• Lykilorð:
  • Matsgerð
  • Verksamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 27. desember 2018 í máli nr. E-967/2017:

K1 Verk ehf.

(Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

gegn

Kristjáni Valdimarssyni

(Eggert Páll Ólason lögmaður)

 

Mál þetta, sem var höfðað 2. október 2017, var dómtekið 4. desember 2018. Stefnandi er K1 verk ehf., Klukkubergi 1, Hafnarfirði. Stefndi er Kristján Valdimarsson, Ásaþingi 11, Kópavogi.

             Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.256.421 króna, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. desember 2015 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað.

            Stefndi krafðist þess aðallega að kröfu stefnanda yrði vísað frá dómi. Til vara krafðist stefndi þess að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda. Til þrautavara krafðist stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá gerði stefndi kröfu um málskostnað.

            Með úrskurði dómara 22. febrúar 2018 var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

I.

            Málsatvik eru þau að stefndi og eiginkona hans, Íris Hrund Þorsteinsdóttir, óskuðu eftir því við fyrirsvarsmann stefnanda, Orra Blöndal, sem er smiður, að setja upp milliveggi úr gipsi í raðhúsi við Ásaþing 11 í Kópavogi. Í stefnu málsins er málsatvikum vegna viðskipta aðila ekki lýst nema að því leyti að stefnandi vinni við smíðar og að krafa hans byggist á reikningi, dags. 11. nóvember 2015, að fjárhæð 2.401.081 króna, fyrir efni og vinnu við gipsveggi að Ásaþingi 11, Kópavogi, og að hinn 4. desember 2015 hafi verið greiddar inn á reikninginn 1.144.660 krónur. 

Stefndi kveðst hafa óskað eftir tilboði í verkið og/eða kostnaðaráætlun samkvæmt teikningum frá arkitekt en fyrirsvarsmaður stefnanda hafi ekki viljað gera tilboð eða kostnaðaráætlun. Stefndi hafi talið að vinna fyrir verkið yrði um 1.000.000 króna og tjáð smiðnum þær væntingar sínar. Þeim hafi ekki verið mótmælt. Í ljósi þess að ekki hafi verið um fast verð að ræða hafi stefndi ákveðið að halda tímaskráningu og fylgst ítarlega með hvenær menn komu til vinnu og fóru frá vinnu. Þá segir stefndi að aðilar hafi samið um að stefndi myndi kaupa allt efni til verksins og hann hefði gert það.            

            Stefnandi vann verkið í október 2015 og gaf út reikning 11. nóvember 2015. Stefndi kveðst hafa gert strax athugasemdir við tímaskýrslur stefnanda og talið að vinnustundir sem stefnandi gerði reikning fyrir hafi ekki verið unnar. Þar sem stefndi taldi reikning stefnanda ósanngjarnan fékk hann Böðvar Pál Ásgeirsson, matstækni og húsasmíðameistara, til að meta kostnað við uppsetningu á umræddum veggjum. Var mat hans að kostnaður næmi 1.144.660 krónum og greiddi stefndi þá fjárhæð til stefnanda hinn 4. desember 2015. Stefndi segir að hann hafi jafnframt boðist til að greiða stefnanda 10% ofan á matið, ásamt útlögum kostnaði við kaup á efni gegn framlagningu kvittana, og þannig freista þess að ná sáttum um málið, en sættir hafi ekki tekist. Stefndi lagði málið fyrir kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa og krafðist þess að honum yrði ekki gert að greiða reikning stefnanda að fullu en með áliti nefndarinnar frá 17. júlí 2017 í málinu nr. 11/2016 var kröfum stefnda hafnað. 

II.

            Stefnandi byggir kröfu sína á reikningi, dags. 11. nóvember 2015, að fjárhæð 2.401.081 króna, fyrir efni og vinnu við gipsveggi að Ásaþingi 11, Kópavogi. Hinn 4. desember 2015 hafi verið greiddar 1.144.660 krónur inn á reikninginn og hafi verið tekið tillit til þess við gerð dómkrafna. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og því hafi verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

            Um lagarök er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til 49. gr. sömu laga.

            Krafa um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Málskostnaðarkrafa er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

            Stefndi byggir á því að tímaskýrslur stefnanda séu rangar. Stefndi kveðst hafa haldið sjálfur tímaskýrslur. Maki stefnda hafi verið í fæðingarorlofi og því getað haft eftirlit með framvindu verksins.

            Stefndi kveður að stefnandi hafi lagt fram breyttar tímaskýrslur við þingfestingu málsins. Breytingarnar snúi að því að akstur starfsmanns stefnanda, Arnþórs, sé breyttur og tímaskráning starfsmannsins Kyle sé breytt mjög verulega. Stefndi telur ljóst að tímaskráningar stefnanda séu í besta falli ótrúverðugar og í verulegum atriðum rangar. Því beri að leggja tímaskráningu stefnda til grundvallar við úrlausn málsins.

            Að mati stefnda er augljóst að tímaskýrslur stefnanda séu rangar, en í henni komi m.a. fram að stefnandi hafi komið 21. október og magntekið efnið. Það stemmi einfaldlega ekki því að vinnan hafi hafist 7. október, líkt og reikningar beri með sér. Hið rétta sé að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi komið í byrjun október og mælt fyrir efninu og stefndi keypt efnið 6. október.

            Stefndi bendir jafnframt á að matsgerð sem stefndi hafi aflað, og stefnandi hafi neitað að taka þátt í, styðji málatilbúnað stefnda um að tímaskráning hans sé rétt.

            Fram komi í tímaskráningu stefnda að samtals hafi verið unnir 124 tímar. Miðað við tímagjald stefnanda sé rétt krafa hans því samtals 731.600 krónur auk virðisaukaskatts, eða samtals 907.184 krónur. Stefndi hafi nú þegar greitt 1.144.660 krónur og beri því að sýkna stefnda.

            Verði ekki fallist á að leggja beri tímaskráningu stefnda til grundvallar byggir stefndi á því að sá tímafjöldi sem stefnandi hafi reiknað sér sé ósanngjarn og að verð þjónustunnar sé úr takti við það sem almennt gerist um sams konar þjónustu. Stefndi telur reikning stefnanda vera ósanngjarnan og telur að hann sé búinn að greiða að fullu fyrir vinnu og efni í uppsetta milliveggi og því eigi stefnandi engar kröfur á hendur stefnda.

            Með vísan til 28. gr. laga nr. 40/2000 um þjónustukaup telur stefndi sig hafa greitt sanngjarnt verð með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var.

            Stefndi kveðst strax hafa gert athugasemdir munnlega í síma og fylgt því svo eftir með tölvupósti og boðist jafnframt til að ljúka málinu, umfram skyldu, m.a. með eingreiðslu að fjárhæð 600.000 krónur, sbr. tölvupóst til lögmanns stefnanda 1. september 2017.

            Verði niðurstaða dómsins sú að stefnda beri að greiða reikninginn í heild eða að hluta er þess krafist að dráttarvextir verði reiknaðir frá uppkvaðningu dómsúrskurðar.

            Stefndi telur jafnframt að stefnandi hafi ekki leiðbeint sér né gætt hagsmuna sinna í samræmi við lög nr. 42/2000 og reglur, þar sem of margir undirverktakar, sem stefndi bað aldrei um, hafi komið að verkinu.

            Stefndi hafi tjáð stefnanda væntingar sínar um að verkið myndi ekki kosta meira en 1.000.000 króna. Þessum væntingum hafi aldrei verið mótmælt af hálfu stefnanda. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda, sem neytanda, um að verð þjónustunnar myndi verða verulega hærra en stefndi hafði gert ráð fyrir og óska eftir fyrirmælum frá stefnda. Þar sem stefnandi hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, og ekki óskað eftir fyrirmælum frá stefnda, en stefndi hefði hætt við samninginn, skulu samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna greiðslur fyrir verkið miðast við að neytandi hefði dregið sig út úr samningnum á því stigi. Þar sem stefndi greiddi fjárhæð sem var umfram væntingar hans beri að sýkna stefnda þegar af þeirri ástæðu.

            Þá byggir stefndi á því að það sé ósanngjarnt skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga af stefnanda að bera reikninginn fyrir sig. Stefndi byggir á því að þar sem fjárhæð reiknings stefnanda sé svo úr hófi fram og langt umfram væntingar stefnda, að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera hann fyrir sig. Þá hafi stefndi samið við smiðinn, fyrirsvarsmann stefnanda, og talið sig vera að semja við einstakling sem hefði sérþekkingu á viðkomandi sviði, en ekki fyrirtæki með undirverktaka að mismunandi gæðum. Ef tímaskráningar stefnanda verða lagðar til grundvallar byggir stefndi á því að stefnandi hafi ávallt hagað málum þannig að hallaði á stefnda. Þannig hafi stefnandi ráðið undirverktaka til vinnunnar en hafi sjálfur haft umsjón með þeim og hlaðið kostnaði á verkið, m.a. með því að keyra fram og tilbaka frá verkstað og sinna einföldum innkaupum, sem umsamið hafi verið að átti að vera á verksviði stefnda. Þá vísar stefndi jafnframt til sömu málsástæðna varðandi 36. gr. og fram koma að framan í greinargerðinni, að breyttu breytanda.

            Stefndi mótmælir efniskaupum stefnanda og telur ósannað að lagt hafi verið út í þann efniskostnað sem stefnandi hafi tilgreint. Engar kvittanir hafi verið lagðar fram en samkvæmt tímaskýrslu sé rukkað fyrir akstur til kaupa á efni og því ættu að liggja fyrir kvittanir fyrir meintum efniskaupum. Stefndi mótmælir því alfarið að stefnandi hafi keypt efni og telur að ekki sé um nauðsynleg efniskaup að ræða og ekkert samþykki hafi legið fyrir af hálfu stefnda. Það sé því með öllu ósannað að stefnandi hafi keypt meint efni. Samkomulag hafi verið á milli aðila um að öll efniskaup yrðu á hendi stefnda, sem verkkaupa. Stefndi hafi keypt allt efni til verksins.

            Fram kemur í gögnum málsins að stefndi hafi ávallt verið reiðubúinn að greiða fyrir efni sem hafi sannanlega verið notað við verkið, að því gefnu að stefnandi legði fram kvittanir fyrir efniskaupum og sýndi fram á að það hefði verið notað við vinnu. Það hafi stefndi ekki gert þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda.

            Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnda beri að greiða fyrir efniskaup í heild eða að hluta er þess krafist að dráttarvextir verði reiknaðir frá uppkvaðningu dóms.

            Lækkunarkrafa stefnda er byggð á sömu málsástæðum og fyrir sýknukröfu. Að auki byggir stefndi á því að hann geti aldrei borið ríkari greiðsluskyldu gagnvart stefnanda en samtala tímaskýrslna hljóði upp á, sé miðað við þau gögn sem stefnandi hafi sjálfur lagt fram við þingfestingu málsins, en þar hafi verið um að ræða verulegar lækkanir á tímaskýrslum, sérstaklega tímaskýrslu Kyle Whiteway. Þá geti stefndi að sama skapi ekki verið ábyrgur fyrir greiðslu á efni sem ekki hafi verið sýnt fram á með neinum hætti að stefnandi hafi keypt. Sýni stefnandi fram á kaup á efninu gerir stefndi þá kröfu að hann verði einungis dæmdur til að greiða samkvæmt framlögðum kvittunum sem passi við tímaskýrslur stefnanda.

            Um lagarök vísar stefndi til laga um þjónustukaup nr. 42/2000.

            Krafa um málskostnað er studd við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

            Í þinghaldi 2. maí 2018 var að beiðni stefnda dómkvaddur matsmaður, Sigurður Hafsteinsson, byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari, til að meta hvað væri sanngjarnt verð vegna vinnu við uppsetningu gipsveggja við fasteignina að Ásaþingi 11, Kópavogi, með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var. Í matsbeiðni eru tilteknir þeir veggir sem um ræðir, á efri og neðri hæð.

            Í matsgerð, dags. 16. ágúst 2018, kemur fram að um sé að ræða hefðbundna létta innveggi, 70 mm blikkstoðir c/c600, fylltir með þéttull, svo sé klætt á grind með 12 mm krossvið og 13 mm gipsplötum utan á krossviðinn. Þá segir í matsgerðinni að matsmaður hafi stuðst við Verðbanka Hannarrs í júlí 2015 og upplýsingar sem matsmaður hafi úr öðrum útboðsverkum frá árinu 2015. Matsmaður setji þetta verkefni í flokk minni verka, en samkvæmt verðbanka Hannarrs miðist einingaverð í verðbankanum við stærri verk. Matsmaður telji því sanngjarnt og eðlilegt að vinnuliðurinn við milliveggina sé 8.000 kr./klst. með vsk., þar sem vinnan verði hlutfallslega meiri í minni verkum en þeim sem stærri eru. Samkvæmt Verðbanka Hannars, júlí 2015, væri vinnuliðurinn 6.145 kr./m², með vsk. Þá geri matsmaður ráð fyrir tímagjaldinu 7.300 kr./klst., með vsk.

            Þá kemur fram í matsgerðinni að matsmaður hafi magntekið milliveggina eftir fyrirliggjandi teikningum og eftir að hafa skoðað þá á staðnum, en áætlað vinnu við veggþykkingar og minni vegghluta og telur eðlilegt að þeir hlutar séu metnir hærra vegna þess að það hafi væntanlega eitthvað þurft að útfæra þá á staðnum og tekið sé tillit til þess í sundurliðun kostnaðarmats.

            Matsmaður vísar til bókunar sem lögmaður stefnanda lagði fram á matsfundi um að stefnandi hafi klætt í kringum rafmagnstöflu, en engin klæðning hafi verið sýnileg og þess vegna hafi matsmaður ekki metið kostnað. Þá hafi lögmaður stefnda nefnt veggi milli barnaherbergja á 1. hæð en stefndi hafi lagt fram myndir sem sýni mann á hans vegum að vinna við vegginn. Matsmaður hafi því ekki metið kostnað við vegginn. Einnig hafi af hálfu stefnanda verið bent á að það hafi þurft að merkja sérstaklega fyrir öllum veggjum vegna hitalagna í gólfi áður en gólf var flotað, en matsmaður telur að mælingar og merkingar fyrir veggjum sé hluti af vinnu við veggina. Enginn kostnaður hafi því verið metinn. Að öðru leyti telur matsmaður að þeir liðir sem nefndir eru í matsbeiðni og þeir liðir sem nefndir eru í bókun stefnanda samræmist.

Metinn kostnaður í matsgerð er allur kostnaður verktaka við að fullgera viðkomandi verkliði, með öllum tilheyrandi kostnaði sem þarf til að fullgera verkliðinn, þar með talinn virðisaukaskatt. Verðlag er miðað við júlí 2015.

Kostnaðarmat vinnu við milliveggi:                              Eingöngu vinna

                                                                                         Samtals m/vsk.

  1. Vinna við milliveggi                                                    616.000 kr.

 

  1. Veggur undir stiga á 1. hæð                                        58.400 kr.

Aukaveggir/þykkingar/stokkar á baði 1. hæð             73.000 kr.

Aukaveggir/þykkingar/stokkar á baði 2. hæð             73.000 kr.

Veggur milli stigahlaupa                                             87.600 kr.

Veggendi við eldhús á 2. hæð                                                58.400 kr.

Veggendi í stofu og stokkur við loft, 2. hæð              87.600 kr.

                                               

Samtals           1.054.000 kr.

 

V.

            Eins og rakið hefur verið setti stefnandi upp milliveggi úr gipsi í fasteign stefnda. Ekki var gerður skriflegur samningur um verkið og greinir aðila á um hvort og hvaða verð var samið um. Stefnandi heldur því fram að samið hafi verið um tímakaup en þessu mótmælir stefndi. Stefndi kveður að stefnandi hafi ekki viljað gera tilboð eða kostnaðaráætlun. Stefndi hafi hins vegar gert ráð fyrir að kostnaður við verkið yrði um 1.000.000 króna og tjáð stefnanda þær væntingar sínar. Þessu andmælir stefnandi. Stendur hér orð gegn orði og ber stefnda því að greiða stefnanda það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup.

            Undir rekstri málsins aflaði stefndi matsgerðar dómkvadds matsmanns til að meta hvað væri sanngjarnt verð vegna vinnu við uppsetningu umræddra veggja, með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var. Er niðurstaða matsmanns sú að sanngjarnt verð fyrir vinnu stefnanda sé 1.054.000 krónur. Við aðalmeðferð málsins var því haldið fram af hálfu stefnanda að ekki sé hægt að byggja á matsgerðinni þar sem verkliðum sem stefnandi hafi unnið hafi verið sleppt í matsbeiðni stefnda. Þá hafi í matsgerðinni ekki verið tekið tillit til þess að teikningar hafi ekki legið fyrir þegar stefnandi setti upp veggina. Um hafi verið um að ræða breytingar á verkinu og ekki hafi verið tekið tillit til aðstæðna á verkstað en þar hafi ekki verið salerni eða mataraðstaða. Þá hafi enginn efniskostnaður verið metinn. Jafnframt gerir stefnandi athugasemdir við að miðað sé við verðlag í júlí 2015.

Við aðalmeðferð málsins sagði matsmaður að um afar einfalt verk hafi verið að ræða hjá stefnanda og að matsmanni hafi fundist þetta vera margir tímar á tímaskýrslum stefnanda. Einnig kom fram hjá matsmanni að það sé hægt að vinna eftir þeim teikningum sem liggja fyrir í málinu og jafnvel þótt engar teikningar hefðu legið fyrir þá væri um mjög lítilfjörlegt atriði að ræða sem hefði ekki áhrif á niðurstöðu matsmanns. Þá taldi matsmaður aðstæður á verkstað ekki hafa áhrif á niðurstöðu matsins. Einnig kom fram hjá matsmanninum að lögmaður stefnanda hefði lagt fram bókun á matsfundi með ýmsum athugasemdum sem matsmaður tók afstöðu til, eins og fram kemur í matsgerðinni. Að öllu þessu virtu eru engir þeir annmarkar á fyrirliggjandi matsgerð sem geta leitt til þess að litið verði framhjá henni. Stefnandi hefur ekki leitast við að hnekkja fyrirliggjandi matsgerð með yfirmati, s.s. hvað varðar verkliði sem hann heldur fram að hafi verið unnir en ekki metnir eða önnur atriði í matsgerðinni sem stefnandi gerir athugasemdir við. Verður þannig miðað við að sanngjarnt verð fyrir vinnu stefnanda sé 1.054.000 krónur. Stefnandi hefur lagt fram lista yfir efni sem hann lagði til, samtals 213.225 krónur. Stefndi hefur hafnað því að greiða stefnanda efniskostnað þar sem stefnandi hafi ekki lagt fram kvittanir fyrir efniskaupum. Um ástæðu þess að stefnandi hefur ekki lagt fram kvittanir sagði fyrirsvarsmaður stefnanda, Orri Blöndal, fyrir dómi að um stærri efniskaup hafi verið að ræða en við fasteign stefnanda. Að þessu virtu og í ljósi þess að á efnislista stefnanda er efni, eins og þéttiull, sem ekki er að finna á framlögðum reikningum stefnda vegna efniskaupa, er falllist á að stefnda beri að greiða stefnanda 213.225 krónur fyrir efni.

Samkvæmt öllu framansögðu ber stefnda að greiða stefnanda fyrir umrætt verk samtals 1.267.225 kr. Stefndi hefur þegar greitt stefnanda 1.144.660 krónur og eru þannig ógreiddar 122.565 krónur, sem stefnda ber að greiða stefnanda, en dráttarvextir skulu reiknast frá dómsuppsögu.

Hvað varðar kröfu aðila um málskostnað verður að líta til þess að stefndi hefur í raun fremur unnið málið en stefnandi og að stefndi þurfti að afla matsgerðar, en kostnaður við hana var 319.176 kr. Jafnframt verður að líta til þess að stefndi hafði uppi frávísunarkröfu í málinu sem var hafnað. Með vísan til framangreinds, 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og umfangs málsins, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Kristján Valdimarsson, greiði stefnanda, K1 verk ehf., 122.565 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

Stefnandi greiði stefnda 900.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir