• Lykilorð:
  • Aðild
  • Loforð
  • Skaðabætur
  • Umboð
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 31. maí 2017 í máli nr. E-45/2016:

Birnir ehf.

(Björn Jóhannesson hrl.)

gegn

Byggðastofnun

(Garðar Þ. Garðarsson hrl.)

 

I

Mál þetta var höfðað 26. október 2016 og tekið til dóms 26. apríl sl.

Stefnandi er Birnir ehf., Þuríðarbraut 11, Bolungarvík.

Stefndi er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 81.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags en til vara að stefnda verði gert að greiða honum aðra lægri fjárhæð að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans á grundvelli 131. gr. laga nr. 91/1991 en til vara á grundvelli 1. og 2. mgr. 130. gr. sömu laga og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

II

Atvik máls

Hinn 21. apríl 2010 keypti stefnandi 5,2098726% aflahlutdeildar í úthafsrækju af Bakkavík ehf. Auk þess að kaupa nefnda aflahlutdeild í úthafsrækju keypti stefnandi einnig á sama tíma smávægilega aflahlutdeild í nokkrum tegundum bolfisks. Kaupverð allra heimildanna var 159.000.000 króna. Stefndi greiddi kaupverðið með þeim hætti að hann yfirtók lán Bakkavíkur ehf. hjá stefnda sem tryggð voru með veði í bátnum Bjargey ÍS-41 en á þann bát voru aflaheimildirnar skráðar. Kaupverðinu var síðan ráðstafað til lækkunar á skuldum Bakkavíkur ehf. við stefnda. Í framhaldinu var aflamarkið flutt á skip í eigu stefnanda.

Fyrirsvarsmaður stefnanda hafði á þessum tíma reynt um nokkurt skeið að kaupa aflahlutdeild í úthafsrækju og var stefnda um það kunnugt. Stefndi átti eins og áður er getið veð í skipi í eigu Bakkavíkur ehf. sem hafði yfir slíkum heimildum að ráða og verðu ekki annað ráðið en að stefndi hafi átt allnokkra aðkomu að því að stefnandi keypti aflahlutdeildina af Bakkavík ehf. enda m.a. tilgangur stefnda að styðja við fyrirtæki á landsbyggðinni.

Skömmu eftir að viðskipti þessi höfðu átt sér stað, eða í júní 2010, var öll aflahlutdeild í úthafrækju felld niður og þess í stað tekin upp sóknarstýring við veiðar á úthafsrækju. Þetta þýddi í raun að það aflamark sem stefnandi hafði keypt varð verðlaust. Af þessu tilefni færði stefndi niður í bókhaldi sínu, nánast að fullu, verðmæti lána til þeirra fyrirtækja sem stunduðu rækjuútgerð, m.a. var lán til stefnanda fært niður í 44.300.000 krónur.

Í október 2011 sendi forsvarsmaður stefnda formlegt erindi til skiptastjóra Bakkavíkur ehf., en það félag var tekið til gjaldþrotaskipta nokkrum dögum eftir að stefnandi keypti aflaheimildirnar af félaginu, þar sem því var lýst yfir af hálfu stefnanda að skilyrði væru til riftunar á kaupum stefnanda á aflahlutdeild í úthafsrækju af félaginu. Skiptastjóri framsendi erindið til stefnda vegna aðkomu stefnda að sölunni á sínum tíma. Stefndi andmælti röksemdum stefnanda fyrir riftuninni og taldi sig þar að auki ekki eiga aðild að hugsanlegri riftun á kaupunum. Þrotabúið hafnaði í kjölfarið kröfu stefnanda um riftun. Svo virðist sem aðilar hafi í framhaldi af þessu náð samkomulagi um að bíða með endurgreiðslu á láninu um sinn og sjá til hversu lengi veiðum á úthafsrækju yrði stjórnað með sóknarmarki. Jafnframt var ákveðið, í ágúst og september 2012, að skipta láninu sem stefnandi yfirtók við kaupin í tvo hluta þannig að sá hluti lánsins sem til var kominn vegna kaupa á aflaheimildum í bolfiski var tekinn út og sérstakt lán til tíu ára, að fjárhæð 18.000.000 króna, veitt vegna þeirra kaupa. Hitt lánið, sem nam verðgildi aflaheimildanna í úthafsrækju, var að fjárhæð 147.860.307 krónur og var það með einum gjalddaga hinn 1. október 2013, þ.e. á nýju fiskveiðiári, en svo virðist sem aðilar hafi á þessum tíma gert sér vonir um að þá yrði endanlega ljóst hvort aflaheimild í úthafsrækju yrði þá úthlutað til stefnanda. Stefnandi greiddi síðan af láninu vegna bolfisksins sérstaklega. Veiðum á úthafsrækju var áfram stýrt með sóknarmarki á fiskveiðiárinu 2013/2014 og greiddi stefnandi ekki af veðskuldabréfinu vegna úthafsrækjunnar. Í febrúar 2014 var gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu þannig að það skyldi greitt að fullu 1. júní 2014.

Í nóvember 2013 var lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Þar var m.a. ráð fyrir því gert að aftur yrði tekin upp aflahlutdeild í úthafsrækju og mælt fyrir um hvernig staðið skyldi að úthlutun aflamarks. Breytingar voru gerðar á frumvarpinu og varð niðurstaðan sú að helmingi aflamarksins var úthlutað til þeirra sem aflamark höfðu áður en sóknarstýring var ákveðin á veiðunum og helmingnum úthlutað í samræmi við veiðar hvers skips á þeim tíma sem veiðum var stjórnað með aflamarki. Má því í raun segja að stefnandi hafi við þessar breytingar fengið helming þess aflamarks sem hann keypti af Bakkavík ehf. til baka við upphaf fiskveiðiársins 2014/2015.

Hinn 6. ágúst 2014 greiddi stefnandi 7.647.072 krónur inn á skuldabréfið vegna úthafsrækjunnar og var tæplega helmingi þeirrar fjárhæðar ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta af bréfinu sem var gjaldfellt 1. júní 2014. Fyrri hluta septembermánaðar sama ár seldi stefnandi skipið Gunnbjörn ÍS ásamt 2,6049% aflahlutdeildar í úthafsrækju til félags á Ísafirði. Kaupverðinu, 55.000.000 króna, var ráðstafað til stefnda til innborgunar á nefnt skuldabréf en tæplega 5.000.000 króna af fjárhæðinni var ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta. Nokkru síðar var bréfinu síðan aflýst af Gunnbirni ÍS og var krafa stefnda samkvæmt skuldabréfinu eftir það án veðtryggingar.

Í byrjun árs 2015 ritaði fyrirsvarmaður stefnanda stjórnarformanni stefnda bréf þar sem hann minnti stefnda á loforð sem starfsmenn stefnda höfðu gefið um afskriftir á hluta skuldar stefnanda við stefnda og vísaði þar til loforða sem síðar verður nánar komið að. Í bréfinu krafðist stefnandi þess að stefndi stæði við gefin loforð. Hinn 25. febrúar 2015 fékk stefnandi greiðsluáskorun frá stefnda þar sem hann var krafinn um greiðslu eftirstöðva skuldabréfsins sem þá námu tæplega 100.000.000 króna að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði. Fyrirsvarsmaður stefnanda ritaði stjórnarformanni og forstjóra stefnda af þessu tilefni annað bréf og lýsti því að hann hefði í fjögur skipti gert samkomulag við starfsmenn stefnda vegna skuldarinnar. Þá lýsti hann því í bréfinu hverju honum hafi verið lofað af stefnda vegna þessa láns og þeirri stöðu sem upp kom eftir að veiðar voru gefnar frjálsar en að loforðunum verður vikið síðar eins og áður greinir. Einnig kom fram í bréfinu að stefnandi væri tilbúinn til samninga og að hann væri tilbúinn til að greiða fyrir þau verðmæti sem hann keypti á sínum tíma. Í lok apríl 2015 sendi stefndi aðfararbeiðni til sýslumannsins á Ísafirði vegna eftirstöðva skuldar stefnanda við stefnda.

Á fundi lánanefndar stefnda 9. júní 2015 var tekið fyrir erindi stefnda um að gengið yrði til samninga við hann um uppgjör á skuldinni í samræmi við gefin loforð. Á fundinum var lögð fram tillaga forstöðumanns lögfræðisviðs stefnda þar sem hann lagði til að stefnanda yrði gert að greiða 21.500.000 krónur til viðbótar þeim fjárhæðum sem stefndi hafði áður greitt en þeirri tillögu var hafnað og lagt fyrir forstöðumanninn að innheimta kröfuna að fullu. Þann 18. ágúst 2015 var hjá sýslumanninum á Ísafirði tekin fyrir beiðni stefnda um fjárnám hjá stefnanda sem lauk með því að stefnandi setti tryggingu að fjárhæð 90.000.000 króna. Síðar varð að samkomulagi að fjárhæðinni var ráðstafað til stefnda til greiðslu á kröfunni en stefnandi gerði fyrirvara um réttmæti kröfunnar og þeirra viðskipta sem lágu að baki henni.

III

Málsástæður og lagarök

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn aðallega á því að stefndi hafi gefið honum skuldbindandi loforð um niðurfellingu og eða leiðréttingu á hluta þess láns sem hann yfirtók hjá stefnda við kaupin á aflahlutdeild Bakkavíkur ehf. í apríl 2010. Slík loforð hafi verið gefin oftar en einu sinni og séu skuldbindandi fyrir stefnda.

Stefnandi vísar til þess að kaupsamningurinn sem hann gerði við Bakkavík ehf. hafi alfarið verið að frumkvæði og tilstuðlan stefnda sem hafi verið í mun að salan færi fram áður en bú Bakkavíkur ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar horft sé til þess hvernig staðið var að kaupunum megi ráða af gögnum málsins að forsvarsmenn Bakkavíkur ehf. hafi í raun ekki haft neitt með söluna að gera. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að stefndi útbjó skuldskeytingarskjal vegna viðskiptanna áður en kaupsamningur var gerður. Auk þess megi draga þá ályktun af orðum varaformanns stjórnar stefnda sem birtust í fjölmiðlum í júlí 2010 að stefnda hafi á þessum tíma verið ljóst að breytingar kynnu að vera í vændum varðandi stjórnun veiða á úthafsrækju.

Þegar stjórnvöld ákváðu, tveimur mánuðum eftir að kaupin áttu sér stað, að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar hafi aðilum orðið ljóst að forsendur fyrir kaupunum voru brostnar. Þetta megi ráða af athöfnum stefnda sem hafi ákveðið að færa lán til rækjufyrirtækja, m.a. stefnda, niður að fullu í ársreikningi sínum. Stefndi hafi því metið ákvörðun stjórnvalda þannig að veð hefðu rýrnað svo mikið að þau verðmæti sem eftir stæðu til tryggingar lánunum væru eingöngu fólgin í verðmæti skipanna en aflaheimildir í úthafsrækju sem skráð voru á þau væru verðlausar. Í ljósi þessa hafi forsvarsmaður stefnda leitað til stefnda og skiptastjóra þrotabús Bakkavíkur ehf. og lýst yfir riftun á kaupunum. Skiptastjórinn hafi beint riftunarkröfunni að stefnda enda öllum ljóst að stefndi var í raun viðsemjandi stefnanda en ekki þrotabúið. Þrátt fyrir að stefndi hafi ekki samþykkt riftunina og talið að hann væri ekki aðili að því máli varð að samkomulagi milli stefnanda og stefnda að beðið yrði með afborganir af láninu og staðan endurmetin þegar í ljós kæmi hversu lengi veiðarnar yrðu frjálsar. Þá þegar hafi stefndi gefið loforð um að tekið yrði tillit til þess við endanlegt uppgjör milli aðila hvaða aflahlutdeild kæmi í hlut stefnanda á grundvelli þeirrar aflahlutdeildar sem hann keypti af Bakkavík ehf. þegar kvóti yrði settur að nýju á úthafsrækju.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi einnig til þess að í tengslum við kaup Kampa ehf. á rækjuverksmiðju sem áður var í eigu Bakkavíkur ehf. á árinu 2012 hafi stefndi gefið skýr og afdráttarlaus loforð um niðurfellingu hluta þess láns sem tekið var vegna kaupa á aflahlutdeildinni í apríl 2010. Forsvarsmenn Kampa ehf. hafi sérstaklega verið beðnir um að hækka tilboð sitt í rækjuverksmiðjuna um 20.000.000 króna í þeim eina tilgangi að mæta væntanlegri afskrift/niðurfellingu stefnda á láni vegna kaupanna frá því í apríl 2010. Loforð þetta hafi verið gefið af forstöðumanni lögfræðisviðs stefnda en hann hafi vísað til þess að afskrifa þyrfti hluta af láni stefnanda og 20.000.000 króna rúmuðust vel innan væntanlegra afskriftarmarka stefnda vegna lánsins. Vegna þessa loforðs forstöðumanns lögfræðisviðsins og fyrri loforða stefnda sama efnis hafi Kampi ehf. hækkað tilboð sitt um umbeðna fjárhæð. Forsvarsmaður stefnanda hafi síðan 8. júní 2012 ítrekað kröfu sína um niðurfellingu þegar hann hitti forstöðumann stefnda í Bolungarvík þann dag og sem fyrr hafi verið gefin loforð um niðurfellingu. Loforðin hafi síðan verið staðfest enn á ný síðla árs 2012 þegar stefndi óskaði eftir því við stefnanda að láninu sem tekið var við kaupin á aflahlutdeildum Bakkavíkur ehf. yrði skipt upp, þ.e. sérstakt skuldabréf yrði gefið út sem næmi verðmætum aflahlutdeildar í botnfiski og annað vegna úthafsrækjunnar. Jafnframt hafi verið ákveðið að stefnandi greiddi af láninu vegna botnfisksins en hitt skuldabréfið yrði látið bíða þar til niðurstaða fengist varðandi mögulega kvótasetningu og framtíðarfyrirkomulag á veiðum úthafsrækju. Af þessu tilefni hafi fyrirsvarsmaður stefnanda enn á ný rætt við forstöðumann lögfræðisviðs stefnda um niðurfellingu á láninu og hjá honum hafi komið fram að eðlilegt væri að endanleg niðurfelling tæki mið af verðmæti þeirrar aflahlutdeildar sem yrði úthlutað til stefnanda á grundvelli upphaflegu aflahlutdeildarinnar, þegar og ef til slíkrar úthlutunar kæmi.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi einnig gefið loforð um niðurfellingu þegar í ljós kom við upphaf fiskveiðiársins 2014/2015, þegar úthafsrækja var kvótasett að nýju, að í hans hlut kæmi helmingur þeirrar aflahlutdeildar sem hann keypti á sínum tíma. Þá hafi honum verið lofað að við uppgjör skuldarinnar yrði miðað við söluverð þeirrar aflahlutdeildar sem kom í hans hlut við nýja úthlutun. Markaðsverðmæti aflahlutdeildarinnar hafi þá verið ljóst þar sem nokkur viðskipti höfðu átt sér stað með slíka aflahlutdeild. Þegar ljóst varð að stefnandi fengi eingöngu úthlutað helmingi þeirrar aflahlutdeildar sem hann hafði keypt á sínum tíma varð ljóst að rekstrargrundvöllur fyrir útgerð stefnanda var brostinn. Hann hafi því selt aflahlutdeildina sem kom í hans hlut ásamt skipinu Gunnbirni ÍS til Sólbergs ehf. Forstöðumaður lögfræðisviðs stefnda hafi séð um skjalagerð vegna viðskiptanna. Skipið ásamt aflahlutdeildinni hafi verið selt á 55.000.000 króna og söluverðinu öllu ráðstafað til stefnda en aflahlutdeildin hafi í þessum viðskiptum verið metin á 30.000.000 króna sem þá var markaðsverð. Við samningsgerðina vegna sölunnar hafi komið fram að stefnandi fengi sömu afgreiðslu sinna mála hjá stefnda og aðrar útgerðir sem fengið höfðu lán hjá stefnda til kaupa á aflahlutdeild í úthafsrækju. Nefndi stefnandi sem dæmi félag sem hafi fengið þá afgreiðslu hjá stefnda að verðmæti aflahlutdeildar og skips hafi verið látið duga sem greiðsla á láni en eftirstöðvar afskrifaðar.

Stefnandi vísar enn fremur til þess að í júní 2015 hafi forstöðumaður lögfræðisviðs stefnda lagt fram tillögu til stjórnar þess efnis að stefnandi greiddi, til viðbótar því sem hann hafði áður greitt, 21.000.000 króna og með þeirri greiðslu yrði skuldin samkvæmt skuldabréfinu sem út var gefið vegna kaupa á úthafsrækjukvóta að fullu greidd. Miðaðist tillagan við markaðsverð á úthafsrækjukvóta í júní 2015 en þá hafði markaðsverð kvótans hækkað um 21% frá því að stefnandi seldi hann frá sér í september 2014. Stefnandi kveðst hafa verið tilbúinn til að ljúka uppgjöri sínu við stefnda með þessum hætti þó svo að tillagan hafi ekki verið í samræmi við áður gefin loforð. Stefnandi heldur því fram að tillaga forstöðumanns lögfræðisviðs stefnda hafi ekki verið sett fram að ástæðulausu heldur hafi hún grundvallast á fyrri loforðum starfsmanna stefnda um niðurfellingu hluta skuldarinnar og að sú niðurfelling tæki mið af endanlegri úthlutun aflahlutdeildar í úthafsrækju þegar kvóti yrði tekinn upp að nýju.

Aðalkrafa stefnanda miðast við þá tillögu sem sett var fram af forstöðumanni lögfræðisviðs stefnda til stjórnar stefnda í júní 2015. Sú tillaga grundvallast á verðmæti þeirrar aflahlutdeildar sem stefnandi fékk úthlutað í upphafi fisveiðiársins 2014/2015 eins og markaðsverðið var í júní 2015. Stefnandi byggir á því að tillaga þessi sé í samræmi við margítrekuð loforð starfsmanna stefnda. Stefnandi hafi fallist á þessi málalok þrátt fyrir að þau væru ekki alfarið í samræmi við áður gefin loforð en í þeim fólst að verðmæti aflahlutdeildarinnar miðaðist við upphaf fiskveiðiársins 2014/2015 þegar stefnandi seldi aflahlutdeildina. Við fjárnámsgerðina sem áður er vikið að hafi stefnandi, með fyrirvara um réttmæti kröfunnar, greitt inn á reikning hjá sýslumanninum á Vestfjörðum 90.000.000 króna sem í ágúst 2015 var ráðstafað til stefnanda. Þá greiddi stefnandi stefnda hinn 15. júní 2015 12.500.000 krónur í samræmi við tillögu um niðurfellingu sem áður er getið. Byggir stefnandi á því að eftir að hann hafði greitt stefnanda nefndar 12.500.000 krónur hafi hann skuldað stefnda 9.000.000 króna en stefndi hafi hins vegar fengið greiddar 90.000.000 króna og því krefjist hann nú endurgreiðslu á 81.000.000 króna.

Varakrafa stefnanda er reist á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa hans byggist á, þ.e. að skuldbindandi loforð hafi verið gefin um niðurfellingu á hluta skuldarinnar en fallist dómurinn ekki á þau sjónarmið sem að baki aðalkröfunni liggja sé það lagt í hendur dómsins að meta eðlilega fjárhæð til handa stefnda með hliðsjón af þeim loforðum sem gefin voru um niðurfellingu hluta skuldarinnar.

Stefnandi vísar kröfum sínum til stuðnings fyrst of fremst til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða. Stefnandi byggir á því að honum hafi ítrekað verið gefin skuldbindandi loforð um niðurfellingu skuldarinnar af forsvarsmönnum stefnda en stefndi hafi síðan ekki staðið við þau loforð. Þá vísar stefnandi til meginreglna sem gilda um skaðabótaskyldu innan samninga, svokallaðrar samningsábyrgðar, þ.e. samningsaðili beri bótaábyrgð á því ef hann vanefnir skyldur sínar. Um dráttarvexti vísar stefnandi til ákvæða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 en varðandi upphafstíma vaxta vísar hann til 4. mgr. 5. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að fyrirsvarsmaður stefnanda sé enginn nýgræðingur í útgerð og honum því fullkunnugt um að breytingar geti orðið á stjórn fiskveiða. Í kaupsamningi stefnanda og Bakkavíkur sé ákvæði þar sem fram kemur að verði lögum breytt þannig að aflahlutdeild verði skert, felld niður eða aukin verði kaupverð ekki leiðrétt. Því hafi stefnandi vísvitandi tekið áhættu á því að einhverjar breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þrátt fyrir ákvæði þetta hafi stefnandi reynt að rifta samningnum við Bakkavík ehf. um það bil einu og hálfu ári eftir að samningurinn var gerður. Skiptastjóri hafi hafnað riftun vegna ákvæðisins sem lýst var hér að framan. Stefndi hafi síðan hafnað riftun enda hann ekki aðili að þessum samningi. Stefndi hafi í samræmi við hlutverk sitt um viðhald og eflingu byggðar komist að samkomulagi við stefnanda um að breyta skilmálum skuldabréfsins sem stefnandi yfirtók við kaupin. Hins vegar hafnar stefndi því að við það tækifæri hafi stefnanda verið gefin loforð um að endanlegt uppgjör skuldabréfsins myndi ráðast af afdrifum þeirra breytinga á stjórn fiskveiða í úthafsrækju, sem hagsmunaaðilar í sjárvarútvegi virtust telja tímabundnar, og myndu ganga til baka eða komið í annað horf. Vísar stefndi til þess að allar slíkar ákvarðanir séu teknar af lánanefnd stefnda með formlegum hætti og eftir atvikum að fenginni umsögn ríkisendurskoðunar.

Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda í þá veru að við kaup Kampa ehf. á rækjuverksmiðju sem áður var í eigu Bakkavíkur ehf. hafi verið gefin loforð um lækkun á skuld stefnanda samkvæmt skuldabréfinu. Kampi ehf. hafi gert valkvætt tilboð sem annars vegar hafi verið í ákveðin tæki og hins vegar í húsnæðið ásamt tækjum. Kampi ehf. hafi boðið 90.000.000 króna í húsnæði ásamt tækjum en því boði hafi ekki verið tekið en að loknum samningaviðræðum hafi samist um kaupverð sem var 20.000.000 króna hærra. Í yfirlýsingu sem gerð var vegna kaupanna kemur fram að stjórn stefnda hafi samþykkt viðskiptin formlega á fundi sínum en ekkert sé um það í yfirlýsingunni að stjórn stefnda hafi við það tækifæri samþykkt tillögu um eftirgjöf á skuldum stefnanda og mótmælir stefndi því að slíkt loforð hafi verið gefið formlega eða óformlega. Raunar séu þessi viðskipti óviðkomandi viðskiptum stefnanda við Bakkavík ehf. um aflahlutdeildir.

Stefndi hafnar því að skipting á láninu, sem stefnandi yfirtók við kaupin á aflahlutdeildunum, í tvo hluta þannig að sérstakt skuldabréf var gert vegna aflaheimilda í bolfiski og annað vegna aflahlutdeildar í úthafsrækju hafi verið gerð í þeim tilgangi að unnt væri að afskrifa að hluta eða fullu skuldina sem til var komin vegna rækjukvótans. Stefndi heldur því fram að skiptingin hafi komið til vegna óska stefnanda þar um og andmælir stefndi því að hann hafi með einum eða öðrum hætti, formlegum eða óformlegum fallist á beiðnir stefnanda um lækkun eða niðurfellingu skuldarinnar. Hann hafi aftur á móti sýnt aðstöðu stefnanda skilning og ítrekað samþykkt að breyta greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins og greitt götu stefnanda í hvívetna án þess að í því fælist loforð um eftirgjöf skuldarinnar.

Stefndi vísar til þess að lánanefnd hans, eftir atvikum að fenginni umsögn ríkisendurskoðunar, hafi ein heimild til að ákveða hvort kröfur stefnda séu lækkaðar eða felldar niður, sbr. 8. kafla verklagsreglna stefnda. Í þessu tilfelli hafi niðurstaða lánanefndarinnar verið sú að ekki væru efni til að afskrifta skuld stefnanda hvorki að hluta til né að fullu. Í framhaldi af því hafi lögmanni verið falið að innheimta skuldina. Lánanefnd stefnda sé að lögum eini aðilinn sem getur gefið loforð í þá veru sem stefnandi byggir á en slíkt loforð hafi nefndin ekki gefið og því hafi ekkert loforð verið svikið. Stefndi heldur því fram að þó svo að starfsmaður hans sé velviljaður málsstað stefnanda jafngildi það ekki loforði um að gefa eftir á annað hundrað milljónir króna af almannafé. Þetta hafi fyrirsvarsmanni stefnanda verið kunnugt enda formleg afstaða stefnda alltaf legið skýr fyrir. Að mati stefnda liggur ljóst fyrir að stefnandi á ekki og geti ekki átt neina kröfu á stefnda á grundvelli aðalmálsástæðu sinnar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða.

Stefndi hafnar því að hægt sé að fallast á kröfur stefnanda á grundvelli reglna um skaðabótaskyldu innan samninga. Hér hátti svo til að engir samningar séu til staðar milli aðila og því komi ekki til álita að stefndi hafi ekki staðið við samningsskyldur sínar. Loforð sem stefnandi haldi fram að hafi verið gefin séu í eðli sínu ekki samningur heldur einhliða viljayfirlýsing og sem slík myndi hún lúta öðrum lögmálum en tvíhliða samningur. Eini samningurinn sem liggi fyrir í málinu er samningur milli stefnanda og Bakkavíkur ehf. en stefndi sé ekki aðili að honum. Samningur stefnanda við Bakkavík ehf. hafi verið uppfylltur m.a. með því að stefnandi tók að sér að greiða skuld Bakkavíkur ehf. við stefnda. Í samningi stefnanda og Bakkavíkur ehf. hafi verið ákvæði í þá veru að stefnandi gerði sér grein fyrir áhættu sem fylgir kaupum á aflaheimildum og undir þá áhættu gekkst stefnandi. Vegna ákvarðana stjórnvalda, sem stefndi hafi engu ráðið um, hafi greiðsla Bakkavíkur ehf. reynst gölluð að því leyti að þau réttindi sem stefnandi fékk til aflahlutdeildar í úthafsrækju reyndust ekki markaðsvara næstu árin á eftir. Telji stefnandi sig eiga rétt til skaðabóta vegna breytinga á reglum um stjórn fiskveiða beri honum að beina slíkri málssókn að þeim er ákvörðunina tóku.

Stefndi vísar einnig til þess að eftir að aflamarki var ekki lengur úthlutað við veiðar á úthafsrækju hafi veiðar á úthafsrækju í raun verið öllum frjálsar. Stefnandi hafi því ekki verið sviptur réttindum til slíkra veiða heldur hafi honum verið frjálst að veiða úthafsrækju meðan heildarveiði var innan þess marks sem ákveðið var. Af gögnum Fiskistofu megi ráða að skip stefnanda, Gunnbjörn ÍS, hafi veitt svipað magn úthafrækju á þeim árum sem veiðarnar voru á aflamarki og það gerði á fiskveiðiárinu 2009/2010 og því hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna breyttra reglna. Stefnandi hafi síðan sjálfur ákveðið, þegar aflamarki hafi verið úthlutað á ný, að selja skipið með aflaheimildum. Stefndi hafi ákveðið að aflétta veði því sem hann hafði í Gunnbirni ÍS enda hafi efnahagur stefnanda verið traustur. Í því hafi ekki falist loforð um eftirgjöf skulda. Ákvörðun stjórnvalda um breytt fyrirkomulag á stjórn veiða á úthafsrækju geti því ekki leitt til skaðabótaábyrgðar stefnda á meintu tjóni stefnanda og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda sem reistar eru á þessum málsástæðum vegna aðildarskorts. Stefndi bendir enn fremur á að tjón stefnanda sé ósannað og málið því vanreifað hvað það varðar og kröfufjárhæðum sérstaklega mótmælt.

Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann hafi verið grandsamur um að til stæði að breyta stjórn veiða á úthafsrækju líkt og gert var en að þessu sé látið liggja í stefnu. Stefndi hafi í samræmi við hlutverk sitt viljað aðstoða stefnanda við kaup á aflaheimildum Bakkavíkur ehf. en fyrir hafi legið að það félag var á leið í gjaldþrot. Ef aflaheimildirnar hefðu ekki verið seldar áður en til gjaldþrots kom hefði skiptastjóri auglýst þær og óvíst að þær yrðu áfram á Vestfjörðum en stefndi hafi lengi komið að málefnum rækjuiðnaðar á því svæði. Stefnda hafi verið kunnugt um áhuga stefnanda á því að auka rækjukvóta sinn og stefndi hafi viljað aðstoða hann í því og með þessu skotið styrkari stoðum undir útgerð stefnanda.

Varðandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda vísar stefndi til þess að málssókn þessi sé algerlega að ófyrirsynju og líta beri til þess við ákvörðun málskostnaðar og þá verði að horfa til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

IV

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa snýst um það hvort starfsmenn stefnda hafi gefið fyrirsvarsmönnum stefnanda skuldbindandi loforð þess efnis að lán sem stefnandi yfirtók hjá stefnda vegna kaupa á veiðiheimildum í úthafsrækju af Bakkavík ehf. skyldi afskrifað að hluta.

Fyrir liggur að engir skriflegir samningar voru gerðir um niðurfærslu eða afskriftir á því láni sem stefnandi yfirtók vegna kaupanna. Málatilbúnaður stefnanda byggist því aðallega á munnlegum loforðum sem hann kveður starfsmenn stefnda hafa gefið sér en jafnframt vísar stefnandi til gagna málsins sem hann telur styðja fullyrðingar sínar um gefin loforð. Af þessum sökum er rétt að gera stuttlega grein fyrir aðalatriðum framburðar aðila og vitna fyrir dóminum.

Fyrirsvarsmaður stefnanda, Jón Guðbjartsson, bar að hann hafi, þegar ákveðið var að bíða með afborganir af láninu sem snéri að rækjukvótanum, litið svo á að honum hafi verið lofað að við uppgjör á láninu yrði tekið tillit til þeirrar aflahlutdeildar sem kæmi í hlut stefnanda á grundvelli þeirra veiðiheimilda sem hann keypti af Bakkavík ehf. Stefndi myndi því greiða fyrir þær aflaheimildir sem hann í raun keypti þegar í ljós kæmi hver sú hlutdeild yrði þegar aflahlutdeild yrði úthlutað að nýju. Þannig hafi verið gengið út frá því að ef ekkert aflamark kæmi í hlut stefnanda yrði ekki greitt af láninu og að sama skapi ef aflaheimildirnar skiluðu sér allar yrði lánið greitt að fullu. Stefnandi hafi fengið nánast helming aflahlutdeildarinnar til baka og greitt lánið til baka miðað við það og þá talið að skuldin væri að fullu greidd. Þá bar Jón að fullt traust hafi ríkt á milli hans og starfsmanna stefnda og því hafi þessi skilningur ekki verið skjalfestur. Jón kvaðst hafa fært þennan skilning sinn í tal við Aðalstein Þorsteinsson er þeir hittust af ákveðnu tilefni og þá hafi Aðalsteinn jánkað því að skuldin yrði gerð upp á þeim nótum sem um hafði verið rætt. Varðandi loforð um 20.000.000 króna niðurfærslu á láninu vegna kaupa Kampa ehf. á fasteign og tækjum sem áður voru í eigu þrotabús Bakkavíkur ehf. bar Jón að Hjalti Árnason, forstöðumaður lögfræðisviðs stefnda, hafi gefið loforð um slíka niðurfærslu gegn því að Kampi ehf. hækkaði tilboð sitt í eignirnar um þessa fjárhæð en Hjalti hafi verið sá starfsmaður stefnda sem hann hafi átt mest samskipti við.

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri stefnda, sagði það grunnreglu hjá stefnda að óheimilt væri að afskrifa lán en þó væru undantekningar frá því. Hann kvað einstaka starfsmenn stefnda ekki hafa heimild til að lofa afskriftum eða gefa bindandi yfirlýsingar í þá veru. Sérstök lánanefnd taki fyrir beiðnir um afskriftir og geri ef tilefni þykir til tillögu um slíkt til stjórnar sem síðan ef á hana er fallist þurfi að bera undir ríkisendurskoðun. Aðalsteinn greindi frá því að vissulega hafi starfsmenn stefnda haft samúð með stefnanda vegna þeirrar stöðu sem upp kom þegar aflaheimildirnar urðu verðlausar, hins vegar hafi ekkert verið hægt að gera af því tilefni annað en það sem stofnunin reyni almennt að gera, þ.e. að aðstoða viðskiptamenn sína eftir föngum. Aðalsteinn hafnaði því að hafa gefið fyrirsvarmanni stefnanda loforð um afskriftir þegar þeir hittust í Bolungarvík, enda ekki haft heimild til þess, en taldi víst að hann hafi með almennum orðum sagt honum að reynt yrði að finna lausn á málinu.

Vitnið Hjalti Árnason, forstöðumaður lögfræðisviðs stefnda, kvaðst hafa vitað af áhuga stefnanda á að eignast kvótann sem var í eigu Bakkavíkur ehf. en hann hafi ekki með beinum hætti komið að kaupunum á sínum tíma. Eftir að veiðarnar voru gefnar frjálsar hafi komið upp ný og breytt staða sem brugðist hafi verið við með því að skipta láninu í tvo hluta og þá hafi láninu vegna rækjukvótans verið skuldbreytt og í raun sett á ís. Honum og fleiri starfsmönnum stefnda hafi þótt eðlilegt að bíða með lánið vegna rækjukvótans þar til endanlega yrði ákveðið með hvaða hætti veiðum á úthafsrækju yrði stjórnað. Vitnið  taldi víst að hann og Jón Guðbjartsson hafi rætt það að endurgreiðsla lánsins tæki mið af því hversu mikill kvóti kæmi í hlut stefnanda á grundvelli þess kvóta sem keyptur var af Bakkavík ehf. Að sögn vitnisins upplifði hann ekki þessi samtöl sín við Jón þannig að þeir hafi báðir gengið út frá því að þessi yrði niðurstaðan en sumir starfsmanna stefnda hafi haft samúð með þeirri aðstöðu sem stefnandi var í, þ.e. að hann hafði keypt kvóta sem innan fárra mánaða varð verðlaus, en aðrir starfsmenn stefnda hafi viljað innheimta lánið strax. Þá kom fram í framburði vitnisins að hann kannaðist ekki við að hafa rætt það við Jón að stefnandi væri búinn að gera upp skuld sína við stefnda eftir að stefnandi hafið selt þá aflahlutdeild sem í hans hlut kom að endingu og þeim fjármunum sem fengust við söluna ráðstafað inn á lánið. Tillaga hans til lánanefndar stefnda hafi tekið mið af því sem honum sjálfum þótti sanngjarnt á þeim tíma og hann hafi rætt það við Jón að hann myndi beita sér fyrir því að lánið yrði gert upp í samræmi við þá aflahlutdeild sem að endingu kæmi í hlut stefnanda. Hins vegar hafi alltaf legið fyrir að slíka tillögu yrði að leggja fyrir lánanefnd stefnda. Vitnið hafnaði því að hann hafi gefið stefnanda loforð eða yfirlýsingu um niðurfellingu eða afslátt af láninu.

Vitnið Pétur Ingi Grétarsson, lánasérfræðingur hjá stefnda, bar að hann hafi verið í stjórn Kampa ehf. og þannig komið að kaupum þess félags á rækjuverksmiðjunni í Bolungarvík. Það hafi litið vel út fyrir félagið að kaupa húsið og tækin. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna Kampi ehf. hækkaði tilboð sitt um 20.000.000 króna en taldi að sú hækkun hafi komið til vegna gagntilboðs frá stefnda. Að sögn vitnisins var stefnandi óheppinn með kaupin á rækjukvótanum en hann hafi ekki verið einn um það og vísaði í þeim efnum til þeirra sem tóku lán í erlendri mynt skömmu fyrir efnahagshrunið. Vitnið greindi frá því að endurskoðendur stefnda hafi bent á að rétt væri að færa lán sem höfðu veð í úthafsrækjukvóta niður, enda þau ótrygg, og það hafi stefndi gert í bókum sínum. Staða stefnanda hafi verið nokkuð sérstök þar sem virði félagsins var umfram skuldir og skoðanir starfsmanna stefnda á því hvað gera skyldi með innheimtu á láninu hafi verið skiptar en þeir hafi verið bundnir af reglum stefnda. Beðið hafi verið með innheimtu lánsins þó svo að vitað væri að eigið fé stefnanda væri mikið. Hjalti Árnason hafi síðan gert ákveðna tillögu sem hafi verið felld af lánanefnd stefnda enda ljóst að stefnandi gat greitt lánið.

Vitnið Albert Haraldsson, rekstrarstjóri Kampa ehf. frá 2007, kvaðst ekki hafa komið að kaupum Kampa ehf. á rækjuverksmiðjunni í Bolungarvík á annan hátt en þann að hann hafi ásamt Jóni Guðbjartssyni skoðað fasteignina og tækin. Síðan hafi verið gert tilboð í tækin en einnig húsnæðið. Nokkrum vikum síðar hafi Hjalti Árnason komið og þeir ásamt syni Jóns Guðbjartssonar rætt málin. Hjalti hafi þá sagt að hann væri kominn til að reyna að semja um kaupin á fasteigninni og tækjunum en tilboð Kampa ehf. væri ekki nægilega hátt. Hjalti hafi þá lýst því að hann væri tilbúinn til að koma til móts við þá með því að afskrifa hluta lánsins sem yfirtekið var vegna kaupanna á rækjukvótanum. Hjalti hafi jafnframt sagt að ef úthafsrækjan yrði ekki kvótasett á ný myndi hann halda áfram að afskrifa lánið. Niðurstaðan hafi orðið sú að Kampi ehf. hækkaði tilboð sitt um 20.000.000 króna og hann hafi skynjað þetta svo að Hjalti hafi á þessum fundi lofað afskrift á láninu um nefnda fjárhæð og síðan yrði haldið áfram að afskrifa lánið og að fullu ef kvóti yrði ekki settur á veiðarnar að nýju.

Það er meginregla íslensks réttar að munnlegur samningur er jafngildur skriflegum. Sá sem heldur því fram að samningur hafi komist á munnlega ber á hinn bóginn sönnunarbyrði fyrir því. Stefnandi ber því sönnunarbyrði fyrir því að honum hafi verið gefin loforð um að títtnefnt lán yrði fært niður að hluta eins og hann byggir á. Skrifleg gögn málsins bera ekki með sér að slíkt loforð hafi verið gefið. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að starfsmenn stefnda hafi sýnt skilning á þeirri stöðu sem upp kom þegar aflaheimildirnar sem hann keypti urðu verðlausar þegar hætt var að stjórna veiðum á úthafsrækju með aflamarki. Þó svo að láninu sem stefnandi yfirtók hafi verið skipt upp og bolfiskhlutinn settur í nýtt lán og af því láni greitt en rækjuhlutanum ítrekað skuldbreytt er slík aðgerð ekki ígildi loforðs um niðurfellingu. Þá skiptir heldur ekki máli þótt stefndi hafi í bókum sínum fært lánið niður.

Af framburði fyrir dóminum verður ekki ráðið að stefnanda hafi verið gefin loforð um niðurfærslu lánsins eða afskriftir en vitnið Hjalti Árnason bar að honum hafi þótt eðlilegt að stefnandi greiddi eingöngu fyrir þær heimildir sem í hans hlut komu við endurúthlutun aflaheimilda og hann hafi gert tillögu til lánanefndar stefnda í samræmi við það. Hann hafnaði því hins vegar alfarið að hafa gefið forsvarsmanni stefnda slíkt loforð og alltaf hafi legið fyrir, og fyrirsvarsmanni stefnanda verið það kunnugt, að samþykki lánanefndar þyrfti fyrir niðurfellingu á láninu. Þá hafnaði forstjóri stefnda því að hafa gefið stefnanda loforð um niðurfærslu að fjárhæð 20.000.000 króna við kaup Kampa ehf. á fasteignum og tækjum rækjuverksmiðju í Bolungarvík og að sama skapi hafnaði vitnið Hjalti því að hafa gefið slíkt loforð. Framburður vitnisins Alberts Haraldssonar sem er á aðra lund dugar ekki til þess að stefnanda hafi tekist að færa fram næga sönnun fyrir tilvist slíks loforðs. Við úrlausn máls þessa verður að horfa til þess að um verulegar fjárhæðir er að ræða og því hefði verið rétt af stefnanda að ganga eftir því að skriflegt samkomulag yrði gert um niðurfellinguna eða að tryggja sér sönnu þess með öðrum hætti. Þá ber og að horfa til þess að reglur stefnda um niðurfærslu lána eru skýrar en til niðurfellingar lána þarf samþykki lánanefndar stefnda og stjórnar hans og því ósennilegra en ella að einstakir starfsmenn stefnda hafi gefið skýr og skuldbindandi loforð um niðurfærslu lánsins en þeim var ljóst að slíkt loforð gátu þeir ekki staðið við. Að öllu þessu virtu telst ósannað að stefndi hafi gefið stefnanda loforð um niðurfellingu eða afskriftir á láni því sem stefnandi yfirtók í apríl 2010 og ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda en varakrafa stefnanda er reist á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa hans.

Að teknu tilliti til niðurstöðu málsins er stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir að teknu tilliti til virðisaukaskatts hæfilega ákveðinn 620.000 krónur. Ekki eru efni til að fallast á með stefnda að rétt sé að ákvaða málskostnað á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga um meðferð einkamála.

Björn Jóhannesson hæstaréttarlögmaður fór með mál þetta fyrir hönd stefnanda en Garðar Garðarsson hæstaréttarlögmaður flutti málið fyrir hönd stefnda.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómsorð

Stefndi, Byggðastofnun, er sýkn af kröfum stefnanda, Birnis ehf.

Stefnandi greiði stefnda 620. 000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                                   Halldór Halldórsson