• Lykilorð:
  • Svipting ökuréttar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 3. janúar 2018 í máli nr. S-15/2017:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Ómari Inga Ómarssyni

(Þ. Skorri Steingrímsson hdl.)

I

Mál þetta sem dómtekið var 27. desember sl. var höfðað af lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra 3. júlí 2017 á hendur Ómari Inga Ómarssyni, kt. 060988-2349, Oddagötu 1, Skagaströnd „fyrir  umferðarlagabrot með því að hafa um hádegisbil föstudaginn 23. júní 2017 ekið bifreið, af gerðinni BMW-M5, sem bar erlendu skráningarmerkin FZ-7272 norður Oddagötu á Skagaströnd, sviptur ökurétti ævilangt.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

II

Ákærði sótti þing þegar málið var þingfest 11. september sl. og óskaði eftir að fá skipaðan verjanda en tók í því þinghaldi ekki afstöðu til sakarefnisins. Dómari varð við ósk ákærða og skipaði Þormóð Skorra Steingrímsson hdl. verjanda hans og frestaði málinu til 24. nóvember sl. Þann dag var ákærði staddur á sjó og var málinu  frestað til 14. nóvember sl. Af því þinghaldi varð ekki þar sem í millitíðinni hafði ákærði verið sóttur af lögreglu og færður fangelsi til afplánunar refsingar. Málið var síðan tekið fyrir 27. desember sl. og játaði ákærði í því þinghaldi skýlaust háttsemi þá sem honum er í ákæru gefin að sök. Með játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, telst sekt ákærða fyllilega sönnuð en háttsemi hans er réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði á ákærði að baki nokkurn sakarferil en hann hefur ítrekað frá árinu 2007 verið sakfelldur fyrir að aka undir áhrifum áfengis og- eða fíkniefna og þá hefur hann ítrekað, alls sjö sinnum, verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá hefur honum í tvígang verið gerð refsing fyrir líkamsárásir.  Ákærði er nú sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga (akstur sviptur ökurétti) og gætir ítrekunaráhrifa þannig að brot hans telst ítrekað í fimmta sinn og þykir refsing hans því, að teknu tilliti til dómvenju, hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.

Sakarkostnaður féll ekki til við rannsókn máls þessa en ákærða hefur notið aðstoðar verjanda og ber að dæma ákærða til að greiða þóknun Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns sem þykir hæfilega ákveðin 74.400 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Ómar Ingi Ómarsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærða greiði 74.400 króna þóknun verjanda síns, Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns.

 

 

                                                                             Halldór Halldórsson