• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Játningarmál
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 27. mars 2018 í máli nr. S-49/2018:

 

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Lukasz Zbigniew Jesionek

(Halldór Heiðar Hallsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara 25. janúar 2018 á hendur ákærða, Lukasz Zbigniew Jesionek, pólskum ríkisborgara, fæddum 12. apríl 1985;

„fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 22. nóvember 2017, staðið að innflutningi á samtals 1.034,16 g af kókaíni, sem hafði að meðaltali 38-39% styrkleika, sem samsvarar 43-44% af kókaínklóríði og 39 töflum af vímuefninu MDMA, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin flutti ákærði til Íslands, sem farþegi með flugi FI-521 frá Frankfurt í Þýskalandi til Keflavíkurflugvallar, kókaínið var falið í líkama hans í 106 pakkningum en vímuefnið MDMA fannst við leit í farangri ákærða.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001.

Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess er krafist að framangreind fíkniefni, 1.034,16 g af kókaíni og 39 töflur af vímuefninu MDMA, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt frá 23. nóvember 2017 verði dregin frá þeirri refsingu sem ákveðin verði að fullri dagatölu. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var málið tekið til dóms 19. mars sl. samkvæmt framansögðu án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga.

Forsendur og niðurstaða:

Ákærði játaði brot sitt samkvæmt ákæru héraðssaksóknara við þingfestingu máls þessa 31. janúar sl. Játning ákærða samrýmist gögnum málsins. Brot hans telst því sannað og er það réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði er í málinu sakfelldur fyrir að hafa flutt hingað til lands talsvert magn af kókaíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærða til málsbóta horfir játning hans. Jafnframt þykir verða að leggja til grundvallar að ákærði hafi einungis komið að flutningi efnanna hingað til lands, hann hafi hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins. Við ákvörðun refsingar verður og að taka mið af styrkleika efnanna, en styrkleiki þess kókaíns sem ákærði flutti til landsins var vægur, eða nærri þekktum neyslustyrk efnisins hér á landi. Þá horfir ákærða til sérstakra málsbóta hversu samvinnuþýður hann hefur verið undir rannsókn málsins. Samkvæmt öllu þessu og að atvikum máls að öðru leyti virtum þykir refsing ákærða réttilega ákveðin 12 mánaða fangelsi. Í ljósi dómaframkvæmdar og magns efnanna þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 23. nóvember sl. að fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísan til kröfugerðar ákæruvalds, gagna málsins og tilgreindra lagaákvæða í ákæru verða gerð upptæk þau 1.034,16 grömm af kókaíni og 39 töflur af vímuefninu MDMA sem ákærði var með í vörslum sínum við komuna til landsins 22. nóvember 2017.

Á grundvelli sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða sakakostnað samkvæmt framlögðu sakarkostnaðaryfirliti héraðssaksóknara, samtals 1.034.900 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Halldórs Heiðars Hallssonar lögmanns, sem eftir umfangi málsins þykir hæfilega ákveðin að virðisaukaskatti meðtöldum, vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og eftir höfðun málsins hér fyrir dómi, svo sem í dómsorði greinir. Ákærði greiði enn fremur útlagðan ferðakostnað verjanda, samtals 85.140 krónur. Útlagður kostnaður verjanda vegna þýðingar á framlögðum dómskjölum, samtals 50.000 krónur, greiðist hins vegar úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Lukasz Zbigniew Jesionek, sæti fangelsi 12 mánuði. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 23. nóvember 2017 að fullri dagatölu.

Ákærði sæti upptöku á 1.034,16 grömmum af kókaíni og 39 töflum af fíkniefninu MDMA.

Ákærði greiði samtals 1.815.680 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Halldórs Heiðars Hallssonar lögmanns, 695.640 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og útlagðan ferðakostnað verjanda, 85.140 krónur.

 

Kristinn Halldórsson