• Lykilorð:
  • Samningur
  • Skuldamál

Ár 2019, þriðjudaginn 19. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. E-839/2018:

 

Arkís arkitektar ehf.

(Jóhann J. Hafstein lögmaður)

gegn

Nónhæð ehf.

(Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var 19. september 2018 og dómtekið 12. febrúar sl., var höfðað með stefnu, birtri 12. september 2018. 

            Stefnandi er Arkís arkitektar ehf., kt. 000000-0000, Kleppsvegi 152, Reykjavík.

 Stefndi er Nónhæð ehf., kt. 000000-0000, Hásölum 3, Kópavogi.

            Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 1.861.378 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af stefnufjárhæð frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfu stefnanda.

            Aðalmeðferð fór fram þann 12. febrúar sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik.

Samkvæmt framburði aðila eiga þeir áralanga viðskiptasögu að baki. Í stefnu segir að skuld þessi sé tilkomin vegna viðskipta hins stefnda félags við stefnanda vegna verks númer 18-002 að Nónhæð 30-40, lóð A samkvæmt framlögðum reikningi og tímaskýrslu.

            Í gögnum málsins liggur fyrir hönnunarsamningur um deiliskipulag vegna 13-003 Nónhæðar. Verkkaupi er stefndi og ráðgjafi stefnandi. Var samningurinn undirritaður 16. mars 2017 af fyrirsvarsmönnum aðila máls þessa. Í 1. mgr. 11. gr. samningsins segir: „Ráðgjafi og verkkaupi stefna, eins og um hefur verið rætt áður, á að gera samning um hönnun húsanna, samkvæmt verðandi deiliskipulagi. Sú hönnun verður hefðbundin arkitektahönnun, samræming og hönnunarstjórn eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Verkkaupi stefnir á að selja eina lóð þegar aðal- og deiliskipulag liggur fyrir.“

            Í tölvupósti frá stefnda til stefnanda þann 2. janúar 2018, með yfirskriftina „Nónhæð“, fylgdi skjal dagsett 29. desember 2017 með yfirskriftinni „Nónhæð atriði sem þarf að skoða við hönnun húsa.“  Í því skjali er m.a. tekið fram að hús sé einangrað og klætt að utan með áli og flísum, bjartar íbúðir opnar í tvær áttir, stigahús er skýrt út, veggir milli íbúða, svalir, svalalokanir og margt fleira sem snýr að hönnun og byggingu fjölbýlishúss. Þessum tölvupósti svaraði stefnandi þann 3. janúar og kvað þetta vera fína punkta inn í hönnunina. Þann 4. janúar svaraði Egill Guðmundsson tölvupósti stefnda og kvað þá Þorvarð hittast daginn eftir og fara yfir mönnun verksins. Þeir gætu svo hist strax eftir helgina til að gangsetja verkið formlega. Sama dag svaraði stefndi og lagði til mánudaginn kl. 14.00. Egill svaraði þessum pósti og lagði til þriðjudaginn kl. 13.00 vegna aðstæðna hjá sér. Því svaraði stefndi samdægurs og samþykkti. Þann 9. janúar sendi stefndi tölvupóst til stefnanda með efnisyfirlitinu „Verkáætlun götur og hönnun.“ Þeim tölvupósti fylgdi excel-skjal frá stefnda þar sem ýmsir verkþættir voru merktir inn á en átti eftir að færa dagsetningar og tímaáætlun inn í skjalið. Með tölvupósti frá stefnda til stefnanda þann 30. janúar 2018 með yfirskriftinni „Nónhæð íbúðir“ spyr stefndi hvernig gangi. Þann sama dag svaraði stefnandi stefnda með tölvupósti og kvað ganga mjög vel. Rebekka sé að verða klár með grunnmyndir til að sýna stefnda og yfirfara. Þau hafi tekið smá rýnifund daginn áður yfir grunnmyndunum. Kvaðst stefnandi hafa bætt Rebekku við póstinn, hún ætli að boða stefnda á fund í vikunni. Síðar sama dag sendi Rebekka stefnda tölvupóst og spurði hvort hann yrði laus daginn eftir kl. 13.00 til að koma á smá fund með þeim. Því svaraði stefndi með því að það hentaði honum betur kl. 13:30. Með tölvupósti síðar þann sama dag var ákveðið að hittast á fundi kl. 13.30 daginn eftir hjá stefnanda. Með tölvupósti þann 31. janúar 2018 sendi stefnandi stefnda verkbeiðni þar sem tilteknir voru allir þeir verkþættir sem stefndi hafði sent stefnanda með tölvupósti þann 2. janúar 2018 varðandi hönnun og byggingarþætti íbúðanna. Er verkkaupi stefndi. Er hakað í verkbeiðnina að um tillögu sé að ræða. Segir í tölvupóstinum: „Hjálagt sendist afrit af verkbeiðni Arkís arkitekta. Ef þú hefur einhverjar spurningar eða athugasemdir við verkbeiðnina þá vinsamlegast hafið samband við aðalhönnuð verksins. Berist athugasemd við beiðnina ekki innan 7 daga, telst beiðnin sjálfkrafa samþykkt og verður reikningsfært skv. henni.“ Þá kemur fram að um tímavinnu sé að ræða og áætlaðar 200 klukkustundir í verkið. Að auki kemur fram: „Gert er ráð fyrir tímavinnu í fyrsta fasa, sem fellur síðan inn í heildarsamning verksins. Tímaáætlun miðast við þær forsendur sem fyrirliggjandi eru við gerð verkbeiðnar. Breytist forsendur meðan á verki stendur, áskilur Arkís sér rétt til breytinga á beiðninni að fengnu samþykki verkkaupa.“ Daginn eftir, eða þann 1. febrúar, kl. 13:49 svaraði stefndi stefnanda og sagði: „Ég sendi greiðslu til þín í gær gleymdi að senda afrit.“ Aftur kl. 13:53 sama dag sendi stefndi tölvupóst á stefnanda og segir: „Það er betra að senda gögn í gegnum WE transwer Sibba kann á það. Á ég von á gögnum frá ykkur.“ Stuttu seinna svaraði stefnandi stefnda og kvaðst vera að snúa alrýmunum svo að þau fái öll sem best útsýni og kvaðst senda grunnmyndir á stefnda. „Svipað og ég talaði um í gær. Reyni að ná því seinnipart á morgun.“ Þann 2. febrúar s.á. sendi stefnandi tölvupóst til stefnda þar sem segir: „Sæll aftur Kristján, sendum á þig gróf drög af grunnmyndunum eftir helgi. Svo er spurning hvort við hittumst ekki bara aftur í næstu viku a miðvikudag sem dæmi.“ Þessum tölvupósti svaraði stefndi með þeim orðum að þau myndu sjást á miðvikudag. Þann 6. febrúar 2018 sendi stefndi tölvupóst til stefnanda og spurði hvenær hann mætti búast við að sjá tillögur. Sama dag svaraði stefnandi tölvupósti stefnda og sendi með í viðhengi grunnmynd í vinnslu svo að stefndi gæti byrjað að skoða. Síðan spyr stefnandi hvernig hljómi með fund daginn eftir kl. 13:30. Þann 9. febrúar 2018 sendi stefnandi tölvupóst til stefnda ásamt fylgiskjölum. Í tölvupóstinum segir stefnandi að hér komi ný tillaga að íbúðarskiptingu og svo grunnmyndir í vinnslu á tillögustigi. Íbúðir 7 g 8 séu sérstaklega í vinnslu eins og er. Þá segir að stefndi sjái í skjalinu bæði brúttótölur og svo nettó fermetra. Með skjalinu fylgdu teikningar af grunnfleti kjallara, 1., 2., 3. og 4. hæðar að Nónhæð 36-40. Með tölvupósti þann 11. febrúar 2018, sem stefndi sendi stefnanda með efnisyfirlitinu „Nónhæð nýjar breytingar“, segir stefndi að hann telji rétt að fara yfir þessar breytingar sem fyrst. Kemur fram á fylgiskjali með þessum tölvupósti að þar þurfi að gera þær breytingar að íbúð 1 verði 5 herbergja og þá þurfi að minnka aðrar íbúðir, þetta séu bara þrjár íbúðir og útsýni mjög gott. Stækka þurfi íbúð 9 og gera meira úr henni, laga hjónaherbergi og svalir. Þetta sé flott útsýnisíbúð. Skoða þurfi íbúð 10, anddyri og eldhús. Íbúðir 7 og 8 séu enn í vinnslu. Skoða þurfi stærðir á hjónaherbergjum og skoða fataherbergi í stærri íbúðum. Hvort nóg sé af fataskápum í hjónaherbergjum. Baðherbergi og þvottaherbergi þurfi að taka til sérskoðunar eins og að hafa þau sambyggð, hafa góða aðstöðu fyrir snyrtidót og góða spegla og góða lýsingu. Hugsa vel um þarfir kvenna, hvað það sé sem þær vilji. Sturta og baðkar verði í stóru íbúðunum. Fara yfir eldhús. Hugsanlegt að mjókka hluta stigaganga og þurfi ekki að loka þeim öllum eins. Daginn eftir sendi stefnandi stefnda tölvupóst og spurði stefnda hvort hann yrði laus kl. rúmlega 15.00 þann sama dag. Þann 15. febrúar 2018 sendi stefndi stefnanda tölvupóst og kvaðst vilja stöðva alla vinnu við arkitektateikningar á Nónhæð. Stefndi þurfi að skoða sín mál. Í mars 2018 reyndi stefnandi að ná fundi stefnda til að fara yfir málin en það virðist ekki hafa gengið eftir. Þann 23. mars 2018 sendi stefndi stefnanda tölvupóst og kvaðst hafa fengið tvo arkitekta til að koma með tillögur að íbúðum á Nónhæð. Eftir að hafa skoðað tillögur og metið gæði þeirra hafi verið ákveðið að velja tillögu frá Basalt. Þeir þurfi því að gera upp þessi mál og stefnandi að afhenda hönnunargögn. Þessu svaraði stefnandi og kvað að um samningsbrot af hálfu stefnda væri að ræða. Í tölvusamskiptum milli aðila á tímabilinu mars og fram til maí 2018 kemur fram að aðilar hafa reynt að ná samkomulagi um ógreidda vinnu en ekki tekist. Með bréfi þann 18. janúar 2018 tilkynnti Skipulagsstofnun Kópavogsbæjar að stofnunin hefði samþykkt deiliskipulagsbreytingu sem gerð var í bæjarstjórn Kópavogs þann 12. desember 2017. Með þeirri breytingu var fyrra aðalskipulagi, sem fól í sér samfélagsþjónustu og opin svæði, breytt í íbúðarbyggð.

            Með tölvupósti frá skipulagsstjóra Kópavogsbæjar til stefnanda og stefnda þann 29. janúar 2018 og ber yfirskriftina „Nónhæð deiliskipulag. Ábendingar Skiplagstofnunar“  segir: „Ok. Er ekki rétt að við hittumst til að fara yfir þetta þegar hún er komin. Hvenær er það? Stefnt er að staðfestingu aðalskipulagsins í þessari viku skv. Skipulagstofnun. Um að gera að klára deiliskipulagið sem fyrst.“ Þann sama dag svaraði stefndi með tölvupósti og kvaðst vera upptekinn daginn eftir kl. 10.00 en væri annars góður. Þann 31. janúar 2018 sendi starfsmaður stefnanda tölvupóst til stefnanda og stefnda þar sem kom fram að uppdráttur að deiliskipulagi verði sóttur af stefnda þann sama dag.

            Í gögnum sem stefndi lagði fram er tímayfirlit yfir verk, dagsett 17. maí 2018, þar sem kemur fram við hvað er unnið frá 26. janúar 2018 til 15. febrúar 2018. Samtals eru það 115,2 klukkustundir. Þá liggur fyrir innheimtuviðvörun dagsett 9. apríl 2018 og afrit innheimtubréfs dagsett 21. júní 2018.

Skýrslur fyrir dómi.

Þorvarður Björgvinsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, Kristján Snorrason, fyrirsvarsmaður stefnda, og vitnin Egill Már Guðmundsson og Hrólfur Karl Cela gáfu skýrslu fyrir dóminum. Verður vitnað til framburðar þeirra eftir því sem þörf þykir.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndi skuldi honum og eigi ógreiddan reikning útgefinn 28. febrúar 2018. Stefndi hafi ekki greitt reikningana þrátt fyrir innheimtuviðvaranir. Stefnandi og stefndi hafi átt í viðskiptasambandi í langan tíma. Þeir hafi gert með sér samning þann 16. mars 2017 vegna deiliskipulags um Nónhæð en í þeim samningi hafi verið sett ákvæði um að gera samning um hönnun þeirra húsa sem byggja átti samkvæmt samþykktu deiliskipulagi á Nónhæð. Komi þar fram að samningur verði gerður um hönnun húsanna samkvæmt verðandi deiliskipulagi. Sú hönnun verði hefðbundin arkitektahönnun, samræming og hönnunarstjórn eins og lög og reglur geri ráð fyrir. Þann 2. janúar 2018 hafi stefndi sent stefnanda tölvupóst með ítarlegum upplýsingum um þá þætti sem taka þyrfti tillit til við hönnun íbúðanna. Stefndi hafi sent stefnanda verkáætlun og samskipti stefnanda og stefnda í kjölfar þess hafi öll verið á þá leið að stefnandi ynni að hönnun hússins. Fyrirsvarsmaður stefnda og eigandi hafi setið fundi með stefnanda og gert breytingar á hönnun og fyrirkomulagi eftir að tillögur stefnanda lágu fyrir og höfðu verið afhentar stefnda. Það hafi komið stefnanda á óvart að hafa fengið upplýsingar um að önnur arkitektastofa hafi verið að vinna á sama tíma að tillögum um hönnun húsa á Nónhæð. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um hönnunarvinnu stefnanda þá hafi þeir verið í þeirri trú að samningur væri kominn á milli aðila í ljósi samskipta þeirra frá 2. janúar 2018 og til 15. febrúar 2018 og samningsins frá 16. mars 2017.    

Byggir stefnandi á meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, sbr. 45. og 50. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er vísað til 49. gr. sömu laga og krafan um dráttarvexti er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Þá er byggt á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 vegna málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ekkert samningssamband hafi verið á milli aðila eftir að Kópavogsbær staðfesti breytt aðalskipulag þann 17. desember 2017. Því sé 1. mgr. 11. gr. samnings aðila um deiliskipulag frá 16. mars 2017 ekki skuldbindandi fyrir stefnda. Þá komi fram á verkbeiðni sem stefnandi sendi stefnda með tölvupósti að ekki sé í gildi samningur um verkið. Því geti verkbeiðni sem stafi frá stefnanda ekki verið skuldbindandi fyrir stefnda. Stefnandi geti ekki áskilið að verkbeiðnin taki gildi sjálfkrafa, samþykki stefndi hana ekki innan sjö daga. Þá hafi stefnanda aldrei verið boðið að taka þátt í áframhaldandi vinnu sem stefnandi hafi mátt vænta greiðslu fyrir. Stefndi hafi einnig leitað til annarrar arkitektastofu og hafi verið í góðri trú um að hann væri ekki skuldbundinn stefnanda. Þá kvað stefndi vinnuskýrslu stefnanda hafa verið unna eftir á og fyrst komið fram undir rekstri þessa máls. Þá kveður stefndi að stefnandi beri hallann af því að hafa ekki lagt fram undir rekstri málsins frumdrög grunnmynda, forteikningar, tillögur og skissur eins og skorað var á í greinargerð stefnda. Stefndi byggir á því að sú vinna, sem stefnandi kveðst hafa innt af hendi, hafi í raun ekki verið unnin og reikningur stefnanda og tímaskýrsla því efnislega röng. Þá hafi stefnandi ekki sett í stefnu varakröfu um lægri fjárhæð eða byggi á því að hann eigi rétt á hæfilegri greiðslu fyrir þau störf sem hann sannanlega hafi innt af hendi.

            Stefndi byggir kröfur sínar á meginreglum kröfu- og samningaréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, þar með talin lög um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Stefndi vísar til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna málskostnaðar og laga nr. 50/1988 vegna virðisaukaskatts.

 

Forsendur og niðurstaða.

Mál þetta snýst um reikning sem stefnandi gaf út 28. febrúar 2018 að fjárhæð 1.861.378 krónur. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ekkert samningssamband hafi verið á milli aðila og stefnandi geti ekki byggt kröfu sína á þeim reikningi þar sem það sé meginregla í íslenskum samningarétti að samningsfrelsi ríki. Samningur byggist á gagnkvæmum eða nátengdum viljayfirlýsingum milli tveggja eða fleiri aðila og verði að minnsta kosti önnur þeirra yfirlýsinga að vera í formi loforðs og venjulega sé hin yfirlýsingin einnig loforð um endurgjald fyrir þær hagsbætur sem felist í loforði gagnaðila. Þá byggir stefndi á því að samningur aðila frá 16. mars 2017 hafi fallið úr gildi þegar Kópavogsbær samþykkti nýtt og breytt deiliskipulag 17. nóvember 2017 og hafi stefndi því ekki verið bundinn af samningi aðila eftir þá breytingu.

            Eins og rakið er ítarlega í kaflanum um málsatvik og kom fram hjá aðilum fyrir dóminum áttu stefnandi og stefndi í miklum samskiptum frá ársbyrjun 2018 til 15. febrúar sama ár. Fyrir þann tíma höfðu þeir átt í áralöngu viðskiptasambandi.

            Í samningi sem aðilar gerðu sín í milli um vinnu stefnanda fyrir stefnda um gerð deiliskipulags vegna Nónhæðar kom fram undir sértöku ákvæði, 1. mgr. 11. gr., að gerður yrði samningur um hönnun húsanna o.fl. sem ætti að byggja þegar aðal- og deiliskipulag lægi fyrir. Breytt aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 17. nóvember 2017 og Skipulagstofnun 17. desember sama ár. Í beinu framhaldi af því, eða þann 2. janúar 2018, sendi stefndi stefnanda tölvupóst ásamt fylgiskjali þar sem stefndi tilgreindi fjölmörg atriði sem þyrfti að skoða við hönnun húsa. Í verkbeiðni, sem stefnandi sendi stefnda þann 31. janúar sama ár, voru þau atriði sem stefndi hafði tilgreint í skjali sínu til stefnanda orðrétt tekin upp. Þeim tölvupósti svaraði stefndi og gerði engar athugasemdir við það skilyrði stefnanda að litið yrði svo á að verkbeiðnin væri samþykkt, bærist ekki athugasemd við hana innan sjö daga. Allt fram að þeim tíma áttu aðilar í miklum samskiptum, bæði með tölvupósti og á fundum. Þrátt fyrir að stefndi fullyrði fyrir dóminum að hann hafi upplýst stefnanda um að hann hafi fengið aðra arkitektastofu til að vinna að tillögu um húsið, fær það enga stoð í gögnum málsins. Þá kannaðist vitnið Egill ekki við að hafa fengið upplýsingar á þessum tíma um að önnur arkitektastofa væri einnig að vinna að tillögum að fjölbýlishúsi á Nónhæð. Þvert á þessar fullyrðingar stefnda sótti hann fundi og spurðist fyrir um hjá stefnanda hvernig verkinu yndi fram. Þá fær sú fullyrðing stefnda um að tímaskýrsla stefnanda hafi verið unnin síðar heldur enga stoð í gögnum málsins. Stefnandi lagði fram með málsskjölum þær teikningar sem reikningur hans byggist á. Þrátt fyrir áskorun stefnda í greinargerð um framlagningu á frumdrögum grunnmynda, forteikningum, tillögum og skissum, sem stefnandi varð ekki við, hefur það engin áhrif á sönnunarstöðu stefnanda en stefnandi kvað hluta af þeim gögnum, svo sem forteikningar og skissur, vera slík gögn að þeim sé hent þegar verkið kemst á frekara vinnslustig. Þá er ekki tekið undir þá fullyrðingu stefnda að ákvæði 1. mgr. 11. gr. samnings aðila um deiliskipulag frá 16. mars 2017 hafi ekkert gildi en öll samskipti aðila eftir áramótin 2017/2018 bera þess merki að þeir hafi litið svo á að áframhaldandi vinna stefnanda byggi á því ákvæði.

            Eins og rakið hefur verið telur dómurinn sannað að með samskiptum aðila, eins og lýst er að framan, hafi stefnandi verið í góðri trú um að samningur hafi verið kominn á á milli aðila um að stefnandi hannaði og gerði tillögur að fjölbýlishúsi við Nónhæð í Kópavogi sem stefnda bæri að greiða fyrir.

Þá hefur stefndi ekki reynt að sýna fram á það undir rekstri málsins að reikningur stefnanda og gjald fyrir þá vinnu sem hann krefur stefnda um sé ósanngjarnt eða of hátt. Verða að öllu ofansögðu virtu dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og segir í dómsorði. Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilegur 700.000 krónur.

 

                         Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð.

Stefndi, Nónhæð ehf., greiði stefnanda, Arkís arkitektum ehf., 1.861.378 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2018 til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.

             

Ástríður Grímsdóttir.