• Lykilorð:
  • Skuldskeyting
  • Riftun og skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2018 í máli nr. E-170/2018:

Þb. Búálfurinn sportbar ehf.

(Ragnar Guðmundsson lögmaður)

gegn

Regin atvinnuhúsnæði ehf.

(Pétur Már Jónsson lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað 31. janúar 2018 og dómtekið 23. september 2018. Stefnandi er þrotabú Búálfsins sportbars ehf., Lóuhólum 2-4, Reykjavík. Stefndi er Reginn atvinnuhúsnæði ehf., Hagasmára 1, Kópavogi.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi ráðstöfun sem fólst í greiðslu á skuld stefnanda við stefnda, sem fór fram með yfirtöku Álfsins sportbars ehf., kt. 000000-0000, sem skuldara samkvæmt skuldabréfi gagnvart stefnda, með undirritun skilmálabreytingar og skuldskeytingar þann 6. apríl 2017, sem stefnandi var áður skuldari að, upphaflega útgefnu þann 2. febrúar 2017, með höfuðstólsfjárhæð 5.300.000 kr. Hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 5.300.000 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þingfestingardegi stefnu málsins til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað.

I.

Málsatvik eru þau að Búálfurinn sportbar ehf. rak veitingaþjónustu að Lóuhólum í Breiðholti en var úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2017. Ragnar Guðmundsson lögmaður var  skipaður skiptastjóri búsins. Við skiptastjórnina kom í ljós að rekstri Búálfsins sportbars ehf. hafði verið hætt 17. mars 2017 og á sama tíma tók nýtt félag, Álfurinn sportbar ehf., kt. 000000-0000, við rekstrinum. Fyrirsvarsmenn beggja félaga voru hinir sömu. Framkvæmdastjóri var Skúli Svanur Júlíusson.

Við skýrslutöku skiptastjóra af Skúla Svani Júlíussyni hinn 23. maí 2017 greindi hann frá því að rekstur Búálfsins sportbars ehf. hefði verið seldur Álfinum sportbar ehf. 17. mars 2017. Ekki hefði verið gerður skriflegur samningur um söluna og að kaupverðið hefði í raun falist í uppgjöri. Álfurinn sportbar ehf. hefði yfirtekið skuldbindingar við tiltekna kröfuhafa, einkum starfsmenn. Auk þess hafi Álfurinn sportbar ehf. yfirtekið innbú sem hafi verið metið að heildarverðmæti 500.000 kr.

Á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu, sem haldinn var 1. ágúst 2017, var skiptastjóra falið að fá nánari skýringar á framangreindum viðskiptum eða kanna grundvöll riftunar á sölunni. Í framhaldinu óskaði skiptastjóri eftir nánari skýringum frá Skúla Svani Júlíussyni á því hvernig yfirfærslu rekstrarins hefði verið háttað. Með tölvupósti frá Skúla Svani til skiptastjóra 2. nóvember 2017 barst yfirlit sem tilgreindi greiðslur og millifærslur sem átt hefðu sér stað milli Búálfsins sportbars ehf. og Álfsins sportbars ehf. vegna yfirtöku síðarnefnda félagsins á rekstri þess fyrrnefnda.

Skiptastjóri kveður að við könnun á gögnum frá fyrirsvarsmanni félaganna beggja hafi komið í ljós að heildargreiðslur frá Álfinum sportbar ehf. vegna kaupa á rekstri Búálfsins sportbars ehf. hafi numið 18.324.869 kr. Verulegur hluti þessara greiðslna hafi hins vegar verið greiddur beint til kröfuhafa Búálfsins sportbars ehf., þ.m.t. stefnda, með mismunandi hætti á tímabilinu frá síðari hluta mars 2017 og fram í apríl sama ár. Hvað varðar stefnda í máli þessu þá hafi stefndi átt að fá a.m.k. 5.300.000 kr. kröfu á hendur Búálfinum sportbar ehf. við sölu rekstrarins í mars 2017, samkvæmt skuldabréfi útgefnu af Búálfinum sportbar ehf. 2. febrúar 2017. Með skilamálabreytingu, dags. 6. apríl 2017, yfirtók Álfurinn sportbar ehf. greiðsluskyldu sem skuldari að skuldabréfinu gagnvart stefnda. Stefnandi segir að með þessari aðgerð hafi krafa stefnda á hendur stefnanda þannig verið greidd að fullu með yfirtöku Álfsins sportbars ehf. á greiðsluskyldunni. Greiðslan, sem hafi farið fram með skilmálabreytingu skuldabréfsins, hafi átt sér stað eftir frestdag en frestdagur við skipti búsins hafi verið 14. febrúar 2017, þegar beiðni barst frá Tollstjóra til héraðsdóms um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Um aðdraganda málsins segir stefndi að hann eigi að baki viðskiptasögu við stefnanda sem nái a.m.k. aftur til ársins 2013, en stefnandi hafi haft húsnæði á vegum stefnda til leigu. Stefnandi hafi verið með leigusamning, dags. 20. mars 2014, um Lóuhóla 2-4. Það hafi gengið misvel hjá stefnanda að standa í skilum með greiðslu húsaleigu og um mitt ár 2015 hafi skuldir stefnanda verið orðnar illviðráðanlegar. Stefnandi og stefndi hafi þá komist að samkomulagi um að vanskil yrðu greidd með útgáfu skuldabréfa. Tilgangur þessa hafi verið að aðstoða stefnanda við að standa í skilum með húsaleigu og létta greiðslubyrði hans til hagsbóta fyrir hann og aðra kröfuhafa. Fyrirætlanir hafi gengið eftir til skemmri tíma en aftur orðið vanskil stefnanda um mitt árið 2016. Skuldir stefnanda hafi verið sendar til innheimtu, bæði umrætt skuldabréf og vanskil á húsaleigu, og leigusamningi rift. Meðan á innheimtuaðgerðum stóð hafi stefnandi komið að máli við stefnda til að koma rekstri sínum í arðvænlegt horf og samið hafi verið um að stefnandi skyldi aftur gefa út skuldabréf fyrir áföllnum skuldum og þannig létta umtalsvert á skammtímaskuldum svo að þær yrðu viðráðanlegri. Í því fælist að þegar útgefin skuld yrði felld í eitt og sama skuldabréfið, svo og leiguskuld, en jafnframt að Skúli Svanur Júlíusson tækist á hendur sjálfskuldarábyrgð á efndum skuldabréfsins. Tilgangur þessa hafi þannig verið að aðstoða stefnanda með bága fjárhagsstöðu sína í þeirri viðleitni að hann gæti efnt skuldbindingar sínar og lækka við hann vaxtakostnað af vanskilum. Ekki svo löngu síðar hafi stefnandi vikið frá fyrri fyrirætlunum sínum og óskað eftir því að nýr aðili fengi húsnæðið að Lóuhólum á leigu. Sá aðili hafi verið Álfurinn Sportbar ehf. Þetta hafi stefndi samþykkt gegn því að skuldabréfið yrði yfirtekið og að gerður yrði nýr leigusamningur við Álfinn sportbar ehf., enda endurgreiðsla þess nú tryggð með sjálfskuldarábyrgð Skúla. Forsenda þess að nýr leigusamningur væri gerður hafi eðli málsins samkvæmt verið að skuldamálum fráfarandi leigutaka yrði komið í ásættanlegt horf. Svo hafi farið að undirrituð hafi verið skuldskeyting og skilmálabreyting 6. apríl 2017, sama dag og nýr leigusamningur hafi verið undirritaður við Álfinn sportbar ehf. Stefndi kveður að honum hafi verið kunnugt að stefnandi ætti í fjárhagsvandræðum en ekki að þau vandræði væru svo mikil og alvarleg að leitt gætu til gjaldþrotaskipta.

II.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi átt kröfu á hendur stefnanda að fjárhæð 5.300.000 kr. Stefnandi, sem hafi stefnt í gjaldþrot, hafi selt rekstur sinn til tengds aðila og kaupverð rekstrarins hafi að hluta verið nýtt til uppgjörs á kröfum stefnanda á hendur stefnda eftir frestdag. Niðurstaðan hafi verið sú að þegar stefnandi var úrskurðaður gjaldþrota hafi andvirði eigna hans verið nýtt til uppgjörs á kröfu stefnda á hendur stefnanda en ekki nýst til greiðslu til annarra kröfuhafa. Að mati stefnanda fær þetta ekki staðist meginreglur skiptaréttar og einstök ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og leiðir til þess að ráðstafanirnar teljast riftanlegar.

Stefnandi byggir á því að leitt hafi verið í ljós með upplýsingum frá fyrrverandi fyrirsvarsmanni stefnanda og fyrirliggjandi afriti skuldabréfs að stefndi hafi átt kröfu á hendur stefnanda alls að fjárhæð 5.300.000 kr. áður en rekstur stefnanda var seldur. Það liggi jafnframt fyrir samkvæmt skýrslutöku af fyrrverandi fyrirsvarsmanni stefnanda að rekstur stefnanda hafi verið seldur til Álfsins sportbars ehf. um 17. mars 2017.

Að mati stefnanda er jafnframt ljóst að andvirði hins selda rekstrar hafi verið nýtt af hálfu Álfsins sportbars ehf. og stefnanda, með vitund og vilja stefnda, til uppgjörs á skuldbindingum stefnanda við stefnda. Það liggi raunar fyrir með samþykki stefnda á skilmálabreytingunni að umræddar skuldbindingar stefnanda hafi verið yfirteknar af Álfinum sportbar ehf. samliða því sem Álfurinn sportbar ehf. hafi tekið við rekstri stefnanda. Það leiði beint af meginreglum kröfuréttar að skuldaraskipti að kröfu feli í sér uppgjör hennar gegn fyrri skuldara og teljist krafan á hendur fyrri skuldara því greidd.

Stefndi hafi ekki fært fram neinar skýringar á því hvers vegna Álfurinn sportbar ehf. hafi yfirtekið skuldbindingar stefnanda gangvart stefnda aðrar en að þær væru hluti af greiðslu kaupverðs fyrir rekstur stefnanda. Stefndi hafi haldið því fram að þar sem engar greiðslur hafi farið beint frá stefnanda til stefnda geti ekki verið um riftanlega gerninga að ræða í málinu. Að mati stefnanda verður hins vegar að líta til þess að yfirtaka Álfsins sportbars ehf. sem skuldara að skuldbindingum stefnanda við stefnda hafi falið í sér greiðslu fyrir eignir stefnanda. Hæstiréttur hafi staðfest að slíkar greiðslur beint frá þriðja aðila til kröfuhafa þrotabús geti falið í sér greiðslu á kröfum á hendur þrotamanni og að slíkar greiðslur geti talist riftanlegar að öðrum skilyrðum gjaldþrotalaga uppfylltum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 325/1998.

Í ljósi þess að Álfurinn sportbar ehf. og Búálfurinn sportbar ehf. hafi verið nátengdir aðilar þegar atburðirnir í fyrirliggjandi máli áttu sér stað megi að fullu jafna þeim til þess ef stefndi hefði lánað Álfinum sportbar ehf. 5.300.000 kr. í reiðufé, Álfurinn sportbar ehf. síðan nýtt fjármunina til að greiða kaupverð fyrir rekstur stefnanda og stefnandi að svo búnu greitt beint skuldir sínar við stefnda að fjárhæð 5.300.000 kr. með kaupverðinu sem fékkst frá Álfinum sportbar ehf.

Þegar leitt hafi verið í ljós að athafnirnar feli sannanlega í sér greiðslu á skuldbindingu stefnanda við stefnda komi til skoðunar hvort greiðslan falli undir greiðslur sem teljast riftanlegar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefnandi telur að greiðslan sem fólst í skilmálabreytingu og skuldskeytingu skuldabréfsins 6. apríl 2017 sé riftanleg í fyrsta lagi á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslan hafi farið fram eftir frestdag og stefnda mátt vera ljóst eða haft a.m.k. fullt tilefni til að kanna hvort fram væri komin beiðni um gjaldþrotaskipti Búálfsins sportbars ehf. Stefnandi telur að stefnda hljóti að hafa mátt vera ljóst á þeim tíma sem skilmálabreyting skuldabréfsins var undirrituð, þ.e. 6. apríl 2017, að stefnandi ætti í verulegum fjárhagsvandræðum enda hafi þá, samkvæmt upplýsingum frá stefnda, hið umrædda skuldabréf verið gefið út skömmu áður af Búálfinum sportbar ehf. til að freista þess að koma miklum vanskilum félagsins á leigugreiðslum í fastari skorður. Enn fyrr hafi verið gengið að tryggingafé sem lagt hafi verið fram af Búálfinum sportbar ehf., samkvæmt upplýsingum frá stefnda, til greiðslu vanskila. Þá hafi samkvæmt upplýsingaveitu CreditInfo verið lýst árangurslausu fjárnámi hjá Búálfinum sportbar ehf. tvisvar sinnum á árinu 2016. Samkvæmt því hafi verið fullt tilefni til þess að stefndi aflaði sér upplýsinga um það áður en gengið var frá skilmálabreytingu skuldabréfsins sem að framan er rakið, hvort fram væri komin beiðni um gjaldþrotaskipti Búálfsins sportbars ehf.

Að mati stefnanda verður að gera þá kröfu til fagaðila eins og stefnda að gæta sérstakrar varkárni við beina þátttöku í flutningi réttinda og skyldna frá einu félagi til annars í eigu og undir stjórn sömu aðila, sérstaklega þegar fyrrnefnda félagið hefur átt í fjárhagsvandræðum. Það sé með öllu óásættanlegt að mati stefnanda, og þeirra sem lýst hafa kröfum í búið, að félag eins og stefndi, sem sé hluti samstæðu sem hafi hlutabréf skráð á aðalmarkaði kauphallar Íslands – Nasdaq Iceland, og eitt stærsta fasteignafélag á landinu sem að auki sé að verulegum hluta í eigu lífeyrissjóða og þar með stórs hluta allra landsmanna, eigi beinan þátt í kennitöluflakki á borð við það sem hér hafi verið lýst.

Krafan hefði ekki fengist greidd við gjaldþrotaskipti nema að litlu leyti og stefndi hafi engar aðrar réttlætingarástæður fært fram sem réttlætt geti greiðsluna.

Verði ekki fallist á riftun greiðslunnar á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., telur stefnandi að greiðslan sé riftanleg á grundvelli 134. gr. sömu laga enda hafi greiðslan farið fram innan þess frests sem þar sé tilgreindur og auk þess geti greiðsla kröfu með yfirtöku þriðja aðila á greiðsluskyldu kröfunnar ekki talist venjulegur greiðslueyrir. Hæstiréttur hafi þannig ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að greiðsla skuldar með afhendingu skuldabréfs geti ekki talist venjulegur greiðslueyrir.

Að lokum telur stefnandi, verði ekki fallist á riftun greiðslunnar á framangreindum grundvelli, að um sé að ræða greiðslu sem sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslan og framkvæmd hennar hafi verið stefnda til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt þannig að stefndi eignaðist kröfu á hendur nýjum lögaðila í stað þess að eiga kröfu á félag sem stefndi í gjaldþrot á meðan aðrir kröfuhafar nutu ekki sömu meðferðar svo sem rakið hefur verið. Þau meginsjónarmið sem búi að baki öllum riftunarreglum sem raktar eru í XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og meginreglan um jöfn réttindi og jafna meðferð allra kröfuhafa, sem eigi kröfu í sama flokki, styðji enn fremur riftunarkröfu stefnanda í málinu.

Að mati stefnanda lýsa framangreindar athafnir og skil á milli Búálfsins sportbars ehf. og Álfsins sportbars ehf. mjög vel því sem hafi í daglegu tali verið kallað „kennitöluflakk“. Rekstur eins félags sé fluttur til annars félags og einungis þær kröfur sem eru hinum nýja rekstri algjörlega nauðsynlegar, t.d. frá leigusala og aðalbirgja, greiddar eða yfirteknar af hinu nýja félagi. Aðrir kröfuhafar, til dæmis tollstjóri, fyrir hönd hins opinbera, og lífeyrissjóðir vegna vanskila á iðgjöldum, fái hins vegar nánast ekkert upp í sínar kröfur. Miðað við þær upplýsingar sem skiptastjóri hafi undir höndum þá megi taka skuldastöðu Búálfsins sportbars ehf. annars vegar fyrir sölu rekstrarins og hins vegar eftir hana, saman á eftirfarandi hátt:

 

Þannig virðist ljóst að tveir af stærstu kröfuhöfunum hafi verið teknir út fyrir sviga, ef svo megi að orði komast, og þeir fái nánast allt andvirði hins keypta rekstrar, ef frá er talinn sá hluti launa marsmánaðar 2017 sem hafi verið áunninn en ógreiddur og yfirtekinn af Álfinum sportbar ehf. og 500.000 kr. sem greiddar hafi verið af þrotabúinu sem endurgjald fyrir innanstokksmuni á veitingastaðnum. Stefnandi hafi við þetta tímamark verið ógjaldfær og sú staðreynd ekki getað dulist stefnda. Allt framangreint telur stefnandi sýna svo ekki verði um villst að ráðstöfunin hafi falið í sér brot á jafnræði kröfuhafa og þannig verið ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Aðalkrafa um greiðslu 5.300.000 kr. byggist í fyrsta lagi á ákvæði 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hvað varðar riftun greiðslnanna með vísan til 139. eða 141. gr. sömu laga. Samkvæmt 3. mgr. 142. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum ef riftun fer fram samkvæmt 139. eða 141. gr. Almennar og fullnægjandi bætur geti í þessu sambandi ekki talist annað en endurgreiðsla þeirrar fjárhæðar sem móttekin var auk dráttarvaxta í samræmi við dómkröfur.

Krafa um greiðslu 5.300.000 kr. byggist í öðru lagi á ákvæði 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hún feli í sér að þegar sýnt hafi verið fram á að greiðsla sé riftanleg á grundvelli 134. gr. sömu laga skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamannsins hafi orðið honum að notum. Í ljósi þess að krafa stefnda á hendur stefnanda að heildarfjárhæð 5.300.000 kr. teljist að fullu greidd, samkvæmt því sem að framan er rakið, telur stefnandi að öll fjárhæð kröfunnar hafi nýst stefnda. Stefndi beri í öllu falli sönnunarbyrði fyrir því að greiðslan hafi ekki nýst honum að öllu leyti.

Stefnandi bendir á að stefndi hafi haldið því fram að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna þeirra aðgerða sem lýst hafi verið í stefnu þessari og því sé ekki grundvöllur fyrir riftun greiðslunnar. Þessu mótmælir stefnandi. Stefnandi telur ljóst að þar sem greiðsla kaupverðs fyrir rekstur stefnanda hafi runnið beint til stefnda í stað þess að renna til stefnanda og með hliðsjón af því að virði kröfu stefnda á hendur stefnanda hafi verið við uppgjör hennar lægra en sem nam nafnverði höfuðstóls, þar sem félagið hafi verið ógjaldfært, hafi félagið orðið fyrir tjóni með greiðslu allrar kröfunnar. Þessu megi jafnframt snúa við með því að líta til þess hvort athafnirnar hafi ekki orðið stefnda til hagsbóta en stefnandi telur sig hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti enda hafi stefndi fengið kröfu sína á hendur stefnanda greidda að fullu en hefði, án aðgerðanna, einungis fengið kröfuna greidda að litlu leyti. Hagnaður stefnda af þessu sé jafnframt tap annarra kröfuhafa enda fái þeir að óbreyttu lægri fjárhæð greidda upp í sínar kröfur á hendur stefnanda sem nemur aukningu þeirri sem stefndi hefur fengið. Riftun greiðslnanna sem hér um ræðir og endurgreiðsla höfuðstólsins veiti stefnda heimild til að lýsa kröfu í bú stefnanda vegna krafna hverrar greiðslu sem hefur verið rift. Þetta leiði til þess að staða stefnda verði þá eins og hinir riftanlegu gjörningar sem hefðu aldrei farið fram og sé í fullu samræmi við allt inntak XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur stefnandi að greiðslan sem fólst í skilmálabreytingunni 6. apríl 2017 á skuldabréfinu, sem var útgefið 2. febrúar 2017, sé riftanleg ráðstöfun og hafi verið lýst yfir riftun hennar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skiptaréttar um jafna meðferð kröfuhafa auk þess sem sérstaklega sé byggt á 134., 139. og 141. gr., sbr. 142. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.

Krafa um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. 

Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. 

III.

            Stefndi mótmælir því að í skuldskeytingu hafi falist greiðsla. Stefndi byggir á því að í íslenskum kröfurétti hafi ætíð verið litið svo á að við skuldaraskipti eða skuldskeytingu í kröfuréttarsambandi þá eigi sér stað framsal eða yfirfærsla á rétti, en ekki stofnun nýs skuldarasambands með uppgreiðslu þess fyrra. Þetta gerist með þeim hætti að kröfuhafi samþykki að nýr skuldari taki við skyldum skuldarasambands og þá falli skyldur upprunalegs skuldara niður, ekki að þær séu greiddar upp. Stefndi hafi enga greiðslu fengið og engin verðmæti skipt um hendur við skuldskeytingu 6. apríl 2017, heldur hafi í henni falist yfirfærsla skyldna um endurgreiðslu frá þrotamanni til Álfsins sportbars ehf. og niðurfelling réttinda stefnda gagnvart stefnanda. Með engu móti sé hægt að halda því fram að með þessari aðgerð hafi krafa stefnda á hendur stefnanda verið greidd að fullu með yfirtöku. Þessi skoðun stefnanda fái hvorki stuðning í réttarframkvæmd, fræðum, lagaákvæðum eða efni málsins. Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að það leiði beint af meginreglum kröfuréttar að skuldaraskipti að kröfu feli í sér uppgjör hennar gegn fyrri skuldara og að krafan á hendur fyrri skuldara teljist því greidd. Stefndi kveður að samkvæmt reglum kröfuréttarins sé krafa ekki talin efnd og tilvist hennar þar með lokið fyrr en innt hafi verið af hendi það verðmæti sem kröfuhafi eigi rétt á samkvæmt efni skuldarasambandsins, sem óumdeilanlega hafi ekki verið gert í þessu máli. Þá telur stefndi að atvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 325/1998 séu með öllu frábrugðin þessu máli og geti sá dómur ekki haft nein áhrif á úrlausn málsins.

Þá byggir stefndi á því að það felist í yfirheiti XX. kafla laga nr. 21/1991, um riftun ráðstafana þrotamanns o.fl., að þrotamaður þurfi sjálfur að hafa gripið til greiðslna eða ráðstafana. Riftunarreglur skiptaréttar hafi annars það að markmiði að  með þeim sé skiptastjóra veitt verkfæri til að hnekkja ráðstöfunum sem þrotamaður hefur framkvæmt skömmu fyrir töku bús hans til gjaldþrotaskipta og koma þannig í veg fyrir mismunum kröfuhafa og draga frekari eignir undir skiptin. Eitt almennra skilyrða riftunar sem þurfi að vera fyrir hendi svo að riftun geti náð fram að ganga sé að riftun leiði til þess að möguleiki kröfuhafa til fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. M.ö.o. að skilyrði riftunar sé að hin riftanlega ráðstöfun hafi orðið þrotabúi til tjóns, að eignir eða verðmæti renni aftur í búið, eða fjárhæð lýstra krafna lækki. Grundvallarskilyrði riftunar sé því ekki fyrir hendi í málinu.

Vilji svo ólíklega til að komist verði að þeirri niðurstöðu að í skuldskeytingunni hafi falist greiðsla skuldar, án fjármunafærslu, sé ekki hægt að líta öðruvísi á en að Álfurinn sportbar ehf. hafi innt þá greiðslu af hendi, ekki þrotamaður. Engin heimild skiptaréttarins heimili riftun á greiðslu þriðja manns sem hafi verið til hagsbóta fyrir þrotamann. Utan þess að stefnandi myndi auðgast verulega, næði riftun fram að ganga á kostnað stefnda sem hafi enga auðgun hlotið.

Stefndi telur að öll framangreind sjónarmið eigi við um beitingu á 141. gr. laga nr. 21/1991. Við mat á beitingu reglunnar þurfi að horfa til tengsla hennar við endurkröfuregluna í 3. mgr. 142. gr. laganna þar sem segi að sá sem hafi hag af riftanlegri ráðstöfun  skuli „… greiða bætur eftir almennum reglum.“ Þannig sé skilyrði um ótilhlýðileika að háttsemin sem þar falli undir sé skaðabótaskyld, sem eigi ekki við hér og því ekki ótilhlýðilegt í skilningi ákvæðisins heldur ívilnandi. Þannig verði að telja að nánast sé ógerlegt að finna þann rökstuðning að skuldskeytingin geti fallið undir almenna riftunarheimild 141. gr. laganna.

Stefndi telur að af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að athugasemdir hans snúi að því hvernig kaupsamningi og greiðslu kaupverðs hafi verið háttað milli þrotabúsins og Álfsins sportbars ehf., að Álfurinn sportbar ehf. hafi greitt kaupverð með óvenjulegum eða óeðlilegum hætti, þ.e. með yfirtöku skuldbindinga. Þá sé nærtækast að beina riftunaraðgerðum að aðilum þess samnings, það er Álfinum sportbar ehf. Stefndi þessa máls hafi ekkert komið að þeim viðskiptum og geti enga ábyrgð borið á því að þessir aðilar hafi ákveðið sín á milli að nota kröfuréttindi stefnanda sem fjárverðmæti í viðskiptum sín á milli.

Að framangreindu virtu telur stefndi að verulega skorti á að riftunarkrafa stefnanda uppfylli almenn skilyrði laga nr. 21/1991 um riftanleika ráðstafana og þá þegar beri að sýkna hann. 

Stefndi segir enn fremur að inntak endurgreiðslureglna gjaldþrotaréttar sé að sá sem þola þurfi riftun verði að endurgreiða þrotabúi fé sem svari til þeirra verðmæta sem hann fékk og hafi komið honum að notum en ekki meira. Endurgreiðslureglurnar snúi þannig að endurgreiðslu auðgunar móttakanda hinnar riftanlegu ráðstöfunar. Endurgreiðslukrafa stefnanda sé byggð á 142. gr. laganna. Í henni segi að sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð skuli greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Í framangreindu felist þrennt. Í fyrsta lagi að sá sem riftun beinist gegn þurfi að hafa haft hag af þeirri ráðstöfun sem sætir riftun. Í öðru lagi að einungis verði krafið um fé sem greiðsla hafi orðið riftunarþola að notum og í þriðja lagi að ekki sé hægt að krefjast hærri fjárhæðar en sem nemi tjóni þrotabús. Ljóst megi vera að stefndi hafi engan hag haft af skuldskeytingunni þar sem hann hafi enga greiðslu fengið vegna hennar. Stefndi hafi með öðrum orðum verið eins settur fyrir hana og eftir.

Stefnufjárhæðin, 5.300.000 kr. auk dráttarvaxta, sé ekki sú fjárhæð sem þrotamaður hafi innt af hendi né hafi stefndi fengið þá fjárhæð greidda. Engin greiðsla að fjárhæð 5.300.000 kr. hafi þannig komið stefnda að notum líkt og endurgreiðsluákvæðið bjóði að sé skilyrði endurgreiðsluskyldu. Í þessu þriðja atriði felist sanngirnissjónarmið sem byggist á því að þrotamaður eigi ekki að geta auðgast á kostnað riftunarþola og þannig sé einungis heimilt að krefjast endurgreiðslu á rauntjóni þrotabús. Næði riftun fram að ganga myndi stefnandi auðgast á kostnað stefnda þrátt fyrir að ekkert tjón hafi orðið.

Að framangreindu virtu og ef svo ólíklega vildi til að skuldskeytingin sætti riftun þá séu ekki skilyrði til þess að dæma stefnda til að greiða neina fjárhæð þar sem skilyrði slíkrar endurgreiðslu séu ekki til staðar.

Stefndi mótmælir framsetningu stefnanda á þeim verðmætum sem hann telur hafi verið til staðar og seld. Án leigusamnings til veitingareksturs verði að telja eignir þrotabúsins með öllu verðlausar utan lausafjárverðmætis.

Að öllu framangreindu virtu telur stefndi að óumdeilt sé að hann beri að sýkna með öllu af aðalkröfum stefnanda hvort sem er bæði vegna kröfu um riftun og endurgreiðslu eða einungis vegna kröfu um endurgreiðslu.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., aðallega 139. gr., 134. gr., 141. gr. og 142 gr. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, aðallega 25. gr. Einnig er vísað til meginreglna kröfu og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá er vísað til meginreglna eignaréttar og í því samhengi 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga, sbr. 130. gr., um meðferð einkamála nr. 91/1991.

IV.

            Í máli þessu krefst stefnandi, þrotabú Búálfsins sportbars ehf., þess að rift verði greiðslu til stefnda að fjárhæð 5.300.000 krónur sem hafi falist í skuldskeytingu skuldabréfs. Einnig er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda þessa fjárhæð.

Um er að ræða skuldabréf, dags. 2. febrúar 2017, útgefið af Búálfinum sportbar ehf. til stefnda. Með skuldskeytingu 6. apríl 2017 samþykkt stefndi að beiðni Búálfsins sportbars ehf. að Álfurinn sportbar ehf. yrði nýr skuldari að skuldabréfinu og að samhliða féllu niður allar skuldbindingar Búálfsins sportbars ehf. vegna skuldabréfsins. Á þessum tíma lá fyrir að Búálfurinn sportbar ehf. hafði ekki staðið í skilum við stefnda með leigugreiðslur og hafði félagið hætt rekstri í mars 2017. Var þannig ljóst að félagið var ógjaldfært og hafði Álfurinn sportbar ehf. tekið við rekstrinum en ekki var gerður skriflegur samningur þar um. Eigendur Álfsins sportbars ehf. voru einnig eigendur Búálfsins sportbars ehf. Verður ekki annað séð en að kaupverðið á rekstri Búálfsins sportbars ehf. hafi í raun m.a. falist í yfirtöku Álfsins sportbars ehf. á skuldum Búálfsins sportbars ehf. við stefnda. Greiðslan fór fram eftir frestdag 14. febrúar 2017 og er þannig riftanleg, sbr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðslan er jafnframt riftanleg samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laganna þar sem hún fór fram með óvenjulegum greiðslueyri, en stefndi hefur ekki sýnt fram á að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með ráðstöfuninni eignaðist stefndi kröfu á nýjan aðila í stað þess að eiga kröfu á félag sem var ógjaldfært og leiddi ráðstöfunin til mismununar á milli kröfuhafa.

            Með vísan til alls framangreinds er fallist á kröfu stefnanda um riftun, eins og nánar greinir í dómsorði. Stefnandi gerir kröfu um að stefndi greiði honum 5.300.000 krónur en ekki verður séð að sú fjárhæð hafi í raun komið stefnda að notum. Eins og atvikum er háttað er endurgreiðslukröfu stefnanda á grundvelli 142. gr. laganna hafnað.

            Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem er hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

            Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. Dómsuppsaga hefur dregist en gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.    

 

D ó m s o r ð:

Rift er ráðstöfun á skuld Búálfsins sportbars ehf. við stefnda, Regin atvinnuhúsnæði ehf., sem fór fram með yfirtöku Álfsins sportbars ehf., kt. 000000-0000, sem skuldara samkvæmt skuldabréfi gagnvart stefnda, með undirritun skilmálabreytingar og skuldskeytingar þann 6. apríl 2017, sem stefnandi var áður skuldari að, upphaflega útgefnu þann 2. febrúar 2017, með höfuðstólsfjárhæð 5.300.000 krónur.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Búálfsins sportbars ehf., 500.000 krónur í málskostnað.

 

Sandra Baldvinsdóttir