• Lykilorð:
  • Landamerki
  • Skuldamál
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 14. mars 2019 í máli nr. E-27/2018:

Húnavatnshreppur

(Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

gegn

Kristjáni Þorbjörnssyni

(Ingibjörg Halldórsdóttir lögmaður)

 

I

Mál þetta var höfðað 28. september 2018 og tekið til dóms 19. febrúar sl.

Stefnandi er Húnavatnshreppur, Húnavöllum, Húnavatnshreppi.

Stefndi er Kristján Þorbjörnsson, Heiðarbraut 12, Blönduósi.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 464.566 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá 8. desember 2017 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilfellum krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Atvik máls

Vorið 2014 keypti stefnandi jörðina Gilsstaði í Vatnsdal í Húnavatnshreppi. Gilsstaðir liggja m.a. að Þingeyrarselslandi sem stefnandi hefur á leigu og nýtir sem afrétt. Í leigusamningi sem gerður var í ágúst 2001 milli fyrirrennara stefnanda og eiganda Þingeyrarsels tók leigutaki að sér allar skuldbindingar varðandi girðingar sem tengdust landi Þingeyrarsels og raunar Kornsárseli líka. Stefndi ritaði stefnanda bréf, 2. júlí 2014, og fór þess á leit að stefnandi greiddi 80% af kostnaði við merkjagirðingu milli Gilsstaða og Þingeyrarselslands. Stefnandi hafnaði þessari málaleitan stefnda í september 2014.

Á árinu 2016 hafði stefnandi samband við stefnda og lagði til að aðilar óskuðu eftir því að úrskurðað yrði um ágreining þeirra á grundvelli 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Stefndi féllst á þetta og hinn 27. júlí 2016 undirrituðu aðilar samkomulag um nokkur atriði varðandi merkjagirðinguna. Stefndi féllst á að stefnandi myndi láta reisa girðingu milli jarðanna en kveðst hafa gert það með ákveðnum skilyrðum.

Líkt og aðilar höfðu samið um leysti úrskurðarnefnd, sem skipuð var á grundvelli 7. gr. girðingarlaga, úr ágreiningi aðila um skiptingu kostnaðar við girðinguna. Nefndin kvað upp úrskurð 10. apríl 2017 og mælti svo fyrir að stefnandi skyldi greiða 4/5 hluta kostnaðarins en stefndi 1/5. Viðhaldskostnaður skyldi síðan greiddur í sömu hlutföllum.

Stefndi sendi hinn 17. maí 2017 sveitarstjóra og oddvita stefnda tölvupóst þar sem hann lagði til að gengið yrði frá samningi um girðinguna í samræmi við samkomulag aðila frá 27. júlí 2016. Stefnandi svaraði stefnda með tölvupósti 22. maí 2017 þar sem m.a. kom fram að stefnda yrði sendur reikningur vegna hans hluta í kostnaði við girðinguna. Reikningur barst stefnda síðan 21. júní 2017 en stefndi endursendi reikninginn sama dag að hans sögn vegna þess að reikningurinn var ekki sundurliðaður og þess að honum fylgdu engin gögn. Stefnandi sendi stefnda innheimtuviðvörun 8. nóvember 2017. Stefndi svaraði aðvöruninni með því að senda í byrjun desember 2017 bréf á alla sveitarstjórnarmenn stefnanda. Eftir það gerðist ekkert í málinu fyrr en stefnandi höfðaði mál þetta.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að krafa hans byggist á ógreiddum reikningi vegna girðingar fyrir landi Gilsstaða í Vatnsdal á móts við land sem tilheyrir Þingeyrarseli. Aðilar hafi 27. júlí 2016 undirritað samkomulag vegna girðingarinnar og skiptingu kostnaðar vegna hennar. Aðilar hafi sammælst  um að leggja ágreining um kostnað í úrskurð sérstakrar úrskurðarnefndar skv. 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 og að samningur um girðinguna skyldi gerður á grunni endanlegrar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi skyldi bera 4/5 hluta kostnaðar við girðinguna en stefndi 1/5 hluta. Heildarkostnaður við girðinguna hafi verið 2.322.830 krónur, þar af vinna 1.429.635 krónur og efni 893.195 krónur. Stefnandi bendir á að reikningur Bændaverks ehf. vegna vinnu við gerð girðingarinnar sé hærri en það skýrist af vinnu við lagningu girðingar í landi Kornsár 2 sem ekki tengist þessu máli. Þessi kostnaður hafi verið dreginn frá þeirri fjárhæð sem stefndi er nú krafinn um. Hlutdeild stefnda í kostnaði við girðinguna fyrir hans landi nemi því stefnufjárhæð máls þessa. Stefnda hafi verið send innheimtuviðvörun 8 nóvember 2017 og dráttarvaxta sé krafist frá því að liðinn er mánuður frá þeim degi til greiðsludags. Þar sem krafan hafi ekki fengist greidd sé stefnanda nauðsyn að höfða mál þetta til innheimtu hennar.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Krafa um dráttarvexti styðst við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa er reist á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi byggir á því að í 5. gr. samkomulags aðila frá 27. júlí 2016 komi skýrt fram að þeim beri að gera með sér samning um girðingu á milli Gilsstaða og Þingeyrarselslands að gengnum úrskurði um skiptingu kostnaðar við hana. Stefndi hafi ítrekað en án árangurs leitað eftir því við stefnanda að hann stæði við samkomulagið.

Stefndi heldur því fram að ýmsar ástæður séu fyrir nauðsyn á samkomulagi aðila um girðinguna en hann viti ekki til þess að stefnandi eða forverar hans hafi tekið þátt í kostnaði við girðingu fyrir landi Gilsstaða. Girðingin sé alfarið á landi stefnda og það eitt og sér sé íþyngjandi fyrir hann auk þess sem hann tapi afnotum af landi sínu sem liggi utan girðingarinnar enda það land nýtt af þeim sem nýta Þingeyrarselsland. Til þessara nota annarra af landi stefnda verði að taka tillit. Stefndi vísar einnig til þess að eldri girðingu hafi þurft að fjarlægja en sú girðing hafi legið langt inn í land Gilsstaða og skapað hættu fyrir búpening. Í 12. gr. girðingarlaga komi fram að umráðamönnum lands sé skylt að hreinsa burt af landi sínu ónothæfar girðingar og girðingaflækjur. Eldri girðingin hafi verið reist af eigendum Þingeyrarselslands og Flögu sem er næsta jörð norðan Gilsstaða. Sú girðing hafi verið lögð áður en samningur eiganda Þingeyrarselslands og sveitarstjórna Ás- og Sveinsstaðahreppa var gerður en við þann samningi hafi skuldbindingar vegna girðingarinnar færst yfir til þeirra sveitarfélaga. Stefndi hafi innt af hendi töluverða vinnu við að fjarlægja eldri girðinguna enda hún langt frá byggð og tafsamt að komast að henni. Hann hafi auk þess innt af hendi ýmis fleiri verk vegna girðingarinnar og vinnuframlag hans hafi verið eitt þeirra atriða sem taka þurfti tillit til við gerð samnings aðila um girðinguna. Þá þurfi að ná samkomulagi um viðhald girðingarinnar. Stefndi telur að dreifibréf sem stefnandi sendi jarðeigendum í sveitarfélaginu megi skilja á þann hátt að stefnandi ætli sér að sjá um viðhald á títtnefndri girðingu svo og öðrum girðingu á svæðinu. Hins vegar verði ekki ráðið af bréfinu hver eigi að bera kostnað af viðhaldinu, og eftir atvikum í hvaða hlutföllum.

Stefndi vísar til þess að fyrir liggi úrskurður nefndar sem skipuð var á grundvelli 7. gr. girðingarlaga um það í hvaða hlutföllum aðilar eigi að bera kostnað af uppstetningu girðingarinnar. Úrskurður nefndarinnar taki hins vegar ekki á því hver kostnaður við girðinguna skuli vera og um það hafi aðilar ekki samið. Í 6. gr. girðingarlaga komi fram að ef ágreiningur verður um framkvæmd verksins skuli með hann farið eftir ákvæðum 5. og 7. gr. laganna. Í 5. gr. laganna segi m.a. að hver aðili hafi rétt til að leggja fram efni, flutning og vinnu í hlutfalli við þátttöku í kostnaði við girðingu. Stefndi bendir á að hann hafi ekki gert athugasemd við að stefnandi léti reisa girðinguna en í því hafi ekki um leið falist að hann afsalaði sér réttindum þeim sem hann eigi samkvæmt nefndri 5. gr. og stefnandi hafi sjáldæmi um það hver kostnaður við girðinguna yrði. Þá hafi hann heldur ekki afsalað sér rétti sínum samkvæmt greininni að við uppgjör milli aðila yrði tekið tillit til þeirrar vinnu sem hann innti af hendi og kostnaðar sem hann varð fyrir m.a. vegna aksturs sem fyrirsvarsmaður stefnanda óskaði eftir.

Að mati stefnda hefur stefnandi með framgöngu sinni og einstrengingslegri afstöðu til óska stefnanda um samráð og samkomulag komið í veg fyrir að stefndi geti greitt efni, vinnu og annan kostnað við girðinguna með þeim hætti að lögmætir reikningar væru gefnir út til hans, þ.e. númeraðir, sundurliðaðir og að öðru leyti þannig úr garði gerðir að þeir uppfylltu þær kröfur sem gerðar eru til reikninga lögum samkvæmt m.t.t. bókhalds og skattskila. Stefndi vísar til þess að fái stefnandi kröfum sínum framgengt komi hann í veg fyrir að stefndi geti fengið endurgreiddan virðisaukaskatt af framkvæmdinni sem lög mæla fyrir um að hann eigi rétt á.

Af hálfu stefnda er til þess vísað að sveitarstjórn stefnanda teljist stjórn fjallskila-umdæmis, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. Stjórn fjallskilaumdæmis fari með yfirstjórn afrétta- og fjallskilamála samkvæmt nefndum lögum. Af þessu leiði að afrétta- og fjallskilamálefni séu meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga, sbr. einnig 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Í úrskurði þeim sem áður er getið komi fram að nefndin líti á land Þingeirarsels sem afréttarland. Sveitarstjórn, sem stjórnvaldi, sé skylt að viðhafa vandaða stjórnsýsluhætti í öllum sínum athöfnum, bæði sem leigutaki lands í einkaréttarlegum skilningi og ekki síður við framkvæmd lögbundinna verkefna. Það hafi stefnandi ekki gert í þessu tilviki heldur hafi hann algerlega hundsað óskir stefnanda, sem þó byggja á skýrum ákvæðum girðingarlaga og samnings aðila frá 27. júlí 2016. Málsmeðferð stefnda hafi því einnig farið gróflega í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins, þ.m.t. rannsóknarregluna, lögmætisregluna og rétt aðila máls til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en ákvörðun er tekin. Í þessu sambandi bendir stefndi á álit umboðsmanns Alþingis nr. 2638/1999 og 734/1992.

Stefndi heldur því fram að stefnandi krefji hann um greiðslu á einum fimmta hluta ætlaðs kostnaðar við hina umdeildu girðingu án þess að gæta að ákvæðum 5. til 7. gr. girðingarlaga og án þess að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem lög gera kröfu um að stjórnvöld viðhafi. Auk þess hafi stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn varðandi þann kostnað sem hann kveður hafa hlotist af því að reisa girðinguna. Ekki liggi fyrir nein sönnun þess að stefnandi hafi innt af hendi þann hluta kostnaðarins sem hann segir stafa að kaupum á efni, en þau gögn sem stefnandi hefur lagt fram þeim kostnaði til stuðnings sanni í engu að stefnandi hafi greitt þá fjárhæð sem hann vísar til í málatilbúnaði sínum.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu kostnaðar vegna girðingar sem reist var á milli jarðar stefnda og afréttarlands sem stefnandi hefur á leigu. Fyrir liggur að úrskurðarnefnd sem skipuð var í samræmi við ákvæði 7. gr. girðingarlaga úrskurðaði að aðilar skyldu skipta kostnaði við girðinguna þannig að stefnandi greiddi fjóra fimmtu hluta en stefndi einn fimmta og er ekki um þetta deilt í máli þessu.

Aðilar gerðu hinn 27. júlí 2016 með sér samkomulag vegna girðingarinnar en það var gert áður en úrskurður um skiptingu kostnaðar lá fyrir. Í samkomulaginu kemur fram að það taki til skiptingu kostnaðar vegna fyrirhugaðra girðingaframkvæmda fyrir landi Gilsstaða á móts við land Þingeyrarsels. Þess er getið hvar girðingin verði staðsett og áætlað að hún verði um 2.400 metrar að lengd en girðingarstæði hafi þegar verið merkt með hælum. Þá eru aðilar sammála um að vísa ágreiningi sínum um skiptingu kostnaðar til úrskurðarnefndar sbr. 7. gr. girðingarlaga. Mælt er svo fyrir að stefnandi muni greiða kostnað af vinnu nefndarinnar sökum þess að niðurstaða nefndarinnar hafi árhrif á fjölmargar aðrar jarðir. Loks er kveðið á um það að aðilar séu sammála um að gera með sér samning um girðinguna á grunni endanlegrar niðurstöðu um kostnaðarskiptingu, hver sem hún verður.

Stefnandi lét síðan reisa girðingu á þeim stað sem ákveðið hafði verið en til verksins réði hann verktaka, Bændaverk ehf. Það félag gerði stefnanda reikning vegna verksins sem stefnandi greiddi. Að sögn stefnanda var heildarkostnaður við girðingu fyrir landi stefnda 2.322.830 krónur og krefur hann stefnda nú um fimmtung þeirrar fjárhæðar. Stefnandi mun hafa sent stefnda reikning af þessu tilefni en stefndi endursendi hann. Stefndi bar fyrir dóminum að hann hafi endursent reikninginn þar sem hann var ekki í samræmi við það sem áður hafði verið rætt og þá var hann án virðisaukaskatts. Þessi reikningur er ekki meðal gagna málsins og þá hefur úttekt á girðingunni sem stefnandi kveðst hafa látið framkvæma ekki heldur meðal gagna málsins.

Stefndi sendi stefnanda tölvupóst 17. maí 2017 eftir að úrskurður um kostnaðarskiptingu lá fyrir. Í þeim pósti spyr hann hvort ekki þurfi að ganga frá samkomulagi varðandi framkvæmdina og leggur til ákveðna lausn varðandi hans kostnað. Erindi stefnda svarar stefnandi með tölvupósti nokkrum dögum síðar þar sem fram kemur að búið sé að ákveða skiptingu kostnaðar við girðinguna og að viðhald á henni skuli greitt í sömu hlutföllum. Af þessum sökum muni stefnandi senda stefnda reikning á næstu dögum en stefnandi muni sjá um viðhald þar til annað verður ákveðið. Þessum pósti svaraði stefndi þannig að hann teldi málið ekki svona einfalt.

Að þessum samskiptum aðila verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi gert ráð fyrir að samkomulag yrði gert um girðinguna að gengnum úrskurði um skiptingu kostnaðar við hana. Að mati dómsins gat stefnanda, að teknu tilliti til samkomulags aðila frá 27. júlí 2016 og tölvupóstsamskiptum þeirra, ekki dulist að þessi var skilningur stefnanda og mátti honum því vera ljóst að stefndi sætti sig ekki við að greiða kröfu stefnanda eins og hún var fram sett og með þeim hætti sem stefnandi krafðist.

Í 5. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 er mælt svo fyrir að hver aðili skuli hafa rétt til að leggja fram efni, flutning og vinnu í hlutfalli við þátttöku í kostnaði við girðingu. Ákvæðið heimilar þannig þeim sem greiða skal ákveðið hlutfall kostnaðar við að reisa girðingu að greiða sinn hluta með vinnu, efni og flutningi. Líkt og áður er rakið óskaði stefndi eftir því við stefnanda að tekið yrði tillit til vinnu og aksturs sem hann innti af hendi vegna girðingarinnar en ekkert tillit var tekið til óska hans. Þegar upp kemur ágreiningur sem þessi og aðilar ná ekki samkomulagi skal með hann farið eins og segir í 7. gr. nefndra laga og bar því að leggja málið fyrir úrskurðarnefnd líkt og gert var varðandi ágreining aðila um hlutföll kostnaðar við girðinguna. Þrátt fyrir að stefndi hafi samþykkt að stefnandi reisti girðinguna á sinn kostnað gat stefnandi ekki litið svo á að stefnandi afsalaði sér um leið rétti sínum til að leggja sinn hluta kostnaðarins eða hluta hans með vinnu, efni og flutningi. Ekki verður séð að efni hafi verið til fyrir stefnanda að koma þessum sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina á sínum tíma enda henni eingöngu ætlað að ákveða í hvaða hlutföllum aðilar áttu að greiða kostnaðinn við girðinguna. Ef stefnandi taldi sjónarmið stefnda hvað þetta varðar óásættanleg bar honum að fara þá leið sem mælt er fyrir um í 7. gr. girðingarlaga. Reglur stefnanda um viðhald og nýbyggingu girðinga sem birtar eru á heimasíðu hans og vísað var til við munnlegan flutning málsins hafa ekki þýðingu við úrlausn máls þessa en stefnandi getur ekki einhliða sett slíkar reglur og með þeim takmarkað lögbundinn rétt viðsemjenda sinna. Loks verður ekki séð að stefnanda sé heimilt að innheimta kröfu sína án virðisaukaskatts og þannig komið í veg fyrir að stefnandi geti nýtt sér þann hluta skattsins sem honum ber að greiða til innsköttunar. Að öllu þessu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir að teknu tilliti til umfangs málsins og tímaskýrslu lögmanns stefnanda hæfilega ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Sunna Björk Atladóttir lögmaður en af hálfu stefnda Ingibjörg Halldórsdóttir lögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Kristján Þorbjörnsson er sýkn af kröfum stefnanda, Húnavatnshrepps, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 806.000 krónur í málskostnað.

 

 

                                                     Halldór Halldórsson