• Lykilorð:
  • Áfengislagabrot
  • Líkamsárás

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 8. janúar 2019 í máli nr. S-64/2018:

 

Ákæruvaldið

(Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri)

gegn

X

(Þormóður Skorri Steingrímsson lögmaður)

 

I

Mál þetta sem tekið var til dóms 15. desember sl. höfðaði lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra á hendur X, fæddum […], til heimilis að […], […] annars vegar með ákæru útgefinni 13. júní 2018 og hins vegar með ákæru útgefinni 3. desember sl.

Með fyrri ákærunni er ákærða gefin að sök líkamsárás „með því að hafa aðfararnótt laugardagsins […] 2017, framan við skemmtistaðinn […] veist að Z, kt. 000000-0000, og slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að Z hlaut mar á kinnbeini og örlitla skurfu undir hægra auga.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Með síðari ákærunni er ákæri sakaður um brot gegn áfengislögum „með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins […] 2018, ölvaður; valdið óspektum á almannafæri með háreysti og ólátum á bifreiðastæði framan við […].

Telst brot ákærða varða við 21. gr., sbr. 27. gr. áfengislaga nr. 75,1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst sýknu af þeirri háttsemi sem lýst er í fyrri ákærunni en vægustu refsingar sem lög frekast heimila varðandi þá síðari. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talið hæfileg málsvarnarlaun verjanda síns greiðist úr ríkissjóði.

II

Atvik máls

     Varðandi ákæru sem gefin var út 3. desember sl. er um atvik vísað til þess sem þar er ritað en ákærði viðurkenndi í þinghaldi sem fram fór 15. desember sl. skýlaust háttsemi þá sem honum er þar gefin að sök og þá er brot hans réttilega fært til refsiákvæða í ákærunni. Játning ákærða er í samræmi við gögn málsins og þykir sekt hans nægilega sönnuð og verður honum því gerð refsing vegna þessa.

Varðandi ákæruna sem fyrr var út gefin þá kemur fram í skýrslu lögreglu að brotaþoli, Z hafi komið á lögreglustöðina á […] mánudaginn […] og lagt fram kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar. Í lögregluskýrslu er haft eftir brotaþola að ákærði hafi komið til hans og gripið í lærið á honum. Brotaþoli kvaðst þá hafi ýtt ákærða frá sér og beðið hann að fara en hann hafi ítrekað komið til baka og á endanum slegið hann með krepptum hnefa í andlitið. Á sama tíma hafi hann séð lögreglubifreið og ákveðið að greina lögreglunni frá því sem gest hafði og jafnframt hafi hann sagt þeim hvert ákærði gekk eftir þetta. Í skýrslunni er haft eftir brotaþola að A hafi orðið vitni að árásinni og mögulega „Y dyravörður“. Lögregla tók hinn 13. apríl sl. skýrslu af vitninu A og þá var tekin skýrsla af ákærða hinn 16. apríl sl.

Brotaþoli fór á heilbrigðisstofnun […] […] 2017 þar sem hann hitti […] lækni. […] læknir ritaði áverkavottorð sem unnið er upp úr sjúkraskrá og þar er lýst áverkum á brotaþola með sama hætti og í ákæru greinir. Brotaþoli kom á lögreglustöðina á […] hinn 6. júní sl. í þeim tilgangi að draga kæru sína á hendur ákærða til baka.

III

Framburður fyrir dómi

Ákærði kvaðst lítið muna hvar hann var laugardaginn 7. október 2017 og mundi ekki eftir því að lögregla hefði haft afskipti af honum þetta kvöld. Að sögn ákærða mundi hann ekki eftir þessu kvöldi og kannaðist ekki við að hafa veist að brotaþola. Hann kvaðst ekki hafa kannast við brotaþola á þessum tíma en geri það nú og þeir séu vinir.

Vitnið Z, brotaþoli í máli þessu, bar að hann hafi verið fyrir utan skemmtistaðinn […] að reykja vindil þegar hann hitti ákærða. Hann hafi boðið ákærða vindil og þeir spjallað eitthvað saman. Ákærði hafi orðið ósáttur við einhver orð sem brotaþoli lét falla og þá gripið í lærið á honum. Seinna um kvöldið hafi ákærði komið að honum og slegið hann högg í andlitið og í framhaldi af því farið á brott. Brotaþoli kvaðst hafa greint lögreglunni frá því sem gerðist. Á þessum tíma hafi hann ekki þekkt ákærða en líklega hafi einhver vina hans sagt honum hver það var sem sló hann. Brotaþoli kvaðst vera viss um að ákærði væri sá sem sló hann en hann kvað þá hafa náð sáttum síðar og það sé ástæðan fyrir því að hann vildi draga kæru sína til baka. Brotaþoli kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld og þá bar hann að hópur fólks hafi verið fyrir utan skemmtistaðinn þegar árásin átti sér stað. Brotaþoli bar að vitnið A sé góður félagi hans.

Vitnið A kvaðst nú ekki muna vel eftir atvikum. Hann lýsti því að hann hafi staðið fyrir aftan hóp fólks fyrir utan skemmtistaðinn […] þegar félagi hans, Z, var sleginn. Vitnið bar að það hafi verið hávaxinn dökkhærður aðili sem sló Z en hann hafi ekki þekkt þann mann. Eftir höggið hafi Z staulast um með verki í kjálka og kinn. Vitnið kvaðst ekki muna mikið meira eftir atvikum. Að sögn vitnisins þekkti hann ákærða ekki á þessum tíma en eftir þetta atvik hafi hann hitt hann í samkvæmi hjá Z. Þá hafi ekkert vesen verið á milli ákærða og brotaþola sem hafi spjallað saman og skálað í bjór. Vitnið kvaðst hafa verið vel undir áhrifum áfengis þetta kvöld og brotaþoli hafi verið heldur drukknari. Aðspurður hvort það hafi verið ákærði sem sló brotaþola svaraði vitnið því neitandi. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt neinn af þeim sem stóðu fyrir utan skemmtistaðinn.

Vitnið var spurt út í skýrslu sem það gaf hjá lögreglu en í samantekt kemur fram að vitnið hafi sagt að ákærði hafi slegið brotaþola. Vitnið skýrði þetta með þeim hætti að brotaþoli hafi staðið í þeirri meiningu að ákærði hafi slegið hann og frá honum hafi hann fengið nafn ákærða. Á þeim tíma sem lögregluskýrslan var tekin hafi hann og brotaþoli haldið að það hafi verið ákærði sem sló brotaþola. Vitnið kannaðist við að hafa sagt hjá lögreglu að brotaþoli hafi gengið að lögreglubifreið og þá hafi hann sagt að ákærði hafi hlaupið á brott enda hafi hann á þessum tíma haldið að ákærði hafi slegið brotaþola. Vitnið bar að brotaþoli hafi sagt honum, u.þ.b. tveimur mánuðum eftir að hann gaf skýrslu hjá lögreglu, að ákærði hefði ekki slegið hann.

Vitnið B, […] var starfandi sem lögreglumaður þetta kvöld. Hann kvaðst hafa verið við almennt eftirlit ásamt D lögreglumanni. Þeir hafi ekið norður […] og séð þar hóp af fólki fyrir utan skemmtistaðinn […]. Brotaþoli, blóðugur í andliti, hafi komið hlaupandi að þeim og tilkynnt að ákærði hefði slegið hann og farið fram á að hann yrði handtekinn. Brotaþoli hafi greint frá því hvert ákærði fór. Þeir hafi farið á eftir ákærða og ákærði hafi komið til þeirra og sagt „ég gerði það ekki ég gerði það ekki“. Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða að því hvað það var sem hann gerði ekki en ákærði þá ekki gefið neitt út um það og eftir nokkurt spjall hafi lögreglumennirnir farið á brott. Á þessum tíma hafi ekki þótt ástæða til að handtaka ákærða enda verði oft ekkert úr málum sem þessum og þá hafi verið vitað hvaða aðilar áttu í hlut og þeir hafi metið það svo að ekki væri ástæða til að kalla út auka mannskap á fangavakt um nóttina. Að sögn vitnisins var brotaþoli nokkuð ölvaður en ákærði hafi verið áverkalaus, slakur og rólegur og ekki mikið ölvaður. Vitnið kvaðst þekkja ákærða en hann hafi í nokkur skipti haft afskipti af honum sem lögreglumaður. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við aðra sem voru fyrir utan skemmtistaðinn en flestir hafi verið farnir þaðan þegar þeir komu til baka eftir að hafa rætt við ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa komið að rannsókn málsins eftir þetta og gat ekki gefið skýringar á því að einungis var tekin skýrsla af einu vitni.

Vitnið D var á vakt með vitninu B umrætt kvöld og lýsti atvikum í öllum aðalatriðum á sama hátt og vitnið B. Vitnið kvaðst þekkja bæði ákærða og brotaþola í sjón en á þessum tíma hafi ekki þótt ástæða til að handtaka ákærða. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann og vitnið B könnuðu hvort einhver vitni urðu að atvikinu.

Vitnið […] læknir staðfesti að vottorð það sem […] læknir ritaði sé rétt og í samræmi við upplifun hans af komu brotaþola á heilsugæsluna. Vitnið kvað áverka þá sem voru á brotaþola vel passa við að hann hafi verið sleginn hnefahöggi í andlit þá hugsanlega geti annað komið til.

IV

Niðurstaða

Líkt og að framan er rakið var mál þetta höfðað með tveimur ákærum. Ákærði játaði skýlaust háttsemi þá sem honum er gefin að sök í ákæru dagsettri 3. desember sl.

Varðandi fyrri ákæruna þá er framburður ákærða og vitna fyrir dóminum rakinn hér að framan. Ákærði neitar sök en í framburði hans fyrir dóminum, sem er í samræmi við framburð hans hjá lögreglu, kom fram að hann myndi lítið eftir þessu kvöldi. Brotaþoli kvaðst vera viss um að það hafi verið ákærði sem sló hann í andlitið. Vitnið A bar hins vegar fyrir dóminum að það hafi ekki verið ákærði sem sló brotaþola heldur einhver annar. Önnur vitni að atvikum komu ekki fyrir dóminn. Fyrir liggur að lögreglumenn sem voru á vakt komu á vettvang skömmu eftir atvikið en þeir hittu ákærða fyrir skömmu síðar en þeir fóru á eftir árásarmanninum eftir leiðbeiningum brotaþola. Gefur þetta vísbendingu um að ákærði hafi slegið brotaþola. Hins vegar var ekki um óslitna eftirför lögreglu að ræða þannig að þeir sáu ekki ákærða fyrr en þeir voru komnir nokkuð frá vettvangi. Vitnið A nafngreindi ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu sem þann aðila sem sló brotaþola. Fyrir dómi var hann hins vegar viss um að árársarmaðurinn hafi ekki verið ákærði. Skýrði hann framburð sinn hjá lögreglu þannig að brotaþoli hafi sagt honum nafn þess sem sló hann en hann hafi á þeim tíma sem atvikið átti sér stað ekki vitað hver ákærði var. Hjá lögreglu greindi vitnið A frá því að árásarmaðurinn hafi verið stór og ljóshærður, klæddur í gallabuxur og jakka. Ljóst er að ákærði er hvorki hávaxinn né ljóshærður og þá liggur ekkert fyrir í málinu um klæðnað hans þetta kvöld.

Einhverra hluta vegna voru ekki teknar skýrslu af fleiri vitnum að árásinni en af gögnum málsins verður ekki ráðið að leitað hafi verið eftir vitnum að henni en af þessu verður ákæruvaldið að bera hallann. Samkæmt því sem að framan er rakið stendur í raun ekki annað eftir sem bendir til sektar ákærða en framburður brotaþola. Er það því niðurstaða dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun um sekt ákærða og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru dagsettri 13. júní 2018.

Líkt og áður er rakið hefur ákærði verið sakfelldur fyrir brot gegn áfengislögum og þykir refsing hans vegna þess brots hæfilega ákveðin 20.000 króna sekt til ríkissjóðs.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði. Sakarkostnaður féll ekki á málið við rannsókn þess hjá lögreglu og samanstendur hann því að málsvarnarlaunum verjanda ákærða Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 337.280 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og ferðakostnaði lögmannsins að fjárhæð 64.020 krónur.

Gunnar Örn Jónsson lögreglustjóri sótti mál þetta.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

 

Dómsorð:

Ákærði, X, greiði 20.000 króna sekt til ríkissjóðs en sæti fangelsi í tvo daga verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna.

Ákærði er sýkn af ákæru dagsettri 13. júní 2018.

Allur sakarkostnaður, þar með talin 337.280 króna málsvarnarlaun Þormóðs Skorra Steingrímssonar lögmanns og 64.020 króna ferðakostnaður lögmannsins greiðist úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun innifela virðisaukaskatt.

 

                                         Halldór Halldórsson