjördir verid að Torfastödum þann 9da Júni 1848 og að Hjálmholti þann 19da October s. a., sem hér med fylgja – samkvæmt oss þartil gefnu leyfi kirkjustjórnar herrans – dagsettu 23ja Sept. 1850.

Byskupstungnahreppi fyrir umsamid kaupverd 80rd., segjum áttatíu ríkisbankadali reidi silfurs, hvörjir áttatíu ríkisbankadalir reidi silfurs ad oss eru greiddir úr Biskupstungnahrepps sveitarsjódi, samkvæmt Innanrikisrádherrans þartil gefnu leyfi dagsettu 23ja Sept. 1850.

            Í Jarðamatinu frá 1849 er þannig fjallað um Auðkúlu og Kúluheiði:

Jörðinni fylgir heiðarland, kallað Kúluheiði, sem nær til jökla suður, en er mjótt á hinn veginn, er þetta afrjett fyrir nokkurn geldfjenað, og gefur sanngjarnlega nokkra afrjettartolla af sjer árlega; hefur Kúlu-maður tilgreint, að ágóði þessa heiðarlands megi árlega reiknast 20 rbd., og væri þetta hið minnsta, en samt vildu matmenn eigi reikna hinn rjetta ágóða af þessari afrjett meira en 16 rbd., sökum þess að afrjettarfje, sem þangað er rekið, gengur með fram í annari afrjett, og að Kúluheiði sjálf ekki ber mikinn fjölda afrjettarfjár, og hvergi nærri allrar sveitarinnar hjer, þegar Torfalækjar hrepps fje er þar með, og svo mikill kafli, í miðri heiði, er sandflá, bjarglaus.

Um 1850 tók Björn Bjarnason á Brandstöðum saman skýrslu um Kúluheiði, takmörk hennar, örnefni og ásigkomulag. Þá fjallar hann einnig um göngur og réttir, vegi og hrossagöngur. Í upphafi skýrslunnar greinir Björn frá því hverjir heimildarmenn hans séu en hann greinir svo frá þeim og takmörkum heiðarinnar:

Milli 1720 og 1760 bió Biarni Jónsson (efna maður og leingi fremsti hreppst(jóri) í Svínav(atns) hr(eppi)) á Hrafnabiörgum, síðan Jón sonr hans á sama bæ, Pietr á Geithömrum skinsamr maður, og Biarni í Holti, leingi hreppst(jóri) (faðir minn) allr þessir brædr biuggu milli 30 og 40 ár. Pietur fór siðast til föður míns eptir aldamótin, og þá heirði eg þá seigia bæði mier og öðrum eptir reinslu og vissu sinni þetta eptirfilgjandi

1. Um Takmörk,

 að austan: ræður Blanda og Blöndukvísl fram og austr undir Hofs Jökul, en Eivindarstaða heiði liggur alla leið hins vegar með henni, þaðan með Hofs Jökli suður að Jökulfalli, en það ræður vestur að Hvitá og í Hvítárvatn sem er fast við Lángjokul, er nokkrir kalla þar Regnbúðarjökul, það er fláki sá er liggur suðaustr úr Lángjökli, þá að vestan norðr með Lángjokli, og norður á Öldur. Þar tekur við Dalskvísla land, sem á allar öldur að norðan verðu, og er líkast til að griótdrag það er liggur vestanfrá Sandi norðaustr að Hanskafelli og so í Sandá ráði þar merkium. Síðan til norðurs ráði Fellakvíslar drag og Fellakvísl þar beint liggur vestan fellin riett norður að Karitlínga Tiörn þar vestur og fremsta kvísl Svínadalsár kemur úr. Þá tekur Hrafnabiargaland við úr tieðri tiörn austr í Þorarins vötn so í Hrafnabiarga Tiörn, og up á Hvannlækiar bungu, so eptr hábungunum norður á há borgir. Þar er Kúlu Selland rimi að Sliettá og frá henni í Ashildar Tiörn með merkium Stóradals og Guðlaugstaða lands. Nefnd Tiörn er gegnt Hrafnab(iargar)tiörn og birjar heiðin þar firir framan, að Ashildar læk er rennur austur i Fiskilæk og þá i Vallgil, eptr lögfestu frá Kulu, en Þramar land var þó kallað i allan Fiskilæk fram i Þremundr vatn, og er Þórdísar sel á því svæði austan lækin, það er kient við Þórdísi er þar bió firir Sandfallið 1766.

            Húnvetningar smöluðu Auðkúluheiði einir fram yfir miðja 19. öld en Biskupstungamenn höfðu rekið hross og nautgripi um hríð með samþykki Kúluheiðarmanna. Þegar sunnanmenn vildu einnig reka þangað geldfé var settur fundur á Kili þar sem mættu þrír menn að sunnan og aðir þrír að norðan til að ákvarða mörk afréttanna. Útbúið var áreiðarskjal en í því kemur fram að áreiðin hafi farið fram 18. og 19. júlí 1853. Þar er því lýst að Árnesingar lögðu fram heimildarskjal sitt fyrir afrétti sínum fyrir norðan vötn, kaupbréf dagsett 26. apríl 1851, en í því er mörkum landsins sem keypt var ekki lýst. Í skjalinu er sjónarmiðum aðila varðandi mörkin lýst en ætlan manna var að ákveða hversu langt til suðurs norðanmenn skyldu smala og að sama skapi hversu langt norður sunnanmenn ættu að smala. Af áreiðarskjalinu má ráða að menn telja sig ekki hafa heimild til að ákveða landfræðileg mörk afréttanna en sanngjarnt þótti og haganlegast að leitarmörk væru um há-Kjalarhraun. Deildu aðilar nokkuð um hvorir skyldu ganga Þjófadali en úr varð að það kæmi í hlut norðanmanna.

            Í Svínavatns- og Bólstaðahlíðarhreppum var óánægja með samninginn sem gerður var við sunnanmenn og mótmæltu þeir honum við amtmanninn í Norður- og austuramti. Málinu var skotið til stiftamtmanns sem svaraði með bréfi dagsettu 12. október 1854. Stiftamtmaður vísar í bréfi sínu til þess að Biskupstungnamenn hafi dóm fyrir því að Auðkúluheiði nái á mitt Kjalhraun. Þó svo að norðanmenn hafi leitað svæðið leiði það ekki til þess að þeir geti helgað sér afréttina. Hann kemst síðan að þeirri niðurstöðu að ef Húnvetningar vilji fyrirmuna Biskupstungnamönnum að brúka afréttinn þá verði þeir að leita til dómstóla.

            Í sóknalýsingum Auðkúlu- og Svínavatnssókna, frá árinu 1857, skrifar séra Jón Þórðarson eftirfarandi um sel og afrétt sóknanna:

31. Sel. Auðkúla og Stóridalur eiga selstöður. Frá Stóradal hefur selstaða verið brúkuð í 19 ár, en selstaðan frá Auðkúlu er niðurlögð fyrir ca. 40 árum, og óvíst hvort hún hefur verið brúkuð áður að staðaldri. Svínavatn þykist og eiga selstöðu á Sléttárdal, og hefur hún verið notuð 1 eða 2 ár í manna minnum, en bæði hún og selstaðan frá Auðkúlu eru að líkindum aflagðar sökum örðugleika.

32. Afréttir. Auðkúluheiði er afrétt, og á hana Auðkúlukirkja. Á hana reka Svínadals- og Torfalækjarhreppar, og hafa þeir eina fjárrétt sameiginlega í Stóradalsnesi, sem haldin er 22 vikur af sumri. 

Í sýslu- og sóknarlýsingum Húnavatnssýslu er varðveitt lýsing Björns Bjarnasonar á Brandsstöðum á Auðkúluheiði en þar segir að Björn hafi verið allra manna kunnugastur á Auðkúluheiði. Björn lýsir heiðinni þannig:

Auðkúluheiði liggur fram af Svínadal til jökla fram, og eru takmörk hennar þessi eftir lögfestunum: Að austan af Sléttárdal réttsýnis fram í Fiskilæk, þaðan í Vallgil, og svo ræður Blanda til jökla fram; en að vestanverðu úr Karitlíntjörn, sem er fram undan Svínadalsfjalli, og í austustu kvísl af Vatnsdalsá og réttsýnis suður í Búrfjöll. Nú er almennt álitið, að Kúlumaður eigi ekki nema mitt á Kjalhraun, en áður vildi þó Kúlumaður eiga suður að Hvítá, og mun það réttara, nl. suður með Hofsjökli suður að Jökulfalli, sem ræður vestur að Hvítá, og í Hvítárvatn, sem er fast við Langjökul, er nokkrir kalla þar Regnbúðarjökul (Það er fláki, sem liggur suðaustur úr Langjökli.); þá að vestan norður með Langjökli og norður á Öldur.

Heiðinni má skipta í þrjá hluti: 1. Svæðið millum jöklanna (Hofs- og Langjökuls), 2. Framheiðin, 3. Útheiðin.

Vorið 1879 fóru oddvitar Svínavatns- og Torfalækjarhreppa þess á leit við stiftsyfirvöldin á Íslandi að fá Auðkúluheiði keypta vegna ágreinings og óánægju sem upp var komin með upprekstur og nýtingu heiðarinnar. Þeir taka fram að samkomulag hafi tekist við prestinn á Auðkúlu. Í bréfi sínu taka oddvitarnir fram að samkvæmt gömlum dómum og venju eigi búendur í hreppum þeirra upprekstur fyrir sauðfé á Auðkúluheiði en gjalda skyldu þeir lamb í toll ef þeir áttu 10 lömb hið minnsta. Á móti hafi heiðarráðandi hreinsað heiðina og lagt til réttarstæði. Bændur hafi talið sig eiga meiri rétt til notkunar á heiðinni en umráðandi landsins hafi talið not bænda takmarkast við lambrekstur og í ýtrasta lagi geldfjárrekstur. Til að koma í veg fyrir ágreining buðust oddvitarnir til að kaupa heiðarlandið á 3.000 krónur sem skiptist milli hreppanna.

            Hinn 16. maí skrifar séra Jón Þórðarson á Auðkúlu stiftsyfirvöldum og mælir með því að hrepparnir fái heiðina keypta. Í bréfi sínu rekur séra Jón ástæður þess að hann telur söluna hagfellda kirkjunni. Vísar hann til þess að miðað við fjölda lögbýla í hreppunum ætti hann að fá 48 lambatolla. Frá þessari tölu dragist sex sem komi frá bæjum sem fyrir venju greiði ekki toll. Þá séu sumir bændur svo fátækir að hann hafi ekki krafið þá um toll. Því innheimti hann ekki nema 38 til 40 tolla. Síðan rekur prestur kostnað sem hann hafi af heiðinni sem felist í hreinsun og grenjavinnslu. Þegar allt er talið sé ágóðinn ekki meiri en 100 krónur á ári og því skaðlaust fyrir prestakallið að selja heiðina gegn því verði sem boðið er enda mætti fá 120 krónur í vexti af kaupverðinu. Í framhaldinu rekur séra Jón nokkrar ástæður þess að hann telji hagfellt að selja hreppunum jörðina. Prófasturinn í Húnavatnssýslu, séra Eiríkur Briem, skrifar umsögn sína til stiftsyfirvalda 31. maí 1879 og leggur til að salan verði samþykkt. Frumvarp um sölu á Auðkúluheiði (ásamt Grímstunguheiði) var lagt fyrir Alþingi sumarið 1879 en það náði ekki í gegn.

Lýsing á takmörkum Auðkúluheiðar var útbúin 4. september 1886 og þinglýst 17. maí 1890: „Að austan ræður Blanda og Blöndukvísl fram og austur undir Hofsjökul, þaðan með Hofsjökli suður að Jökulfalli, en það ræður merkjum vestur að Hvítá, og í Hvítárvatn, sem er fast við Langjökul, þá að vestan norður með Langjökli, og norður á Öldur, þar tekur við Dalskvíslaland.“ Þann 26. ágúst 1889 var gerð áreið á Dalkvíslaland vegna stofnunar nýbýlis að Réttarhóli. Í áreiðarskjali kemur fram að séra Stefán Jónsson, umráðamaður Auðkúluheiðar, sé samþykkur ummerkjum nýbýlis-landsins að austan.

Landamerkjabréf var útbúið fyrir Auðkúlu 17. maí 1890 og því þinglýst sama dag:

Að norðan ræður Svínavatn, sunnan frá svonefndum Dældarenda í Auðkúluskógi út í Svínadalsárós, ræður síðan áin að vestan merkjum millum Grundar og Auðkúlu, þar til kemur á móts við graslaut vestantil í svonefndu langholti, er liggur millum Auðkúlu og Holts. Graslaut þessi, sem nefnd er Merkjalaut, er andspænis vörðu á vesturbakka Svínadalsár, og ræður hún merkjum milli Holts og Auðkúlu austur í Fornmanna kol, er sjást í Langholti, þaðan í vörðu á Hrísbrún. Þaðan í vörðu á vestanverðri há Kúlunni, sem nefnd er Miðsmorgunsvarða frá Holti. Frá þessari vörðu liggur Auðkúlu land fram allan hálsinn, milli Svínadals og Sljettárdals, greinir þar Auðkúluland og Holtsland bein sjónhending frá áðurnefndri Miðsmorgunsvörðu fram á há Hornás, af Hornás sjónhending í vestanverða svo nefnda Tjarnarborg, þaðan beinleiðis í miðja Klaufarhæðir, fram í upptök lækjar í Rútsstaðaklauf, þaðan beinleiðis í há Hvannlækjarbungu, þar fyrir framan tekur við Auðkúluheiði. Þessi beina lína utanfrá Rútsstaðaklauf, fram á Hvannlækjarbungu greinir og Auðkúluland vestanvert frá Rútsstaða- og Hrafnabjargalöndum austanverðum. Að austan ræður merkjum Auðkúlulands áðurnefnd Dæld í Auðkúluskógi, liggur hún frá Svínavatni framanverðu, milli Litlalands og Auðkúlu, upp í hálsbrúnina, þaðan frá svonefndum Dældarhaus, fram austurbrún hálsins, þar til kemur að vörðu á brúninni uppundan læk þeim, er rennur ofan af hálsi næst fyrir utan svo nefnt Ingibjargarsel á Sljettárdal, lækur þessi, sem er takmörk Litladals að sunnan, rennur ofan í Sljettá, og fylgir Auðkúluland honum til árinnar ofan frá vörðunni á hálsbrúninni upp undan læknum. Úr því að Sljettá er komið ræður hún merkjum um Auðkúlulands að austan og Stóradals að vestan til upptaka hennar, suður á vörðu á Bungnaás, þaðan suður í Áshildartjörn og Áshildarlæk, austur í Fiskilæk, þaðan í Vallgil, og að Blöndu, er síðar ræður merkjum heiðarlandsins að austan.

Í frumvarpi til reglugjörðar um notkun afrétta í Húnavatnssýslu kemur fram að allir íbúar í Svínavatnshreppi skuli eiga upprekstur á Auðkúluheiði. Sama á við um búendur í Torfalækjarhreppi að undanskildum níu nafngreindum bæjum sem skuli eiga uprekstur í Forsæludalskvíslar.

            Samkvæmt fasteignamati frá 1916 er Kirkjujarðasjóður skráður eigandi Auðkúluheiðar og hún metin sérstaklega. Notendur eru sagðir fjáreigendur í Svínavatns- og Torfalækjarhreppum. Um heiðarlandið segir að það sé víðáttumikið, en meiri hluti þess hrjóstrugur, þó nokkrir partar séu vel grösugir. Þess er getið hvaða hreppar eiga þangað upprekstur en gjaldi samkvæmt gamalli venju fjártoll fyrir, lamb af hverjum búanda. Samkæmt upplýsingum umráðamanns gjaldast árlega 40 lömb í toll en aftur á móti kosti umráðamaður dýravinnslu á heiðinni, þ.a. nettó tekjur séu 50 til 60 krónur á ári. Heiðarlandið sé gott afréttarland fyrir hæfilegt magn búpenings en örðugt til dýravinnslu og smölunar vegna víðáttu og landslags. Þá er greint frá tveimur leitarmannaskálum.

            Fossanefnd sendi öllum sýslumönnum símskeyti 3. apríl 1918 um vatsréttindi í afréttum en þar kemur fram að nefndin telji slík réttindi ótvíræða almenningseign. Í skeytinu segir m.a: „Samkvæmt þessu skal yður hjermeð tjáð til leiðbeiningar og birtingar fyrir sýslunefndinni (unum) í umdæmi yðar, að landsstjórnin vegna landssjóðsins gjörir tilkall til allra vatnsrjettinda á afrjettum, þar sem tveir eða fleiri eiga eða hafa átt saman sumarbeit og geldfjárbeit.“

            Með bréfi dagsettu 19. mars 1918 fóru oddvitar Svínavatns- og Torfalækjarhreppa þess á leit við Stjórnarráð Íslands að fá keypt upprekstrarlandið Auðkúluheiði. Kom fram að þeir væru tilbúnir að greiða það verð sem umráðamaður heiðarinnar ákveddi og mælti með eða það verð sem virðingarmenn ákveði. Með bréfi þeirra fylgdi umsögn umráðamanns heiðarinnar, séra Stefáns M. Jónssonar á Auðkúlu, þar sem hann rekur m.a. not heiðarinnar, tekjur sínar af henni og kostnað. Hann leggur svo til að heiðin verði seld hreppunum.

            Með afsali dagsettu 5. júlí 1918 seldi Stjórnarráðið Svínavatns-, Torfalækjar- og Blönduóshreppum afréttarlandið Auðkúluheiði fyrir 3.500 krónur. Til eru tvö samhljóða afrit að uppkasti afsalsins fyrir utan handskrifaða klausu. Þar segir að umráðamaður Auðkúlustaðar skuli leystur undan öllum skyldum og kvöðum sem hingað til hafi á honum hvílt vegna afréttarlandsins og þær færist yfir á kaupandann. Afsali var síðan þinglýst 28. maí 1919 og vegna þessa er fært í dómabók: „[…] Afsal, dags 5/7 1918. Ráðherra Íslands selur Svínavatns-, Torfalækjar- og Blönduóshreppum afrjettarlandið Auðkúluheiði. Verð 3500 kr.“

            Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf 29. desember 1919 þar sem þeir voru beðnir um að skila skýrslu um þau svæði í sýslum þeirra sem töldust vera almenningar svo og um afréttarlönd sem hafi sannanlega tilheyrt eða tilheyri nú nokkru lögbýli. Bogi Brynjólfsson sýslumaður svaraði erindinu með bréfi dagsettu 28. apríl 1920. Í því kemur fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi aflað sér sé ekkert slíkt svæði að finna í sýslunni nema Almenningur á Skagaheiði. Hreppstjóri Svínavatnshrepps hafði áður svarað fyrirspurn sýslumanns ákveðið neitandi en um Auðkúluheiði segir hreppstjórinn: „Afrjettarland það – Auðkúluheiði – sem liggur hjer að bygð, nær alla leið að fjórðungsmótum á há Kili og hefir Auðkúluheiði tilheyrt prestsetrinu Auðkúlu hjer í hreppi frá ómuna tíð þangað til 1918, að hún var seld Upprekstrarfjelagi Auðkúluheiðar.“

            Í ritinu Göngur og réttir II frá árinu 1949 er vikið að göngum á Auðkúluheiði. Þar kemur fram að á tímabilinu 1750 og fram yfir aldamót 1800 hafi örfáir bændur rekið fé sitt á heiðina, smalað sjálfir og dregið í sundur hjá Eiðsstöðum í Blöndudal. Á þessum árum hafi fjártollar ekki goldist til Auðkúlu því að þeir fáu sem notuð heiðina áttu víðlend heimalönd sem lágu að heiðinni og voru því fjártollsfríir. Í sama riti er landamerkjum Auðkúluheiðar lýst svo:

Landamerki Auðkúluheiðar eru samkvæmt fornum skjölum Auðkúlustaðar: Að austan frá Vallgili sunnan við Þramarland ræður Blanda og Blöndukvísl merkjum til upptaka sinna vestan í Hofsjökli, svo suður með Hofsjökli til upptaka Jökulfalls, sem er allstórt vatnsfall, er kemur úr Hofsjökli norðan Kerlingarfjalla. Ræður svo Jökulfjall merkjum þar til það fellur í Hvítá. Að sunnan ræður svo Hvítá og Hvítárvatn merkjum til Langjökuls.

Að vestan eru merkin frá norðri til suðurs: Úr Karyrðlingatjörn í há- Friðmundarhöfða, þaðan bein lína í Fellakvísl, þar sem Kolkukvísl fellur í hana, svo eftir því sem Fellakvísl ræður til upptaka hennar. Þaðan bein lína í Búrfjallahala norðari og þaðan í Langjökul.

Síðan er vikið að því að Biskupstungnamenn hafi frá 1870 notað landið frá Hvítárvatni og Jökulfalli norður á há-Kjalhraun og vilji þeir eigna sér land svo langt norður sem vötn falla til suðurs. Einnig er því lýst í ritinu að samkvæmt Auðkúluskjölum hafi merki að norðan gagnvart heimalandi Auðkúlu ekki verið fastákveðin en við sölu heiðarinnar hafi þau verið talin frá Vallgili til vesturs um há-Helluvörðuháls í Karyrðlingatjörn.

            Í lok árs 1963 keypti Upprekstrarfélag Auðkúluheiðar land jarðanna Eiðsstaða og Eldjárnsstaða sem liggur framan heiðargirðingar, vestan línu sem dregin er af næstu brún austan Eiðsstaðahliðs í beina sjónhendingu í há-Þramarhaug. Á sama tíma seldi Svínavatnshreppur fjallskilasjóði Torfalækjar- og Blönduóshrepps hálfa jörðina Þröm en afsal má skilja þannig að öll jörðin sé seld en það var leiðrétt síðar.

            Á árinu 1984 var birt í B-deild Stjórnartíðinda bann við upprekstri hrossa á Auðkúluheiði. Í auglýsingunni segir m.a.:

Landbúnaðarráðuneytið hefur skv. heimild í 5. mgr. 23. gr. laga nr. 17/1965 um landgræðslu, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1982, ákveðið að banna upprekstur hrossa á Auðkúluheiði í Austur-Húnavatnssýslu, þ.e. sameiginlegan afrétt Torfalækjarhrepps, Blönduóshrepps og Svínavatnshrepps. Bann þetta tekur til svæðis, sem afmarkast af Blöndu að austan, að norðan af afréttargirðingu, sem liggur frá Blöndu sunnan Eiðsstaða í Vatnsdalsá, að vestan af afréttarmörkum Auðkúluheiðar og Grímstunguheiðar og sauðfjárveikivarnagirðingu á Kili að sunnan.

Bannið gildir frá og með 15. júlí n.k. og til ársloka 1984.

            Í skrá sýslumannsins í Húnavatnssýslu frá 1985 yfir afrétti er Auðkúluheiði afmörkuð þannig: „Norðurmörkin eru sjónhending úr Káratungutjörn austur í Vallgil í Blöndugljúfrum (8,5km). Þaðan ræður Blanda suður í Hofsjökul.“

            Aukadómþing Árnessýslu var haldið á Hveravöllum 7. september 1985 og þar var undirrituð sátt f.h. Biskupstungnahrepps annars vegar og Svínavatns- og Torfalækjarhreppa hins vegar um afréttarmörk á Kili milli Biskupstungnaafréttar og Auðkúluheiðar:

Afréttarmörk á Kili milli Auðkúluheiðar í Austur Húnavatnssýslu og Biskupstungnafréttar í Árnessýslu liggja í grundvallaratriðum um vatnaskil, og eru sem hér segir:

Frá Strýtum (Hnit: X 488653.9, Y-560060.2 hæð 834 m.) eru merkin bein lína til austurs að Grettishelli (Hnit: X 485389.0, Y-562037.4 hæð 670 m). Þaðan bein lína að Hringsjá á Fjórðungsöldu (Hnit: X-478609.0, Y-562901.6 hæð 681 m). Frá hringsjá eru merkin bein lína til austurs í Hofsjökul, sem er framhald hugsaðrar línu frá Strýtum um hringsjána. Til vesturs frá Strýtum eru merkin bein lína í grjóthól á fjallseggjum, ofan við vatnaskil í Sóleyjardal (Hnit: X-495204.1, Y-559390.7 hæð 946 m). Þaðan eru merkin bein lína í Oddnýjarhnjúk (Hnit: X-497136.1,Y-561183.4 hæð 1.057 m), og áfram í sömu stefnu í jökulruðning (mórena) og síðan eftir jökulruðningnum í Langjökul.

            Þann 13. febrúar 1990 var gerður grundvöllur að samningi milli þriggja aðila, þ.e. 1) eigenda og ábúenda Eldjárnsstaða og ábúenda Eiðsstaða, 2) Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Blönduósbæjar vegna Auðkúluheiðar og 3) Landsvirkjunar sem virkjunaraðila við Blöndu og eigenda Eiðsstaða. Samningur þessi var m.a. gerður til að mæta röskun á beit af völdum miðlunarveitu og inntakslóns fyrirhugaðrar virkjunar í Blöndu og til að mæta spjöllum á veiðirétti í Gilsvatni og Gilsá. Þá var ákvæði í þá veru að Landsvirkjun myndi greiða tilgreinda fjárhæð í bætur til eigenda og ábúenda tveggja bæja og þá var mælt svo fyrir að eigendur afréttarlandsins og eigendur tveggja nafngreindra jarða skyldu ganga frá yfirlýsingu um hlunnindi jarðanna á grundvelli eignaskipta sem fram fóru 31. desember 1963.   

            Bæjarstjórn Blönduósbæjar seldi, með afsali dagsettu 24. mars 1990, Svínavatns- og Torfalækjarhreppum eignarhlut bæjarins í Upprekstrarfélagi Auðkúluheiðar og afréttarlandinu á Auðkúluheiði. Afsalið er svohljóðandi:

a). Afréttarlandið Auðkúluheiði, er afsalað var til Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Blönduóshrepps frá landssjóði 5. júlí 1918.

b). Hluti úr landi jarðarinnar Hrafnabjarga í Svínavatnshreppi, sem afsalað var til Svínavatnsshrepps, Torfalækjarhrepps og Blönduóshrepps 17. mars 1923.

c). Hlutar úr landi jarðarinnar Marðarnúps í Áshreppi, sem afsalað var til Upprekstarfélags Auðkúluheiðar 25. júlí 1951.

d). Land jarðarinnar Þramar í Svínavatnshreppi, sem afsalað var til Svínavatnshrepps með afsali 1. ágúst 1951 og frá honum að hálfu til Torfalækjarhrepps og Blönduóshrepps 31. desember 1962, að frátöldum þeim hluta af landinu, sem afsalað var til ábúenda Eldjárnsstaða frá hreppunum þremur (Upprekstrarfélagi Auðkúluheiðar) 31. desember 1963.

e). Hluti úr landi jarðarinnar Eldjárnsstaða í Svínavatnshreppi, er afsalað var til Upprekstrarfélags Auðkúluheiðar 31. desember 1963.

f). Hluti úr landi jarðarinnar Eiðsstaða í Svínavatnshreppi, sem afsalað var til Upprekstrarfélags Auðkúluheiðar 31. desember 1963.

g). Land í Foræsludalskvíslum.

Til hins selda telst einnig full hlutdeild í öllum réttindum, eignum og mannvirkjum utan afréttarins, er tilheyra afréttinum eða Upprekstrarfélagi Auðkúluheiðar, þ.m.t. hlutdeild í Auðkúlurétt.

            Sama dag gerðu sömu aðilar með sér samning um afnot sauðfjáreigenda á Blönduósi af Auðkúluheiði.

            Hinn 10. apríl 1997 dæmdi Hæstiréttur Íslands í máli sem Svínavatns- og Torfalækjarhreppar höfðuðu gegn Landsvirkjun og íslenska ríkinu til réttargæslu. Í málinu gerðu hrepparnir kröfu um að viðurkenndur yrði réttur þeirra til fébóta fyrir fallréttindi í Blöndu fyrir Auðkúluheiði sem ákvarðaðar voru af sérstakri matsnefnd. Þá kröfðust þeir jafnframt viðurkenningar á rétti sínum til bóta úr hendi Landsvirkjunar fyrir land á Auðkúluheiði sem fór undir uppistöðulón Blönduvirkjunar og fyrir land undir efri hluta veituleiðar vatns úr uppistöðulóninu í inntakslón virkjunarinnar. Hæstiréttur sýknaði Landsvirkjun af kröfum stefnenda.

            Þann 8. september 2005 stofnuðu sveitarfélögin Svínavatnshreppur og Torfalækjarhreppur með sér sjálfseignarstofnun sem fékk heitið Sjálfeignarstofnunin Auðkúluheiði. Við stofnunina lögðu sveitarfélögin fram eignarhluti sína í eftirtöldum fasteignum:

a) Auðkúluheiði 100%, sbr afsal dags. 5. júlí 1918 og kaupsamning dags. 5. júlí 1918.

b) Forsæludalskvíslar ¾ hlutar, sbr. kaupsamning dags. 24. nóvember 1890.

c) Þröm í Svínavatnshreppi, sbr. kaupsamning og afsal dags. 1. ágúst 1951 með breytingu vegna makaskipta við Eldjárnsstaði og Eiðsstaði, sbr. afsal og kaupsamning dags. 31. desember 1963.

d) Austurhluti Marðarnúps (Marðarnúpssel), sbr. kaupsamning dags. 25. júlí 1951.

e) Hluti af Hrafnabjargalandi, sbr. kaupsamning dags. 13. desember 1922, og afsal þinglesið 20. júní 1923.

Við stofnunina skuldbatt sjálfseignarstofnunin sig til að veita búfjáreigendum í Svínavatns- og Torfalækjarhreppi „rétt til upprekstrar í lönd stofnunarinnar með sama hætti og verið hefði, ef löndin hefðu áfram verið eign sveitarfélaganna.“

Til viðbótar því sem að framan er rakið er til fjöldi skjala varðandi Auðkúluheiði. Margar heimildanna varða skyldu bænda í Svínavatns- og Torfalækjarhreppum til uppreksturs á heiðina og greiðslu tolla til Auðkúlustaðar. Þá er til fjöldi umkvartana og ákvarðana sem lesnar voru á manntalsþingum varðandi óheimila notkun á heiðinni, s.s. óheimilan rekstur, grastekju án leyfis o.fl. Má í þessu sambandi nefna að fjárfellir varð 1765 og árin þar á eftir var lítið rekið á heiðina. Kirkjunnar menn rituðu af þessu tilefni nokkur bréf og vísitasíur árin þar á eftir, m.a. til að reyna að koma afréttinni í samt brúk. Síðan má nefna að þrætusvæðið kemur oft fyrir í vísitasíum og sýslu- og sóknarlýsingum auk þess sem afmörkun og notkun heiðarinnar er lýst í greinum sem birst hafa á prenti.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hið umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu og sá eignarréttur sem þá skapaðist hafi ekki fallið niður. Stefnandi vísar til þinglýsts landamerkjabréfs, dagsett 4. september 1886, sáttar um afréttarmörk á Kili milli Auðkúluheiðar og Biskupstungnaafréttar frá 7. september 1985 og stofnskjals vegna framhluta Hrafnabjargalands sem dagsett er 28. október 2008. Þá vísar stefnandi og til þinglýstra landamerkjabréfa aðliggjandi jarða.

Stefnendur vísa kröfum sínum til stuðnings einnig til þess að fullur hefðartími sé liðinn frá því að nefndum landamerkjabréfum var þinglýst og frá því tímamarki hafi ekki aðrir notað landið með nokkrum hætti en eigendur þess, sem farið hafa með öll hefðbundin eignarréttindi yfir svæðinu og bannað öðrum not þess. Raunar hafi öll nýting þrætusvæðisins verið háð leyfi frá eigendum þess. Stefnandi vísar til þess að eignarheimildir hans hafi frá upphafi verið taldar gildar í viðskiptum manna á milli og því reisi hann kröfu sína einnig á viðskiptavenju. Grundvallarregla um réttaröryggi í viðskiptum geri kröfu um traust og festu í lögskiptum. Þannig verði að vera unnt að treysta lagalegri þýðingu gagna um lögskipti manna og lögaðila varðandi ráðstöfun auðlinda á svæði því sem deilt er um í málinu. Hvað þetta varðar vísar stefnandi sérstaklega til þess sem fram kemur í athugasemdum við 5. gr. þjóðlendulaga. Þá skipti hér einnig miklu að stefnandi hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum sé rétt lýst og að eigendur aðliggjandi svæða hafi virt og viðurkennt þau merki.

Stefnandi byggir eignarréttarlegt tilkall einnig á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að sá sem vefengir þinglýstar eignarheimildir beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni. Ríkisvaldið hafi í aldanna rás margsinnis viðurkennt að þrætusvæðið sé háð beinum eignarrétti og aldrei haldið öðru fram. Það megi m.a. ráða af því að heimildarskjölum eigenda Auðkúluheiðar hafi verið þinglýst án athugasemda og án þess að stefndi gerði við þau nokkrar athugasemdir. Þetta leiði til þess að vefengingarkrafa stefnda sé niður fallin vegna fyrningar og tómlætis.

Stefnandi vísar einnig til orðalags í afsali ráðherra Íslands frá 5. júlí 1918 þar sem sveitarfélögunum er afsalað: „[…] greint afréttarland, Auðkúluheiði, með öllum gögnum og gæðum og […]“ Að mati stefnanda gefur orðalag þetta ótvírætt til kynna að verið sé að afsala beinum eignarrétti. Þegar horft sé til þess að við söluna voru undanskildir „námar í jörðu sem og fossar sem þar kunna að vera“ sé ljóst að ekki var eingöngu verið að selja afréttareign enda þá óþarfi að undanskilja sérstaklega náma og fossa líkt og gert var. Stefnandi vísar einnig til þeirra samskipta sem áttu sér stað í aðdraganda afsalsins frá 1919 og þeirra forsendna sem lágu til grundvallar niðurstöðum matsmanna sem bendi til þess að seldur hafi verið beinn eignarréttur að undanskildum tilteknum gæðum. Að mati stefnanda er fráleit sú niðurstaða óbyggðanefndar að afsal ráðherra hafi ekki með réttu vakið væntingar hjá afsalshöfum um að þeir væru með afsalinu að eignast annað og meira en afnotarétt að landinu. Þvert á móti sé augljóst að afsalið vakti hjá afsalshöfum réttmætar væntingar til þess að þeir hefðu öðlast fullkominn eignarrétt að heiðinni þegar frá er talið það sem sérstaklega var þar undanskilið. Hvað varðar landsvæðið á Hveravöllum byggir stefnandi sérstaklega á því að hann og forverar hans hafi farið með öll eignarráð þar og ráðstafað þar landi í fullan hefðartíma. 

Varakröfu sína styður stefnandi þeim rökum, fallist dómurinn ekki á að landám og þar með eignarréttur stefnanda hafi náð svo langt til suðurs sem í aðalkröfu greinir, að þá hafi heimaland Auðkúlu alltént náð suður að Kili.

Þrautavarakrafan er á því byggð, verði aðal- og varakröfu hafnað, að heimaland Auðkúlu hafi alltént náð suður að Seyðisá.

Þriðja varakrafa stefnanda er reist á því, verði öðrum kröfum hans hafnað, að heimaland Auðkúlu hafi ekki getað náð skemmra til suðurs en að Blönduvötnum. Land suður að Blönduvötnum sé gróið og beri með sér að hafa verið heimaland jarðarinnar. Stefnandi lætur við það sitja að draga kröfulínuna við norðurmörk Blönduvatna þó að þau skil sem voru í landinu hafi legið um vötnin sjálf áður en Blöndulón varð til.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til almennra reglna eignarréttar, til þjóðlendulaga nr. 58/1998 og til 72. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt til meginreglna eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda, almennra reglna samninga- og kröfuréttar og hefðarlaga nr. 14/1905. Einnig til laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 sem og ýmissa eignarréttarreglna í Grágás og Jónsbók. Varðandi málskostnað vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu stefnda er á því byggt að Auðkúluheiði sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda í skilningi 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Stefndi telur ljóst að af heimildum verði ekki annað ráðið en að hið umþrætta landsvæði hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Sönnunarbyrði hvíli á stefnanda að sýna fram á beinan eignarrétt sinn en það hafi honum ekki tekist.

Stefndi vísar til þess að úrskurður óbyggðanefndar sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Niðurstaða nefndarinnar sé fengin eftir kerfisbundna leit að gögnum, skjölum frá aðilum málsins og skýrslum sem gefnar voru fyrir nefndinni. Óbyggðanefnd hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að við gildistöku þjólendulaga hafi þrætusvæðið talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til gildistöku þjóðlendulaga. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að ekki hafi verið sýnt fram á að Auðkúluheiði væri eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Svæðið væri því þjóðlenda í afréttareign stefnanda. Stefndi gerir því forsendur og niðurstöðu óbyggðanefndar að sínum til stuðnings kröfu sinni um sýknu auk þeirra málsástæðna sem hann færir fram í greinargerð sinni.

Stefndi heldur því fram að dómur Hæstaréttar í máli nr. 66/1996 hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála, en að þeirri niðurstöðu hafi óbyggðanefnd komist. Að mati stefnda á því í máli þessu eingöngu að koma til athugunar hvaða áhrif atriði sem dómstólar hafa ekki þegar metið í nefndu máli hafa á eignarréttarlega stöðu Auðkúluheiðar. Vísar stefnandi í þessu sambandi sérstaklega til dóms Hæstaréttar í máli nr. 546/2012.

Stefndi vísar til þess að í máli nr. 66/1996 hafi fyrir Hæstarétti verið deilt um kröfu Svínavatns- og Torfalækjarhreppa um viðurkenningu á rétti til bóta úr hendi Landsvirkjunar fyrir fallréttindi í Blöndu og fyrir land á Auðkúluheiði sem Landsvirkjun hafði fengið til ótímabundinna umráða og afnota í þágu Blönduvirkjunar á grundvelli samnings við hreppana. Dómkrafa hreppanna var reist á beinum eignarrétti þeirra á Auðkúluheiði, þar með talin vatnsréttindi. Íslenska ríkið kom að málinu á grundvelli réttargæsluaðildar.

Hæstiréttur sýknaði Landsvirkjun af kröfum hreppanna og vísar stefndi til þess að í forsendum dómsins segi m.a.: „[…] heimildir benda til þess, að Auðkúluheiði hafi nær einvörðungu verið notuð til beitar á fyrri tíð“ og að „[…] þegar heiðarinnar er getið í skriflegum heimildum er það í tengslum við upprekstur og afréttarnot.“ Síðar segi í dóminum að ekki verði talið „að sönnur hafi verið leiddar að því, að heiðin hafi nokkurn tíma verið undirorpin fullkomnum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar eða ríkisins, hvorki fyrir nám eða með löggerningum eða öðrum hætti.“ Stefndi vísar til þess að í málinu hafi orðalag í afsalsbréfi ráðherra frá 5. júlí 1918 ekki ráðið úrslitum  og þá hafi einhliða yfirlýsing um takmörk Auðkúluheiðar frá 1890 ekki þótt styðja kröfur hreppanna. Hæstiréttur hafi hins vegar sagt að tiltækar heimildir hafi þótt benda til þess að um afréttareign eigenda heimalands Auðkúlu væri að ræða í þeim skilningi að aðrir hafi átt þar rétt til upprekstrar og ef til vill annarra nota gegn gjaldi til Auðkúlumanna. Staðhættir og víðátta heiðarlandsins væri einnig þannig að líkur mæltu gegn óskoruðum eignarráðum jarðeigenda. Auk þessa hafi Hæstiréttur vísað til þess að í lögum nr. 50/1907, sem vísað er til í afsali ráðherra 5. júlí 1918, hafi ekki falist frekari heimild til afsals eignarréttinda en heyrðu til kirkjujörðum og að í afsalinu hafi ekki getað falist víðtækari eignarréttur hreppunum til handa en sannanlega var á hendi afsalsgjafa. Með hliðsjón af þessu og notkun afréttarlandsins þóttu hrepparnir ekki heldur hafa unnið eignarhefð á Auðkúluheiði.

Stefndi byggir á því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 66/1996 hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir og að í máli því sem hér er til umfjöllunar komi aðeins til athugunar hvaða áhrif atriði sem ekki voru þar metin hafi á eignarréttarlega stöðu Auðkúluheiðar. Slík atriði séu ekki fyrir hendi, eða hafi a.m.k. ekki áhrif á eignarréttarlega stöðu heiðarinnar.

Stefndi telur að af Landnámu verði engar afdráttarlausar ályktanir dregnar um landnám á þrætusvæðinu og því sé ósannað að það hafi verið numið í öndverðu. Því verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám náði og vísar hann í þessu sambandi t.d. til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 350/2011. Að teknu tilliti til staðhátta og fjarlægða telur stefndi ólíklegt að svæðið hafi verið numið í heild. Vera kunni að hluti svæðisins, einkum norðari hlutinn, hafi verið numinn en vafi um þetta aukist eftir því sem lengra er komið inn til landsins. Hvað sem landnámi líður liggi ekkert fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þannig kann að hafa verið stofnað til á svæðinu. Sá beini eignarréttur hafi því fallið niður og svæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekki sé unnt að líta til þeirra heimilda sem stefnandi vísar til um nám í öndverðu enda hafi bæði verið gerð landamerkjabréf fyrir jarðir og annars konar réttindasvæði, auk þess hafi afsöl og sambærileg skjöl ekki þýðingu varðandi stofnun beins eignarréttar í öndverðu. Líta verði til þess að stefnandi segist byggja á þinglýstum landamerkjabréfum aðliggjandi jarða án þess að leggja slík bréf fram.

Máli sínu til stuðnings vísar stefndi einnig til þess að Auðkúluheiði hafi verið skilin frá jörðinni Auðkúlu og álitin sérstakt svæði sem allt frá fornu fari hafi verið nýtt til sumarbeitar eða annarra takmarkaðra nota en slík nýting stofni ekki beinan eignarrétt. Heiðin hafi því ekki tilheyrt jörðinni Auðkúlu með sama hætti og annað land hennar, heldur haft aðra stöðu. Elstu heimildina um Auðkúluheiði sé að finna í Bréfabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1579 þar sem heiðarinnar sé getið í leiguskilmálum fyrir leigu jarðarinnar Auðkúlu. Næst komi heiðin fyrir í dómi Jóns Jónssonar lögmanns frá 1583 um rekstur á Kúluheiði. Mekjum Auðkúluheiðar sé síðan fyrst lýst í vitnisburðum um landareign Auðkúlustaðar frá 10. febrúar 1591 og þar sé merkjum heiðarinnar lýst sérstaklega og aðgreindum frá heimajörðinni Auðkúlu og síðar með sama hætti í vitnisburðum frá 1598 og 1652. Þessar lýsingar styðji ekki beinan eignarrétt stefnanda.

Stefndi vitnar í greinargerð sinni til fjölda skjala og lýsinga, sem raktar eru í kaflanum um sögu og afmörkun Auðkúluheiðar hér að framan, og vísar til þess að heimildirnar gefi til kynna að Auðkúluheiði hafi verið álitin sérstakt landsvæði, aðskilið frá jörðinni Auðkúlu, en nýting hennar hafi verið takmörkuð. Þá liggi fyrir sjö lögfestur fyrir Auðkúlustaðarheiði og heimaland Auðkúlu frá árunum 1759, 1766, 1774, 1795, 1803, 1819 og 1845. Í þeim öllum sé heiðin sérstaklega aðgreind frá heimalandi Auðkúlu og merkjum hennar lýst. Að mati stefnda er í lögfestunum ekki að finna stuðning fyrir beinum eignarrétti að heiðarlandinu og telur stefndi stefnanda ekki halda slíku fram í málatilbúnaði sínum. Stefndi heldur því fram að af lögfestunum verði ekki dregin önnur ályktun en að ekki hafi verið litið á Auðkúluheiði sem hluta af jörðinni Auðkúlu heldur hafi heiðin verið sjálfstætt landsvæði. Stefnandi bendir á að árið 1886 var gerð sérstök landamerkjalýsing fyrir Auðkúluheiði en landamerkjabréf fyrir Auðkúlu var gert 1890. Þetta gefi ekki annað til kynna en að litið hafi verið svo á að svæðin væru aðskilin og Auðkúluheiði ekki hluti af heimajörðinni Auðkúlu. Að mati stefnda bendir orðalag í afsali Stjórnarráðs Íslands frá 5. júlí 1918 ekki til annars en að þar væri verið að selja afréttareign en ekki beinan eignarrétt, auk þess bendi samskipti aðila í aðdraganda kaupanna í sömu átt. Stefndi heldur því fram að meta verði efnislegt inntak afsalsins á grundvelli þeirrar meginreglu íslensks réttar að sá sem telur til eignarréttar yfir landi verði að færa fram fullnægjandi heimildir fyrir tilkalli sínu og sá sem afsalar landi geti ekki veitt viðtakanda sínum víðtækari rétt en hann sjálfur átti. Þar fyrir utan hafi afsalið ekki með réttu getað vakið væntingar hjá afsalshöfum í þá veru að þeir væru að eignast annað og meira en þau afnotaréttindi að landinu sem stefndi hafði á þeim tíma á færi sínu að ráðstafa. Loks verði ekki annað ráðið en að söluverð hafi verið ákveðið með tilliti til verðmætis upprekstrarréttar.

Af hálfu stefnda er því hafnað að skilyrði eignarhefðar séu til staðar í máli þessu og vísar hann til áðurrakinna sjónarmiða varðandi nýtingu landsins, staðhætti og eldri heimildir. Í málinu liggi ekkert fyrir um að umráðum svæðisins hafi nokkru sinni verið þannig háttað að þau geti hafa fullnægt kröfum 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 um óslitið eignarhald á fasteign. Því hafi beinn eignarréttur að Auðkúluheiði ekki getað stofnast fyrir hefð eftir gildistöku nefndra laga, hvorki samkvæmt almennu ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna né sérreglu sem fram kemur í 12. gr. laganna. Vekur stefnandi sérstaka athygli á því að fyrir gildistöku hefðarlaga var ekki unnt að stofna til eignarréttar að fasteign á grundvelli hefðar og vísar hann í þeim efnum til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 379/2009. Þá liggi fyrir fjöldi dóma Hæstaréttar Íslands þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hefðbundin afréttarnot duga ekki ein og sér til að hefða beinan eignarrétt að afréttum eða öðrum svæðum utan landamerkja jarða og vísar hann í dæmaskyni til dóma Hæstaréttar í málum nr. 7/1955, nr. 199/1978, nr. 66/1996 og nr. 67/1996.

Stefndi segir málsástæðu stefnanda um venju ekki eiga við rök að styðjast. Stefndi vísar til þess sem áður er rakið um hefð og að viðskiptavenja ein og sér nægi ekki til stofnunar beins eignarréttar. Stefndi mótmælir því að líta beri til þeirrar meginreglu að sá sem vefengir þinglýstar eignarheimildir beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni enda feli landamerkjabréf ekki í sér sönnun um beinan eignarrétt yfir því landsvæði sem afmarkað er. Landamerkjabréfið fyrir Auðkúluheiði gefi auk þess ekki til kynna að um eignarland hafi verið að ræða og annað verði ekki ráðið af því en að þar sé verið að ákvarða afmörk afréttarlands.

Stefndi kveður ríkisvaldið ekki hafa viðurkennt að þrætusvæðið sé háð beinum eignarrétti og vísan stefnanda til athugasemdalausra þinglýsingar skjala komi honum ekki að gagni enda sé Auðkúluheiði aðgreind frá heimalandi Auðkúlu í þinglýstum skjölum. Þessu til viðbótar verði að líta til þess að fyrir gildistöku þjóðlendulaga hafi enginn getað haldið uppi vörnum fyrir eigendalaust svæði. Í öllum tilvikum verði að sýna fram á hvernig til beins eignarréttar var stofnað í öndverðu. Stefndi byggir á því að stefnandi verði að sanna þann beina eignarrétt sem hann segjast eiga og í því sambandi hafi enga þýðingu þótt gengið hafi verið út frá því að merkjum landsvæðisins sé rétt lýst.

Hvað varakröfur stefnanda varðar er það mat stefnda að þær kunni að vera vanreifaðar og því geti verið rétt að vísa þeim frá dómi án kröfu en í stefnu sé ekki gerð grein fyrir málsástæðum stefnanda hvað þessar kröfur varðar. Þá bendir stefndi á að ekki verði séð að stefnandi hafi gert þessar kröfur fyrir óbyggðanefnd, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998 og 1. mgr. 14. gr. sömu laga. Í þessu sambandi vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 24/2014.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda og afrétta nr. 58/1998, laga um hefð nr. 14/1905, laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig til almennra reglna eignarréttar, þar á meðal reglna um nám, töku og óslitin not, meginreglna um eignarráð fasteignaeigenda, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Þá vísar stefndi og til ýmissa reglna Grágásar og Jónsbókar er lúta að eignarrétti. Krafa um málskostnað úr hendi stefnenda er aðallega reist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi þess að úrskurður óbyggðanefndar varðandi landsvæði það sem kallað hefur verið Auðkúluheiði verði felldur úr gildi og gerir stefnandi kröfu um að viðurkenndur verði beinn eignarréttur hans á svæðinu. Ekki er ágreiningur milli aðila um afmörkun svæðisins.

Af Landnámu verður ekki ráðið hversu langt upp til fjalla landnám á þessu svæði náði og verða engar afdráttarlausar ályktanir dregnar af frásögnum sem þar er að finna. Þegar horft er til staðhátta, fjarlægða frá sjó og aðliggjandi jarða verður þó að telja líklegt að svæðið hafi a.m.k. verið numið að hluta. Líkt og endranær verður við mat á eignarréttarlegri stöðu svæðisins að skoða hvernig það birtist í sögulegum heimildum. Almennt skiptir miklu máli hvort landsvæði sé eða hafi verið jörð eða hluti af jörð samkvæmt fyrirliggjandi heimildum. Þar skiptir miklu hvort landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæðið en slík bréf hafa bæði verið gerð fyrir einstakar jarðir og annars konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti. Þá kann að vera að merkjum landsvæða sé lýst í máldögum, vísitasíum og lögfestum.

Óumdeilt er að við gildistöku þjóðlendulaga hafði hið umþrætta svæði stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til 1998. Hins vegar ræður sú flokkun ekki úrslitum um það hvort svæðið var háð beinum eignarrétti eða ekki. Verður því að ákveða hvort landið var áður háð beinum eignarrétti og þá sem hluti jarðarinnar Auðkúlu.

Hér háttar svo til að 10. apríl 1997 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 66/1996 sem Svínavatns- og Torfalækjarhreppar höfðuðu á hendur Landsvirkjun og stefnda í máli þessu til réttargæslu til greiðslu fébóta sem ákvarðaðar voru af sérstakri matsnefnd. Nefndir hreppar byggðu kröfur sínar á hendur Landsvirkjun á því að Auðkúluheiði væri undirorpin beinum eignarrétti þeirra, þar með talin vatnsréttindi á og fyrir landi heiðarinnar í samræmi við ákvæði vatnalaga nr. 15/1923. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að heimildir bendi til þess að Auðkúluheiði hafi nær eingöngu verið notuð til beitar á fyrri tíð og þegar heiðarinnar sé getið í skriflegum heimildum sé það í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Rétturinn víkur að því að þegar litið sé til þess sem fram hafi komið fyrir Hæstarétti og héraðsdómi um Auðkúluheiði og nýtingu hennar verði ekki talið að sönnur hafi verið leiddar að því að heiðin hafi nokkurn tíma verið undirorpin fullkomnum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar eða ríkisins, hvorki fyrir nám né með löggerningum eða öðrum hætti. Þá telur rétturinn að orðalag í afsali ráðherra frá 5. júlí 1918 ráði ekki úrslitum um þetta. Einhliða yfirlýsing um takmörk Auðkúluheiðar sem þinglýst var 17. maí 1890 styðji ekki kröfur hreppanna um eignarrétt. Hins vegar styðji tiltækar heimildir að um afréttareign eigenda heimalands Auðkúlu hafi verið að ræða í þeim skilningi að aðrir hafi átt þar rétt til upprekstrar og ef til vill annarra nota, en gegn gjaldi til Auðkúlumanna. Þá mæli staðhættir og víðátta heiðarlandsins gegn líkum á óskoruðum eignarráðum jarðeigenda. Lög nr. 50/1907, sem vísað er til í afsali ráðherra, hafi ekki að geyma frekari heimild til afsals eignarréttinda en tilheyrðu kirkjujörðum. Í afsalinu hafi því ekki getað falist víðtækari eignarréttur hreppunum til handa en sannanlega var á hendi afsalsgjafa. Með hliðsjón af því og notkun afréttarlandsins hafi hrepparnir ekki heldur unnið eignarhefð á Auðkúluheiði.

            Með hliðjón af því sem að framan er rakið úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 66/1996 er ljóst að beinn eignarréttur var til úrlausnar í málinu þó svo að dómkröfur hafi verið um greiðslu ákveðinnar fjárhæðar. Stefnandi leiðir rétt sinn frá nefndum hreppum sem áttu aðild að Hæstaréttarmálinu nr. 66/1996 en gagnaðili þeirra var Landsvirkjun en stefndi kom að málinu með réttargæsluaðild. Samkynja mál var dæmt í Hæstarétti sama dag, mál nr. 67/1996, en það varðaði Eyvindarstaðaheiði. Hæstiréttur leysti úr ágreiningi varðandi það hvort sú heiði væri þjóðlenda í máli nr. 546/2012 og í þeim dómi komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að sakarefnið í því máli væri ekki það sama og í máli nr. 67/1996 og því ekki bindandi í skilningi 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar hefði dómurinn fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem í honum greinir, þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Sama staða er uppi hér og því hefur dómur Hæstaréttar í máli nr. 66/1996 fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir.

            Í máli þessu er ekki ágreiningur um afmörkun Auðkúluheiðar og verður lagt til grundvallar að mörk heiðarinnar séu eins og þeim er lýst í úrskurði óbyggðanefndar.

            Í kafla um afmörkun og sögu er gerð grein fyrir helstu heimildum varðandi þrætusvæðið. Ljóst er að rannsókn óbyggðanefndar og aðila máls þessa á gögnum sem til eru um Auðkúluheiði var víðtæk og umfangsmikil og leiddi til þess að fleiri gögn voru lögð fram hjá nefndinni og hér fyrir dómi en þau gögn sem voru til staðar þegar Hæstiréttur kvað upp dóm sinn í apríl 1997. Hins vegar má ráða af dómi Hæstaréttar að fyrir dóminn var m.a. lagt afsal frá 5. júlí 1918, lýsing á takmörkum Auðkúluheiðar frá 4. september 1886, landamerkjaskrá fyrir Auðkúlu dagsett 17. maí 1890, bréf Hólabiskups frá árinu 1579, dómur um afrétt á Auðkúluheiði dagsettur 9. júní 1758, lýsing úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708, lýsing Jóns Þórðarsonar, prests á Auðkúlu, lýsing Landnámu á svæðinu auk fleiri skjala um Auðkúluheiði.

Svo sem rakið hefur verið er Auðkúluheiði tilgreind sérstaklega í fjölda heimilda. Í eldi heimildum er hennar oft getið í samhengi við Auðkúlustað. Af þeim takmörkuðu merkjalýsingum sem fram koma í eldri heimildum um Auðkúlustað er þó gjarnan vísað til sérstakrar stöðu Auðkúluheiðar. Einnig kemur fyrir í heimildunum að vísað sé til jarðarinnar Auðkúlu án þess að Auðkúluheiði sé þar meðtalin. Í yngri heimildum er afmörkun með sambærilegum hætti en í heimildum frá síðari hluta 18. aldar og síðar er land Auðkúlu ítrekað aðgreint í heimaland Auðkúlustaðar og Auðkúlustaðarheiði og er svo þar til gert var landamerkjabréf um takmörk Auðkúluheiðar árið 1886. Heimildir um Auðkúluheiði lúta flestar að beit eða öðrum þrengri notum og vísað til heiðarinnar sem afréttar og afréttarlands. Einnig er í heimildum nefndar aðrar jarðir en Auðkúla þegar heiðin kemur fyrir en þá gjarnan þannig að eigendur jarðanna þurfi að greiða toll til umráðamanns Auðkúlustaðar vegna afréttarnota. Þegar svona háttar til hefur það í fjölda dóma þótt benda til þess að svæðin hafi verið talin þjóðlenda. Heimildir sem til staðar eru um Auðkúluheiði benda eindregið til þess að skilið hafi verið nokkuð skýrt á milli jarðarinnar Auðkúlu og heiðarlands jarðarinnar sem var í afréttarnotum. Þannig hafi innan afmörkunar Auðkúlu í eldri heimildum um jörðina verið landsvæði sem hafi haft stöðu afréttar að lögum og lotið sjálfstæðri afmörkun. Þá styðja hvorki staðhættir, gróðurfar né heimildir um nýtingu Auðkúluheiðar að allt það land sem stefnandi gerir kröfu til hafi talist til jarðarinnar Auðkúlu með sama hætti og heimaland jarðarinnar. Að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að Auðkúluheiði hafi verið afréttur í þeim skilningi að menn hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Engar heimildir eru um að á Auðkúluheiði hafi nokkru sinni verið byggð eða önnur not en sumarbeit og aðrar takmarkaðar nytjar. Því hafi þrætusvæðið verið afrétt Auðkúlu í þeim skilningi að eigendur Auðkúlu hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.

            Að öllu þessu gættu, þeirrar meginreglu eignarréttar að sá sem afsalar getur ekki ráðtafað meiri réttindum með afsalinu en sannarlega eru á hans hendi og með vísan til títtnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 66/1996 er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á beinan eignarrétt sinn að þrætusvæðinu enda verður ekki ráðið að nokkuð af þeim gögnum sem lögð hafa verið fram hér fyrir dómi en voru ekki til staðar þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm hafi slíka sérstöðu að þau geti leitt sönnur að beinum eignarrétti stefnanda.

Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi eignast landið fyrir hefð. Ekkert liggur fyrir í málinu um að umráðum þrætusvæðisins hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi fullnægt kröfum 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 um óslitið eignarhald á fasteign. Verður því ekki fallist á með stefnanda að stofnast hafi beinn eignarréttur hans fyrir hefð eftir gildistöku nefndra laga, hvorki samkvæmt almennu ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna né sérreglu 12. gr. laganna. Í þessu sambandi ber og að vísa til þess að fyrir liggur fjöldi dóma Hæstaréttar Íslands þar sem því er slegið föstu að hefðbundin afréttarnot, sumarbeit og önnur takmörkuð notkun, dugi ekki ein og sér til að hefða beinan eignarrétt að afréttum eða öðrum svæðum utan landamerkja jarða. Auk þess var á þessu álitaefni tekið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 66/1996. Þá leiða sjónarmið stefnanda um venju ekki til annarrar niðurstöðu.

            Að öllu þessu gættu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda en varakröfur stefnanda eru reistar á sömu málsástæðum og aðalkrafa hans.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Stefnandi naut gjafsóknar og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Sigurðar Jónssonar lögmanns. Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun lögmannsins hæfilega ákveðin 2.480.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu stefnda flutti mál þetta Indriði Þorkelsson lögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, sjálfseignarstofnunarinnar Auðkúluheiði.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin 2.480.000 króna málflutningsþóknun Sigurðar Jónssonar, lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

                                                                        Halldór Halldórsson