• Lykilorð:
  • Fölsun
  • Nauðungarsala
  • Veðskuldabréf
  • Hvort nauðungarsala falli niður

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 6. júlí 2016 í máli nr. Z-2/2016:

Valdarás ehf.

(Ingi Tryggvason hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

I

Mál þetta sem barst dóminum 16. febrúar sl. var tekið til úrskurðar 26. maí sl.

Sóknaraðili er Valdarás ehf., Syðra-Valdarási, Húnaþingi vestra.

Varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 9. febrúar sl., þess efnis að halda áfram uppboði á jörðinni Ytri-Valdarás. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að dómkröfum sóknaraðila verði hafnað og ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra frá 9. febrúar sl., um að halda áfram uppboði á jörðinni Ytri-Valdarás verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

II

Atvik máls

Með beiðni dagsettri 27. maí 2015 óskaði varnaraðili eftir því við sýslumanninn á Norðurlandi vestra að jörðin Ytri-Valdarás í Húnaþingi vestra yrði seld nauðungarsölu. Beiðnin var reist á veðskuldabréfi sem gefið var út 30. nóvember 2006 til Sparisjóðs Húnaþings og Stranda og skuldari samkvæmt því var Guðmundur Axelsson fyrrum bóndi í Valdarási en hann mun hafa látist á árinu 2010. Höfuðstóll veðskuldabréfsins er 25.000.000 króna en eftirstöðvar þess samkvæmt beiðni um nauðungarsölu 40.503.502 krónur.

Fjármálaeftirlitið tók þá ákvörðun hinn 22. apríl 2010 á grundvelli VI. ákvæðis til bráðabyrgða í lögum nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, að NBI hf. (nú varnaraðili), tæki í einu lagi frá og með 7. mars 2010 að telja við rekstri, eignum og skuldbindingum SpKef sparisjóðs. Sparisjóður Húnaþings og Stranda hafði áður sameinast öðrum sparisjóðum undir nafni SpKef sparisjóðs.

Undir rekstri uppboðsmálsins kom fram yfirlýsing frá Axel Rúnari Guðmundssyni þess efnis að hann hefði falsað undirskrift Guðmundar Axelssonar á veðskuldabréfið sem beiðnin um nauðungarsölu er reist á. Sóknaraðili aflaði sér álits rithandarsérfræðings á því hvort yfirlýsing Axels Rúnars væri sannleikanum samkvæm. Niðurstaða sérfræðingsins, Haraldar Árnasonar, er sú að afar sterkar vísbendingar séu til þess að þær nafnritanir sem til Guðmundar Axelssonar vísa, séu fríhendisfalsanir og ekki ástæða til að efast um þá yfirlýsingu Axels Rúnars Guðmundssonar að hann hafi falsað umræddar nafnritanir.

Með yfirlýsingu dagsettri 17. maí 2008 flutti Guðmundur Axelsson einkarekstur sinn, ásamt rekstrartengdum eignum og skuldum sem tilheyrðu jörðunum Ytri og Syðri-Valdarási og Valdarásseli yfir í einkahlutafélagið Valdarás, sóknaraðila máls þessa. Eignatilfærslan miðaðist við 1. janúar 2007.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að veðskuldabréf það sem varnaraðili byggir rétt sinn á sé falsað. Telur sóknaraðili að með yfirlýsingu Axels Rúnars Guðmundssonar og niðurstöðu rannsóknar Haraldar Árnasonar rithandarsérfræðings sé fram komin lögfull sönnun um að svo sé. Þetta leiði til þess að varnaraðili geti ekki neytt þeirra réttarúrræða sem bréfið kveður á um sem aftur verði til þess að fella beri ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra úr gildi.

Sóknaraðili heldur því fram að vera kunni að varnaraðili eigi kröfur á hendur honum og/ eða Axel Rúnari þó svo veðskuldabréfið sé falsað. Það sé hins vegar annað mál sem ekki sé til úrlausnar hér. Ágreiningur máls þessa snúist um það hvort varnaraðili geti krafist nauðungarsölu á eigninni á grundvelli veðskuldabréfs sem óumdeilanlega sé falsað.

Hvað lagarök varðar vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð einkamála og varðandi málskostnað úr hendi varnaraðila til 1. mgr. 130. gr. sömu laga sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Varnaraðili byggir á því að það sé ósannað að nafnritun Guðmundar Axelssonar á umrætt veðskuldabréf sé fölsuð. Rannsóknarskýrsla Haraldar Árnasonar sé gagn sem sóknaraðili aflaði einhliða og geti því ekki talist fullnægjandi sönnun í málinu. Varnaraðili bendir á að meint fölsun hafi ekki verið kærð til lögreglu og þá séu þau gögn sem rannsókn Haraldar Árnasonar byggir á ófullnægjandi líkt og fram komi í skýrslu hans. Telur varnaraðili að skýrsla Haraldar Árnasonar sé í heild sinni marklaus og að engu hafandi.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að þó svo undirritun Guðmundar Axelssonar á veðskuldabréfið sé fölsuð þá verði að líta svo á að Guðmundur hafi með eftirfarandi athöfnum sínum samþykkt og staðfest og viðurkennt skuldina og um leið samþykkt veðsetningu jarðanna samkvæmt skuldabréfinu. Guðmundur hafi athugasemdalaust á árinu 2008 staðfest yfirfærslu skuldanna til sóknaraðila en þá hafi verið liðið um eitt og hálft ár frá því að hin meinta fölsun átti sér stað. Hafi undirskriftin verið fölsuð hafi Guðmundi verið það ljóst á þessum tíma en hann hafi með yfirlýsingu um tilfærslu skuldanna staðfest lögmæti skuldabréfsins og gildi þess gagnvart varnaraðila.

Þessu til viðbótar vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili taki skuldina upp í stofnefnahagsreikning sinn og geti hennar í ársreikningum auk þess sem hann hafi greitt af skuldinni og samið um hana við varnaraðila. Því sé ljóst að varnaraðili hafi alla tíð litið á skuldina sem hluta af skuldum sínum þrátt fyrir að formleg skuldskeyting hafi ekki átt sér stað. Í 56. gr. laga nr. 30/2003 um tekjuskatt sé fjallað um yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag. Stofnun slíks félags sé háð ströngum skilyrðum og m.a. þurfi að tilgreina nákvæmlega eignir og skuldir rekstrarins. Sóknaraðili geti því ekki orðið fyrir tjóni né verið grandlaus um nokkurn hlut er varðar skuldabréfið enda hafi það verið Guðmundur Axelsson sjálfur sem stofnaði félagið og lagði því til eignir og skuldir.

Kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila reisir varnaraðili á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skuldabréfið sé falsað sem aftur leiði til þess að varnaraðili geti ekki nýtt sér uppboðsheimild sem er í hinu falsaða skuldabréfi og skipti þá engu hvort sóknaraðili kunni að vera í skuld við varnaraðila.

Í málinu liggur fyrir skýrsla Haraldar Árnasonar skjalarannsakanda en niðurstaða rannsókna hans á ritun á nafni Guðmundar Axelssonar á hið umdeilda veðskuldabréf er sú að afar sterkar vísbendingar séu í þá veru að um fríhendisfölsun sé að ræða og að ekki sé ástæða til að efast um þá yfirlýsingu Axels Rúnars Guðmundssonar að hann hafi falsað undirritunina. Nefndur Axel Rúnar staðfesti fyrir dóminum að hann hefði ritað undir skuldabréfið en ekki faðir hans. Að mati dómsins er fram komin nægjanleg sönnun fyrir því að undirritun á skuldabréfið sé fölsuð en í því sambandi verður ekki framhjá því horft að við munnlegan flutning málsins kvað lögmaður sóknaraðila varnaraðila hafa neitað að afhenda frumrit bréfsins til þess að unnt væri að rannsaka það en þessari fullyrðingu var ekki andmælt af hálfu varnaraðila.

Veðskuldabréfið sem uppboðskrafa varnaraðila er reist á var gefið út 30. nóvember 2006. Bréfið skyldi greiðast á 360 gjalldögum með eins mánaða millibili en fyrsti gjalddagi þess var 15. febrúar 2007. Með yfirlýsingu dagsettri 17. mars 2008 færði Guðmundur Axelsson eigandi jarðanna Ytri-Valdarás, Syðri-Valdarás og Valdarássels einkarekstur sinn, ásamt rekstrartengdum eigum og skuldum yfir í einkahlutafélagið Valdarás, sóknaraðila máls þessa. Miðaðist tilfærslan við 1. janúar 2007.

Fölsun telst vera það sem kallað er sterk mótbára þegar kemur að stofnun viðskiptabréfa og er slík mótbára í flokki með mótbárum reistum á andlegum vanheilindum á háu stigi, fjárræðisskorti, meiriháttar nauðung og umboðsskorti. Með því að dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að nægjanlega sé í ljós leitt að undirritun Guðmundar Axelssonar á títtnefnt skuldabréf sem uppboðsheimild sóknaraðila er reist á sé fölsuð þykir rétt að taka kröfu sóknaraðila til greina og fella ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra þess efnis að halda áfram uppboði á jörðinni Syðri-Valdarási úr gildi. Skiptir þá ekki máli þó vera kunni að sóknaraðili hafi gengist við að skulda varnaraðila þá fjárhæð sem veðskuldabréfið segir til um.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættum ákvæðum 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991. sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra 9. febrúar sl. um að halda áfram uppboði á jörðinni Ytri-Valdarási, Húnaþingi vestra, er felld úr gildi.

Varnaraðili, Landsbankinn hf., greiði sóknaraðila, Valdarási ehf. 300.000 krónur í málskostnað.

 

                                                            Halldór Halldórsson