• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Líkamsárás
  • Skaðabætur

 

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 28. júní 2016 í máli nr. S-14/2016:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Galyna Lezhenko

(Sigmundur Guðmundsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem var þingfest og dómtekið 23. júní sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Sauðárkróki með ákæru 30. maí 2016 á hendur Galyna Lezhenko,, fæddri 28. janúar 1967, til heimilis að Víðigrund 28, Sauðárkróki,  ,,fyrir líkamsárás, með því að hafa um kl. 17:15 föstudaginn 8. janúar 2016 að Víðigrund 28, 2. hæð, á Sauðárkróki, ráðist að Olena Zablocka, kt. 000000-0000, slegið hana 3 hnefahögg í andlitið þannig að árásarþoli féll í gólfið og haldið áfram að lemja og sparka í árásarþola þar sem hún lá á gólfinu í íbúð sinni með þeim afleiðingum að árásarþoli hlaut bólgu og mar ofan við vinstra augnlok neðan við augabrún, hrufl á húð neðan við hægra eyra, ótilfært brot á nærenda fjærkjúkubeins á löngutöng hægri handar og klínískt ótilfært nefbrot.  

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Stefán Þórarinn Ólafsson hrl, f.h. brotaþola Olena Zablocka kt: 000000-0000 þá kröfu að ákærða verði dæmt í opinberu máli til að greiða brotaþola bætur að fjárhæð kr. 808.500,- auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. janúar 2016 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar eftir mati dómara eða síðar framlögðum reikningi að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.“

 

II

Ákærða sótti þing þegar málið var þingfest 23. júní sl. og játaði skýlaust háttsemi þá sem henni er í ákæru gefin að sök eftir að ákæruvaldið féll frá þeirri háttsemislýsingu í ákæru að ákærða hefði lamið og sparkað í brotaþola  þar sem að hún lá á gólfinu í íbúð sinni. Áður en málið var tekið til dóms gerðu sakflytjendur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi refsingu ákærðu og einkaréttarkröfu brotaþola. Játning ákærðu er í samræmi við önnur gögn málsins og telst sekt hennar nægilega sönnuð en brot ákærðu eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Farið var með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Við ákvörðun refsingar ákærðu ber að taka tillit til þess að hún hefur skýlaust játað háttsemi sína, til þess að hún hefur, samkvæmt framlögðu vottorði, ekki áður sætt refsingu, þess að hún hefur náð samkomulagi við brotaþola um greiðslu bóta og framlags vottorðs um heilsufar ákærðu. Að þessu virtu þykir refsing hennar hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi. Efni þykja til að binda refsinguna skilorði og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Sækjandi hefur ekki lagt fram yfirlit um sakarkostnað svo sem honum er skylt en meðal gagna málsins er vottorð læknis um áverka brotaþola en enginn reikningur fylgir því vottorði og er því ekki unnt að taka kostnað vegna ritunar þess með í sakarkostnaði málsins. Þóknun túlks telst ekki sakarkostnaður sbr. d. lið 215. gr. laga um meðferð sakamála. Ákærða hefur notið aðstoðar verjanda og ber að dæma hana til að greiða þóknun Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns sem þykir hæfilega ákveðin 279.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts svo og útlagðan kostnað lögmannsins vegna aksturs 32.736 krónur og vegna aðstoðar túlks 17.000 krónur.

Samkomulag var gert varðandi einkaréttakröfu þess efnis að ákærða greiði sem fullnaðargreiðslu til brotaþola 300.000 krónur.

Málið sótti Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

 

 

Dómsorð:

Ákærða, Galyna Lezhenko, sæti fangelsi í tvo mánuði en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 328.736 krónur í sakarkostnað þar með talin þóknun verjanda síns, Sigmundar Guðmundssonar  héraðsdómslögmanns 279.000 krónur.

 

 

 

                                                                 Halldór Halldórsson