• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Nytjastuldur
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. desember 2016 í máli nr. S-25/2016:

 

Ákæruvaldið

(Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi)

gegn

Ásgeiri Rúnari Magnússyni

(Sunna Björk Atladóttir hdl.)

 

A

Mál þetta, sem þingfest var 25. október sl. og dómtekið 29. nóvember sl., er höfðað af lögreglustjóranum á Blönduósi með tveimur ákærum á hendur Ásgeiri Rúnari Magnússyni, fæddum 19. maí 1970, til heimilis að Hnjúkabyggð 27, Blönduósi,  

I.                   Fyrri ákæra dagsett 15. ágúst 2016:

,,fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa um kl. 16:15 fimmtudaginn 19. maí 2016, undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 2,89‰) og sviptur ökuréttindum ævilangt, ekið bifreiðinni BM-015 suður Húnabraut á Blönduósi og inn á bifreiðastæði við Blönduskóla á Blönduósi þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst framangreint varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr., 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 auk greiðslu alls sakarkostnaðar .”

II.                Seinni ákæra dagsett 7. nóvember 2016:

„fyrir nytjastuld, með því að hafa um kl. 15:30 fimmtudaginn 19. maí 2016 heimildarlaust tekið bifreiðina BM-015 á bifreiðarstæði við Hnjúkabyggð 27 á Blönduósi og ekið henni um götur Blönduóss og inn á bifreiðarstæði við íþróttamiðstöðina á Blönduósi, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. ”

 

B

Ákærði sótti þing þegar málið var þingfest 25. október sl. og neitaði þá sök. Málinu var frestað til aðalmeðferðar 29. nóvember sl. Í þinghaldi þann dag var mál nr. S-33/2016 sem einnig er höfðað á hendur ákærða með ákæru útgefinni 7. nóvember 2016, þingfest og sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Eftir að hafa farið betur yfir gögn málsins með verjanda sínum og þá sérstaklega mynddisk í gögnum málsins breytti ákærði afstöðu sinni gagnvart fyrri ákæru, og játaði þá skýlaust háttsemi þá sem honum er þar gefin að sök. Að sama skapi játaði hann skýlaust háttsemi þá sem honum er gefin að sök í síðari ákærunni. Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og telst sekt hans nægilega sönnuð en brot ákærða eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunum. Sækjandi og verjandi tjáðu sig í stuttu máli um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga. Farið var með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Samkvæmt vottorði Sakaskrár ríkisins á ákærði nokkurn sakarferil að baki. Í apríl 1990 var hann sakfelldur fyrir nytjastuld. Í desember 2007 var ákærða gert að greiða sekt fyrir brot gegn vopnalögum. Hinn 28. maí 2008 var ákærði sakfelldur fyrir líkamsárás og dæmdur í tveggja mánaða fangelsi en refsingin bundin skilorði til tveggja ára. Þessi dómur var hegningarauki við dóminn frá því í desember 2007. Hinn 4. júní 2008 var ákærði sakfelldur fyrir að aka í tvígang undir áhrifum áfengis en brotin voru framin í nóvember 2007. Honum var gert að greiða sekt og sviptur ökurétti í þrjú ár frá 1. júlí 2008. Í október á sama ári var ákærði aftur sakfelldur fyrir ölvun við akstur auk annarra umferðarlagabrota og gert að greiða sekt og þá var hann sviptur ökurétti í eitt ár frá 1. júlí 2011 að telja. Þessi brot voru framin 20. maí 2008. Hinn 12. desember 2008 var ákærði enn sakfelldur fyrir ölvun við akstur, brotið framið í nóvember 2007, og honum gert að greiða sekt auk þess sem hann var sviptur ökurétti í eitt ár frá 1. júlí 2012 að telja. Hinn 23. desember 2008 var ákærði sakfelldur fyrir ölvunarakstur. Þetta brot var framið í apríl 2008. Þá var honum gert að greiða sekt auk þess sem hann var sviptur ökurétti í sex mánuði frá 1. júlí 2011 að telja en tveir síðastgreindu dómarnir voru ekki á sakavottorði sem lá frammi í málinu. Hinn 19. maí 2010 var ákærði sakfelldur fyrir ölvun við akstur og fyrir að aka sviptur ökurétti vegna tveggja ölvunarakstursbrota sem framin voru 22. október 2009. Var honum þá gert að greiða sekt til ríkissjóðs auk þess sem hann var sviptur ökurétti í fimm ár frá 1. júlí 2013 að telja. Í síðastgreinda dóminum er gerð grein fyrir því að hann hafi rofið skilorð dómsins frá 28. maí 2008 en hann látinn standa óhaggaður með heimild í 60. gr. almennra hegningarlaga. Ölvunarakstursbrot hans hafi hins vegar ekki haft ítrekunaráhrif í skilningi 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá gekkst hann tvisvar á árinu 2011 undir greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Loks var ákærði dæmdur fyrir þjófnað, akstur sviptur ökurétti og ölvun við akstur hinn 22. október sl. og gert að sæta fangelsi í 30 daga auk greiðslu sektar til ríkissjóðs.

Ákærði hefur með ölvunarakstursbroti því sem hann er nú sakfelldur fyrir gerst sekur um ítrekaðan ölvunarakstur þriðja sinni. Þá er hann nú í þriðja sinn sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti þannig að ítrekunaráhrifa gætir milli brotanna. Loks er hann sakfelldur fyrir nytjastuld. Að teknu tilliti til dómvenju varðandi refsingu fyrir ölvun við akstur og fyrir sviptingarakstur þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi. Ekki eru efni til að binda refsinguna skilorði. Þá ber að ítreka ævilanga sviptingu ökurétta ákærða.

Með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður á rannsóknarstigi málsins 36.498 krónum og ber ákærða að greiða þann kostnað. Þá ber honum einnig að greiða þóknun verjanda síns, Sunnu Bjargar Atladóttur héraðsdómslögmanns sem þykir hæfilega ákveðin 124.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málið sótti Sigurður Hólmar Kristjánsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Ásgeir Rúnar Magnússon, sæti fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt. 

Ákærði greiði 160.998 krónur í sakarkostnað þar með talin 124.500 króna þóknun Sunnu Bjargar Atladóttur héraðsdómslögmann.

 

                                                                             Halldór Halldórsson.